• Heimsóknir

  • 119.600 hits
 • maí 2014
  S M F V F F S
   123
  45678910
  11121314151617
  18192021222324
  25262728293031
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Tvö Pébé á þremur dögum

Við Flandrararnir eftir hálfa möru sl. laugardag. (Ljósm. Kristín Gísla).

Við Flandrararnir eftir hálfa möru sl. laugardag. (Ljósm. Kristín Gísla).

Í síðasta bloggi sagði frá því að framundan væru tvö keppnishlaup, annars vegar 99. Víðavangshlaup ÍR á sumardaginn fyrsta og hins vegar Vormaraþon Félags maraþonhlaupara tveimur dögum síðar. Og í sama bloggi sagði frá því að líklega myndi ég skrifa eitthvað um þessi hlaup áður en langt um liði. Sú stund er nú upp runnin.

Fimmtudagur 24. apríl:
99. Víðavangshlaup ÍR

Víðavangshlaup ÍR er svo sem ekkert víðavangshlaup nú til dags, þar sem aldrei er farið út af malbikinu. En það skiptir engu máli, þetta er eitt af skemmtilegustu hlaupum ársins og formleg staðfesting þess að sumarið sé komið.

Ég tók fyrst þátt í Víðavangshlaupi ÍR vorið 1974. Skrifaði einmitt dálítið um það fyrir ári síðan í tilefni þess að þá var ég með aftur eftir 39 ára hlé. Og nú var ég mættur í þriðja sinn. Þetta er greinilega að komast upp í vana.

Markmiðið fyrir þetta hlaup var fyrst og fremst að hafa gaman af, enda bara tveir dagar í hálft maraþon. Ég taldi þó alveg ástæðulaust að vera mikið lengur en 20:30 mín að hlaupa þessa 5 kílómetra.

Dagurinn fór vel af stað, ekki síst vegna þess að hlaupafélagar mínir úr hinum rómaða hlaupahópi Flandra í Borgarnesi fjölmenntu í hlaupið. Við vorum nánar tiltekið þarna sex saman. Ég lenti í dálitlum þrengslum í startinu, en fór að öðru leyti fremur geyst af stað. Það er kækur sem ég vandi mig á þegar ég byrjaði að keppa í hlaupum sumarið 1972 og hef aldrei séð brýna ástæðu til venja mig af. Þegar ég leit á hraðamælinn einhvers staðar í Tjarnargötunni sýndi hann 3:40 mín/km. Það er alvanalegt. Maður róast fljótlega.

Ég var staðráðinn í því frá upphafi að hlaupa þetta hlaup létt, hugsa um stílinn og gleðina og gæta þess að þreyta mig ekki um of. Þetta gekk mjög vel fyrstu tvo kílómetrana. Sá fyrsti tók ekki nema 3:51 mín og sá næsti 3:59 mín, alveg átakalaust. Þetta var meira að segja meiri hraði en í sama hlaupi í fyrra. Ég var líka með ágætis héra. Hrönn Guðmunds, Friðrik í Melabúðinni, Guðmundur Löve og Ingvar Garðarsson voru rétt á undan mér, og einhvers staðar rétt á eftir mér vissi ég af Gunnari Viðari, félaga mínum úr Flandra.

Kampakátur í Vonarstræti þegar hlaupið var hálfnað. (Ljósm. Hjörtur Stefánsson).

Kampakátur í Vonarstræti þegar hlaupið var hálfnað. Friðrik í Melabúðinni á sínum stað á undan mér. (Ljósm. Hjörtur Stefánsson).

Þriðji kílómetrinn var örlítið erfiðari, en hafðist samt líka á 3:59 mín – og sá fjórði á 4:01 mín. Heildartíminn eftir 4 km var sem sagt 15:50 mín. Þar með var orðið líklegt að ég myndi bæta mig í þessu hlaupi, án þess að það hefði svo sem nokkurn tímann staðið til. Þetta var hreint ekkert leiðinlegt. Ég náði svo að herða vel á í lokin, enda búinn að gleyma því að ég þyrfti að spara kraftana fyrir laugardaginn. Endaspretturinn eftir Tjarnargötunni var ljúfur og í markið kom ég á 19:39 mín, 20 sek. fljótari en í fyrra þegar ég setti persónulegt met í 5 km götuhlaupi.

Í bloggskrifum um Víðavangshlaup ÍR í fyrra rifjaði ég upp að við Jón Guðlaugsson hefðum verið einu mennirnir sem mættu í hlaupið bæði 1974 og 2013. Jón lét sig auðvitað ekki vanta núna heldur, og svo var Sigurður P. Sigmundsson líka mættur alveg eins og 1974. Hann var langt á undan mér í bæði skiptin. Jón er hins vegar orðinn enn eldri en við og eðlilega nokkuð lengur á leiðinni. Árið 1974 fékk hann reyndar sérstaka viðurkenningu sem elsti þátttakandinn. Þá var hann 48 ára, sem þótti hár aldur fyrir hlaupara á þeim árum. Margt hefur breyst síðan!

Föstudagur 25. apríl: Fundur í Kaupinhafn
Mér gafst ekki langur tími til að dást að sjálfum mér eftir hlaupið á fimmtudaginn, því að ég þurfti að ná flugrútunni skömmu síðar og koma mér til Kaupmannahafnar. Vorum þar þrjú saman á föstudeginum á stuttum fundi þar sem við reyndum að sannfæra nokkra norræna embættismenn um að kaupa af okkur hugmynd fyrir nokkra milljónkalla. Þetta voru reyndar afskaplega jákvæðir embættismenn sem höfðu sjálfir boðið okkur að koma á þeirra kostnað til að kynna hugmyndina. Við vorum einn fjögurra hópa sem hafði fengið svoleiðis boð, en samtals slógust 20 hópar um hnossið. Þetta var sem sagt keppni, rétt eins og í hlaupunum, og þegar upp var staðið komumst við á pall. Með öðrum orðum er í þessum skrifuðu orðum verið að semja við okkur um helminginn af verkinu sem um ræðir.

Þessi aukakeppni í Kaupmannahöfn var ekki beinlínis inni á hlaupaprógramminu mínu. Þar var bara Víðavangshlaup ÍR á fimmtudeginum og hálft maraþon á laugardeginum. Ferðalög milli landa eru ekki efst á óskalistanum á milli svoleiðis viðburða. En stundum þarf maður líka að vinna.

Laugardagur 26. apríl: 99. Vormaraþon FM
Ég var kominn heim frá Kaupmannahöfn og lagstur til svefns í Borgarnesi rétt upp úr miðnætti á föstudagskvöldinu og svaf vel eins og maður gerir þegar allt er rólegt og ekkert stress í gangi. Klukkan 8 um morguninn voru svo þrír alhörðustu hálfmaraþonhlauparar Flandra sestir upp í einn og sama bíl og lagðir af stað til Reykjavíkur.

Mér fannst ég svona í meðallagi léttur í upphituninni í Elliðaárdalnum á 10. tímanum. Oft finn ég nokkurn veginn á mér á fyrstu skrefunum hvernig dagurinn verður, en þarna var ég ekki viss. Vissi þó alveg eftir fimm kílómetrana á fimmtudeginum að ég væri í nógu góðu standi til að bæta mig í þessu hlaupi. Ég fann ekkert fyrir eftirköstum frá fyrra hlaupinu, en kannski sat í mér örlítill lúi eftir Kaupmannahafnarferðina. Væntingarnar voru líka hóflegar í samræmi við það. Ég vissi að þetta yrði gaman og að ég yrði ekkert leiður þótt tíminn yrði bara í kringum 1:33 mín. Villtustu draumar voru að komast undir 1:30 mín, enda var það eitt helsta markmið ársins. Ég bjóst þó miklu frekar við að það myndi bíða þangað til síðar á árinu. Ákvað engu að síður að fara nógu hratt af stað til að eiga möguleika á að láta þessa villtustu drauma rætast. Það þýddi að ég þurfti að hlaupa hvern kílómetra á u.þ.b. 4:15 mín. Ef ég fer aðeins of hratt fyrstu kílómetrana get ég bara gefið eftir þegar líður á hlaupið. Það er enginn vandi. Ef ég fer alltof hægt af stað get ég hins vegar engan veginn bætt mér það upp á seinni hlutanum. Það er ekki hægt.

Kl. 10 hófst hlaupið. Við Flandrararnir fylgdumst að til að byrja með en svo skildu leiðir smátt og smátt. Gunnar var þarna að hlaupa sitt fyrsta formlega hálfmaraþon og Kristinn sitt þriðja. Ég var hins vegar að fara í 12 sinn og hef heldur eflst með hverju hlaupi. Hef auðvitað líka elst með hverju hlaupi, en það hefur ekki komið að sök.

Mér leið vel á fyrstu kílómetrunum ef frá er talinn svolítill almennur lúi. Veðrið lék við okkur. Að vísu var vestan golan heldur í fangið í fyrri hluta hlaupsins, en hitinn var um 10 stig og jafnvel svolítið sólskin. Það gerist ekki mikið betra. Ég fylgdist ekki nákvæmlega með hraðanum, en lét mér nægja að kíkja lauslega  á klukkuna eftir hvern kílómetra. Við 5 km markið var tíminn kominn í 20:54 mín, sem jafngildir 4:11 mín/km. Þetta var fínn hraði, sérstaklega í mótvindi, og ég vissi alveg að bæting væri í spilunum ef þreytan myndi ekki gera verulega atlögu að mér undir lok hlaupsins. Maður veit aldrei, en þegar ég er á annað borð kominn á sæmilega siglingu tekst mér oftar en ekki að þrauka á svipuðum hraða í gegnum allt hlaupið.

Tíminn eftir 10 km var 41:59 mín (4:12 mín/km). Ég var aðeins farinn að finna til þreytu, en framundan var snúningspunkturinn og meðvindur til baka. Skömmu eftir snúninginn mætti ég Flandrafélögunum hvorum á eftir öðrum og sýndist þeir vera á góðri siglingu. Svona snúningar í hlaupum hafa sína kosti og galla. Gallinn er sá að það er örlítið tilbreytingarsnauðara að hlaupa aftur sömu leið, en kosturinn hins vegar að með þessu móti mætir maður næstum öllum hinum hlaupurunum einhvern tímann. Þá er tækifæri til að skiptast á hvatningu sem getur komið báðum til góða.

Þrátt fyrir meðvindinn hægðist á mér á bakaleiðinni. Á löngum kafla um miðbik hlaupsins vorum við fjórir saman í hópi, en tveimur hinna tókst að halda sínu striki þannig að ég dróst smám saman afturúr ásamt með Ásgeiri Má Arnarssyni, sem var þarna að hlaupa hálfþaraþon í annað sinn. Við fylgdumst að drjúgan spöl og ræddum málin. Slíkt styttir manni stundir og léttir á þyngstu kílómetrunum. Í hálfu maraþoni eru það gjarnan kílómetrar nr. 12-17 eða þar um bil.

Eftir 15 km var tíminn 1:03:12 klst (4:13 mín/km). Ákvað að geyma vangaveltur um líklegan lokatíma þangað til 3 km væru eftir af hlaupinu. Þá kílómetra hlyti ég að geta hlaupið á 13:30 mín hvernig sem allt veltist. Fékk eitthvert smávægilegt þreytukast á 16. kílómetranum í Öskjuhlíðinni, en náði mér fljótlega á strik aftur. Það er ekkert óeðlilegt við það að þreytast aðeins í svona hlaupi þar sem maður reynir að halda sér nálægt eigin hámarkshraða. Hvað sem því líður var klukkan komin í 1:16:55 klst þegar 3 km voru eftir. Þar með vissi ég að tíminn 1:30:30 væri í höfn ef engin slys myndu henda mig. Eftir þetta var meira gaman en áður. Ég átti best áður 1:31:12, þannig að nú var bara að njóta.

Tíminn eftir 20 km var 1:25:00 klst, sem þýddi að ég myndi örugglega hlaupa vel undir 1:30. Villtustu draumarnir voru sem sagt að fara að rætast, hvað sem allri Kaupmannahafnarþreytu leið. Og ég átti nóg eftir til að bæta vel í undir lokin. Síðasta kílómetranum náði ég undir 4 mín (3:59) og kláraði hlaupið á 1:29:25 klst, sem var miklu betri tími en ég hafði gert ráð fyrir.

Endaspretturinn í Vormaraþoninu. (Ljósm. Hjörtur Stefánsson).

Endaspretturinn í Vormaraþoninu. (Ljósm. Hjörtur Stefánsson).

Ég hafði margar ástæður til að gleðjast að hlaupi loknu, auk pébésins (sem er lausleg þýðing á „personal best“). Eitt gleðiefnið var að félagar mínir í Flandra luku báðir hlaupinu á sínum besta tíma og annað að á marksvæðinu hitti ég ótrúlega margt fleira skemmtilegt fólk sem gaman var að sjá og spjalla við. Ég held að skemmtilegu fólki fjölgi með hverju árinu sem líður. Og enn eitt gleðiefnið var að ég skyldi enn vera að taka þátt í svona hlaupum – og jafnvel að bæta mig. Í ágúst verða t.d. liðin 29 ár frá því að ég hljóp fyrsta hálfmaraþonið mitt – og þau taka alltaf styttri og styttri tíma. Ætti ég kannski að skrifa hálfmaraþonævisöguna mína snöggvast?

Hálfmaraþonævisagan mín
Ég hljóp sem sagt fyrsta hálfmaraþonið  mitt í ágúst 1985. Man ekki í svipinn hvernig ég fékk þá flugu í höfuðið, nýorðinn faðir í fyrsta sinn og löngu búinn að gleyma öllum áformum um að verða besti hlaupari í heimi. Kannski finn ég einhverjar vísbendingar um þetta með því að rýna í samtímaheimildir. Ég man alla vega að ég fór nokkrum sinnum út að hlaupa þetta sumar, m.a. með Pétri Péturssyni þrístökkvara af Ströndum. Býst við að hann hafi hvatt mig til dáða eins og hann gerir alltaf þegar við hittumst. Á þessum árum fannst mér hálft maraþon langt og til þess að vera viss um að ég kæmist alla leið hljóp ég einhvern daginn frá Broddanesskóla þar sem ég átti heima og heim á æskuheimilið mitt í Gröf. Sú vegalengd er nálægt hálfu maraþoni og yfir einn fjallveg að fara. Fyrst ég gat það hlaut ég að vera tilbúinn.

Fyrsta hálfmaraþonið mitt tók 1:43:43 klst. Það þótti mér góður tími, enda var hann það náttúrulega. Nýir tímar eru góðir. Eftir þetta liðu svo 6 ár fram að næsta hlaupi. Þessi sex ár skiluðu mér niður á 1:39:41. Man svo sem ekkert eftir því hlaupi, nema hvað þá var ég búinn að leggja bómullargallanum frá Héraðssambandi Strandamanna sem ég skrýddist 1985 og kominn í stuttbuxur og stuttermabol. Síðan hef ég jafnan kosið að hlaupa í minni fötum en meiri ef veður hefur leyft – og stundum þó að það hafi ekki leyft það.

Sallarólegur í HSS-galla og slitnum skóm á drykkjarstöð í Reykjavíkurmaraþoninu 1985. Stutt síðan. Fátt hefur breyst. (Björk hlýtur að hafa tekið myndina).

Sallarólegur í HSS-galla og slitnum skóm á drykkjarstöð í Reykjavíkurmaraþoninu 1985. Stutt síðan. Fátt hefur breyst. (Björk hlýtur að hafa tekið myndina).

Á fullri ferð í Reykjavíkurmaraþoninu 1991. Kominn í stuttbuxur og búinn að setja upp brosið. (Ljósm. líklega Björk).

Á fullri ferð í Reykjavíkurmaraþoninu 1991. Kominn í stuttbuxur og búinn að setja upp brosið. (Ljósm. líklega Björk).

Næst liðu 10 ár. Það var sem sagt ekki fyrr en árið 2001 sem ég tókst á við þessa vegalengd í þriðja sinn. Hafði reyndar hlaupið fyrsta heila maraþonið í millitíðinni, en það á náttúrulega ekki heima í þessari ævisögu. Hlaupið 2001 var erfitt og það langhægasta í sögunni, 1:45:20 mín. Eitthvað var ég búinn að æfa um sumarið, en síðustu vikurnar fyrir hlaup voru eitthvað lélegar. Það sem var skemmtilegast við þetta hlaup var að Þorkell sonur minn hljóp með mér. Þá var hann 16 ára (fæddur rétt fyrir fyrsta hálfmaraþonið) og löngu farinn að rúlla mér upp í 10 km. Þessi vegalengd var hins vegar enn í lengra lagi fyrir hann, þannig að hann dróst aðeins aftur úr í lokin.

Fjórða hlaupið var í ágúst 2004. Það sumar höfðum við feðgarnir farið saman í nokkur hlaup og árangurinn lét ekki á sér standa. Lokatíminn var 1:36:31 og þar með búið að ná fram 7 mínútna bætingu á 19 árum. Mig minnir að ég hafi þá haldið að þarna væri ég kominn að getumörkum.

Í ágúst 2005 tók ég enn einu sinni hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu. Tíminn var 1:39:09, sem mér fannst svo sem allt í lagi miðað við aldur og fyrri störf. Árið 2006 var frekar lítið um hlaup, en haustið 2007 hljóp ég hálft maraþon á Selfossi á 1:38:17 mín í  dálitlum vindi. Þetta var árið sem ég varð fimmtugur og árið sem ég gerði hlaupin að lífsstíl. Tíminn var kannski ekkert sérstakur, en þarna voru samt ákveðin þáttaskil í aðsigi.

Sjöunda hálfmaraþonið hljóp ég á Akureyri í júní 2008. Brautin var aðeins of löng þannig að tíminn var ekki marktækur, en með svolitlum reiknikúnstum fékkst talan 1:35:43 klst, sem var betra en ég hafði gert áður. Þarna hljóp Þorkell þessa vegalengd með mér öðru sinni, enda hafði ég skorað sérstaklega á hann að reyna að vinna gamla manninn. Hann fór létt með það, var rúmum tveimur mínútum á undan mér.

Árið 2010 hljóp ég 8. og 9. hálfmaraþonið og bætti mig í báðum, fyrst í Vormaraþoni FM í apríl þar sem ég hljóp á 1:34:51 mín og aftur á Akranesi í júní þar sem ég náði pébéinu niður í 1:32:38 mín þrátt fyrir nokkur hvassan vind og kalsaveður. Þarna var lífsstíllinn farinn að segja til sín.

Tíunda hálfmaraþonið hljóp ég í Haustmaraþoni FM í október 2011. Tíminn var 1:33:16 klst., sem mér þótti bara gott miðað við æfingar vikurnar á undan. En þarna var ég greinilega kominn á einhverja framfarabraut. Í haustmaraþoninu tveimur árum síðar, sem sagt í fyrrahaust, bætti ég pébéið niður í 1:31:12. Og núna er það sem sagt komið niður í 1:29:25 klst. Engin áform eru uppi um að láta þar við sitja.