Ég hef lítið bloggað um hlaup upp á síðkastið. Til að bæta úr þessum tilfinnanlega skorti hef ég ákveðið að upplýsa lesendur þessarar síðu um hlaupaáætlun næstu vikna.
Þessi tími ársins er frekar tíðindalítill hlaupatími, alla vega hvað mig varðar. Aðalviðfangsefnið er að halda sér í formi og undirbúa vorið og sumarið. Þá verða mörg skemmtileg hlaupaverkefni á dagskrá, eins og nánar verður greint frá í margra kílómetra löngum hlaupabloggum sem birt verða á næstu vikum. Ég býst við að fyrsta hlaupaverkefnið mitt á árinu, sem orð er á gerandi, verði þátttaka í Vormaraþoni Félags maraþonhlaupara, sem haldið verður í Reykjavík laugardaginn 21. apríl nk. Æfingaáætlun næstu vikna tekur mið af þessu.
Æfingaáætlunin er býsna einföld. Fyrstu viku ársins hljóp ég 45 km – og ætla að endurtaka það í vikunni sem í hönd fer. Síðan ætla ég að auka vikuskammtinn um 5 km aðra hvora viku. Með þessu áframhaldi verð ég kominn í 70 km á viku seint í mars. Til að ná þessum vikuskammti þarf a.m.k. 4 æfingar. Ein þeirra verður styrktaræfing sem miðar að því að byggja upp vanrækta kvið-, bak- og síðuvöðva. Önnur æfing verður intervalæfing, þ.e. endurteknir stuttir sprettir (100-600 m) með smáhvíld á milli. Hitt verða svo hlaupaæfingar. Lengsta hlaup vikunnar á að vera a.m.k. helmingur af heildarvegalengd viðkomandi viku.
Þetta var nú ekki flókið, en ætti samt að duga fyrir persónulegt met í vormaraþoninu, þ.e. ef veðrið verður sæmilegt.
Filed under: Hlaup |
[…] janúar gerði ég ágæta hlaupaáætlun fyrir sjálfan mig og birti hana á blogginu á 8. degi mánaðarins. Þessi áætlun gekk út á að auka vikulegt hlaupamagn jafnt og þétt, frá 45 km á viku í […]