Gleðihlaupið Þrístrendingur var háð í þriðja sinn í gær. Þetta hlaup var sérstakt að tvennu leyti frá mínum bæjardyrum séð. Annars vegar var veðurblíðan í gær sú mesta sem elstu menn rámar í og hins vegar var þetta í fyrsta sinn sem ég varð að láta mér nægja að fylgjast með Þrístrendingi af hliðarlínunni.
Þrístrendingur heitir Þrístrendingur af því að hlaupaleiðin liggur um þrjár strandir, þrjá firði, þrjár sýslur og þrjá fjallvegi. Hlaupið hefst á hlaðinu á Kleifum í Gilsfirði þar sem móðir mín heitin ólst upp snemma á síðustu öld. Þaðan er hlaupið norður Steinadalsheiði um sýslumörk Dalasýslu, Austur-Barðastrandarsýslu og Strandasýslu þar til komið er í Kollafjörð. Næst er hlaupið yfir Bitruháls að æskuslóðum mínum að Gröf í Bitru og loks suður Krossárdal að Kleifum. Dofri Hermannsson frá Kleifum átti upphaflega hugmyndina að þessu hlaupi, en síðan höfum við frændurnir þróað hugmyndina í sameiningu og gert hana að veruleika. Þarna er engin keppni og lítið um tímatöku, en langmest lagt upp úr gleði og samveru.
Ég fékk far vestur að Kleifum í gærmorgun með Ingimundi Grétarssyni, stórhlaupara úr Borgarnesi. Ingimundur er einn af þessu aðdáunarverða fólki, sem engum hefði dottið í hug fyrir 10 árum að nokkurn tímann myndi geta hlaupið, en rúllar nú upp hverju maraþonhlaupinu á fætur öðru. Allt er mögulegt!
Við vorum frekar seinir fyrir, en það skipti svo sem engu máli. Ég var hvort sem er ekki í standi til að hlaupa vegna lítilsháttar meiðsla í framanverðri mjöðm og Ingimundi var alveg sama þótt hann legði af stað á eftir hinum. Reyndar var ætlunin að hafa ráshópana tvo, þannig að þeir sem teldu sig hægfara legðu í ‘ann kl. 10:30, en hinir kl. 11:00. Það gekk ekki eftir, því að sjálfsagt töldu allir sig hægfara. Slík var hógværðin að mér fjarverandi. Flestir lögðu víst af stað um svipað leyti, líklega um kl. 10:50. Þegar við nálguðumst Kleifa sáum við nokkra hlaupara í grennd við Brekkuána, alla í litklæðum eins og tíðkaðist þegar hetjur riðu um héruð til forna, nema hvað þá voru menn ekki í „dry-fit“.
Á Kleifum tókum við svolítið af trússi og ókum síðan af stað í humátt á eftir hinum. Við vegamót Steinadalsheiðar við brúna yfir Brekkuá yfirgaf Ingimundur bifreiðina og lagði af stað hlaupandi. Ég sat einn eftir undir stýri, í nýju hlutverki sem trússari. Það var ekki óskastaða, en ágætis áminning um það hvers virði hlaupin eru mér og hversu lítið sjálfsagt það er að geta yfirleitt hlaupið tugi kílómetra eins og ekkert sé.

Ingimundur tilbúinn að leggja á Steinadalsheiðina, lundin létt en svipurinn ekki í neinu samræmi við veðrið.
Bílferðin norður Steinadalsheiði hófst í rykmekki. Landið var óskaplega þurrt og engin regnský sjáanleg, né heldur ský yfirleitt. Og hitastigið var örugglega komið vel yfir 15 gráður. Fljótlega hitti ég þrjú úr hópnum, þau Önnu Siggu, Gísla og Sigurjón. Þau höfðu neyðst til að nema staðar í brekkunum upp heiðina til að gera við slitna keðju. Ég leit á kílómetramælinn og sá að Ingimundur þyrfti að vinna upp 3ja km forskot ef hann ætlaði ekki að vera einn á ferð yfir heiðina.
Áfram hélt ég norður yfir með stuttri viðkomu til að spjalla við hlauparana sem voru komnir mislangt upp brekkurnar. Fremstar voru þær Björg Árna og Þuríður sem voru komnar upp að Heiðarvatni á hjólum.
Segir nú fátt af ferðum mínum þar til komið var að vaðinu á Norðdalsá, spölkorn innan við bæinn í Steinadal. Þar lagði ég bílnum, settist út í sumarblíðuna, tók upp nesti og beið eftir hinum. Reyndar náðu Björg og Þuríður mér eftir smástund og hitt hjólreiðafólkið birtist nokkru síðar. Keðjuviðgerðin hafði reynst vel.
Ingimundur, Sigga Bryndís og Sigrún Erlends birtust fyrst af hlaupurunum. Ingimund hafði greinilega ekkert munað um að vinna upp forskotið. Síðan komu hlaupararnir einn af öðrum, hver öðrum sáttari í blíðunni. Þarna var ég kominn með fjölda þátttakenda á hreint, enda finnst mér alltaf betra að hafa tölfræðina í lagi. Samtals höfðu 10 hlauparar og 5 hjólreiðamenn lagt af stað frá Kleifum, og enginn hafði helst úr lestinni.
Við Stóra-Fjarðarhorn hitti ég eiginmann Þuríðar, Sigurð Kristófersson úr Borgarnesi. Hann var að festa hjólið hennar Þuríðar á bílinn. Dekkin á hjólinu höfðu reynst illa og hún hafði ákveðið að leggja gangandi á Bitruhálsinn. Anna Sigga, Gísli og Sigurjón voru líka lögð af stað, enda seinlegt að koma hjólum þarna upp. Björg hafði hins vegar sagt skilið við hópinn og hjólað áleiðis til Hólmavíkur. Hún var að glíma við meiðsli og ekki árennilegt að leggja í miklar torfærur.

Hjól Þuríðar bundið á bíl. Dekkin, sem áttu að vera bæði götudekk og fjalladekk, reyndust vera hvorugt.
Ingimundur kom fyrstur hlauparanna að Stóra-Fjarðarhorni, en þar er jafnan áð í Þrístrendingshlaupum. Hin skiluðu sér fyrr en varði og ég deildi út drykkjum og þess háttar úr kæliboxi sem ég hafði gripið með mér um morguninn til að reyna að verða ómissandi í hlaupinu þó að ég hlypi ekki sjálfur. Þetta virkaði vel, enda vissu fæstir að margfalt betri veitingar biðu þeirra í Gröf. Þetta er allt spurning um að spila út trompunum í réttri tímaröð.

Hópmynd af öllum hlaupurunum við Stóra-Fjarðarhorn. Standandi f.v.: Rögnvaldur, Jóhanna, Arndís, Hólmfríður Vala, Ingimundur. Krjúpandi f.v.: Guðlaug Rakel, Sigrún Barkar, Sigríður Bryndís, Sigrún Erlends. Liggjandi: Dofri Hermannsson. Hjólreiðafólkið var lagt af stað upp Bitruháls, nema Björg sem var á leið til Hólmavíkur. Engin mynd náðist af henni.
Ég sá fram á að Golfinn hans Ingimundar myndi ekki drífa upp móana fyrir ofan Stóra-Fjarðarhorn. Næsti áfangi hjá mér var því bílferð út á Ennisháls og inn Bitrufjörð til Arnheiðar mágkonu minnar í Gröf. Þar gerði ég stuttan stans og rölti síðan áleiðis frá bænum upp á Bitruháls til að taka á móti hlaupurunum og fá minn skammt af útiveru. Þetta var dásamleg gönguferð, enda veðrið líklega það besta sem ég hef upplifað í gönguferðum um þetta svæði, og eru þær þó orðnar nokkur hundruð síðustu 50 ár.
Við Móhosaflóalæk lét ég staðar numið, en þangað eru líklega um 2,5 km frá bænum í Gröf. Klukkan var u.þ.b. 14:30 og von á fyrstu hlaupurunum á hverri stundu. Ég þurfti heldur ekki lengi að bíða. Ingimundur og Sigrún Barkardóttir birtust að vörmu spori og síðan hver af öðrum. Þarna var áð um stund, fætur kældir í læknum og veðrið dásamað.

Ingimundur og Sigrún Barkar komu fyrst allra í Móhosaflóann. Þarna var einu sinni brú úr notuðum vírakeflum, en nú eru bara undirstöðurnar eftir.
Ég stóðst ekki mátið að skokka smávegis á leiðinni niður af hálsinum. Mjöðmin var til friðs og tilfinningin góð.
Í Gröf var Arnheiður búin að útbúa þvílíkt kaffihlaðborð að kæliboxið mitt gleymdist á augabragði. Einhver í hópnum hafði það á orði að þetta væri eina fjallahlaupið á Íslandi þar sem boðið væri upp á pönnukökur á miðri leið. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að allir þátttakendurnir í hlaupinu hafi verið glaðir allan daginn, en aldrei þó glaðari en yfir veitingunum í Gröf.

Arnheiður Guðlaugsdóttir húsfreyja í Gröf var mikill gleðigjafi í þessari ferð. Veitingar gerast ekki betri í fjallahlaupum hérlendis!

Við brottför frá Gröf. Efri röð: Sigrún E., Vala, Sigga Bryndís, Gísli, Sigrún B., Sigurjón, Jóhanna, Ingimundur og Valdi. Neðri röð: Þuríður, Dofri og Anna Sigga.
Eftir dágóða áningu í Gröf var lagt af stað í síðasta áfangann. Ég fór á bílnum fram á Móholtið neðan við Einfætingsgil til að taka myndir og upplifa aðeins meira. Síðan lá leiðin til baka um Ennisháls, Kollafjörð og Steinadalsheiði aftur að Kleifum. Þar renndi ég í hlaðið um kl. 17:00.

Hlauparnir tínast upp á Móholtið, Dofri og Ingimundur fremstir. Í baksýn er veiðihúsið við Krossá, Gröf fjær og Vatnsnesið lengst í fjarska, handan Húnaflóans.
Við endamarkið á Kleifum bólaði ekki á hlaupurum. Það fannst mér ágætt, því að þá gafst mér tími til að rölta áleiðis á móti þeim. Mætti Ingimundi efst í Hafursgötunni, og upp á brúninni hitti ég Völu, Siggu Bryndísi og Sigrúnu Barkar. Dofri kom skömmu síðar og tók að sér að vísa þeim sem síðar kæmu á Hafursgötuna, en hún er eina færa leiðin þarna niður brattann.
Ég rölti nú niður Hafursgötuna og náði svolitlu skokki heim túnið á Kleifum. Ingimundur var hvergi sjáanlegur, enda hafði hann haldið áfram spottann sem hann átti eftir frá því um morguninn, þ.e. frá Kleifum að vegamótunum við Brekkuá.
Þá var ekkert eftir nema að kveðja og þakka fyrir góðan dag, því að þessi dagur var mjög góður, líka fyrir mig þó að ég gæti ekki hlaupið. Þetta var bara ný og öðruvísi reynsla, sem ég þurfti greinilega á að halda.
Þessum línum fylgja bestu þakkir til allra þeirra sem áttu þátt í því að gera þennan dag jafn ánægjulegan og raun bar vitni. Næsta ár verður Þrístrendingur hlaupinn í 4. sinn. Ég kem með.
Eftirtaldir hlauparar og hjólreiðagarpar tóku þátt í Þrístrendingi 2012:
- Alla leið (3 fjallvegir með tilheyrandi):
Anna Sigríður Arnardóttir (á hjóli)
Arndís Steinþórsdóttir
Dofri Hermannsson
Gísli Reynisson (á hjóli)
Hólmfríður Vala Svavarsdóttir
Ingimundur Grétarsson
Jóhanna Eggertsdóttir
Rögnvaldur Gíslason
Sigríður Bryndís Stefánsdóttir
Sigrún Barkardóttir
Sigrún Erlendsdóttir
Sigurjón Þorkelsson (á hjóli) - Tveir fjallvegir (Steinadalsheiði og Bitruháls):
Þuríður Helgadóttir (á hjóli og gangandi) - Einn fjallvegur (Steinadalsheiði):
Björg Árnadóttir (á hjóli)
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir
Filed under: Hlaup | Tagged: Þrístrendingur, Bitruháls, Krossárdalur, Steinadalsheiði |
[…] 2. Þrístrendingur, laugardag 22. júní Næsta sumar verður Þrístrendingur hlaupinn í fjórða sinn. Sem fyrr verður lagt upp frá Kleifum í Gilsfirði kl. 10 eða 11 árdegis, hlaupið norður Steinadalsheiði í botn Kollafjarðar á Ströndum, þaðan yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf og loks þaðan suður Krossárdal að Kleifum. Leiðin öll er rúmir 40 km, og á henni eru þrír fjallvegir. Þetta er samt ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu mínu, því að þessar leiðir hef ég allar farið áður. En þetta er upplagt æfinga- og skemmtihlaup í góðum félagsskap. Ferðasöguna frá liðnu sumri er að finna á vísum stað á bloggsíðunni minni. […]
[…] sérverkefni var Þrístrendingur 23. júní, en hann var nú þreyttur í þriðja sinn. Þetta hlaup var sérstakt að tvennu leyti […]