• Heimsóknir

  • 119.010 hits
 • janúar 2015
  S M F V F F S
   123
  45678910
  11121314151617
  18192021222324
  25262728293031
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Er hagvöxtur góður mælikvarði á velgengni þjóðar?

Styrjaldir auka hagvöxt. (Mynd: Johannes Jansson/ Norden.org)

Styrjaldir auka hagvöxt. (Mynd: Johannes Jansson/ Norden.org)

Hagvöxtur er alls ekkert náttúrulögmál á borð við þyngdarlögmálið eða snúning jarðar. Þvert á móti er hagvöxtur ekkert annað en manngert mælitæki til að sýna hversu mikið landsframleiðslan hefur aukist frá árinu áður. Það þýðir hins vegar ekki að hagvöxtur sé góður mælikvarði á velgengni þjóðar, eins og sumir virðast þó halda.

Og hvað er þá landsframleiðsla? Jú, landsframleiðsla, eða öllu heldur „verg landsframleiðsla“ eins og fyrirbærið heitir á íslensku stofnanamáli, er samanlagt söluverð allrar vöru og allrar þjónustu sem framleidd er í landinu á ákveðnu tímabili, og þá er oftast talað um eitt ár. Stundum er skammstöfunin VLF notuð fyrir „verga landsframleiðslu“, en hér ætla ég að leyfa mér að nota frekar skammstöfunina GDP, þó að hún sé reyndar enskusletta (Gross Domestic Product).

Upphaflega var GDP-stuðullinn þróaður fyrir um það bil 70 árum til að gefa vísbendingu um efnahagslegar framfarir. Þá stóð aldrei til að þessi mælikvarði yrði notaður til annars, en engu að síður er hann býsna almennt notaður til að meta og bera saman velgengni þjóða.

Helsti gallinn á landsframleiðslustuðlinum GDP sem „velgengnismæli“ er annars vegar sá að inn í hann reiknast allar tekjur, óháð því hvernig þær hafa orðið til – og hins vegar sá að inn í hann reiknast engin önnur verðmæti en þau sem ganga kaupum og sölum. Þegar rýnt er nánar í þetta sést að GDP dugar skammt til að segja fyrir um efnahagslega hagsæld, hvað þá aðra sæld. Til að útskýra þetta má notast við einfalt dæmi úr heimilisbókhaldinu:

Hugsum okkur að ég þurfi 5 milljónir á ári til framfærslu. Ef ráðstöfunartekjurnar mínar eru ekki nema 4 milljónir á ári, þá þarf ekki flókna útreikninga til að sjá að endar ná ekki saman. Þar vantar milljónkall á ári uppá. Setjum nú svo að ég eigi 5 milljónir í banka, sem ég erfði til dæmis eftir ömmu mína. Með því að taka eina milljón úr þessum sjóði árlega er ég búinn að loka þessu persónulega fjárlagagati mínu. En þessi aðferð dugar mér bara í 5 ár að óbreyttu, því að eftir 5 ár verð ég búinn að eyða öllum arfinum frá ömmu.

Ég er enginn atvinnumaður í bókhaldi, en mér myndi samt aldrei detta í hug að telja milljónina frá ömmu til tekna. Árstekjurnar eru eftir sem áður bara 4 milljónir. Aukamilljónin frá ömmu eru ekki tekjur, heldur lækkun á eignum. GDP-ið fyrir heimilið, ef hægt væri að reikna svoleiðis, væri samt sem áður 5 milljónir á ári, því að þar teljast öll verðmætin með. Í GDP-inu felst með öðrum orðum engin áminning um að arfurinn, eða auðlindin sem ég hef byggt hluta af velferð minni á, sé um það bil að ganga til þurrðar.

Auðvitað felur þetta dæmi um mig og ömmu í sér mikla einföldun, en þjóð sem byggir afkomu sína að verulegu leyti á nýtingu auðlinda sem ekki endurnýja sig er samt í býsna svipaðri stöðu. GDP helst hátt á meðan auðlindinni er eytt, en dettur svo niður fyrirvaralaust þegar auðlindin gengur til þurrðar.

Páskaeyja er oft nefnd sem dæmi um það sem gerist þegar maður lifir hátt á arðinum frá ömmu eða með öðrum orðum þegar þjóð byggir afkomu sína að verulegu leyti á nýtingu óendurnýjanlegra auðlinda. Páskaeyja var numin af Pólýnesum fyrir um það bil 2.500 árum. Á öldunum þar á eftir byggðist þar upp merkileg menning og mikil velsæld sem byggðist á afurðum pálmatrjáa og annars hitabeltisgróðurs sem þar var gnótt af. Í byrjun 17. aldar er talið að þarna hafi 10-15 þúsund manns lifað í vellystingum praktuglega á þess tíma mælikvarða. Þegar hollenskir landkönnuðir komu fyrst til eyjarinnar á páskadag 1722 voru þar hins vegar ekki eftir nema um 2.000 íbúar, sem bjuggu við frumstæð skilyrði á gróðurlitlu skeri. Þarna hafði velsældin verið byggð á einni óendurnýjanlegri auðlind, og þó að einhver hefði verið búinn að finna GDP upp, hefði það ekki hjálpað til að vara við hruninu sem varð þarna í lok 17. aldar eða í byrjun þeirrar átjándu.

Niðurstaðan er þessi: GDP er ekki nothæfur mælikvarði á raunverulega velsæld þjóðar, enda stóð það aldrei til, ekki frekar en það stóð til að hægt væri að fljúga farþegaþotu eftir hraðamælinum einum saman. Til að bregðast við þessum takmörkunum þessa annars nytsama tækis, hafa menn keppst við að þróa aðra mælikvarða sem gefa betri mynd af stöðu og horfum. Einn þessara mælikvarða er svonefndur Framfarastuðull eða GPI (Genuine Progress Indicator), svo ég sletti nú aðeins meiri ensku. GPI hefur það að markmiði að leiðrétta GDP, annars vegar með því að draga frá þær tekjur sem byggjast á skerðingu náttúrulegra og samfélagslegra auðlinda – og hins vegar með því að bæta við þáttum sem auka velferð þó að þeir gangi ekki kaupum og sölum. Í þessum útreikningum eru t.d. tekjur vegna slysa og glæpa dregnar frá, en slysum og glæpum fylgja ýmis umsvif sem hækka landsframleiðsluna, til dæmis vegna björgunaraðgerða, endurbyggingar, kostnaðarsamra fyrirbyggjandi aðgerða o.s.frv. Af öðrum þáttum sem koma til frádráttar þegar GPI er reiknaður má nefna tekjur vegna mengunar og eyðingar náttúruauðlinda, svo sem jarðvegs, fiskistofna eða pálmatrjáa. Hins vegar koma ólaunuð heimilisstörf og sjálfboðavinna til hækkunar í þessum útreikningum, svo eitthvað sé nefnt.

Í upphafi þessa pistils var talað um hagvöxt, og eins og þar kom fram er hagvöxtur ekkert annað en mælikvarði á það hversu mikið landsframleiðslan hefur aukist frá árinu áður. Þess vegna hefur hagvöxtur nákvæmlega sömu takmarkanir og GDP sem mælikvarði á velgengni þjóða. Auðvelt er að halda hagvextinum uppi meðan stórslysum og glæpum fjölgar ár frá ári og meðan hratt er gengið á náttúruauðlindir. En þegar allt kemur til alls er Jörðin bara eyja, rétt eins og Páskaeyja, nema vissulega miklu stærri. Hagvöxtur sem byggir á eyðingu náttúruauðlinda getur ekki gengið endalaust, hvorki á eyjunni Jörð né á nokkurri annarri eyju.

Ef við lítum á þetta í íslensku samhengi, þá er ljóst að við getum ekki til lengdar stýrt þjóðarskútunni eftir hagvaxtarmælinum eingöngu. Við erum líka sem betur fer byrjuð að skoða önnur tæki í mælaborðinu. Þannig fól Alþingi forsætisráðherra fyrir tæpum þremur árum að vinna að því að framfarastuðull (GPI) fyrir Ísland verði reiknaður og birtur samhliða vergri landsframleiðslu (GDP). Þetta er svo sannarlega skref í rétta átt – og nú bíður maður bara spenntur eftir fyrstu niðurstöðum. Skyldum við vera á grænni grein, eða erum við kannski að endurtaka mistökin sem íbúar Páskaeyju gerðu á meðan allt lék þar í lyndi?

(Þessi pistill er að mestu leyti samhljóða útvarpspistli sem fluttur var í þættinum Sjónmál á Rás 1 12. júní 2013. Pistillinn hefur hins vegar ekki birst í skrifaðri útgáfu áður).

Plast er ekki bara plast

Plast 7Plast er til margra hluta nytsamlegt, enda kemur það með einum eða öðrum hætti við sögu í flestum athöfnum okkar nú til dags. En þannig hefur það ekki alltaf verið. Það var ekki fyrr en um miðja 20. öld sem farið var að fjöldaframleiða hluti úr plasti í einhverjum mæli. Núna er ársframleiðslan í heiminum hins vegar nálægt 300 milljónum tonna á ári – og sú talar hækkar að jafnaði um 4% milli ára. Með sama áframhaldi verður 400 milljón tonna markinu náð eftir 5-6 ár, þ.e.a.s árið 2020 eða þar um bil.

Plastið sem við sjáum mest af í daglegu lífi er auðkennt með tölum frá einum upp í sjö innan í þar til gerðum þríhyrningum sem prentaðir eru á plastið – og eru missýnilegir eftir því hversu sjónin er góð. Lítum nú nánar á þessa flokkun.

Plast sem auðkennt er með tölunni 1 er svokallað PET-plast eða pólýetýlen terephthalat. Það er m.a. notað í gosflöskur og hentar vel til endurvinnslu.

Plastflokkur númer 2 er pólýetýlen nánar tiltekið svokallað High Density pólýetýlen eða HDPE. Þetta er eitt algengasta og mest notaða plastefnið og er meðal annars að finna í umbúðum fyrir snyrtivörur og sitthvað fleira. Það hentar líka vel til endurvinnslu.

Plast númer 3 er svokallað PVC-plast eða pólývínýlklóríð, já eða bara vínyll. Það er notað í margs konar vörur, t.d. leikföng, regnföt, stígvél, sturtuhengi, vaxdúka, frárennslisrör (þessi appelsínugulu), rafmagnskapla og sitthvað fleira. Þessu plasti á að skila í endurvinnslu að notkun lokinni eins og öllu öðru plasti með númer frá 1 upp í 6. En PVC-plasti fylgja reyndar ýmis umhverfisvandamál sem plast númer 1 og 2 er laust við. Fyrir því eru aðallega tvær ástæður: Annars vegar inniheldur PVC-plast klór eins og nafni pólývínýlklóríð bendir til. Framleiðsla á PVC-plasti hefur meðal annars þess vegna í för með sér meiri mengun en mörg önnur plastframleiðsla og þegar PVC-plast brennur getur myndast díoxín. Meðal annars þess vegna ætti aldrei að kasta PVC-plasti á eld, né heldur að anda að sér reyk frá bruna þar sem PVC á í hlut. Hin ástæðan sem hér verður nefnd er að í PVC-plast er oft bætt hjálparefnum til að gefa plastinu þá eiginleika sem sóst er eftir hverju sinni, þannig að það verði til dæmis hæfilega hart, mjúkt eða sveigjanlegt. Þalöt eru dæmi um mýkingarefni sem oft er blandað í PVC-plast, en nokkrar gerðir þalata eru taldar raska hormónastarfsemi líkamans, auk þess sem þær geta stuðlað að ýmsum öðrum heilsuvandamálum. Af þessum sökum hefur Evrópusambandið sett reglur sem banna notkun tiltekinna þalata í leikföng, og enn strangari reglur gilda um leikföng sem gert er ráð fyrir að börn setji í munninn, þar með talda naghringi og annað slíkt. Auðvitað bragða börn stundum líka á hlutum án þess að Evrópusambandið hafi leyft þeim það, þar á meðal hlutum úr PVC-plasti, svo sem regnkápum, pennaveskjum eða þrykktum myndum á barnafötum. Þessir hlutir mega innihalda þalöt eins og reglurnar eru í dag. Líkurnar á því að börn stingi PVC-plasti upp í sig eru jafnvel meiri en fyrir annað plast, því að PVC-plasti fylgir oft forvitnilegt lykt, það er að segja það sem stundum er kallað „plastlykt“. En hér er ég reyndar kominn út á hálan ís, því að ég hef hvergi séð neinar rannsóknir á matarlyst barna á plasti. Hvað sem því líður ættu foreldrar að taka gamla naghringi og því um líkt úr umferð. Nýjar vörur af þessu tagi ættu að vera lausar við hættulegustu þalötin.

Plast númer 4 er enn ein gerðin af pólýetýlen, eða nánar tiltekið Low Density pólýetýlen eða LDPE. Þetta er eitt algengasta plastefnið, sem er m.a. að notað í alls konar plastpoka, þar á meðal innkaupapoka. Þetta efni hentar vel til endurvinnslu.

Plast númer 5 er svo pólýprópýlen eða PP. Það er algengt í umbúðum fyrir matvörur, svo sem í skyrdollum og tómatsósuflöskum – og sömuleiðis í nestisboxum og víðar, að ógleymdum frárennslisrörum (þessum gráu). Polýprópýlen hentar vel til endurvinnslu.

Plast númer 6 er pólýstýren eða PS. Það er m.a. að finna í ýmsum matarílátum, þar á meðal í frauðplastbökkum. Þessu plasti á líka að skila í endurvinnslu, en hún er þó ekki eins auðveld og þegar pólýetýlen og pólýprópýlen eiga í hlut.

Þá er bara sjöundi flokkurinn eftir. Hann er safnflokkur sem nær yfir ýmislegt annað plast, þar á meðal svokallað ABS-plast sem er notað í LEGO-kubba, pólýkarbónatplast sem hefur m.a. verið notað í mjúkar drykkjarflöskur – og líka amínóplast, þ.e.a.s. ef það er á annað borð merkt. Á Íslandi er ekki tekið við flokki númer 7 í endurvinnslu eftir því sem ég best veit, enda er flokkurinn sundurleitur og því dugar engin ein endurvinnsluaðferð á hann. Amínóplastið getur verið varasamt, sérstaklega ef það er tekið að eldast. Úr því geta melamín og formaldehýð nefnilega hugsanlega lekið í matvæli sem eru geymd í plastinu, sérstaklega ef hitastigið fer yfir 70 gráður, t.d. í örbylgjuofninum. Nýtt amínóplast ætti hins vegar að vera nokkuð öruggt, því að nýverið voru settar strangari reglur um þennan leka. Pólýkarbónatplastið er heldur ekki algott, því að það inniheldur efnið Bisfenól-A eða BPA, sem talið er geta gert ýmsan óskunda ef það berst inn í líkamann. Þessu hafa þjóðir Evrópusambandins brugðist við með því að banna notkun efnisins í barnasnuð og pela. En það leynist reyndar víðar, svo sem í vatnsbrúsum sem notaðir eru í vatnsvélar (á skrifstofum og víðar), svo og í plasthúð innan á sumum niðursuðudósum.

Til að gera langa sögu stutta er líklega best fyrir heilsuna og umhverfið að velja frekar vörur úr pólýetýleni eða pólýprópýleni heldur en úr öðru plasti, þ.e.a.s. ef maður hefur eitthvert val. Þarna er ég sem sagt að tala um plastflokka 1, 2, 4 og 5. Þetta plast inniheldur alla vega ekki klór og er að mestu laust við heilsuspillandi aukaefni.

Og að lokum þetta: Látið aldrei plast úr hendi sleppa utandyra. Af þeim 300 milljónum tonna af plasti sem eru framleidd árlega telja sumir að allt að 10%, eða um 30 milljón tonn, endi í sjónum. Þar mun allt þetta plast velkjast um aldir, því að plast brotnar seint niður í náttúrunni. Og svo má heldur ekki gleyma því, að í einu kílói af plasti er álíka mikil orka og í einu kílói af olíu, fyrir nú utan það að til að framleiða þetta eina kíló þurfti um það bil tvö kíló af olíu. Ekki hendir maður olíu. Hún er dýr.

(Þessi pistill er í öllum aðalatriðum samhljóða útvarpspistli sem fluttur var í þættinum Sjónmál á Rás 1 29. maí 2013. Pistillinn hefur hins vegar ekki birst í skrifaðri útgáfu áður).

Aldarminning mömmu

Mamma á sínum yngri árum.

Mamma á sínum yngri árum.

Í dag eru liðin 100 ár frá því að mamma (Birgitta Stefánsdóttir eldri) fæddist, en það gerðist vestur á Kleifum í Gilsfirði mánudaginn 4. janúar 1915. Mamma var yngst 10 systkina, en þar af náðu 9 fullorðinsárum.

Heimilið á Kleifum var mannmargt og líklega þokkalega efnað á þess tíma mælikvarða. Þar var alltaf eitthvað um vinnufólk og mamma naut góðs af því í æsku. Anna móðir mömmu hafði nefnilega veikst af sullaveiki og barðist lengi við þann sjúkdóm áður en hann dró hana til dauða árið 1924 þegar mamma var 9 ára. En þarna voru „barnfóstrur“ sem sáu um að yngstu börnin skorti ekki neitt – og leystu það verk með prýði.

Jafnvel þótt Kleifaheimilið hafi verið talið vel efnum búið var ekki mögulegt að kosta allan barnaskarann til náms. Eftir því sem mamma sagði mér þótti Sigurkarl bróðir hennar (f. 1902) sérlega efnilegur og því lögðu foreldrarnir talsvert á sig til að stuðla að menntun hans. Seinna launaði hann greiðann með því að aðstoða yngstu systurnar tvær á mennabrautinni. Þetta varð til þess að mamma fór í Héraðsskólanum á Laugarvatni þar sem hún stundaði nám 1934-1936. Þaðan lá svo leiðin í Kennaraskólann þar sem hún lauk kennararaprófi vorið 1939. Meðan á því námi stóð bjó hún einmitt heima hjá Sigurkarli og fjölskyldu hans að Barónstíg 24 í Reykjavík.

Þá, rétt eins og nú, skipti máli fyrir námsmenn að komast í góða sumarvinnu til að eiga eitthvert skotsilfur fyrir veturinn. Hins vegar voru atvinnutækifærin á millistríðsárunum hvorki fjölbreytt né laus við kynjahalla. Strákarnir fóru í vegavinnu og stelpurnar í kaupavinnu. Mamma var kaupakona í sveit í þrjú sumur. Kaupið var 20 krónur á viku og þótti bara gott, en karlmenn fengu 40 krónur á viku.

Mamma fimmtug. Svona man ég fyrst eftir henni.

Mamma fimmtug. Svona man ég fyrst eftir henni.

Fyrst var mamma kaupakona í Hvítárholti í Hrunamannahreppi sumarið 1935. Skólasystir hennar á Laugarvatni var frá þessum bæ og útvegaði vinnuna. Þarna fannst mömmu best að vera af þessum þremur stöðum, en því miður var ekki hægt að ráða hana aftur sumarið eftir. Þá var hún í Norðtungu í Þverárhlíð ásamt Margréti systur sinni. Þarna fannst mömmu bara í meðallagi gott að vera. Hún sagði mér einu sinni að húsfreyjan í Norðtungu hefði verið ágæt, en hún hefði stundum notað tvenns konar klukkur, nefnilega búklukku á morgnana en símaklukku á kvöldin. Búklukkan var sumarklukka, því að á þessum tíma var klukkunni flýtt á vorin. Símaklukkan var alltaf á vetrartíma, sem kom sér vel fyrir vinnuveitendur síðdegis. Síðast var hún svo á Hárlaugsstöðum í Holtum, líklega sumarið 1938. Þarna sagði mamma að sér hefði svo sem þótt ágætt að vera og þetta var eini staðurinn þar sem borgað var aukalega ef unnið var á næturnar. Það var nefnilega þannig að þegar var góður þurrkur, þá var heyið oft bundið á næturnar. Vikulaunin, þ.e.a.s. 20 krónurnar, miðuðust við 10 tíma vinnu á dag 6 daga vikunnar, og venjulega var ekki um neinar aukagreiðslur að ræða þótt unnið væri á nóttunni.

Sumarið 1939 var mamma ráðskona hjá Ástu systur sinni og Þorkeli mági sínum á Óspakseyri í Bitru og hélt áfram þeim starfa eftir að hafa kennt handavinnu á Húsmæðraskólanum á Laugarvatni veturinn 1939-1940. Á Eyri kynntist hún pabba. Gamla fólkið í sveitinni sagði að Þorkell hefði lokað þau inni í hlöðu þangað til þau voru orðin par. Hvort sem það var nákvæmlega rétt eða ekki entist þetta samband þar til dauðinn aðskildi þau um aldamótin.

Pabbi og mamma fyrir utan húsið í Gröf, líklega sumarið 1977. Mottuna sem þau standa á heklaði mamma úr trollgarni og hafði hana lengi fyrir forstofumottu bakdyramegin.

Pabbi og mamma fyrir utan húsið í Gröf, líklega sumarið 1977. Mottuna sem þau standa á heklaði mamma úr trollgarni og hafði hana lengi fyrir forstofumottu bakdyramegin.

Mamma og pabbi giftu sig vorið 1944 og byrjuðu búskap hjá Sigríði systur pabba og Magnúsi eiginmanni hennar í Hvítarhlíð í Bitru. Vorið 1956 fluttust þau svo að Gröf, sem þau höfðu þá fest kaup á. Pabbi hafði reyndar sjálfur smíðað íbúðarhúsið í Gröf á fyrstu árum sínum sem húsasmiður upp úr 1930. Verkkaupinn var líklega ekki stórhuga, því að honum þótti nóg að gera ráð fyrir 180 cm lofthæð í húsinu. Pabbi náði að smygla þessu upp í 215 cm, sem kom sér vel seinna þó að ekkert okkar í fjölskyldunni hafi nokkurn tímann talist hávaxið.

Þegar mamma og pabbi settust að í Gröf áttu þau þrjú börn og fjórða og síðasta barnið, ég, bættist við ári síðar. Þessi flutningur markaði líka þau tímamót að búskapurinn varð aðalstarf pabba, en áður hafði hann aðallega unnið við smíðar víða um sveitir. Því hélt hann reyndar áfram næstu áratugi, en í minna mæli.

Ég held að mamma hafi aldrei ætlað sér að verða sveitakona að ævistarfi. Hún sagði þetta kannski aldrei berum orðum, enda fannst henni ekki borga sig að tala mikið um svoleiðis lagað, sérstaklega ekki ef það var viðkvæmt. En þetta var svo sem ekki bara eitthvert einkenni mömmu. Hennar kynslóð hafði einfaldlega ekki vanist því að tjá sig mikið um tilfinningar sínar og langanir. Mamma reyndi auk heldur yfirleitt að sneiða hjá snörpum orðaskiptum og afdráttarlausu tali. Ef einhverjum fannst eitthvað algjörlega frábært, þá reyndi hún heldur að draga úr, og sama gilti um það sem þótti algjörlega ómögulegt. Það var heldur ekki alslæmt.

Alnöfnur á fermingardegi þeirrar yngri í Óspakseyrarkirkju vorið 2001.

Birgitta Stefánsdóttir yngri með ömmu sinni og alnöfnu á fermingardegi þeirrar fyrrnefndu í Óspakseyrarkirkju vorið 2001.

Mamma hafði alltaf nógan tíma, eða þannig orðaði hún það að minnsta kosti. Pabba fannst hún hins vegar frekar seinlát þegar þau voru að fara eitthvað, sem var að vísu ekki oft. „Sjaldan skyldi seinn maður flýta sér“ var eitt af þeim orðatiltækjum sem mamma hélt hvað mest upp á. Samt var hún afskaplega afkastamikil kona, sérstaklega í hannyrðum. Þar liggur eftir hana gríðarmikið ævistarf, allt frá fínustu prjónadúkum og sjölum upp í heilu gólfteppin sem hún saumaði úr ullarbandi með góbelínsaum í strigapoka undan sykri.

