• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • júní 2011
    S M F V F F S
     1234
    567891011
    12131415161718
    19202122232425
    2627282930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Saga af Skarðsheiðarvegi

Í gær (eða fyrradag eftir því hvernig á það er litið) hljóp ég Skarðsheiðarveginn í góðum félagsskap, auk þess sem ég fór í heita pottinn við Hreppslaug og sat veislu í boði Jóhannesar og Guðrúnar í Efri-Hrepp. Dagsverkin gerast ekki öllu ánægjulegri. Og svo var þetta tuttugastiogannar fjallvegurinn í fjallvegahlaupaáætluninni minni. Nú á ég bara 38 fjallvegi eftir áður en ég verð sextugur.

Skarðsheiðarvegurinn liggur ekki yfir Skarðsheiðina, heldur vestan við hana. Skarðsheiðin endar í Heiðarhorni, sem er hæsta fjallið í þessari gömlu eldstöð. Þar fyrir vestan fóru menn gjarnan yfir fyrr á árum á leið sinni milli Melasveitar og Skorradals, í stað leiðarinnar undir Hafnarfjalli, þar sem bílvegurinn liggur núna.

Við hlupum af stað frá Þjóðvegi nr. 1 á Skorholtsmelum kl. 4 síðdegis. Ferðalagið mitt byrjaði reyndar með því að Björk skutlaði mér þarna suður eftir. Mér yrði víst lítið úr fjallvegahlaupum ef ég þyrfti alltaf að byrja á því að hlaupa að heiman. Reyndar eru Skorholtsmelar ekki svo ýkja langt frá Borgarnesi, þar sem ég bý, eða eitthvað um 16 km. En það er nú samt töluvert fljótlegra að fara þetta á bíl heldur en tveimur jafnfljótum.

Skorholtsmelar eru jökulruðningurinn milli bæjanna Skorholts og Fiskilækjar í Melasveit, sem flestir Íslendingar hafa ekið hjá miklu oftar en einu sinni á lífsleiðinni. Þar leynist á einum stað svolítill afleggjari til norðurs, þ.e. til hægri ef leiðin liggur frá Reykjavík vestur og norðurum. Þarna byrjaði hlaupið.

Veðrið lék við okkur í gær; sólin skein og hitamælirinn sýndi 15 gráður í Melasveitinni. En norðanátt síðustu daga var ekki hætt að blása, þannig að við fengum drjúgan vind í fangið alla leið.

Fyrsta hálftímann eða svo fylgdum við greiðfærum malarvegi um mela og birkikjarr upp að fjallsrótum, og síðan tóku brekkurnar við. Áður en lagt var í þær áðum við góða stund við Lambagil, stutt frá þeim stað þar sem skátarnir á Akranesi áttu skála á sínum tíma. Að Lambagili eru 5,3 km frá Hringveginum. Við héldum okkur síðan á gömlu reiðgötunni vestan við Leirá. Þetta er þægileg leið, sem liggur upp malarholt og yfir nokkur grunn gil. Þarna eru engar mjög brattar brekkur, og maður getur ekki annað en hugsað um veðurblíðuna sem þarna hlýtur að ríkja á sumrum þegar vindur er hægur. Fjallahringurinn spillir heldur ekki upplifuninni, því að vestast í Skarðsheiðinni eru tilkomumikil fjöll sem blasa við þegar horft er í austur frá reiðgötunni. Syðst er Skarðshyrnan (946 m), þá Heiðarhornið (1.053 m) (næstum áföst Skarðshyrnunni) og loks Skessuhornið (963 m). Þessi fjöll báru glögg alhvít merki um kalt vor.

Ingimundur Grétarsson þokkalega sáttur á Miðfitjum. Miðfitjahóll er rétt handan við hólinn á miðri mynd.

Miðfitjar eru dálítið flatlendi rétt sunnan við hæsta punktinn á Skarðsheiðarveginum. Eiginlega eru þetta áreyrar, en þarna á Leirá leið um áður en hún hallar sér niður í Leirárdal. Á Miðfitjum stikluðum við yfir ána, tiltölulega þurrum fótum. GPS-tækið sýndi að 11,3 km væru að baki. Framundan var örstuttur spotti upp á Miðfitjahól (471 m), og eftir það var leiðin öll á undanhaldinu. Á Miðfjitjahól bættist 8. hlauparinn í hópinn, því að þangað hafði Kristinn Sigmundsson nágranni minn skokkað til móts við okkur.

Áð á Sjónarhól. F.v. Kristinn Sigmundsson, Ingimundur Grétarsson, Guðmann Elísson, Sævar Skaptason, Bryndís Óladóttir, Jóhannes Guðjónsson og Elín Gísladóttir.

Næsti áfangastaður var Sjónarhóll, en þaðan sést víða um Borgarfjarðarhérað. Áfram var svo haldið með Kattarhrygg og Merarhrygg á hægri hönd, og niður Brúarsund og Sauðahrygg. Og fyrr en varði vorum við komin niður á þjóðveginn í Skorradalnum – og Hreppslaug skammt undan. Þar biðu okkar sundföt sem við notuðum í heita pottinum og borgaralegur klæðnaður sem hentaði betur fyrir frábæran kvöldverð í Efri-Hrepp. Hjónin þar áttu stærstan þátt í gera þennan dag eins skemmtilegan og raun bar vitni. Jóhannes hljóp með okkur alla leiðina og á meðan útbjó Guðrún þessa dýrindis súpu. Það veit enginn nema sá sem reynt hefur hvílík dásemd það er að fá góða súpu eftir gott fjallvegahlaup.

Bryndís, Sævar og Elín Í veislunni í Efri-Hrepp - úti á palli í kvöldsólinni. Gæti það verið öllu betra?

Ég spurði Jóhannes að því á leiðinni yfir heiðina, eða réttar sagt framhjá heiðinni, hversu oft hann hefði hlaupið þarna yfir, hvort við værum þar ekki örugglega að tala um þriggja stafa tölu. Hann var hógværðin uppmáluð og vildi ekki nefna neinar tölur. En víst er þó að leið hans hefur oft legið þarna yfir, milli heimavallarins í Efri-Hrepp og vinnunnar og knattspyrnuvallarins á Akranesi.

Ég get svo sannarlega mælt með Skarðsheiðarveginum sem hlaupa- og gönguleið. Best er samt að fara þessa leið ekki án Jóhannesar í Efri-Hrepp, því að enginn núlifandi Íslendingur þekkir leiðina betur. Hann fræddi okkur ekki aðeins um örnefni og landamerki, heldur fylgdi ýmiss annar fróðleikur með. Til dæmis lærðum við að binda amerískan herhnút á skóþvengi og fengum fréttir af því þegar knattspyrnulið ÍA lék til úrslita við landslið Búrma á alþjóðlegu fótboltamóti í Indónesíu á ofanverðri síðustu öld.

Svona fyrir þá sem hafa gaman af tölum (les: sjálfan mig) get ég upplýst að samkvæmt GPS-úrinu mínu er Skarðsheiðarvegurinn 19,67 km frá Þjóðvegi nr. 1 á Skorholtsmelum að þjóðveginum í Skorradal. Þennan spöl fórum við á 2:53:37 klst. eða á 6,8 km/klst. meðalhraða. Það er nú svo sem enginn ógnarhraði, en það er líka ágæt hækkun í þessu. Og svo gáfum við okkur tíma til að á og spjalla á nokkrum stöðum. Svona fjallvegahlaup mega ekki bara snúast um að þjóta. Maður þarf líka að njóta. Það gerðum við!

Takk Bryndís, Elín, Guðmann, Ingimundur, Jóhannes, Kristinn og Sævar fyrir samfylgdina. Og takk Björk og Guðrún fyrir að gera góðan dag enn betri.

Formlegri ferðasaga verður bráðum skrifuð inn á www.fjallvegahlaup.is.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: