• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • júní 2023
    S M F V F F S
     123
    45678910
    11121314151617
    18192021222324
    252627282930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Rauði krossinn vill líka ónýt föt!

fatagamur (169x225)Sennilega fara flestir Íslendingar einhvern tímann með föt í söfnunargáma Rauða krossins og flest bendir til að þessum Íslendingum fari fjölgandi. Alla vega safnast meira og meira af fötum með hverju árinu sem líður. Fatasöfnunin er orðin eitt mikilvægasta fjáröflunarverkefni Rauða kross Íslands, og sem dæmi um það má nefna að á árinu 2013 nam afrakstur Rauða krossins af fatasöfnuninni 100 milljónum króna. Hluti af þessu fé er notaður til að fjármagna rekstur Hjálparsíma Rauða krossins 1717, hluti fer til verkefna á vegum deilda Rauða krossins um allt land og hluti nýtist til hjálparstarfs erlendis.

Í skýrslu um afdrif textílúrgangs á Norðurlöndunum sem kom út í byrjun síðasta mánaðar er að finna yfirlit um það hversu mikið af fötum Íslendingar keyptu á árinu 2012 og sömuleiðis um það hvað verður um þessi föt að notkun lokinni. Rétt er þó að taka fram að allt eru þetta áætlaðar tölur, því að ekkert nákvæmt bókhald er til um fatakaup eða fataeign Íslendinga. Skýrslan byggir á tölum frá Hagstofunni, Sorpu, Rauða krossinum og fleiri aðilum og þegar allt þetta er skoðað í samhengi kemur í ljós að á árinu 2012 voru á að giska 4.800 tonn af taui sett á markað hérlendis, þar af líklega um 3.800 tonn innflutt og 1.000 tonn sem framleidd voru innanlands. Inni í þessum tölum eru ekki bara föt, heldur líka hvers konar önnur textílvara, svo sem sængurföt, dúkar, gluggatjöld og teppi, svo eitthvað sé nefnt. Sé þessi ágiskum rétt eru þetta rétt um það bil 15 kg á hvert mannsbarn á Íslandi.

Af þessum 4.800 tonnum sem komu inn á markaðinn 2012 rötuðu um 1.400 tonn í söfnunargáma. Þar á Rauði krossinn langstærstan hlut að máli, en önnur samtök koma svo sem einnig við sögu. Hin 3.400 tonnin lentu einhvers staðar annars staðar.

Þegar afdrif 1.400 tonnanna sem rötuðu í söfnunargáma eru skoðuð nánar, kemur í ljós að þar af voru um 50 tonn endurnotuð. Þar er þá aðallega um að ræða föt sem voru seld í Rauðakrossbúðunum, en einhver lítill hluti af þessu fór væntanlega beint í hjálparstarf innanlands og utan. Eftir standa þá 1.350 tonn sem voru seld úr landi, en þessi sala er aðaltekjulind fataverkefnis Rauða krossins. Með hæfilegri ónákvæmni er hægt að slá því fram að þessi 1.350 tonn skapi stærstan hluta af 100 milljón króna tekjunum sem nefndar voru hérna áðan. Reyndar erum við þarna að tala um áætlað magn sem selt var árið 2012, á meðan tekjutölurnar tilheyra árinu 2013. En þetta er samt alveg nógu nákvæmt til að gefa hugmynd um það hvernig þetta virkar allt saman.

Jæja, það komu sem sagt 4.800 tonn inn á markaðinn og þar af skiluðu 1.400 tonn sér í söfnunargámana. Hinum 3.400 tonnunum má í grófum dráttum skipta í tvennt. Um það bil 200 tonn hafa líklega safnast fyrir í fataskápum og á háaloftum landsmanna, en afganginum var einfaldlega hent. Það lítur sem sagt út fyrir að á árinu 2012 hafi hvorki meira né minna en 3.200 tonn af textílúrgangi farið endanlega í súginn, eða verið með öðrum orðum urðað með öðrum úrgangi á urðunarstöðum víða um land.

Ef við förum nú aðeins yfir þessa tölfræði aftur, en tölum núna um kíló á hvert mannsbarn í staðinn fyrir tonn á landsvísu, þá er sem sagt áætlað að á árinu 2012 hafi 15 kíló komið inn á markaðinn. Þar af fóru um 10 kíló í urðun, um 4,3 kíló voru seld til útlanda, um það bil 0,2 kíló voru seld í Rauðakrossbúðum og 0,5 kíló söfnuðust upp á heimilum. Þannig gengur bókhaldið upp. Reyndar er ekkert sjálfsagt að svona bókhald gangi upp, því að auðvitað á mikill hluti af þessari vöru lengri líftíma en svo að hún skili sér í gáma eða ruslatunnur sama árið og hún er keypt. En það er svo sem aukaatriði, því að ef innstreymið er svipað ár frá ári skekkist myndin ekki mikið.

Veltum nú aðeins betur fyrir okkur þessum 10 kílóum á hvert mannsbarn, eða með öðrum orðum þessum 3.200 tonnum samtals, sem eru urðuð á hverju ári. Allt þetta hefði betur farið í söfnunargáma Rauða krossins. Þeir taka nefnilega ekki bara við nothæfum fötum, heldur einfaldlega hvaða textílúrgangi sem vera skal, þar með töldum ónýtum rúmfötum, blettóttum borðdúkum, rifnum gallabuxum og stökum sokkum, svo eitthvað sé nefnt. Allt þetta getur skapað Rauða krossinum tekjur. Þetta góss er einfaldlega selt í stórar flokkunarstöðvar í Þýskalandi eða Hollandi. Þaðan fer svo besti hlutinn í endursölu í retróbúðum, en það lakasta er selt í verksmiðjur sem tæta efnið niður og framleiða úr því tvist og tuskur af ýmsu tagi. Með nýrri tækni eru líka að opnast möguleikar til að flokka textílúrgang eftir efnum og vinna nýjan þráð úr ónýtum fötum. Þannig fást enn meiri verðmæti úr lakasta hlutanum.

Ef við höldum nú áfram að leika okkur með tölur, þá nefndi ég áðan að þau 1.350 tonn sem Rauði krossinn selur úr landi árlega gefi af sér um 100 milljónir króna, með öllum þeim fyrirvörum sem ég var búinn að tína til. Ef við tækjum okkur nú öll saman í andlitunum og hættum alfarið að setja ónýt föt og annan textílúrgang í ruslið og færum þess í stað með þetta í Rauðakrossgámana, þá myndi Rauði krossinn fá 3.200 tonn til viðbótar á hverju ári. Og ef við reiknum með sama kílóaverði myndi þessi hrúga gefa af sér hvorki meira né minna en 237 milljónir til viðbótar við þá fjármuni sem Rauði krossinn fær nú þegar. Kannski er þetta samt óþarflega mikil bjartsýni. Eigum við ekki að vera hógvær og segja bara 200 milljónir?

Svo við drögum þetta nú aðeins saman í lokin, þá er boðskapur þessa pistils afskaplega einfaldur: Ef við hættum að henda ónýtum fötum og öðrum textílúrgangi og setjum hann þess í stað allan í söfnunargáma Rauða krossins, þá bætast tugir milljóna, eða jafnvel allt að 200 milljónir, við það fjármagn sem Rauði krossinn hefur til ráðstöfunar í hjálparstarf á hverju ári. Þörfin er brýn og það er náttúrulega alveg út í hött að grafa svona fjársjóð í jörðu eins og hvert annað sorp!

Því er svo við að bæta, svona rétt í blálokin, að Rauðakrossgámarnir taka líka við skóm sem við erum hætt að nota. Skór henta reyndar sjaldan vel til endurvinnslu, en skótau sem við teljum ónýtt getur nýst vel á svæðum þar sem fólk hefur ekki efni á að vera vandlátt. Þeir sem vinna í flokkunarstöðvunum í Þýskalandi og Hollandi eru betur í stakk búnir en við til þess að meta hvað sé nothæft og hvað ekki.

(Þessi pistill er samhljóða pistli sem fluttur var í Sjónmáli á Rás 1 fimmtudaginn 17. júlí 2014. Myndin er tekin af heimasíðu Rauða kross Íslands).

Nokkur orð um lyfjaafganga

MedicineÁ flestum heimilum safnast upp eitthvað af lyfjum sem voru keypt á sínum tíma en ekki notuð þegar til kastanna kom. Flest lyf hafa einhver áhrif á heilsuna ef þau berast inn í líkama fólks, enda eru þau beinlínis til þess gerð. Á sama hátt er líklegt að flest lyf hafi einhver áhrif á umhverfið ef þau sleppa út í náttúruna. Þess vegna skiptir miklu máli hvað verður um ónotuð lyf.

Tveir flokkar ónotaðra lyfja
Í grófum dráttum má skipta ónotuðum lyfjum í tvo flokka eftir afdrifum þeirra, þ.e.a.s. annars vegar lyf sem skilað er til endurvinnslu eða förgunar og hins vegar lyf sem lenda í ruslafötunni. Þar ættu lyf reyndar aldrei að lenda, því að úr ruslafötunni liggur leiðin í flestum tilvikum á næsta urðunarstað, og þaðan geta efni úr lyfjunum borist út í náttúruna með tíð og tíma. Þar brotna þau seint niður, enda eru lyf yfirleitt gerð til að endast. Annars myndu þau líklega sjaldan komast óskemmd til þeirra líkamsparta sem þeim er ætlað að hafa áhrif á. En þó að ruslafatan sé slæm, þá er enn verra að sturta lyfjaafgöngum niður í klósettið eins og mér skilst að sumir geri. Úr klósettinu liggur leiðin nánast beint út í náttúruna, enda ráða hreinsistöðvar ekki við lyfjaleifar nema þá að mjög litlu leyti.

Skilið lyfjaafgöngunum!
Lyf geta gert mikinn usla úti í náttúruna, því að þegar þangað er komið halda þau áfram að sinna hlutverki sínu eins og ekkert hafi í skorist. Til að fyrirbyggja þetta er afskaplega mikilvægt að skila öllum lyfjaafgöngum í næsta apótek, sem sér um að koma þeim áfram í viðeigandi förgun. Þetta gildir jafnt um eina eða tvær töflur og um heilu lyfjapakkana. Öll apótek, lítil sem stór, hvar sem er á landinu, taka við lyfjaafgöngum og senda þau áfram til förgunar í viðurkenndri brennslustöð.

Umhverfisáhrif notaðra lyfja
Það eru ekki bara „lyf sem eru ekki notuð“ sem skipta máli frá umhverfislegu sjónarmiði. Lyf sem búið er að nota geta líka endað úti í náttúrunni. Lyfin verða nefnilega ekki að engu í líkamanum, heldur skilar drjúgur hluti þeirra sér út með þvagi. Víða í hinum vestræna heimi má finna mælanlegt magn af hinum ýmsu lyfjum í vötnum og setlögum. Sem dæmi má nefna að Ibuprofen hefur fundist í setlögum í norskum fjörðum og Diclofenac hefur líka víða greinst í fráveituvatni, en Diclofenac þekkja menn sjálfsagt best undir vöruheitinu Voltaren. Þau lyf sem oftast eru nefnd í þessu sambandi eru þó getnaðarvarnarpillur, eða nánar tiltekið ethynýlestradíól, sem er kjarninn í flestum tegundum pillunnar. Þetta efni skilar sér út í höf og vötn um allan heim jafnt og þétt alla daga ársins. Rannsóknir hafa sýnt fram á skaðleg áhrif þessa efnis á fiska sem halda til í grennd við útrásir fráveitukerfa. Einkennin birtast meðal annars í minnkandi sæðisframleiðslu og fjölgun tvíkynja einstaklinga. Innan Evrópusambandsins er rætt um að setja sérstök hámarksgildi fyrir ethynýlestradíól, Diclofenac og eitt algengt lyfjaefni til viðbótar inn í ákvæði um vatnsgæði í tengslum við vatnatilskipun sambandsins.

Lyf sem ekki eru keypt
Lítum loks aðeins á „lyf sem eru ekki keypt“. Þau hafa svo sem engin áhrif á umhverfið, nema náttúrulega þar sem þau eru framleidd. Það er sem sagt að öðru jöfnu góður kostur frá umhverfislegu sjónarmiði að sleppa því að kaupa lyf. En auðvitað er málið ekki alveg svo einfalt. Reyndar getur vel verið að við kaupum of mikið af lyfjum. Kannski hættir okkur til að líta á þau sem fyrsta valkost til meðhöndlunar á hvers konar kvillum, þó að stundum væri nærtækara að leita lækninga í bættu mataræði, útivist og hreyfingu. En það er efni í annan pistil.

Niðurstaðan
Og hver er þá niðurstaðan úr þessu öllu saman? Jú, henni má eiginlega skipta í tvö aðalatriði eða heilræði:

  • Annars vegar ættum við aldrei að kaupa lyf sem við þurfum ekki á að halda.
  • Hins vegar eigum við aldrei að henda lyfjaleifum í ruslið eða í klósettið, alveg sama hvaða lyf á í hlut og alveg sama hversu magnið er lítið.

Lokaorð um pilluna og Voltaren
Framangreindum heilræðum er auðvelt að fylgja. Þetta með getnaðarvarnarpilluna og áhrif hennar á umhverfið er hins vegar erfiðara viðfangs. Fyrsta skrefið er þó að vera meðvitaður um þessi áhrif og fylgjast vel með þróun mála, því að framleiðendur vinna stöðugt að því að þróa pillu sem gerir sem mest gagn og veldur sem minnstum skaða. Þeir sem vilja fræðast um gagnsemi og skaðsemi einstakra tegunda pillunnar ættu endilega að spyrja starfsfólk heilbrigðisstofnana og apóteka og fá þannig aðstoð við að velja besta kostinn. Ég ætla sem sagt alls ekki að leggja til að konur heimsins hætti að taka pilluna af umhverfisástæðum. Hins vegar má fólk alveg hætta að taka Voltaren mín vegna. Ef diclofenac hverfur úr skolprörunum er alla vega búið að fækka umhverfisvandamálunum um eitt.

(Þessi pistill er að mestu leyti samhljóða pistli sem fluttur var í útvarpsþættinum Sjónmál á Rás 1 fimmtudaginn 2. maí 2013).

Notuð og ónotuð föt

cover_normalÍ framhaldi af umræðum síðustu vikna um aðstæður verkafólks í fataframleiðslu er ekki úr vegi að velta fyrir sér hvað verður um öll þessi föt, já og bara föt yfirleitt. Það fyrsta sem manni dettur í hug er sjálfsagt að einhver kaupi þau, noti þau og hendi þeim svo þegar þau eru orðin ónýt. En saga fatanna er ekki alltaf svona einföld.

Norræn skýrsla
Á síðasta ári kom út skýrsla sem Norræna ráðherranefndin lét vinna til að fá fram tillögur um aðgerðir til að lágmarka fataúrgang. Í þessari skýrslu er reynt að draga upp mynd af ástandinu, þ.e.a.s. af því hversu mikið af fatnaði er sett á markað á hverju ári og hvað verður svo um þennan fatnað. Úttektin náði til Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands, en sambærilegar tölur fyrir Noreg og Ísland voru ekki eins aðgengilegar. Reyndar er hvergi til áreiðanlegt talnaefni um innkaup, notkun og afdrif fatnaðar, þannig að víða þarf að geta í eyðurnar. Í skýrslunni er það gert fyrir hvert land um sig – og niðurstöðurnar eru alls staðar nokkuð svipaðar. Auðvitað er erfitt að fullyrða um hvort hægt sé að heimfæra þessar tölur upp á Ísland, en líklega kaupum við a.m.k. jafn mikið af fötum og nágrannaþjóðirnar og hendum a.m.k. jafn miklu.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að þegar talað er um fatnað í þessu samhengi, þá er líka átt við handklæði, rúmföt, borðdúka, teppi og fleira, þ.e.a.s. hvers konar laus klæði eða textílefni sem notuð eru á heimilum og ekki eru hluti af öðrum vörum. Þetta gætu verið svona 20% af heildarmagninu, sem skiptir ekki öllu máli í niðurstöðunni, að minnsta kosti ekki á meðan hún er svona lauslega reiknuð.

15 kíló á mann á ári
Svo við lítum nú fyrst á innkaupin, þá virðast Danir, Svíar og Finnar kaupa 13-16 kíló af fatnaði á hvert mannsbarn á ári. Ef við gefum okkur töluna 15 kíló fyrir Ísland, þá má geta sér þess til að við kaupum samanlagt um það bil 4.800 tonn af fatnaði á ári. Miðað við tölur frá hinum löndunum fara 40-70% af þessu í ruslið. Ef við gerum ráð fyrir að við séum í hærri kantinum, þá gætu þetta verið 10 kíló á hvert mannsbarn á ári eða samtals um 3.200 tonn á landinu öllu, sem fara þá í urðun. Talsvert magn er endurnotað með einum eða öðrum hætti, þar með talið það sem Rauði krossinn og önnur samtök safna. Þetta gætu verið um það bil 1.400 tonn á ári eða um það bil 4,5 kíló á hvert mannsbarn. Þá vantar um það bil 200 tonn eða um það bil hálft kíló á mannsbarn til þess að dæmið gangi upp. Miðað við tölur frá Danmörku og Finnlandi gæti þetta einmitt verið það magn sem safnast árlega upp í fataskápum, háaloftum og kjöllurum landsmanna umfram það sem rutt er þaðan út í tiltektum.

Í margumræddri skýrslu kemur fleira áhugavert fram. Það lítur meðal annars út fyrir að fatainnkaup Norðurlandabúa vaxi jafnt og þétt, langt umfram fólksfjölgun. Þannig jókst magn fatnaðar sem settur var á markað í Svíþjóð um 40% milli áranna 2000 og 2009. Hins vegar virðist áhugi á endurnotkun líka fara ört vaxandi. Sífellt fleiri selja og kaupa notuð föt á netinu og verslanir með notuð föt blómstra. Þetta er auðvitað jákvætt þar sem það bætir nýtingu auðlinda. Í skýrslunni er líka bent á aðferðir sem stjórnvöld geta beitt til að draga úr sóun fatnaðar. Í Frakklandi er til dæmis að einhverju leyti búið að innleiða framlengda framleiðendaábyrgð á fötum, sem þýðir að framleiðendur eru skyldaðir til að taka notuð föt til baka. Og í Japan eru kröfur um hlutfall endurunninna efna í nýjum fötum orðnar hluti af innkaupareglum hins opinbera. Loks er bent á þann möguleika að lækka eða endurgreiða virðisaukaskatt af fataviðgerðum og fræða fólk jafnframt um slíka möguleika og um það hvar og hvernig sé hægt að skila af sér notuðum fötum. Allt myndi þetta stuðla að betri nýtingu fatnaðar og minni sóun.

Milljarður á ári í ónotuð föt?
Ef við drögum þetta nú aðeins saman, þá má getum að því leiða að við kaupum hátt í 5.000 tonn af fötum á hverju ári og að rúmlega 3.000 tonn af fötum séu urðuð á hverju ári. Þarna hlýtur að mega spara eitthvað, bæði fjárútlát vegna innkaupa og úrgangsmeðhöndlunar – og auðlindir sem kastað er á glæ í hvert sinn sem klæði er urðað. Í þessu sambandi er áhugavert að rifja upp tölur úr rannsókn sem Einar Mar Þórðarson og félagar hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerðu skömmu fyrir hrun á neysluvenjum Íslendinga og viðhorfum til endurvinnslu. Þar kom fram að nær helmingur aðspurðra hafði keypt föt eða skó á útsölu sem höfðu svo bara verið notuð einu sinni eða tvisvar, eða jafnvel aldrei. Og 19% höfðu keypt sér föt sem voru aldrei notuð vegna þess að kaupandanum tókst ekki að grennast nógu mikið til að passa í þau. Í þessari sömu rannsókn var reiknað út að á hverju ári eyddu Íslendingar 1,3 milljörðum króna í föt sem ekki voru notuð.

Til umhugsunar
Það er örugglega gaman að ganga í fínum fötum, en það væri líka hægt að kaupa sér margt skemmtilegt fyrir þennan eina eða eina og hálfa milljarð sem hent er með ónotuðum fötum. Það eykur nefnilega ekki lífsgæði manns að eiga föt til að henda, og líklega ekki heldur að safna fötum í skápa, kjallara og háaloft. Þaðan af síður aukast lífsgæðin þegar við hið fjárhagslega tjón bætist samviskubitið yfir því að fólk hafi þurft að deyja í fjarlægum löndum til að framleiða þessi föt fyrir okkur. Kannski hefði það skapað meiri lífsgæði, já eða vellíðan, að kaupa færri flíkur, borga aðeins meira fyrir hverja þeirra, nýta tiltækar aðferðir til að tryggja sómasamleg lífsskilyrði þeirra sem vinna verkin – og nota svo afganginn af peningunum í eitthvað skemmtilegt.

(Þessi pistill er nær samhljóða pistli sem fluttur var í útvarpsþættinum Sjónmál á Rás 1 fimmtudaginn 23. maí 2013).

Fjórðapartstunnur í allar búðir!

Í bloggpistli sem ég skrifaði um síðustu helgi kom fram – og var haft eftir Matvett í Noregi – að u.þ.b. fjórði hver innkaupapoki sem kemur heim úr matvörubúðinni fari beint í ruslið. Ég hef verið mjög hugsi yfir þessu síðan, en nú tel ég mig loksins vera kominn með lausn á málinu. Það þarf einfaldlega að koma upp fjórðapartstunnum í öllum matvöruverslunum ekki seinna en strax.

Það fylgir því augljóslega gríðarlegt umstang og erfiði að bera heim innkaupapoka fullan af matvörum, til þess eins að henda honum þegar heim er komið. Þetta á sérstaklega við um fólk eins og mig sem fer stundum gangandi í búðina og dröslast svo með allan varninginn heim á tveimur jafnfljótum. Og hugsið ykkur allt erfiðið og óþörfu ferðirnar upp og niður stiga og út að ruslatunnu í misjöfnum vetrarveðrum, allt til þess að losa sig við þennan fjórðapart af innkaupunum. Þetta er kannski engin ofraun einstaka sinnum, en þegar málið er skoðað á ársgrundvelli er augljóst hversu gríðarlegt álag fylgir þessum fjórða innkaupapoka, sem hvort sem er verður hent!

Af framanskráðu er augljóst hversu mikið hagsmunamál það er fyrir neytendur að settar verði upp fjórðapartstunnur í öllum búðum, helst við hliðina á búðarkössunum, þar sem fólk getur strax hent fjórða hverjum poka og haldið svo hamingjusamt heim með þá þrjá fjórðuparta af matnum sem ætlunin er að nota aðeins lengur. Það er eiginlega furðulegt að enginn skuli hafa sinnt þessu brýna hagsmunamáli fyrr. Verst að ég er hættur í stjórn Neytendasamtakanna. Annars hefði ég örugglega reynt að fá þau til að beita sér í þessu.

Krafan er skýr: Fjórðapartstunnur í allar búðir!

(Þess má geta í lokin að fjórðapartstunnan er ekki að öllu leyti ný hugmynd, þó að hana sé enn sem komið er ekki að finna í íslenskum verslunum. Ég fékk t.d. einu sinni ágæta kynningu á svipaðri hugmynd í Noregi, eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi).

Leiðir til að draga úr sóun matvæla

Flokkun úrgangs er afskaplega mikilvæg. En það er samt enn mikilvægara að koma í veg fyrir að úrgangur myndist, enda líklegt að fyrir hvert kíló sem fer í ruslið fari nokkur kíló til spillis einhvers staðar annars staðar við framleiðslu á viðkomandi vöru. Hvert kíló sem fer ekki í ruslið hefur því meira vægi en flesta grunar. Kíló er ekki bara kíló.

Tölum um mat
En hvernig kemur maður í veg fyrir að úrgangur myndist? Til þess eru ýmsar aðferðir, allt eftir því hvaða varningur á í hlut. Í þessum pistli verður eingöngu rætt um matvæli, en þar er sóunin líklega einna mest. Það er jafnvel talið að um helmingur allra matvæla sem framleidd eru í heiminum fari óétin í ruslið! Ef hægt væri að nýta þetta allt og dreifa því með sanngjörnum hætti um heiminn, þá hefðu allir nóg að borða!

Sóun á írskum veitingastöðum
Víða á Vesturlöndum hafa sprottið upp grasrótarsamtök og verkefni sem hafa það að markmiði að draga úr sóun matvæla. Frá einu slíku verkefni var sagt á umhverfisfróðleikssíðunni 2020.is 19. október sl. Þar var reyndar ekki beinlínis um grasrótarverkefni að ræða, því að kveikjan að því voru lög sem tóku gildi á Írlandi fyrir tveimur árum og gera veitingastöðum skylt að skilja matarúrgang frá öðrum úrgangi. Reyndar var engin vanþörf á að fara ofan í saumana á þessu, því að á hverju ári er matvælum að verðmæti um 125 milljónir sterlingspunda (um 25 milljarðar ísl. kr) hent á írskum veitingastöðum!

Lagasetningin varð til þess að eigendur veitingastaðanna lögðust í greiningar á því hvar í ferlinu úrgangurinn myndast. Í ljós kom að stærstur hluti úrgangsins, um 65%, voru matarleifar af diskum gesta!

Auðveld leið til að minnka matarleifar á diskum er að minnka skammtana. En þá kemur annað vandamál í ljós. Gestir á veitingahúsum í þessum heimshluta virðast nefnilega einhvern veginn hafa fengið þá flugu í höfuðið að það sé hallærislegt að fá litla skammta sem maður getur klárað. Þá fái maður ekki nógu mikið fyrir peninginn. En væri ekki betra að borga aðeins minna og fá bara það sem mann langar til að borða? Þá myndu allir græða; gesturinn, veitingahúsið og umhverfið!

Goðsögnin um síðasta söludag
Ein auðveldasta leiðin til að draga úr sóun matvæla heima hjá sér er að hætta að trúa því að vörur sem eru komnar fram yfir síðasta söludag séu óhæfar til neyslu. Þær eru þvert á móti yfirleitt alveg jafngóðar og þær voru daginn áður, enda síðasti söludagur alls ekki það sama og síðasti neysludagur. Einhvern tímann bloggaði ég um þetta, en eftirfarandi tafla gefur líka hugmynd um málið. Minnir að hún sé upphaflega byggð á norskum heimildum.

Tegund matvæla Endingartími eftir síðasta söludag
Hunang Nokkrar aldir
Niðursuðuvörur/þurrvörur Nokkur ár
Egg Nokkrir mánuðir
Jógúrt o.fl. Vika eða meira
Mjólk Nokkrir dagar

Matvett.no
Norska vefsíðan Matvett er dæmi um eitt þeirra fjölmörgu verkefna sem nú eru í gangi í kringum okkur og miða að því að draga úr sóun matvæla. Þar kemur fram að sóun matvæla sé hvergi meiri en á heimilum, og að u.þ.b. fjórði hver innkaupapoki sem kemur heim úr matvörubúðinni fari beint í ruslið. Um leið er þá væntanlega verið að henda u.þ.b. fjórðu hverrri krónu sem varið er til matarinnkaupa. Ætli það sé ekki svona 25 þúsund kall á mánuði á venjulegu íslensku heimili? Og til að geta keypt sér mat fyrir 25 þúsund kall þarf að vinna sér inn 40 þúsund kall ef miðað er við að tæp 40% af kaupinu fari beint í skatta. Og ef tímakaupið er 1.500 krónur, þá þurfa fyrirvinnurnar á heimilinu að vinna 27 klst. á mánuði aukalega, bara til að borga fyrir matinn sem hent er!

Er þetta ekki bara vitleysa?
Sjálfsagt telja margir sig nýta matinn miklu betur en hér er sagt. Rannsóknir benda líka til að fólk telji sig henda miklu minni mat en það gerir í raun. Eitt af góðu ráðunum á Matvett.no er að vigta allan þann mat sem fer í ruslið til að átta sig betur á raunverulegu umfangi vandans.

Að elska mat og hata úrgang
Breska síðan Love Food Hate Waste er annað gott dæmi um framtak sem stuðlar að aukinni meðvitund fólks um þá gríðarlegu sóun matvæla sem flest okkar taka virkan þátt í.

Ungt hugsandi fólk!
En við sitjum ekki öll í sömu súpunni. Fyrir tveimur árum hitti ég unga ruslara, þ.e.a.s. fólk sem kaupir aldrei í matinn, heldur hirðir fyrirtaks matvæli úr ruslinu. Þetta unga fólk var ekki drifið áfram af fátækt, heldur var það bara að nýta sér tækifæri sem liggja í fáránleikanum – og kannski að mótmæla fáránleikanum svolítið í leiðinni. Peningunum sem losnuðu við þetta gat það svo skipt fyrir önnur lífsgæði, eða þá að það sleppti því bara að vinna þessa 27 tíma á mánuði, eða hvað það nú var, og notaði þann tíma til að njóta lífsins.

Ekki bara kíló
Og gleymum því ekki, að fyrir hvert kíló sem fer til spillis heima hjá okkur liggja líklega mörg kíló dauð eftir einhvers staðar annars staðar. Kíló er ekki bara kíló!

(Þessi fimmtudagspistill er skrifaður í tilefni Nýtnivikunnar (European Week for Waste Reduction (EWWR) sem nú stendur yfir).

