• Heimsóknir

  • 112.022 hits
 • júní 2021
  S M F V F F S
   12345
  6789101112
  13141516171819
  20212223242526
  27282930  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Fyrsta kennslubókin um hreyfiseðla

Út er komin í Svíþjóð fyrsta kennslubókin um notkun hreyfiseðla. Hreyfiseðlar eru ávísanir lækna á hreyfingu, sem getur eftir atvikum komið í stað lyfja eða minnkað þörfina fyrir þau.

Hreyfingarleysi er vaxandi vandamál sem eykur líkur á margs konar kvillum, með tilheyrandi kostnaði bæði fyrir heilbrigðiskerfið og viðkomandi einstaklinga. Áætlað er að um helmingur Svía hreyfi sig of lítið, og að u.þ.b. 1 af hverjum 10 sé í mikilli heilsufarslegri áhættu af þeim sökum. Fátt bendir til að ástandið sé betra á Íslandi.

Útgáfa hreyfiseðla þrefaldaðist í Svíþjóð milli áranna 2007 og 2010, en það ár voru gefnir út samtals 49.000 hreyfiseðlar þarlendis. Engu að síður telja yfirvöld heilbrigðismála að þessi aðferð sé enn verulega vannýtt, enda benda tölurnar hér að framan til þess að hátt í 1 milljón Svía búi við verulega heilsufarsáhættu vegna hreyfingarleysis.

Hugmyndin um hreyfiseðla felur í sér að hreyfing er notuð til lækninga og í fyrirbyggjandi skyni með sama hætti og önnur meðferð innan heilbrigðiskerfisins. Í Svíþjóð gerist þetta í grófum dráttum á eftirfarandi hátt:

 • Heilbrigðisstarfsfólk kannar hversu líkamlega virkur sjúklingurinn er, og ef hreyfingin er talin ófullnægjandi er viðkomandi tekinn í viðtal.
 • Í viðtalinu er farið yfir heilsufar sjúklingsins, áhættuþætti, hvers konar hreyfing væri æskilegust og félli sjúklingnum best í geð, og hversu tilbúinn sjúklingurinn sé til að breyta lífsháttum sínum.
 • Þegar náðst hefur samkomulag um hreyfinguna er hún skráð á hreyfiseðil, þar sem fram kemur hvers konar hreyfing skuli stunduð, hversu oft, hversu lengi í senn, hversu erfið hún skuli vera, og hvernig magnið skuli aukið jafnt og þétt.
 • Sjúklingur og heilbrigðisstarfsmaður koma sér saman um hvernig skuli fylgjast með framkvæmdinni og hversu oft.
 • Meðal algengra tegunda ávísaðrar hreyfingar má nefna gönguferðir, dans, hjólaferðir og garðvinnu, auk sérstakra æfinga einu sinni til tvisvar í viku til að auka styrk og þol.

Fyrirkomulagið er breytilegt eftir svæðum. Þannig hafa sum sveitarfélög stutt við verkefni af þessu tagi með ýmsum hætti, svo sem með niðurgreiðslum eða ríflegum afslætti af aðgangseyri líkamsræktarstöðva o.þ.h. Dæmi um þetta er að finna í bloggpistli mínum 11. febrúar 2011, þar sem sagt er frá fyrirkomulaginu í Landskrona.

Hreyfiseðlar hafa verið í umræðunni á Íslandi, en þó er ljóst að við erum langt á eftir frændum okkar hvað þetta varðar. Svo virðist sem íslenska heilbrigðiskerfið leggi aðaláherslu á að meðhöndla einkenni, en sinni lítt um orsakir þeirra.

(Þessi pistill er að langmestu leyti byggður á frétt á heimasíðu Lýðheilsustofnunar Svíþjóðar í gær. Myndin með pistlinum tengist honum hins vegar ekki beint. Hún er tekin í fjalla- og skemmtihlaupinu Þrístrendingi sl. sumar og gefur hugmynd um þau góðu áhrif sem útvist, hreyfing og góður félagsskapur hefur á geðheilsu og lífsgleði fólks).