• Heimsóknir

    • 122.126 hits
  • júní 2013
    S M F V F F S
     1
    2345678
    9101112131415
    16171819202122
    23242526272829
    30  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Þrístrendingur í fjórða sinn

Thristrend2013 048 160Fjalla- og skemmtihlaupið Þrístrendingur var háð í fjórða sinn laugardaginn 22. júní sl., en eins og allir vita snýst þetta hlaup um að fara tvisvar þvert yfir Ísland sama daginn, nánar tiltekið með því að fara um þrjár sýslur, þrjár strandir og þrjá fjallvegi. Dofri Hermannsson, frændi minn frá Kleifum í Gilsfirði, sló upphaflega fram hugmyndinni um þetta hlaup, og síðan þá höfum við hjálpast að við að láta hana verða að veruleika. Það er óháð og hlutlaust mat mitt að alltaf hafi vel tekist til, þó sjaldan eins vel og í þetta skipti.

Kleifar í Gilsfirði eru sjálfsagður upphafsstaður fyrir Þrístrending af því að Kleifar eru einmitt upphafsstaður okkar Dofra beggja. Það tiltekna upphaf má rekja aftur til ársins 1851 þegar Jón Ormsson flutti frá Króksfjarðarnesi að Kleifum. Þessi Jón var langalangafi minn og langalangalangafi Dofra og var talinn „vel gáfaður, ráðhollur og gestrisinn“. (Þessar mikilvægu upplýsingar er að finna í 2. bindi Dalamanna eftir séra Jón Guðnason, (bls. 517), sem gefið var út í Reykjavík á kostnað höfundar 1961). Sonur Jóns var Eggert langafi minn á Kleifum (talinn vitur maður og lögkænn). Dóttir hans var Anna Eggertsdóttir, sem bjó á Kleifum með Stefáni Eyjólfssyni eiginmanni sínum. Meðal barna þeirra voru Birgitta móðir mín og Jóhannes afi Dofra. Þannig var nú það og þaðan er Stefánsnafnið komið. Lýkur hér þessum ættfræðilega inngangi.

Veðrið á laugardaginn var svo gott að vafi leikur á að annað eins hafi sést á þessum slóðum, nema í Þrístrendingi í fyrra þegar það var jafnvel enn betra. Hægur vindur blés úr óskilgreindri átt, fá ský á himni og sólin skínandi glöð. Hitastig á láglendi var um 8°C um morguninn en var komið nálægt 15°C síðdegis.

Glaðir hlauparar á hlaðinu á Kleifum á sólbjörtum laugardagsmorgni. Hafursklettur og Gullfoss í baksýn.

Glaðir hlauparar á hlaðinu á Kleifum á sólbjörtum laugardagsmorgni. Hafursklettur og Gullfoss í baksýn.

Á slaginu 11:07 að morgni þessa sólríka laugardags lagði fríður hópur hlaupara af stað frá Kleifum sem leið liggur niður heimreiðina. Þarna voru samtals 11 hlauparar á ferð, nógu harðsnúnir til að leggja í Þrístrending allan. Fleiri áttu eftir að bætast við síðar. Höfuðpaurinn Dofri tók að sér að vera bílstjóri, auk þess sem hann sá um að allt færi sómasamlega fram, dyggilega studdur af yngstu dóttur sinni Rún. Bílferðin kom sér vel, því að með henni sköpuðust tækifæri til að senda fólk og vistir milli staða eftir þörfum.

Á harðaspretti niður heimreiðina á Kleifum. Bara 41 km eftir! Bæjarstjórahjónin á Ísafirði fremst í flokki.

Á harðaspretti niður heimreiðina frá Kleifum. Bara 41 km eftir! Bæjarstjórahjónin á Ísafirði fremst í flokki.

Hlaupið allt gekk eins og í skemmtilegri sögu. Steinadalsheiðin reyndist enginn farartálmi, enda vegurinn orðinn vel jeppafær eftir veturinn. Við Heiðarvatn var áð um stund, en þar liggur vegurinn yfir hæðina hæst (um 340 m.y.s.). Þegar komið var norður af heiðinni og niður í Steinadal þurfti að fara yfir tvö vöð. Stundum hafa Þrístrendingsfarar reynt að stikla þar á steinum og komast yfir þurrum fótum, en að þessu sinni var óvenjumikið vatn í ám og ekkert annað að gera en vaða sem leið lá.

Heitir þetta ekki „að ráðast á vaðið þar sem það er blautast“? Hér eru Helgi og Birkir á fullri ferð.

Heitir þetta ekki „að ráðast á vaðið þar sem það er blautast“? Hér eru Helgi og Birkir á fullri ferð.

Við Stóra-Fjarðarhorn var áð að vanda og tekið upp nesti skammt þar frá sem eitt sinn stóð samkomuhús Ungmennafélagsins Gróðurs í Kollafirði. Það var reist sumarið 1936 en er nú löngu horfið frá þessum stað og tekið til við að þjóna sem vélageymsla í nágrenni Hólmavíkur ef mig misminnir ekki. Faðir minn sá um „að innrétta húsið, og unnu félagar [í ungmennafélaginu] að því með honum“, eins og segir í samantekt Sigurðar Jónssonar um Ungmennafélagið Gróður í bókinni Strandir 2 (bls. 436), sem Búnaðarsamband Strandamanna gaf út 1985. Í þessu húsi fór ég á eina af mínum fyrstu skemmtunum, nánar tiltekið félagsvist og jafnvel líka dansleik, líklega árið 1969.

Áð við Stóra-Fjarðarhorn. Alltaf sama blíðan! Samt fannst þarna aðeins fyrir innlögninni inn Húnaflóann. Hún er sjaldan tiltakanlega hlý.

Áð við Stóra-Fjarðarhorn. Alltaf sama blíðan! Samt fannst þarna aðeins fyrir innlögninni inn Húnaflóann. Hún er sjaldan tiltakanlega hlý.

Víkur nú sögunni aftur að hlaupum til að sporna við þeirri viðleitni pistilsins að breytast í ævisögu eða ættfræðirit. Við Stóra-Fjarðarhorn bættust óþreyttir liðsmenn í hópinn og að sjálfsögðu átti þessi öflugi flokkur ekki í neinum vandræðum með Bitruhálsinn. Þar bar eftirfarandi helst til tíðinda:

  1. Allir fóru nánast beint upp hlíðina þar til komið var á hestagötuna upp Fjarðarhornssneiðinga, í stað þess að fara meira á ská til hægri og lenda í hálfgerðum ógöngum eins og stundum hefur borið við.
  2. Talsverð aurbleyta var efst á hálsinum, svo mjög að lá við skótjóni.
  3. Enginn snjór var við upptök Broddár
  4. Fyrstu mönnum (les: Birki) lá svo á að hefðbundin áning við Móhosaflóalæk fórst fyrir. Þar með missti hópurinn af árlegum fræðslufyrirlestri um tannhirðu barna í ungdæmi mínu á ofanverðri 19. öld (eða var það sú tuttugasta)?
Á fullri ferð efst á Bitruhálsi. Arnar ofurhlaupari og Helgi Kárason í fararbroddi.

Á fullri ferð efst á Bitruhálsi. Arnar ofurhlaupari og Helgi Kárason í fararbroddi. Strandafjöllin í baksýn. Eins og sjá má er gatan yfir hálsinn greiðfær. Þarna var farið með hestakerrur í gamla daga.

Um kl. 3 voru allir komnir í hlað á æskuheimili mínu í Gröf. Þar tóku foreldrar mínir við búi vorið 1956, rétt um það bil 9 mánuðum áður en ég fæddist, og bjuggu þar alla tíð síðan meðan báðum entist aldur. Þar býr nú Rögnvaldur bróðir minn og Arnheiður sambýliskona hans. Þau tóku vel á móti hlaupurunum að vanda og veittu kaffi, pönnukökur, skinkuhorn og fleira að miklum rausnarskap. Einhverjir úr hópnum gáfu sér líka tíma til að líta sem snöggvast á fornminjar sem þarna eru frá uppvaxtarárum mínum (og jafnvel enn eldri).

Inga Dís, Sigurður Freyr, Lína og Dofri í slökun á hlaðinu í Gröf. Ef vel er gáð má sjá Arnheiði húsfreyju vinstra megin á myndinni og Rögnvald bónda við húsvegginn. Og Rósmundur skíðagöngukappi er þarna líka.

Inga Dís, Sigurður Freyr, Lína og Dofri í slökun á hlaðinu í Gröf. Ef vel er gáð má sjá Arnheiði húsfreyju vinstra megin á myndinni og Rögnvald bónda við húsvegginn. Og Rósmundur skíðagöngukappi er þarna líka.

Eftir þessa góðu áningu í Gröf var ekkert eftir nema skokka þriðja og síðasta hluta leiðarinnar, suður Krossárdal að Kleifum. Reyndar liggur leiðin í vestur en ekki suður, en samkvæmt málvenju er þetta samt suður. Maður fer líka „fram“ dalinn en ekki „inn“ á leið sinni frá sjónum. Þessi síðasti hluti er lágur en seinfarinn, því að hluti leiðarinnar liggur um mýrar og móa sem vefjast iðulega fyrir fótum. Yfirferðin varð því hæg á köflum, en þess meira spjallað.

Sigríður, Inga Dís og Sigurlín komnar suður (vestur) fyrir Krossárvatn, (sem er þó ekki vatnið sem sést á myndinni). Stutt eftir suður (vestur) af.

Sigríður, Inga Dís og Sigurlín komnar suður (vestur) fyrir Krossárvatn, (sem er þó ekki vatnið sem sést á myndinni). Felix skammt undan. Stutt eftir suður (vestur) af.

Þegar komið var fram á brúnina við Hafursklett ofan við Kleifar var sólin enn í hátíðarskapi. Ætli það hafi ekki einmitt verið þá sem ég mundi að mér hafði einhvern tímann verið sagt að fólk sem er hvítt á hörund ætti e.t.v. að prófa að nota sólarvörn ef það er fáklætt úti í sólskini í 6 klukkutíma samfleytt. Dofri hlaupstjóri kom á móti okkur þarna upp í brúnina og hafði meira að segja gefið sér tíma til að kasta steinum úr Hafursgötunni, en svo nefnist heldur brött gata eða einstigi niður með Hafurskletti niður á graslendið við Kleifar.

Horft niður Hafursgötuna, heim að Kleifum og út á Gilsfjörð. Hafursklettur til hægri.

Horft niður Hafursgötuna, heim að Kleifum og út á Gilsfjörð. Hafursklettur til hægri.

Nokkrum mínútum síðar var allur hópurinn saman kominn á hlaðinu á Kleifum, sumir sjálfsagt „lúnir eftir langan dag í sólinni“, eins og segir í kvæðinu, en aðrir svo tilfinnanlega óþreyttir að þeir þurftu endilega að bæta á sig svo sem einum kílómetra til að dagleiðin næði 42,2 km. Á hlaðinu var kíkt í nestispoka og kannski skipt um skó eða föt, já og reyndar líka um eitt jeppadekk sem hafði fengið nóg af vestfirskum vegum. Síðan rann upp kveðjustund og hlaupararnir héldu hver til síns heima (eða í sund á Reykhólum). Ef gleði væri tekin með í útreikninga á vergri landsframleiðslu hefði sést greinileg sveifla í línuritum Hagstofunnar þennan dag!

ÍR-ingar á hlaðinu á Kleifum að loknu góðu dagsverki í góðu veðri. F.v.: Inga Dís, Sigurður Freyr, Felix, Sigurlín, Helgi, Jón, Sigríður, Arnar, Dofri Þ.

ÍR-ingar á hlaðinu á Kleifum að loknu góðu dagsverki í góðu veðri. F.v.: Inga Dís, Sigurður Freyr, Felix, Sigurlín, Helgi, Jón, Sigríður, Arnar, Dofri Þ.

Eftirtaldir hlauparar tóku þátt í Þrístrendingi 2013:

  • Alla leið (3 fjallvegir með tilheyrandi):
    Arnar Aðalgeirsson
    Birkir Þór Stefánsson
    Daníel Jakobsson
    Felix Sigurðsson
    Helgi Kárason
    Hólmfríður Vala Svavarsdóttir
    Jón Grímsson
    Sigríður Gísladóttir
    Sigurlín Birgisdóttir
    Stefán Gíslason
  • Tveir fjallvegir (Steinadalsheiði og Krossárdalur):
    Dofri Þórðarson
  • Tveir fjallvegir (Bitruháls og Krossárdalur):
    Rósmundur Númason
    Sigurður Freyr Jónatansson
  • Einn fjallvegur (Krossárdalur):
    Inga Dís Karlsdóttir

4 svör

  1. Takk fyrir skemmtilega frásögn

  2. […] Þrístrendingur í fjórða sinn […]

  3. […] er að taka bara einn eða tvo áfanga af þremur ef heildarvegalengdin vex mönnum í augum. Núna var Þrístrendingur hlaupinn í 4. sinn og bar hlaupið upp á laugardaginn 22. júní. Þátttakendur voru 14 þegar allt er talið, þar af 10 sem létu sig ekki muna um að skokka […]

  4. […] mínu, því að þessar leiðir hef ég farið oft áður. En þessi hlaup eru alltaf skemmtileg! Ferðasöguna frá liðnu sumri er að finna á vísum stað á bloggsíðunni […]

Skildu eftir svar við Sæla á blautum Laugavegi | Bloggsíða Stefáns Gíslasonar Hætta við svar