• Heimsóknir

  • 119.039 hits
 • júní 2011
  S M F V F F S
   1234
  567891011
  12131415161718
  19202122232425
  2627282930  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Þrístrendingur 2011

Fjallvega- og skemmtihlaupið Þrístrendingur var þreytt öðru sinni síðastliðinn laugardag, en hlaupið er á góðri leið með að verða að árlegum viðburði. Í þessum pistli verður gripið niður í ferðasöguna.

Að morgni dags
Þessi ánægjulegi dagur í lífi mínu hófst með því að ég sníkti mér far vestur í Gilsfjörð með hjólreiðamanninum Ebenezer Dosta. Á leiðinni komst ég m.a. að því að hann var nýkominn úr Vätternrundan, sem er 300 km hjólreiðasprettur kringum alveg sæmilega stórt vatn í Svíþjóð. Hann var líka ákveðinn í að hjóla Þrístrending á meðan aðrir hlypu. Mér fannst það flott hugmynd, þó að ég öfundaði hann ekki af því að framkvæma hana, (enda var ekki til neitt hjól í minni heimasveit á öldinni sem ég ólst upp á – og færni mín sem hjólreiðamanns í allgóðu samræmi við það).

Veðurlýsing
Veðrið þennan dag var eiginlega bara gott, en hefði alveg mátt vera hlýrra. Norðan kaldi var á, skýjað og þurrt. Þegar við komum að Kleifum upp úr kl. 10 sýndi hitamælirinn 5°C. Það var í góðu samræmi við veðurspána, en 10 stigum kaldara en í frumhlaupinu í fyrra. Einhver þokuslæðingur var á fjöllum og svo sem ekki á vísan að róa með það.

130% ávöxtun
Við vorum snemma í því og smeygðum okkur því inn í hlýjuna á Kleifum, þar til klukkan nálgaðist 11 og fleiri hlauparar tóku að tínast á svæðið. Svo þurftu allir að finna réttu fötin og rétta nestið. Klukkan 11:19 var allt tilbúið, og þá lögðu 20 manns af stað af hlaðinu. Af þeim fóru 16 alla leið, en 4 skemmra. Þrír til viðbótar bættust í hópinn á síðari stigum, þannig að heildarfjöldi þátttakenda var 23. Þetta er hvorki meira né minna en 130% fjölgun frá fyrra ári, en þá voru samtals 10 með, þar af 7 alla leiðina. Margur hefur sætt sig við minni ávöxtun.

Við rásmarkið. Gári útihundur sá um að enginn stigi á línuna.

Steinadalsheiðin
Spölurinn niður heimreiðina að Kleifum og að vegamótum Steinadalsheiðar á móts við bæinn Gilsfjarðarbrekku mældist 1,1 km eins og við var búist. Skokkið þangað tók rúmar 7 mínútur, og þá tók Steinadalsheiðin við. Norðanáttið var í fangið upp brekkurnar, en einhvern veginn var það bara í góðu lagi, enda frostlaust og enginn skafrenningur. Reyndar var vegurinn yfir heiðina ekki opnaður fyrr en 4 dögum fyrir hlaup. Samt voru engar fannir við veginn, bara skaflar í fjöllum, nóg til þess að útvega vatn í ár.

Ebenezer Dosti hjólaði alla leið og var lagður á Steinadalsheiðina áður en ljósmyndara tókst að ná andlitsmynd. Gilsfjarðarbrekka í baksýn.

Fljótlega teygðist úr hópnum, enda hentar mismunandi hraði mismunandi fólki misvel. Ég reyndi lengst af að vera meðal þeirra fremstu, enda hafði ég fengið það hlutverk í samningaviðræðum við Dofra frænda minn. Hann ætlaði hins vegar að sjá til þess að enginn yrði skilinn eftir örmagna í óbyggðum.

Á leiðinni upp heiðina gat ég sagt sömu sögur og í hlaupinu í fyrra af sjálfum mér að keyra upp bröttustu brekkuna á framdrifnum bílum sem áttu það til að hrökkva úr gír. Að mér og Dofra frátöldum var Mæja Grafarvogshlaupari nefnilega sú eina sem var líka með í fyrra. Slíkt er hentugt fyrir sögumenn, því að í eyrum hinna hljóma gamlar sögur sem nýjar, og enginn tekur heldur eftir því þótt brekkurnar verði brattari eftir því sem sögurnar eru sagðar oftar.

Leiðin upp að Heiðarvatni á háheiðinni tók nánast jafnlangan tíma og í fyrra, þ.e. eitthvað um 48 mínútur frá vegamótunum við Gilsfjarðarbrekku. Eftir það var allt á undanhaldinu, og þá tóku sumir vel til fótanna. Niðurleiðin var tíðindalaus að mestu, nema hvað nú voru árnar mun vatnsmeiri en í fyrra, eins og áður hefur verið ýjað að. Allir komust þó yfir að lokum, bæði yfir Steinadalsá og Norðdalsá. Og fyrr en varði voru fyrstu menn komnir að vegamótunum neðst á Fellseyrum, 18,2 km að baki og réttar 2 klst. liðnar frá því að lagt var upp frá Kleifum.

Stefán, Ívar, Ólafur og Rósa við Norðdalsá í Steinadal.

Áð við Stóra-Fjarðarhorn
Frá vegamótum Steinadalsvegar er rúmur km að Stóra-Fjarðarhorni. Þar fyrir neðan túngarðinn hafði Vegagerðin verið svo vinsamleg að leggja veghefli sem myndaði ágætt skjól fyrir norðanáttinni, sem læddist ákveðin inn Kollafjörðinn. Skjólið kom sér vel á meðan fólk hugaði að nesti og skófatnaði. Þarna var staldrað við í 20 mínútur eða svo. Þarna voru líka komnir akandi frændur mínir af Kleifakyni, með fólk og farangur. Fjórir hlauparar tóku sér far með þeim yfir í Bitru, en í staðinn bættist einn í hópinn, þannig að við vorum 20-4+1=17 sem lögðum á Bitruhálsinn upp Fjarðarhornssneiðinga.

Áð við Stóra-Fjarðarhorn í Kollafirði. Guðmundur Magni og Lilja huga að fótabúnaði og öðrum nauðsynjum.

Ættfræðiágrip 1
Einhver spurði mig á leiðinni hvernig skyldleika okkar Kleifakynshlauparanna væri háttað, en í hópnum voru 6 af því kyni. Ég held að mér hafi ekki tekist að útskýra þetta, en allt er þetta þó mjög einfalt. Við 6-menningarnir erum sem sagt öll afkomendur Stefáns Eyjólfssonar og Önnu Eggertsdóttur, sem bjuggu á Kleifum á fyrri hluta 20. aldar. Þau eignuðust 9 börn sem komust til fullorðinsára, og 8 þeirra voru nógu ættrækin til að skíra syni sína Stefán. (Níunda barninu varð ekki barna auðið). Þessir Stefánar eiga slatta af börnum, systkinabörnum og afabörnum. Ég er yngsti Stefáninn; Dofri, Gunnhildur, Kormákur og Þ0rbjörn Atli eiga tvo aðra Stefána fyrir föðurbræður, og Ingvar á einn af þessum 8 fyrir afa. Einfaldara getur þetta ekki verið.

Ættfræðiágrip 2
Guðmundur Magni, 100-kall nr. 13, er frændi minn í hina áttina, en amma hans var hálfsystir pabba. Við bárum saman bækur okkar á leiðinni upp Bitruhálsinn. Hann var nýkominn af slóðum Inkanna, en átti eftir að heimsækja Brunngil í Bitru, þar sem sameiginlegur forfaðir okkar bjó mestan hluta ævinnar. Það verður gert við tækifæri. (Og ef einhver skyldi ekki vita hvað átt er við með 100-kalli nr. 13, þá þýðir það að sjálfsögðu að viðkomandi einstaklingur sé félagi nr. 13 í Félagi 100km hlaupara. Í þeim merku samtökum eru nú 34 félagar, og 12 til viðbótar hafa unnið sér rétt til inntöku, sem fer fram við hátíðlega athöfn á félagsfundi).

Á hraðferð upp Fjarðarhornssneiðinga. Sævar Skaptason í broddi fylkingar og Guðmundur Magni næstur.

Bitruháls
Á sínum tíma, (ekki þó á mínum tíma, því að hann kom seinna), voru Fjarðarhornssneiðingar færir með hestakerru. Nú eru þeir örugglega ófærir slíkum farartækjum, m.a. vegna þess að tvö ræsi á leiðinni upp eru hrunin. Slíkt er reyndar auðleyst nú til dags, þökk sé þeirri þörfu tísku að planka við hvert tækifæri sem gefst. Ívar gekk strax í þetta vandamál og leysti það með prýði. Menn eins og hann sem hafa hlaupið 38 maraþon og Laugaveginn 10 sinnum láta sig ekki muna um svoleiðis reddingar.

Eru ekki allir að planka þessa dagana? Hér er dæmi um hagnýtt gildi planka. Hvernig hefði Kristinn annars átt að komast yfir þetta ræsi í Fjarðarhornssneiðingum?

Í fyrra var Bitruhálsinn alauður þegar Þrístrendingur fór fram, en nú lá svolítill skafl enn í laut nálægt upptökum Broddár. Enginn datt niður í gegnum hann, en þegar skaflinum sleppti tók við mikil aurbleyta, enda frost ekki farið úr jörðu í þessari hæð, (sem er samt bara tæpir 400 m.y.s).

Okkur sóttist vel ferðin niður Bitruháls, um smalalönd og leiksvæði okkar bræðranna að Hól og Læk, eins og svæðið hét í þá daga. Og allt í einu vorum við komin niður að túngarðinum í Gröf í Bitru, þar sem ég fæddist og ólst upp á ofanverðri síðustu öld. Bitruháls var að baki á nákvæmlega 1:25:44 klst, hvorki meira né minna en 3,5 mínútum betri tíma en í fyrra. Heildarvegalengdin frá Kleifum var komin í 28,8 km og varla þreytu að sjá á nokkrum manni, ekki einu sinni á Dosta hjólreiðamanni sem fékk þó aldeilis að kenna á því hversu lítt Bitruhálsinn hentar til hjólreiða. En kannski eru líka verstu leiðirnar bestar.

Skíði æsku minnar
Við settumst niður í skjóli við gamla hænsakofann ofan við túngarðinn í Gröf, en þennan kofa byggði pabbi heitinn um 1960 þegar minkurinn var búinn að leggja þáverandi hænsnarækt í rúst. Þarna eru engar hænur lengur, en inni í kofanum fann ég gömlu skíðin sem pabbi smíðaði fyrir okkur bræðurna, líklega í kringum 1964. Þetta voru laglegar fjalir sem hann beygði á mjög leyndardómsfullan hátt í þvottapottinum. Svo var skellt á þetta leðurólum og með þetta fórum við bræðurnir upp í hlíð í stígvélum í staðinn fyrir skíðaskó. Mig minnir reyndar að skíðin hafi ekki látið vel að stjórn. Það gerði ekkert til, því að við kunnum hvort som er ekkert svoleiðis. Reyndar eignuðumst við upp úr þessu ágætt kennsluhefti, þar sem maður gat lært að taka Þelamerkursveiflu og hvaðeina, þ.e.a.s. að svo miklu leyti sem það verður numið af bókum.

Eftir að ég hafði frætt samferðafólkið um skíðaiðkun æskunnar, ljósavélarafmagn, farskóla og fleiri aðalatriði úr uppvextinum, varð einhverjum á að spyrja hvaða ár ég væri (eiginlega) fæddur. Ég nefndi strax ártalið 1896, enda hljóma þessar sögur mínar sjálfsagt eitthvað í takti við það.

Glaðir fjallvegahlauparar við gamla hænsnakofann í Gröf eftir að hafa lagt Steinadalsheiði og Bitruháls að baki - og farið létt með það. Á myndinni eru 14/23 af hópnum.

Nýtt hús og pönnukökur
Áningin í Gröf teygði sig í 40 mínútur, enda var innifalin í henni svolítið innlit í nýja húsið hjá Rögnvaldi bónda bróður mínum og Arnheiði, sambýliskonu hans. Arnheiður var að vanda búin að baka pönnukökur, og nokkrir hlauparar gripu sér sýnishorn af þeim til að eiga orku í síðasta áfangann.

Krossárdalur tekinn með áhlaupi
Mér dvaldist aðeins lengur en öðrum þarna á æskuslóðunum, og þegar ég loksins hafði mig af stað áleiðis suður (þ.e.a.s. vestur) Krossárdal voru sumir hlaupararnir horfnir úr augsýn. Ég einsetti mér að vinna upp þetta forskot, og þurfti að hafa töluvert fyrir því. En það hafðist þó smátt og smátt, og framundir Krossárvatni var ég aftur kominn í fremstu röð, enda rann mér blóðið til skyldunnar að senda ekki ókunnuga fram á dal án viðhlítandi leiðsagnar. Flýtirinn í dalnum varð reyndar til þess að ég fór að finna fyrir krampa í hægri kálfanum. Þetta var óvænt, því að yfirleitt er ég laus við svoleiðis nema í mjög erfiðum hlaupum.

Veðurlýsing – síðari hluti
Mér fannst eiginlega bara hlýtt þarna á dalnum, enda hitinn þar sjálfsagt kominn upp undir 10°C. Svo var vindurinn heldur í bakið, öfugt við það sem var í fyrra þegar vestanáttin tók til sinna ráða.

Hinkrað á kantinum
Við Krossárvatn bætti ég aftur svolítið í hraðann, annars vegar til að reyna að hafa við Halldóri, sem hafði slitið sig frá fjöldanum þegar hér var komið sögu, og hins vegar til að vera til staðar til að vísa fólki leið niður í Hafursgötuna. Hafursgatan er eina góða leiðin niður að Kleifum – og svo sem auðfundin, en ef maður sér hana ekki strax gæti eitthvert óöryggi gripið um sig. Mér fannst að það hlyti að vera skylda mín sem forystusauðs í þessu hlaupi að vísa öllum veginn þarna niður.

Ég verð að viðurkenna að ég átti aldrei möguleika á að halda í við Halldór, en hann var samt greinilega ekki í neinum vandræðum með að hitta á Hafursgötuna – og var þar með horfinn úr augsýn. Ég beið hins vegar þarna á brúninni eftir öllum hinum, samtals í nákvæmlega 34 mínútur, í góðum félagsskap steindepils sem átti greinilega heima þarna í vörðunni eða þar í kring. Svo komu hlaupararnir hver af öðrum, flestir afar sáttir við hlaupið ef marka mátti brosin og ummælin.

Dofri, Lilja, Arndís og Guðmundur Magni við vörðuna ofan við Hafursgötu. Eins og sjá má á skuggum er sól nokkuð gengin til vesturs, enda tekið að líða að lokum Þrístrendings 2011.

Endasprettir
Svo þegar hér um bil allir voru komnir, tók ég á rás niður Hafursgötuna og yfir túnið á Kleifum. Velheppnuðum Þrístrendingi var lokið og GPS-úrið sýndi 41,6 km (að meðtöldu öllu stjákli og útúrdúrum á leiðinni). Því fannst mér við hæfi að taka tvo eða þrjá létta aukaspretti upp og niður túnið, svona rétt til að teygja vegalengd dagsins í 42,2 km, sem mér finnst alltaf svolítið skemmtileg tala. Svo var sest inn í eldhús á Kleifum, þar sem fyrir var hópur af sáttu fólki og ljúfur skammtur af léttum veitingum. Og þar með var þessu lokið hvað mig varðaði; bara heimferðin með Dosta eftir.

Þakkir og langtímaspá
Þessum línum fylgja bestu þakkir til allra þeirra sem áttu þátt í því að gera þennan dag jafn ánægjulegan og raun ber vitni. Það er næsta víst að Þrístrendingur verður endurtekinn að ári.

PS:  Þátttakendur
Eftirtaldir hlauparar og hjólreiðagarpar tóku þátt í Þrístrendingi 2011:

 • Alla leið (3 fjallvegir með tilheyrandi):
  Árný Inga Pálsdóttir
  Bryndís Óladóttir
  Dofri Hermannsson
  Ebenezer Dosti Böðvarsson (á hjóli)
  Guðmundur Magni Þorsteinsson
  Guðni Magnús Eiríksson
  Halldór S. Halldórsson
  Ingólfur Björn Sigurðsson
  Ívar Adolfsson
  Kristinn Schram
  Lilja Björk Ólafsdóttir
  María Hlín Sigurðardóttir
  Ólafur Jón Ásgeirsson
  Rósa Friðriksdóttir
  Stefán Gíslason
  Sævar Skaptason
 • Tveir fjallvegir (Steinadalsheiði og Krossárdalur):
  Gunnhildur Sveinsdóttir
  Ingvar Hjartarson
  Jóhanna Eiríksdóttir
  Þorbjörn Atli Sveinsson
 • Tveir fjallvegir (Bitruháls og Krossárdalur):
  Arndís Steinþórsdóttir
 • Einn fjallvegur (Krossárdalur):
  Hallgerður Guðmundsdóttir
  Kormákur Hlini Hermannson

9 svör

 1. Rétt er að taka fram að þegar ég tala um reiðhjólaleysið í „minni heimasveit“ fyrr á öldum, þá á ég bara við æskuheimilið mitt. Einhver hjól voru til á öðrum bæjum í Bitrunni um þetta leyti.
  🙂

 2. ég verð bráðum að hlaupa með þér aftur til að heyra einu sinni enn söguna af bílnum sem hrökk úr gír 🙂 Sjaldan er góð vísa of oft kveðin

 3. Skemmtileg ferðasaga. Ég er lika fædd rétt eftir miðja síðustu öld og hef afar gaman af að lýsa barnaskólagöngu minni (þótt ég hafi ekki verið í farskóla) en ég var samtals 13 mánuði í barnaskóla og tók þá fullnaðarpróf og mátti þá hætta skólagöngu. Ég var samt ekki verr að mér en hinir krakkarnir þegar ég fór í gagnfræðaskóla. Siðan spyr ég kennara oft hvað sé verið að kenna í skólunum þegar fólk kann ekki að greina í orðflokka eða fallbeygja greini og veit þar af leiðandi ekkert um tvöfalda samhljóða. Þetta kenndi Jens Guðmundsson okkur allt saman fljótt og vel þegar ég var í barnskóla.
  Kveðja, María Játvarðardóttir

 4. […] við Fossvogskirkjugarðinn náði ég líka Halldóri S. Halldórssyni, hlaupafélaga mínum úr Þrístrendingi sl. sumar. Um svipað leyti var Sigurbjörg aftur mætt, og eftir þetta vorum við þrjú ýmist rétt á […]

 5. […] verkefnið var Þrístrendingur 25. júní, en hann var nú þreyttur öðru sinni. Þátttakendur voru 130% fleiri en árið […]

 6. […] með pistlinum tengist honum hins vegar ekki beint. Hún er tekin í fjalla- og skemmtihlaupinu Þrístrendingi sl. sumar og gefur hugmynd um þau góðu áhrif sem útvist, hreyfing og góður félagsskapur hefur á […]

 7. […] Nýleg ummæli stefangisla on Þurfa Kópavogsbúar meirih…Hjalti Rognvaldsson … on Þurfa Kópavogsbúar meirih…stefangisla on Hlaupaannáll 2011 og markmið f…Gitta on Hlaupaannáll 2011 og markmið f…Fyrsta kennslubókin … on Þrístrendingur 2011 […]

 8. […] Nýleg ummæli Fjórða æfingaáætlun … on Æfingaáætlun næstu viknaInga Björk on Heimsk húsmóðir í Vesturb…Jonas Egilsson on Fjallvegahlaup 2012Fjallvegahlaup 2012 … on Hamingjan sanna á hlaupumFjallvegahlaup 2012 … on Þrístrendingur 2011 […]

 9. I have noticed you don’t monetize stefangisla.com, don’t waste your traffic, you
  can earn extra bucks every month with new monetization method.

  This is the best adsense alternative for any type of website (they approve all websites),
  for more details simply search in gooogle: murgrabia’s
  tools

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: