• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • mars 2012
    S M F V F F S
     123
    45678910
    11121314151617
    18192021222324
    25262728293031
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Fjórða æfingaáætlun ársins

Hlaupin eru hluti af lífi mínu, skemmtilegur hluti því að þau ganga eiginlega alltaf vel og eru að mestu óháð áhyggjum af Icesave, Casoron og vísitölu neysluverðs. Hlaupin færa mér gleði til viðbótar við alla hina gleðina sem lífið býður – og á hlaupum hreinsa ég hugann af amstri dægranna. En samt er þetta allt þaulskipulagt. Ég hleyp nefnilega í hlaupahópi, og þó að hlaupahópurinn sé alla jafna bara eins manns, og þó að hann hafi engan þjálfara, þá er alltaf einhver áætlun í gildi. Hlaupin eru nefnilega æfing í að setja sér markmið og ná þeim. Hlaup án markmiða hafa ekki reynst mér vel. Ef ég ákveð að hlaupa tiltekna vegalengd, þá hleyp ég hana. Ef ég sé fram á að áætlunin mín gangi ekki upp, þá geri ég nýja áætlun. Áætlunum má breyta. En það má ekki láta þær renna út í sandinn!

Í janúar gerði ég ágæta hlaupaáætlun fyrir sjálfan mig og birti hana á blogginu á 8. degi mánaðarins. Þessi áætlun gekk út á að auka vikulegt hlaupamagn jafnt og þétt, frá 45 km á viku í byrjun ársins upp í 70 km á viku í lok mars. Nokkrum dögum seinna breytti ég áætluninni, án þess þó að segja frá því á blogginu. Nýja áætlunin gekk út á örlítið meiri aukningu frá einni viku til annarrar, en svo átti þriðja eða fjórða hver vika að vera léttari til að leyfa líkamanum að „koma töðunni almennilega í hlöðu“. Eftir sem áður yrði ég kominn í u.þ.b. 70 km á viku í lok mars.

Nokkrum dögum eftir að nýja hlaupaáætlunin tók gildi áttaði ég mig á því að hún myndi ekki ganga upp. Þetta var um miðjan janúar. Skyndilega birtist nefnilega ljón í veginum: Vinna. Ég áttaði mig með öðrum orðum á því að til þess að skila tilteknum verkefnum í tæka tíð yrði ég að lengja vinnudaginn og láta ýmislegt annað víkja, þar á meðal hlaupin. Þá tók þriðja hlaupaáætlun ársins gildi. Hún gekk út á að hlaupa bara 20-30 km á viku þar til annað yrði ákveðið, þ.e.a.s. talsvert minna en ég hef yfirleitt gert síðustu 4 ár. Ég vissi svo sem ekkert hvernig líkaminn myndi bregðast við þessu. Kannski myndi hann t.d. ekki kæra sig um að hlaupa maraþon seint í apríl eins og að var stefnt. Maður verður jú að hlusta á líkamann, það er bara til eitt eintak af honum. En nokkurra vikna lægð gat alla vega varla stefnt fjallvegahlaupum sumarsins í hættu.

Þegar komið var fram yfir miðjan febrúar fór að hylla undir verklok í þessum ágætu vinnuverkefnum mínum. „Ágætu“ segi ég, vegna þess að enda þótt ég sæki viðbótargleði í hlaupin, þá veitir vinnan mín mér ákveðna grunngleði. Ég fæ nefnilega bara kaup þegar ég hef sæmilega mikið að gera. Og ég þarf kaup til að geta keypt mér lífrænt vottað kornflex og hlaupaskó, og til að geta útvegað bankanum mínum rekstrarfé. Og í tilefni af því að ég sá fram á verklok, útbjó ég fjórðu æfingaáætlun ársins. Þessi pistill er um hana.

Fjórða æfingaáætlun ársins er svona:
Vika 1 (20.-26. feb): 40 km, þar af 25 km á laugardegi eða sunnudegi.
Vika 2 (27. feb. – 4. mars): 45 km, þar af 30 km á laugardegi eða sunnud.
Vika 3 (5.-11. mars): 50 km, þar af 30 km á laugardegi eða sunnudegi.
Vika 4 (12.-18. mars): 55 km, þar af 33 km á laugardegi eða sunnudegi.
Vika 5 (19.-25. mars): 60 km, þar af 33 km á laugardegi eða sunnudegi.
Vika 6 (26. mars – 1. apríl): 65 km, þar af 35 km á laugardegi eða sunnud.
Vika 7 (2.-8. apríl): 70-85 km.
Vika 8 (9.-15. apríl): Bara svona 50 km eða eitthvað.
Vika 9 (16.-21. apríl): Ekkert voða mikið, nema Vormaraþon lau. 21. apríl.
(Aths.: Í hverri viku er gert ráð fyrir einni styrktaræfingu sem miðar að því að byggja upp vanrækta kvið-, bak- og síðuvöðva – og einni intervalæfingu (ef veður og færð leyfa), þ.e. endurteknum stuttum sprettum (100-600 m) með smáhvíld á milli).

Þessi áætlun er svo sem ekki alveg eftir bókinni, annars vegar vegna þess að hér er ekki slakað á fyrr en eftir 7 vikna stöðuga aukningu, og hins vegar vegna þess að langa helgarhlaupið er allt að því óeðlilega stór hluti af vikuskammtinum. En mér finnst gaman að hafa þetta svona. Það er málið. Núna er ég í viku 3 – og allt gengur eins og best verður á kosið!

Myndin sem fylgir þessum pistli var tekin í Róm 2008. Mér finnst gaman að hlaupa. Og Colosseum spillir ekkert fyrir. „Corro Ergo Sum“.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: