• Heimsóknir

  • 119.600 hits
 • febrúar 2011
  S M F V F F S
   12345
  6789101112
  13141516171819
  20212223242526
  2728  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Hugsað um hreyfiseðla

Það gladdi mig mjög að lesa um það í Fréttablaðinu sl. þriðjudag, að nú hillti undir það að jafnvel á Íslandi muni hreyfiseðlar í ákveðnum tilvikum taka við af lyfseðlum. Gaman væri að heyra meira af þessu, hvar málið sé statt í kerfinu, hvenær búast megi við að hreyfiseðlar verði orðnir almennur valkostur og hvernig ætlunin sé að standa að þessu.

Mitt í þessum þönkum mínum rakst ég sem oftar inn á heimasíðu sveitarfélagsins Landskrona í Svíþjóð, og þar fann ég einmitt eitt dæmi um það hvernig svona nokkuð gæti litið út í framkvæmd. Í Landskrona hefur verið unnið með hreyfiseðla síðustu 5 ár, og á síðasta ári var kerfið orðið nokkurn veginn tilbúið til notkunar. Kerfið í Landskrona byggir á samstarfi margra aðila, þ.á.m. sveitarfélagsins, sjúkrahússins, heilsugæslustöðva, íþróttafélaga og líkamsræktarstöðva. Hreyfiseðlar sem gefnir eru út af læknum gilda þá sem afsláttarmiðar í tilteknar íþrótta- og líkamsræktarstöðvar og á tiltekin námskeið, allt samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem birt er á heimasíðu sveitarfélagsins.

Unnið hefur verið með hreyfiseðla árum saman í Svíþjóð, og reyndar líka í Noregi og Danmörku. Í Svíþjóð er í þessu sambandi talað um „Fysisk aktivitet på recept“ eða „FaR“, sem er skrásett vörumerki þar í landi. Norðmenn hafa reyndar farið örlítið aðra leið, eða öllu heldur útvíkkað hugtakið. Þar er talað um „græna lyfseðla“ („Grønn resept“) og litið á aðstoð til að breyta reykingavenjum og lífsstíl sem hluta af pakkanum. Íslendingar hafa verið skrefinu á eftir frændum sínum í þessum efnum, en þó eru nokkur ár síðan fyrst var farið að ræða hugmyndir af þessu tagi, m.a. í kynningum Landsskrifstofu Staðardagskrár 21 á meðan hún var starfrækt. Flest bendir til að hér leynist stórkostleg tækifæri til úrbóta hvað varðar meðferð þunglyndis og annarra geðrænna vandamála. Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur bendir t.d. á það í grein sinni í Fréttablaðinu í gær, að á síðustu 20 árum hefur tíðni örorku vegna geð- og atferlisraskana nánast tvöfaldast hérlendis, á sama tíma og ávísun þunglyndislyfja og annarra geðlyfja hefur aukist upp í það að vera með því mesta sem þekkist í heiminum. Í grein sem þrír íslenskir læknar birtu í tímaritinu British Journal of Psychiatry 2004 kom fram að ekkert benti til að gríðarleg aukning í notkun þunglyndislyfja á Íslandi hefði leitt til bættrar geðheilsu þegar á heildina er litið. Því væri þörf á að leita annarra og betri úrræða. Dr. Vilhjálmur Ari Arason gerir þetta sama mál að umtalsefni í ágætu bloggi sínu á Eyjunni í gær.

Ég bíð spenntur eftir næstu fréttum af íslenskum hreyfiseðlum.

3 svör

 1. Ég hef heyrt að einhverjar fagstéttir hafi gagnrýnt að læknar færu svona út fyrir sitt „svið“. Það finnst mér ótrúleg tilhugsun. Eins og læknar megi bara skrifa lyfseðla. Ég held einmitt að það væri mjög sniðugt að læknar skrifuðu líka upp á hreyfingu, því þeir eru ófáir þunglyndissjúklingarnir sem ég hef hitt sem staðhæfa að þeir geti ekki/megi ekki stunda mikla hreyfingu. Nú, og svo eru framleiðendur hinna ýmsu vara sem tengjast hreyfingu duglegir að baktryggja sig með því að skrifa einhversstaðar í leiðbeiningar að hitt og þetta skuli aðeins gert í samráði við lækni. Úr því það er verið að gefa þeim þessa ábyrgð, er þá ekki eins gott að þeir fái þá umboð til að senda fólk út að hreyfa sig? Munurinn á hreyfiseðlum og lyfseðlum er sá að aðeins læknar geta metið hvaða lyf er ráðlegt að nota, en það geta allir mælt með hreyfingu. En ef fólk tekur meira mark á læknum en öðrum, því ekki að nýta það?

 2. Alveg sammála! Út fyrir sitt svið!? Ja hérna! Mér finnst að heilsa fólks ætti að vera sérsvið lækna, í stað þess að einskorða sérsviðið við viðbrögð við tilteknum afmörkuðum klínískum einkennum. Það er komið nóg af því að hver fagstétt um sig hafist við í sínum skurði og neiti að trúa því að skurðbakkinn og aðrir skurðir komi þeim við. Við værum mun betur stödd ef við kæmumst upp úr skurðunum.

 3. […] ríflegum afslætti af aðgangseyri líkamsræktarstöðva o.þ.h. Dæmi um þetta er að finna í bloggpistli mínum 11. febrúar 2011, þar sem sagt er frá fyrirkomulaginu í […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: