• Heimsóknir

    • 119.009 hits
  • desember 2011
    S M F V F F S
     123
    45678910
    11121314151617
    18192021222324
    25262728293031
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Kalmansmaraþon

Jólafríið er tími til að gera eitthvað annað en alla hina dagana, til dæmis eitthvað annað en að sitja við tölvuna. Fyrir mig táknar þetta eitthvað annað til dæmis lestur, þ.e.a.s. bóklestur. Ég les nefnilega sjaldan bækur, en þess meira af rafrænum stöfum sem birtast á skjánum mínum, bæði í vinnutíma og utan hans.

Fyrir þessi jól kom út þriðja bókin í þríleik Jóns Kalmans Stefánssonar um strákinn, sem átti vin sem gleymdi stakki, sem gekk fram dal og yfir hásléttu, las Óþelló fyrir blindan skipstjóra, horfði á axlir úr tunglskini, gekk í löngu liðnum aprílmánuði með stórum landpósti yfir heiðar sem voru mislangt frá himninum og rann niður brekku með kalda hangikjötslykt í vitum.

Af því að það er jólafrí og af því að þessi bók kom út, ákvað ég að fara í Kalmansmaraþon, sem er náttúrulega ekki hlaup, heldur lestur, þ.e.a.s. bóklestur og að miklu leyti endurlestur. Mér fannst sem sagt ekki nóg að leggjast með þriðju og nýjustu bókina, Hjarta mannsins, heldur fannst mér nauðsynlegt að endurlesa hinar tvær fyrst til að rifja upp söguþráð og skynja norðanáttina, bæði í Himnaríki og helvíti og Harmi englanna. Byrjaði í gær og er búinn með þessar tvær, vitandi allan tímann að þær myndu færa mig hálfa leið inn í löngu liðinn aprílmánuð sem er svo óskaplega framandi nútímamanninum, en samt svo nálægt honum, eða alla vega nálægt mér, ekki bara vegna þess að ég hef lesið bróðurpartinn af Söguþáttum landpóstanna, heldur líka vegna þess að pabbi og mamma voru um það bil að fæðast þegar þessi aprílmánuður rann upp og vegna þess að ég ólst upp í einangrun á mælikvarða nútímans, þar sem norðanhríð boðaði margra daga einangrun og rafljósin dugðu ekki til að lýsa út í öll horn, sérstaklega ekki veturinn sem Listerinn var bilaður og steinolíulampar og kerti einu birtugjafarnir í skammdeginu.

Mér finnst Jón Kalman bera af öðrum höfundum samtímans, einmitt vegna þess að bækurnar hans færa mig hálfa leið inn í heim sem er svo fjarlægur en samt svo nálægur, einmitt vegna þess að á meðan ég les finnst mér ég sjálfur vera inni í sögunni, sjálfur að brjótast yfir Snæfjallaheiði með norðanhríð í andlitinu, hálfvegis meðvitaður um að leiðin til baka verði kannski aldrei farin.

Þangað til ég stend upp frá lestrinum og kveiki á uppþvottavélinni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: