• Heimsóknir

  • 119.039 hits
 • maí 2011
  S M F V F F S
  1234567
  891011121314
  15161718192021
  22232425262728
  293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Umhverfisáhrif manna og eldgosa

Í hvert sinn sem eldfjall gýs, gýs líka upp umræða um það hvort tilburðir til umhverfisverndar séu ekki gagnslausir í samanburði við þau miklu neikvæðu áhrif sem eldspúandi fjöll hafa á umhverfið. Svarið við þessu er einfalt: Umhverfisvernd snýst eingöngu um að draga úr neikvæðum áhrifum mannkynsins á umhverfi sitt. Sú viðleitni er jafn nauðsynleg hvað sem gengur á í náttúrunni.

Eldfjöll hafa gosið frá örófi alda og um það ráðum við engu. Það er bara þau neikvæðu áhrif sem við orsökum sjálf sem við getum dregið úr. Náttúran þolir neikvæð áhrif eldgosa, en við höfum enga tryggingu fyrir því að hún þoli neikvæð áhrif eldgosa og neikvæð áhrif af athöfnum mannkynsins í ofanálag.

Ef menn vilja endilega ræða þetta í einhverju loftslagssamhengi, þá má reyndar benda á að ef eitthvað er, þá draga eldgos úr þeirri hnattrænu hlýnun sem við stuðlum að á degi hverjum með losun koltvísýrings og annarra gróðurhúsalofttegunda.

Málfarsslysfarir í útvarpi allra landsmanna

Þetta er grjót. Þetta eru steinar.

Skömmu eftir að Jón sigraði landsmótið urðu vatnaskil í sögu hans sem golfleikara þegar hann varð fyrir fólskulegri árás tapsárra keppinauta, sem hentu í hann grjótum. Jón slasaðist svo illa í árásinni að hann tekur varla þátt í fleiri mótum þetta árið.

Í setningunni hér að framan, (sem gæti verið úr dæmigerðum staglstíl) er að finna fjórar málfarslegar ambögur sem allar fara óskaplega í taugarnar á mér. A.m.k. þrjár þeirra hafa heyrst í útvarpi allra landsmanna á síðustu 10 dögum, eða sést á vef þess sama útvarps. Sú fjórða heyrist þar líka annað slagið. Lítum nánar á málið:

 1. Það er ekki hægt að sigra mót, nema þá ef mótið tapar fyrir manni. Sama gildir um söngvakeppni. Hins vegar er hægt að sigra í móti og svo er líka hægt að vinna mót.
 2. Vatnaskil verða ekki, þau eru bara. Þáttaskil verða.
 3. Orðið grjót er ekki til í fleirtölu. Það er bara til í eintölu og er þá gjarnan notað um marga steina.
 4. Maður slasast ekki í árás. Maður getur hins vegar meiðst eða særst, sem er auðvitað álíka slæmt. Maður slasast í slysum.

Þetta var málfarsnöldur. Mér finnst að útvarp allra landsmanna eigi að vera mér og öðrum góð fyrirmynd í meðferð móðurmálsins.

Þetta er allt Umhverfisstofnun að kenna

Upp er komin áhugaverð staða í Vestmannaeyjum eftir að Umhverfisstofnun ákvað í gær að beita sorporkustöðina í eyjunum 50 þúsund króna dagsektum frá og með 1. júní nk. þar til mengunarvörnum hefur verið komið í viðeigandi horf. Þessi ákvörðun getur nefnilega „þýtt að bærinn verði að hætta við að kaupa nýja sorpbrennslustöð“, ef marka má það sem haft var eftir Elliða Vignissyni bæjarstjóra í frétt RÚV í morgun.

Þvingunarúrræði eru alltaf óþægileg fyrir þann sem fyrir þeim verður. Til þess eru þau. Og hvað átti Umhverfisstofnun annars að gera í stöðunni? Eins og fram kemur á heimasíðu stofnunarinnar hafa „mælingar á útblæstri sem gerðar hafa verið árin 2004, 2005, 2007, 2008, 2009 og 2010 […] allar sýnt niðurstöður þar sem rykmagn í útblæstri sorporkustöðvarinnar er allt að þrefalt það magn sem tilgreint er sem hámark  losunar  í starfsleyfi“. Öll þessi ár hefur verið farið fram á úrbætur, en enn er staðan nánast óbreytt. Á Umhverfisstofnun þá bara að halda áfram um ókomna tíð að senda áminningarbréf og halda samráðsfundi – og láta svo eins og ekkert sé þess á milli? Er það ekki einmitt slíkt verklag sem menn eru loksins búnir að átta sig á að dugar ekki?

Í Vestmannaeyjum búa rúmlega 4.000 manns. Ég tel fremur ólíklegt að rekstur fullkominnar sorpbrennslustöðvar sé fjárhagslega hagkvæmur fyrir svo fámenna byggð, en að vísu skiptir varmaorkan líka máli í þessu tilviki. En hvað sem fjárhagslegri hagkvæmni líður, þá er býsna langsótt að skella skuldinni á Umhverfisstofnun, nema kannski ef stofnunin hefði leyft næstu 7 árum að líða áreitislausum, að frátöldum áminningarbréfum sem eru jafn árviss og jólakort.

Næsthraðasta maraþonið

Sl. laugardag tók ég þátt í Vormaraþoni Félags maraþonhlaupara (FM). Aðalmarkmiðið var að njóta hlaupsins og láta sér líða vel – og það markmið náðist. Svo átti ég mér reyndar það aukamarkmið að vera ekki lengur en 3:30 klst. að ljúka hlaupinu. Það markmið náðist líka. Þegar upp var staðið munaði heldur ekki ýkja miklu að ég næði þriðja markmiðinu, sem ég hafði reyndar ekki sett mér, þ.e. að ná besta maraþontímanum mínum frá upphafi. Ég lauk sem sagt hlaupinu á 3:18:23 klst, sem er bara 1:16 mín frá persónulega metinu mínu sem ég setti í talsvert hlýrra veðri í Reykjavíkurmaraþoninu 2009.

Að njóta hlaups
Enginn vina minna eða kunningja hefur spurt hvort mér hafi ekki þótt gaman í þessu hlaupi. Hins vegar hafa nokkrir spurt hvernig ég hafi nennt þessu – og hvort þetta hafi ekki verið bæði vont og leiðinlegt. En auðvitað væri ég ekkert að þessu ef mér þætti það ekki gaman. Um maraþonhlaup gildir það sama og um önnur lífsins gæði, að ef maður leggur ekkert á sig verður uppskeran lítils virði. Það er alltaf ákaflega góð upplifun að koma í mark að loknu maraþonhlaupi, jafnvel þótt hlaupin séu orðin mörg. Þessarar upplifunar fær maður ekki að njóta nema hlaupa hlaupið fyrst. Flóknara er það nú ekki.

Hin eftirsóknarverða maraþonupplifun snýst reyndar ekki bara um að koma í mark. Í hlaupi sem tekur nokkra klukkutíma gerist auðvitað ýmislegt fleira skemmtilegt, ýmist utanaðkomandi eða heimatilbúið. Kannski hleypur maður fram hjá lífsglöðum áhorfendum sem blasta ABBA í græjum á gangstéttinni. Eða kannski sér maður kunnugleg brosandi andlit einhvers staðar við hlaupaleiðina – og það vill svo skemmtilega til að brosandi andlit eru enn fallegri en ella og stafa frá sér meiri hlýju við þessar aðstæður en flestar aðrar. Og kannski kynnist maður nýjum hlaupurum og styrkir tengsl við aðra sem maður þekkti fyrir. Það virkar nefnilega töluvert öðruvísi að hlaupa við hliðina á áður ókunnugri manneskju í hálftíma en að standa jafnlengi við hliðina á henni í strætó. Og þegar fátt virðist til skemmtunar getur maður sótt í eigin reynslu af því að búa til sína eigin skemmtun. Hún getur falist í því að gleðjast yfir góðum millitíma, rifja upp augnablik þegar manni leið einstaklega vel í einhverju öðru hlaupi eða spila vel valda tónlist í huganum. Ég hleyp hins vegar aldrei með utanaðkomandi tónlist í heyrnartækjum, nema þá innandyra á hlaupabretti, því að í útihlaupum þarf ég á öllum mínum skilningarvitum að halda til að nema alla þá óvæntu skemmtan og upplifun sem þar bíður.

Hlaupið sjálft
Ég vaknaði kl. 5 þennan morgun, fullur tilhlökkunar. Þessi fótaferðatími var ekki afleiðing svefnleysis og spennu, heldur hluti af hefðbundnum og næsta ófrávíkjanlegum undirbúningi mínum fyrir maraþonhlaup. Ég fer sem sagt alltaf á stjá í síðasta lagi 3 klst. fyrir hlaup, borða góðan morgunmat með engu óvenjulegu innihaldi, og tryggi þannig að meltingin sé komin vel áleiðis áður en hlaupið hefst. Mér dettur ekki í hug að reyna að hlaupa langt á fastandi maga, en matarbiti skömmu fyrir hlaup er ávísun á meltingarvandræði.

Þegar ég leit út um gluggann þennan morgun sá ég strax að ég þyrfti ekki að draga stuttbuxurnar upp úr hlaupatöskunni þennan daginn. Úti var sem sagt slydda og hitinn nálægt 1°C. Hins vegar bærðist varla hár á höfði. Yfirleitt dreg ég stuttbuxnamörkin við 6°C, en auðvitað hafa vindur og úrkoma líka áhrif á fatavalið. Veðrið þennan dag bauð upp á síðar hlaupabuxur, langermastakk og ullarhanska. Hins vegar sleppti ég húfunni, enda lítið gefinn fyrir slíkan útbúnað í frostlausu veðri. Skórnir voru fyrirfram ákveðnir; Asics Trainer, léttir og þægilegir með frekar lítilli dempun. Hef notað þá í öllum keppnishlaupum í heilt ár og líkað einkar vel. Veðrið hefur engin áhrif í því sambandi.

Maraþonhlaup FM hefjast ævinlega neðst í Elliðaárdalnum, nánar tiltekið við hitaveitustokkinn skammt frá Rafveituhúsinu. Þaðan er hlaupið um Fossvog, Nauthólsvík og Skerjafjörð vestur á Ægissíðu, aftur til baka, aftur vestur á Ægissíðu og aftur til baka. Og kl. 8 þennan morgun lögðu um 35 hlauparar upp í þessa vegferð – í logni, slyddu og 0,5 stiga hita. Slyddan átti eftir að endast út hlaupið, án þess þó að snjó festi ef frá er talið svolítið krap á brúnni yfir Kringlumýrarbraut.

Mér leið vel í upphafi hlaups og hélt miklu meiri hraða en ég hafði reiknað með, kláraði fyrstu kílómetrana á u.þ.b. 4:35 mínútum stykkið. Sá hraði dugar manni til að ljúka maraþonhlaupi á innan við 3:14 klst. Gerði mér samt engar grillur um neina svoleiðis tíma. Dagskipunin var sú sama og í nokkrum fyrri maraþonhlaupum, þ.e. að hlaupa eins hratt og mér finndist þægilegt, brosa á meðan allt væri gott og skemmtilegt – og halda svo áfram að brosa að því loknu. Eftir svo sem 3,5 km slóst ég í för Degi Egonssyni og Oddi Mána Malmberg. Það átti eftir að reynast happadrjúg samfylgd, því að leiðir okkar skildu ekki að ráði fyrr en 30 km síðar. Samfylgd af þessu tagi styttir manni stundir og léttir hlaupið svo um munar.

Millitíminn eftir 5 km var um 23 mín, 46 mín eftir 10 km og 69 mín eftir 15 km. Þessi hraði samsvarar 3:14 klst. í maraþoni. Eftir hálft maraþon var tíminn 1:37:11 klst., sem sagt enn á svipuðu róli, líðanin góð og enginn kvíði til staðar. Ég hefði gleypt eitt orkugel við hverja drykkjarstöð, þ.e. á rúmlega 5 km fresti, og drukkið vatn með. Miðað við fyrri reynslu er þetta fullmikil geltíðni, miða helst við u.þ.b. 7 km á milli. Varð enda var við einhver óþægindi í maga á seinni helmingi hlaupsins og sleppti því einni gelmáltíð með góðum árangri.

Nú velta því sjálfsagt einhverjir fyrir sér til hvers maður sé að éta gel í svona hlaupum. Svarið við þeirri spurningu er svo sem einfalt: Maður í mínum þyngdarflokki (einhvers konar fjaðurvigt) eyðir rúmlega 3.000 hitaeiningum í einu maraþonhlaupi, þannig að þegar líður á hlaupið tæmist einfaldlega tankurinn ef engu er bætt við. Þá lendir maður á “veggnum”. Honum kynntist ég eftir 33 km í fyrsta maraþonhlaupinu mínu sumarið 1996, fyrir daga gels og þvílíks munaðar. Og gel er betra en föst fæða, því að mér finnst leiðinlegt að tyggja á hlaupum.

Eftir viðsnúninginn í Elliðaárdalnum tók heldur að hægja á okkur félögunum. Allt gekk þó vel, og eftir 30 km var millitíminn 2:19:06 klst., sem er svipaður tími og í bestu maraþonunum mínum fram til þessa. Eftir þetta fór hins vega heldur að hægja á mér, en Dagur og Oddur héldu sínu striki. Þegar u.þ.b. 33 km voru að baki var ég því orðinn einn míns liðs, en sá þó Dag alltaf svo sem 100 m á undan mér. Fyrir neðan Loftleiðahótelið hitti ég svo Ingimund Grétarsson, sem að þessu sinni var bara í hvatningarliðinu en ekki á hlaupum. Það hressti mig enn frekar við, en ég var reyndar merkilega hress fyrir þó að þreytan væri farin að segja til sín og hraðinn kominn nálægt 5 mín/km. Eftir 37 km sýndi klukkan 2:53:09 klst. Þá vissi ég að ég væri öruggur með að ljúka hlaupinu á 3:23 klst., jafnvel þó að sitthvað færi úrskeiðis á síðustu kílómetrunum. Þannig var markmiðið um 3:30 í höfn.

Þegar þarna var komið sögu var ég löngu orðinn holdvotur frá hvirfli til ilja, enda ekkert lát á slyddunni. Það angraði mig svo sem ekki neitt, nema hvað skyggnið var afleitt gegnum gleraugun. Og ég fann heldur ekkert fyrir kulda, þótt hitinn væri innan við 1°C. Hlaupin halda á manni hita, sérstaklega í svona góðu logni eins og var þennan dag. Það er ekki fyrr en numið er staðar sem hrollurinn sækir að.

Eftir 40 km á 3:08:08 klst. setti ég mér nýtt markmið, þ.e. að ná betri tíma en í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra (3:18:47) – og þar með næstbesta tímanum mínum frá upphafi. Þegar þarna var komið sögu var ég aftur kominn fram úr Degi, en Oddur var horfinn. Nýja markmiðið virkaði sem hvatning og varð til þess að ég bætti heldur í, enda leið mér aldeilis stórvel þótt þreytan væri farin að segja til sín. Ég gætti þess sérstaklega að villast ekki við Víkingsheimilið eins og ég gerði í hálfu vormaraþoni í fyrra. Þaðan voru líka bara 500 m eða svo í mark, og orðið tímabært að huga að endaspretti til að líta vel út í lokin. Reyndar grunar mig að endasprettirnir mínir í maraþonhlaupum séu fremur huglægir en raunverulegir. Sjálfum finnst mér ég geysast áfram, en áhorfendur verða líklega ekki varir við neitt slíkt. En hvað sem því líður var ákaflega gaman að vera kominn á hitaveitustokkinn þar sem hann liggur yfir Elliðaárnar og sjá markið framundan. Síðasti kílómetrinn tók mig ekki nema 4:24 mín., og í markið kom ég alsæll og holdvotur á 3:18:23 klst.

Fagnið
Ég var spurður að því á leiðinni hvernig maður fagnaði góðu maraþonhlaupi. Ég svaraði því til að maður legðist í grasið, gréti og faðmaði síðan alla viðstadda. En þrátt fyrir það að ég væri fullur fagnaðar yfir því að vera búinn með hlaupið – og það á mínum næstbesta tíma, þá fylgdi ég forskriftinni ekki alveg sjálfur í þetta skipti, sérstaklega ekki þessu með grasið, sem var óvenjublautt og kalt þennan morgun, og jafnvel frekar hvítt en grænt.

Árangurinn
Alls luku 35 hlauparar þessu maraþonhlaupi. Ég var 8. maður í mark, en 3. af 8 ef aðeins eru taldir þeir sem komnir eru á sextugsaldurinn. Reyndar er mér nokk sama hvar ég lendi í svona röð, því að fyrir mér er þetta ekki keppni við neinn annan en sjálfan mig. Hinir hlaupararnir eru félagar en ekki keppinautar.

Myndin sem fylgir þessum línum er af mér og Ingvari Hjartarsyni frænda mínum að hlaupi loknu. Hann hljóp ½ maraþon, stórbætti sinn fyrri árangur, hljóp á 1:24:39 klst og lenti í 12. sæti af 259 hlaupurum. Stórglæsilegur árangur hjá næstyngsta þátttakandanum í Vormaraþoninu! (Afi hans og ég erum sko systrasynir)! (Ljósm. Hjörtur Stefánsson).