• Heimsóknir

  • 119.010 hits
 • mars 2023
  S M F V F F S
   1234
  567891011
  12131415161718
  19202122232425
  262728293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Hamingjuhlaup 1. júlí

Tertuhlaðborð á Hamingjudögum á Hólmavík 2014.

Laugardaginn 1. júlí nk. verður hlaupið til móts við hamingjuna á Hólmavík 9. árið í röð. Að þessu sinni liggur leiðin yfir fjallveginn Bæjardalsheiði, þannig að þetta er ekki bara hamingjuhlaup, heldur líka fjallvegahlaup. Þetta tvennt fer einstaklega vel saman. Leiðin öll er um 31,3 km að lengd og fer hæst í um 485 m hæð. Þeir sem ekki treysta sér alla leið geta auðveldlega valið að hlaupa hluta leiðarinnar, sbr. tímatöflu sem finna má neðar á þessari síðu.

Hamingjuhlaupið er fastur liður í bæjarhátíðinni Hamingjudögum á Hólmavík. Sú hefð hefur skapast að þegar hlaupararnir koma á leiðarenda fái þeir fyrstu sneiðarnar af árlegu hnallþóruhlaðborði sem þar er jafnan boðið upp á. Þetta hefur aukið hamingju þátttakenda enn frekar.

Lagt af stað úr Króksfirði
Hamingjuhlaupið yfir Bæjardalsheiði hefst kl. 11:10 á laugardag rétt vestan við Bæ í Króksfirði. Fyrir þá sem ekki vita hvar Króksfjörður er, þá er hann í Reykhólahreppi, ekki ýkja langt frá Króksfjarðarnesi, bara aðeins vestar. Upphafsstaður hlaupsins er nánar tiltekið á Vestfjarðavegi um 4,4 km vestan við vegamótin þar sem beygt er upp á Þröskulda. Enn nánar tiltekið er upphafsstaðurinn u.þ.b. 325 m vestan við bæinn Bæ í Króksfirði og hefur hnattstöðuna N65°30,71′ – V21°58,56′. Hlaupaleiðin liggur til norðurs, nokkurn veginn samsíða veginum upp á Þröskulda. Munurinn er bara sá að bílvegurinn liggur upp Gautsdal en hlaupaleiðin upp Bæjardal. Báðir enda þessir vegir hins vegar á sama stað Steingrímsfjarðarmegin.

Fróðleikur um leiðina
Leiðin yfir Bæjardalsheiði er ein nokkurra leiða sem menn gátu valið um á árum áður þegar þeir áttu erindi úr Reykhólasveit til Hólmavíkur, t.d. í verslunarleiðangra eftir að lauaskaupmenn hófu að stunda verslun í Skeljavík upp úr miðri 19. öld og eftir að Hólmavík fékk verslunarréttindi með konungsbréfi 3. janúar 1890. Tröllatunguheiði er dálítið austar og Laxárdalsheiði dálítið vestar, þ.e.a.s. sú Laxárdalsheiði sem sagt er frá í Fjallvegahlaupabókinni minni (leið nr. 5) og sem hlaupin var í Hamingjuhlaupinu 2015.

Bæjardalsheiði er afar fáfarin nú til dags og slóðin yfir hana sums staðar orðin ógreinileg. Fyrsta spölinn inn Bæjardal er þó fylgt greinilegum vegi, en af kortum að dæma virðist vegurinn gerast öllu frumstæðari þegar komið er á stað með hnattstöðuna N65°31,82′ – V21°57,62′ inn undir Selgili. Áfram er þó haldið sem leið liggur, enn eftir auðrötuðum slóða, upp á heiðina þar til komið er að þremur vötnum sem nefnast Lambavötn, vestan við svonefndar Bláfjallabrúnir. Leiðin liggur á vesturbakka syðsta vatnsins og miðvatnsins, (þ.e.a.s. vinstra megin við vötnin þegar hlaupið er sunnan frá). Vestan við miðvatnið er punktur með hnattstöðuna N65°33,31′ – V21°53,62′ og þangað eru u.þ.b. 7,15 km frá upphafsstaðnum. Rétt rúmlega hálfum kílómetra síðar er beygt til austurs sunnan við nyrsta vatnið (N65°33,52′ – V21°53,15′) og hlaupið áfram til norðurs eða norðaustur austan við það og áfram eftir háum hrygg með stefnu á Miðheiðarborg (494 m). Vestur og norður af Miðheiðarborg er allstórt vatn Gedduvatn. Þangað liggur leiðin þó ekki, enda kváðu þar þrífast hræðilega hættulegir fiskar, svonefndar eiturgeddur. Þær eru bláar á lit, eða kannski gylltar, og svo eitraðar að þær brenna gat á hvern þann flöt sem þær eru lagðar á, jafnvel löngu eftir að þær eru dauðar.

Sem fyrr segir liggur leiðin ekki að Gedduvatni, heldur er sveigt lítið eitt meira til austurs (til hægri) áður en þangað er komið og stefnan tekin á Þrívörður (N65°34,40′ – V21°50,99′). Þar er hæsti punktur leiðarinnar, um 485 m. yfir sjávarmáli. Að Þrívörðum eru u.þ.b. 10,4 km frá upphafsstaðnum. Þaðan er hægt að velja þrjár mismunandi leiðir norður af heiðinni og niður í Arnkötludal og allar eru þessar leiðir varðaðar að einhverju leyti. Greinilegasta leiðin liggur áfram nokkurn veginn beint frá Þrívörðum út fjallið, en þar hlóð fjallvegafélagið upp vörður á sínum tíma, líklega seint á 19. öld. Í þessu hlaupi verður hins vegar fylgt þeirri leið sem líklega var fjölförnust fyrr á öldum, þ.e.a.s. innstu leiðinni, í þeirri frómu trú að hún sé upphaflegust og þannig „mest ekta“, þó að lítið standi þar eftir af merkingum nema lúin vörðubrot og slóðin víðast orðin máð. Þessi leið liggur í austnorðaustur frá Þrívörðum, rakleiðis niður í Arnkötludal með stefnu á Víghól (N65°34,65′ – V21°47,63′) á vesturbakka Arnkötludalsár. Frá Þrívörðum eru u.þ.b. 2,8 km að Víghóli, þannig að þar er heildarvegalengdin frá upphafi komin í u.þ.b. 13,2 km.

Í Fóstbræðrasögu er sagt frá því þegar Þorgeir Hávarsson skrapp um öndverðan vetur frá Reykhólum norður að Hrófá í Steingrímsfirði til að drepa mann fyrir kónginn. Að loknu verki fór hann svo aftur að Reykhólum, eins og hann gerði gjarnan þegar hann var búinn að drepa einhvern. Til eru sagnir af því, þó að þess sé ekki getið í Fóstbræðrasögu, að honum og mönnum hans hafi verið veitt eftirför frá Hrófá og að slegið hafi í brýnu á Víghóli. Þar var barist með bareflum og grjóti, enda nóg til af því á svæðinu. Þrír lágt settir menn eiga að hafa týnt lífi í þessum átökum og verið dysjaðir í urðinni skammt frá hólnum, þar sem síðan heitir Dys.

Við Víghól liggur beinast við að vaða austur yfir ána, enda eru hún vatnslítil á venjulegum sumardegi. Á austurbakkanum er komið inn á aðalveginn til Hólmavíkur, Djúpveg, og um leið breytist hlaupið úr utanvegahlaupi í malbikshlaup. U.þ.b. einum kílómetra neðar liggur vegurinn vesturyfir ána og eftir u.þ.b. 2,2 km til viðbótar má sjá rústir eyðibýlisins Vonarholts á árbakkanum rétt fyrir neðan veginn. Síðustu ábúendurnir þar voru hjónin Sigurður Helgason og Guðrún Jónatansdóttir. Þau fluttu frá Vonarholti árið 1935 og settust að í Arnkötludal, einni bæjarleið neðar í dalnum. Þaðan fóru þau líka síðust manna árið 1957 þegar þau færðu sig niður að Hrófá þar sem þau bjuggu eftir það. Síðan þá hefur enginn búið í dalnum.

Við Vonarholt eru um 16,4 km að baki og 14,9 km eftir til Hólmavíkur. Arnkötludalsbærinn er um 6 km neðar í dalnum og stendur handan við ána. Frá Arnkötludal eru um 2,7 km niður að vegamótunum við Hrófá, þar sem valið stendur um að beygja til hægri og hlaupa inn Strandir, áleiðis til Akureyrar, eða til vinstri og taka stefnuna á Hólmavík. Frá þessum vegamótum eru um 6,9 km eftir af Hamingjuhlaupinu.

Endaspretturinn
Segja má að á vegamótunum við Hrófá ljúki fjallvegahlaupinu yfir Bæjardalsheiði og að við taki endasprettur Hamingjuhlaupsins. Hvernig sem þessari orðanotkun er háttað gerir tímaáætlun hlaupsins ráð fyrir að hamingjuhlaupararnir verði staddir við Hrófá kl. 14:40 á laugardag og að endaspretturinn þaðan taki nákvæmlega 50 mínútur að meðtaldri u.þ.b. einnar mínútu viðdvöl við lögreglustöðina á Kálfanesskeiði í útjaðri Hólmavíkur. Hlaupið endar að þessu sinni á túninu við Galdrasafnið og að vanda er þess að vænta að hlaupurum verði fagnað eins og þjóðhetjum þegar þangað er komið, (sbr. mynd í upphafi þessa pistils).

Tímaáætlun
Rétt er að minna á að Hamingjuhlaupið er ekki keppnishlaup, heldur halda hlaupararnir yfirleitt hópinn og fylgja fyrirfram gerðri tímaáætlun sem svipar mjög til strætisvagnaáætlunar. Áætlunin fyrir Hamingjuhlaupið 2017 fer hér á eftir.

Tímatafla Hamingjuhlaupsins 2017. (Smellið á myndina til að stækka hana).

Úr myndaalbúmum sögunnar
Eins og fram hefur komið verður þetta 9. Hamingjuhlaupið frá upphafi. Myndirnar hér að neðan gefa örlitla innsýn í sögu hlaupsins og fela í sér sönnun þess hversu mikil hamingja fylgir jafnan þátttökunni í því. Sé smellt á ártölin undir myndunum birtast sögulegar heimildir um viðkomandi hlaup, hafi þær á annað borð verið skráðar.

Hamingjuhlaupið 2009. Þarna byrjaði þetta allt saman – á Drangsnesi. F.v.: Arnfríður, Birkir, Guðmann, Ingimundur, Stefán, Þorkell og Eysteinn.

Hamingjuhlaupið 2010. Þetta var frekar fámennt en afskaplega góðmennt hlaup yfir Þröskulda. F.v.: Kristinn, Birkir, Stefán og Ingimundur.

Hamingjuhlaupið 2011. Á leið upp Bitruháls með Gunnlaug Júlíusson, Birki Stefánsson og Hafþór Benediktsson í broddi fylkingar.

Hamingjuhlaupið 2012 í ótrúlega góðu veðri norður í Reykjarfirði.

Hamingjuhlaupið 2013. Afskaplega hamingjusamir hlauparar í fjörunni í Djúpavík.

Hamingjuhlaupið 2014. Líf og yndi í grænum dal, Vatnadal.

Hamingjuhlaupið 2015. Fersk gleði á fjöllum, nánar tiltekið á Laxárdalsheiði.

Hamingjuhlaupið 2016. Á Bjarnarfjarðarhálsi með Birki, Hauk og Noémie fremstum meðal jafningja.

Helstu heimildir

 • Jón Guðnason (1955): Strandamenn. Æviskrár 1703-1953. Jón Guðnason, Reykjavík.
 • Jón Torfason o.fl. (ritstj.) (1985): Íslendingasögur. Fyrra bindi. Svart á hvítu, Reykjavík.
 • Matthías Lýðsson (2010): Lítið eitt um Arnkötludalhttp://strandir.is/litid-eitt-um-arnkotludal.
 • Sigurður Ægisson og Jón Baldur Hlíðberg (2008): Af öfuguggum og öðrum kynjaskepnum á Vestfjörðum. Í „Vestfirðir. Sumarið 2008“. H-prent ehf., Ísafjörður.

Sérstakar þakkir

 • Hafdís Sturlaugsdóttir fyrir aðstoð við leiðarlýsingu og GPS-mælingar
 • Hólmvíkingar fyrir góðar móttöku og hvatningu öll þessi ár

Fjallvegahlaupadagskrá 2015-2016

Ein af fjölmörgum góðum fjallvegahlaupum Sævars Skaptasonar. Þessi var tekin á Reykjaheiði 7. ágúst 2014.

Ein af fjölmörgum góðum fjallvegahlaupamyndum Sævars Skaptasonar. Þessi var tekin á Reykjaheiði 7. ágúst 2014.

Ég átti fimmtugsafmæli fyrir skemmstu. Þá ákvað ég að hlaupa 50 fjallvegi á næstu tíu sumrum. Og allt í einu eru átta af þessum sumrum liðin og bara tvö eftir – og hlaupnu fjallvegirnir eru orðnir 40 talsins. Það þýðir að nú eru bara 10 slíkir eftir og ekki seinna vænna að velta því fyrir sér hvaða fjallvegir það eigi að vera. Þar eru margir kallaðir en fáir útvaldir. Til að draga úr óvissunni birtast hér fyrstu drög að fjallvegahlaupadagskránni 2015-2016. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið!

1. Flatnavegur, laugardag 30. maí 2015 (#41)
Flatnavegur er um 14 km leið sem liggur frá Rauðamelsölkeldu í Eyja- og Miklaholtshreppi að Litla-Langadal á Skógarströnd. Þetta ætti að vera býsna viðráðanlegur spotti fyrir næstum hvern sem er. Leiðin fer varla í meira en 180 m hæð yfir sjó og er því alveg á mörkunum að standast inntökupróf í fjallvegahlaupaverkefnið. Þetta er frekar bara dalavegur, e.t.v. svolítið blautur á köflum. En fjölbreytnin er góð og gefur fleirum möguleika á að vera með. Nákvæmar tímasetningar hafa ekki verið ákveðnar, en seinni partur dagsins þykir einna álitlegastur í þessu sambandi. Á næstu vikum hefjast viðræður um uppsetningu á hugsanlegri grillaðstöðu Skógarstrandarmegin og ef þær ganga vel mætti hugsa sér að efnt verði til sameiginlegrar máltíðar að hlaupi loknu, þar sem hver um sig leggur til hráefni.

2. Þrístrendingur, laugardag 20. júní 2015
Næsta sumar verður Þrístrendingur hlaupinn í sjötta sinn. Sem fyrr verður lagt upp frá Kleifum í Gilsfirði kl. 10 eða 11 árdegis, hlaupið norður Steinadalsheiði í botn Kollafjarðar á Ströndum, þaðan yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf og loks þaðan suður Krossárdal að Kleifum. Leiðin öll er rúmir 40 km, og á henni eru þrír fjallvegir. Þetta er samt ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu mínu, því að þessar leiðir hef ég farið oft áður. En þessi hlaup eru alltaf skemmtileg! Ferðasögur frá liðnum sumrum eru geymdar í gagnaverum víða um heim. Dæmi um það er ferðasagan frá sumrinu 2014.

3. Hamingjuhlaupið, laugardag 27. júní 2015
Þennan dag verður kominn tími á 7. Hamingjuhlaupið, en það tilheyrir flokki skemmti- og félagshlaupa rétt eins og Þrístrendingur. Þarna er hlaupið eftir fyrirfram gerðri tímaáætlun sem svipar mjög til strætisvagnaáætlunar. Hamingjuleiðin 2015 liggur um Laxárdalsheiði frá Klukkufelli í Reykhólasveit, inn fyrir Þiðriksvallavatn og svo sem leið liggur til Hólmavíkur. Vegalengdin er sjálfsagt rúmlega 30 km og þeir sem ekki treysta sér alla leiðina geta slegist í hópinn hvar sem er eftir að komið er niður í Þiðriksvalladal. Þetta verður allt kynnt miklu betur þegar nær dregur, en þangað til er hægt að stytta sér stundir við lestur eldri frásagna af Hamingjuhlaupum, t.d. frá sumrinu 2014.

4. Strjúgsskarð, laugardag 11. júlí 2015 (#42)
Ég hef horft svo oft upp í Strjúgsskarð á leiðinni til Akureyrar að nú hlýtur að vera kominn tími til að hlaupa það. Þá er lagt af stað frá Strjúgsstöðum í Langadal, svo sem 17 km innan við Blönduós, hlaupið upp í skarðið og niður í Laxárdal, yfir hann, yfir Litla-Vatnsskarð og loks út Víðidal og Hryggjardal alla leið til Sauðárkróks. Þetta er því í raun meira en einn fjallvegur þó að ég hafi ákveðið að taka þetta sem eitt verkefni. Vegalengdin er eitthvað um 31 km.

5. Laugavegurinn, laugardag 18. júlí 2015
Laugavegurinn er ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu, en mér finnst bara svo gaman að hlaupa hann að ég get ekki sleppt því. Set hann því hér með til minnis. Hvet aðra til að hlaupa hann líka, en þá þarf maður náttúrulega að skrá sig fljótlega eftir að opnað verður fyrir slíkt í janúarmánuði.

6. Barðsneshlaupið, laugardag 1. ágúst 2015
Barðsneshlaupið fyrir austan er ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu, ekki frekar en Laugavegurinn. Mig hefur bara lengi langað til að hlaupa það og ætla að láta verða af því næsta sumar.

7. Víkurheiði og Dys, þriðjudag 4. ágúst 2015 (#43)
Víkurheiði liggur frá Stóru-Breiðuvík í Reyðarfirði út í Vöðlavík. Ég ætla hins vegar að beygja til norðurs á miðri leið og hlaupa um svonefnda Dys niður í Viðfjörð. Þar býst ég við að sagðar verði sögur af nýunnum afrekum í Barðsneshlaupinu og af Viðfjarðarundrunum, sem voru líklega minna skemmtileg. Leiðin öll er um 14 km og líklega hægt að komast á bíl til baka til byggða.

8. Berufjarðarskarð, fimmtudag 6. ágúst 2015 (#44)
Leiðin um Berufjarðarskarð liggur frá Höskuldsstöðum í Breiðdal í botn Berufjarðar. Vegalengdin er um 14 km, en ágætlega brött, fer mest í um 860 m hæð yfir sjó.

9. Haukadalsskarð, laugardag 15. ágúst 2015 (#45)
Haukadalsskarð liggur úr Haukadal í Dölum yfir að Brú í Hrútafirði. Þetta er aðgengilegur fjallvegur, enda jeppafær. Vegalengdin er eitthvað um 20 km. Heyrst hefur að seldir verði hamborgarar í Staðarskála að hlaupi loknu.

10. Þrístrendingur, laugardag 18. júní 2016
Sumarið 2016 verður Þrístrendingur hlaupinn í sjöunda sinn. Fjölyrði ekki frekar um það en vísa í það sem fram kemur framar í þessum pistli.

11. Hamingjuhlaupið, laugardag 25. júní 2016
Þennan dag verður kominn tími á 8. Hamingjuhlaupið, (sjá framar). Ekki er enn ljóst hvaða leið verður hlaupin í þetta skiptið.

12. Klofningsheiði, fimmtudag 14. júlí 2016 (#46, #47 eða #48)
Leiðin um Klofningsheiði liggur frá Flateyri og síðan niður Sunddal og Staðardal til Keravíkur, út fyrir Spilli og inn til Suðeyrar við Súgandafjörð. Leiðin upp er brött en hæst er farið í rúmlega 600 m hæð. Vegalengdin er áætluð um 14 km.

13. Vesturgatan, sunnudag 17. júlí 2016
Það vill svo skemmtilega til að Hlaupahátíðin á Vestfjörðum verður einmitt haldin dagana eftir Klofningsheiðarhlaupið. Hátíðin hefst á fimmtudag eða föstudag og nær hápunkti með Vesturgötunni á sunnudag. Þar ætla ég að vera, enda veit ég hvað maður fær góðar móttökur fyrir vestan. En Vesturgatan er svo sem ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu.

14. Sléttuheiði, þriðjudag 19. júlí 2016 (#47, #48 eða #49)
Hlaupaleiðin sem um ræðir liggur frá Sæbóli í Aðalvík, inn Staðardal, upp Fannadal, yfir Sléttuheiði og inn Hesteyrarbrúnir að Hesteyri. Leiðin er greiðfarin en gróf og eitthvað um 14 km að lengd. Boðið hefur verið upp á bátsferðir frá Ísafirði að Sæbóli kl. 9 á þriðjudagsmorgnum yfir sumarmánuðina og til baka frá Hesteyri seinni partinn. Dagsetning hlaupsins yfir Sléttuheiði miðast við að svipaðar ferðir verði enn í boði sumarið 2016. Þeir sem ekki treysta sér til að hlaupa þennan spöl geta væntanlega komist í gönguferð með leiðsögn þessa sömu leið, sem miðast einmitt við þessar sömu bátsferðir. Það er með öðrum orðum frekar einfalt að gera meira en bara hlaupaferð úr þessu.

15. Arnarvatnsheiði, laugardag 13. ágúst 2016 (#50)
Arnarvatnsheiðin verður síðasti fjallvegurinn í fjallvegahlaupaverkefninu. Dagsetningin er nokkurn veginn ákveðin, en e.t.v. er þó freistandi að færa hana fram til að fá lengri birtutíma. Lagt verður upp úr Miðfirði, væntanlega í grennd við Aðalból, að morgni dags og endað í námunda við Kalmanstungu í Borgarfirði þegar tekið verður að kvölda. Þessi spölur er eitthvað um 70 km og þar með langlengsti fjallvegurinn í verkefninu. Að hlaupi loknu verður fjallvegahlaupaverkefnið kvatt með formlegum hætti, en hver sá háttur verður kemur mun betur í ljós þegar nær dregur.

Eins og ráða má af upptalningunni hér að framan er enn ekki búið að taka ákvörðun um staðsetningu og tímasetningu tveggja fjallvegahlaupa sumarið 2016. Þar er reyndar úr vöndu að ráða, því að nóg er til af óhlaupnum fjallvegum og verkefnið tekur aðeins við 50 slíkum. Þeir fjallvegir sem helst hafa verið orðaðir við þessi tvö lausu sæti eru Sandsheiði (15 km) frá Barðaströnd vestur á Rauðasand, Kiðaskarð (17 km) frá Mælifelli í Skagafirði að Stafnsrétt í Svartárdal, Þingmannavegur (12 km) yfir Vaðlaheiði og Fimmvörðuháls (22 km) frá Skógum að Goðalandi í Þórsmörk. Öll góð ráð um þetta eru vel þegin, svo og hæfilegur hópþrýstingur frá þeim sem telja einhverjar leiðir öðrum nauðsynlegri.

Rétt er að taka fram að allt er þetta birt með fyrirvara um breytingar en svona lítur þetta alla vega út í andránni.

Sem fyrr vonast ég til að sem flestir sláist í för með mér í þessum hlaupum. Félagsskapurinn hefur verið mér mikils virði, enda skapast einhvern veginn þéttari og endingarbetri kynni á fjöllum en í byggð þar sem undirstaðan er malbik, fundarborð og tölvuskjáir.

Á harðaspretti niður Hörgárdal eftir fjallvegahlaup yfir Hjaltadalsheiði 5. ágúst 2014.

Á harðaspretti niður Hörgárdal eftir fjallvegahlaup yfir Hjaltadalsheiði 5. ágúst 2014. Þrír fremstu hlaupararnir á myndinni eru líka þau sem oftast hafa slegist í för með mér í fjallvegahlaupunum. Þar er hörð keppni í gangi!

Þrír fjallvegir framundan

Í næstu viku ætla ég að hlaupa þrjá fjallvegi á Norðurlandi á þremur dögum. Dagskráin er nánar tiltekið á þessa leið:

 1. Þriðjud. 5. ágúst: Hjaltadalsheiði frá Reykjum í Hjaltadal að Staðarbakka í Hörgárdal. Safnast saman að Hólum í Hjaltadal kl. 10:00 og ekið þaðan að Reykjum þar sem hlaupið hefst. Um 29 km, mesta hæð um 1.030 m. Áætlaður hlaupatími um 7 klst.
 2. Miðvikud. 6. ágúst: Leirdalsheiði frá Grýtubakka í Hvalvatnsfjörð (í Fjörðum). Brottför frá Grýtubakka kl. 10:00. Um 28 km, mesta hæð um 340 m. Áætlaður hlaupatími um 3,5 klst.
 3. Fimmtud. 7. ágúst: Reykjaheiði frá Reykjum í Ólafsfjarðardal til Dalvíkur. Brottför frá Reykjum kl. 10:00. Um 13-15 km, mesta hæð um 850 m. Áætlaður hlaupatími um 2,5 klst.

Mjög snjóþungt er enn til fjalla á Norðurlandi og gildir það m.a. um allar umræddar heiðar. Samkvæmt upplýsingum kunnugra ættu snjóþyngslin þó ekki að spilla fyrir hlaupunum. Jeppavegur er yfir Leirdalsheiði og var hann ruddur í þessari viku.

Öll eru þessi ferðalög hluti af fjallvegahlaupaverkefninu sem ég gaf sjálfum mér í fimmtugsafmælisgjöf 2007. Öllum er velkomið að slást í för með mér á eigin ábyrgð. Nokkrir hafa þegar gefið sig fram. Ekki er nauðsynlegt að skrá sig í hlaupin, en slíkt auðveldar þó samnýtingu ökutækja.

Meðfylgjandi mynd sýnir hlaupaleiðirnar í afar grófum dráttum, en drög að leiðarlýsingum birtast ef smellt er á nöfn leiðanna hér að framan. Grunnupplýsingar er einnig að finna á hlaup.is.

3heiðarweb

Skipt um heiði

Skálavíkurh og Grárófa

Lausleg yfirlitsmynd af umræddum leiðum, tekin að láni hjá Landmælingum Íslands. Skálavíkurheiðin er sú rauðari. Myndin stækkar ef smellt er á hana.

Fimmtudaginn 17. júlí nk. ætlaði ég að hlaupa yfir Grárófu frá Bolungarvík til Súgandafjarðar. Nú er ég hins vegar búinn að skipta um skoðun og ætla að hlaupa yfir Skálavíkurheiði í staðinn. En eftir sem áður verður lagt af stað í hlaupið á sama stað og sama tíma og áætlað hafði verið, þ.e.a.s. frá sundlauginni í Bolungarvík kl. 10:00 umræddan fimmtudag.

Ástæðan fyrir því að ég valdi Grárófu á sínum tíma var aðallega sú að mér þótti nafnið forvitnilegt, en það vísar til þess að oft er þokuslæðingur á heiðinni. Ég var alltaf með það í bakhöndinni að hlaupa Skálavíkurheiði í staðinn ef þokan myndi gera vart við sig þennan dag. Ég er vissulega ekki svo forspár að ég viti hvort þoka verði á Grárófu að morgni 17. júlí, en ég ákvað bara samt að skipta um heiði ekki seinna en núna. Ástæðurnar eru aðallega þrjár. Í fyrsta lagi er Skálavíkurheiðin miklu auðhlaupnari, því að þar er vegur en á Grárófu þarf jafnvel að klöngrast í klettum. (Þetta er reyndar frekar léleg ástæða því að erfiðar heiðar eru ekki síður skemmtilegar en þær auðveldu). Í öðru lagi er Skálavíkurheiðin miklu aðgengilegri fyrir aðstoðarmenn og fylgdarlið. Og í þriðja lagi held ég að þetta sé skynsamlegra val með tilliti til þess að ætlunin er að taka virkan þátt í Hlaupahátíð á Vestfjörðum í framhaldi af þessu þrítugastaogsjötta fjallvegahlaupi. Þetta vissi ég svo sem allt fyrir, en stundum verður maður skynsamari þegar nær dregur. Og grúsk mitt í heimildum um heiðarnar tvær sannfærði mig enn frekar.

Í framhaldi af fyrrnefndu grúski er ég búinn að taka saman stuttar leiðarlýsingar fyrir báðar heiðarnar. Þær má nálgast á síðunni fjallvegahlaup.is undir yfirskriftunum Grárófa og Skálavíkurheiði (merkilegt nokk). Allar leiðréttingar og ábendingar varðandi leiðarlýsingarnar eru vel þegnar.

Vonandi slást sem flestir í för með mér yfir Skálavíkurheiðina. Ég býst við að margir eigi eftir að koma þangað, þannig að þetta er gullið tækifæri.

Í Skálavík á sumardegi 2006.

Í Skálavík á sumardegi 2006.

Þrjú skemmtihlaup framundan

Thristrend2013 086webNæstu tvær vikur eru þrjú skemmtihlaup á dagskránni hjá mér, þ.e.a.s. hlaup sem ég hef átt þátt í að gera að veruleika í þeim tilgangi að gleðja sjálfan mig og aðra. Í þessum hlaupum vinna allir en enginn tapar. Hér á eftir gefur að líta örlítið nánari upplýsingar um þessa bráðskemmtilegu viðburði.

1. Leggjabrjótur, miðvikud. 18/6 kl. 16:00
Á miðvikudaginn ætla ég að gera aðra tilraun til að komast yfir Leggjabrjót frá Botnsskála í Hvalfirði að þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum. Þetta verður 35. hlaupið í fjallvegahlaupaverkefninu sem ég gaf sjálfum mér í fimmtugsafmælisgjöf vorið 2007. Já, þetta er sem sagt 2. tilraun, því að þann 24. maí sl. varð ég frá að hverfa eftir að hafa streðað upp úr Hvalfirðinum í hvössum mótvindi, vatnsverði og þoku. Við lögðum af stað 28 saman og komust öll til einhverra byggða á næstu klukkutímum, fæstir þó til þeirra byggða sem upphaflega var ætlunin. Sem betur fer varð engum meint af.

Veðurspáin er betri en síðast, en samkvæmt framtíðarspá Veðurstofunnar verður suðvestan og vestanátt og rigning hérna megin á landinu og hitinn líklega um 9 stig á láglendi. Þetta er reyndar ekkert óskaplega ólíkt því sem var 24. maí, nema hvað vindurinn verður ívíð hægari en síðast og blæs rigningunni í bakið á hlaupurunum en ekki fangið. Mig grunar að þetta verði bara fínt. En maður þarf samt að klæða sig sómasamlega.

Öllum er sem fyrr velkomið að slást í för með mér á eigin ábyrgð. Upplýsingar um hlaupið er að finna á hlaup.is og á Facebooksíðu fjallvegahlaupahópsins.

Við upphaf ferðarinnar sem aldrei var farin (nema af 6 ofurhetjum) yfir Leggjabrjót 24. maí 2014. (Ljósm. Ólafur Gunnar Sæmundsson).

Við upphaf ferðarinnar sem aldrei var farin (nema af 6 ofurhetjum) yfir Leggjabrjót 24. maí 2014. (Ljósm. Ólafur Gunnar Sæmundsson).

2. Þrístrendingur, laugard. 21/6 kl. 11:00
Laugardaginn 21. júní verður fjalla- og skemmtihlaupið Þrístrendingur haldið í fimmta sinn. Þarna er ekki keppt við tímann heldur miklu frekar keppst við að njóta dagsins og félagsskaparins. Hlaupið er öllum opið og þátttakendur velja sjálfir hvort þeir hlaupa alla leiðina eða bara einn eða tvo áfanga af þremur. Heildarvegalengdin er rétt um 41 km í þremur áföngum (u.þ.b. 20+10+11 km). Fyrsti áfanginn er frá Kleifum í Gilsfirði yfir Steinadalsheiði að Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði. Þessi spölur er allur hlaupinn á bílvegi, sem er einmitt nýbúið að opna fyrir sumarumferð. Vegurinn er fær öllum fjórhjóladrifnum bílum en varasamur fyrir eindrifsbíla. Næsti áfangi er frá Stóra-Fjarðarhorni yfir Bitruháls að Gröf í Bitru, þar sem ábúendur taka á móti hlaupurum með kaffi og pönnukökum. Lokaáfanginn er svo frá Gröf um Krossárdal aftur að Kleifum. Þarna er sem sagt hlaupið tvisvar þvert yfir Ísland á einni dagstund. Oft er hægt að fá far milli áfangastaða, en hlaupahaldarar skipuleggja enga flutninga. Nánari upplýsingar er að finna á hlaup.is, auk þess sem Internetið er hálffullt af ferðasögum úr Þrístrendingum síðustu fjögurra ára. Svo er Þrístrendingur líka til sem viðburður á Facebook. Þar er upplagt að láta vita af þátttöku, enda nauðsynlegt að hafa sæmilega hugmynd um fjöldann til að hægt sé að baka nóg af pönnukökum. (Þeir sem vilja renna fyrir lax í leiðinni geta keypt veiðileyfi á www.krossa.is). 🙂

Frá Þrístrendingi í fyrra. Blíðviðri, frelsi og friður.

Frá Þrístrendingi í fyrra. Blíðviðri, frelsi og friður.

3. Hamingjuhlaupið, laugard. 28/6 kl. 10:50
Laugardaginn 28. júní er röðin komin að hinu árlega Hamingjuhlaupi, en það fer nú fram í 6. sinn í tengslum við bæjarhátíðina Hamingjudaga á Hólmavík. Leiðin breytist ár frá ári og liggur að þessu sinni frá Kleifum í Gilsfirði um Vatnadal til Steingrímsfjarðar og áfram eftir veginum til Hólmavíkur, en þessa leið riðu móðurbræður mínir á sínum yngri árum áleiðis á böll á Ströndum. Síðan eru liðin mörg ár, enda téðir móðurbræður fæddir um aldamótin 1900. Frómt frá sagt verða hófför bræðranna þó ekki þrædd alveg frá byrjun, því að leiðin er valin með hliðsjón af því að hún sé sem aðgengilegust. Þess vegna verða fyrstu kílómetrarnir úr Þrístrendingi endurnýttir og lagt af stað áleiðis upp á Steinadalsheiði. Þar verður beygt þvert úr leið um vegleysur yfir í Vatnadal og svo áfram sem leið liggur niður dalinn.  Heildarvegalengdin er um 37 km og er seinfarin að hluta. Á Hólmavík mun eitt glæsilegasta hnallþóruhlaðborð Evrópska efnahagssvæðisins bíða hlauparanna, sem njóta munu þeirra forréttinda að fá að skera fyrstu sneiðarnar og sporðrenna þeim. Til að ekkert fari úrskeiðis (þ.e. til að enginn sleppi í terturnar á undan hlaupurunum) er nauðsynlegt að hlaupinu ljúki á fyrirfram ákveðnum tíma, þ.e.a.s. stundvíslega kl. 16:00. Til að auðvelda þetta og gera fólk kleift að slást í hópinn einhvers staðar á leiðinni fer hlaupið fram eins og hver önnur strætóferð, í þeim skilningi að hlaupararnir verða á tilteknum stöðum á tilteknum tímum. Tímatöflu og aðrar helstu upplýsingar er að sjálfsögðu að finna á hlaup.is. Þar eru líka tenglar á glaðlegar frásagnir af fyrri hamingjuhlaupum.

Frá Hamingjuhlaupinu í fyrra. Svona lagað er aðeins á færi hamingjusamra. Aðrir geta yfirleitt ekki flogið.

Frá Hamingjuhlaupinu í fyrra. Svona lagað er aðeins á færi hamingjusamra. Aðrir geta yfirleitt ekki flogið.

Hopað af Leggjabrjóti

Í morgun lagði ég upp í 35. fjallvegahlaupið. Ferðinni var heitið yfir Leggjabrjót, um 23 km leið frá Botnsskála að Þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum. Ég hef stundum lent í leiðindaveðri í hinum 34 fjallvegahlaupunum, en nú þurfti ég í fyrsta sinn að játa mig sigraðan. Sneri sem sagt við eftir 8 km barning á móti suðaustan hvassviðri, rigningu og þoku. Það var í sjálfu sér ekki erfið ákvörðun. Það erfiðasta var að vita ekki með vissu hvernig samferðafólkinu myndi reiða af. Þetta fór allt vel og fól í sér holla áminningu um það hversu lítið má út af bera á svona ferðalögum.

Veðurspáin
Veðurspáin fyrir daginn var svona í meðallagi, útlit fyrir suðaustan stinningskalda og svolitla rigningu annað slagið, í það minnsta fram eftir morgni. Reyndin varð önnur, því að vindurinn var miklu hvassari en ætla mátti af spánni og úrkoman meiri allan tímann. Hitastigið var hins vegar það sama og vænta mátti, um 11°C á láglendi og sjálfsagt um 6°C uppi á Leggjabrjót. Sú tala ber engan vott um mikinn kulda, nema í roki og rigningu.

Botnsskáli árdegis
Um 10-leytið í morgun hafði allstór hópur hlaupara safnast saman við Botnsskála innst í Hvalfirði. Fáum leist vel á veðrið, því að strax þarna á hlaðinu var ljóst að vindur og úrkoma yrðu til trafala. Samt var lagt af stað í góðri trú, enda glitti í sólina í gegnum skýin annað slagið.

Efasemdir á fyrstu metrunum
Eftir um 2,5 km var komið að bílastæðinu við Stóra-Botn. Þessi spölur er svo sem auðveldur yfirferðar, en það fór ekki fram hjá mér að framhaldið gæti orðið erfitt á móti vindinum. Svo var ég frekar sparlega klæddur og auðvitað orðinn gegnblautur fyrr en varði. Strax á þessum fyrstu metrum var ég mjög tekinn að efast um að það væri góð hugmynd að stefna öllu þessu fólki til fjalla, enda hópurinn óvenju fjölskrúðugur með tilliti til hraða og reynslu. Þessi breytileiki endurspeglaðist í því að á skammri stundu teygðist mikið úr hópnum. Það þýddi um leið að erfitt kynni að reynast að smala liðinu saman ef á þyrfti að halda.

… 26, 27, 28
Ég vandaði mig við að telja fólk í gegnum hliðið við Stóra-Botn, rétt eins og kindurnar voru taldar inn og út úr fjárhúsunum heima í gamla daga. Við svona aðstæður er nauðsynlegt að hafa örugga tölu á liðinu, því að hvergi var til nein nothæf skrá yfir þátttakendur. Í hópnum reyndust vera 28 manns, eða nánast tvöfalt fleiri en í nokkru fjallvegahlaupi til þessa.

Hálf samloka og heil ákvörðun
Neðst í túninu í Stóra-Botni mætti ég ofurhlauparanum Sigurði Kiernan. Hann var að koma ofan af Leggjabrjóti ásamt þremur öðrum úr landsliði ofurhlaupara. Þau höfðu upphaflega ætlað að gera úr þessu „samloku“, þ.e.a.s. að hlaupa fyrst frá Þingvöllum í Hvalfjörð og slást svo í för með okkur á bakaleiðinni. Sigurður sagði mér að veðrið uppi á Leggjabrjóti væri afleitt, mikið hvassviðri og úrkoma og svartaþoka á köflum. Þau hefðu engan veginn getað ratað þarna yfir nema með aðstoð GPS-tækja. Eftir að ég kvaddi Sigurð var ég ákveðinn í að snúa hópnum við. Vandinn var bara sá að ég var orðinn síðastur og því varla um annað að ræða en að reyna að hlaupa hina uppi. Eflaust voru margir með síma, en ólíklegt að hringingar heyrðust í veðurhamnum.

Sammála ofurhlauparar
Skömmu síðar mætti ég hinum ofurhlaupurunum, fyrst Guðmundi Smára og síðan Elísabetu og Hlyn. Þau tóku öll í sama streng, þetta væri nógu slæmt undan veðrinu og alls ekki fyrir aðra en þaulvant fjallafólk.

Skynsamt fólk undir vörðu og skipulegt undanhald
Mér gekk misvel að elta liðið uppi, en það hafðist smátt og smátt. Lagði mikla áherslu á að vera alltaf með talninguna á hreinu. Eftir 7 km hlaup náði ég 6 manna hópi sem hafði komið sér í var undir stórri vörðu í u.þ.b. 400 m hæð. Þar var ákveðið að snúa við og smala öllum til baka, en ég hélt áfram enn um sinn til að reyna að hafa upp á þeim sem enn vantaði í töluna. Það voru þeir sex alhörðustu. Eftir áttunda kílómetrann og 100 m hækkun til viðbótar sá ég enn ekkert til mannaferða og reyndar varla til neins annars heldur. Sjálfur var ég orðinn verulega kaldur og stirður enda engan veginn búinn út í þetta veður. Miðaði auk heldur lítið áfram á móti vindinum. Ákvað því að snúa við og treysta því að allt færi vel hjá hinum. Bakaleiðin var léttari og fljótfarnari undan brekkunni, en kuldinn sótti að.

Þeir alhraustustu
Svona breytingar á ferðaskipulagi geta skapað alls konar vandamál í fólksflutningum, sem voru þó svo sem búnir að vera nógu mikið púsluspil. En allt gekk þetta einhvern veginn og innan stundar voru flestir eða allir lagðir af stað akandi í misblautum fötum og misblautum bílum í ýmsar áttir, allt eftir því hvaða verkefni þurfti að leysa til að loka málinu. Sjálfur ók ég sem leið lá til Þingvalla með afar þéttsetinn bíl. Þar beið mín bílaleigubíll sem ætlunin hafði verið að nota til að flytja hluta af hópnum til baka. Vonin var auðvitað sú að þegar þangað kæmi myndum við fá einhverjar fréttir af sexmenningunum hraustu. Það gekk eftir, því að þeir skeiðuðu í hlað við þjónustumiðstöðina hver af öðrum rétt eftir að við renndum í hlað, búnir að vera rétt um 3 klst. á leiðinni, sem var bara svipaður tími og ég hafði reiknað með að ferðin tæki í þokkalegu veðri.

Vel þegin fataskiptaskemma
Nú kom sér vel að Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, hafði góðfúslega leyft mér að hafa afnot af stórri skemmu sem þjóðgarðurinn notar undir tól sín og tæki. Þarna var einkar hentugt að hafa fataskipti. Við sem komum akandi vorum flest enn í blautum fötum því að þau þurru biðu okkar í bílaleigubílnum. Og sexmenningarnir voru auðvitað með þónokkur kíló af vatni í farteskinu.

Sexmenningasaga
Það var eðlilega töluverður léttir að hitta sexmenningana. Þeim hafði sóst ferðin þokkalega þrátt fyrir mikinn mótvind og vætu. Þrír höfðu ratað rétta leið allan tímann, enda tilbúnir með GPS-punkta í einu hlaupaúrinu. Hinir þrír villtust hins vegar af leið, en áttuðu sig á að ekki var allt með felldu þegar hvassviðrið var allt í einu farið að standa í bakið á þeim. Þar var GPS-tæki sem betur fer líka með í för, og þegar kveikt var á því kom í ljós að þeir voru langt komnir með að hlaupa hring í kringum Sandvatn. Þessi krókur bætti um 3 km við hlaupaæfingu dagsins hjá þeim.

Frá A til B með A sem Plan B
Segir nú ekki frekar af þessu ferðalagi, enda bíður hin eiginlega fjallvegahlaupasaga þess tíma þegar leikurinn verður endurtekinn með fullnaðarárangri. Eftir standa 4 heilræði:

 1. Gerið alltaf ráð fyrir að veður sé enn verra á fjöllum en í byggð.
 2. Hikið ekki við að snúa við, þó að það sé víst oftast erfiðasta ákvörðunin á svona ferðalögum.
 3. Geymið föt og vistir við báða enda fyrirhugaðra hlaupaleiða, því að það er vont að grípa í tómt ef maður neyðist til að snúa við. (Með öðrum orðum: Þegar þið hlaupið frá A til B skulið þið alltaf vera með Plan B um að enda á A).
 4. Gefið ykkur tíma til að setja GPS-punkta inn í hlaupaúrin ykkar áður en lagt er á fjallvegi.
Hlaupið mitt í dag, svo langt sem það náði.

Hlaupið mitt í dag, svo langt sem það náði.

Skálmardalsheiði 31. ágúst

Skálmardalsheiði yfirlitskort ja 200

Laugardaginn 31. ágúst nk. ætla ég að hlaupa yfir Skálmardalsheiði, en hlaupið er liður í fjallvegahlaupaverkefninu sem ég gaf sjálfum mér í fimmtugsafmælisgjöf hérna um árið. Hlaupið hefst í Skálmarfirði í Reykhólahreppi kl. 12 á hádegi umræddan dag, og mér finnst líklegt að því ljúki við eyðibýlið Gervidal í Ísafirði innst í Ísafjarðardjúpi u.þ.b. þremur klukkustundum síðar. Vegalengdin er um 19 km og hækkunin rétt um 500 m. Öllum unnendum heilnæmrar útivistar og íslenskrar náttúru er meira en velkomið að slást í hópinn með mér, enda er maður alla jafna manns gaman.

Þegar þetta er skrifað er ég búinn að leggja 34 fjallvegi að baki, en sumarið í sumar er 7. sumarið síðan fjallvegahlaupverkefnið hófst vorið 2007. Verkefnið gengur út á að hlaupa 50 fjallvegi á 10 árum, þ.e.a.s. fyrir sextugsafmælið mitt á útmánuðum 2017. Skálmardalsheiðin verður sem sagt 35. fjallvegurinn – og þar með er verkefnið „á pari“, (svo gripið sé til golfmáls, sem mér er að öðru leyti ekki sérlega tamt). Síðustu 15 fjallvegirnir verða afgreiddir næstu þrjú sumur – og þar með lýkur verkefninu.

Skálmardalsheiði er ein fjölmargra heiða sem menn áttu erindi yfir fyrr á öldum en eru fáfarnar í seinni tíð. Eitt af markmiðum fjallvegahlaupaverkefnisins er að kynnast eigin landi og rifja upp söguna sem það geymir. Skálmardalsheiðin geymir sinn hluta af þeirri sögu. Þar hafa eflaust margir farið fagnandi yfir, en aðrir hafa tekið þar sín síðustu skref og mætt grimmum örlögum, sem ýmist voru spunnin af óblíðum veðrum eða vígamönnum á borð við Þorgeir Hávarsson sem batt snöggan enda á líf ribbaldans Butralda eftir stutt orðaskipti í Butraldabrekku, eins og sagt er frá í Fóstbræðrasögu. Þar var Butraldi önnum kafinn við að krafla sig upp brattan skafl með exi sinni og fann „eigi fyrr en Þorgeir hjó framan í fang honum og þar á hol“.

Nánari upplýsingar um fjallvegahlaupaverkefnið er að finna á www.fjallvegahlaup.is. Ef vel er leitað má þar m.a. finna drög að leiðarlýsingu fyrir Skálmardalsheiðina. Æskilegt væri að þeir sem hafa hug á því að skokka þennan spöl með mér létu vita af sér símleiðis (í síma 862 0538), í tölvupósti (stefan[hjá]environice.is) eða á Fésbókarsíðu fjallvegahlaupaverkefnisins. Sem fyrr segir fagna ég félagsskapnum, en tek þó fram að þátttaka í þessum ævintýrum er ævinlega á ábyrgð hvers og eins. Hlaupið hefst á Vestfjarðavegi (þjóðvegi nr. 60)  innst í Skálmarfirði, skammt frá eyðibýlinu Skálmardal. Þangað eru um 85 km frá vegamótunum neðst í Geiradal, þar sem ekið er yfir Þröskulda til Hólmavíkur, en um 285 km frá Reykjavík. Frá endamarkinu við Gervidal eru hins vegar um 70 km til Hólmavíkur.

Snjáfjallahringurinn að baki

Síðastliðinn laugardag (28. júlí 2012) hljóp ég Snjáfjallahringinn með 5 góðum hlaupafélögum. Þetta voru rétt um 60 km og við vorum rúma 13 tíma í ferðinni. Allt gekk þetta eins vel og hægt er að hugsa sér. Þetta verður góður dagur í minningunni, lengi!

Aðdragandinn
Á Snjáfjallahringnum eru þrír fjallvegir, sem ég ákvað að hafa með í fjallvegahlaupaverkefninu mínu. Reyndar vissi ég ekkert um þessa fjallvegi fyrir 5 árum þegar ég byrjaði að skipuleggja fjallvegahlaupin. Kveikjan að því að ég setti einmitt þessar leiðir á listann var lestur bókarinnar Harmur englanna eftir Jón Kalman Stefánsson, sem kom út fyrir jólin 2009. Þar er sagt frá ferð stráksins með Jens pósti norður yfir Ísafjarðardjúp, yfir Snæfjallaheiði til Grunnavíkur og áfram inn Staðarheiði. Reyndar varð póstferðin lengri og endaði eiginlega á Hesteyri, en það er önnur saga. Að vísu heita heiðarnar eitthvað annað í sögu Jóns Kalmans, en eftir að hafa lesið þessa bók og hinar bækurnar tvær í sama þríleik, fannst mér ég þekkja þessar heiðar, hvað sem þær heita, og hafa jafnvel verið þar á göngu með hest í þrálátu norðanáhlaupi á löngu liðnu vori. Þess vegna vissi ég, strax að lestri loknum, að þessar heiðar þyrfti ég að hlaupa.

Undirbúningurinn
Eins og fyrr segir er Snjáfjallahringurinn rétt um 60 km og liggur um þrjá fjallvegi. Maður stendur ekkert upp úr sófanum og hleypur svoleiðis hring án sæmilegs undirbúnings. Ég var enda staðráðinn í að undirbúa mig vel líkamlega með miklum hlaupum, þó að auðvitað væri ég svo sem búinn að byggja upp ágætan grunn á þeim allmörgu mánuðum og árum sem ég hef kynnst hlaupaskónum mínum meira en sófanum.

En sumt fer öðruvísi en ætlað er. Tognun í maí kom að mestu í veg fyrir hlaupaæfingar sumarsins, þannig að í stað þess að Snjáfjallahringurinn yrði uppskeruhátíð eftir vel heppnaðar æfingar, varð hann prófsteinn á hvort heilsan væri komin í þokkalegt lag. Svoleiðis prófsteinar mega sem best vera minni en þessi, en ég var samt nokkuð viss um að ég hefði þrek í verkefnið. Ekki vill maður heltast úr lestinni á miðri leið og vera upp á aðra kominn með að komast til byggða.

Líkamlegur undirbúningur dugar skammt einn og sér. Til þess að hlaupa Snjáfjallahringinn þarf líka að huga að andlegum og sagnfræðilegum undirbúningi. Andlegi undirbúningurinn er eitthvað sem síast inn með árunum, því að reynslan kennir að maður getur flest það sem maður ætlar sér. Svo þarf að hugsa dálítið um vegalengdina. Ég hafði t.d. aldrei áður farið lengra en 55 km á einum degi, og það á mun auðveldara undirlagi, nefnilega á Laugaveginum. Því þurfti hugurinn að glíma við vitneskjuna um að framundan væri eitthvað stærra en það sem ég hafði gert áður. Á öxlum flestra búa hræðslupúkar sem hvísla því í eyru að allt sé ömögulegt sem ekki hefur verið gert áður. Þeir hafa rangt fyrir sér, en til þess að vita það þarf vissan þroska.

Sagnfræðilegi undirbúningurinn þarf ekki að vera óskaplega sagnfræðilegur, en það er samt skemmtilegra að vera búinn að kynna sér leiðina sem maður ætlar að hlaupa, leggja nokkur örnefni á minnið og setja sig örlítið inn í söguna sem býr í tóftarbrotum og snarbröttum hlíðum. Sagan skiptir máli, og það auðgar líf manns að reyna að skilja viðfangsefni genginna kynslóða og finna hvernig gleði þeirra og sorgir hafa mótað mann sjálfan. Allt þetta bætir samúð, aðdáun og þakklæti við allar hinar tilfinningarnar sem maður upplifir á leiðinni.

Ferðin vestur
Daginn fyrir hlaupið ókum við hjónin vestur á Snæfjallaströnd með hjólhýsið sem löngum hefur fylgt okkur á hlaupaferðum síðustu 5 sumur. Á leiðinni höfðum við viðkomu á Hólmavík, þar sem ræturnar liggja. Um kvöldið var svo hjólhýsinu lagt á tjaldstæðinu við Dalbæ, og þangað komu líka hjónin Sævar og Bryndís, að ógleymdri Fríðu, sem hefur verið öðrum ötulli við að veita mér félagsskap í fjallvegahlaupum. Kvöldið var kyrrlátt ef frá er talinn brekkusöngur þeirra sem tóku þátt í fjölskylduhátíð í Dalbæ þessa sömu helgi.

Föstudagskvöld á tjaldstæðinu við Dalbæ. Lengst í vestri má eygja Traðarhyrnu ofan við Bolungarvík.

Lagt af stað
Laugardagsmorgunninn rann upp bjartur og fagur. Veðurguðirnir gengu í lið með okkur og buðu upp á suðvestan golu, bjartviðri og 10-15 stiga hita. Betra gat það ekki verið. Við vorum komin á stjá upp úr kl. 7 um morguninn og nokkru síðar birtust síðustu hlaupararnir, Strandamennirnir Birkir og Rósmundur. Þá var okkur ekkert að vanbúnaði. Klukkan 9 var sest upp í tiltæka bíla og ekinn tæplega kílómetra langur spölur frá Dalbæ út að vegamótunum við Dalsá. Þaðan var hlaupið af stað kl. 9:09.

Hópurinn ferðbúinn við Dalsá. F.v.: Birkir Þór Stefánsson, Rósmundur Númason, Stefán Gíslason, Bryndís Óladóttir, Sævar Skaptason og Arnfríður Kjartansdóttir. (Ljósmynd: Björk Jóhannsdóttir, hjálparhella nr. 1).

Fyrsti spölurinn niður að kirkjunni í Unaðsdal.

Snæfjallaströndin
Snæfjallaströndin var sannarlega falleg þennan dag. Okkur sóttist ágætlega ferðin út fyrir Tirðilmýri og að Hávarðsstöðum þar sem Hávarður Ísfirðingur bjó til forna og átti svo margt fé að þegar það rann í sporaslóð upp hlíðina ofan við bæinn bar fyrstu kind við himinn þegar sú síðasta var við túngarðinn. Reyndar sáum við aldrei Hávarðsstaði, heldur bara tún Engilberts og Öddu, sem bjuggu á Tirðilmýri fram til ársins 1987.

Bílfær vegarslóði liggur út fyrir Tirðilmýri, en þegar honum sleppir liggur leiðin niður í fjöruna og við tekur misgóð gata sem hefur mótast í áranna og aldanna rás undan fótum kinda, hesta og manna. Nú er ströndin öll löngu komin í eyði og fáir á ferli nema fáeinir göngumenn og hestaferðalangar. Enga slíka hittum við þó þennan dag.

Eftirminnilegasta kennileitið á ströndinni er Möngufoss í Innraskarðsá. Hann fellur niður af hömrum ofan við eyðibýlið Hlíðarhús og er sagður býsna líkur Öxarárfossi, nema miklu hærri og tilkomumeiri. Þetta get ég staðfest eftir ferðalag laugardagsins.

Ég hafði frétt að Innraskarðsá væri bæði vatnsmikil og straumþung. Það var rétt. Hins vegar hafði ég ekki frétt að á henni væri þessi fyrirtaks göngubrú. Það var kærkomin uppgötvun, því að þó maður sé sjaldnast alveg þurr á fótunum í fjallvegahlaupum, þá eru straumþungar ár ekki ofarlega á óskalistanum.

Hópmynd á göngubrúnni yfir Innraskarðsá. Möngufoss í baksýn.

Örnefnið Innraskarð gefur vísbendingu um að líka sé til eitthvað sem heitir Ytraskarð. Sú er líka raunin, og þar er sömuleiðis búið að koma fyrir göngubrú. Utan við Ytraskarðsá stóð bærinn Skarð, sem fór í eyði 1938 og tók síðan af í snjóflóði 1944 eða þar um bil. Þarna voru líka fleiri bæir fram yfir aldamótin 1900.

Við komum að Ytraskarðsá kl. 10:53 og vorum þá búin að vera nákvæmlega 1 klukkustund og 44 mínútur að skokka þennan spotta frá Unaðsdal. Spottinn reyndist vera 10,82 km, sem þýddi að meðalhraðinn okkar hafði verið 6,24 km/klst. Það var talsvert hægara en ég hafði reiknað með, enda leiðin seinfarnari en ætla mátti. Eins höfðum við gefið okkur góðan tíma til að skoða okkur um, rifja upp sögur og narta í nesti. Ég hafði ætlað 11 tíma í ferðalagið allt, en þóttist nú sjá að tímarnir yrðu varla færri en 12. En það skipti svo sem engu máli. Við vorum ekki í keppni við tímann, heldur var markmiðið að njóta dagsins og koma heil heim.

Hópmynd á göngubrúnni yfir Ytraskarðsá.

Rétt utan við Ytraskarð gengur dálítill vogur inn í ströndina, sem Skarðsbót nefnist. Þar sáum við leifar af báti, sem greinilega hafði lent þarna í úreldingu fyrir allmörgum áratugum. Mér datt strax í hug að þetta væri báturinn sem strákurinn og Jens fengu lánaðan og réru á yfir djúpið. Reyndar held ég að þeir hljóti að hafa tekið land utar – og svo var báturinn þeirra örugglega ekki svona stór. Og þó? Gæti þetta ekki alveg verið? Ég veit alla vega ekki til að þeir hafi skilað bátnum. Hvar liggja annars mörkin á milli sagnar og veruleika?

Minjar í Skarðsbót undir Skarðshyrnu.

Segir nú fátt af ferðum okkar fyrr en við komum að Sandeyri. Gatan þangað var víða ógreinileg, og ýmist fórum við um mýrar eða sjávarkamb. En þarna er engin villuhætta, því að á þessu landi er ekkert nema misbreið strönd undir bröttum grænum brekkum. Á Sandeyri var löngum stórbýli, enda útræði og jafnvel vísir að spænskri hvalveiðistöð fyrr á öldum. Nú er þar fátt að sjá nema reisulegt tveggja hæða íbúðarhús úr steini, sem byggt var árið 1908 og er nú nýtt sem slysavarnarskýli. Innandyra bar margt athyglisvert fyrir augu, bæði gamla muni og Alþingistíðindi frá 1933. En þeir sem nýta húsið mættu ganga betur um.

Þegar horft er á þessa mynd er auðvelt að ímynda sér Sævar og Bryndísi sem húsráðendur á Sandeyri. En óreiðan innan dyra sýnir svo ekki verður um villst að svo er ekki.

Við yfirgáfum Sandeyri kl. 11.53. Þarna voru 15,44 km og 2:44 klst. að baki og búið að leggja allar tímaáætlanir til hliðar. Um það bil kílómetra utar er Berjadalsá þar sem Sumarliði póstur bjó dag þann í desember 1920 sem hann lagði upp í síðustu ferð sína yfir Snæfjallaheiði. Á bökkum árinnar stóðu líka nokkur fleiri tómthúsbýli og þaðan stunduðu vermenn útróðra, m.a. vermenn úr Strandasýslu. Nú er lítið sýnilegt af mannvirkjum, ef frá er talið gönguleiðaskilti sem minnir á að hér byrjar Snæfjallaheiðin.

Stefán og Rósmundur við gönguleiðaskiltið við Berjadalsá.

Berjadalsá er brúuð, en þar er þó greinilega minna lagt í brúargerðina en innar á ströndinni.

Snæfjallaheiðin
Snæfjallaheiðin var fyrsti fjallvegur dagsins. Reyndar skilgreini ég ströndina og heiðina sem eitt og sama viðfangsefnið í fjallvegahlaupaverkefninu mínu, því að maður kemst ekki auðveldlega á tveimur jafnfljótum yfir heiðina án þess að skokka ströndina fyrst.

Áður en ég byrjaði að fikra mig upp bratta götuna upp á heiðina, tók ég upp símann og hringdi í Grunnavík. Þar hafði ég pantað mat fyrir hópinn og fannst rétt að tilkynna um þá seinkun sem orðin var á ferðalaginu. Einhvern veginn hefði mér fundist rétt að grípa þarna til Kristjaníusímans úr æsku minni og hringja svo sem tvær stuttar og tvær langar, eða hver sem hringingin í Sútarabúðum í Grunnavík annars var. En sumt breytist þó að tíminn standi svolítið eins og kyrr. Þarna var til dæmis rífandi GSM-samband, enda Ísafjarðarkaupstaður næstum í seilingarfjarlægð handan við Djúpið.

Horft af Snæfjallaheiði yfir Ísafjarðarkaupstað.

Leiðin upp á Snæfjallaheiði er auðrötuð í svona góðu sumarveðri, enda gatan greinileg og vel vörðuð. Þegar mestu brekkurnar eru að baki liggur leiðin alllangan spöl eftir Reiðhjalla, sem sýnist fljótt á litið tiltölulega flatur. Samt er þetta allt á fótinn. Sums staðar voru dý og annars staðar skaflar. Burknar uxu í hlíðum.

Uppi á hjallanum fundum við þetta ágæta byrgi, hæfilega stórt fyrir Birki.

Við gættum þess auðvitað að fara ekki of nærri brúnum Súrnadals, sem gengur þarna inn í heiðina vestantil. Þar niður er sagt að 19 manns hafi hrapað til bana, og að þau álög hvíli á að þeir skuli verða 20. Kannski fyllti Sumarliði póstur kvótann, en líklegra er að hann teljist ekki með, því að hann hrapaði fram af Vébjarnarnúpi langt fyrir vestan Súrnadal.

Ofan við Súrnadal var nokkur gróður, en eftir það tók grjótauðnin við. Toppurinn á heiðinni er nefnilega í hrjóstrugra lagi. Kannski fórum við líka aðeins of innarlega yfir hæstu bunguna. Líklega er ytri leiðin síður stórskorin, en báðar eru varðaðar. Leiðin sem við völdum hafði þó það sér til ágætis að þar voru víða þunnar hellur sem ómuðu eins og besti sílófónn þegar gengið var um þær.

Hlaupaleiðin á Snæfjallaheiðinni er sums staðar í grófari kantinum. Hér er farið að sjást norðuraf.

Birkir og Rósmundur bregða á leik í götunni niður af Snæfjallaheiðinni. Grunnavík blasir við og Maríuhornið ber hæst. Fjær sést norður yfir Jökulfirði.

Allt í einu sáum við norður af heiðinni og Grunnavík blasti við til norðausturs, okkur til óblandinnar ánægju. Um þetta leyti höfðum við verið á ferðinni í tæpa 5 tíma og hugsunin um kjötsúpuna í Grunnavík var farin að gerast áleitin. Líklega hittum við ekki alveg rétt á niðurgönguna, en það skipti svo sem engu máli. Fljótlega vorum við komin á hlaðna grjótgötu og fyrr en varði vorum við sest að gnægtaborði staðarhaldaranna í Sútarabúðum, Friðriks og Sigurrósar. Ferðalagið frá Unaðsdal hafði tekið 5 tíma og 38 mínútur og mælirinn sýndi 29,31 km.

Kjötsúpunni í Grunnavík voru gerð góð skil. Fátt jafnast á við góða hressingu eftir svona ferðalag.

Fríða í slökun á sólpallinum við Sútarabúðir í Grunnavík.

Sigurrós og Friðrik í Grunnavík eru höfðingjar heim að sækja!

Á hlaðinu í Grunnavík, öll sæl og glöð eftir kjötsúpu og hvíld og tilbúin í næsta áfanga.

Staðarheiðin
Eftir rúmlega klukkustundar viðdvöl í Grunnavík og góðan skammt af kjötsúpu, kaffi, súkkulaði og hlýlegum móttökum var lagt upp í næsta áfanga, nánar tiltekið inn Staðarheiði og Sveit að Dynjanda í Leirufirði. Þessi leið er auðveld yfirferðar, lítil hækkun og gamall innansveitarvegur næstum alla leið, þokkalega fær á góðum dráttarvélum og breyttum jeppum. Við mættum þó engum slíkum farartækjum, enda ekki margt um manninn í Grunnavíkurhreppi hinum forna síðan 6 síðustu fjölskyldurnar pökkuðu saman og yfirgáfu sveitina sína fyrir fullt og allt haustið 1962.

Á fullri ferð á ný. Staður í Grunnavík framundan – og svo liggur leiðin beint inn á Staðarheiði.

Leiðin frá Grunnavík liggur um hlaðið á prestsetrinu að Stað þar sem séra Jónmundur var lengi að ganga frá bréfum, og áfram inn dalinn upp á Staðarheiðina. Hún er fjær himinblámanum og þar fara menn „ekki eins nálægt nóttinni“ og á Snæfjallaheiðinni, svo gripið sé niður í texta Jóns Kalmans. Austur af heiðinni liggur leiðin niður Tíðagötur niður á Höfðaströnd, niður í sveitina sem jafnan var kölluð Sveitin. Þar voru 4 bæir, en sá fyrsti er ekki í þessari alfaraleið. Næstur er Höfðaströnd, þá Höfði og loks Dynjandi, sem síðar er nefndur. Á öllum þessum bæjum hafa eigendurnir byggt upp bæjarhúsin, og fljótt á litið er þeim öllum vel við haldið.

Á Staðarheiði. Hún er ekki sérlega nálægt nóttinni.

Við bæinn Höfðaströnd hittum við tvo hunda, sem var ekki sérlega um okkur gefið. Ekki sást til mannaferða. Kannski var þarna kominn draugurinn Mópeys í hundsgervi, en sem betur fer áttaði ég mig ekki á þessari tengingu fyrr en seinna. Innar á ströndinni óðum við Deildará, sem var mesta óbrúaða vatnsfalli á leiðinni.

Við bæinn Höfðaströnd á Höfðaströnd. Mópeys hvergi sjáanlegur – eða hvað?

Sokkar undnir innan við Deildará.

Bryndís komin í hlað á Höfða, nákvæmlega 42,2 km frá þeim stað þar sem lagt var upp að morgni.

Rósmundur við hringsjána á höfðanum. Í baksýn er Drangajökull fyrir botni Leirufjarðar.

Það var orðið áliðið dags þegar við komum að Flæðareyri, þar sem Ungmennafélagið Glaður reisti glæsilegt samkomuhús á 4. áratug 20. aldar. Þarna voru síðan haldnir dansleikir og kom fólk gangandi norður yfir Dalsheiði til að taka þátt í þeim skemmtunum. Eftir á að hyggja er auðvelt að hugsa sér slíka gönguferð á dansleik á Flæðareyri, en erfitt að hugsa sér gönguferðina til baka að dansleik loknum.

Samkomuhúsið Glaður á Flæðareyri.

Allt þetta einstaka svæði sem við fórum um þennan dag var nýtt fyrir okkur, með þeirri undantekningu að Rósmundur hafði brugðið sér á ball á Flæðareyri á sínum yngri árum. Þar er reyndar enn hægt að taka sporið, því að húsið er í toppstandi og þar er haldin samkoma á hverju sumri.

Frá Flæðareyri er stutt að eyðibýlinu Dynjanda í Leirufirði, þar sem öðrum áfanga þessa ferðalags lauk kl. 18:33 þennan fallega laugardag. Að baki voru 45,5 kílómetrar og sjálfsagt einir 15 eftir að upphafsreit í Unaðsdal.

Þó að Dynjandi hafi verið í eyði síðan 1952, er síður en svo eyðilegt að koma þangað. Þarna hefur gamla húsið verið endurbyggt af miklum myndarskap og snyrtimennsku, og ekki spilltu móttökurnar fyrir. Á hlaðinu hittum við nefnilega hjónin Kristján og Lydíu og dætur þeirra tvær, og fyrr en varði stóðum við í skjóli á veröndinni og drukkum heitt kakó. Þetta var óvænt og ákaflega ánægjuleg viðbót við viðburði dagsins.

Dynjandi við Leirufjörð. Þar var gott að koma – og móttökur Kristjáns, Lydíu og dætra engu síður glæsilegar en húsið.

Heiðurshjónin Kristján og Lydía á Dynjanda.

Himinlifandi og allsendis óþreyttir hlauparar á hlaðinu á Dynjanda, búin að hlaupa 45,5 km og drekka kakó. (Ljósmynd: Lydía Ósk).

Dalsheiðin
Eftir hálftíma viðdvöl í þessu góða yfirlæti á Dynjanda var lagt upp í síðasta áfangann. Hann reyndist drjúgur eins og títt er um slíka. Yfir Dalsheiði liggur hvorki innansveitarvegur né fjárgata, og fátt sem bendir til að menn hafi yfirleitt átt erindi þarna yfir. Þó tala gamlir símastaurar sínu máli og hjálpa ókunnugum við að rata. Reyndar er ekki ráðlegt að fylgja staurunum nákvæmlega, og líklega gildir það sama um vörður sem þarna er víða að finna nokkru austan við símastaurana. Við hölluðum okkur frekar að vörðunum, en seinna um kvöldið sagði sveitarhöfðinginn Engilbert á Tirðilmýri mér að betra væri að fara vestan við staurana. Þar hefði línan upphaflega átt að vera, enda væri undirlagið þar miklu skárra. Einhverjum snillingi hefði svo dottið í hug að færa staurana austar þar sem undirlag er miklu grýttara. Þurftu menn að leggja á sig mikið erfiði og hættu til að færa staurana yfir á þessa nýju leið.

Horft inn Dynjandisdal. Dynjandisskarð fyrir miðri mynd. Seinfarin hlaupaleið.

Bratt er upp á Dalsheiðina að norðanverðu, enda fer leiðin í um 500 m hæð á fyrstu 5 kílómetrunum. Inn á milli eru miklu brattari brekkur, en sem betur fer lágu skaflar í þeim flestum. Skaflar eru mýkri undir fæti en grjót og því ágæt tilbreyting í svona landslagi.

Áður en lagt var af stað hafði ég skráð GPS-punkt af gönguleiðakorti inn í hlaupaúrið mitt. Punktinn fann ég, en í nágrenni hans var fátt sem minnti á gönguleiðir, aðeins stórgrýtisurð í allar áttir, svo stórgrýtt reyndar að ég hef varla nokkurs staðar átt leið um í verra göngufæri. Þarna þurfti virkilega að kunna fótum sínum forráð, en í lautum lágu víða skaflar sem léttu okkur sporin.

Hlaupaleiðin á Dalsheiði.

Skaflar henta betur til hlaupa en stórgrýtisurðir. Hér var líka farið að halla undan fæti og ástæða til að fagna því.

Bryndís og Sævar voru líklega allsátt við að sjá fyrir endann á Dalsheiðinni, enda kílómetratala dagsins farin að nálgast 60.

Ég viðurkenni að það var talsverður léttir þegar halla tók suðuraf heiðinni og félagsheimilið Dalbær kom í ljós niðri á ströndinni í fjarska. Þegar þarna var komið sögu höfðum við Birkir sagt skilið við ferðafélagana í bili, enda báðir léttir á fæti niður í móti. Gættum þess þó að alltaf sæist á milli hópa, því að engan vill maður skilja eftir á svona heiði. Líklega vorum við enn of austarlega á niðurleiðinni. Alla vega þurftum við að vaða eina helkalda á, líklega Þverá sem rennur í Dalsá. Fljótt á litið ætti gönguleiðin að liggja vestan við upptök hennar. Sævar og Bryndís komu næst á eftir okkur og völdu að fara yfir ána á snjóbrú í stað þess að vaða. Það þorði ég ekki.

Ekki tókst mér að fylgja Birki bónda eftir á hraðferðinni niður hlíðina, en klukkan 22:23 um kvöldið stóðum við báðir á vegamótunum við Dalsá, þaðan sem við höfðum lagt af stað kl. 9:09 um morguninn. Að baki voru samtals 59,8 km og 13 klukkustundir og 14 mínútur að öllum hvíldartímum meðtöldum. Hlaup dagsins endaði með léttu skokki að tjaldsvæðinu við Dalbæ og þar með var ferðalag dagsins orðið nákvæmlega 60,7 km, lengsta dagleið sem nokkurt okkar hafði farið, að Fríðu undanskilinni. Hún hafði unnið sér rétt til félagsaðildar í hundraðkílómetrafélaginu eftir ofurhlaup í Ölpunum árið 2011.

Ferðalok
Innan skamms var hópurinn sameinaður á tjaldsvæðinu við Dalbæ. Þar beið Björk mín eins og svo oft áður með ómótstæðilegar veitingar. Að þessu sinni hafði hún útbúið gúllassúpu að ungverskri fyrirmynd fyrir allan hópinn. Þessi hressing var vel þegin, enda munaður að fá svo góðan viðurgjörning eftir langa dagleið. Segir nú ekki meira af ferðum okkar, nema hvað Birkir og Rósmundur óku til síns heima seinna um kvöldið og við hin gengum til náða í fyllingu tímans og yfirgáfu svo Snæfjallaströnd að morgni.

Fríða og Rósmundur gæða sér á gúllassúpu Bjarkar að hlaupi loknu. Einkar vel þegin hressing!

Björk – og kvöldhiminn á Snæfjallaströnd um miðnætti á laugardagskvöldi.

Þakkir
Ég get ekki annað en lokið þessum pistli með þökkum til allra þeirra sem gerðu þetta ævintýri mögulegt og miklu skemmtilegra en það hefði annars orðið. Í þeim hópi eru auðvitað þessir 5 frábæru hlaupafélagar, Þórður á Laugalandi sem lánaði mér gervihnattasíma öryggisins vegna, Friðrik og Sigurrós í Grunnavík sem sáu okkur fyrir frábærum miðdegisverði, Lydía og Kristján á Dynjanda sem hresstu okkur virkilega vel við fyrir síðasta og erfiðasta spölinn, hinir og þessir sem gaukuðu að mér góðum ráðum og fróðleik um leiðina, og síðast en ekki síst Björk sem hefur stutt mig og hvatt í sérvisku minni árum og áratugum saman, auk þess að sinna okkur öllum þennan dag með þeim ágætum sem raun bar vitni. Svo er heldur ekki hægt annað en þakka forsjóninni, hver sem hún annars er, fyrir að þetta skyldi allt saman ganga áfallalaust fyrir sig. Það er hvorki sjálfsagt að hafa heilsu til að stunda svona áhugamál, né að komast heill frá því.

Sunnudagsmorgunn á Snæfjallaströnd. Snæfjallahringurinn að baki og allt tilbúið til brottfarar. F.v.: Fríða, Sævar, Bryndís og Björk.

Tvær vikur í Snjáfjallahringinn

Snjáfjallahringurinn

Nú styttist í fjallvegahlaup nr. 27, 28 og 29, nefnilega Snjáfjallahringinn (Snæfjallaheiði, Staðarheiði og Dalsheiði) sem ég ætla að hlaupa laugardaginn 28. júlí. Ætlunin er að leggja upp frá Unaðsdal kl. 9 árdegis og hlaupa sem leið liggur út Snæfjallaströnd og yfir Snæfjallaheiði að Sútarabúðum í Grunnavík (um 29 km). Hluti leiðarinnar er líklega býsna seinfarinn, og því býst ég við að þessi fyrsti áfangi geti tekið u.þ.b. 4:30 klst. (6,44 km/klst). Samkvæmt því er áætlaður komutími í Grunnavík kl. 13:30. 

Í Grunnavík er upplagt að heilsa upp á staðarhaldarana Friðrik og Sigurrós. Líklega verður tímabært að leggja upp í næsta áfanga kl. 14:30, frá Sútarabúðum um Staðarheiði að eyðibýlinu Dynjanda í Leirufirði (um 18 km). Þessi hluti leiðarinnar er tiltölulega fljótfarinn. Sé reiknað með meðalhraða upp á 8 km/klst tekur þessi áfangi 2:15 klst – og komutími að Dynjanda því kl. 16:45 eða þar um bil.

Sé gert ráð fyrir svo sem hálftíma áningu við Dynjanda væri hægt að leggja upp í síðasta áfangann kl. 17:15, yfir Dalsheiði aftur á upphafsreit við Unaðsdal (um 15 km). Þarna hygg ég að sé bratt og seinfarið á köflum, þannig að ferðin gæti sem best tekið 2:30 klst (6 km/klst). Samkvæmt því væri ferðalokum náð um kl. 19:45. Svona áætlunum ber þó að taka með miklum fyrirvörum og líta á sem lauslega viðmiðun.

Hvort sem ferðin varir klukkutímanum lengur eða skemur er ljóst að þetta er dágóð dagleið, enda vegalengdin öll á að giska 62 km. Aðstæður á svæðinu eru þannig að ekki er auðvelt að skipta leiðina upp og taka aðeins hluta hennar. Þó er mögulegt að taka bát frá Ísafirði til Grunnavíkur kl. 9:30 á laugardagsmorgninum og hlaupa þær tvær leiðir sem eftir standa. Bátsferðin tekur um 45 mín. og kostar 5.900 kr. Þessi valkostur gefur möguleika á dágóðri viðkomu í Grunnavík áður en lagt er upp í áfanga nr. 2. Hins vegar er ekki jafnauðvelt að komast sjóleiðina til baka frá Grunnavík, því að á laugardögum er engri annarri ferð til að dreifa. Hins vegar er sem best hægt að gista í Grunnavík nóttina fyrir eða eftir hlaup. Þar er svefnpokagisting og tjaldstæði eftir því sem ég best veit og bátsferðir frá Bolungarvík á föstudögum og sunnudögum bæði kvölds og morgna. Nánari upplýsingar um ferðir og aðstöðu er að finna á www.vesturferdir.is og www.grunnavik.is

Upplagt er að gera úr þessu góða helgarferð með útilegu við Dalbæ (rétt hjá Unaðsdal). Þar er tjaldsvæði og ýmiss önnur þjónusta – og margt að skoða í nágrenninu fyrir fylgdarfólk sem er meira gefið fyrir styttri dagleiðir, sjá m.a. www.snjafjallasetur.is/ferdathj.html.

Drög að leiðarlýsingum fyrir Snæfjallaheiði og Staðarheiði eru komnar inn á Fjallvegahlaupasíðuna mína, en Dalsheiðin er „óskrifað blað“ enn sem komið er. Kannski gefst mér færi á að bæta úr því áður en lagt verður upp. Til nánari glöggvunar og íhugunar bendi ég væntanlegum þátttakendum (og helst öllum öðrum líka) á að lesa þríleik Jóns Kalmans Stefánssonar, „Himnaríki og helvíti“, „Harm englanna“ og „Hjarta mannsins“.

Vonandi hitti ég sem flesta blogglesendur á Snjáfjallahringnum 28. júlí, en minni jafnframt á að þeir sem taka þátt í þessum fjallvegahlaupaævintýrum með mér gera það á eigin ábyrgð.

Ólafsskarð og Kerlingarskarð

Nú er nýtt fjallvegahlaupatímabil að hefjast, enda vel farið að vora. Því er orðið tímabært að segja frá fyrstu verkefnunum:

1.  Ólafsskarð, þriðjudaginn 22. maí kl. 15:00
Ég ákvað á dögunum að bæta Ólafsskarði við verkefnaskrá ársins. Ólafsskarð verður þannig fyrsti fjallvegurinn 2012 – og sá 25. frá upphafi. Þetta var áður fyrr fjölfarin leið austur fyrir fjall, nánar tiltekið frá Litlu kaffistofunni áleiðis til Þorlákshafnar. Ég fékk ábendingu um þessa leið fyrir nokkrum misserum frá Magnúsi Karel á Eyrarbakka og hef verið að velta henni fyrir mér síðan. Sýnist hún liggja einkar vel við höggi, en veit annars frekar lítið um undirlag og aðrar aðstæður. Leiðin liggur þó um hraun og er sjálfsagt frekar gróf á köflum. Ætlunin er að leggja af stað frá Litlu kaffistofunni kl. 15:00 umræddan þriðjudag. Fyrstu 5 kílómetrana eða svo liggur leiðin eftir vegarslóða inn í Jósepsdal, en þá er beygt til vinstri upp í skarðið. Brekkan upp er frekar brött, en hækkunin ekki sérlega mikil. Eftir því sem ég kemst næst er Litla kaffistofan í um 230 m hæð yfir sjó, en hæst skilst mér að leiðin fari í 400 m. Eftir að komið er austur úr skarðinu liggur leiðin til suðurs „bak við“ Bláfjöllin þar til komið er að Fjallinu eina. Þar er beygt eilítið til vinstri, til suðausturs, og þeirri stefnu haldið og farið norðaustan við Geitafell. Áfram er svo haldið niður í Ölfus mitt á milli bæjanna Litlalands og Hlíðarenda, þvert yfir Suðurstrandarveginn og beint inn á gamla Þorlákshafnarveginn. Þá eru eftir um 5 km að sundlauginni í Þorlákshöfn, þar sem ætlunin er að ljúka hlaupinu. Öll er leiðin um 27 km og mér þykir líklegt að ferðalagið taki hátt í 4 klst., þannig að klukkan verði orðin 19:00 þegar komið er á leiðarenda. Í sundlauginni er upplagt að skola af sér og hafa fataskipti, (sérstaklega ef vel tekst til með að skipuleggja flutning á fatnaði þangað). Ég hef svo í hyggju að snæða kvöldverð á hentugum stað í Þorlákshöfn eða næsta nágrenni og halda síðan heim á leið. Allar ábendingar um veitingastaði eru vel þegnar! Vonast til að njóta félagsskapar sem flestra á þessari leið, svo og í kvöldverðinum. Gott væri að vita sem mest um þátttökuna fyrirfram, m.a. til að geta áttað sig betur á þörfinni fyrir flutninga og möguleikunum á að mæta þeirri þörf. Eins væri snjallt að panta borð með fyrivara ef hópurinn verður stór. 

2. Kerlingarskarð, laugardaginn 26. maí kl. 10:30
Kerlingarskarðið er á dagskrá fyrri part laugardags á Hvítasunnuhelginni. Lagt verður af stað frá söluskálanum á Vegamótum kl. 10:30 og gamla bílveginum fylgt norður yfir skarðið. Þetta eru líklega um 17 km á aflögðum bílvegi, sem fer mest í 311 m hæð. Mér finnst líklegt að þetta taki hátt í tvo og hálfan tíma, þannig að klukkan verði farin að nálgast 13:00 þegar hlaupið endar á aðalveginum norðanvert á nesinu, um það bil 6 km vestan við vegamótin ofan við Stykkishólm. Hér væri líka gaman að vita sem mest um þátttöku fyrirfram til að auðvelda samstarf um fólksflutninga og hugsanlega skipulagningu óvæntra viðburða að hlaupi loknu.

3. Allt hitt
Fyrst ég er sestur við skriftir á annað borð sakar ekki að rifja upp hin fjallvegahlaupa- og sérverkefnin sem eru á dagskránni minni í sumar.

 • Þrístrendingur verður á sínum stað laugardaginn 23. júní. Nánari upplýsingar eru á Fésbókarsíðu hlaupsins (https://www.facebook.com/#!/events/145720345549862/) og í bloggi sem ég skrifaði í mars (https://stefangisla.com/2012/03/11/thristrendingur-23-juni-2012/).
 • Hamingjuhlaupið verður líka á sínum stað 30. júní, 53 km frá Trékyllisvík til Hólmavíkur. Ég er að fínslípa tímaáætlunina og vonast til að geta birt hana á næstu dögum. Reikna með að síðustu 16 km verði rólegir til að gera sem flestum kleift að fylgja með og upplifa hamingjuna. Upplýsingar um hlaupið eru m.a. á http://strandabyggd.is/hamingjuhlaupid/.
 • Snjáfjallahringurinn verður svo hlaupinn 28. júlí, nefnilega Snæfjallaheiði, Staðarheiði og Dalsheiði. Þessar heiðar verða númer 27., 28 og 29 í röðinni að óbreyttu. Upplýsingar um tvær fyrrnefndu heiðarnar eru komnar inn á www.fjallvegahlaup.is. Þar eru líka aðrar upplýsingar um fjallvegahlaupaverkefnið í heild.

Vonast til sjá sem flesta á þessum hlaupum, en minni jafnframt á að þátttakan er á ábyrgð hvers og eins.

Leiðin um Ólafsskarð í grófum dráttum (gulleit lína)