• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • maí 2013
    S M F V F F S
     1234
    567891011
    12131415161718
    19202122232425
    262728293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Notuð og ónotuð föt

cover_normalÍ framhaldi af umræðum síðustu vikna um aðstæður verkafólks í fataframleiðslu er ekki úr vegi að velta fyrir sér hvað verður um öll þessi föt, já og bara föt yfirleitt. Það fyrsta sem manni dettur í hug er sjálfsagt að einhver kaupi þau, noti þau og hendi þeim svo þegar þau eru orðin ónýt. En saga fatanna er ekki alltaf svona einföld.

Norræn skýrsla
Á síðasta ári kom út skýrsla sem Norræna ráðherranefndin lét vinna til að fá fram tillögur um aðgerðir til að lágmarka fataúrgang. Í þessari skýrslu er reynt að draga upp mynd af ástandinu, þ.e.a.s. af því hversu mikið af fatnaði er sett á markað á hverju ári og hvað verður svo um þennan fatnað. Úttektin náði til Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands, en sambærilegar tölur fyrir Noreg og Ísland voru ekki eins aðgengilegar. Reyndar er hvergi til áreiðanlegt talnaefni um innkaup, notkun og afdrif fatnaðar, þannig að víða þarf að geta í eyðurnar. Í skýrslunni er það gert fyrir hvert land um sig – og niðurstöðurnar eru alls staðar nokkuð svipaðar. Auðvitað er erfitt að fullyrða um hvort hægt sé að heimfæra þessar tölur upp á Ísland, en líklega kaupum við a.m.k. jafn mikið af fötum og nágrannaþjóðirnar og hendum a.m.k. jafn miklu.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að þegar talað er um fatnað í þessu samhengi, þá er líka átt við handklæði, rúmföt, borðdúka, teppi og fleira, þ.e.a.s. hvers konar laus klæði eða textílefni sem notuð eru á heimilum og ekki eru hluti af öðrum vörum. Þetta gætu verið svona 20% af heildarmagninu, sem skiptir ekki öllu máli í niðurstöðunni, að minnsta kosti ekki á meðan hún er svona lauslega reiknuð.

15 kíló á mann á ári
Svo við lítum nú fyrst á innkaupin, þá virðast Danir, Svíar og Finnar kaupa 13-16 kíló af fatnaði á hvert mannsbarn á ári. Ef við gefum okkur töluna 15 kíló fyrir Ísland, þá má geta sér þess til að við kaupum samanlagt um það bil 4.800 tonn af fatnaði á ári. Miðað við tölur frá hinum löndunum fara 40-70% af þessu í ruslið. Ef við gerum ráð fyrir að við séum í hærri kantinum, þá gætu þetta verið 10 kíló á hvert mannsbarn á ári eða samtals um 3.200 tonn á landinu öllu, sem fara þá í urðun. Talsvert magn er endurnotað með einum eða öðrum hætti, þar með talið það sem Rauði krossinn og önnur samtök safna. Þetta gætu verið um það bil 1.400 tonn á ári eða um það bil 4,5 kíló á hvert mannsbarn. Þá vantar um það bil 200 tonn eða um það bil hálft kíló á mannsbarn til þess að dæmið gangi upp. Miðað við tölur frá Danmörku og Finnlandi gæti þetta einmitt verið það magn sem safnast árlega upp í fataskápum, háaloftum og kjöllurum landsmanna umfram það sem rutt er þaðan út í tiltektum.

Í margumræddri skýrslu kemur fleira áhugavert fram. Það lítur meðal annars út fyrir að fatainnkaup Norðurlandabúa vaxi jafnt og þétt, langt umfram fólksfjölgun. Þannig jókst magn fatnaðar sem settur var á markað í Svíþjóð um 40% milli áranna 2000 og 2009. Hins vegar virðist áhugi á endurnotkun líka fara ört vaxandi. Sífellt fleiri selja og kaupa notuð föt á netinu og verslanir með notuð föt blómstra. Þetta er auðvitað jákvætt þar sem það bætir nýtingu auðlinda. Í skýrslunni er líka bent á aðferðir sem stjórnvöld geta beitt til að draga úr sóun fatnaðar. Í Frakklandi er til dæmis að einhverju leyti búið að innleiða framlengda framleiðendaábyrgð á fötum, sem þýðir að framleiðendur eru skyldaðir til að taka notuð föt til baka. Og í Japan eru kröfur um hlutfall endurunninna efna í nýjum fötum orðnar hluti af innkaupareglum hins opinbera. Loks er bent á þann möguleika að lækka eða endurgreiða virðisaukaskatt af fataviðgerðum og fræða fólk jafnframt um slíka möguleika og um það hvar og hvernig sé hægt að skila af sér notuðum fötum. Allt myndi þetta stuðla að betri nýtingu fatnaðar og minni sóun.

Milljarður á ári í ónotuð föt?
Ef við drögum þetta nú aðeins saman, þá má getum að því leiða að við kaupum hátt í 5.000 tonn af fötum á hverju ári og að rúmlega 3.000 tonn af fötum séu urðuð á hverju ári. Þarna hlýtur að mega spara eitthvað, bæði fjárútlát vegna innkaupa og úrgangsmeðhöndlunar – og auðlindir sem kastað er á glæ í hvert sinn sem klæði er urðað. Í þessu sambandi er áhugavert að rifja upp tölur úr rannsókn sem Einar Mar Þórðarson og félagar hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerðu skömmu fyrir hrun á neysluvenjum Íslendinga og viðhorfum til endurvinnslu. Þar kom fram að nær helmingur aðspurðra hafði keypt föt eða skó á útsölu sem höfðu svo bara verið notuð einu sinni eða tvisvar, eða jafnvel aldrei. Og 19% höfðu keypt sér föt sem voru aldrei notuð vegna þess að kaupandanum tókst ekki að grennast nógu mikið til að passa í þau. Í þessari sömu rannsókn var reiknað út að á hverju ári eyddu Íslendingar 1,3 milljörðum króna í föt sem ekki voru notuð.

Til umhugsunar
Það er örugglega gaman að ganga í fínum fötum, en það væri líka hægt að kaupa sér margt skemmtilegt fyrir þennan eina eða eina og hálfa milljarð sem hent er með ónotuðum fötum. Það eykur nefnilega ekki lífsgæði manns að eiga föt til að henda, og líklega ekki heldur að safna fötum í skápa, kjallara og háaloft. Þaðan af síður aukast lífsgæðin þegar við hið fjárhagslega tjón bætist samviskubitið yfir því að fólk hafi þurft að deyja í fjarlægum löndum til að framleiða þessi föt fyrir okkur. Kannski hefði það skapað meiri lífsgæði, já eða vellíðan, að kaupa færri flíkur, borga aðeins meira fyrir hverja þeirra, nýta tiltækar aðferðir til að tryggja sómasamleg lífsskilyrði þeirra sem vinna verkin – og nota svo afganginn af peningunum í eitthvað skemmtilegt.

(Þessi pistill er nær samhljóða pistli sem fluttur var í útvarpsþættinum Sjónmál á Rás 1 fimmtudaginn 23. maí 2013).

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: