• Heimsóknir

    • 119.039 hits
  • nóvember 2012
    S M F V F F S
     123
    45678910
    11121314151617
    18192021222324
    252627282930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Leiðir til að draga úr sóun matvæla

Flokkun úrgangs er afskaplega mikilvæg. En það er samt enn mikilvægara að koma í veg fyrir að úrgangur myndist, enda líklegt að fyrir hvert kíló sem fer í ruslið fari nokkur kíló til spillis einhvers staðar annars staðar við framleiðslu á viðkomandi vöru. Hvert kíló sem fer ekki í ruslið hefur því meira vægi en flesta grunar. Kíló er ekki bara kíló.

Tölum um mat
En hvernig kemur maður í veg fyrir að úrgangur myndist? Til þess eru ýmsar aðferðir, allt eftir því hvaða varningur á í hlut. Í þessum pistli verður eingöngu rætt um matvæli, en þar er sóunin líklega einna mest. Það er jafnvel talið að um helmingur allra matvæla sem framleidd eru í heiminum fari óétin í ruslið! Ef hægt væri að nýta þetta allt og dreifa því með sanngjörnum hætti um heiminn, þá hefðu allir nóg að borða!

Sóun á írskum veitingastöðum
Víða á Vesturlöndum hafa sprottið upp grasrótarsamtök og verkefni sem hafa það að markmiði að draga úr sóun matvæla. Frá einu slíku verkefni var sagt á umhverfisfróðleikssíðunni 2020.is 19. október sl. Þar var reyndar ekki beinlínis um grasrótarverkefni að ræða, því að kveikjan að því voru lög sem tóku gildi á Írlandi fyrir tveimur árum og gera veitingastöðum skylt að skilja matarúrgang frá öðrum úrgangi. Reyndar var engin vanþörf á að fara ofan í saumana á þessu, því að á hverju ári er matvælum að verðmæti um 125 milljónir sterlingspunda (um 25 milljarðar ísl. kr) hent á írskum veitingastöðum!

Lagasetningin varð til þess að eigendur veitingastaðanna lögðust í greiningar á því hvar í ferlinu úrgangurinn myndast. Í ljós kom að stærstur hluti úrgangsins, um 65%, voru matarleifar af diskum gesta!

Auðveld leið til að minnka matarleifar á diskum er að minnka skammtana. En þá kemur annað vandamál í ljós. Gestir á veitingahúsum í þessum heimshluta virðast nefnilega einhvern veginn hafa fengið þá flugu í höfuðið að það sé hallærislegt að fá litla skammta sem maður getur klárað. Þá fái maður ekki nógu mikið fyrir peninginn. En væri ekki betra að borga aðeins minna og fá bara það sem mann langar til að borða? Þá myndu allir græða; gesturinn, veitingahúsið og umhverfið!

Goðsögnin um síðasta söludag
Ein auðveldasta leiðin til að draga úr sóun matvæla heima hjá sér er að hætta að trúa því að vörur sem eru komnar fram yfir síðasta söludag séu óhæfar til neyslu. Þær eru þvert á móti yfirleitt alveg jafngóðar og þær voru daginn áður, enda síðasti söludagur alls ekki það sama og síðasti neysludagur. Einhvern tímann bloggaði ég um þetta, en eftirfarandi tafla gefur líka hugmynd um málið. Minnir að hún sé upphaflega byggð á norskum heimildum.

Tegund matvæla Endingartími eftir síðasta söludag
Hunang Nokkrar aldir
Niðursuðuvörur/þurrvörur Nokkur ár
Egg Nokkrir mánuðir
Jógúrt o.fl. Vika eða meira
Mjólk Nokkrir dagar

Matvett.no
Norska vefsíðan Matvett er dæmi um eitt þeirra fjölmörgu verkefna sem nú eru í gangi í kringum okkur og miða að því að draga úr sóun matvæla. Þar kemur fram að sóun matvæla sé hvergi meiri en á heimilum, og að u.þ.b. fjórði hver innkaupapoki sem kemur heim úr matvörubúðinni fari beint í ruslið. Um leið er þá væntanlega verið að henda u.þ.b. fjórðu hverrri krónu sem varið er til matarinnkaupa. Ætli það sé ekki svona 25 þúsund kall á mánuði á venjulegu íslensku heimili? Og til að geta keypt sér mat fyrir 25 þúsund kall þarf að vinna sér inn 40 þúsund kall ef miðað er við að tæp 40% af kaupinu fari beint í skatta. Og ef tímakaupið er 1.500 krónur, þá þurfa fyrirvinnurnar á heimilinu að vinna 27 klst. á mánuði aukalega, bara til að borga fyrir matinn sem hent er!

Er þetta ekki bara vitleysa?
Sjálfsagt telja margir sig nýta matinn miklu betur en hér er sagt. Rannsóknir benda líka til að fólk telji sig henda miklu minni mat en það gerir í raun. Eitt af góðu ráðunum á Matvett.no er að vigta allan þann mat sem fer í ruslið til að átta sig betur á raunverulegu umfangi vandans.

Að elska mat og hata úrgang
Breska síðan Love Food Hate Waste er annað gott dæmi um framtak sem stuðlar að aukinni meðvitund fólks um þá gríðarlegu sóun matvæla sem flest okkar taka virkan þátt í.

Ungt hugsandi fólk!
En við sitjum ekki öll í sömu súpunni. Fyrir tveimur árum hitti ég unga ruslara, þ.e.a.s. fólk sem kaupir aldrei í matinn, heldur hirðir fyrirtaks matvæli úr ruslinu. Þetta unga fólk var ekki drifið áfram af fátækt, heldur var það bara að nýta sér tækifæri sem liggja í fáránleikanum – og kannski að mótmæla fáránleikanum svolítið í leiðinni. Peningunum sem losnuðu við þetta gat það svo skipt fyrir önnur lífsgæði, eða þá að það sleppti því bara að vinna þessa 27 tíma á mánuði, eða hvað það nú var, og notaði þann tíma til að njóta lífsins.

Ekki bara kíló
Og gleymum því ekki, að fyrir hvert kíló sem fer til spillis heima hjá okkur liggja líklega mörg kíló dauð eftir einhvers staðar annars staðar. Kíló er ekki bara kíló!

(Þessi fimmtudagspistill er skrifaður í tilefni Nýtnivikunnar (European Week for Waste Reduction (EWWR) sem nú stendur yfir).