Sennilega fara flestir Íslendingar einhvern tímann með föt í söfnunargáma Rauða krossins og flest bendir til að þessum Íslendingum fari fjölgandi. Alla vega safnast meira og meira af fötum með hverju árinu sem líður. Fatasöfnunin er orðin eitt mikilvægasta fjáröflunarverkefni Rauða kross Íslands, og sem dæmi um það má nefna að á árinu 2013 nam afrakstur Rauða krossins af fatasöfnuninni 100 milljónum króna. Hluti af þessu fé er notaður til að fjármagna rekstur Hjálparsíma Rauða krossins 1717, hluti fer til verkefna á vegum deilda Rauða krossins um allt land og hluti nýtist til hjálparstarfs erlendis.
Í skýrslu um afdrif textílúrgangs á Norðurlöndunum sem kom út í byrjun síðasta mánaðar er að finna yfirlit um það hversu mikið af fötum Íslendingar keyptu á árinu 2012 og sömuleiðis um það hvað verður um þessi föt að notkun lokinni. Rétt er þó að taka fram að allt eru þetta áætlaðar tölur, því að ekkert nákvæmt bókhald er til um fatakaup eða fataeign Íslendinga. Skýrslan byggir á tölum frá Hagstofunni, Sorpu, Rauða krossinum og fleiri aðilum og þegar allt þetta er skoðað í samhengi kemur í ljós að á árinu 2012 voru á að giska 4.800 tonn af taui sett á markað hérlendis, þar af líklega um 3.800 tonn innflutt og 1.000 tonn sem framleidd voru innanlands. Inni í þessum tölum eru ekki bara föt, heldur líka hvers konar önnur textílvara, svo sem sængurföt, dúkar, gluggatjöld og teppi, svo eitthvað sé nefnt. Sé þessi ágiskum rétt eru þetta rétt um það bil 15 kg á hvert mannsbarn á Íslandi.
Af þessum 4.800 tonnum sem komu inn á markaðinn 2012 rötuðu um 1.400 tonn í söfnunargáma. Þar á Rauði krossinn langstærstan hlut að máli, en önnur samtök koma svo sem einnig við sögu. Hin 3.400 tonnin lentu einhvers staðar annars staðar.
Þegar afdrif 1.400 tonnanna sem rötuðu í söfnunargáma eru skoðuð nánar, kemur í ljós að þar af voru um 50 tonn endurnotuð. Þar er þá aðallega um að ræða föt sem voru seld í Rauðakrossbúðunum, en einhver lítill hluti af þessu fór væntanlega beint í hjálparstarf innanlands og utan. Eftir standa þá 1.350 tonn sem voru seld úr landi, en þessi sala er aðaltekjulind fataverkefnis Rauða krossins. Með hæfilegri ónákvæmni er hægt að slá því fram að þessi 1.350 tonn skapi stærstan hluta af 100 milljón króna tekjunum sem nefndar voru hérna áðan. Reyndar erum við þarna að tala um áætlað magn sem selt var árið 2012, á meðan tekjutölurnar tilheyra árinu 2013. En þetta er samt alveg nógu nákvæmt til að gefa hugmynd um það hvernig þetta virkar allt saman.
Jæja, það komu sem sagt 4.800 tonn inn á markaðinn og þar af skiluðu 1.400 tonn sér í söfnunargámana. Hinum 3.400 tonnunum má í grófum dráttum skipta í tvennt. Um það bil 200 tonn hafa líklega safnast fyrir í fataskápum og á háaloftum landsmanna, en afganginum var einfaldlega hent. Það lítur sem sagt út fyrir að á árinu 2012 hafi hvorki meira né minna en 3.200 tonn af textílúrgangi farið endanlega í súginn, eða verið með öðrum orðum urðað með öðrum úrgangi á urðunarstöðum víða um land.
Ef við förum nú aðeins yfir þessa tölfræði aftur, en tölum núna um kíló á hvert mannsbarn í staðinn fyrir tonn á landsvísu, þá er sem sagt áætlað að á árinu 2012 hafi 15 kíló komið inn á markaðinn. Þar af fóru um 10 kíló í urðun, um 4,3 kíló voru seld til útlanda, um það bil 0,2 kíló voru seld í Rauðakrossbúðum og 0,5 kíló söfnuðust upp á heimilum. Þannig gengur bókhaldið upp. Reyndar er ekkert sjálfsagt að svona bókhald gangi upp, því að auðvitað á mikill hluti af þessari vöru lengri líftíma en svo að hún skili sér í gáma eða ruslatunnur sama árið og hún er keypt. En það er svo sem aukaatriði, því að ef innstreymið er svipað ár frá ári skekkist myndin ekki mikið.
Veltum nú aðeins betur fyrir okkur þessum 10 kílóum á hvert mannsbarn, eða með öðrum orðum þessum 3.200 tonnum samtals, sem eru urðuð á hverju ári. Allt þetta hefði betur farið í söfnunargáma Rauða krossins. Þeir taka nefnilega ekki bara við nothæfum fötum, heldur einfaldlega hvaða textílúrgangi sem vera skal, þar með töldum ónýtum rúmfötum, blettóttum borðdúkum, rifnum gallabuxum og stökum sokkum, svo eitthvað sé nefnt. Allt þetta getur skapað Rauða krossinum tekjur. Þetta góss er einfaldlega selt í stórar flokkunarstöðvar í Þýskalandi eða Hollandi. Þaðan fer svo besti hlutinn í endursölu í retróbúðum, en það lakasta er selt í verksmiðjur sem tæta efnið niður og framleiða úr því tvist og tuskur af ýmsu tagi. Með nýrri tækni eru líka að opnast möguleikar til að flokka textílúrgang eftir efnum og vinna nýjan þráð úr ónýtum fötum. Þannig fást enn meiri verðmæti úr lakasta hlutanum.
Ef við höldum nú áfram að leika okkur með tölur, þá nefndi ég áðan að þau 1.350 tonn sem Rauði krossinn selur úr landi árlega gefi af sér um 100 milljónir króna, með öllum þeim fyrirvörum sem ég var búinn að tína til. Ef við tækjum okkur nú öll saman í andlitunum og hættum alfarið að setja ónýt föt og annan textílúrgang í ruslið og færum þess í stað með þetta í Rauðakrossgámana, þá myndi Rauði krossinn fá 3.200 tonn til viðbótar á hverju ári. Og ef við reiknum með sama kílóaverði myndi þessi hrúga gefa af sér hvorki meira né minna en 237 milljónir til viðbótar við þá fjármuni sem Rauði krossinn fær nú þegar. Kannski er þetta samt óþarflega mikil bjartsýni. Eigum við ekki að vera hógvær og segja bara 200 milljónir?
Svo við drögum þetta nú aðeins saman í lokin, þá er boðskapur þessa pistils afskaplega einfaldur: Ef við hættum að henda ónýtum fötum og öðrum textílúrgangi og setjum hann þess í stað allan í söfnunargáma Rauða krossins, þá bætast tugir milljóna, eða jafnvel allt að 200 milljónir, við það fjármagn sem Rauði krossinn hefur til ráðstöfunar í hjálparstarf á hverju ári. Þörfin er brýn og það er náttúrulega alveg út í hött að grafa svona fjársjóð í jörðu eins og hvert annað sorp!
Því er svo við að bæta, svona rétt í blálokin, að Rauðakrossgámarnir taka líka við skóm sem við erum hætt að nota. Skór henta reyndar sjaldan vel til endurvinnslu, en skótau sem við teljum ónýtt getur nýst vel á svæðum þar sem fólk hefur ekki efni á að vera vandlátt. Þeir sem vinna í flokkunarstöðvunum í Þýskalandi og Hollandi eru betur í stakk búnir en við til þess að meta hvað sé nothæft og hvað ekki.
(Þessi pistill er samhljóða pistli sem fluttur var í Sjónmáli á Rás 1 fimmtudaginn 17. júlí 2014. Myndin er tekin af heimasíðu Rauða kross Íslands).
Filed under: Sjálfbær þróun, Umhverfismál | Tagged: Úrgangur, fatasöfnun, Rauði krossinn | 3 Comments »