Í óbeinu framhaldi af pistli mínum fyrr í dag um áhættu vegna útiræktunar erfðabreyttra lífvera finnst mér ekki úr vegi að benda lesendum á stutta grein sem Nassim Nicholas Taleb skrifaði í Financial Times í apríl 2009 undir yfirskriftinni “Ten principles for a Black Swan-proof world”. Þar setur hann fram 10 hollráð til að koma í veg fyrir að svartir svanir geri vart við sig. Með svörtum svönum er hér átt við atburði sem eiga ekki að geta gerst en gerast samt, eða með orðum atburði með afar lágar líkur en gríðarlegar afleiðingar. Hollráð Talebs geta nýst okkur, hvort sem við viljum fyrirbyggja annað efnahagshrun, tjón af völdum erfðabreyttra lífvera eða aðra svarta svani með uppruna í manngerðum útungunarvélum.
Hollráð Talebs eru í stuttu máli þessi – í lauslegri þýðingu og endursögn:
- Látið það sem er brothætt brotna áður en það verður of stórt.
- Látið samfélagið ekki taka tapið á sig, á sama tíma og þið einkavæðið gróðann.
- Látið ekki fólk sem ekið hefur skólabíl blindandi (og klesst hann) fá nýjan bíl.
- Látið ekki mann með árangurstengdan kaupauka reka kjarnorkuver eða annast áhættustýringu.
- Finnið jafnvægi milli flækjustigs og einfaldleika.
- Gefið ekki börnum dýnamitstúbu, jafnvel þótt notkunarleiðbeiningar fylgi.
- Ríkisstjórnir eiga aldrei að þurfa að “endurvekja traust”.
- Gefið ekki fíkli dóp til að lækna fráhvarfseinkenni.
- Markaðsvæðið ekki ellilífeyrinn.
- Búið til eggjaköku úr brotnu eggjunum.
Hollráð Talebs hefur áður borið á góma í umræðunni hérlendis, en mér finnst allt í lagi að rifja þau upp annað slagið. Þess vegna hvet ég lesendur líka til þess að lesa greinina alla. Þeir sem ekki hafa aðgang að Financial Times á netinu geta skráð sig frítt til að lesa nýlegar greinar.
Ég hef áður skrifað svolítið um svarta svani, en þeir sem vilja kynna sér hugtakið nánar geta fundið fjöldann allan af heimildum á netinu. Svo má auðvitað benda á bók Talebs, “The Black Swan: The Impact of the Highly Improbable”, sem víða hefur verið vitnað til í fjármálaumræðunni.
Filed under: Sjálfbær þróun |
Góð ráð með sanni. Vonum að þeir séu að hlusta sem átt er við!
Kveðja, Gunna
Ég hélt í smá stund að þú værir farinn að blogga um Hollywood kvikmyndir.