• Heimsóknir

    • 119.010 hits
  • október 2012
    S M F V F F S
     123456
    78910111213
    14151617181920
    21222324252627
    28293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Veldur Voltaren hundaæði?

Þessi mynd felur í sér fyrstu vísbendingu um svar við gátu dagsins.

Hvað eftir annað hafa mönnum orðið á þau mistök að ætla að „lagfæra“ eitthvað í náttúrunni með einföldu inngripi, t.d. með því að dreifa einhverju tilteknu efni með vel þekkta virkni, flytja inn plöntur til skrauts eða uppgræðslu, sleppa dýrum sem koma í veg fyrir óhóflega fjölgun annarra dýra o.s.frv. Oftar en ekki hefur komið í ljós að þegar fram í sækir hafa inngripin allt önnur og mun víðtækari áhrif en þeim var upphaflega ætlað. Í hvert sinn sem slíkt gerist gefst tilefni til að rifja upp orð sem indíánahöfðinginn Sea The á að hafa látið falla 1854: „Maðurinn óf ekki vef lífsins, hann er aðeins þráður í honum. Hvað sem maðurinn gerir vefnum gerir hann sjálfum sér“.

Eitt af fjölmörgum dæmum um óvænta atburðarás í náttúrunni í kjölfar vanhugsðara aðgerða mannsins birtist í sunnanverðri Asíu um miðjan síðasta áratug. Þar voru menn farnir að nota bólgueyðandi lyfið Diclofenac (virka efnið í Voltaren) í allmiklum mæli fyrir húsdýrin sín. Þetta setti í gang ófyrirséða atburðarás, sem m.a. leiddi til fjölgunar hundaæðistilfella á Indlandi.

Af þessu tilefni er eftirfarandi vistfræðigáta hér með lögð fyrir lesendur þessarar bloggsíðu: Hvernig gat aukin notkun á Diclofenac fyrir húsdýr leitt til fjölgunar hundaæðistilfella? Þeir sem vilja geta skrifað tillögur að svari í athugasemdakerfið hér á síðunni.

Fyrstu vísbendingu um svarið við framangreindri spurningu er að finna í færslu dagsins í dag á umhverfisfróðleikssíðunni www.2020.is. Þar er lýsing á fyrsta stigi atburðarásarinnar. Svo er bara að geta í eyðurnar!

(Til að taka af öll tvímæli, þá veldur Voltaren ekki hundaæði sem slíkt, þó að það geti leitt til fjölgunar tilfella).

Hlaupið til styrktar fötluðum

Á morgun laugardag ætla ég og félagar mínir í Hlaupahópnum Flandra að hlaupa um Borgarfjörð með tékkneska ofurhlauparanum René Kujan. Hann er langt kominn með að hlaupa hringinn í kringum Ísland til að safna framlögum til styrktar fötluðum íþróttamönnum. Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið geta hringt í síma 908 7997 til að gefa 1.000 kr., 908 7998 til að gefa 2.000 kr. og 908 7999 til að gefa 5.000 kr. Helmingurinn af upphæðinni rennur til Íþróttasambands fatlaðra á Íslandi og hinn helmingurinn til íþróttastarfs fatlaðra í Tékklandi.

Það er engin tilviljun að René skuli leggja svona mikið á sig til að safna fé fyrir íþróttastarf fatlaðra. Sjálfur lenti hann í alvarlegu bílslysi fyrir 5 árum og var heppinn að sleppa lifandi. Einsýnt þótti að hann myndi verða í hjólastól það sem eftir væri, en með mikilli elju og talsverðri heppni komst hann aftur á fæturna, og er kominn í nógu gott stand til að hlaupa í kringum Ísland! Hann lítur því á það sem köllun sína að minna fólk á þá sem eru ekki eins heppnir og hann.

Morgundagurinn (20. október) verður 28. dagurinn í hringferð Renés, en hann lagði af stað hlaupandi frá Reykjavík áleiðis austur fyrir fjall sunnudaginn 23. september sl. Fyrstu 27 dagana lagði hann 1.180 km að baki eða 43,7 km á dag að meðaltali. Dagleið morgundagsins verður álíka löng, og nú bendir allt til að hann ljúki hringferðinni í Reykjavík síðdegis á mánudag. Hann verður þá fyrstur manna til að hlaupa hringveginn á eigin spýtur.

Hlaup morgundagsins hefst í nánd við Dýrastaði í Norðurárdal um kl. 10 í fyrramálið (laugardagsmorgun). Samkvæmt lauslegri áætlun verðum við í námunda við Bifröst kl. 11:10, nálægt Baulu kl. 12:20, í grennd við Gufuá um kl. 13:30 og í Borgarnesi kl. 14:40. Gaman væri að sem flestir myndi slást í hópinn síðasta spölinn.

Nánari upplýsingar um ferðalag Renés er að finna á heimasíðu Félags 100 kílómetra hlaupara, á heimasíðu Íþróttasambands fatlaðra, á http://www.run30.net og á sérstakri Fésbókarsíðu.

René Kujan. Mynd af FB-síðunni hans.

Fyrsti Flandraspretturinn að baki

Við rásmarkið í gærkvöldi.

Fyrsta keppnishlaup Hlaupahópsins Flandra í Borgarnesi fór fram í gærkvöldi í ágætu veðri. Svalur vindur blés úr norðri, en þurrt var og bjart yfir. Íslandsmeistarinn í maraþoni, Arnar Pétursson, hafði nokkra yfirburði í hlaupinu, en fjöldinn allur af heimamönnum vann líka stóra sigra, enda allnokkrir að hlaupa sitt fyrsta keppnishlaup. Gaman verður að fylgjast með framhaldinu, en Flandrasprettirnir verða á dagskrá kl. 20:00 þriðja fimmtudag í hverjum mánuði fram í mars. Hlauparöðin er stigakeppni, og eftir marshlaupið verða úrslit kynnt og verðlaun afhent.

Úrslit hlaupsins í gærkvöldi birtast hér fyrir neðan, en aldursflokkaúrslit og staðan í stigakeppninni munu birtast á hlaup.is innan skamms.

 

Flandrasprettur Úrslit  
Nr. 1 18. október 2012 5 km
Röð Mín. Nafn Félag/Hópur Fæð.ár
1 16:16 Arnar Pétursson ÍR/ASICS 1991
2 20:59 Brynjúlfur Halldórsson TKS 1974
3 21:32 Kristinn Sigmundsson Flandri 1972
4 22:46 Sigurjón Svavarsson Flandri 1979
5 23:17 Vigdís Hallgrímsdóttir TKS 1973
6 25:37 Einar Þ. Eyjólfsson 1975
7 26:11 Guðmundur V. Guðsteinsson Flandri 1967
8 26:14 Hrafnhildur Tryggvadóttir Flandri 1973
9 26:18 Bragi Þór Svavarsson Flandri 1971
10 26:53 Irma Gná Jóngeirsdóttir Tjúllaskokk 1997
11 26:53 Jóngeir Þórisson Tjúllaskokk 1957
12 29:37 Guðrún Berta Guðsteinsd. Flandri 1961
13 29:58 Valdimar Reynisson Flandri 1965
14 30:19 Erla Björk Ólafsdóttir 1954
15 30:20 Guðsteinn Einarsson 1954
16 30:48 Anna Berg Samúelsdóttir Flandri 1972
17 30:49 Sigríður Júlía Brynleifsdóttir Flandri 1974
18 30:50 Theodóra Ragnarsdóttir Flandri 1962
19 31:16 Kristín Gísladóttir Flandri 1973
20 33:22 Jórunn Guðsteinsdóttir Flandri 1958
21 33:26 Jónína Pálsdóttir Flandri 1959
22 33:36 Þórný Hlynsdóttir Flandri 1966
23 33:42 Geirlaug Jóhannsdóttir Flandri 1976
24 34:05 Svava Svavarsdóttir Flandri 1965
25 35:17 Margrét Helga Guðmundsd. Flandri 1973
26 35:19 Guðfinna Gísladóttir Flandri 1981
27 35:53 Helga J. Svavarsdóttir Flandri 1973
28-29 40:11 Margrét Grétarsdóttir Flandri 1958
28-29 40:11 Ragnheiður Guðnadóttir Flandri 1955

 

Við rásmarkið í gærkvöldi.

Sigurvegarinn Arnar Pétursson við Íþróttamiðstöðina í Borgarnesi að hlaupi loknu.

 

Svarthvítt frumvarp um búfjárbeit

Í dag var dreift á Alþingi frumvarpi til laga um búfjárbeit. Flutningsmenn eru þingmennirnir Mörður Árnason og Birgitta Jónsdóttir. Markmið frumvarpsins er að „efla landvernd og sjálfbæra búfjárbeit“ og til þess að ná því markmiði skal búfé „aðeins beitt innan girðingar“. Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. janúar 2023.

Neikvæðar aukaverkanir
Fáum blandast hugur um mikilvægi þess að „efla landvernd og sjálfbæra búfjárbeit“. Hins vegar er hætt við að sú aðferð sem lögð er til í frumvarpinu stuðli síður en svo að „sjálfbærri búfjárbeit“. Í þessu sambandi er óhjákvæmilegt að taka tillit til ólíkrar stöðu landshlutanna. Þannig myndi algjört lausagöngubann líklega leiða til þess að sauðfjárrækt legðist að mestu leyti af á Vestfjörðum, víða á Austurlandi og á fleiri svæðum þar sem sauðfé er einmitt beitt í mestri sátt við náttúruna og þar sem sauðfjárrækt vegur þyngst í atvinnusköpun og viðhaldi byggðar. Um leið myndi sú kjötframleiðsla sem eftir væri færast nær því að vera verksmiðjubúskapur með öllum þeim neikvæðu aukaverkunum sem honum fylgja, svo sem aukinni áburðarnotkun og hækkandi hlutfalli korns í fóðri á kostnað gróffóðurs.

Vestfirðir sem dæmi
Tökum Vestfirði sem dæmi. Þar er byggð mjög dreifð og gróður- og jarðvegseyðing í lágmarki, ef nokkur. Búin er flest lítil og rúmt í högum, enda hefur bæði jörðum og sauðfé fækkað til muna á síðustu árum og áratugum. Ræktunarland er víðast af skornum skammti og því byggir afkoma búanna á skynsamlegri nýtingu þess mikla beitilands sem til staðar er. Þetta beitiland tilheyrir í mörgum tilvikum öðrum jörðum, sem komnar eru í eyði. Nýting þeirra kallar á gott samkomulag bænda og annarra jarðeigenda, en það er út af fyrir sig annað mál. Aðalmálið er að landrými á svæðinu er yfirdrifið þegar á heildina er litið og fátt sem bendir til að það sé ofnýtt. Þrátt fyrir að þarna fáist hvað mestar afurðir eftir hvern grip eiga búin mjög erfitt með að mæta auknum rekstrarkostnaði, smæðar sinnar vegna. Ófrávíkjanlegar lagakröfur um uppsetningu girðinga útiloka líklega áframhaldandi rekstur margra þeirra.

Lækningin verri en sjúkdómurinn?
Sá fjárhagslegi baggi sem krafan um girðingar myndi binda vestfirskum búum og öðrum búum af svipuðu tagi, er aðeins hluti ástæðunnar fyrir því að „sjálfbærasta búfjárbeitin“ myndi líklega leggjast af að mestu. Þau bú sem hefðu fjárhagslega burði til að setja upp girðingar myndu óhjákvæmilega nýta mun minna land til beitar eftir breytinguna, sem þýðir einfaldlega að gengið yrði nær þeim hluta landsins en áður. Hér þarf einnig að taka umhverfisleg áhrif girðinganna sjálfra með í reikninginn. Sums staðar hagar reyndar þannig til að uppsetning girðinga er óframkvæmanleg, en annars staðar yrði gróðureyðing og landrask vegna framkvæmdanna sjálfra vafalítið langt umfram það sem sjálf beitin getur valdið. Þetta á í það minnsta við þar sem rásir eru ristar í ósnortið land til að búa til gott undirlag fyrir girðingar, eins og nú má víða sjá í sveitum landsins.

Svolítill útúrdúr
Reyndar er hægt að hugsa sér einfalda lausn hvað Vestfirði varðar. Þetta er bara spurning um þann skilning sem lagður er í orðin „innan girðingar“. Það vill nefnilega svo vel til að Vestfirðir eru lokaðir frá öðrum landshlutum með varnargirðingu milli Gilsfjarðar og Bitrufjarðar. Kannski er þá hægt að líta á að öllu búfé á Vestfjörðum sé beitt „innan“ þeirrar girðingar. Ég geri þó frekar ráð fyrir að þessi skilningur þyki fela i í sér útúrsnúning á orðum frumvarpsins.

111. meðferð á landi og búfé!
Sums staðar á landinu eru svæði þar sem varla er eftir stingandi strá, en þar sem búfé er engu að síður beitt. Sjálfur hef ég t.d. bæði séð kindur á beit á Mývatnsöræfum og uppi undir Veiðivötnum, þrátt fyrir að þar væri varla meira en ein gróin þúfa eða einn grasbrúskur. Slíka meðferð á landi og búfé hefði átt að stöðva fyrir löngu. Reyndar gafst kjörið tækifæri til þess fyrir svo sem 30 árum þegar ljóst var að draga þyrfti úr lambakjötsframleiðslunni. En í stað þess að skoða í alvöru hvar væri forsvaranlegt að halda fé til beitar og hvar ekki, var farin sú leið að beita flötum niðurskurði og gera í engu upp á milli þeirra sem beittu fé sínu í sátt við náttúruna og hinna sem níddust á landinu. Þarna brást menn kjark, ekki bara stjórnmálamenn, heldur einnig og ekki síður forystu bændahreyfingarinnar.

Betri tillaga:
Með hliðsjón af framanskráðu legg ég til að þingmennirnir dragi frumvarp sitt til baka og leggi þess í stað fram tillögu til þingsályktunar um gerð markvissrar áætlunar um nýtingu beitilands á Íslandi, þar sem raunverulegt tillit væri tekið til hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Í slíkri áætlun þarf að sjálfsögðu að taka áhrif allra grasbíta með í reikninginn. Líklegt má telja að í framhaldinu yrðu lögð fram frumvörp sem gera það mögulegt að banna alfarið beit á viðkvæmum svæðum og beita sektum ef út af er brugðið. Þarna hlýtur krafan um upprunamerkingu búfjárafurða einnig að koma við sögu. Það er hreinlega kjánalegt að neytendum skuli ekki gert kleift að sjá hvort lambinu sem þeir hyggjast leggja sér til munns hafi verið beitt á Hornstrandir eða Mývatnsöræfi.

Til vara
Lítist þingmönnunum ekki á að draga frumvarp sitt til baka, legg ég til að þeir striki út úr því allar tilvísanir í sjálfbærni. Því hugtaki er gáleysislega beitt í frumvarpinu.

Lokaorð í lit
Ég fagna umræðunni um nýtingu beitilands. Það er löngu kominn tími til að taka alvarlega til í þeim málum. En sé horft á viðfangsefnið í svarthvítu er hætt við að lausnin verði jafnvel verri en vandamálið.

Svarthvítir Íslendingar

Mér leiðist umræðuhefð Íslendinga. Held ég viti hvað þurfi til að breyta henni, en þær aðgerðir taka mörg ár. Ég býst sem sagt ekki við að geta breytt hefðinni með þessu eina bloggi. Skrifa það nú samt!

Það sem mér finnst einkenna umræðuhefðina er það almenna viðhorf að á hverju máli séu aðeins tvær hliðar. Komi upp hugmynd, hljóti hún annað hvort að vera góð eða slæm. Sama gildi um einstaklinga, fyrirtæki, stjórnmálaflokka – og bara hvað sem er. Kannski er þetta ekki séríslenskt fyrirbæri. Mig minnir t.d. að Georg Tvöfaltvaff Bush hafi einhvern tímann sagt að þeir sem ekki væru vinir hans, væru óvinir hans. Það er nokkurn veginn sama viðhorf og ég er að reyna að lýsa.

Í stuttu máli finnst mér umræðan yfirleitt fela í sér rifrildi um það hvort umræðuefnið sé hvítt eða svart. Slík umræða er bæði leiðinleg og gagnslaus. Þegar málin eru rædd er maður fljótlega krafinn svara um það hvort maður sé t.d. með eða á móti

  • ríkisstjórninni,
  • virkjunum,
  • lúpínu,
  • sauðkindum,
  • lausagöngu búfjár,
  • Huang Nubo,
  • LÍÚ,
  • o.s.frv.

En tilfellið er að öll þessi málefni hafa fleiri en tvær hliðar. Ekkert þeirra er svarthvítt. Kannski eru Íslendingar bara sjálfir svarthvítir.

Einhvers staðar sá ég því haldið fram að umræðuhefð samtímans ætti rætur í umræðuhefð Sturlungaaldar, þegar menn voru klofnir í herðar niður ef þeir höfðu rangar skoðanir. Sturlungar nenntu engu kjaftæði. Og enn í dag eru eðlilegar rökræður kallaðar kjaftæði af þeim sem sjá heiminn í svarthvítu. Það er bara komið úr tísku að höggva menn út af því. Í staðinn eru þeir kallaðir hálfvitar í Fésbókarfærslum og í athugasemdakerfum fréttamiðla.

Já, mér leiðist sem sagt þessi svarthvíta umræðuhefð Íslendinga. Reyndar skiptir minnstu máli þótt mér leiðist hún. Verra er að hún stendur okkur fyrir þrifum og stendur í vegi fyrir eðlilegri og nauðsynlegri lýðræðisþróun. Eina leiðin til að breyta umræðuhefðinni til betri vegar, er að kenna börnum að sjá hlutina frá mismunandi hliðum og gefa þeim tækifæri til að tjá sig um þessi ólíku sjónarhorn. Þetta höfum við vanrækt, ekki bara skólakerfið heldur líka við sem erum feður og mæður og afar og ömmur.

Við þurfum að taka okkur á!