• Heimsóknir

  • 119.600 hits
 • apríl 2013
  S M F V F F S
   123456
  78910111213
  14151617181920
  21222324252627
  282930  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Víðavangshlaup ÍR: Svolítil viðbót frá 1974

Í pistli um þátttöku mína í Víðavangshlaupi ÍR sl. fimmtudag minntist ég aðeins á „hitt skiptið“ sem ég hef tekið þátt í þessu hlaupi, þ.e.a.s. á sumardaginn fyrsta 1974. Í pistlinum sagði ég m.a. að úrslitin frá 1974 væru löngu týnd, sem var reyndar alveg rétt á þeirri stundu sem ég skrifaði pistilinn. En viti menn, í gær rak ég augun í lítinn blaðabunka í bílskúrnum (rétt vestan við hlaupabrettið) – og út úr honum dró ég það gagnmerka rit „Þess skal getið sem gert er. Nr. 1, 6. maí 1974. Fréttir frá Frjálsíþróttadeild Íþróttafélags Reykjavíkur“. Í þessu blaði voru ýmsar upplýsingar um umrætt hlaup, þ.á.m. öll úrslitin! (Þetta var fyrir daga www.hlaup.is og reyndar líka áður en tölvueign varð almenn, enda blaðið vélritað á stensla og fjölritað).

Í umræddu riti kemur m.a. fram að 73 þátttakendur hafi verið skráðir í hlaupið, þar af 18 konur. Af þessum fjölda hlupu þó bara 47 af stað og „luku allir hlaupinu að einni stúlku undanskilinni“ eins og það er orðað í ritinu. Þarna kemur líka fram að ÍR-ingar lögðu mikið á sig til að vinna sigur í stigakeppni hlaupsins. Það tókst og þar með vann ÍR í fyrsta sinn bikar til eignar fyrir þriggja manna sveit. „En þetta var því aðeins hægt að okkar beztu menn, Ágúst og Sigfús yrðu teknir heim frá Englandi gagngert til að hlaupa og var það gert með talsverðum tilkostnaði. Þeir brugðust ekki vonum okkar en háðu grimmilegt einvígi um sigurinn í hlaupinu langt á undan keppinautunum“. Þarna er að sjálfsögðu átt við ÍR-ingana Ágúst Ásgeirsson og Sigfús Jónsson sem voru fremstu langhlauparar Íslands á þessum tíma. Ragnhildur Pálsdóttir UMSK sigraði í kvennaflokki eins og venjan var á þessum tíma. Af öðrum kunnum köppum sem reyndu með sér þennan dag má nefna Sigurð P. Sigmundsson og bræðurna Magnús og Sigurð Haraldssyni úr FH, Gunnar Snorrason og Erling Þorsteinsson úr UMSK, Jón Diðriksson UMSB, Högna Óskarsson KR, Pétur Pétursson HSS og ÍR-ingana Gunnar Pál Jóakimsson, Óskar Thorarensen, Friðrik Þór Óskarsson, Elías Sveinsson og Sigvalda heitinn Ingimundarson. Elsti þátttakandinn „var Jón Guðlaugsson HSK 48 ára og vann til eignar bikar gefinn af Brunabótafélagi Íslands“. Þetta þótti mjög hár aldur fyrir hlaupara á þessum tíma og sjálfsagt grunaði engan að hann myndi verða meðal þátttakenda í sama hlaupi 39 árum síðar!!!

Því er við að bæta, að með nákvæmum samanburði á nöfnum þeirra 46 sem luku hlaupinu 1974 við nöfn þeirra 335 sem luku hlaupinu sl. fimmtudag komst ég að því að við Jón Guðlaugsson erum einu mennirnir sem mættu til leiks bæði árin. Gaman að því!!! 🙂

Fyrstu menn og konur í Víðavangshlaupi ÍR 1974. (Úr ritinu "Þess skal getið sem gert er").

Fyrstu menn og konur í Víðavangshlaupi ÍR 1974. (Úr ritinu „Þess skal getið sem gert er“).

Einblínt á afleiðingar í stað orsaka

endofpipe160Á morgun verður kosið til Alþingis og því hafa síðustu dagar einkennst mjög af umræðum um stefnumál framboða. Einhver glöggur maður benti á það um daginn að þessar umræður hefðu að miklu leyti snúist um viðbrögð við afleiðingum hrunsins, en að lítið hefði farið fyrir umræðum um orsakir þess. Getur verið að Íslendingum hætti til að einblína um of á afleiðingar en gleymi að huga að orsökum? Getur verið að orð Duritu Brattaberg frá 1997 eigi enn við um okkur, þ.e.a.s. að „vit sløkkva bál alla tíðina heldur enn at forða fyri, at eldurin ongantíð kyknar“?

Síðustu ár hafa umhverfismál verið töluvert í umræðunni. Í þeirri umræðu hefur afleiðingum líka verið gert hærra undir höfði en orsökum. Ég hef til dæmis heyrt miklu meira talað um flokkun úrgangs en um tilurð hans. Hvar sem ég kem er fólk óþreytandi að segja mér frá góðri frammistöðu sinni við að flokka tómar umbúðir, en ég heyri örsjaldan minnst á að þessar umbúðir hafi kannski verið óþarfar frá byrjun, eða að það sem í umbúðunum var hefði betur hvorki verið framleitt né keypt. Á sama hátt hættir mönnum til að hafa meiri áhuga á tækni til að gera mengun skaðlausa, en á betri stjórnun sem leiðir til þess að uppspretta mengunarinnar hverfi. Þetta er það sem stundum er kallað rörendaviðhorf og er lýst á myndinni sem fylgir þessum pistli. Þar er einblínt á endann á rörinu en lítið hugsað um það hvaðan innihaldið í rörinu hafi komið.

Ég sé ekki betur en sama þrönga sýn á afleiðingar sé býsna ráðandi í heilbrigðiskerfinu. Þar virðist pilluboxið oft vera nærtækara en heilbrigt líferni, hreyfing og útivist sem lausn á lífsstílstengdum heilsuvanda. Áherslan er á að lækna einkennin í stað þess að kafa í orsakir vandans.

Í stjórnun landsins gildir það sama og í umhverfismálum og í heilbrigðismálum: Ef brunavarnir snúast bara um slökkvistarf, þá mun slökkviliðið hafa í nógu að snúast! Nýir eldar kvikna nefnilega jafnauðveldlega og þeir gömlu ef maður gerir ekkert til að „forða fyri, at eldurin ongantíð kyknar“!

Undir tuttugu

Í dag náði ég þeim langþráða áfanga að hlaupa 5 km á skemmri tíma en 20 mínútum, nánar tiltekið á 19:59 mín. Ég hef reyndar gert þetta nokkrum sinnum áður, en það var aðeins byrjað að fenna í þau spor. Hljóp síðast undir 20 í sýslukeppni á Blönduósi 18. ágúst 1980. Hlaup eru svo sem ekki lífið sjálft, en gleðina úr hlaupunum getur maður tekið með sér þegar gengið er til annarra verka. Sérhvert takmark sem næst er fóður fyrir gleðina.

Ég brá mér sem sagt til Reykjavíkur í dag til að taka þátt í Víðavangshlaupi ÍR, elsta hlaupi Íslandssögunnar. Víðavangshlaup ÍR var fyrst haldið 1916 og hefur síðan verið árviss viðburður Sumardaginn fyrsta. Ég missti af nokkrum fyrstu hlaupunum. Mætti reyndar ekki fyrr en vorið 1974, nánar tiltekið fimmtudaginn 25, apríl. Þá var hlaupið bara um 3,5 km. Líklega þóttu 5 km heldur langir á þeim árum. Ég man svo sem ekkert eftir þessu hlaupi, að frátöldum einhverjum spaugilegum atvikum í búningsklefunum við gamla Melavöllinn þar sem Þjóðarbókhlaðan stendur nú. Mig rámar reyndar líka í að ég hafi ekki verið mjög sáttur við eigin frammistöðu. Úrslitin eru löngu týnd, en í æfingadagbókinni minni stendur þetta: „Víðavangshlaup ÍR (um 3,5 km). Ég varð 9. á 13:12 mín“. Frásagnir mínar af hlaupum voru styttri í þá daga en síðar varð.

Úr hlaupadagbókinni fimmtudaginn 25. apríl 1974.

Úr hlaupadagbókinni fimmtudaginn 25. apríl 1974.

Réttum 39 árum síðar mætti ég öðru sinni til leiks. Ætli ég geri það ekki bara að reglu hér eftir að mæta í þetta hlaup á 39 ára fresti? Nú voru þátttakendur miklu fleiri en 1974 og í hópnum kom ég auga á a.m.k. þrjá auk mín, sem hlupu líka þá, þeirra á meðal Jón Guðlaugsson. Ég sé ekki að hann hafi elst mikið síðan og þótti mér hann þó háaldraður þá. Og núna varð ég ekki níundi, heldur kannski nr. 50. Veit það ekki alveg. Alla vega gekk allt að óskum og ég kom alsæll í mark, miklu sælli en þarna um árið.

Áætlun mín fyrir hlaupið var einföld. Ætlaði að reyna að hlaupa hvern km á því sem næst 4 mín. Það gekk algjörlega upp. Kílómetrarnir voru á 3:59, 3:56, 4:05, 4:01 og 3:58. Norðan kæla blés í gegnum Kvosina og hitastigið var í lægra lagi til að henta sumardegi, kannski svona 3 gráður. En það var bara fínt. Og niðurstaðan gat ekki verið betri. Tíminn 19:59 mín er eiginlega miklu skemmtilegri en t.d. 19:58, svo ekki sé nú talað um 20:00.

Ég kann sífellt betur að meta lífið eftir því sem ég sé meira af því. Ekkert í þessum heimi er sjálfsagt og hlaupin minna mig á að vera þakklátur. Þakklátastur er ég forsjóninni og fólkinu sem hefur notið lífsins með mér. Í dag er ég líka þakklátur Hauki hlaupafélaga sem fylgdi mér í þessu ferðalagi, Evu Skarpaas og Friðriki Ármanni sem voru mér hvatning í hlaupinu sjálfu öðrum fremur, og svo öllu hinu skemmtilega fólkinu sem ég hitti í dag. Mér finnst gaman að geta tekið þátt í svona ævintýrum.

Að loknu Parísarmaraþoni

Fánar og brosSíðasta sunnudag hljóp ég maraþon í París. Það var mikil upplifun og lærdómur, því að alltaf lærir maður eitthvað nýtt í hverju hlaupi, ekki bara um hlaup heldur líka um aðra þætti tilverunnar. Þetta var 11. maraþonið mitt og að mörgu leyti það besta, alla vega hvað mælanlegan árangur varðar. Í þessum pistli verður sagt frá þessu hlaupi í mörgum orðum.

Dagarnir fyrir hlaup
Um það bil 10 dögum fyrir Parísarmaraþonið, nánar tiltekið á skírdag, helltist í mig einhver versta hálsbólga síðustu ára með tilheyrandi slappleika í heila viku. Þar með lauk afar vel heppnuðu æfingatímabili sem hafði staðið frá því fyrir jól. Ég hafði svo sem engar stórar áhyggjur af þessum veikindum, enda vissi ég vel að ég þau myndu ekki koma í veg fyrir að ég gæti hlaupið í París. Hins vegar var hugsanlegt að árangurinn yrði eitthvað lakari en ella, því að svona uppákomur geta auðvitað dregið eitthvað úr styrk og úthaldi. Svo er heldur ekki mælt með 10 daga algjörri hvíld fyrir maraþon. Léttar æfingar þykja öllu vænlegri. Á þessu tímabili hafði ég líka lést um svo sem 1 kg, sem væri sjálfsagt fagnaðarefni fyrir marga, en er ekki góðs viti fyrir fólk með holdafar á við mitt. Þarna var ég að öllum líkindum frekar að tapa vöðvum en fitu. Við veikindin bættust síðan önnur minni háttar skakkaföll. Síðustu dagana fyrir hlaupið gekk í raun flest á afturfótunum. En þannig er bara lífið, þar skiptast á skin og skúrir. Og eins og mamma benti mér á þegar ég var lítill, þá er hætt við að maður kunni ekki að meta skinið ef skúranna nyti ekki við.

Til Parísar
Parísarferðin hófst óþægilega snemma að morgni föstudaginn 5. apríl og var í sjálfu sér tíðindalítil. Jóhanna yngsta barn var með í för, og á flugvellinum við París hittum við Birgittu miðbarn sem hafði komið fljúgandi frá Kaupmannahöfn fyrr um daginn. Þar með var stuðningsmannahópurinn fullskipaður. Þarna hittum við líka Christelle Leviel, skólasystur mína frá Lundi forðum daga, en hún var eiginlega kveikjan að þessu ferðalagi eins og ég hef áður rakið í bloggpistli. Christelle skilaði okkur í íbúðina sem við höfðum tekið á leigu efst í Mýrinni (f. le Marais) á Rue de Beauregard, og síðan fórum við saman í „Expóið“ til að sækja hlaupanúmer og önnur nauðsynleg gögn. Þar var líka hægt að skoða og kaupa hvers kyns hlaupadót á nokkurþúsund fermetra svæði, en þegar þarna var komið sögu var orðið áliðið dags og hvorki tími né orka afgangs til verslunarferða. Eftirspurn eftir svefni og hvíld var hins vegar töluverð.

Laugardagurinn
Við feðginin tókum laugardaginn ekki snemma, en í fyllingu tímans lögðum við upp í mikla gönguferð um París með götukort að vopni. Tilgangurinn var m.a. að átta sig á aðstæðum og fjarlægðum og finna rásmarkið fyrir morgundaginn. Fyrst lá leiðin niður að Louvre-safninu og síðan eftir Champs-Élysées breiðgötunni áleiðis að Sigurboganum. Veðrið var svo sem ágætt, en alls ekkert vorveður eins og ég hafði gert ráð fyrir í draumum mínum. En það var alla vega snjólétt og frostlaust. Ætli hitamælirinn hafi ekki náð í 5 stig þegar leið á daginn.

Ferðasaga laugardagsins verður ekki rakin hér í smáatriðum, en helstu afrek dagsins voru þessi:

 • Fara upp á Sigurbogann
 • Kaupa bolla af Earl Grey tei fyrir 6 evrur á Champs-Élysées
 • Taka GPS-punkt í rásmarki morgundagsins og komast að því að sá punktur væri í 3,3 km loftlínu frá Rue de Beauregard
 • Labba 10 km í götuskóm í vorkuldanum
 • Borða lítið kryddaðan kjúkling og slatta af hrísgrjónum í kvöldmat.

Að morgni hlaupadags
Ég gekk snemma til náða á laugardagskvöldinu og náði þokkalegum svefni. Eitthvað kom þó hlaupið upp í hugann inn á milli, enda vó kvíðinn ívið þyngra en tilhlökkunin þessa nótt. Margt hafði farið úrskeiðis í lokaundirbúningnum, og Parísarveðrið stóst heldur ekki væntingar. Veðurspá sunnudagsmorgunsins hljóðaði upp á 0°C til að byrja með, en reyndar skiptir hitastig ekki öllu máli í svona hlaupi, svo lengi sem það er á bilinu 0-15°C. Aðalatriðið er að vindurinn sé ekki með læti.

Hlaupið átti að hefjast kl. 8:45, sem þýddi að ég vaknaði kl. 5:45 til að borða morgunmat. Það er sú regla sem ég hef tamið mér. Morgunmaturinn var sem líkastur því sem gerist í Borgarnesi, þ.e.a.s. einhvers konar AB-mjólk eða jógúrt með lífrænu múslí, allt í hóflegum skömmtum. Tilraunir með mataræði er betra að stunda aðra daga.

Eftir morgunmatinn ákvað ég að bæta við mig svefni, enda nógur tími. Þetta verkefni gekk ágætlega, og kl. 8 var ég kominn í gallann og út. Gallinn var í þessu tilviki síðar hlaupabuxur og langermajakki, sem er svo sem ekki fyrsti valkostur í maraþonhlaupi. En þar sem hitastigið var ekki nema rétt yfir frostmarki ákvað ég að láta slag standa með þetta. Nennti ekki að skilja föt eftir á marksvæðinu, því að því fylgir alltaf einhver aukafyrirhöfn, og ég var heldur ekki með hentug „einnotaföt“ með í för. Sumir hafa þann háttinn á á köldum morgnum að leggja af stað í görmum sem hægt er að henda af sér þegar sól hækkar á lofti.

Göngur og réttir
Upphitun dagsins fólst í léttri göngu og skokki þessa rúmu 3 km niður á Champs-Élysées þar sem hlaupið átti að byrja. Þetta gekk allt eftir áætlun og um kl. 8:30 var ég kominn í rétt hólf við rásmarkið. Þar var nefnilega allt þaulskipulagt og hlauparar dregnir í dilka eftir ætluðum árangri í hlaupinu. Ég hafði gefið 3:15 klst. upp sem líklegan lokatíma og fengið úthlutað gulu rásnúmeri í samræmi við það og ætlaður staður í gula dilknum. Allt var þetta á sinn hátt svipað og í Krossárrétt í gamla daga, nema hvað hér voru fleiri hausar. Champs-Élysées var í stuttu máli alveg full af hlaupurum þennan morgun, enda rúmlega 40 þúsund manns mættir í hlaupið.

Væntingarnar
Fyrir þennan dag hafði ég best hlaupið maraþon á 3:17:07 klst. í Reykjavík 2009. Þennan tíma ætlaði ég að bæta í París, og var reyndar nokkuð viss um að geta það. Miðað við gengi mitt á æfingum vetrarins átti ég jafnvel að geta komist niður undir 3:10 klst. Það var þó ekkert markmið í sjálfu sér, heldur frekar villtur draumur, sérstaklega að teknu tilliti til skakkafalla dagana fyrir hlaup. Ég var ákveðinn í að vera raunsær og þakklátur. Auðvitað langar mann alltaf að bæta sig, en þegar allt kemur til alls eru það fyrst og fremst forréttindi að geta átt svona áhugamál og stundað það, þótt unglingsárin séu lengst að baki. Væntingarnar þennan morgun snerust því fyrst og fremst um að ég fengi notið hlaupsins. Allt hitt myndi bara vera kaupauki.

Fyrsti spölurinn
Hlaupið var ræst kl. 8:45 samkvæmt áætlun. Það tók mig tæpar 6 mínútur að komast úr dilknum mínum að rásmarkinu. Þar var klukkan sett í gang og hlaupið var hafið. Ég fann strax að ég var ekkert sérstaklega ferskur, enda bjóst ég ekki við því. Áætlun mín fyrir hlaupið gekk út á að hlaupa hvern kílómetra á 4:30 mín eins lengi og þrekið entist, en sætta mig við einhver frávik þegar liði á hlaupið. Þessi hraði dugar til að klára dæmið á 3:10 klst. en 4:40 mín/km samsvara u.þ.b. 3:17 klst. Áætlunin virtist nokkurn veginn geta gengið upp, en ég var þó greinilega ívið hægari en ítrustu vonir stóðu til. Fyrsti spölurinn gekk samt ágætlega, og þrátt fyrir mikinn fjölda voru þrengsli aldrei til vandræða. Þau hef ég oft upplifað meiri á fyrstu metrunum í Reykjavíkurmaraþoni og í fleiri styttri hlaupum á Íslandi. Champs-Élysées tekur lengi við, og svo telst það líka til forréttinda að vera í gula dilknum. Ég var þar með í hópi fyrstu 10.000 hlauparanna og laus úr mestu kösinni. Það tók fólk í aftari dilkum hátt í klukkutíma að komast á ráslínuna eftir að merkið var gefið.

Hlaupaleiðin í grófum dráttum, frá rásmarki á Champs Élysées, austur hægri bakka Signu og svipaða leið til baka að endamarkinu á Foch Avenue.

Hlaupaleiðin í grófum dráttum, frá rásmarki á Champs Élysées, austur hægri bakka Signu og svipaða leið til baka að endamarkinu á Foch Avenue.

5 km
Fyrstu kílómetrarnir liðu fljótt hjá og bar fátt til tíðinda, nema hvað hvert kennileitið af öðru bar fyrir augu. Þannig var 3 km línan við Louvre-safnið og 4 km línan á móts við Notre Dame. Golan var köld en hæg, og víðast hvar skjól af húsum og öðrum hlaupurum. Stundum sást til sólar, og þegar á heildina var litið voru aðstæður til hlaupa aldeilis prýðilegar. Millitíminn við Bastilluna eftir 5 km var 22:53 mín, sem þýddi að ég var strax orðinn 23 sek á eftir upphaflegri áætlun og að hver km hafði verið hlaupinn á 4:35 mín. Það var svo sem bara svipað og ég bjóst við. Og mér leið bara þokkalega.

Næring hlauparans
Margt hefur breyst síðan ég hljóp fyrsta maraþonið mitt í ágúst 1996. Þá lagði maður bara af stað og vonaði hið besta, drakk það sem að manni var rétt á leiðinni og var búinn með allar orkubirgðir eftir rúma 30 km. Núorðið er áætlun um inntöku matar og drykkjar ekki síður mikilvæg en áætlun um hlaupahraða. Morgunmat þessa dags hef ég áður lýst, en maðurinn lifir ekki á morgunmat einum saman. Skömmu fyrir hlaupið hafði ég gleypt í mig eitt orkugel og drukkið vel af vatni með, og síðan var ætlunin að gleypa 6 gel til viðbótar á leiðinni, nánar tiltekið eftir 10, 15, 25, 30, 35 og 40 km og drekka samtals rúman lítra af vatni með. Reyndar finnst mér best að hafa 7 km á milli gela, en meira máli skiptir að aðlaga gelinntöku að staðsetningu drykkjarstöðva. Þannig losna ég alveg við vatnsburð.

Skipulagning drykkjarstöðva í Parísarmaraþoninu var til algjörrar fyrirmyndar, enda eins gott þar sem skenkja þarf hlaupandi fólki samtals um 150.000 lítra af vatni á einum morgni. Á hverri stöð fékk maður eina 33 cl. vatnsflösku, og á næsta kílómetra þar á eftir voru sérmerktir gámar til að kasta tómum flöskum í. Reyndar missti ég af flestum þessum gámum, af því að ég hef lagt í vana minn að hlaupa með vatnið spottakorn og drekka af því smátt og smátt. Miðað við hitastig og almenna líðan taldi ég í þessu tilviki hæfilegt að drekka niður í hálfa flösku hverju sinni, þ.e. um 150 ml. Drykkjarstöðvarnar voru á 5 km fresti, þannig að með þessu móti myndi heildardrykkjan nema u.þ.b. 8×150 = 1.200 ml.

Ég fylgdi næringaráætluninni í einu og öllu þennan dag, enda ekki skynsamlegt að breyta henni á leiðinni nema brýna nauðsyn beri til. Hugsunin er nefnilega alla jafna skýrari fyrir hlaup en meðan á því stendur. Sérstaklega á greindarvísitalan það til að lækka á síðustu 5-10 kílómetrunum. Áætlunin reyndist líka vel. Maginn var til friðs alla leiðina og ekkert sem benti til röskunar í vökvabúskap líkamans. Ég var bara svolítið orkulaus, en það átti eflaust rætur í angri síðustu dægra.

Áfram veginn
Kílómetramerkin héldu áfram að birtast eitt af öðru. Eftir 10 km var millitíminn 45:31 mín, þannig að heldur hafði hraðinn aukist. Þarna var ég 31 sek á eftir upphaflegri áætlun og meðaltíminn á hverjum km 4:33 mín. Áfram hélt þetta svo með svipuðum hætti. Kílómetrarnir voru miserfiðir eins og gengur, enda sums staðar e.t.v. örlítill hæðarmunur í brautinni. Svo er hugsunin líka misjákvæð. Af og til óskaði ég þess að ég væri í stuttbuxum og bol, en vissi svo sem vel að það skipti engu meginmáli. Ég hef hlaupið maraþon áður í sama klæðnaði með þokkalegum árangri. Kannski svitnaði ég aðeins meira en ella, en þegar á heildina er litið var ákvörðun mín um klæðaburð vafalítið rétt.

Eftir 15 km var millitíminn 1:08:07 klst. og 1:30:59 klst. eftir 20 km. Þar var ég orðinn 59 sek á eftir upphaflegri áætlun og meðaltíminn á hverjum km enn 4:33 mín. Það var bara fínt.

Hálft maraþon að baki
Á Avenue Daumesnil var hlaupið hálfnað. Það er alltaf góður áfangi, þótt síðasti áfanginn sé náttúrulega drýgri. Enn var allt við það sama, millitíminn 1:36:06 klst. og hraðinn enn sá sami; 4:33 mín/km. Með sama áframhaldi myndi hlaupinu ljúka á 3:12 klst. Reyndar getur maður ekki dregið miklar ályktanir um seinni helminginn út frá fyrri helmingnum. Tvisvar hef ég náð „neikvæðu splitti“ í maraþonhlaupi, þ.e. hlaupið seinni helminginn hraðar en þann fyrri, en slíkt heyrir til undantekninga. Ef allt gengur vel get ég gert mér vonir um að seinni helmingurinn verði 3 mín hægari en sá fyrri, en í versta falli getur munurinn orðið allt að 7 mín, já eða miklu meiri ef eitthvað fer verulega úrskeiðis. En slíkt hefur aldrei hent mig enn sem komið er. Millitíminn eftir hálft maraþon að þessu sinni gaf alla vega tilefni til að ætla að ég yrði vel undir 3:20 klst. að öllu forfallalausu, en í maraþonhlaupum er ekkert öruggt.

Brautin í París
Sem fyrr segir var hlaupaleiðin í París ekki alveg laus við hæðarmun, en þegar á heildina er litið er brautin samt býsna flöt og bara hin ágætasta í alla staði. Það er t.d. ekki amalegt að hlaupa frír og frjáls um bíllausar breiðgötur í borg eins og þessari, þar sem hvert mannvirkið öðru mikilfenglegra og kunnuglegra birtist fyrir sjónum manns. Leiðinlegasti kaflinn var meðfram Signu þar sem gatan liggur svolítið upp og niður og að hluta til í undirgöngum. Ætli þetta hafi ekki verið aðallega á kílómetrum nr. 23-29.

Einmana á Signubökkum
Það hljómar kannski einkennilega, en þrátt fyrir nærveru tugþúsunda hlaupara var ég stundum pínulítið einmana í þessu hlaupi, aðallega framan af. Ólíkt því sem gerist á Íslandi hitti ég engan sem ég þekkti á leiðinni, hvorki meðal hlaupara né í áhorfendaskaranum sem var víðast hvar meðfram hlaupaleiðinni. Reyndar tóku hátt í 40 Íslendingar þátt í þessu hlaupi, en hvort tveggja er að ég þekki þá ekki alla, og eins hitt að 40 manns eru ekki sérlega áberandi í 40 þúsund manna hópi. Reyndar heyrði ég rödd kalla „koma svo Ísland!“ nálægt 2ja km markinu, en eftir það var allt rólegt á félagslega sviðinu. Úr þessu rættist heldur betur í grennd við 29 km línuna, einhvers staðar á móts við Eiffelturninn, því að þar voru dæturnar mættar með íslensku fánana sem við keyptum á leiðinni út. Ég hef svo sem upplifað þetta nokkrum sinnum áður, en samt kemur mér það alltaf þægilega á óvart hversu mikla gleði það færir manni að sjá einhvern nákominn við brautina. Næsti kílómetri var með þeim léttustu í öllu hlaupinu.

Beðið eftir pabba á Signubökkum.

Beðið eftir pabba á Signubökkum.

30 km
Mér finnst 30 km línan alltaf vera merkur áfangi í maraþonhlaupi. Oft er sagt að þar byrji hlaupið fyrir alvöru og ég get svo sem alveg tekið undir það. En þarna er líka mikið búið og góð vísbending fengin um líklega lokaniðurstöðu. Yfirleitt er mér óhætt að miða við að þarna sé rétt um klukkutími eftir. Millitíminn eftir 30 km var 2:17:02 klst, sem var að mig minnti svipað og í „methlaupinu“ 2009. Enn var ekki hægt að ganga að neinu sem vísu, en þetta var í öllu falli í góðu lagi. Ég var að vísu aðeins tekinn að lýjast, en var að öðru leyti álíka lítið ferskur og í upphafi hlaups. Hraðinn var eitthvað farinn að minnka, ég var kominn 2:02 mín afturúr upphaflegri áætlun og meðaltíminn á hverjum km kominn í 4:34 mín.

Fjórði kílómetratugurinn
Á fjórða kílómetratugnum fór þreytan að ágerast. Það er reyndar vel þekkt og hreint ekkert óeðlilegt, jafnvel þótt morgunferskleikinn sé meiri en þennan dag. Þegar hér er komið sögu getur komið sér vel að eiga jákvæðar hugsanir á lager, eða skemmtileg lög sem hægt er að fá á heilann. Reyndar var töluvert um utanaðkomandi tónlistarflutning þennan daginn, og það léttir manni lund. Á þessum kafla hlaupsins hafði ég líka nóg að hlakka til ef út í það var farið:

 1. Að vera bráðum búinn með 35 km
 2. Að vera bráðum búinn með 37 km og eiga þá bara 5 km eftir
 3. Að sjá stelpurnar mínar aftur á næstu skipulögðu fagnaðarstöð við 41 km línuna eða þar um bil

Fleiri millitímar
Maraþonhlaup er ekki endilega eitt langt hlaup heldur alveg eins nokkur stutt. Mér finnst það t.d. alltaf tilhlökkunarefni að ljúka hverju 5  km hlaupi í hlaupinu. Þá er hægt að túlka millitíma og leggjast í alls konar hugarreikninga sér til dægrastyttingar.

Enn fundust mér kílómetrarnir líða þokkalega hratt. Eftir 35 km var millitíminn 2:40:23 klst og meðaltíminn á hverjum km kominn í 4:35 mín. Vissulega var heldur farið að hægjast á mér, en ég var samt bara nokkuð sáttur. Eftir 37 km voru tölurnar 2:50:00 klst. og 4:36 mín/km. Þarna var ég örugglega á betri tíma en í „methlaupinu“ 2009, og ljóst að eitthvað þyrfti að fara úrskeiðis til að ég myndi ekki ljúka hlaupinu á 3:15-3:20 klst.

Eftir 40 km var þreytan farin að segja verulega til sín. Ég þekki einkennin. Maður hættir að taka eftir umhverfinu með sama hætti og áður og hverfur svolítið inn í sjálfan sig. Fátt kemst að nema að ljúka þessum spöl sem eftir er. Jafnvel hugarreikningur verður minna skemmtilegur en áður. En millitíminn var enn í góðu lagi; 3:04:06 mín. Það þýddi að 3:15 var fyllilega raunhæft markmið og næsta víst að metið frá 2009 myndi falla.

41 km að baki og gleðin við völd!

41 km að baki og gleðin við völd!

Fánar og bros
Dæturnar stóðu fyrir sínu við 41 km línuna. Ég sá íslensku fánana langt að og færðist allur í aukana. Nú var bara að klára málið. Ég reyndi eftir bestu getu að bæta í hraðann, ákveðinn í að ná undir 3:15 klst. Það gekk eftir, og þegar ég skrönglaðist í markið á Foch Avenue sýndi klukkan mín 3:14:45 klst. Endanlegur og staðfestur tími var 3:14:44. Markmiðinu var náð!

Hjálparhellurnar mínar, Birgitta og Jóhanna, við Foch Avenue að hlaupi loknu.

Hjálparhellurnar mínar, Birgitta og Jóhanna, við Foch Avenue að hlaupi loknu.

Eftirmáli
Ég var þreyttur og dálítið bugaður eftir þetta hlaup, enda var það í samræmi við aðdragandann. Gleðin var þó vissulega til staðar, og ég var ágætlega haldinn að flestu leyti og algjörlega laus við krampa og önnur slík óþægindi sem eiga það til að gera vart við sig á svona stundum. Ég tók mér góðan tíma til að ráfa um marksvæðið, borða nokkra banana og gera það annað sem til heyrir. Þarna hitti ég líka Ölmu Maríu sem kom í markið skömmu á eftir mér. Það var frekar dýrmætt þarna í einsemdinni. Rakst síðan á nokkra Íslendinga til viðbótar, aðallega Laugaskokkara. Og fyrr en varði voru dæturnar mættar mér til halds og trausts sem fyrr. Ég klæddi mig í öll tiltæk föt sem þær höfðu meðferðis, og saman röltum við svo upp að Sigurboganum þar sem við tók næsta verkefni: Að bíða eftir Christelle. Hún skilaði sér í fyllingu tímans, alsæl eftir sitt fyrsta maraþonhlaup, sem gekk vonum framar. Hún kom í mark á 4:20:18 klst, þrátt fyrir litlar æfingar. Langt var um liðið síðan við fórum saman í Lundaloppet vorið 1998, en samt var eins og það hefði gerst í gær.

Glaður hlaupari á Foch Avenue einn kaldan dag í París.

Glaður hlaupari á Foch Avenue einn kaldan dag í París.

Eftirköst og lærdómar
Ég var óvenjustirður í fótunum dagana eftir þetta Parísarmaraþon. Sérstaklega var erfitt að ganga niður stigana í húsinu þar sem við gistum, svo ekki sé talað um stigana í Louvre-safninu sem voru kannaðir nokkuð ítarlega daginn eftir hlaup. Eiginlega voru eftirköstin meiri en ætla hefði mátt út frá gangi mála á æfingum vetrarins, en hins vegar í fullu samræmi við gang mála dagana fyrir hlaup. Eftirá að hyggja var ég líklega vannærður, ekki þó þeim eðlilega skilningi sem lagður er í þetta orð í umræðum um þróunarhjálp, heldur í þeim skilningi að meiri og betri næring dagana fyrir hlaup hefði skilað betri árangri og minni eftirköstum. Eins hefði eflaust verið gott að borða meira eftir hlaupið – og fyrr. Tveir bananar eru fljótir að brenna upp í fyrstu viðgerðarlotunni. En hér er bara verið að tala um eftirköst til skamms tíma. Til lengri tíma litið munu eftirköstin öðru fremur liggja í góðri reynslu og gleði yfir því að hafa náð settu marki þrátt fyrir minni háttar mótlæti.

Það er gaman að hlaupa og forréttindi að geta það.

Hér lýkur að segja frá Parísarmaraþoninu 7. apríl 2013.

Sigurstund undir Sigurboganum!

Sigurstund undir Sigurboganum!