Ég hef ekkert hlaupið í 7 vikur, nánar tiltekið frá 20. janúar sl. Þann dag varð ég svo slæmur í vinstri mjöðminni og í vinstra lærinu að ég gat með naumindum skrönglast heim af hlaupaæfingu. Verkurinn var að vísu ekki nýr, en þetta var í fyrsta skipti sem hann sló mig verulega út af laginu á hlaupum.
Ég veit ekki alveg hvenær ég kynntist þessum verk fyrst, en það var alla vega ekki seinna en í október 2016. Um miðjan desember 2016 var þetta orðið svo slæmt að ég tók mér frí frá hlaupum í nokkra daga. Síðan þá hefur verkurinn alltaf verið þarna á sveimi en sjaldan verið til mikilla óþæginda nema eftir langar setur í bíl eða í öðrum vondum sætum. Ég er búinn að vera reglulega í sjúkraþjálfun út af þessu meira og minna í rúmt ár, að vísu með löngu hléi þegar endurhæfing brotinnar axlar var sett í hærri forgang. Sjúkraþjálfunin var til bóta, en náði einhvern veginn ekki að rótum vandans, enda ekki ljóst hverjar þær væru.
Þann 20. janúar urðu sem sagt þáttaskil, því að þá gat ég ekki leitt þetta hjá mér lengur. Og 20. febrúar urðu önnur þáttaskil. Þá hafði segulómun leitt í ljós að ég var með brjósklos á milli hryggjarliða L5 og S1, þ.e.a.s. alveg neðst í hryggnum á mörkum neðsta lendarliðs og spjaldhryggs. Þar með var ég kominn með nýtt verkefni fyrir næstu vikur.
Hvers vegna?
Mannslíkaminn er flókið tæki og því er varhugavert að fullyrða eitthvað um orsakatengsl. Reyndar er ekki einu sinni hægt að fullyrða að verkurinn sem sló mig út af laginu 20. janúar stafi beinlínis af þessu brjósklosi en ekki einhverju öðru. En líkurnar eru verulegar og því lít ég svo á að brjósklosið sé sökudólgurinn, alla vega á meðan ekkert annað kemur í ljós. Og orsökin liggur að öllum líkindum ekki í hlaupum, heldur í löngum setum í misgóðum sætum, krydduðum með röngum stellingum og ónógum vöðvastyrk. Þegar maður hleypur verður hryggurinn fyrir höggum í hverju skrefi. Þegar allt er með felldu styrkja þessi högg bæði bein, brjósk og vöðva, en þegar skaðinn er skeður geta þau gert illt verra.
Hvað gerði ég vitlaust?
Eins og ráða má af textanum hér að framan tel ég mig hafa gert þau mistök að sitja of mikið og í röngum stellingum. Og ég hef heldur ekki verið nógu duglegur í styrktaræfingum gegnum árin. Mér finnst einfaldlega skemmtilegra að hlaupa. Skemmtilegast finnst mér að hlaupa langt og í vetur voru löngu hlaupin fyrirferðamikil. Ég var reyndar frekar duglegur í ræktinni líka, en því til viðbótar hefði ég betur lagt meiri áherslu á styttri og hraðari hlaup. Það sem ég gerði í vetur skipti þó kannski ekki öllu máli. Í fyrravetur sat ég t.d. löngum við á kvöldin í vondum stól í lokahnykk Fjallvegahlaupabókarinnar. Það var líklega dropinn sem fyllti mælinn, þó að ég hafi svo sem þraukað lengi eftir það.
Hvað er til ráða?
Af myndum má ráða að brjósklosið mitt sé vægt, enda finn ég svo sem ekkert fyrir því dags daglega, nema þá helst eftir langar setur og í miklu hnjaski. Svona brjósklos á að geta lagast af sjálfu sér, en maður þarf auðvitað að hafa fyrir því eins og flestu öðru í lífinu. Annars væri ekkert gaman.
Það sem ég geri í málinu er aðallega fernt:
-
Sjúkraþjálfun
Ég er svo heppinn að hjá Sjúkraþjálfun Halldóru í Borgarnesi starfa bestu sjúkraþjálfarar í heimi. Halldóra hefur sinnt mér ótrúlega vel í öllum mínum stoðkerfisraunum síðustu ár. Hún er sjálf keppnis-manneskja og veit hvernig hugur og líkami svoleiðis fólks vinna saman. Og nú, þegar rót vandans virðist fundin, verður meðferðin enn hnitmiðaðri en ella. - Bakpúði
Ég fer ekki lengur einn í bíl eða einn á fundi. Bakpúðinn minn er alltaf með. Þetta er lítill púði sem Þorkell sonur minn gaf mér í jólagjöf til að hafa við bakið. Þorkell er gleggri á líkamsstöður fólks en aðrir sem ég þekki og var fyrir löngu búinn að taka eftir því að sveigjan í bakinu á mér er ekki alveg eins og best verður á kosið. Bakpúðinn hjálpar til við að halda þessu öllu í réttri stöðu. - Styrktaræfingar
Ég hef aldrei á ævinni verið duglegri í styrktaræfingum en síðustu vikur. Mæti í ræktina þrisvar til fimm sinnum í viku og geri mitt besta til að byggja upp þá vöðva sem líklegastir eru til að verða mér að liði. Styrktaræfingar eru algjörlega ómissandi hluti af þjálfun hlaupara, ekki síst hlaupara á mínum aldri þar sem uppbygging og viðgerðir eru farnar að ganga hægar en áður. -
Flothlaup
Síðustu vikur hefur oft sést til mín í sundlauginni í Borgarnesi, hlaupandi í djúpu lauginni með þar til gert flotbelti. Svona hlaup, hversu skemmtileg sem þau annars eru, hjálpa manni að viðhalda hlaupaforminu að einhverju leyti, án þess að hryggurinn þurfi að standa í einhverju stappi.
Ég gæti svo sem nefnt fimmta atriðið líka, en það er að sitja sem minnst og aldrei lengi í einu. Reyndar hef ég staðið við skrifborðið mitt í vinnunni alla daga í meira en ár. Það er til bóta, enda er miklu minni þrýstingur á hryggjarliðunum þegar maður stendur en þegar maður situr. En þetta dugar engan veginn eitt og sér. Málið snýst nefnilega ekki bara um að sitja eða standa, heldur um að vera ekki of lengi í einu í sömu stellingu. Kyrrseta er óvinur líkamans og kyrrstaða er það líka.
Hlaupamarkmið ársins
Í upphafi þessa árs setti ég mér fimm hlaupamarkmið, rétt eins og ég er alltaf vanur að gera þegar nýtt ár heilsar. Eins og lesa má um í þar til gerðum pistli eru markmiðin þessi:
- 90 km ofurhlaup í Svíþjóð
- Þrjú maraþon
- A.m.k. 5 fjallvegahlaup
- A.m.k. 28 styrktaræfingar frá áramótum til aprílloka
- Gleðin með í för í öllum hlaupum
Í dag eru þessi markmið í fríi. En þau eru ekki úr sögunni. Ultravasan-90 í Svíþjóð er stærsta einstaka markmiðið, en það hlaup verður ekki fyrr en 18. ágúst nk. Tíminn verður að leiða í ljós hvernig mér gengur að undirbúa það, en ég hef enga ástæðu til að halda annað en það muni allt saman hafast með þolinmæði og skynsamlegri hegðun. Þetta tekur bara sinn tíma, hver sem „sinn tími“ er. Hins vegar er afar ólíklegt að ég hlaupi þrjú maraþon á árinu. Úr því sem komið er verður sjálfsagt komið vel fram á sumar þegar ég verð kominn í stand fyrir svoleiðis – og maraþonhlaup þurfa sitt pláss í dagskránni.
Fjallvegahlaupin eru í bið og ég er reyndar ekkert farinn að skipuleggja þau. Fyrst langar mig að sjá fyrir endann á því ferli sem ég er í þessa dagana.
Styrktaræfingamarkmiðið er innan seilingar, því að þegar þetta er skrifað er ég búinn með 27 slíkar frá áramótum. Markmiðinu um gleðina verður svo líklega auðveldast að ná af þeim öllum. Síðustu vikur hafa minnt mig á að það er ekkert sjálfsagt að geta hlaupið og þess vegna held ég að þegar ég get það á nýjan leik verði gleðin enn nær en áður.
Lokaorð
Hlaupin hafa verið mjög stór hluti af lífi mínu síðustu 11 ár, já og reyndar síðustu 50 ár ef allt er talið. Þess vegna viðurkenni ég að mér finnst mikið vanta þegar ég get ekki hlaupið. En þetta er engin stórhríð. Bara él. Ég er heldur ekkert heltekinn af verkjum eins og títt er með þá sem eru að kljást við brjósklos. Þetta er vægt tilfelli og ég finn t.d. aldrei fyrir neinu í liggjandi stöðu, sem þýðir m.a. að ég sef vel. Ég hef enga ástæðu til að vera bitur, en ég hef ríka ástæðu til að vera þakklátur. Þessar vikur eru lærdómsríkar og gefa mér tækifæri til að skerpa á aðalatriðunum. Kannski bæti ég sjötta hlaupamarkmiði ársins við hin fimm, nefnilega að þetta verði brjósklos til batnaðar.
Filed under: Hlaup | Tagged: Brjósklos, endurhæfing, flothlaup, meiðsli, styrktaræfingar |
[…] eftir 20. janúar í smáatriðum hér, enda hef ég gert henni ærin skil í þremur bloggpistlum (Brjósklos til batnaðar? 11. mars 2018, Sjúkrasaga Stefáns jan-sept 23. september og Sjúkrasaga Stefáns sept-des 4. […]