Eftir að pabbi dó í ársbyrjun 2000 flutti mamma á Dvalarheimilið í Borgarnesi og dvaldist þar það sem eftir var. Þegar leið á þann tíma var getan til handavinnu upp urin og ættfræðin, sem hafði verið eitt af hennar helstu áhugamálum, var horfin til feðranna langt á undan henni. Þetta voru erfið ár og fátt eftir ógert þegar lífinu lauk 26. apríl 2008.

Hundrað ár eru einkennilega fljót að líða og ég er þakklátur fyrir að hafa náð að eiga helming af þessum tíma með mömmu. Hún hefði alveg getað verið ákveðnari í uppeldinu, en í þeim efnum verður hver að gera sitt besta miðað við þau spil sem hann eða hún hefur á hendinni. Þannig gengur þetta fyrir sig, kynslóð eftir kynslóð.

Mamma kenndi mér afskaplega margt. Sumt af því hef ég náð að tileinka mér en á öðrum sviðum hefur námið sjálfsagt ekki verið eins árangursríkt. En hún gerði alla vega sitt besta, og hennar besta var heilmikið. Þolinmæði og umburðarlyndi voru meðal þeirra grunngilda sem hún hafði í heiðri og kynnti fyrir börnunum sínum.

Takk mamma!

Sýnishorn af handavinnu mömmu. Gráa gólfteppið saumaði hún í strigapoka á árunum í kringum 1965. (Ljósm. Hallgrímur Gíslason 2002).

Sýnishorn af handavinnu mömmu. Gráa gólfteppið saumaði hún í strigapoka á árunum í kringum 1965. (Ljósm. Hallgrímur Gíslason 2002).

Hlaupaannáll 2014 og markmiðin 2015

Sigur 160

Eftir Mývatnsmaraþon 2014. (Ljósm. Birgitta Stefánsdóttir).

Enn eitt hlaupaárið er farið sína leið og nýtt hlaupaár tekið við. Við svoleiðis tímamót þykir mér við hæfi að líta um öxl og rifja upp hvernig til hafi tekist og hvaða markmið hafi náðst, en ekki síður að horfa fram á veginn og velta fyrir mér nýjum áskorunum.

Besta hlaupaárið til þessa (endurnýtt fyrirsögn frá síðasta ári)
Árið 2014 var tvímælalaust besta hlaupaárið mitt frá upphafi og hef ég þó verið viðloðandi þetta áhugamál (eða það mig) í rúm 40 ár. Ástæður þess að þetta hefur gengið svona vel eru líklega aðallega þrjár, þ.e.a.s. reynsla, þolinmæði og gott bakland. Þessir þættir eru reyndar ekki ótengdir.

Á þessu nýliðna ári lagði ég ívið meiri áherslu en áður á að auka styrk og hraða, en örlítið minni áherslu á löng hlaup. Þetta skilaði meiru en mig óraði fyrir um síðustu áramót. Þannig bætti ég 5 km tímann minn um 20 sek, 10 km tímann um 54 sek og hálfmaraþontímann um 3 mín, (já eða reyndar 2:59 mín ef ég á að vera alveg hreinskilinn). Hins vegar tókst mér ekki að bæta mig í maraþoni þrátt fyrir góðan ásetning. Árið 2013 kom ég sjálfum mér á óvart með því að hlaupa Reykjavíkurmaraþonið á 3:08:19 og helsta hlaupamarkmið ársins 2014 var að bæta þennan tíma. Það átti að gerast í München 12. október, en lokatíminn þar var 3:08:30 mín. Mig vantaði sem sagt 12 sekúndur til að ná markmiðiðinu, en það var svo sem allt í lagi. Ég ætti að hafa nógan tíma til að bæta þennan tíma seinna.

Fimm markmið sett, fjögur náðust
Á nýliðnu hlaupaári náði ég fjórum af þeim fimm markmiðum sem ég setti mér í ársbyrjun og lesa má um í þar til gerðum pistli frá 31. desember 2013. Ég ætlaði sem sagt að 1) bæta mig í maraþoni (hlaupa undir 3:08:19 klst), 2) hlaupa hálft maraþon undir 1:30 klst, 3) hlaupa 10 km götuhlaup undir 41:00 mín, 4) hlaupa a.m.k. sex fjallvegi og 5) hafa gleðina með í för í öllum hlaupum. Öll þessi markmið náðust, nema það fyrstnefnda þar sem mig vantaði 12 sekúndur upp á eins og áður segir. Ætli þetta megi ekki teljast 80% árangur – og ætli það megi ekki teljast viðunandi? Ég er alla vega mjög sáttur.

Hlaupaæfingar ársins
Ég keppti fyrst í hlaupum sumarið 1972 og hef sem fyrr segir verið viðloðandi hlaupin meira og minna síðan. Þó að ég hafi alls ekki verið í neinu toppformi allan þennan tíma, þá finnst mér samt að allir þeir kílómetrar sem hafa safnast í lappirnar frá upphafi eigi sinn þátt í því hvar ég er staddur í dag. Bæði líkaminn og hugurinn hafa lært eitthvað sem gleymist aldrei alveg. Mér finnst ég þannig enn búa að æfingunum hjá ÍR undir stjórn Guðmundar heitins Þórarinssonar á árunum 1973-1975. Á fimmtugsafmælinu mínu 2007 ákvað ég að gera hlaupin að lífsstíl og síðan hefur smátt og smátt byggst ofan á þennan gamla grunn. Hlaupaæfingar ársins 2014 voru auðvitað mikilvægur liður í því að ná betri árangri, en þær verður samt að skoða í „sögulegu samhengi“. Líklega byrjaði nýtt tímabil í hlaupaævisögunni minni í ársbyrjun 2013 þegar ég tók mig til og æfði óvenjumarkvisst fyrir Parísarmaraþonið. Þegar ég horfi til baka finnst mér þetta hafa verið svolítið eins og að komast „í nýtt borð“ í tölvuleik, (án þess að ég sé neitt sérlega kunnugur í þeim heimi).

Lengi lifir í gömlum glæðum en eldur logar samt ekki endalaust nema bætt sé á hann. Hvorki minningar frá ÍR-æfingum fyrir 40 árum, fyrirheit fimmtugs manns né Parísaræfingarnar hefðu skilað mér langt í hlaupum ársins 2014 ef ég hefði ekki haldið áfram að byggja ofaná, stein fyrir stein. Ég fór reyndar frekar hægt af stað í upphafi ársins, enda var stærsta verkefnið ekki á dagskrá fyrr en með haustinu. Ætlunin var því að miða hlaupaæfingarnar við það sem ég tel mig þurfa til viðhalds, þ.e. að hlaupa þrisvar í viku, samtals um 40 km. Eftir 20. febrúar ætlaði ég svo að bæta fjórðu æfingunni við og lengja vikurnar síðan smátt og smátt. Þetta gekk eftir í öllum aðalatriðum, enda þurfti ég ekkert að hafa fyrir þessu annað en að mæta á æfingar fjörlega og fallega hlaupahópsins Flandra í Borgarnesi, sem hittist einmitt þrisvar í viku. Með því að mæta aðeins fyrr eða hætta aðeins seinna en flestir hinna komu þessi 40 kílómetrar nánast sjálfkrafa. Tuttugasti febrúar kom reyndar ekki fyrr en vika var liðin af mars, en eftir það var vikuskammturinn oftast í kringum 60 km í lauslegu samræmi við lauslega æfingaáætlun sem ég fann einhvers staðar á netinu og átti að geta skilað mér nálægt 1:30 klst. í Vormaraþoni Félags maraþonhlaupara (FM) 26. apríl. Oftast voru þetta þá 4-5 æfingar á viku, þar af ein góð sprettæfing, allt frá 10×200 m upp í 6×1600 m, og ein önnur æfing af þokkalegum gæðum, t.d. 10-20 km hlaup með hröðum seinniparti eða hröðum milliköflum. Í apríllok hafði ég lagt að baki 849 km frá áramótum. Svona tölur eru afstæðar, en á sama tímabili árið 2013 hljóp ég 1.084 km, enda miðaðist það við að vera kominn í besta maraþonform lífsins í byrjun apríl.

Yfir sumarið fækkaði æfingunum heldur en fjallvegahlaup og önnur langhlaupaverkefni gerðu það að verkum að vikuskammturinn hélst áfram í 60-70 km. Í ágúst og september ætlaði ég að fjölga kílómetrunum til að búa í haginn fyrir München, en þar setti vinnan strik í reikninginn. Meðalvikan nálgaðist reyndar 80 km, en á þessu tímabili hefði ég þurft að hlaupa meira til að geta stuggað almennilega við persónulega maraþonmetinu mínu. Það stóð af sér atlöguna eins og fyrr segir, en hefði þó líklega látið undan ef aðstæður hefðu verið enn betri.

Eftir München ætlaði ég að halda mér vel mjúkum til að geta hlaupið hálft maraþon á þokkalegum tíma í Haustmaraþoni FM 25. október og taka síðan þriggja vikna frí til að gefa líkamanum gott tækifæri til að dytta að því sem kynni að hafa látið undan á hlaupum árins. Svolítil hálsbólga setti strik í þennan reikning og sömuleiðis var frekar mikið að gera í vinnunni á þessum tíma. Þetta endaði því eiginlega með 6 vikna fríi og það var ekki fyrr en í byrjun desember sem ég náði að koma vikuskammtinum aftur í u.þ.b. 40 km, sem ég lít á sem viðhaldsskammt eins og áður segir.

Æfingayfirlit ársins birtist í styttri mynd á eftirfarandi grafi:

Hlaup 2014 mán web

Á gamlárskvöld hafði ég lagt samtals 2.556 km að baki á árinu. Þar með var þetta orðið næstlengsta ár lífs míns eins og ráða má af myndinni hér að neðan. Aðeins árið 2013 var lengra, 2.731 km.

Hlaup 2014 ár web

Jól 2013: Ketilbjöllukennslustund nr. 1.

Jól 2013: Ketilbjöllukennslustund nr. 1. (Ljósm. Jóhanna Stefáns Bjarkardóttir).

Áður en ég segi skilið við æfingarnar er rétt að undirstrika að hlaupaæfingar eru ekki bara hlaupaæfingar. Ef vel á að ganga skipta styrktaræfingarnar ekki minna máli. Ég var reyndar frekar latur við þær á nýliðnu ári og ekki bætti úr skák að líkamsræktarsalurinn í íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi var lokaður lengst af frá áramótum til vors á meðan unnið var að endurnýjun. Ég var hins vegar svo heppinn að Þorkell sonur minn gaf mér 12 kg ketilbjöllu á jólunum 2013 og með þessa bjöllu í höndunum tók ég 10 hnébeygjur nánast á hverjum morgni allt árið. Ég hygg að þessar æfingar hafi átt sinn þátt í hversu vel gekk í hlaupunum. Þetta var í raun það eina nýja sem ég gerði. Aðrar æfingar voru hvorki meiri né betri en árið áður.

Keppnishlaupin
Keppnishlaupin mín á árinu 2014 urðu 15 talsins og hafa aldrei verið fleiri. Þessi fjölgun stafaði að einhverju leyti af stöðugri viðleitni til að sneiða nokkrar sekúndur af besta 10 km tímanum mínum og einnig og ekki síður af góðum félagsskap Gunnars Viðars Gunnarssonar, hlaupafélaga míns úr Flandra, sem fylgdi mér í flest þessara hlaupa og veitti mér aðhald og keppni. Keppnishlaupin hafa það líka sér til ágætis að í þeim hitti ég fólk úr sístækkandi hlaupavinahópi, sem ég myndi sjaldan hitta ella. Þessi samskipti eru mér mikils virði enda virðast hlaupin kalla það besta fram í fólki. Allt hitt er skilið eftir heima, ef eitthvað er.

Flandrarar og Eva heiðursfélagi eftir Actavishlaupið.

Flandrarar og Eva heiðursfélagi eftir Actavishlaupið.

Fyrsta keppnishlaup ársins var lokahlaupið í hlaupaseríu Actavis og FH í Hafnarfirði 27. mars. Ég fann mig engan veginn í þessu hlaupi, en kláraði þó 5 km á 20:32 mín, sem er svo sem ekkert lakara en ég er vanur. Og hlaupið var skemmtilegt af því að með mér var fríður hópur úr Flandra og þarna féllu þónokkur persónulegt met þó að mitt stæði.

Næst var röðin komin að 10 km Flóahlaupi Umf. Samhygðar (Kökuhlaupinu) 5. apríl. Þetta var ótrúlega skemmtilegt hlaup sem gaf, eftir á að hyggja, tóninn fyrir það sem framundan var. Þegar ég var aðeins tekinn að lýjast ákvað ég að setja aukaorku í að fylgja fyrstu konum í hlaupinu. Það gekk betur en ég þorði að vona og niðurstaðan var lokatími upp á 41:17 mín, sem var langt umfram væntingar, langbesti tíminn minn í Flóahlaupi til þessa og ekki nema 17 sek. frá persónulega metinu mínu í 10 km götuhlaupi frá því sumarið 1996. Þetta hlaut að verða gott hlaupaár!

Þriðja hlaupið var Víðavangshlaup ÍR á sumardaginn fyrsta. Þar ætlaði ég mér ekki stóra hluti, enda bara tveir dagar í hálft maraþon. Reiknaði þó með að geta alla vega hlaupið þessa 5 km á 20:30 mín. Lokatíminn varð 19:39 mín, þ.e.a.s. 20 sek. bæting á persónulega metinu mínu í 5 km götuhlaupi. Þarna var mikið af skemmtilegu fólki í kringum mig og þá er allt hægt!

Kampakátur í Vonarstræti þegar hlaupið var hálfnað. (Ljósm. Hjörtur Stefánsson).

Kampakátur í Vonarstræti þegar ÍR-hlaupið var hálfnað. (Ljósm. Hjörtur Stefánsson).

Daginn eftir ÍR-hlaupið þurfti ég að sinna vinnuerindum í Kaupmannahöfn, en morguninn þar á eftir var ég mættur á ráslínuna fyrir hálft maraþon í Vormaraþoni FM í Reykjavík. Fyrir þetta hlaup átti ég best 1:31:12 klst frá því í haustmaraþoninu 2013. Ég vissi að ég gæti bætt þann tíma á góðum degi og lét mig jafnvel dreyma um að hlaupa nálægt 1:30 klst. Það gekk eftir og meira til, því að lokatíminn var 1:29:25 klst og þar með var einu af helstu hlaupamarkmiðum ársins náð. Þetta kom mér þægilega á óvart, ekki síst vegna þess að ég var kannski örlítið lúinn eftir Kaupmannarhafnarreisuna.

Endaspretturinn í Vormaraþoninu. (Ljósm. Hjörtur Stefánsson).

Endaspretturinn í Vormaraþoninu. (Ljósm. Hjörtur Stefánsson).

Fimmta hlaupið var svo Icelandairhlaupið 8. maí, en það er árlegt 7 km hlaup í kringum Vatnsmýrina, sem ég tók nú þátt í fimmta árið í röð. Enn gekk allt eins og í sögu og ég náði mínum langbesta tíma til þessa, 27:44 mín. Ein skemmtilegasta minningin úr þessu hlaupi er þegar ég sneri mér við á marksvæðinu til að svipast eftir Gunnari Viðari sem ég bjóst við að myndi skila sér í markið svo sem tveimur mínútum á eftir mér. Þá stóð hann bara þarna og hafði verið skammt undan allan tímann, langt umfram það sem nokkur hafði reiknað með.

Stundum verður maður hálfpartinn saddur á keppnishlaupum. Það kemur reyndar sjaldan fyrir mig enda hleyp ég líklega sjaldnar en margir aðrir sem teljast á svipuðu róli. En ég fann samt örlítið fyrir þessu eftir Icelandairhlaupið. Var því ekki alveg eins vel upplagður þegar röðin var komin að 10 km Styrktarhlaupi líffæraþega í Fossvoginum 20. maí. Það gekk þó ekki verr en svo að ég bætti 18 ára gamla persónumetið mitt um 14 sek. Hljóp sem sagt á 40:46 mín. Gunnar Viðar gerði enn betur og kom í mark á 40:34 mín. Það hefðu margið talið óhugsandi nokkrum mánuðum fyrr.

Flandrahópurinn eftir líffæragjafahlaupið. F.v. SG, Auður, Gunnar, Birgitta, Haukur. (Ljósm. Hrönn Guðmundsd.).

Flandrahópurinn eftir líffæragjafahlaupið. F.v. SG, Auður, Gunnar, Birgitta, Haukur. (Ljósm. Hrönn Guðmundsdóttir).

Mývatnsmaraþonið var 7. keppnishlaupið þetta árið. Það gekk bara vel framan af, en ég vissi svo sem að mig vantaði kílómetra í lappirnar til að geta verið nálægt mínu besta. Ætlaði það heldur ekki neitt. Bjóst bara við svipuðu og árið áður, þ.e. lokatíma í kringum 3:20 klst. Allt gekk skv. áætlun fyrri hluta hlaupsins, Gunnar Viðar fylgdi mér fyrstu 17 km og eftir 20 km fór ég fram úr frönskum hlaupara sem hafði leitt hlaupið fram að því. Sá aldrei til mannaferða eftir þetta, hitinn var kominn í 18°C og mýflugurnar með hressasta móti, án þess að þær öngruðu mig svo sem neitt að ráði. Ég hljóp síðustu kílómetrana á viljanum einum og kom dauðþreyttur í mark á lakasta tímanum í 6 ár, 3:29:47 klst. Það var hins vegar mikil huggun harmi gegn að ég vann hlaupið næsta örugglega þrátt fyrir allt. Næstu menn skiluðu sér tólf og hálfri mínútu síðar. Þar með var minn fyrsti sigur í almenningshlaupi í höfn.

Glaður og þreyttur á síðustu metrunum. (Ljósm. Bergsveinn Símonarson).

Glaður og þreyttur sigurvegari á síðustu metrunum í Mývatnsmaraþoninu (í tvennum skilningi). (Ljósm. Bergsveinn Símonarson).

Mývatnsmaraþonið sat ekki lengi í mér en nú tóku öðruvísi hlaupaverkefni við, þannig að það var ekki fyrr en 9. júlí sem ég mætti í 8. keppnishlaupið. Þetta var Ármannshlaupið, sem hefur lengi verið í svolitlu uppáhaldi hjá mér. Fyrri hluti hlaupsins var hálferfiður, en seinni hlutinn léttari og uppskeran enn ein bætingin, 10 km á 40:27 mín. Þetta var 30. 10 km götuhlaupið mitt frá því að ég hóf þá iðju sumarið 1993.

Næst á dagskránni var Hlaupahátíð á Vestfjörðum. Þangað fórum við nokkur saman, höfðum fengið lánað hús í Bolungarvík og höfðum allt sem þarf í gott ferðalag. Þessi ferð var líka algjörlega laus við vonbrigði og móttökurnar fyrir vestan engu líkar. Föstudagskvöldið 18. júlí hljóp ég 10 km í Óshlíðarhlaupinu. Við Hrönn Guðmunds fylgdumst að fyrstu kílómetrana og Gunnar Viðar var ýmist rétt á undan eða rétt á eftir. Millitíminn eftir 5 km var 19:51 mín sem var betra en besti 5 km götuhlaupatíminn minn til skamms tíma. Gerði mitt besta til að halda þessum hraða en eitthvað dró af mér á seinni hlutanum, enda leiðin örlítið mishæðótt. Lauk hlaupinu á 40:44 mín. Hafði reyndar hlaupið yfir Skálavíkurheiði daginn áður, en held varla að það hafi skipt sköpum.

Tveim dögum síðar var svo röðin komin að Stóru Vesturgötunni, 45 km hlaupi frá Þingeyri yfir Álftamýrarheiði og svo hina hefðbundu Vesturgötu frá Stapadal í Arnarfirði, út í Svalvoga og eftir Kjaransveginum inn að Sveinseyri. Ég, Gunnar Viðar og Klemens vorum einu karlarnir í þessari keppni. Fylgdumst að yfir heiðina og út fyrir rásmarkið í Stapadal, en eftir það bætti ég heldur í og var einn míns liðs það sem eftir lifði hlaups. Veðrið lék við hvern sinn fingur þennan dag og batnaði enn eftir því sem á leið hlaupið. Að öðrum stundum ólöstuðum finnst mér þetta hafa verið bestu augnablik hlaupaársins. Ég kom langfyrstur í mark á 4:12 klst, sem var talsvert betri tími en ég hafði þorað að vona. Og ég var meira að segja ekkert sérstaklega þreyttur.

Á verðlaunapallinum. Klemens og Gunnar voru hnífjafnir í öðru sætinu. (Ljósm: Guðmundur Ágústsson, Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Á verðlaunapallinum. Klemens og Gunnar voru hnífjafnir í öðru sætinu. (Ljósm: Guðmundur Ágústsson, Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Eftir Vesturgötuna fór Münchenmaraþonið í október smám saman að taka stærra pláss í hugsuninni. Keppnishlaup nr. 11 var Reykjavíkurmaraþonið (RM) 23. ágúst en þar ætlaði ég að hlaupa hálft maraþon undir 1:28 klst. til að fullvissa sjálfan mig um að bæting væri innan seilingar í München. Þetta markmið náðist reyndar ekki alveg, því að lokatíminn var 1:28:13 klst. En þetta var samt góð bæting og engin ástæða til annars en vera bjartsýnn. Þessi dagur var enn skemmtilegri en ella vegna þess að tvö eldri börnin mín voru með í þessu sama hlaupi og bættu sig bæði talsvert meira en ég.

Tekið á því á síðustu metrunum. (Ljósm. Jón Kristinn Haraldsson).

Tekið á því á síðustu metrunum í RM. (Ljósm. Jón Kristinn Haraldsson).

Tólfta keppnishlaupið var Fossvogshlaupið fimm dögum eftir RM. Þennan leik lék ég líka árið áður en þá hafði ég reyndar hlaupið heilt maraþon í RM. Það var ekki skynsamlegt en slapp fyrir horn. Nú var allt öðru máli að gegna enda hálft maraþon ekki nema brot af heilu hvað líkamlegt hnjask varðar. Í Fossvogshlaupinu gerði ég fyrstu alvarlegu atlöguna að 40 mínútna múrnum. Var á 19:52 mín eftir 5 km og notaði alla orku sem afgangs var í seinni helminginn. Niðurstaðan var 40:09 mín, sem sagt þriðja 10 km bæting sumarsins. Múrinn stóð þetta af sér, sem var eftir á að hyggja bara ljómandi fínt, því að þá hef ég eitthvað að stefna að á næsta ári. Auðvitað á maður ekkert víst í þeim efnum, en tilhugsunin er alla vega ljúf.

Í byrjun september skelltum við Gunnar Viðar okkur til Keflavíkur í 10 km Reykjanesmaraþon. Þarna ætlaði ég mér ekki neitt sérstakt en þetta varð samt eitt af mínum bestu hlaupum. Hafði góðan félagsskap af Evu Skarpaas langleiðina, eins og reyndar í nokkrum öðrum hlaupum sumarsins. Svoleiðis fylgd léttir manni lífið. Þessu hlaupi lauk ég á 40:17 mín og átti nóg inni. Seinna í sama mánuði hljóp ég svo enn eitt 10 km hlaupið, nánar tiltekið Hausthlaup UFA á Akureyri að kvöldi 18. september. Lokatíminn var 40:44 mín og þar með var þetta sjötta 10 km hlaupið í röð undir gamla persónumetinu. Þarna fann ég samt að það var bæði farið að kvölda og hausta á þessu keppnistímabili. Ég hafði hugsað mér að hlaupa eitt eða tvö 10 km hlaup til viðbótar, en nú langaði mig það ekki lengur. Þess í stað stillti ég hugann á Münchenmaraþonið, enda átti það alltaf að verða aðalhlaupaviðburður ársins. Maður á ekki að fara þreyttur í svoleiðis verkefni.

Góðar móttökur eftir maraþonið í München. (Ljósm. Kristín Ólafsd.).

Góðar móttökur eftir maraþonið í München. (Ljósm. Kristín Ólafsdóttir).

Münchenmaraþonið 12. október gekk í rauninni eins og í sögu þó að ég hafi verið 11 sekúndum frá mínu besta (3:08:30 klst. í stað 3:08:19). Ég taldi mig vera í standi til að hlaupa á 3:06:30 klst, en var meðvitaður um að nokkuð hefði skort á langar æfingar vikurnar á undan. Eftir á að hyggja held ég að þetta hafi verið alveg raunhæft mat. Hlaupið var að flestu leyti skynsamlega útfært hjá mér og eftir maraþonhlaup er nánast ósanngjarnt að væla yfir einhverjum sekúndum til eða frá. Líklega voru aðstæður ekki eins og best gerist, sérstaklega vegna þess að hitastigið var í hærra lagi, þ.e. svipað og við Mývatn fjórum mánuðum fyrr. Alla vega rættist lítið af villtustu draumum fólks í þessu hlaupi. En þetta var alveg bráðskemmtilegt, sérstaklega að hlaupa inn á Ólympíuleikvanginn þegar 300 m voru eftir í mark. Auk þess var þetta einkar skemmtileg hópferð.

Fjallvegahlaupin
Sumarið 2014 var áttunda sumarið í fjallvegahlaupaverkefninu mínu. Alla jafna hleyp ég fimm fjallvegi á hverju sumri en af ýmsum ástæðum var ég einum fjallvegi á eftir áætlun í árslok 2013. Einsetti mér að bæta úr því með því að afgreiða sex leiðir þetta árið. Fyrsta viðfangsefnið átti að vera Leggjabrjótur laugardaginn 24. maí, um 23 km leið frá Botnsskála að Þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum. Lagði af stað í hvössum mótvindi, rigningu og þoku ásamt 27 öðrum misvönum og misvelbúnum hlaupurum og sneri við ásamt stærstum hluta hópsins eftir 8 km barning. Ég legg alltaf mikla áherslu á það í undirbúningi fjallvegahlaupa að þeir sem slást í för með mér geri það á eigin ábyrgð. En sú firring ábyrgðar er léttvæg fyrir sálina ef eitthvað ber út af. Mér leið ekki sérlega vel með það eftir á að hafa att öllu þessu fólki út í þetta ævintýri, jafnvel þótt allt færi vel að lokum og jafnvel þótt vosbúðin sjálft sæti ekkert í mér. Leggjabrjótur var svo afgreiddur í betra veðri nokkrum vikum síðar.

Við feðginin á Leggjabrjóti. (Ljósm. Sævar Skaptason).

Við feðginin á Leggjabrjóti (í betra veðrinu). (Ljósm. Sævar Skaptason).

Eins og fyrr sagði brá ég mér með fríðu föruneyti á Hlaupahátíð á Vestfjörðum í júlí. Í leiðinni hljóp ég yfir Skálavíkurheiði, sem var létt hlaup enda bílvegur alla leið. Eftirminnilegust er úr þessu hlaupi er sagan um snjóflóðið á Breiðabóli 1910, sérstaklega eftir að í ljós kom að afi eins hlaupafélagans hafði sjálfur lent í flóðinu.

Glaðir hlauparar eftir fjallvegahlaup yfir Skálavíkurheiði. Myndin er tekin á hlaðinu á Minnibakka.

Glaðir hlauparar eftir fjallvegahlaup yfir Skálavíkurheiði. Myndin er tekin á hlaðinu á Minnibakka.

Í byrjun ágúst hljóp ég þrjú fjallvegahlaup á Norðurlandi, nánar tiltekið yfir Hjaltadalsheiði, Leirdalsheiði og Tunguheiði. Allt eru þetta eftirminnileg hlaup, hvert með sínum hætti. Hjaltadalsheiðin var hæst, Leirdalsheiðin blautust og Tunguheiðin fallegust.

Á harðaspretti niður Hörgárdal eftir fjallvegahlaup yfir Hjaltadalsheiði 5. ágúst 2014.

Á harðaspretti niður Hörgárdal eftir fjallvegahlaup yfir Hjaltadalsheiði 5. ágúst 2014.

Síðasta fjallvegahlaup ársins og það fertugasta frá upphafi var svo yfir Skálmardalsheiði fyrir vestan um miðjan ágúst. Þar vorum við þrjú saman í ágætu veðri og þó að heiðin sé greiðfær og auðrötuð tókst mér að leiða okkur í villur, enda var hlaupaúrið með GPS-búnaðinum bilað, kortið gleymdist heima og innbyggð ratvísi forfeðranna var eitthvað tekin að fyrnast.

Hlaupafélagarnir Esther og Gunnar á Skálmardalsheiði, rétt áður en við villtumst.

Hlaupafélagarnir Esther og Gunnar á Skálmardalsheiði, rétt áður en við villtumst.

Nú eru 10 fjallvegahlaup eftir í verkefninu og ég hlakka til þeirra allra. Þessi hlaup hafa fært mér mikla gleði, kynnt mig fyrir landinu sem við eigum öll saman og komið mér í samband við einstaklega skemmtilegt fólk sem hefur auðgað líf mitt síðustu árin. Eins og ég nefni einhvers staðar hér að framan virðast mér hlaupin kalla fram allt það besta í fólki. Fjallvegahlaupin gera það enn betur og greinilegar en önnur hlaup.

Skemmtihlaupin
Árlega stend ég fyrir eða á einhvern þátt í þremur skemmtihlaupum, sem hvorki eru keppnishlaup né formleg fjallvegahlaup. Þar ber fyrst að nefna hinn árlega Háfslækjarhring sem jafnan er hlaupinn á uppstigningardag. Síðasta vor var þetta hlaup þreytt í 5. sinn þann 29. maí. Umræddur hringur er í nágrenni Borgarness, rúmlega 21 km að lengd heiman að frá mér og heim. Þetta er eiginlega boðshlaup, því að hluti af uppákomunni er kjötsúpa Bjarkar, gerð úr kjöti af Strandalömbum sem aldrei hafa kynnst ræktuðu landi af eigin raun. Sjálfur var ég að hlaupa hringinn í 100. sinn þennan dag.

Á Háfslækjarhringnum vorið 2014.

Á Háfslækjarhringnum vorið 2014.

Næst á dagskránni var svo skemmtihlaupið Þrístrendingur sem við Dofri Hermannsson, frændi minn, stóðum nú fyrir 5. árið í röð. Leiðin liggur frá Kleifum í Gilsfirði norður Steinadalsheiði til Kollafjarðar, yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf í Bitru og loks suður (eða vestur) Krossárdal að Kleifum. Hringurinn allur er um 40 km, en staðhættir þannig að auðvelt er að taka bara einn eða tvo áfanga af þremur ef heildarvegalengdin vex mönnum í augum. Að þessu sinni bar hlaupið upp á laugardaginn 21. júní. Þátttakendur voru 16 þegar allt er talið, þar af 11 sem hlupu alla leið. Veðrið var gott að vanda og dagurinn allur hin besta upplifun.

Á leið upp Fjarðarhornssneiðinga.

Á leið upp Fjarðarhornssneiðinga í Þrístrendingi miðjum.

Sýnishorn af móttökum Hólmvíkinga eftir Hamingjuhlaupið.

Sýnishorn af móttökum Hólmvíkinga eftir Hamingjuhlaupið. Þarna er gaman að vera!

Þriðja hefðbundna skemmtunin í þessum flokki var Hamingjuhlaupið í tengslum við Hamingjudaga á Hólmavík 28. júní. Að þessu sinni var lagt upp frá Kleifum í Gilsfirði, rétt eins og í Þrístrendingi, og svo hlaupið sem leið liggur um Vatnadal og Miðdal til Steingrímsfjarðar og þar áfram til Hólmavíkur. Þetta var 6. Hamingjuhlaupið og hreint alls ekki það síðasta.

Afrekaskráin
Ég er löngu hættur að líta á aðra hlaupara sem keppinauta, jafnvel þó að ég noti hugtakið keppnishlaup nokkrum sinnum hér að framan. Ég sjálfur er nefnilega eini keppinauturinn minn, hitt eru bara hlaupafélagar og jafnvel hlaupavinir, sem lýsa upp tilveruna og eyða einmanaleikanum. Samt sem áður hef ég gaman af afrekaskrám, þar sem alls konar fólki er raðað eftir árangri í hlaupum – og mér þar á meðal. Líklega fæddist ég með þennan áhuga, eða þá að ég varð mér úti um hann á æskuheimilinu þar sem haldnar voru skýrslur yfir flest það sem hægt var að leggja tölulega mælikvarða á, og mikið af hinu líka. Þegar ég byrjaði að keppa í hlaupum á árunum upp úr 1970 var hlaupið sjálft líklega ekki nema helmingurinn. Hinn helmingurinn, engu síður mikilvægur, var skráningin sem fór fram að hlaupi loknu með öllum þeim útreikningum og samanburðarrannsóknum sem völ var á hverju sinni. Strandamet voru í miklu uppáhaldi hjá mér, en draumurinn var náttúrulega að komast á skrá yfir 100 bestu Íslendinga sögunnar í einhverri greininni. Man ekki lengur hvort nafnið mitt fannst á einhverjum slíkum skrám um tíma, nema þá í 3.000 m hindrunarhlaupi þar sem ég er enn í 99. sæti yfir bestu hindrunarhlaupara sögunnar eftir eftirminnilegt hlaup á Laugardalsvellinum haustið 1975 á 10:46,8 mín. (Eins gott að minnast á þetta núna. Hlýt að detta út af „Topp 100“ á næsta ári).

Ég geri mér engar vonir um að endurheimta sæti á 100 manna listanum eftir að hindrunarhlaupið mitt hverfur af skrá. Hins vegar finnst mér gaman að rýna í afrekaskrár eldri borgara, þar sem ég tilheyri nú aldursflokknum 55-59 ára. Eftir sumarið í sumar er staða mín á þessum skrám sem hér segir (með fyrirvara um uppfærslur sem e.t.v. á eftir að framkvæma og með eigin lagfæringum):

 • 5 km götuhlaup: 4. sæti 19:42 mín (byssutími)
 • 10 km götuhlaup: 6. sæti 40:11 mín (byssutími)
 • Hálft maraþon: 5. sæti 1:28:19 klst (byssutími)
 • Maraþon: 4. sæti 3:08:33 klst (byssutími)
 • Laugavegurinn: 2. sæti 5:52:33 klst

Þessa skrá hef ég gjarnan til hliðsjónar þegar ég rökræði við sjálfan mig um markmiðin framundan.

Markmiðin 2015
Eins og áður sagði náði ég öllum þeim markmiðum sem ég setti mér fyrir hlaupaárið 2014, ef frá eru taldar þessar 12 sekúndur sem vantaði upp á í München. Eins og staðan er í dag hef ég enga ástæðu til annars en að stefna hærra upp og lengra fram á þessu nýbyrjaða ári. Í samræmi við það eru markmiðin fyrir árið 2015 sem hér segir:

 1. Bæting í 5 km götuhlaupi (undir 19:39 mín)
 2. Undir 40 mín í 10 km götuhlaupi (bæting um 10 sek)
 3. Bæting á Laugaveginum (undir 5:52:33 klst)
 4. Fimm fjallvegahlaup
 5. Gleðin með í för í öllum hlaupum

Þessi markmið eru svipuð þeim sem ég hef sett mér síðustu árin, nema hvað ég geri náttúrulega ráð fyrir svolitlum framförum. En gleðin er aðalatriðið – og hana velur maður sér sjálfur að förunaut.

Helstu dagsetningar 2015
Til að styðja við markmiðin hér að framan og sjálfum mér til minnis birtast hér nokkrar mikilvægar dagsetningar úr hlaupadagatalinu mínu fyrir árið 2015. Nánari upplýsingar er að finna í bloggpistli frá því í október og þar eru líka fyrstu drög að dagsetningum fyrir árið 2016. Þeim dagsetningum ber þó að taka með fyrirvara, enda þegar ljóst að þær munu eitthvað færast til.

 1. Lau 25/4: Vormaraþon FM, 21 km
 2. Lau 23/5: Göteborgsvarvet, fjölmennasta hálfmaraþon í heimi, 21 km
 3. Lau 30/5: Flatnavegur, 14 km frá Rauðamelsölkeldu að Litla-Langadal, fjallvegahlaup nr. 41
 4. Lau 20/6: Þrístrendingur, 41 km
 5. Lau 27/6: Hamingjuhlaupið, 32 km úr Reykhólasveit um Laxárdalsheiði og Þiðriksvalladal til Hólmavíkur
 6. Lau 11/7: Strjúgsskarð, 31 km úr Langadal til Sauðárkróks, fjallvegahlaup nr. 42
 7. Lau 18/7: Laugavegurinn, 55 km
 8. Lau 1/8: Barðsneshlaupið, 27 km
 9. Þri 4/8: Víkurheiði og Dys, 14 km úr Reyðarfirði í Viðfjörð, fjallvegahlaup nr. 43
 10. Fim 6/8: Berufjarðarskarð, 14 km úr Breiðdal til Berufjarðar, fjallvegahlaup nr. 44
 11. Lau 15/8: Haukadalsskarð, 20 km úr Haukadal í Dölum til Hrútafjarðar, fjallvegahlaup nr. 45
 12. Lau 22/8: Reykjavíkurmaraþon, 42 km

Þakkir
Vissulega hleypur maður einn og sjálfur, en samt er þetta ekki hægt nema baklandið sé traust. Það er til dæmis hvorki sjálfsagt að maður hafi heilsu til að leika sér svona, né að fjölskyldan og vinnuveitendurnir sýni þessu eigingjarna áhugamáli þann skilning sem það þarf til að lifa af. Vinnuveitandinn er lítil fyrirstaða í mínu tilviki enda við sjálfan mig að eiga. Fjölskyldan hefur hins vegar vanist áhugamálinu ótrúlega vel og sýnt því mikinn skilning. Fyrir þetta er ég afskaplega þakklátur. Sérstaklega á Björk þakkir skildar fyrir þolinmæðina og alla hjálpina í tengslum við fjallvegahlaupin. Börnin mín hafa líka stutt virkilega vel við bakið á mér, Þorkell með góðum ráðum um þjálfunina og með því að vera viðræðuhæfur um tölulegan árangur, Birgitta með því að fylgja mér í hlaup og hjálpa til við skipulagningu og Jóhanna með brosum, jákvæðni og hvatningu í ræðu og riti. Hlaupafélagarnir í Flandra eiga líka sinn stóra þátt í þessu öllu saman. Þar er á engan hallað þótt Gunnar Viðar sé nefndur sérstaklega, en hann fylgdi mér í næstum öll og í næstum öllum keppnishlaupum ársins og í nokkrum fjallahlaupum í þokkabót. Svo má líka nefna hlaupafélaga úr öðrum héruðum sem héldu uppi hraðanum fyrir mig í keppnishlaupum – og öfugt. Þar var Eva Skarpaas í aðalhlutverki og Hrönn Guðmunds átti líka stóran hlut að máli, svo einhverjir séu nefndir. Og ekki má heldur gleyma öllum fjallvegahlaupurunum sem gerðu skemmtileg hlaup enn skemmtilegri og hvöttu mig á alla lund. Þar kemur nafn Sævars Skaptasonar fyrst í hugann. Og svo mætti lengi telja. Takk öll fyrir að hjálpa mér við að gera þetta ár að besta hlaupaárinu mínu frá upphafi og fyrir að auka á tilhlökkunina fyrir því sem framundan er.

Safn útvarpspistla aðgengilegt á 2020.is

RÚVsíða (200x121)Í lok apríl 2013 tók  ég að mér að sjá um svolitla umfjöllun um umhverfismál í útvarpsþættinum Sjónmál á Rás 1. Oftast hefur þetta verið tvisvar í viku, ýmist í formi 6-8 mínútna pistils eða viðtals af svipaðri lengd. Sama fyrirkomulag hélst eftir að þátturinn Samfélagið tók við af Sjónmáli haustið 2014 og í árslok voru þetta orðnir samtals 139 þættir.

Til að gera þetta efni sem aðgengilegast fyrir sjálfan mig og aðra hefur verið sett upp sérstök tenglasíða á umhverfisfróðleikssíðunni 2020.is, þar sem finna má tengla á alla þættina á vefsíðu Ríkisútvarpsins, að frátöldum örfáum þáttum sem ekki hafa ratað þar inn. Ætlunin er að bæta við þennan lista jafnt og þétt svo lengi sem framhald verður á þátttöku minni í þessari þáttagerð.

Ef þetta tenglasafn getur orðið einhverjum til gagns eða gamans er tilganginum náð.