Í bloggpistli 10.maí sl. velti ég fyrir mér nokkrum spurningum sem vöknuðu í framhaldi af hruni fataverksmiðjunnar í Dakka í Bangladess síðasta vetrardag. Sá skelfilegi atburður hefur svo sannarlega vakið fólk til umhugsunar. Samt voru þetta eiginlega ekki alveg nýjar fréttir. Mörg svipuð mál hafa komið upp á yfirborðið síðustu árin, þó að sjaldan eða aldrei hafi svona margir misst lífið í einum slíkum atburði. Hörmungarnar í Dakka eru „hávær vekjaraklukka“, sem hlýtur að verða til þess að allir leggist á eitt um að tryggja að viðlíka atburðir endurtaki sig ekki. Hér sem víðar eru engar skyndilausnir í boði, en við eigum þó tæki sem okkur er í lófa lagið að nota til að stuðla að bættu ástandi. Þessi pistill fjallar m.a. um slík tæki.
Eigin siðareglur duga skammt
Margar þekktar fatakeðjur á Vesturlöndum, og þar með talið á Norðurlöndunum, hafa orðið uppvísar af því að láta framleiða fyrir sig föt í verksmiðjum þar sem vinnuaðstæður eru með öllu óboðlegar. Nokkrar slíkar hafa fengið á baukinn í úttektum rannsóknarblaðamanna og nægir þar að nefna sænsku fataverslunarkeðjuna Indiska, sem lenti í slíkri úttekt hjá fréttaskýringaþættinum Granskning í sænska sjónvarpinu haustið 2006. Þar kom m.a. í ljós að eigin siðareglur fyrirtækisins dugðu skammt, þar sem þeim var ekki fylgt eftir á framleiðslustaðnum. Nöfn H&M og IKEA hafa líka verið nefnd í svipuðu samhengi, auk til dæmis Walmart, Gap og Tommy Hilfiger, svo litið sé út fyrir Norðurlöndin. Líklega eru fá stórfyrirtæki alveg undanskilin ef út í það væri farið.
Spyrjum!!!
Fyrstu viðbrögð neytenda eru oft þau að hætta, eða segjast ætla að hætta, að kaupa föt frá viðkomandi fyrirtækjum. Það eitt út af fyrir sig er þó ekki líklegt til að breyta miklu, öðru en því að fólkið í verksmiðjunum missir þá litlu og illa launuðu vinnu sem það hafði. Mun betri aðferð, og reyndar eina aðferðin sem er líkleg til að skila árangri, er að spyrja hvar viðkomandi vara hafi verið framleidd og hvað hafi verið gert til að tryggja fólkinu sem þar vann mannsæmandi laun og réttindi. Fáist ekki fullnægjandi svör við því er sjálfsagt að snúa sér annað.
Eftirspurn sem ekki heyrist er ekki eftirspurn!
Nú kann einhver að segja sem svo, að það þýði lítið að spyrja svona spurninga í búðum. Þar vinni bara einhverjir krakkar sem viti ekki neitt um svona lagað. Við þetta hef ég tvennt að athuga: Annars vegar er alveg óþarfi að vanmeta þekkingu afgreiðslufólks í verslunum, því að yfirleitt veit þetta fólk heilan helling um vöruna sem það er að selja. Hins vegar er alveg öruggt að þetta fólk veit ekkert um að okkur sé ekki sama ef við spyrjum aldrei! Ef okkur er ekki sama, þá eigum við að spyrja, því að um leið og nokkrir hafa spurt er alveg öruggt að eigendur verslunarinnar frétta af áhuganum og fara að leita sér upplýsinga um uppruna vörunnar, hafi þær upplýsingar ekki legið fyrir allan tímann. Því að um leið og kaupendum er hætt að standa á sama, þá er líklegt að salan minnki ef ekki er brugðist við þessari nýju eftirspurn eftir upplýsingum. Það er nefnilega ekki hægt að selja vöru sem neytendur vilja ekki kaupa.
Réttlætismerking = eitt besta tækið
Það er ekki auðvelt verk, hvorki fyrir venjulegan neytanda eða venjulegan verslunareiganda að komast að því hvar og hvernig venjuleg flík í venjulegri búðarhillu er framleidd, hvað þá að ganga úr skugga um hvort fólkið sem vann við framleiðsluna hafi fengið mannsæmandi laun og aðbúnað, hvort það hafi fengið að ganga í verkalýðsfélög og þar fram eftir götunum. Sem betur fer eru þó til nokkur tæki sem geta hjálpað til við þessa upplýsingaöflun. Réttlætismerking, öðru nafni fairtradevottun, er eitt þessara tækja.
Hvað er réttlætismerking?
Réttlætismerking felur það í sér að varan ber ákveðinn stimpil sem vottar siðræn viðskipti með fatnað og fleiri vörur frá þróunarlöndunum. Merkið tryggir m.a. að þeir sem unnu við framleiðslu vörunnar hafi notið lágmarksréttinda hvað varðar laun og aðbúnað og að barnaþrælkun hafi ekki verið stunduð við framleiðsluna. Þar að auki felur merkið í sér staðfestingu á því að inni í verði vörunnar sé dálítið aukagjald, sem framleiðandanum er skylt að verja í félagsleg verkefni í viðkomandi landi, t.d. til skólabygginga. Samt er verð þessarar vöru ekkert endilega miklu hærra en verð annarrar vöru til sömu nota. Ástæðan er sú, að réttlætismerktu vörurnar fara að jafnaði í gegnum mun færri milliliði en hinar vörurnar. Samtökin Fairtrade International, öðru nafni FLO, halda utan um þetta kerfi á heimsvísu og hafa meðal annars milligöngu um beina samninga við framleiðendur. Um leið fá þau yfirsýn yfir alla vörukeðjuna og geta fylgst með að hvergi sé svindlað á skilmálunum sem fylgja þessari vottun.
Þróunaraðstoð sem virkar
Með því að kaupa réttlætismerkt föt eða aðrar vörur leggur maður sitt af mörkum til þróunaraðstoðar. Maður getur líka treyst því að sú aðstoð komist til skila og nýtist þar sem hún á að nýtast. Kaup á réttlætismerktum vörum er ekki bara eitthvað sem einstaklingar geta gert til að bæta eigin samvisku og minnka líkurnar á að harmleikurinn í Dakka endurtaki sig, heldur felst einnig í þessu kjörið tækifæri fyrir fyrirtæki og stofnanir til að styðja við þróunarstarfið og bæta eigin ímynd um leið.
Svanurinn og GOTS
Séu viðkomandi vörur merktar með Norræna umhverfismerkinu Svaninum má líka treysta því að réttindi verkafólks hafi verið virt. Sama gildir þegar keypt eru föt með svonefnda GOTS-vottun, en GOTS stendur fyrir Global Organic Textile Standard. Til að flík megi bera merki GOTS þurfa allir aðilar í virðiskeðjunni að uppfylla tiltekin lágmarksskilyrði um félagslegt réttlæti, a.m.k. 70% af þráðunum í flíkinni verða að vera með lífræna vottun, og öll litarefni og hjálparefni verða að uppfylla tilteknar kröfur um áhrif á heilsu og umhverfi. Auðvitað felur engin vottun í sér 100% tryggingu fyrir einu né neinu, en vottunarkerfin eru þó alla vega bestu tækin sem við höfum. Þau hafa það m.a. fram yfir eigin yfirlýsingar seljenda að þau eru óháð.
VIÐ getum breytt þessu!
Okkur finnst við kannski standa ráðþrota gagnvart atburðum eins og þeim sem varð í Dakka síðasta vetrardag. Það er rétt að því leyti að við getum ekki afturkallað það sem gerðist. En að öðru leyti er það rangt. Við þurfum ekki að standa ráðþrota. Ef okkur er ekki sama, þá eigum við að spyrja. Og við höfum tæki á borð við fairtradevottun, Norræna svaninnn, GOTS-vottun og aðrar vottanir til að hjálpa okkur í viðleitninni við að bæta ástandið.
(Þessi pistill er nær samhljóða pistli sem fluttur var í útvarpsþættinum Sjónmál á Rás 1 miðvikudaginn 14. maí 2013).
Filed under: Sjálfbær þróun | Tagged: föt, siðferði, umhverfismerkingar |
Færðu inn athugasemd