• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • júní 2011
    S M F V F F S
     1234
    567891011
    12131415161718
    19202122232425
    2627282930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Sjö skemmtitindar í Mosfellsbæ

Í dag (eða kannski í gær ef maður gefur sér að nú sé kominn sunnudagur) tók ég öðru sinni þátt í 7-tinda hlaupinu í Mosfellsbæ, sem að margra mati er erfiðasta almenningshlaup á Íslandi. Hafði gert mér vonir um að bæta tímann minn frá því í hitteðfyrra, en þá skrönglaðist ég í mark á 4:41:20 klst. Vonirnar rættust, því að tíminn í dag (eða í gær) var 4:33:32 klst, sem sagt um 8 mín skemmri en í hitteðfyrra, þó að leiðin hafi reyndar verið hálfum kílómetra lengri.

Sjötindahlaupið er eitthvað um 37,5 km. Það er sem sagt styttra en maraþonhlaup, en eftir að hafa hlaupið tvö sjötindahlaup og átta maraþonhlaup get ég fullyrt að maraþonhlaup er töluvert auðveldara. Reyndar eru þessir 7 tindar engir Hvannadalshnjúkar, heldur frekar sakleysisleg fell sem rísa 216-550 m yfir sjó. En það er samt engin lygi að þetta er bara þónokkuð erfitt!

Hlaupið í dag (eða í gær) hófst við Íþróttamiðstöðina við Varmá, en ekki við Lágafellsskóla eins og í hitteðfyrra. Þetta er góð breyting, því að nú slapp maður við að hjakkast nokkra kílómetra á malbikinu í lokin. Ég var þokkalega léttur og hélt mig frekar framarlega til að byrja með. Annars bar lítið til tíðinda framan af, nema hvað ég fann strax að það hefði verið skynsamlegt að taka fleiri en eina brekkuæfingu fyrri hluta ársins. Var sem sagt frekar linur upp Úlfarsfellið (tind nr. 1), en ágætlega sprækur niður eins og venjulega. Tók þá fram úr slatta af liði. Reykjaborg (tindur nr. 2) og Reykjafell (tindur nr. 3) voru líka sigruð með svipuðum hætti. Tók millitíma á öllum toppum, en það gerði ég ekki í hitteðfyrra og hafði því engan samanburð. Fannst mér ganga betur núna á sléttu köflunum en kannski ívið verr í brekkunum.

Minnstu munaði að ég villtist á leiðinni niður af Reykjafellinu, því að þar vísuðu appelsínugulir hælar beina leið í stefnu á Reykjalund, en þar átti maður að beygja þvert af leið til hægri niður í Skammadal. Var svo heppinn að vera í fylgd gleggri manna sem leiðréttu stefnuna hjá mér. Ekki voru allir svo heppnir. Ég held að það hafi einmitt verið þarna sem sigurvegarinn í hlaupinu villtist, en þrátt fyrir að hann hlypi 5 km aukalega tókst honum að koma fyrstur í mark!

Lengst af var ég ýmis rétt á eftir eða rétt á undan Daníel Smára Guðmundssyni, þeim mikla hlaupara og kaupmanni. Hann tók fram úr mér í brekkum bæði upp og niður, en ég vann það upp á sléttu köflunum. Á drykkjarstöðinni í Skammadal hitti ég Herdísi frænku mína rétt sem snöggvast. Það er alltaf virkilega uppörvandi að sjá kunnugleg andlit á svona ferðum!

Mér gekk sæmilega upp á Æsustaðafjall (tind nr. 4), en missti þó einhverja fram úr mér í brekkunum. Reyndar skiptir svoleiðis lagað í sjálfu sér engu máli, því að ég legg það ekki í vana minn að keppa við aðra en sjálfa mig. En ef margir streyma fram úr manni finnst manni maður náttúrulega frekar slappur. Það er bara mannlegt held ég.

Vetrarmýrarnar voru erfiðar; mikil sina og mjúkar þúfur. Þúfur eru reyndar kjörlendi mitt, en þarna var ég kominn með hálfgerða kjörlendiseitrun. Mig minnir að sinan hafi ekki flækst svona mikið fyrir mér í hitteðfyrra.

Eftir sinuna tók við langerfiðasti kaflinn, upp Dauðabrekkuna upp á Grímmannsfell og áfram upp á Stórhól (tind nr. 5). Þarna var ég farinn að þreytast verulega, og var líka orðinn tæpur með vatn. Hafði bara tekið með mér einn 200 ml. brúsa, því að mér leiðist að bera mikið, (enda ekki nema nokkur grömm sjálfur). Fyllti á brúsann á drykkjarstöðvum og drakk þar líka væna sopa. En líklega voru einir 11 km á milli drykkjarstöðvarinnar í Skammadal og næstu stöðvar við Hraðastaði. Það er of langur spölur fyrir 200 ml. Það vildi hins vegar svo vel til að björgunarsveitarmennirnir á Stórhól höfðu gripið með sér kippu af vatnsflöskum. Það bjargaði mér alveg.

Leiðin niður af Stórhóli sóttist þokkalega, þangað til komið var í brekkurnar niður af Flatafelli. Þar komst ég að því að niðurhlaupafærnin mín, sem ég hef löngum státað af, var uppurin. Þetta varð sem sagt hálfgerður niðurgangur, sem sagt önnur áminning um að maður eigi kannski að æfa svolítil brekkuhlaup áður en maður hleypur 37 km upp og niður fjöll, þótt lág séu. Þarna var Daníel Smári næstum horfinn og einhverjir fleiri sigu líka fram úr.

Ég hresstist þegar ég var kominn niður í byggðina í Mosfellsdalnum og hélt góðum hraða á veginum frá Hraðastöðum (lýsandi bæjarnafn ekki satt?) að Mosfelli. Á þessum kafla náði ég t.d. Daníel Smára aftur og einhverjum fleirum, enda nokkuð innstilltur á mitt ágæta 4:40-maraþontempó. (Fyrir þá sem ekki lifa fyrir tölfræði hlaupa, þá þýðir þetta að maður hlaupi hvern km á 4:40 mín, sem dugar til að klára maraþon á 3:17 klst). Mér leið enn sæmilega á leiðinni upp Mosfellið (tind nr. 6) og sýndist allt stefna í að ég gæti lokið hlaupinu á svipuðum tíma og í hitteðfyrra (4:41 klst). En þegar ég kom fram á brúnina fyrir ofan Hrísbrú, langaði mig hreint alls ekki til að fara þar niður. Gat rétt með naumindum staulast niður skriðuna og minntist þess að þetta var miklu léttara í hitteðfyrra. Þarna streymdu líka hlaupararnir fram úr mér hver af öðrum.

Líðanin skánaði mikið þegar ég var kominn inn á Hrísbrúartúnið, og vegarspottinn þaðan að rótum Helgafells var kærkomin hvíld. Hraðamælirinn sýndi eitthvað um 4:50 mín/km. Þarna var sem sagt eitthvað farið að hægjast á mér, en allt í góðu samt. Sá fram á að mér dygði gönguhraði til að bæta tímann minn frá 2009. En Helgafellið (tindur nr. 7) var eftir. Staulaðist upp það eins og gamall maður og gladdist yfir hverjum 100 m sem lagðir voru að baki. Var ákveðinn í að taka það létt niður að Helgafellsbænum. Það tókst reyndar ekki, því að vöðvarnir framan á lærunum voru alveg orðnir grillaðir eftir niðurhlaupin. Hins vegar var alveg dásamlegt að komast á veginn í Helgafellshverfinu – og síðasti kílómetrinn var BARA skemmtilegur. Stóð mig reyndar að því að vera farinn að tala við sjálfan mig, en ætli það sé nokkuð óeðlilegra en hvað annað við þessar aðstæður.

Það var unun að hlaupa inn á völlinn við Varmá, og síst taldi ég það eftir mér að hlaupa einn hring á mjúku tartanbrautinni á vellinum, áður en ég skeiðaði léttfættur (að mér fannst) í markið á 8 mín. betri tíma en í hitteðfyrra, þrátt fyrir að vegalengdin væri hálfum kílómetra lengri (út af króknum inn á völlinn og þessum mjúka lokahring). Gat ekki annað en verið vel sáttur við þetta. Var að vísu ákaflega uppgefinn fyrst á eftir, en hleðsludrykkur, Snickers og heiti potturinn gerðu sitt gagn. Ég fann ekki fyrir krampa né neinum öðrum óþægindum sem orð er á gerandi, nema þreytu auðvitað. Það væri líka eitthvað bogið við það ef maður væri ekki þreyttur eftir svona hlaup.

Í svona pistlum þarf alltaf að gera grein fyrir nesti og öðrum búnaði. Ég var búinn að skrifa eitthvað um vatnið. En maðurinn lifir ekki á vatni einu saman. Þess vegna gleypi ég alltaf nokkra skammta af þar til gerð orkugeli í svona hlaupum, helst svo sem eitt gel á 7 km fresti, og drekk tvo gúlsopa af vatni með. Annað nesti vil ég ekki. Og mér er meinilla við orkudrykki, sérstaklega Powerade-ur, enda inniheldur sá drykkur gervisætuefni sem fara ekki vel í mig, hvorki huglægt né líkamlega.

Fatnaðurinn í hlaupinu var hefðbundinn, enda nota ég að grunni til alltaf sama búninginn í keppnishlaupum. Ef hitastigið er hærra en 6°C og ekki mikill vindur, þá eru stuttbuxur og hlírabolur málið. Stundum er ég að vísu í stuttermabol undir hlírabolnum. Hafði það þannig í þetta sinn. Heyrði utan að mér að fólki þótti þetta glænibbulegur klæðnaður, en hitastigið í byggð var jú 13°C, þannig að það hvarflaði ekki að mér að fara í langermabol og síðar buxur. Reyndar var mér ansi kalt á handleggjum og höndum uppi á Grímmannsfelli, enda er maður þar kominn í rúmlega 500 m. hæð. Auk þess blés allhvass austanvindur á okkur, og auðvitað mest þar sem hæst var. En veðrið var þurrt, og ef ekkert fer úrskeiðis hleypur maður jú sér til hita. Ég held sem sagt að þetta hafi verið hárréttur klæðnaður. Hitt er svo annað, að í svona hlaupi þar sem farið er um holt og skriður, er talsverð hætta á að maður hnjóti og hrufli sig. Þess vegna er sjálfsagt gott að hlífa hnjám og höndum. Ég sleppti því alveg, enda þykist ég vera frekar fótviss í ójöfnum (7,9,13).

Skórnir eru lykilatriði í svona hlaupum. Ég var í nýjum utanvegaskóm af gerðinni Asics Trail Attack 7, sem Birgitta dóttir mín gaf mér í 54-ára afmælisgjöf á liðnum vetri. Fyrir daginn í dag var ég bara búinn að hlaupa 17 km í þeim, sem er næstum því of lítið. En skórnir stóðu sig frábærlega. Reyndar þrengdu þeir eitthvað að vinstri hásininni framan af, en það lagaðist eftir að ég losaði örlítið um reimarnar.

Þetta gekk sem sagt eins og í góðri sögu, og í öllum góðum sögum eru einhverjir erfiðleikar. Sjálfsagt verð ég eitthvað stirður í fótunum næstu daga, en það gerir ekkert til. Vinnan bíður, og þar eru fæturnir ekki notaðir.

Takk Mosfellingar! Þetta var frábært hlaup! Enn má laga merkingar, en það er viðfangsefni en ekki vandamál.

2 svör

  1. Það mætti halda að þú sért að tala um hlaup á hlaupabraut þegar þú talar um það sem er ekki brekkur, enda er ótrúlegt að sjá þig svífa yfir hvað sem fyrir er í fjallvegahlaupunum. Eins og það skipti engu máli fyrir þig hvort undirlagið er stórgrýti eða malbik.

  2. […] 11. júní var röðin komin að 37 km 7-tinda hlaupinu í Mosfellsbæ, sem er vafalítið eitt erfiðasta keppnishlaup á Íslandi. Mér gekk vel lengst […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: