• Heimsóknir

    • 119.667 hits
  • apríl 2018
    S M F V F F S
    1234567
    891011121314
    15161718192021
    22232425262728
    2930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Hlaupaleið á Hafnarfjallið

Þegar Borgnesingar hlaupa (eða ganga) á Hafnarfjallið fara þeir alla jafna upp fjallsöxlina norðanvert í fjallinu, þ.e.a.s. lengst til vinstri þegar horft er á fjallið frá Borgarfjarðarbrúnni. U.þ.b. 300 m ofan við Hótel Hafnarfjall er þokkalegt bílastæði þar sem vegurinn til Hvanneyrar og áfram norður í land lá fyrir daga Borgarfjarðarbrúarinnar. Frá þessu bílastæði eru fyrst hlaupnir um 300 m til norðurs eftir gamla veginum, en síðan beygt inn á vegarslóða sem liggur beint í átt til fjalls. Eftir tæpa 200 m af þeim slóða er komið að girðingarhliði, þar sem hin eiginlega ferð á fjallið hefst að mínu mati. Frá hliðinu er hlaupið áfram upp veginn, sem er frekar grýttur og laus í sér. Ofan við fyrstu brekkuna, um 200 m ofan við hliðið, er gamalt malarnám. Eftir það er um tvær leiðir að velja, sem hér á eftir verða nefndar „auðveldari leiðin“ og „erfiðari leiðin“.

„Auðveldari leiðin“ fylgir vegarslóðanum áfram inn fyrir norðurendann á fjallinu og inn í Ytra-Seleyrargil. Eftir drjúgan spöl (um 850 m frá hliðinu) endar vegurinn við annað hlið, skammt frá dálítilli stíflu í gilinu. Þar er sveigt til hægri upp svolítinn skorning og svo enn meira til hægri upp í fjallsöxlina. Þessi spölur er hvorki langur né strangur og þegar farnir hafa verið um 250 m frá stíflunni er komið að stórum steini sem liggur nánast á fjallsbrúninni með ágætu útsýni yfir Borgarnes og nágrenni. Þar með er maður kominn „upp að Steini“, eins og það er kallað í daglegu tali Borgnesinga. Steinninn, sem er í u.þ.b. 200 m hæð yfir sjó, er gott viðmið fyrir þá sem leggja á fjallið og fyrir marga er gangan þangað upp næg áskorun. Þarna sameinast „auðveldari leiðin“ „erfiðari leiðinni“ og lýkur því hér að segja frá þeirri fyrrnefndu.

Sé „erfiðari leiðin“ valin er beygt til fjalls strax og komið er framhjá malarnáminu. Þarna hefur myndast sæmilega greinileg slóð í gegnum móana. Stefnan er tekin beint á fjallsendann en þangað eru ekki nema um 200 m frá malarnáminu. Í fjallsendanum verður fljótlega fyrir manni troðin slóð áleiðis upp fjallsöxlina, mjög brött, grýtt og laus í sér til að byrja með.

Eftir fyrstu og erfiðustu brekkurnar taka við ögn greiðfærari kaflar og fljótlega er komið að steininum sem áður var nefndur. Þangað eru um 850 m frá hliðinu, sem þýðir að „erfiðari leiðin“ þangað upp er rétt um 250 m styttri en „auðveldari leiðin“. Við steininn er líklega tæpur fjórðungur leiðarinnar á toppinn að baki í mínútum talið, sé miðað við „erfiðari leiðina“. Allar vegalengdartölur sem hér fara á eftir miðast við hana.

Slóðin frá steininum áfram upp fjallið er víðast greinileg, sérstaklega þegar líða tekur á sumarið og margir eru búnir að fara þarna upp og niður. Einhvers staðar uppi í miðju fjalli liggur leiðin yfir aflagða girðingu á blábrúninni upp af snarbröttum skorningi. Þangað eru um 1,7 km frá hliðinu og hæðin komin í u.þ.b. 440 m. Þarna má ætla að ferðalagið frá hliðinu upp á topp sé rúmlega hálfnað í mínútum talið. Enn er svo haldið upp fjallsöxlina. Sums staðar er slóðin ógreinileg en stefnan er nokkurn veginn alltaf sú sama, meðfram fjallsbrúninni að „aftanverðu“.

Hærra uppi í fjallinu er fjallsbrúnin kvödd, sveigt lítið eitt til vinstri og haldið áfram eftir greinilegri slóð utan í skriðunum bakatil í fjallinu. Að þessari beygju eru um 2,6 km frá hliði og hæðin nálægt 640 m. Slóðin í skriðunum er tiltölulega flöt til að byrja með en fer svo hækkandi á ný. Þar liggur leiðin framhjá dálitlum kletti og áfram þar til komið er að ljósleitu holti í u.þ.b. 730 m hæð. Þar sveigir slóðin upp til hægri og eftir það liggur leiðin síðustu 300 metrana upp brött holt beint upp á fjallstoppinn í 791 m hæð. Hliðið þar sem lagt var af stað er á að giska í 80 m hæð og hækkunin því um 710 m. Heildarvegalengdin frá hliði upp á topp er um 3,3 km. Á toppnum er alla jafna gestabók sem sjálfsagt er að skrifa nafn sitt í.

Hægt er fylgja fjallsöxlinni alla leið upp í stað þess að beygja í skriðurnar eins og hér hefur verið lýst. Þar má greina götu en sú leið er ívið verri yfirferðar og ekki mælt með henni hér.

Hlaupaleið á Hafnarfjall 4. ágúst 2017. (Strava.com)

Horft niður eftir hlaupaleiðinni á Hafnarfjall 2. ágúst 2017. Myndin er tekin í skriðunni ofarlega í fjallinu með Borgarnes í baksýn. Slóðin er alla jafna ekki svona greinileg, en þarna var sólin í heppilegri síðdegisstöðu. (Ljósm. Stefán Gíslason).

Eitt svar

  1. Mér líkar verk þín. Það er virkilega frábært

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: