• Heimsóknir

  • 119.600 hits
 • júní 2012
  S M F V F F S
   12
  3456789
  10111213141516
  17181920212223
  24252627282930
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Forsetinn og umhverfismálin

Mér finnst skipta miklu máli að forseti Íslands sé umhverfissinni. Forsetinn á að vera málsvari sjálfbærrar þróunar og hann á vera þjóðinni gott fordæmi í daglegum athöfnum. Hins vegar á forsetinn ekki að taka afstöðu í umhverfismálum sem eru til umfjöllunar á Alþingi eða í vinnslu hjá ráðuneytum og stofnunum þeirra. Vissulega er freistandi að láta sig dreyma um að á Bessastöðum sitji forseti sem hefur vit fyrir stjórnvöldum á sviði umhverfismála þegar þau eru í þann veginn að taka óheppilegar ákvarðanir, en slíkt gengur gegn stjórnskipan landsins. Forsetinn á ekki að fara út fyrir valdsvið sitt, hvert sem málefnið er.

Málsvari sjálfbærrar þróunar
Forseti Íslands fær mörg tækifæri til að vera málsvari sjálfbærrar þróunar, jafnt innanlands sem utan. Þessi tækifæri á hann að nýta. Forsetinn á stöðugt að minna á mikilvægi þess að hagsmunir komandi kynslóða séu hafðir að leiðarljósi í allri ákvarðanatöku, að þjóðir heims hafi grunnreglur Ríósáttmálans í heiðri, svo sem mengunarbótaregluna og varúðarregluna, og að Íslendingar og aðrar þjóðir geri allt sem í þeirra valdi stendur til að ná Þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og til að sammælast um metnaðarfull sjálfbærnimarkmið á allsherjarþinginu haustið 2013, eins og samkomulag varð um á ráðstefnunni Ríó+20 á dögunum. Sömuleiðis ætti forsetinn að vera ötull talsmaður þess að leiðtogar heimsins komi sér saman um markvissar aðgerðir í loftslagsmálum, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Samræmi orða og gjörða
Sem talsmaður umhverfisins og komandi kynslóða þarf forsetinn ætíð að gæta þess að samræmi sé milli orða hans og gjörða. Sem dæmi um hið gagnstæða má nefna þátttöku núverandi forseta Íslands og eiginkonu hans í ferð til Suðurskautslandið um mánaðarmótin janúar/febrúar 2012, sem farin var í þeim tilgangi að „kanna hina hröðu bráðnun íss og ræða hvernig unnt er að fá þjóðir heims til að sameinast í raunhæfum aðgerðum gegn loftslagsbreytingum“, eins og það var orðað í fréttatilkynningu forsetaembættisins. Vandséð er hvernig gagnsemin af þátttöku ráðamanna í slíkri ferð, með öllu því sem slíkri þátttöku fylgir, geti nokkurn tímann vegið upp á móti þeim neikvæðu umhverfisáhrifum sem ferðin veldur. Vel sögð orð forseta um mikilvægi aðgerða gegn loftslagsbreytingum eru fljót að breytast í öfugmæli ef þeim er fylgt eftir með þessum hætti.

Forsetinn sem fyrirmynd
Rannsóknir á sviði umhverfissálarfræði og félagslegrar markaðsfærslu benda til að fátt eða ekkert sé líklegra til að hafa áhrif á hegðun fólks en hegðun fyrirmyndanna. Gott dæmi um þetta er reynslusaga úr sturtunum í háskólanum í Santa Cruz í Kaliforníu, sem ég hef iðulega vitnað til í ræðu og riti, m.a. í bloggpistli 29. október 2010. Í þessu liggur líklega stærsta tækifærið sem forseta Íslands gefst til að koma góðu til leiðar í umhverfismálum. Með því að sýna gott fordæmi í daglegum athöfnum getur fjölskyldan á Bessastöðum haft meiri áhrif á lífsstíl fólksins í landinu en flest okkar órar fyrir. En til þess að svo megi verða þarf að sýna þetta góða fordæmi allan daginn og alla daga, en ekki eingöngu á hátíðis- og tyllidögum þegar kastljós fjölmiðla beinist að Bessastöðum. Það er nefnilega grundvallaratriði að sá sem sendir út skilaboðin sé sjálfum sér samkvæmur.

Gott dæmi
Gott dæmi um það hvernig forsetinn getur haft áhrif til góðs með hegðun sinni er val núverandi forseta Íslands á embættisbifreið. Þegar komið var að endurnýjun sumarið 2007 ákvað forsetinn að taka tvinnbíl af Lexus-gerð fram yfir algengari en mun eyðslufrekari bíla. Bílar eru auðvitað ekki umhverfisvænir sem slíkir, en forseti Íslands verður óhjákvæmilega að hafa sómasamlega embættisbifreið til umráða. Ákvörðun um val á slíkri bifreið ræður miklu um áhrif embættisins á umhverfið næstu ár þar á eftir, því að í bílakaupum er sjaldnast tjaldað til einnar nætur.

Innkaupin mikilvægust
Val á bifreiðum er að sjálfsögðu aðeins eitt atriði af mörgum þar sem forseti Íslands getur gengið á undan með góðu fordæmi. Í raun eru öll smáu og daglegu atriðin mikilvægari, m.a. vegna þess að þau standa venjulegum fjölskyldum nær og því eru meiri líkur á að fjöldinn fylgi í fótsporin. Innkaup skipta líklega einna mestu máli í þessu sambandi. Með því að gæta hófs í innkaupum, kaupa umhverfismerktar eða lífrænt vottaðar vörur, taka siðgæðisvottaðar vörur (e. fairtrade) fram yfir aðrar þegar kostur er – og þar fram eftir götunum, getur forsetinn gefið fordæmi sem skiptir miklu máli þegar á heildina er litið. Sama áhersla þyrfti þá jafnframt að endurspeglast m.a. í viðhaldi bygginga á Bessastöðum, umhirðu opinna svæða og kaupum á þjónustu. Stjórnun úrgangsmála er líka gríðarlega mikilvæg, ekki síst vegna þess að í hugum margra eru úrgangsmálin kjarninn í umhverfisstarfi heimilanna. Forseti Íslands getur komið miklu til leiðar með því að ganga á undan með góðu fordæmi  varðandi endurnotkun, flokkun úrgangs til endurvinnslu og jarðgerð á lífrænum úrgangi, svo eitthvað sé nefnt. En í öllu þessu skiptir meginmáli að gjörðir fylgi orðum. Það er gagnslítið að tala um þessi mál í nýársávarpi ef talinu er ekki fylgt eftir í hinu daglega amstri.

Það sem forsetinn má ekki
Hér hefur verið stiklað á stóru yfir sitthvað sem forseti Íslands getur gert til að koma góðu til leiðar í umhverfismálum. Það sem hann getur ekki gert, eða ætti ekki að gera, er hins vegar að taka afstöðu í umhverfismálum sem eru til umfjöllunar á Alþingi eða í vinnslu hjá ráðuneytum og stofnunum þeirra. Þannig á forseti Íslands ekki að gefa út yfirlýsingar eða beita áhrifum sínum með beinum hætti til að hafa áhrif á ákvarðanir um einstakar virkjanir eða álver, um afgreiðslu rammaáætlunar eða önnur slík viðfangsefni. Þar verður hann að þekkja takmörk sín. Hann á ekki að taka til baka það vald sem hann hefur falið Alþingi og ráðuneytum að framkvæma, hvorki að hluta né í heild, hver sem málaflokkurinn er.

Grænir Bessastaðir?
Orð Þóru Arnórsdóttur, forsetaframbjóðanda, um að hún vilji gera Bessastaði græna, vekja vonir um að framundan geti verið áhugaverðir tímar þar sem forsetaembættinu verði beitt í þágu umhverfisins og komandi kynslóða með þeim hætti að það hafi áhrif á daglegt líf og hegðun á öðrum íslenskum heimilum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: