• Heimsóknir

  • 119.600 hits
 • ágúst 2022
  S M F V F F S
   123456
  78910111213
  14151617181920
  21222324252627
  28293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Fyrsta Pósthlaupið að baki

Síðasta laugardag tók ég þátt í nýju utanvega-hlaupi, þ.e.a.s. Pósthlaupinu sem nú var haldið í fyrsta sinn. Íslandspóstur stóð fyrir þessum viðburði, sem var haldinn til heiðurs landpóstunum sem lögðu líf sitt að veði við að koma bréfum og bögglum milli byggða fyrr á árum. Hlaupið hófst við Staðarskála, þar sem minnismerki um landpósta stendur, og því lauk við pósthúsið í Búðardal 50 km síðar. Þar sem ég vissi að ég yrði ekki búinn að ná mér nógu vel eftir langt meiðslatímabil til að hlaupa 50 km, ákvað ég að láta hálfa leiðina nægja. Það hlaup var ræst við Kirkjufellsrétt í Haukadal, en þaðan voru um 26 km að endamarkinu í Búðardal. Og í stuttu máli gekk þetta hlaupaævintýri mitt vel. Ég komst alla vega heill á leiðarenda og veðrið og umgjörðin sem Íslandspóstur hafði skapað með hjálp heimamanna gerðu þetta að einkar ánægjulegri upplifun. Árangurinn var vissulega í samræmi við hlaupaheilsuna og því ekki alveg sá sem ég myndi óska mér, en á leiðinni fann ég samt merki um framfarir sem auka mér bjartsýni fyrir næstu hlaupaverkefni.

Hvað er málið með landpósta?
Landpóstar skipta mig töluverðu máli. Ég er auðvitað allt of ungur til að muna eftir póstunum sem fóru ríðandi með hnakktöskur og póstlúðra á milli byggðarlaga, en ég ólst upp við sögur af þessum mönnum, svo sem Kristmundi pósti sem reið gjarnan norður Krossárdal áður en birti af degi. Sumum þótti skrýtið að hann skyldi velja að vera á ferðinni í myrkri, en honum fannst bara svo gott að „hafa birtuna í hönd“. Svo voru Söguþættir landpóstanna líka til í bókahillunum heima, en þetta voru að mig minnir þrjú bindi með hreysti- og hrakfarasögum af landpóstum í hinum ýmsu landshlutum. Seinna notaði ég þessar bækur sem uppsprettu hugmynda og heimilda í fjallvegahlaupaverkefninu mínu, en þar hef ég m.a. lagt mig fram um að „þefa uppi“ gamlar póstleiðir og hlaupa þær. Ofan á þetta bættist svo þríleikur Jóns Kalmans Stefánssonar, sem að hluta til fjallar um póstferð norðan Djúps, vissulega skáldverk en samt svo raunverulegt að manni verður beinlínis kalt við lesturinn.

Allt það sem nefnt er hér að framan gerði það að verkum að ég hlaut að taka þátt í þessu pósthlaupi. Þar að auki aðstoðaði ég örlítið við að teikna það upp í byrjun og eftir það varð ekki aftur snúið.

Undirbúningurinn
Ég hef áður skrifað eitthvað um hlaupavandræði síðustu mánuða, en í stuttu máli gat ég eiginlega ekki hlaupið frá því snemma í febrúar og til júníloka. Vandamálið birtist í verkjum í hnjám, en hnjáliðirnir eru samt í fínu lagi. Hins vegar hafa vöðvarnir fyrir ofan hnén misst of mikinn styrk, væntanlega annars vegar vegna öldrunar og hins vegar vegna þjálfunarleysis. Þetta er hægt að laga með réttum styrktaræfingum, en til þess þarf bæði tíma og þolinmæði. Ég á svo sem nóg af hvoru tveggja, en ég þarf að ganga meira á þanna forða.

Þegar margir mánuðir líða án markvissra hlaupaæfinga dettur hlaupaformið niður. Um þessar mundir eru það því ekki endilega hnén sem hindra árangur, heldur líka almenn þreyta í hinum ýmsu kerfum líkamans. Þar er miðtaugakerfið ekki undanskilið, enda er ekki nóg að hafa vöðva ef taugakerfið er ekki í þjálfun til að stjórna þeim.

Klukkutímarnir fyrir hlaup
Ég var staddur á Hólmavík helgina sem hlaupið fór fram. Þaðan ók ég suður í Búðardal í fylgd Birkis bónda í Tröllatungu, sem hefur verið einn minn helsti hlaupafélagi síðan 2008 þegar við hlupum saman fyrst. Við vorum mættir tímanlega í Búðardal og fengum far þaðan að rásmarkinu í Haukadal. Minnisstæðasta atvikið í þeirri ferð var þegar við mættum Jósep Magnússyni, hlaupafélaga mínum úr Borgarnesi, sem var þegar þarna var komið sögu orðinn langfyrstur í 50 km hlaupinu sem hafði verið ræst við Staðarskála fyrr um morguninn. Sú forysta átti bara eftir að aukast.

Áætlun dagsins
Ég mæti alltaf með einhverja áætlun í hlaup, jafnvel þótt ég viti að árangurinn verði lakari en mig langar til. Að þessu sinni var áætlunin lausleg. Ég ætlaði fyrst og fremst að hlaupa þetta á sem jöfnustu álagi, aðeins meira álagi en á æfingunum dagana og vikurnar á undan. Ef allt gengi upp gerði ég mér vonir um að þetta gæti skilað lokatíma nálægt 2:18:40 klst. E.t.v. lítur þetta út fyrir að vera óþarflega nákvæm áætlun fyrir leið sem maður hefur aldrei hlaupið áður, en þetta er einfaldlega tíminn sem það tekur að hlaupa 26,0 km ef hver km tekur 5:20 mín. Það er dálítið meiri hraði en ég hafði verið að hlaupa á á æfingum dagana og vikurnar á undan. Ég gerði hins vegar engar áætlanir um millitíma, enda svo sem ekkert við að miða. Auk heldur var mér í raun alveg sama hver lokatíminn yrði. Mér finnast hlaup bara skemmtilegri ef maður hefur eitthvert tímasett markmið.

Ég hafði ekki kynnt mér leiðina til hlítar, en taldi þó sýnt að henni mætti í grófum dráttum skipta í tvennt eftir undirlagi og erfiðleikastigi. Fyrstu 16 km skyldu hlaupnir eftir vegi áleiðis niður Haukadal og á þeim kafla lækkar landið um u.þ.b. 60 m. Það hlaut að verða tiltölulega auðvelt. Eftir að komið væri yfir aðalveginn yrði undirlagið erfiðara, en þar átti að hlaupa í gróinni vegrás og síðan á reiðvegi sem gæti verið svolítið laus í sér. Á þeim kafla er líka meira um hæðir og hóla. Síðustu 10 km hlutu því að verða eitthvað hægari en fyrri 16, jafnvel þótt lækkunin niður að Búðardal myndi flýta fyrir. Þjálfunarleysið myndi líka eflaust segja til sín á seinni hlutanum frekar en þeim fyrri.

Hlaupið sjálft – fyrri hluti
Mér leið vel í upphafi hlaups. Var þá líka búinn að taka létt 2 km upphitunarskokk með Birki til að ná úr mér stirðleikanum sem annars háir mér alltaf í upphafi hlaupa núorðið. Var fljótlega dottinn inn í þægilegan hlaupatakt, eitthvað í námunda við 5:15 mín/km, og leið eins og ég ætti að geta haldið því nokkuð lengi. Fyrstu kílómetrana var ég oftast í 7.-10. sæti eða þar um bil, sem mér fannst líka bara fínt. Og lengst af sá ég Birki 100-200 m á undan mér.

Hlaupið nýbyrjað. Brúin yfir Villingadalsá framundan. Og ég einhvers staðar þarna framarlega í ljósgrænum bol. (Ljósm. Pósturinn).

Fyrsta drykkjarstöðin birtist eftir rúm 8 km, aðeins fyrr en ég hafði reiknað með. Þar náði ég að ræða aðeins við Birki, auk þess sem ég staldraði við til að ná að sturta í mig tveimur glösum af vatni. Ákvað nefnilega að bera ekkert vatn með mér í þetta skiptið. Í þessum tilfæringum missti ég nokkra fram úr mér og var um tíma kominn niður í 15. sætið. Reyndar skipti röðin mig alls engu máli, því að þarna var ég bara að keppa við sjálfan mig. En auðvitað finnst manni ganga ögn verr þegar aðrir taka að streyma fram úr.

Fátt bar til tíðinda á þeim kafla sem eftir var niður Haukadalinn. Mér tókst lengst af að halda svipuðum hraða, þó að ég missti reyndar einhverjar sekúndur í sakleysislegum brekkum sem þarna eru. Um leið breikkaði bilið í næsta hóp – og Birkir var við það að hverfa. Þegar þarna var komið sögu var ég á að giska í 10.-12. sæti og ekkert nema gott um það að segja. Og veðrið lék við okkur; hægur og mildur vindur, sólarglæta annað slagið og örlítill úði stund og stund. Þetta var góður dagur.

Þegar 16 km voru að baki og ég kominn niður á aðalveginn sýndi klukkan 1:25:05 klst, sem þýddi að ég hafði hlaupið hvern km á u.þ.b. 5:19 mín. Þar með vissi ég að lokatíminn yrði lengri en 2:18:40 klst. Að vísu myndi ég ná því markmiði ef ég héldi sama meðalhraða þessa 10 km sem eftir voru, en erfiðara undirlag og meiri þreyta myndu fyrirsjáanlega koma í veg fyrir það. En mér var svo sem sama. Nú var bara að reyna að halda svipuðu álagi áfram, hver sem hraðinn yrði.

Hlaupið sjálft – síðari hluti
Mér fannst undirlagið í vegrásinni sérlega erfitt. Þarna var búið að slá braut fyrir hlauparana en í rótinni voru bæði snarrótarbrúskar og gömul sina, þannig að mér fannst þetta líkast því að hlaupa á dýnu. Og svoleiðis hlaup henta mér afar illa eins og staðan er á fótunum. En þetta er auðvitað bara hluti af þeirri upplifun sem maður vill fá í utanvegahlaupi. Sjálfsagt er ég betri í malbikshlaupum en utanvegahlaupum eins og staðan er í andránni, en samt kýs ég utanvegahlaupin frekar. Þetta á að vera erfitt.

Hlaupahraðinn datt niður í 6:20 mín/km í snarrótinni og eftir þetta voru fæturnir of þreyttir til að hlýða mér almennilega. Þetta snýst jú um samspil vöðva og taugakerfins eins og fyrr var nefnt. Eftir snarrótina lá leiðin um reiðveg og á slíkum vegum er oft mikið um lausa steina sem eru erfiðir fyrir þreytta fætur. Og þegar halla tók undan fæti var ekki lengur styrkur til staðar til að auka hraðann neitt af gagni.

Hjartsláttartíðni í hlaupinu mínu skv. Strava.

Línurit yfir hjartsláttartíðnina í hlaupinu er á vissan hátt lýsandi fyrir ástandið. Á því má sjá hvernig púlsinn lækkar þegar undirlagið verður erfiðara, þ.e. á 16. kílómetranum. Hjarta- og æðakerfið virðist nefnilega tilbúið í svona hlaup – og þegar fæturnir breytast í brauðfætur getur hjartað tekið því rólega. Toppurinn í lok hlaupsins stafar svo væntanlega af því að þá hef ég tekið á öllu mínu til að sýnast léttari í markinu.

Síðustu 2-3 km hlaupsins voru einkar skemmtilegir, þ.e.a.s. kaflinn eftir að komið var yfir Laxá rétt hjá Búðardal. Þarna var tekinn krókur niður að sjónum og komið inn í Búðardal í fjörunni. Það eru einmitt svona kaflar sem gera utanvegahlaup að því sem þau eiga að vera. En fyrir þreytta fætur er þetta auðvitað enginn dans – og í þokkabót var ég farinn að finna aðkenningu að krömpum í lærum og kálfum. Kramparnir náðu aldrei yfirhöndinni, en um leið og tilfinningin er komin fer heilinn að hræðast allar hraðaaukningar.

Í stuttu máli
Til að gera langa sögu stutta hljóp ég síðustu 10 km þessa hlaups á 6:32 mín/km að meðaltali, sem segir e.t.v. sína sögu um hlaupaheilsuna. En hnén stóðu alveg fyrir sínu. Það var bara kerfið í heild sem réði ekki alveg við þetta verkefni, ekki frekar en við var að búast miðað við sögu síðustu mánaða. Ég kom í mark í 11. sæti (af 35) og tíminn var 2:30:35 klst. Samkvæmt úrinu mínu var vegalengdin nákvæmlega 26,44 km og meðaltími á km því 5:42 mín, en ekki 5:20 mín eins og ég hafði látið mig dreyma um. En ég var samt mjög sáttur við þetta allt saman. Aðalatriðið var að ég komst alheill og glaður í markið – og svo óskemmdur að ég gat strax farið að láta mig hlakka til næstu hlaupaverkefna.

Með hlaupafélögunum Jósep og Birki í blíðunni í Búðardal eftir hlaup. (Ljósm. Ingveldur Ingibergsdóttir).

Eftir hlaup
Móttökurnar í Búðardal voru í senn góðar og glaðlegar, nægar veitingar undir vegg Pósthússins og sólin nógu heit til að hægt væri að ráfa langa stund um marksvæðið og spjalla við hlaupavini án þess að bæta á sig fötum. Þarna hitti ég m.a. hlaupafélagana Birki og Jósep, sem báðir höfðu verið snöggtum léttari á fæti en ég þennan dag. Jósep var rúmum 50 mín á undan næsta manni í 50 km hlaupinu – og Birkir hafði unnið sig framar í röðina jafnt og þétt og endað á að ná 3. sæti í 26 km. Þarna var auðvitað líka fleira fólk, þ.á m. það starfsfólk Íslandspósts sem hafði lagt mest af mörkum til að gera þennan dag jafn ánægjulegan og raun ber vitni. Og eins og ævinlega eftir svona hlaup flæddi þakklætið um æðarnar. Þegar ég var að byrja að keppa í hlaupum fyrir sléttum 50 árum var ég yfirleitt óánægður með árangurinn minn og fannst að ég hefði átt að gera betur. Hugsanlega örlar stundum enn á þeirri tilfinningu, en hún hverfur algjörlega undir ábreiðu þakklætis yfir því að geta enn verið með í þessu, geta hitt allt þetta skemmtilega fólk og geta enn notið þeirra stunda sem hlaupin gefa mér.

Takk þið öll sem gerðuð þetta Pósthlaup að veruleika og takk þið öll sem hafið lagt ykkar af mörkum á síðustu vikum, mánuðum, árum og áratugum til að ég gæti skemmt mér svona vel þennan dag.

Eitt svar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: