• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • júlí 2012
    S M F V F F S
    1234567
    891011121314
    15161718192021
    22232425262728
    293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Að loknu Hamingjuhlaupi 2012

Hamingjuhlaupið fór fram í 4. sinn um síðustu helgi. Þar sveif hamingjan jafnt yfir vötnum og þurru landi – og ekki spillti veðurblíðan fyrir. Hér á eftir verður sagt frá þessu hlaupi í löngum og afar hamingjusömum pistli.

Forsaga málsins
Hamingjuhlaupið er orðinn fastur liður í Hamingjudögum á Hólmavík og hlaupið um daginn festi þennan lið enn frekar. Fyrsta formlega hlaupið fór fram á Hamingjudögum 2009, en þá var hugmyndin búin að þróast í a.m.k. tvö ár. Reyndar hef ég hlaupið einhvern spotta á Hólmavík þessa sömu helgi allar götur síðan 2006. Sumarið 2007 fór þetta fyrst að verða dálítið alvarlegt, því að þá hljóp ég svokallaðan Óshring fjórum sinnum á laugardagsmorgni í veðurblíðu áður en dagskrá Hamingjudaganna hófst. Þetta var í gamla daga (þ.e. fyrir daga Facebook), en samt kynnti ég uppátækið á Netinu og bauð fólki að slást í hópinn. Enginn þáði það, en sumum fannst þetta bara nokkuð sniðugt hjá mér. Og auðvitað skrifaði ég hlaupablogg að verki loknu.

Sumarið 2008 var þetta enn alvarlegra. Þá notaði ég laugardaginn til að hlaupa fjallvegahlaup nr. 5 yfir Laxárdalsheiði úr Reykhólasveit langleiðina til Hólmavíkur. Birkir bóndi í Tröllatungu og Ingimundur Grétarsson fylgdu mér þessa leið í norðan strekkingi og slyddu, og þó að hlaupið væri ekki formlegur hluti af Hamingjudögunum notuðum við tækifærið og skokkuðum upp að félagsheimilinu þar sem hátíðarhöldin fóru fram þetta árið í norðanáttinni, svona rétt til að sýna hvað við værum hraustir.

Sumarið 2009 varð Hamingjuhlaupið að formlegu Hamingjuhlaupi. Þá hljóp ég frá Drangsnesi til Hólmavíkur með Fríðu föruneyti og 5 öðrum hamingjusömum hlaupurum. Þarna var hlaupið búið að taka á sig nokkuð endanlega mynd, sem fólst m.a. í tímaáætlun sem átti að auðvelda fólki að slást í hópinn á leiðinni og koma inn á hátíðarsvæðið í einum samheldnum hópi á fyrirfram ákveðnum tíma.

Árið 2010 voru Þröskuldar lagðir undir fót. Þá lögðum við fjórir af stað úr Reykhólasveitinni og fjölgaði um einhvern slatta á leiðinni til Hólmavíkur.

Í fyrrasumar var alvaran í þessu orðin enn meiri. Þá var lagt upp frá æskuheimili mínu í Gröf í Bitrufirði og hlaupið jafnt um fjöll og firnindi stystu leið til Hólmavíkur. Í þetta skipti lögðum við af stað 7 saman, og samkvæmt samtímaheimildum lögðu hvorki meira né minna en 16 hlauparar a.m.k. 5 km að baki í þessu hlaupi. Lýkur hér að segja frá fortíðinni.

Sólskin í Trékyllisvík
Þetta fjórða formlega Hamingjuhlaup hófst við handverkshúsið Kört í Árnesi í Trékyllisvík, en þaðan eru hátt í 54 km. til Hólmavíkur um Trékyllisheiði. Leiðin var m.a. valin með hliðsjón af uppruna Ingibjargar Valgeirsdóttur, sveitarstjóra Strandabyggðar, en hún sleit einmitt barnsskónum í Árnesi.

Veðrið lék svo sannarlega við okkur þennan dag. Hægur vindur blés af norðaustri, sól skein í heiði og hitinn stóð í tveggja stafa tölu, einar 11 gráður í Trékyllisvík og nokkru hlýrra sunnar á Ströndunum. Ferðalagið hófst á Hólmavík í frúarbíl heimilisins af Subaru-gerð. Frúin Björk þurfti hvort sem er engan bíl, því að hún var nýbúin að opna málverkasýningu á Hólmavík með yngsta barninu Jóhönnu. Svona bílar henta einkar vel á leiðinni til Trékyllisvíkur, þar sem gleymst hefur að malbika götuna.

Við vorum fjórir saman; ég sjálfur, Þorkell frumburður, Birkir bóndi í Tröllatungu og Dr. Kristinn Schram. Birkir hefur aldrei látið sig vanta í Hamingjuhlaupin og var líka með á Laxárdalsheiðinni í kuldanum 2008 eins og fyrr segir. Eitthvað vorum við seinir að koma okkur af stað, enda hagaði svo til á þessum Hamingjudögum að forsetakjöri hafði verið smellt inn í dagskrána og maður hleypur náttúrulega ekkert frá svoleiðis málum fyrr en allir eru búnir að krossa við eitthvað.

Bílferðin gekk ágætlega og Strandirnar skörtuðu sínu fegursta. Það er ekki lítið. Í Veiðileysufirði áðum við um stund, tókum upp nesti og dáðumst að kyrrðinni.

Kaffibolli í Veiðileysufirði á leið til Trékyllisvíkur.

Eftir u.þ.b. einnar og hálfrar stundar akstur renndum við í hlað í Árnesi. Kirkjurnar voru báðar á sínum stað, en enginn prestur sjáanlegur. Við gerðum vart við okkur í handverkshúsinu Kört og lögðum svo í hann þrír saman kl 13:09 eftir hefðbundna fyrirmyndatöku, einum 19 mínútum síðar en hárnákvæm tímaáætlun gerði ráð fyrir. Þorkell tók bílinn til baka til Naustvíkur.

Fyrirmynd: Birkir, Stefán og Kristinn við handverkshúsið Kört í Trékyllisvík við upphaf Hamingjuhlaupsins 2012. (Þorkell tók myndina).

Naustvíkurskörð
Þetta Hamingjuhlaup var óvenjulegt fyrir mig. Ég hafði nefnilega meiðst í ógætilegu hlaupi nokkrum vikum fyrr og var engan veginn búinn að ná mér. Þess vegna gat ég eiginlega ekki hlaupið, eða þorði það a.m.k. ekki. Þetta var ný lífsreynsla – og að sjálfsögðu bráðholl eins og lífsreynsla oftast er. Þrátt fyrir þetta var ég ákveðinn ná mér í sem stærstan skammt af hamingju, og því skyldi a.m.k. fyrsti áfanga hlaupsins lagður að baki, 5 km spölur um Naustvíkurskörð til Naustvíkur í Reykjarfirði.

Hamingjan hríslaðist um okkur strax þarna á fyrstu metrunum í Trékyllisvík. Ég fann lítið fyrir meiðslunum og sólin skein sem ákafast. Meira að segja heimalingarnir í Bæ voru hamingjusamir og voru jafnvel að hugsa um að fylgja okkur upp hlíðina. Úr því varð þó ekki en heimilishundurinn tók það hlutverk að sér í staðinn.

Heimalingarnir í Bæ í Trékyllisvík íhuguðu það alvarlega að taka þátt í Hamingjuhlaupinu.

Á leiðinni upp í Naustvíkurskörð tóku Birkir og Kristinn létta æfingu í jurtagreiningu. Hér eru þeir með fjallafox (Phleum alpinum). Í baksýn sést norður yfir Trékyllisvík.

Ég hafði ekki hlaupið um Naustvíkurskörð áður, en leiðin er auðrötuð og býsna skemmtileg. Við fórum okkur að engu óðslega, enda ekki hægt annað en staldra við annað slagið og dásama lífið og útsýnið. Fyrr en varði vorum við komnir upp og stutt eftir niður að Naustvík. Þarna í brekkunum fór meiðslin aðeins að segja til sín, þannig að ég rölti síðasta spölinn. Birkir og Kristinn voru hins vegar léttir eins og vindurinn.

Naustvík í Reykjarfirði. Fyrir ofan rís Sætrafjall.

Af nöktum mönnum
Í Naustvík höfðum við feðgarnir vaktaskipti, ég settist undir stýri og Þorkell brá undir sig betri fætinum. Hann var reyndar dálitla stund að hafa sig til og Birkir og Kristinn löngu horfnir úr augsýn áleiðis inn með Reykjarfirði.

Það er einkennileg tilfinning að sitja undir stýri á meðan aðrir hlaupa. En svo lengist lærið sem lifir, eins og einhver sagði. Ég ók í rykmekki áleiðis til Djúpavíkur, enda vegurinn og umhverfið allt ákaflega þurrt eftir úrkomusnautt sumar. Hlaupararnir þrír voru allir komnir úr að ofan þegar hér var komið sögu, enda veðurblíðan með eindæmum.

Birkir og Kristinn fáklæddir á fullri ferð inn með Reykjarfirði að norðan. Sætrafjall í baksýn.

Og Þorkell snerti varla jörðina á leiðinni.

Þorkell linnti ekki sprettinum fyrr en í Djúpavík. Þessir 10,5 km tóku hann ekki nema rétt um 45 mínútur. Svoleiðis áframhald rúmast ekki í mínum tímaútreikningum, enda drengurinn ungur og hraustur. Birkir og Kristinn skiluðu sér á leiðarenda svo sem stundarfjórðungi síðar, alveg á áætlun. Í Djúpavík biðu sprækustu langhlauparar dagsins, frændurnir Hafþór og Steingrímur, sem báðir voru í lokaundirbúningi fyrir Laugavegshlaupið tveim vikum síðar. Þeir lögðu tveir einir upp í áfanga nr. 3 suður yfir Trékyllisheiði, um það bil 22 km að Selá í Steingrímsfirði. Við hinir nutum góða veðursins um stund í Djúpavík, enda nóg eftir af deginum.

Laugavegshlaupararnir Hafþór og Steingrímur, komnir til Djúpavíkur og tilbúnir að leggja á Trékyllisheiðina.

Fátt er betra eftir sprett til Djúpavíkur en að fara úr hlaupaskónum og kæla sig í sjónum þar sem síldarskip lögðust áður að bryggju.

Og svo leið dagurinn
Segir nú fátt af hlaupurum um sinn, en við fjórmenningarnir ókum sem leið lá til Hólmavíkur.

Selá kl. 18:19
Samkvæmt hárnákvæmri tímaáætlun hlaupsins áttu þeir félagar Hafþór og Steingrímur að vera komnir að Bólstað í Steingrímsfirði kl. 18:19. Trékyllisheiðin vafðist auðvitað ekkert fyrir þeim, þannig að þeir voru komnir á leiðarenda svo sem stundarfjórðungi fyrr, þrátt fyrir að hafa borið dálítið af leið sunnantil á heiðinni. Um þetta leyti hafði nokkur hópur hlaupara safnast saman við gömlu brúna yfir Selá. Þaðan eru rétt um 16 km til Hólmavíkur, og sú vegalengd er orðin viðráðanleg fyrir marga. Ég var auðvitað mættur þarna líka til að fá skammt af hamingjunni. Skemmtilegast þótti mér að heyra að sum þeirra sem þarna voru höfðu stefnt að þessu tiltekna markmiði mánuðum saman. Þarna voru draumar að rætast – og þetta var staðfesting á því að hlaupið stæði fyrir sínu sem Hamingjuhlaup. Frá Selá var lagt í hann kl. 18:24 eins og til stóð. Þetta var orðinn 9 manna hópur – og sá tíundi á hjóli.

Glæsilegur hópur við gömlu brúna yfir Selá innst í Steingrímsfirði. F.v. Hafþór Benediktsson, Steingrímur Guðni Árnason, Kristinn Schram, Magnús Steingrímsson, Ingibjörg Emilsdóttir, Þorsteinn Paul Newton, Jóhanna K. Guðbrandsdóttir, Rósmundur Númason, Marta Sigvaldadóttir og Birkir Stefánsson með dóttur sína.

Konur úr Borgarfirði
Ég brá fyrir mig varúðarreglunni og ók á frúarbílnum áfanga nr. 4 frá Selá að Staðará á meðan aðrir hlupu. Þar hitti ég tvær konur úr Borgarfirði sem ég hef stundum hitt áður á hlaupum, bæði á Háfslækjarhringnum og í Róm. Þarna sannaði Hamingjuhlaupið aftur gildi sitt, því að báðar höfðu þær lagt á sig ferð milli landshluta til að taka þátt í gleðinni.

Auður H Ingólfsdóttir og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir komnar sunnan úr Borgarfirði til að fá skammt af hamingjunni – og gefa öðrum.

Við Staðará lagði ég bílnum og ákvað að fylgja hópnum til Hólmavíkur. Tímaáætlunin var enda við það miðuð að allir gætu verið með. Þá hlaut ég að geta það líka. Þarna vorum við orðin a.m.k. 12 talsins, auk hjólreiðamanna.

Fjölgun á Fellabökum
Fellabök nefnist hæðin fyrir innan Ósbæina, rúma 5 km norðvestan við Hólmavík. Þar bættust enn fleiri hlauparar í hópinn og ég var hættur að reyna að telja. Sjálfur fór ég hægt yfir, sérstaklega niður brekkurnar. Þær reyndu mest á veika blettinn og ég bar gæfu til að hlýða því. Einu áhyggjurnar mínar snerumst um að hinir hlypu allt of hratt miðað við áætlunina. Þetta gengur nefnilega allt út á að allir komi saman inn á hátíðarsvæðið á nákvæmlega réttum tíma. Ég tók upp símann, hringdi í einn af forystusauðunum og bað hann að hafa hemil á liðinu.

Hefðbundið dok
Þar sem ekið er inní þorpið á Hólmavík stendur ansi hreint hentugt skilti með korti af bænum. Þar eru aðstæður hinar ákjósanlegustu til tímajöfnunar áður en lagt er í endasprettinn, staðurinn í hvarfi frá miðbænum og gott skjól af skiltinu. Þetta kvöld þurfti reyndar ekkert skjól, en við vorum aðeins á undan áætlun og því upplagt að safnast þarna saman til myndatöku. Þetta er eiginlega orðinn fastur liður í Hamingjuhlaupinu – og þar með hefð.

Hefðbundið dok við skiltið í úthverfi Hólmavíkur. Þarna voru hlaupararnir orðnir 16 eða þar um bil – og líklega 4 á hjólum. (Ljósmynd: Kristín Steingrímsdóttir (ef ég man rétt)).

Endaspretturinn
Frá skiltinu góða að hafnarvoginni á Hólmavík er rétt um 1 km. Þann spöl er gaman að hlaupa með svona hamingjusömum hópi, og ekki minnkaði hamingjan þegar við nálguðumst hátíðarsvæðið. Þar höfðu hátíðargestir myndað undurfalleg hamingjugöng undir dyggri stjórn Arnars hamingjustjóra. Gunnlaugur Júlíusson ofurhlaupari Íslands nr. 1, sem víða hefur farið, hafði orð á því eftir Hamingjuhlaupið í fyrra að hann hefði „aldrei lokið hlaupi þar sem jafn mikill fjöldi fólks fagnar hlaupurum að leiðarlokum“. Nú var fólkið jafnvel enn fleira og hamingjugöngin enn tilkomumeiri.

Hlaupararnir komnir inn í Hamingjugöngin. (Ljósm.: Strandabyggð – Ingibjörg Valgeirsdóttir / Jónas Gylfason)

Móttökur og tertur
Endasprettinum lauk uppi á sviðinu á hátíðarsvæðinu. Þar hyllti mannfjöldinn hlauparana, og við sama tækifæri voru afhent verðlaun fyrir fallegustu, bestu og skemmtilegustu hnallþórurnar á hinu árlega hnallþóruhlaðborði framan við sviðið. Ef þessi hnallþóruhlaðborð eru ekki skráð í Heimsmetabók Guinness, þá eru það annað hvort mistök eða gleymska. Allar þessar móttökur voru í einu orði sagt stórkostlegar. Athöfninni lauk svo með því að ég fékk að vanda að skera fyrstu sneiðina af fyrstu hnallþórunni.

Alsæll með fyrstu sneiðina af fyrstu Hamingjutertunni. (Ljósm: Jón H. Halldórsson)

Lokaorð
Hólmvíkingum, með Arnar Snæberg Jónsson í broddi fylkingar, hefur svo sannarlega tekist að gefa þessari árlegu bæjarhátíð sinni yfirbragð gleði og hamingju. Ég er einstaklega þakklátur fyrir að hafa fengið að gera Hamingjuhlaupið að hluta af þessari gleði. Hlaupararnir og fólkið sem var saman komið á Klifstúninu voru mér sönnun þess að þetta uppátæki er mikið meira en fyrirhafnarinnar virði. Hlaupið er komið til að vera. Næsta ár verður aftur hlaupið frá Trékyllisvík, og þá munu rætast enn fleiri draumar enn fleira fólks.

5 svör

  1. […] 3. Hamingjuhlaupið, laugardag  29. júní Nú verður Hamingjuhlaupið þreytt í 5. sinn, en þar er ekki keppt við tímann heldur er keppst við að auka hamingju þátttakenda, svo og þeirra sem bíða eftir að þeir skeri fyrstu sneiðina af tertunum á hinu heimsfræga hnallþóruhlaðborði Hamingjudaga á Hólmavík. Hlaupaleiðin verður sú sama og í fyrra, þ.e. frá Árnesi í Trékyllisvík til Hólmavíkur um Naustvíkurskörð og Trékyllisheiði, sem eru svo sem 53 km. Hingað til hefur verið farin ný leið á hverju ári, en þessi tiltekna leið var eiginlega aldrei kláruð síðasta sumar. Þá var nefnilega enginn í standi til að hlaupa hana alla. Hlaupið hefst að öllum líkindum við Handverkshúsið Kört í Trékyllisvík um hádegisbil og lýkur á hátíðarsvæðinu á Hólmavík 7-8 klst. síðar. Auðvelt er að skipta leiðinni í áfanga og slást í hópinn þar sem best hentar, þ.e.a.s. ef fólk vill stytta þetta eitthvað. Gefin verður út nákvæm tímatafla með góðum fyrirvara, rétt eins og þeir þekkja sem ferðast stundum með strætó. Þarna eru sem sagt allar tímasetningar ákveðnar fyrirfram, þannig að tertuskurðurinn hefjist á réttum tíma. Frásögn af Hamingjuhlaupinu á liðnu sumri er að finna í bloggi frá 7. júlí sl. […]

  2. […] sérverkefnið var Hamingjuhlaupið 30. júní, sem að þessu sinni hófst um hádegisbil við Handverkshúsið Kört í Árnesi í […]

  3. […] á Hólmavík frá því á árinu 2009. Allt á þetta sér sína sögu, en hana rakti ég m.a. í samsvarandi bloggpistli á síðasta ári. Fyrsta árið var hlaupið frá Drangsnesi, næsta ár yfir Þröskulda, þriðja árið frá […]

  4. […] bjóða öðrum að njóta með sér. Þessa sögu hef ég reyndar rakið áður og endurtek ekki þá frásögn hér. Alla vega þróaðist þetta þannig að fyrsta Hamingjuhlaupið var hlaupið frá Drangsnesi […]

  5. […] 2012 í ótrúlega góðu veðri norður í […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: