• Heimsóknir

  • 104.802 hits
 • desember 2019
  S M F V F F S
  « Júl    
  1234567
  891011121314
  15161718192021
  22232425262728
  293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Leiðtogastéttin og almúginn

Fyrir nokkrum árum heyrði ég orðið „stjórnmálastétt“ í fyrsta sinn. Þá vissi ég að okkur hafði borið af leið, því að um leið og stjórnmálamenn eru farnir að tilheyra annarri stétt en almenningur, þá er lýðræðið í hættu.

Forseti Íslands er ekki stjórnmálamaður, eða á alla vega ekki að vera það, í það minnsta ekki á meðan hann sinnir forsetaembættinu. Forseti Íslands er leiðtogi. En þar er sama hætta uppi og í stjórnmálunum, að um leið og til verður eitthvað sem hægt er að kalla „leiðtogastétt“, þá er lýðræðið í hættu.

Ég vil að Þóra Arnórsdóttir verði næsti forseti Íslands. Fyrir því eru margar ástæður, en ein sú mikilvægasta er að Þóra tilheyrir hvorki „stjórnmálastéttinni“ né „leiðtogastéttinni“. Hún er bara venjuleg móðir á venjulegu heimili í venjulegri lífsbaráttu. Sem slík hefur hún alla burði til að skilja aðstæður venjulegs fólks, njóta trausts þess og geta talað máli þess.

Kjósum Þóru Arnórsdóttur sem forseta okkar allra 30. júní nk.

 

Hlutdrægt hlutleysi?

Þóra Arnórsdóttir opnaði kosningamiðstöðina sína í dag. Fjöldi manns var þarna saman kominn í góða veðrinu og líklega varð enginn fyrir vonbrigðum með ræðu frambjóðandans. Þar komu margir áhugaverðir punktar fram. Fjölmiðlar gerðu þessu allgóð skil, í það minnsta mbl.is, visir.is og Stöð 2. Hins vegar vakti það athygli margra að ekkert var minnst á þennan viðburð í kvöldfréttum RÚV.

Eðlilega þarf RÚV að gæta fyllsta hlutleysis í umfjöllun sinni um forsetaframbjóðendur. Í þetta sinn er starfsmönnum þar á bæ þó sérstakur vandi á höndum, þar sem frambjóðandinn Þóra starfaði þar til skamms tíma eins og flestum er kunnugt. En þá vaknar sú spurning hvort hlutleysið geti gengið svo langt að jaðri við hlutdrægni, þ.e.a.s. hvort starfsfólk RÚV gæti þess sérstaklega að segja ekki frá viðburðum í kosningabaráttu Þóru, jafnvel þótt tíðindum sem tengjast meðframbjóðendum hennar séu gerð þokkaleg skil. Spurningin verður jafnvel enn áleitnari eftir innlit á forsetakosningasíðu RÚV, (sjá mynd neðst í þessum pistli).

Svona spurningum hlýtur náttúrulega hver að svara fyrir sig, því að það samræmist varla hlutleysisstefnu RÚV að standa í rökræðum um þetta. Sömuleiðis hlýt ég að svara þessari spurningu fyrir sjálfan mig. Svarið er tvíþætt:

 1. Ég hef engar áhyggjur af meintu hlutdrægu hlutleysi RÚV. Þar á bæ vinnur fagfólk sem gerir sitt besta í þessu máli sem öðrum.
 2. Auðvitað skiptir umfjöllun fjölmiðla um forsetaframbjóðendur einhverju máli. En Þóra kynnir sig best sjálf. Það mun hún m.a. gera í Landnámssetrinu í Borgarnesi annað kvöld, þriðjudagskvöldið 29. maí kl. 20:00. Það verður fyrsti fundur hennar með kjósendum eftir fæðingu dótturinnar og sá fyrsti eftir vel heppnaða opnun kosningamiðstöðvarinnar. Hvet fólk til að mæta snemma og ná góðum sætum á söguloftinu! Svo er líka upplagt að skoða kosningasíðunna hennar, www.thoraarnors.is.

Kannski vakna fleiri spurningar, t.d. hvers vegna ég sé einlægur stuðningsmaður Þóru Arnórsdóttur. Ástæðan er í stuttu máli sú, að af öllu því góða fólki sem gefið hefur kost á sér treysti ég henni best til að fá okkur til að rétta úr bakinu og horfa fram á veginn í stað þess að hjakka í sama farinu. Ég treysti henni best til að vera tákn sameiningar í stað sundrungar. Sjálfsagt skrifa ég meira um þetta síðar, t.d. eitthvað um leiðina yfir á fljótsbakka framtíðarinnar.

Skjámynd af kosningavef RÚV 28. maí 2012.

Þurfa Kópavogsbúar meirihluta?

Bæjarstjórnarfólk í Kópavogi leggur mikið á sig þessa dagana við að koma saman nýjum meirihluta eftir að meirihluti bæjarstjórnar „sprakk“ fyrir nokkru síðan. En er allt þetta erfiði nauðsynlegt? Ég held ekki. Kópavogsbúar geta að mínu mati vel lifað án þess að formlegur meirihluti sé starfandi í bæjarstjórn. Og tíma bæjarstjórnarfólks væri betur varið í margt annað en meirihlutaviðræður. Sjálfsagt bíða mörg mál afgreiðslu – og ekkert því til fyrirstöðu að afgreiða þau bara strax.

Stórlega ofmetið fyrirbæri
Ég er almennt þeirrar skoðunar að formlegur meirihluti í sveitarstjórnum sé stórlega ofmetið fyrirbæri. Í sveitarstjórnarlögum er hvergi minnst á þetta fyrirbæri, þannig að ekki kemur krafan um meirihlutaviðræður þaðan. Mér er næst að halda að sú trú að nauðsynlegt sé að mynda meirihluta eigi annað hvort rætur í einhvers konar minnimáttarkennd sem fær menn til að reyna að líkja eftir stóra bróður, þ.e.a.s. Alþingi, eða þá í tiltölulega ómeðvitaðri viðleitni til að taka umræðu um það sem máli skiptir út úr sviðsljósinu. Þá er hægt að ná niðurstöðu í helstu mál á „sellufundum“ bak við luktar dyr, en gera sveitarstjórnarfundina að málfundum þar sem menn geta sýnt almenningi mælsku sína.

Lýðræðishalli
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum gildir einfaldur meirihluti við afgreiðslu velflestra mála á sveitarstjórnarfundum. Þar stendur hins vegar hvergi að menn þurfi að vera búnir að afgreiða mál áður en fundirnir hefjast með því að ákveða fyrirfram og jafnvel til langs tíma hvernig atkvæði skuli falla. Auðvitað er ekkert í lögunum heldur sem bannar formlegt meirihlutasamstarf. Mér finnst bara ástæða til að gjalda varhug við þeim lýðræðishalla og skorti á gagnsæi sem getur falist í ákvörðunum meirihluta utan sveitarstjórnarfunda.

Hvernig rekur maður þá bæjarstjóra?
Nú, en hvernig eiga menn þá að koma sér saman um hvort eða hvernig eigi að ráða eða reka bæjarstjóra, en það skilst mér að hafi sett þessa meirihlutahringekju af stað í Kópavogi? Svarið við þessu er ekkert flókið, enda stendur það nokkuð skýrum stöfum í sveitarstjórnarlögunum. Sveitarstjórn ræður einfaldlega framkvæmdastjóra – og rekur hann þá væntanlega líka ef ástæða þykir til. (Það stendur hvergi að meirihlutinn eigi að gera það, hvað þá einstakir sveitarstjórnarmenn)! Þetta þýðir að ef einhvern í bæjarstjórninni langar til að bæjarstjórinn verði rekinn, þá ber sá hinn sami bara upp tillögu um það. Tillagan er rædd á fundi og síðan tekið fyrir í atkvæðagreiðslu þar sem meirihluti atkvæða ræður. Ef tillagan er felld, þá situr bæjarstjórinn áfram og einhverjir bæjarstjórnarmenn verða að játa sig sigraða, rétt eins og gerist eftir flestar atkvæðagreiðslur. Sé tillagan hins vegar samþykkt eru tillögur um það hvernig skuli staðið að ráðningu nýs bæjarstjóra og síðan um það hver skuli ráðinn afgreiddar á sama hátt.

Við hvað eru menn hræddir?
Ég hef aldrei skilið hvers vegna fólk þarf að vera svona hrætt við að ræða og afgreiða mál fyrir opnum tjöldum án þess að vita niðurstöðuna fyrirfram. Þetta minnir á orð sem ónefndur oddviti austur á landi á að hafa látið falla þegar honum fundust menn vera orðnir heldur langorðir á hreppsnefndarfundi: „Eigum við ekki að fara að koma okkur að því að samþykkja það sem búið var að samþykkja að samþykkja hér í kvöld“?

(Sjá einnig bloggpistil frá 21. júní 2010).

Stóra saltmálið – Opinber rannsókn óskast

Ég á svolítið erfitt með að ná áttum í stóra saltmálinu. Þess vegna finnst mér gott að búa mér til lista yfir það sem ég veit um málið:

 1. Ölgerðin flutti inn iðnaðarsalt sem ekki var ætlað til matvælaframleiðslu.
 2. Ölgerðin seldi þetta salt til fjölmarga matvælaframleiðslufyrirtækja sem notuðu saltið í framleiðsluna sína.
 3. Ölgerðin komst upp með þetta árum saman – og hin fyrirtækin líka.
 4. Þetta salt var e.t.v. skaðlegra umhverfi og heilsu en annað salt.
 5. „Gert er gert og étið það sem étið er“. Sá skaði sem kann að hafa skeð verður ekki afturkallaður.

Það sem maður veit skiptir sjaldnast meginmáli. Það sem maður veit ekki er oftast mikilvægara. Svo er einmitt í þessu máli. Þess vegna finnst mér gott að búa mér til lista yfir það sem ég veit ekki um málið:

 1. Hverjir vissu að um væri að ræða salt sem ekki væri ætlað til matvælaframleiðslu?
 2. Hvenær vissu þeir það?

Málið er grafalvarlegt. Mesti alvarleikinn felst þó ekki í hugsanlegum heilsufarsáhrifum og heldur ekki í því að slagorðið „Egils salt og appelsín“ gæti orðið langlíft. Mesti alvarleikinn felst í því að við búum við ónýtt kerfi. Svona lagað á einfaldlega ekki að geta gerst. Hér birtist enn það grunnmein sem leiddi okkur inn í hrunið 2008.

Það er sjálfsögð krafa að gerð verði opinber rannsókn á þessu saltmáli með það að meginmarkmiði að fá svör við spurningunum tveimur hér að framan. Hafi einhverjir brugðist skyldum sínum með því að búa yfir þessari vitneskju en bregðast ekki við, þurfa þeir að sæta ábyrgð lögum samkvæmt. Þannig komum við í veg fyrir að svona „aulagangur“ endurtaki sig.

(Myndin með þessum pistli er tekin af heimasíðu RÚV).

Gleðidagur: Nú fæ ég loksins að vita það!

Í gær tók loksins gildi Reglugerð nr. 1038/2010 um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs, þ.e.a.s. hvað matvælin varðar. Upphaflega átti reglugerðin öll að taka gildi 1. september sl., en þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frestaði gildistöku matvælahlutans á síðustu stundu fram til 1. janúar 2012, að því er virðist vegna þrýstings frá Jóni Geraldi Sullenberger, eiganda matvöruverslunarinnar Kosts og einhverjum fleiri innflytjendum og seljendum matvæla frá Bandaríkjunum.

Upplýsingar en ekki boð og bönn!
Ég held að einhverjir hafi misskilið þýðingu umræddrar reglugerðar. Málið snýst alls ekki um að banna sölu á erfðabreyttum matvælum, heldur aðeins um að upplýsa neytendur um það hvort tiltekin matvæli innihaldi erfðabreytt efni. Málið er því réttlætismál fyrir neytendur, hvort sem þeir vilja erfðabreytt á diskinn sinn eða ekki. Allir hljóta að vilja vita hvað þeir láta ofan í sig.

Íslendingar ekki lengur eftirbátar annarra Evrópuþjóða
Með gildistöku reglugerðarinnar hafa íslenskir neytendur loksins öðlast sama rétt og neytendur í öðrum löndum Evrópu hvað merkingar og rekjanleika erfðabreyttra matvæla varðar. M.a. þess vegna finnst mér gærdagurinn gleðidagur!!!

En samt finn ég engar merkingar
Það veldur mér reyndar pínulitlum áhyggjum að í könnunarferð í Nettó í Borgarnesi í dag fann ég ekki eina einustu matvöru sem innihélt erfðabreytt efni, svo séð væri. Þetta getur átt sér þrjár mismunandi skýringar:

 1. Matvörurnar sem ég skoðaði voru raunverulega allar lausar við erfðabreytt efni.
 2. Framleiðendur og seljendur hafa svikist um að merkja vörurnar.
 3. Gildistöku reglugerðarinnar hefur verið frestað aftur án þess að ég tæki eftir því.

Ég þykist nú þegar hafa útilokað þriðju og síðustu skýringuna með því að fletta í gegnum allar reglugerðir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins síðustu mánuði og til dagsins í dag. Hinar tvær þykja mér báðar ósennilegar. Ég veit með öðrum orðum ekki alveg hvað er hér á seyði.

Hvað getum við gert?
Neytendur sem hafa rökstuddan grun um að matvæli  sem ekki eru merkt samkvæmt framanskráðu innihaldi engu að síður erfðabreytt efni, ættu að biðja framleiðendur eða seljendur að leggja fram gögn sem staðfesta fjarvist slíkra efna, í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Væntanlega geta heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunar liðsinnt fólki hvað þetta varðar, en þessar stofnanir fara með eftirlit með því að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt.

Meira lesefni:
Bloggpistillinn Á morgun fæ ég að vita það 31. ágúst 2011
Bloggpistillinn Ísland er land þitt 1. september 2011

Lægri virðisaukaskatt á umhverfisvænar vörur

Evrópuþingið vill að umhverfisvænar vörur beri lægri virðisaukaskatt en aðrar vörur, en ályktun þessa efnis var samþykkt í þinginu 13. október sl. með 521 atkvæði gegn 50. Þess er að vænta að þessi nýja áhersla verði tekin upp í Áætlun ESB um framtíð virðisaukaskatts, sem ætlað er að líta dagsins ljós fyrir árslok.

Íslendingar hafa löngum verið eftirbátar nágrannalandanna í umhverfismálum. Hér gegnir þó öðru máli, því að í tillögum nefndar Alþingis um eflingu græns hagkerfis sem kynntar voru í lok september, segir m.a.: „Við endurskoðun laga um virðisaukaskatt verði vörur og þjónusta með vottuð umhverfismerki, svo og lífrænt vottaðar vörur, settar í lægra virðisaukaskattsþrep en aðrar vörur til sömu nota“, (Tillaga nr. 30).

Kannski eru bara bjartir tímar framundan! 🙂

(Sjá frétt á heimasíðu Evrópuþingsins 13. okt sl).

Grænt vor í dönskum stjórnmálum

Grænt vor virðist vera að renna upp í dönskum stjórnmálum. Í málefnasáttmála ríkisstjórnarinnar sem tók við völdum þar í landi sl. mánudag, er lögð gríðarleg áhersla á umhverfismál og þau tækifæri sem þar leynast til að auka atvinnu og bæta samfélagið. Þetta endurspeglast m.a. í orðum Ídu Auken, sem tók við ráðuneyti umhverfismála í Danmörku sl. mánudag: „Það mikilvægasta er að gera Danmörku aftur að grænu landi. Við eigum að vera það land í heiminum sem sýnir að atvinnutækifæri felast í því að leita lausna á umhverfismálum.“

 Málefnasáttmáli dönsku ríkisstjórnarinnar er 80 bls. að stærð, eða nánar tiltekið 72 ef titilsíður og saurblöð eru undanskilin. Þessar síður hafa að geyma ítarlegar lýsingar á helstu markmiðum og verkefnum stjórnarinnar næstu misserin. Titill sáttmálans er Et Danmark der står sammen, sem segir út af fyrir sig nokkuð um andann í plagginu. Af þessum 72 bls. er fjallað sérstaklega um áherslur í umhverfismálum á 8 síðum undir yfirskriftinni Grøn omstilling, auk þess sem umhverfisáherslan fléttast með ýmsu móti inn í aðra kafla sáttmálans.

Af einstökum áhersluatriðum og áformum sem kynnt eru í græna kaflanum má nefna eftirfarandi:

 • Með því að ganga á undan með metnaðarfull markmið og metnaðarfulla áætlun, tryggjum við grænt hagkerfi og atvinnuþróun og undirbúum Danmörku fyrir framtíð, þar sem öll orka er endurnýjanleg.
 • Með uppstokkun skatta og gjalda á að hvetja til grænnar hugsunar og vistvænna innkaupa.
 • Loftslagsvandann ber að taka alvarlega og nota hann sem lyftistöng fyrir nýsköpun, atvinnusköpun, aukinn útflutning grænnar tækni, aukna færni vinnuafls og aukna þátttöku sveitarfélaga og almennings í umbreytingunni.
 • Öll orkunotkun í Danmörku á að vera af endurnýjanlegum uppruna árið 2050. Mæta á allri þörf fyrir rafmagn og hita með endurnýjanlegri orku árið 2035. Hætt verður að nota kol í dönskum orkuverum og olíukynding verður aflögð í síðasta lagi 2030. Þessum markmiðum á að ná með öflugu átaki frá fyrsta degi.
 • Markmið ríkisstjórnarinnar er að losun Danmerkur á gróðurhúsalofttegundum dragist saman um 40% fyrir árið 2020 miðað við 1990. Árið 2012 mun ríkisstjórnin leggja fram loftslagsáætlun sem miðar að þessu markmiði, og þar sem sett verða ákveðin markmið fyrir samdrátt í losun í greinum sem ekki falla undir ákæði um losunarkvóta.
 • Helmingur af almennri raforkunotkun Danmerkur á að koma frá vindorku árið 2020.
 • Vinna skal heildaráætlun um uppsetningu snjallneta í dönsku raforkukerfi.
 • Innan ESB mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að sett verði bindandi markmið um orkusparnað og endurnýjanlega orku – einnig eftir árið 2020 – og að markmið ESB um samdrátt í losun koltvísýrings árið 2020 verið hækkað úr 20% í 30%.
 • Á alþjóðlegum vettvangi mun Danmörk beita sér markvisst fyrir metnaðarfullum og bindandi loftslagssáttmála.
 • Ríkisstjórnin hefur það að markmið að gera Danmörku óháða jarðefnaeldsneyti. Þess vegna á ný samgöngustefna að flétta saman knýjandi viðfangsefni varðandi innviði og umhverfismál.
 • Það á að vera góður valkostur fyrir sem flesta að nota almenningssamgöngur og það á að vera ódýrara að kaupa sparneytinn bíl.
 • Það er líka brýnt að koma stærri hluta flutninga á lestir og skip.
 • Ríkisstjórnin mun leggja fram tillögu um gjaldtökusvæði í miðborg Kaupmannahafnar í þeim tilgangi að draga úr umferðarteppum. Tekjum af þessu, sem ætla má að nemi um 2 milljörðum danskra króna,  verði varið til gera almenningssamgöngur á svæðinu betri og ódýrari. Gjaldtakan mun draga úr bílaumferð, tryggja betra flæði á vegunum og spara tíma fyrir almenning og fyrirtæki, sem annars væri eytt í biðröðum. Auk þess mun gjaldtakan draga úr loftmengun og neikvæðum áhrifum umferðar á heilsu.
 • Ríkisstjórnin mun tryggja að áfram verði til reiðhjólasjóðir, sem sveitarfélög geti sótt í til að fjármagna verkefni í þágu hjólreiða.
 • Ríkisstjórnin mun nýta möguleikann til að nota hluta af landbúnaðarstyrkjum ESB til náttúrutengdra verkefna, þ.á.m. einnig lífrænnar ræktunar.
 • Ríkisstjórnin vill tryggja sjálfbæra þróun í landbúnaði í Danmörku, sem dregur úr loftslagsáhrifum og styður við náttúru og líffræðilega fjölbreytni.
 • Ríkisstjórnin lítur svo á að verksmiðjubúskapur skuli lúta sömu reglum og annar iðnaður.
 • Markmiðið um að tvöfalda lífræna ræktun frá 2007 til 2020 næst ekki að óbreyttu. Ríkisstjórnin mun grípa til aðgerða sem duga að minnsta kosti til að ná þessu markmiði.
 • Græn umbreyting í landbúnaði er algjör nauðsyn.
 • Ríkisstjórnin mun setja í gang verkefni til að þróa hreinni tækni til að skipta út hættulegum efnum í vörum.
 • Styrkja þarf stöðu Efnaeftirlitsins og Danmerkur sem frumkvöðla í rannsóknum á hanastélsáhrifum kemískra efna.
 • Innan ESB mun ríkisstjórnin beita sér sérstaklega fyrir því að hormónatruflandi efni verði tekin úr notkun.
 • Ríkisstjórnin mun sjá til þess að öll sveitarfélög vinni aðgerðaáætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum innan tveggja ára.
 • Ríkisstjórnin mun útbúa nýja og bindandi áætlun um sjálfbæra þróun með föstum markmiðum, tímasetningum og tilheyrandi mælikvörðum og vöktun.
 • Innleiða skal nýjar leiðbeiningar um útreikning á félagshagfræðilegri hagkvæmni verkefna á sviði umhverfis- og orkumála.
 • Fjarlægja skal hindranir sem koma í veg fyrir samstarf sveitarfélaga á sviði umhverfismála og náttúruverndar.

Rauði þráðurinn í málefnasáttmálanum er í raun sá að Danir ætli að komast út úr kreppunni og búa sig undir framtíðina með því að horfa á heildarmyndina og vinna saman að umbreytingu sem gerir Danmörku að grænu hagkerfi. Danmörk á að verða grænt þekkingar- og framleiðslusamfélag.

Þessi mikla græna áhersla er ekki síst áhugaverð í ljósi þess að Danir taka við formennsku í Evrópusambandinu 1. janúar 2012. Það tækifæri vill nýja ríkisstjórnin nota til að setja grænar áherslur og sjálfbæran vöxt efst á dagskrána með sérstöku tilliti til yfirvofandi kreppu í efnahags- og loftslagsmálum. Jafnframt er ætlunin að tryggja að Evrópa eigi sterka rödd í alþjóðlegum samningaviðræðum um loftslagsmál og á heimsráðstefnunni Ríó+20 í Brasilíu á komandi vori

Það verður spennandi að sjá hverju Helle Thorning-Schmidt, Ida Auken og félagar þeirra í dönsku ríkisstjórninni fá áorkað í umhverfismálum heima fyrir, á evrópskum vettvangi og á heimsvísu á næstu mánuðum og misserum. Vorið er komið. Nú er bara að vona að sumarið verði gott!

Til hamingju Danmörk! Gangi þér allt í haginn!

(Þessi pistill hefur að geyma lauslega þýddar glefsur úr málefnasamningi ríkisstjórnar Helle Thorning-Schmidt. Einnig var örlítið stuðst við frétt á heimasíðu RÚV 3. október sl.).