• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • ágúst 2013
    S M F V F F S
     123
    45678910
    11121314151617
    18192021222324
    25262728293031
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Skálmardalsheiði 31. ágúst

Skálmardalsheiði yfirlitskort ja 200

Laugardaginn 31. ágúst nk. ætla ég að hlaupa yfir Skálmardalsheiði, en hlaupið er liður í fjallvegahlaupaverkefninu sem ég gaf sjálfum mér í fimmtugsafmælisgjöf hérna um árið. Hlaupið hefst í Skálmarfirði í Reykhólahreppi kl. 12 á hádegi umræddan dag, og mér finnst líklegt að því ljúki við eyðibýlið Gervidal í Ísafirði innst í Ísafjarðardjúpi u.þ.b. þremur klukkustundum síðar. Vegalengdin er um 19 km og hækkunin rétt um 500 m. Öllum unnendum heilnæmrar útivistar og íslenskrar náttúru er meira en velkomið að slást í hópinn með mér, enda er maður alla jafna manns gaman.

Þegar þetta er skrifað er ég búinn að leggja 34 fjallvegi að baki, en sumarið í sumar er 7. sumarið síðan fjallvegahlaupverkefnið hófst vorið 2007. Verkefnið gengur út á að hlaupa 50 fjallvegi á 10 árum, þ.e.a.s. fyrir sextugsafmælið mitt á útmánuðum 2017. Skálmardalsheiðin verður sem sagt 35. fjallvegurinn – og þar með er verkefnið „á pari“, (svo gripið sé til golfmáls, sem mér er að öðru leyti ekki sérlega tamt). Síðustu 15 fjallvegirnir verða afgreiddir næstu þrjú sumur – og þar með lýkur verkefninu.

Skálmardalsheiði er ein fjölmargra heiða sem menn áttu erindi yfir fyrr á öldum en eru fáfarnar í seinni tíð. Eitt af markmiðum fjallvegahlaupaverkefnisins er að kynnast eigin landi og rifja upp söguna sem það geymir. Skálmardalsheiðin geymir sinn hluta af þeirri sögu. Þar hafa eflaust margir farið fagnandi yfir, en aðrir hafa tekið þar sín síðustu skref og mætt grimmum örlögum, sem ýmist voru spunnin af óblíðum veðrum eða vígamönnum á borð við Þorgeir Hávarsson sem batt snöggan enda á líf ribbaldans Butralda eftir stutt orðaskipti í Butraldabrekku, eins og sagt er frá í Fóstbræðrasögu. Þar var Butraldi önnum kafinn við að krafla sig upp brattan skafl með exi sinni og fann „eigi fyrr en Þorgeir hjó framan í fang honum og þar á hol“.

Nánari upplýsingar um fjallvegahlaupaverkefnið er að finna á www.fjallvegahlaup.is. Ef vel er leitað má þar m.a. finna drög að leiðarlýsingu fyrir Skálmardalsheiðina. Æskilegt væri að þeir sem hafa hug á því að skokka þennan spöl með mér létu vita af sér símleiðis (í síma 862 0538), í tölvupósti (stefan[hjá]environice.is) eða á Fésbókarsíðu fjallvegahlaupaverkefnisins. Sem fyrr segir fagna ég félagsskapnum, en tek þó fram að þátttaka í þessum ævintýrum er ævinlega á ábyrgð hvers og eins. Hlaupið hefst á Vestfjarðavegi (þjóðvegi nr. 60)  innst í Skálmarfirði, skammt frá eyðibýlinu Skálmardal. Þangað eru um 85 km frá vegamótunum neðst í Geiradal, þar sem ekið er yfir Þröskulda til Hólmavíkur, en um 285 km frá Reykjavík. Frá endamarkinu við Gervidal eru hins vegar um 70 km til Hólmavíkur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: