• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • október 2011
    S M F V F F S
     1
    2345678
    9101112131415
    16171819202122
    23242526272829
    3031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Grænt vor í dönskum stjórnmálum

Grænt vor virðist vera að renna upp í dönskum stjórnmálum. Í málefnasáttmála ríkisstjórnarinnar sem tók við völdum þar í landi sl. mánudag, er lögð gríðarleg áhersla á umhverfismál og þau tækifæri sem þar leynast til að auka atvinnu og bæta samfélagið. Þetta endurspeglast m.a. í orðum Ídu Auken, sem tók við ráðuneyti umhverfismála í Danmörku sl. mánudag: „Það mikilvægasta er að gera Danmörku aftur að grænu landi. Við eigum að vera það land í heiminum sem sýnir að atvinnutækifæri felast í því að leita lausna á umhverfismálum.“

 Málefnasáttmáli dönsku ríkisstjórnarinnar er 80 bls. að stærð, eða nánar tiltekið 72 ef titilsíður og saurblöð eru undanskilin. Þessar síður hafa að geyma ítarlegar lýsingar á helstu markmiðum og verkefnum stjórnarinnar næstu misserin. Titill sáttmálans er Et Danmark der står sammen, sem segir út af fyrir sig nokkuð um andann í plagginu. Af þessum 72 bls. er fjallað sérstaklega um áherslur í umhverfismálum á 8 síðum undir yfirskriftinni Grøn omstilling, auk þess sem umhverfisáherslan fléttast með ýmsu móti inn í aðra kafla sáttmálans.

Af einstökum áhersluatriðum og áformum sem kynnt eru í græna kaflanum má nefna eftirfarandi:

  • Með því að ganga á undan með metnaðarfull markmið og metnaðarfulla áætlun, tryggjum við grænt hagkerfi og atvinnuþróun og undirbúum Danmörku fyrir framtíð, þar sem öll orka er endurnýjanleg.
  • Með uppstokkun skatta og gjalda á að hvetja til grænnar hugsunar og vistvænna innkaupa.
  • Loftslagsvandann ber að taka alvarlega og nota hann sem lyftistöng fyrir nýsköpun, atvinnusköpun, aukinn útflutning grænnar tækni, aukna færni vinnuafls og aukna þátttöku sveitarfélaga og almennings í umbreytingunni.
  • Öll orkunotkun í Danmörku á að vera af endurnýjanlegum uppruna árið 2050. Mæta á allri þörf fyrir rafmagn og hita með endurnýjanlegri orku árið 2035. Hætt verður að nota kol í dönskum orkuverum og olíukynding verður aflögð í síðasta lagi 2030. Þessum markmiðum á að ná með öflugu átaki frá fyrsta degi.
  • Markmið ríkisstjórnarinnar er að losun Danmerkur á gróðurhúsalofttegundum dragist saman um 40% fyrir árið 2020 miðað við 1990. Árið 2012 mun ríkisstjórnin leggja fram loftslagsáætlun sem miðar að þessu markmiði, og þar sem sett verða ákveðin markmið fyrir samdrátt í losun í greinum sem ekki falla undir ákæði um losunarkvóta.
  • Helmingur af almennri raforkunotkun Danmerkur á að koma frá vindorku árið 2020.
  • Vinna skal heildaráætlun um uppsetningu snjallneta í dönsku raforkukerfi.
  • Innan ESB mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að sett verði bindandi markmið um orkusparnað og endurnýjanlega orku – einnig eftir árið 2020 – og að markmið ESB um samdrátt í losun koltvísýrings árið 2020 verið hækkað úr 20% í 30%.
  • Á alþjóðlegum vettvangi mun Danmörk beita sér markvisst fyrir metnaðarfullum og bindandi loftslagssáttmála.
  • Ríkisstjórnin hefur það að markmið að gera Danmörku óháða jarðefnaeldsneyti. Þess vegna á ný samgöngustefna að flétta saman knýjandi viðfangsefni varðandi innviði og umhverfismál.
  • Það á að vera góður valkostur fyrir sem flesta að nota almenningssamgöngur og það á að vera ódýrara að kaupa sparneytinn bíl.
  • Það er líka brýnt að koma stærri hluta flutninga á lestir og skip.
  • Ríkisstjórnin mun leggja fram tillögu um gjaldtökusvæði í miðborg Kaupmannahafnar í þeim tilgangi að draga úr umferðarteppum. Tekjum af þessu, sem ætla má að nemi um 2 milljörðum danskra króna,  verði varið til gera almenningssamgöngur á svæðinu betri og ódýrari. Gjaldtakan mun draga úr bílaumferð, tryggja betra flæði á vegunum og spara tíma fyrir almenning og fyrirtæki, sem annars væri eytt í biðröðum. Auk þess mun gjaldtakan draga úr loftmengun og neikvæðum áhrifum umferðar á heilsu.
  • Ríkisstjórnin mun tryggja að áfram verði til reiðhjólasjóðir, sem sveitarfélög geti sótt í til að fjármagna verkefni í þágu hjólreiða.
  • Ríkisstjórnin mun nýta möguleikann til að nota hluta af landbúnaðarstyrkjum ESB til náttúrutengdra verkefna, þ.á.m. einnig lífrænnar ræktunar.
  • Ríkisstjórnin vill tryggja sjálfbæra þróun í landbúnaði í Danmörku, sem dregur úr loftslagsáhrifum og styður við náttúru og líffræðilega fjölbreytni.
  • Ríkisstjórnin lítur svo á að verksmiðjubúskapur skuli lúta sömu reglum og annar iðnaður.
  • Markmiðið um að tvöfalda lífræna ræktun frá 2007 til 2020 næst ekki að óbreyttu. Ríkisstjórnin mun grípa til aðgerða sem duga að minnsta kosti til að ná þessu markmiði.
  • Græn umbreyting í landbúnaði er algjör nauðsyn.
  • Ríkisstjórnin mun setja í gang verkefni til að þróa hreinni tækni til að skipta út hættulegum efnum í vörum.
  • Styrkja þarf stöðu Efnaeftirlitsins og Danmerkur sem frumkvöðla í rannsóknum á hanastélsáhrifum kemískra efna.
  • Innan ESB mun ríkisstjórnin beita sér sérstaklega fyrir því að hormónatruflandi efni verði tekin úr notkun.
  • Ríkisstjórnin mun sjá til þess að öll sveitarfélög vinni aðgerðaáætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum innan tveggja ára.
  • Ríkisstjórnin mun útbúa nýja og bindandi áætlun um sjálfbæra þróun með föstum markmiðum, tímasetningum og tilheyrandi mælikvörðum og vöktun.
  • Innleiða skal nýjar leiðbeiningar um útreikning á félagshagfræðilegri hagkvæmni verkefna á sviði umhverfis- og orkumála.
  • Fjarlægja skal hindranir sem koma í veg fyrir samstarf sveitarfélaga á sviði umhverfismála og náttúruverndar.

Rauði þráðurinn í málefnasáttmálanum er í raun sá að Danir ætli að komast út úr kreppunni og búa sig undir framtíðina með því að horfa á heildarmyndina og vinna saman að umbreytingu sem gerir Danmörku að grænu hagkerfi. Danmörk á að verða grænt þekkingar- og framleiðslusamfélag.

Þessi mikla græna áhersla er ekki síst áhugaverð í ljósi þess að Danir taka við formennsku í Evrópusambandinu 1. janúar 2012. Það tækifæri vill nýja ríkisstjórnin nota til að setja grænar áherslur og sjálfbæran vöxt efst á dagskrána með sérstöku tilliti til yfirvofandi kreppu í efnahags- og loftslagsmálum. Jafnframt er ætlunin að tryggja að Evrópa eigi sterka rödd í alþjóðlegum samningaviðræðum um loftslagsmál og á heimsráðstefnunni Ríó+20 í Brasilíu á komandi vori

Það verður spennandi að sjá hverju Helle Thorning-Schmidt, Ida Auken og félagar þeirra í dönsku ríkisstjórninni fá áorkað í umhverfismálum heima fyrir, á evrópskum vettvangi og á heimsvísu á næstu mánuðum og misserum. Vorið er komið. Nú er bara að vona að sumarið verði gott!

Til hamingju Danmörk! Gangi þér allt í haginn!

(Þessi pistill hefur að geyma lauslega þýddar glefsur úr málefnasamningi ríkisstjórnar Helle Thorning-Schmidt. Einnig var örlítið stuðst við frétt á heimasíðu RÚV 3. október sl.).

Eitt svar

  1. Veistu Stefán að þegar ég hef heimsótt Danmörku, bæði heimili í Kaupmannahöfn og Grænfánaskóla, hef ég undrast hvað þeir eru stutt komnir í flokkun afganga frá heimilum og skólum. Ég þekki auðvitað bestu skólana hérlendis og hef kannski verið óheppin með þá skóla sem ég heimsótti þar en á því sviði þurfum við sannarlega ekki að skammast okkar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: