Ég tók þátt í Vetrarhlaupi UFA á Akureyri í gær. Það er ekki í frásögur færandi. Þetta voru 10 km sem ég lauk á 45:02 mínútum í góðu veðri en frekar mikilli hálku. Það er heldur ekki í frásögur færandi. Ég var vonsvikinn að hlaupi loknu. Það er kannski ekki heldur í frásögur færandi, en samt er fróðlegt að velta ástæðunni fyrir sér. Þetta voru nefnilega heimasmíðuð vonbrigði. Vonbrigði eru það oft.
Ég hef stundað hlaup í nokkra áratugi og tel mig þekkja takmörk mín á því sviði allvel. Ég þóttist til dæmis vita, að miðað við líkamlegt ástand mitt og færðina á götum Akureyrar í gærmorgun ætti ég að geta klárað þetta vetrarhlaup á 45-46 mín. Þegar leið á hlaupið benti allt til þess að þetta mat hefði verið raunhæft. Mér virtist jafnvel stefna í að tíminn yrði mun nær 45 mínútum en 46, sem var náttúrulega gleðiefni.
Eftir 8 km sá ég að með góðum hraða á síðustu tveimur kílómetrunum ætti ég að komast undir 45 mín. Þar með var orðið til nýtt markmið, sem ég náði sem sagt ekki. Þar vantaði 3 sekúndur upp á. Eftir sem áður var ég innan þeirra marka sem ég taldi raunhæf í upphafi – og meira að segja næstum búinn að gera enn betur. Samt varð ég fyrir vonbrigðum. Þau vonbrigði bjó ég sjálfur til við 8 km markið.
Þetta var hvorki löng saga né flókin. En hún hefur samt boðskap. Boðskapurinn er sá að það er ástæðulaust að búa sér til vonbrigði, hvort sem það er á hlaupum eða í öðrum viðfangsefnum í lífinu. Þessar örstuttu þrjár sekúndur sem málið snerist um í þessu tiltekna tilviki skiptu engan neinu máli, hvorki mig né nokkurn annan. Ég missti t.d. hvorki af verðlaunum né landsliðssæti né neinu öðru sem þessar þrjár sekúndur hefðu getað fært mér. Að hlaupi loknu hefði ég átt að upplifa þá þægilegu sigurtilfinningu sem fylgir því að hafa gert sitt besta – og því að ég hafi heilsu, tíma og getu til að stunda þetta skemmtilega áhugamál mitt með öðru fólki með sama áhugamál, þrátt fyrir að ég sé orðinn hálfsextugur, eða hvað sem þessi aldur annars er kallaður. En í staðinn varð ég fyrir vonbrigðum. Mér tókst sem sagt að spilla eigin upplifun með því einu að afstilla hugann á leiðinni.
Hugur manns ræður mestu um það hvernig manni líður, a.m.k. á meðan allt er í himnalagi. Málið er nefnilega „ikke hvordan man har det, men hvordan man tar det“, eins og amma norskrar vinkonu minnar sagði einu sinni.
Filed under: Hlaup, Lífið og tilveran | 2 Comments »