Að henda tímanum sínum

Við eignumst alls konar hluti um dagana, sem er merkilegt vegna þess að þegar við fæðumst eigum við ekki neitt, í það minnsta ekki peninga. Og allir þessir alls konar hlutir kosta peninga. En þegar betur er að gáð fæðumst við ekki eins allslaus og okkur hættir til að halda. Þegar við fæðumst eigum við nefnilega tíma. Tíminn er eini gjaldmiðillinn okkar í lífinu, eins konar spilapeningar sem við fáum afhenta á byrjunareit þessa mikla spils. Þessa spilapeninga getum við ekki talið. Við vitum sem sagt aldrei hvað er mikið eftir af þeim. En flest okkar fá heilan helling af þessum dýrmæta gjaldmiðli í vöggugjöf, sjálfsagt ein 80 ár að meðaltali.

Tímanum sem við fengum úthlutað við fæðingu getum við skipt út fyrir næstum hvað sem er, þ.á.m. fyrir peninga, sem við getum svo aftur skipt út fyrir alls konar hluti. Þess vegna er bæði hollt og rökrétt að meta verðmæti hluta í klukkustundum frekar en krónum.

Kannski keypti ég mér farsíma fyrir þremur árum á 30 þúsund krónur. Kannski er hann enn í góðu lagi, en samt úreltur af því að vinir mínir eru allir búnir að kaupa sér nýrri og fullkomnari farsíma með „spennandi nýtingarmöguleikum“. Peningalega er síminn minn einskis virði, ég get ekki selt hann, þrjátíuþúsundkallinn sem ég keypti hann fyrir er orðinn að engu. Og fyrst síminn minn er einskis virði get ég kannski bara lagt honum og keypt mér nýjan eins og vinirnir.

Þrjátíuþúsundkallinn er afskrifaður. Þegar grannt er skoðað var þessi þrjátíuþúsundkall heldur ekki hið raunverulega verð sem ég galt fyrir símann. Hann var bara ávísun sem ég fékk í skiptum fyrir 20 klukkustundir af tímaskammtinum sem ég fékk í vöggugjöf, þ.e.a.s. ef ég gef mér að ég hafi unnið mér inn 1500 krónur á tímann eftir skatta. Þessar stundir get ég ekki endurheimt. En ég á val um það hvort ég vilji láta aðrar 20 klukkustundir, já eða kannski 40, af vöggugjöfinni fyrir nýjan síma, eða hvort ég vilji nota þann tíma í annað. Og þegar og ef ég horfi á eftir gamla símanum mínum í ruslið (sem má náttúrulega ekki) eða í endurvinnslukerið fyrir rafeindatækjaúrgang, þá er mér hollt að hafa í huga að þarna liggur hálf vika frá því í október 2009.

Hugsum áður en við hendum – tímanum okkar. Sóun efnislegra gæða fækkar gæðastundunum í lífinu.

(Þessi föstudagspistill er skrifaður í tilefni Nýtnivikunnar (European Week for Waste Reduction (EWWR) sem byrjar á morgun – og með vísan í eina af uppáhaldsbókunum mínum, Tio tankar om tid eftir Bodil Jönsson).

Klæðskiptadagur

Laugardaginn 21. apríl nk. verður haldinn sérstakur klæðskiptadagur í rúmlega 60 bæjum og borgum í Svíþjóð. Þennan dag getur fólk mætt á tiltekin stað með nýleg föt sem það er orðið leitt á, fengið greitt fyrir þau í sérstakri klæðskiptamynt, og notað svo myntina til að greiða fyrir nýleg föt sem einhver annar er orðinn leiður á. Með þessu móti getur þetta sama fólk aukið lífsgæði sín meira en ella með þeim peningum sem það vinnur sér inn. Ef grannt er skoðað eykur það nefnilega ekki lífsgæði fólks að kaupa föt eða annan varning og grafa í jörð það sem það er orðið leitt á.

(Þessi pistill er byggður á frétt dagsins á heimasíðu sænsku náttúruverndarsamtakanna Naturskyddsföreningen, eftir ábendingu félaga Hans Nilsson. Myndin sem fylgir er hins vegar tekin beint úr íslenskum veruleika).

Hversu munu komandi kynslóðir þakka oss gjafir þær er vér þeim færum?