Hagvöxtur er lykilorð í þjóðfélagsumræðu samtímans. Áherslan á hagvöxt er sérstaklega áberandi þessi misserin þegar íslenska þjóðin er smám saman að vinna sig upp úr niðursveiflunni sem varð í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Í þessu sambandi virðast forsvarsmenn vinstristjórnarinnar sama sinnis og hægrisinnuð stjórnarandstaða. Hagvöxtur er að beggja mati besti – eða kannski eini – mælikvarðinn á það hvernig okkur miðar á leiðinni út úr „kreppunni“. En þetta er ekki svona einfalt. Hagvöxtur getur sem best verið leið út úr þeirri kreppu sem við teljum okkur stödd í þessa stundina, en um leið gæti hann verið aðgöngumiði að miklu stærri kreppu í náinni framtíð.
Um endanlega stærð jarðarinnar
Jörðin okkar er kúla með u.þ.b. 40.000 km ummál. Leiðin beint í gegn er eitthvað um 12.700 km, örlítið mislöng eftir því hvar er farið. Þessar tölur skipta svo sem engu aðalmáli, að öðru leyti en því að þær eru fastar, þ.e. þær breytast ekki að neinu marki frá einu árþúsundi til hins næsta. Það þýðir líka að á jörðinni og í jörðinni er eitthvert ákveðið magn efna sem breytist ekki neitt, eða er með öðrum orðum endanlegt. Það þýðir líka að ekkert á þessari jörð getur vaxið endalaust.
Maður þarf ekki að velta staðreyndinni um endanlega stærð jarðarinnar lengi fyrir sér til að sjá að endalaus hagvöxtur er ekki fræðilega mögulegur, þ.e.a.s. ef hagvöxturinn byggir á því að nýta þær náttúruauðlindir sem jörðin hefur að bjóða, hraðar en þær endurnýjast. Augljósustu dæmin um slíkar auðlindir eru kol, olía og málmar, en önnur álíka mikilvæg en e.t.v. síður augljós dæmi eru andrúmsloft, drykkjarvatn og fosfór, svo eitthvað sé nefnt.
Endimörk vaxtarins
Hægt er að rekja umræðuna um endimörk vaxtarins a.m.k. rúm 200 ár aftur í tímann. Á árunum í kringum 1970 var farið að orða þetta svo, að rjúfa þyrfti tengsl hagvaxtar og eyðingar náttúruauðlinda, þ.e.a.s. að áframhaldandi hagvöxtur yrði að byggjast á öðru en vaxandi álagi á náttúruna. Upp úr þessu spruttu hugtökin aftenging (e. decoupling) og vistvirkni (e. eco-efficiency). Úr sama jarðvegi spratt hugmyndin um Faktor-4, sem Hermann Daley nefndi svo fyrstur manna 1976, en þar var á ferð hugmynd um að fjórfalda vistvirknina, t.d. með því að framleiða tvöfalt meiri verðmæti úr helmingi minna hráefni eða orku. Aðrir hafa jafnvel talað um Faktor-10 sem möguleika.
1,51 jörð
Samtökin Global Footprint Network hafa þróað aðferð til að reikna vistfræðilegt fótspor þjóða. Samkvæmt þeim útreikningum þarf mannkynið 1,51 jörð til að framfleyta sér eins og staðan er í dag. Neysla jarðarbúa er með öðrum orðum komin 51% fram úr því sem jörðin getur afkastað til lengdar. Ef við gætum fundið leiðir til að hætta umframneyslunni, þannig að fótsporið minnkaði niður í 1,00 jarðir, þá gætum við haldið áfram endalaust að lifa álíka góðu lífi og við gerum nú, en bara með því skilyrði að neyslan myndi ekki aukast á ný á kostnað náttúruauðlinda. Þetta ætti ekki að vera óyfirstíganlegt. Alla vega fer því fjarri að við þurfum að fjórfalda vistvirknina. Málið snýst bara um nokkra tugi prósenta.
Líf án hagvaxtar
Hugsum okkur að hægt sé að minnka fótspor mannkynsins niður í 1,00 jarðir með einu pennastriki, t.d. frá og með 1. janúar 2013. Þá værum við í býsna góðum málum. Ef við gerum hins vegar ráð fyrir 2% hagvexti ári upp frá því, sem allur væri til kominn vegna aukinnar nýtingar náttúruauðlinda, þá myndi fljótt sækja í sama farið. Árið 2034 væri fótsporið nefnilega aftur komið í 1,51 jörð. Ávinningurinn af pennastrikinu myndi sem sagt hverfa á 21 ári. Og ef við reiknum með 3% hagvexti tæki þetta ekki nema 14 ár. Niðurstaðan er einföld: Áframhaldandi hagvöxtur er útilokaður nema hann byggi alfarið á öðru en nýtingu náttúruauðlinda umfram árlega framleiðslugetu þeirra. Vangaveltur um líf án hagvaxtar eru efni í næsta pistil.

Fjöldi jarða sem mannkynið þarf til að framfleyta sér miðað við eina jörð 2013 og 3% árlegan hagvöxt upp frá því, sem allur byggist á nýtingu náttúruauðlinda umfram endurnýjun.
Filed under: Sjálfbær þróun | Tagged: Hagvöxtur, vistspor | Leave a comment »