Mataræði á stóran þátt í ofvirkni og athyglisbresti (ADHD) meðal 4-8 ára barna. Þetta kom fram í viðamikilli rannsókn sem sagt var frá í grein í febrúarhefti læknatímaritsins Lancet. Niðurstöðurnar benda til að í 63% tilvika megi rekja ADHD beint til mataræðis.
Eins og fram kom í bloggpistli mínum 16. mars sl. hafa ýmsar vísbendingar komið fram um að tiltekin litarefni stuðli að ofvirkni og öðrum hegðunarvandkvæðum meðal barna. Rannsóknin sem sagt er frá í Lancet tekur litarefni ekki sérstaklega til umfjöllunar, heldur var þar kannað hvort neysla unninna matvæla hefði mælanleg áhrif á ADHD. Rannsóknin var í stuttu máli framkvæmd þannig að 100 börnum sem greinst höfðu með ADHD var skipt í tvo jafnstóra hópa. Annar hópurinn (viðmiðunarhópur) fékk almennar ráðleggingar um heilbrigt mataræði en hinn hópurinn (sérfæðishópur) var settur á sérfæði þar sem unnin matvæli voru útilokuð („restricted elimination diet“). Að 5 vikum liðnum voru ADHD-einkenni borin saman milli hópa út frá algengum ADHD-mælikvörðum (annars vegar ARS og hins vegar ACS). ADHD-einkennin höfðu þá lækkað marktækt meira í sérfæðishópnum, hvort sem litið var á ARS eða ACS. Þau 30 börn í sérfæðishópnum sem sýnt höfðu mestar framfarir (a.m.k. 40% lækkun ARS) voru þá sett á almennt fæði í 4 vikur, að teknu vissu tilliti til IgG-gilda (immúnóglóbúlín) í blóði. Eftir þennan síðari hluta tilraunarinnar voru bæði ARS- og ACS-gildi 19 barna af þessum 30 (63%) komin í nokkurn veginn sama horf og áður en tilraunin hófst, óháð IgG-gildum.
Kristin Wartman gerir niðurstöður umræddrar rannsóknar að umtalsefni í pistli á heimasíðu GRIST-Magazine 28. mars sl. og vitnar þar m.a. í viðtal við aðalhöfund greinarinnar í Lancet, Dr. Lidy M Pelsser, sem starfar við ADHD-rannsóknarstöðina í Hollandi. Dr. Pelsser gengur svo langt að segja að mataræði sé aðalorsök ADHD, og að þörf sé að viðhorfsbreytingu hvað varðar umræðu og meðhöndlun þessara einkenna. ADHD sé nefnilega ekki sjúkdómur, heldur samsafn einkenna. Þegar barn greinist með ADHD ætti því að segja: „OK, hér höfum við þessi einkenni, nú er að leita að orsökunum“.
Þrátt fyrir þessar eindregnu niðurstöður Dr. Pelssers og félaga telur Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) ekki tilefni til aðgerða varðandi litarefni og önnur aukefni í unnum matvörum, meðan ekki liggja fyrir frekari sannanir um skaðsemi þessara efna. Evrópusambandið hefur hins vegar þegar gert ráðstafanir til að vara við notkun þeirra 6 litarefna sem helst eru talin stuðla að ofvirkni og öðrum hegðunarvandkvæðum meðal barna, eins og fram kom í bloggpistlinum 16. mars sl. Þær ráðstafanir voru reyndar gerðar löngu áður en umrædd grein birtist í Lancet, enda má telja nokkuð augljóst að beita beri Varúðarreglunni í málum sem þessu, þar sem nægar vísbendingar eru um skaðsemi, jafnvel þótt menn geti rökrætt hvort um „vísindalega fullvissu“ sé að ræða. Málið snýst jú um velferð barna!
Filed under: Heilsa, Sjálfbær þróun |
Það er svo sannarlega þörf á viðhorfsbreytingu gagnvart hegðunarvandamálum barna. Tilhneigingin núna er að reyna að finna „sjúkdóma“ sem orsök þannig vandamála, sem meðal annars sýnir sig í biðlistum á BUGL og auknum fjárveitingum í „geðheilbrigðismál“ barna í stað þess að efla almenna foreldrafræðslu og fyrirbyggja þannig vanlíðan og erfiða hegðun barna.
Takk fyrir þetta Stefán.
Þetta er svo sannarlega þörf umræða. Sjálf á ég stúlku sem greind er með ADHD og að lokinni greiningu er maður engu nær nema að barnið hefur fengið stimpill. Það er eingöngu þörfin hjá manni sjálfum fyrir frekari upplýsingar sem gerir það að verkum að maður rekst á greinar um mikilvægi bætiefna og mataræðis í þessum málum. Heilbrigðiskerfið bregst manni algjörlega og þegar maður reynir að ræða þessi mál á grundvelli mataræðis og næringarefna kemur maður að tómum kofanum. Þó hefur verið gerð a.m.k. ein íslensk rannsókn um lélega upptöku vítamína hjá þessum börnum sem koma fram í líkamlegum einkennum.
Er nú ekki sammála síðasta ræðumanni sem lítur á ADHD sem hegðunarvandamál. Heldur er ADHD afleiðing lélegra taugaviðbragða sem m.a. kemur út í erfiðri hegðun. Það eru til leiðir til að örva þessi taugaboð t.d. með inntöku Omega fitusýra og ég efast sko ekki um að breyting á mataræði myndi líka vera áhrifamikið.
Hegðunarvandamál eða ekki hegðunarvandamál. Við greiningu á ADHD er einungis stuðst við upplýsingar um hegðun. Ég ætti eiginlega að vita það því ég hef unnið við það í mörg ár að greina ADHD. Ok, það er kannski spurning hvort greindarpróf sé að mæla hegðun, en það er oft notað í greiningarferlinu til að útiloka að t.d. athyglisbrestur sé vegna skorts á greind. Þessar tilgátur um orsök ADHD eru svo komnar til eftirá, ADHD er ekki greint þannig að mæld séu taugaboð með efnafræðilegum aðferðum eins og t.d. eru notuð við blóðprufur.
http://www.sweetpoison.com/articles/0706/aspartame_symptoms_submit.html
að viðbættu eitrinu Sodium bezoate. Ég er nú bara leikmanneskja, en ég hef virkilegar áhyggjur af öllum þessum óþverra sem leyft er að setja í mat -og drykkjarvörur. Einnig finnst mér það lélegur vitnisburður um Lyfjaeftirllit ríkisins að vera ekki betur á varðbergi, en elta FDA, sem alls ekki er treystandi, eftir því sem ég hef kynnt mér.
Takk fyrir pistilinn
Rannveig Haraldsdóttir
,,Sodium benzoate“
Það er alveg á hreinu að við erum það sem við borðum, og þess vegna tók ég allan unninn mat út úr mínu mataræði fyrir meira en 30 árum. Þannig borðaði ég bara lífrænan og hollan (óunninn) mat á meðan ég var ófrísk og börnin mín fengu ekkert annað en hollan og góðan mat í uppvextinum. Enda gekk þeim vel í skóla og þar voru aldrei nokkur athygilsbrests vandamal. Þetta er kommon sens! Höfnum þessu unna rusli!
Ég þekki það af eigin reynslu að mataræði skiptir miklu máli. Strákurinn minn greindist með ADHD og mótþróaþrjóskuröskun fjögurra ára gamall. Í dag er hann sex ára og ekki lengur með þessar raskanir. Okkur var bent á GAP mataræðið (GAP sendur fyrir Gut and Psychology Syndrome) og höfum nú í tæplega tvö ár farið eftir því. Dr. Natasha Campbell-McBride skrifaði fyrir nokkrum árum bók þar sem farið er ofan í saumana á þessu mataræði og árið 2009 var bókin þýdd yfir á íslensku. Hún heitir Meltingarvegurinn og geðheilsan. NCM heldur því fram í bókinni að það séu tengsl á milli raskanna/kvilla/geðsjúkdóma, matarræðis og ásigkomulag meltingarvegarins. Ég mæli eindregið með þessari bók fyrir fólk sem er að pæla í þessum málum.
Takk allar fyrir þessi frábæru innlegg! Vonandi kemur einhvern tímann sá dagur að við fáumst til að líta á heilsufar okkar fyrst og fremst sem afleiðingu af mataræði okkar og lífsstíl, í stað þess að sjúkdómsvæða allan pakkann og ætla heilbrigðiskerfinu að leysa hvern þann vanda sem upp kemur.
Mikið er ég sammála!!!
Takk fyrir góðar og áhugaverðar greinar.
hvaða litarefni ýta undir einkennin? E-númer
Litarefnin sem einkum hafa verið tengd við ofvirkni og önnur hegðunarvandkvæði eru:
•E102 Tatrasín (Cl Food Yellow 4, FD&C Yellow #5)
•E104 Kínólíngult (Cl Food Yellow 13, FD&C Yellow #10) (ekki azo-litarefni)
•E110 Sunset Yellow (Cl Food Yellow 3, FD&C Yellow #6, Orange, Orange Yellow, Para-orange, Yellow S)
•E122 Asórúbín (Karmósín, Cl Food red 3)
•E124 Panceau (Cl Food red 7, Kochenillerautt A, New coccine, Nykockin)
•E129 Allúra rautt (Cl Food red 17)
Mín skoðun er sú að sykur (líka ávaxtasykur og agave sýróp) og einföld kolvetni eigi þarna stóran hlut að máli og jafnvel oflítil fita (þá á ég auðvitað ekki við transfitusýrur í unnum matvælum)
Þetta er mjög áhugaverð rannsókn sem þú vitnar og takk fyrir að benda á hana. En eftir að hafa lesið útdráttinn þá sýnist mér þú vera aðeins að misskilja niðurstöðurnar.
Þar stendur að af þeim börnum þar sem dróg úr einkennum við að breyta mataræði hafi 63% þeirra sýnt „relapse“ við það að fara aftur á venjulegt hollt mataræði. – og að þetta hafi verið 19 börn sem gerir 38% af tilraunahópi.
þetta merkir ekki …“að í 63% tilvika megi rekja ADHD beint til mataræðis“ heldur væri eðlilegra að segja að þarna væru komnar vísbendingar um að hægt væri að draga úr einkennum með mataræði.
Túlkun þín væri sambærileg og að taka eina rannsókn úr sviði hagnýtrar atferlisgreiningar sem sýnir góðan árangur meðferðar, -og segja að 80-100% af tilfellum ADHD væri hægt að rekja beint til félagslegra þátta.
Ég held að það sé eðlilegra að draga upp einhverskonar heildarmynd að rannsóknum ef við ætlum að skrifa um efnið á opinberum vettvangi og benda t.d á.
Að margar rannsóknir hafa sýnt fram á sterkan erfðaþátt.
Að margar rannsóknir hafa sýnt fram á að hægt er að draga úr einkennum með atferlisinngripum/contingency management
Að margar rannsóknir hafi sýnt fram á að fyrir ákveðinn hluta þeirra sem greinast með kvillan hafi lyfjagjöf gagnast vel.
Að algengi kvillans sé uþb sambærilegur í evrópu, asíu og usa þrátt fyrir mjög ólíkt mataræði. -ath að þetta á við samanburð rannsókna þegar notast er við sambærileg úrtök og sömu mælitæki.
Ég vil samt taka það fram að ég er ekki að gera lítið úr þessari rannsókn sem þú bentir og ekki að segja að mataræði hafi engin áhrif. -en ályktanir þínar af niðurstöðunum eru rangar og full einfaldaðar.
Með vinsemd
Rafn
Þetta er ekki mínar ályktanir, heldur eru þær teknar upp úr viðtölum við höfund rannsóknarinnar.
Sæll félagi
Rakst nú á þessi skrif þín fyrir tilviljun – var að horfa eftir upplýsingum um ADHD og matarræði – og staldraði við.
Ég gæti haldið langan fyrirlestur um að flestar viðurkenndar rannsóknir varðandi matarræði og ADHD komast að einni og sömu niðurstöðunni – hér er nýlegt dæmi: Einnig voru skoðaðar rannsóknir á þessum mataræðum. Niðurstöður þessarar heimilda-ritgerðar eru að ekki finnst næganlegur vísindalegur stuðningur fyrir mataræði sem meðferðarúrræði við ADHD. Fyrirhöfn gjörbreytts mataræðis er gríðaleg, kostnaðurinn getur verið mikill, auk þess sem líf allra á heimilinu raskast, án þess að nokkur trygging sé fyrir að einkenni ADHD minnki. (http://hdl.handle.net/1946/19345)
Þess utan efast ég ekki um að slæmt mataræði – hvað þá óþol og ofnæmi – hafi slæm áhrif á alla.
Hvað okkur sem eru með ADHD varðar þá ýtir slíkt eflaust undir slæm einkenni ADHD.
Framkallar jafnvel svipuð einkenni hjá öðrum, en þá er ekki þar með sagt að allir hafi ADHD.
En aðalatriðið þó er sú einfalda staðreynd að fullyrðing Lancet um að mataræði geti valdið ADHD er röng. (A strictly supervised restricted elimination diet is a valuable instrument to assess whether ADHD is INDUCED [leturbreyting mín] by food)
Fyrir löngu er búið að sýna fram á að ADHD er (85%) arfgeng röskun á boðefnaskiptum í heila. Þess vegna getur FDA ekki tekið alvarlega fullyrðingar þessa ‘vísindamanns’.
Sama kæri vinur ætti að gilda um þig.
Með kveðju,
Villi H
Nú fór reyndar athyglisbresturinn eitthvað illa með mig – tímaritið heitir náttúrulega Lancet en læknarnir Dr Lidy M Pelsser et.al (Dr Lidy M Pelsser, MSc, Klaas Frankena, PhD, Jan Toorman, MD, Prof Huub F Savelkoul, PhD, Prof Anthony E Dubois, MD, Rob Rodrigues Pereira, MD, Ton A Haagen, MD, Nanda N Rommelse, PhD, Prof Jan K Buitelaar, MD)
Mjög góður pistill. Mig langar líka að bæta við að til að bæta svo gráu ofaná svart varðandi geðheilbrigði barna og líðan þá eru þrengsli og alltof fjölmennar deildar í leikskólum, hávaði og áreiti svo mikil að fólk er einsog það sé í barnaafmæli frá 8-5 alla daga vikunnar, hvernig myndi ykkur líða í þannig umhverfi? kæmi þetta kanski út sem æsingur og stress? væri ekki áhugavert að gera rannsókn á því hvað við erum að bjóða leikskólabörnunum okkar uppá, Ég er leikskólakennari og vinn á deild þar sem eru 18 börn, sem eru í tveimur elstu árgöngum leikskólanns, við höfum til umráða tvær stofur ekki stórar, önnur er stútfull af húsgögnum borðum og stólum því að þar þurfum við líka að matast, hin stofan er leikrými og svo hvíld þegar hún er og þá er allt dót tekið saman og dýnur þekja allt gólfið svo að allir geti hvílst og svo þarf auðvitað að ganga frá öllu að lokinni hvíld svo að hægt sé að nýta rýmið. Það er þannig umhverfi í leikskólum í dag að í nám leikskólakennara er svo lítil aðsókn að í ár var reynt að múta karlmönnum með peningaverðlaunum ef þeir færu í námið, ég hef ekki heyrt hvort að það hafi virkað, en já mér finnst þetta ákaflega sorglegt að horfa uppá þróun leikskólanns. Svo í endinn langar mig líka að segja að svo er skólinn auðvitað fyrir alla, og við eigum að sinna öllum hvort sem viðkomandi er með sérþarfir, ofvirkni, seinvirkni…eða bara frá öðru landi og mállaus… í þessu stórkostlega mikla rými.. takk fyrir Nína
Áhugaverður pistill hver eru þessi 6 litarefni se varað er við ?
Ég ætla að leyfa mér að ítreka það sem kemur fram í fyrra innleggi frá mér hér ofar:
• Sú fullyrðing sem felst í fyrirsögn Stefáns þess efnis að Mataræði sé helsta orsök ADHD er röng.
• Gagnreyndar rannsóknir sýna þvert á móti að ekkert sé hæft í slíkum fullyrðingum, ekki síst þar sem meiriháttar inngrip í matarræði hefur í för með sér svo víðtækt inngrip í daglegt líf að með engu móti verði hæft að fullyrða um orsakatengsl (þ.e.a.s. að t.d. litarefni valdi ADHD)
• Þetta kemur reyndar ekki á óvart því fyrir löngu hefur verið sýnt fram á að ADHD er fyrst og fremst taugaþroskaröskun og tengist að öllum líkindum erfðum.
• Eftir stendur að mögulega geti ýmis litarefni, fæðuóþol og/eða -ofnæmi ýtt undir ADHD lík einkenni. Hér er lykilatriði að þetta á við allan fjöldann en ekki aðeins einstaklinga með ADHD; Slæmt matarræði og mögulega ákveðin litarefni setja alla út af laginu og geta framkallað einkenni sem líkjast helstu birtingarmyndum ADHD óháð hvort ADHD sé til staðar eða ekki.
Ég skora hér með á vin minn Stefán að fjarlægja þetta af bloggsíðu sinni, enda ábyrgðarhluti að viðhalda slíkum ranghugmyndum.
Ég gleymdi náttúrulega aðalatriðinu:
• Niðurstaðan í rannsókninni sem Stefán vísar til er að ákveðin fæða/efni geta ýtt undir ADHD einkenni.
• Hvergi stendur (svo ég fái séð) að eitthvað slíkt valdi (eða sé orsök) ADHD.