• Heimsóknir

  • 117.209 hits
 • apríl 2011
  S M F V F F S
   12
  3456789
  10111213141516
  17181920212223
  24252627282930
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Mataræði helsta orsök ADHD

Mataræði á stóran þátt í ofvirkni og athyglisbresti (ADHD) meðal 4-8 ára barna. Þetta kom fram í viðamikilli rannsókn sem sagt var frá í grein í febrúarhefti læknatímaritsins Lancet. Niðurstöðurnar benda til að í 63% tilvika megi rekja ADHD beint til mataræðis.

Eins og fram kom í bloggpistli mínum 16. mars sl. hafa ýmsar vísbendingar komið fram um að tiltekin litarefni stuðli að ofvirkni og öðrum hegðunarvandkvæðum meðal barna. Rannsóknin sem sagt er frá í Lancet tekur litarefni ekki sérstaklega til umfjöllunar, heldur var þar kannað hvort neysla unninna matvæla hefði mælanleg áhrif á ADHD. Rannsóknin var í stuttu máli framkvæmd þannig að 100 börnum sem greinst höfðu með ADHD var skipt í tvo jafnstóra hópa. Annar hópurinn (viðmiðunarhópur) fékk almennar ráðleggingar um heilbrigt mataræði en hinn hópurinn (sérfæðishópur) var settur á sérfæði þar sem unnin matvæli voru útilokuð („restricted elimination diet“). Að 5 vikum liðnum voru ADHD-einkenni borin saman milli hópa út frá algengum ADHD-mælikvörðum (annars vegar ARS og hins vegar ACS). ADHD-einkennin höfðu þá lækkað marktækt meira í sérfæðishópnum, hvort sem litið var á ARS eða ACS. Þau 30 börn í sérfæðishópnum sem sýnt höfðu mestar framfarir (a.m.k. 40% lækkun ARS) voru þá sett á almennt fæði í 4 vikur, að teknu vissu tilliti til IgG-gilda (immúnóglóbúlín) í blóði. Eftir þennan síðari hluta tilraunarinnar voru bæði ARS- og ACS-gildi 19 barna af þessum 30 (63%) komin í nokkurn veginn sama horf og áður en tilraunin hófst, óháð IgG-gildum.

Kristin Wartman gerir niðurstöður umræddrar rannsóknar að umtalsefni í pistli á heimasíðu GRIST-Magazine 28. mars sl. og vitnar þar m.a. í viðtal við aðalhöfund greinarinnar í Lancet, Dr. Lidy M Pelsser, sem starfar við ADHD-rannsóknarstöðina í Hollandi. Dr. Pelsser gengur svo langt að segja að mataræði sé aðalorsök ADHD, og að þörf sé að viðhorfsbreytingu hvað varðar umræðu og meðhöndlun þessara einkenna. ADHD sé nefnilega ekki sjúkdómur, heldur samsafn einkenna. Þegar barn greinist með ADHD ætti því að segja: „OK, hér höfum við þessi einkenni, nú er að leita að orsökunum“.

Þrátt fyrir þessar eindregnu niðurstöður Dr. Pelssers og félaga telur Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) ekki tilefni til aðgerða varðandi litarefni og önnur aukefni í unnum matvörum, meðan ekki liggja fyrir frekari sannanir um skaðsemi þessara efna. Evrópusambandið hefur hins vegar þegar gert ráðstafanir til að vara við notkun þeirra 6 litarefna sem helst eru talin stuðla að ofvirkni og öðrum hegðunarvandkvæðum meðal barna, eins og fram kom í bloggpistlinum 16. mars sl. Þær ráðstafanir voru reyndar gerðar löngu áður en umrædd grein birtist í Lancet, enda má telja nokkuð augljóst að beita beri Varúðarreglunni í málum sem þessu, þar sem nægar vísbendingar eru um skaðsemi, jafnvel þótt menn geti rökrætt hvort um „vísindalega fullvissu“ sé að ræða. Málið snýst jú um velferð barna!