• Heimsóknir

  • 119.667 hits
 • júní 2023
  S M F V F F S
   123
  45678910
  11121314151617
  18192021222324
  252627282930  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Hægt í Gautaborg

Að hlaupi loknu. Búinn að stilla upp brosinu. (Ljósm. MarathonPhotos.com).

Að hlaupi loknu. Búinn að stilla upp brosinu. (Ljósm. Marathonfoto.com).

Laugardaginn 23. maí sl. hljóp ég hálft maraþon í Gautaborg, þar sem ég tók þátt í Göteborgsvarvet með tveimur góðum hlaupafélögum úr Borgarnesi. Göteborgsvarvet er ekki bara eitthvert hlaup, heldur er þetta fjölmennasta hálfmaraþon í heimi. Þetta árið voru öll met slegin, því að auk okkar þriggja skilaði 46.441 hlaupari sér í mark áður en yfir lauk. Þessu hafa Svíarnir náð með góðri markaðssetningu og með því að láta borgina skarta sínu fegursta dagana fyrir og eftir hlaupið til að gera þetta allt sem eftirminnilegast. Og eftirminnilegt var það, þó að ég hafi yfirleitt verið kátari með árangur minn í hlaupum. Í stuttu máli skein sólin allan tímann en samt sá ég aldrei til sólar í hlaupinu. En þó að mér finnist skemmtilegra að skrifa pistla um hlaup sem ganga vel, þá ætla ég samt að skrifa líka um þetta hlaup. Hlaupastærðfræði er nefnilega eins og önnur stærðfræði. Einhverjar tölur verða að vera fyrir neðan meðaltalið. Já, eða eins og mamma sagði við mig þegar ég var lítill: „Stundum þarf að vera vont veður til að við kunnum að meta góða veðrið“.

Hópferð til Gautaborgar
Gautaborgarferðin átti upphaflega að vera hópferð hlaupahópsins Flandra í Borgarnesi. En til þess að svo mætti verða þurfti fólk að ákveða sig tímanlega. Hlaupið fyllist nefnilega yfirleitt tæpu ári áður en það er ræst. Einhver varð að ríða á vaðið og því skráðum við þremenningarnir okkur strax eftir að opnað var fyrir skráningar um mánaðarmótin maí/júní 2014. Og eftir það stækkaði hópurinn ekki neitt. En þetta var líka góður hópur. Í honum voru ég sjálfur, Birgitta dóttir mín og Gunnar Viðar hlaupafélagi nr. 1.

Aðal- og varamarkmið
Undirbúningur okkar þriggja gekk misvel. Sjálfur var ég ekki búinn að ná fullum styrk eftir meiðsli vetrarins, en þóttist þó svo sem fær í flestan sjó. Hafði upphaflega sett mér það markmið að hlaupa undir 1:30 klst. í Gautaborg, en síðar endurskoðaði ég það markmið í ljósi aðstæðna og setti stefnuna á 1:31:30 klst. Reyndar var mig farið að gruna að það myndi e.t.v. ekki ganga upp, þannig að ég var búinn að koma mér upp þrautavaramarkmiði upp á 1:33:07 klst. Þar með yrði þetta alla vega besta hlaup ársins það sem af var.

Ferðaskipulagið
Skipulagið fyrir Gautaborgarferðina miðaðist allt við lágmörkun kostnaðar. Þó að við værum hópur töldum við vonlítið að fá verulegan hópafslátt hjá flugfélögunum. Náðum þó að kaupa flugmiða í beint flug fram og til baka fyrir rúmlega 30 þús. kr. á mann, sem okkur fannst vel sloppið. Sá böggull fylgdi reyndar skammrifi að við þurftum að vera á ferðinni að næturlagi. Lögðum til að mynda upp frá Keflavík um 1-leytið aðfaranótt föstudags (þegar Gunnar var búinn að keppa í einu 10 km hlaupi í Reykjavík til að nota ferðina) og vorum sest út í vél í Gautaborg á heimleið kl. 6:30 á mánudagsmorgni. Gistingin og uppihaldið ytra var enn ódýrari en flugið, því að þar báru sænskir vinir mínir, María og Karl-Axel, okkur á höndum sér frá fyrstu stundu til hinnar síðustu. Þessu fólki kynntist ég í vinabæjarsamstarfi á sveitarstjóraárunum mínum á Hólmavík. Síðan eru liðin 25 ár en tengslin eru enn sem ný. Jákvæðar afleiðingar þeirra kynna eru efni í langan bloggpistil sem verður ekki skrifaður í kvöld.

Bjartur og fagur
Föstudaginn notuðum við til að hvíla okkur eftir næturflugið, kynna okkur sporvagnakerfið, sækja keppnisgögnin og þar fram eftir götunum. Og svo rann laugardagurinn upp bjartur og fagur. Morgunninn var að vísu svolítið svalur, hitastigið varla nema um 10°C og sólin ekki byrjuð að skína að neinu ráði. En þetta var náttúrulega hitabylgja í samanburði við vorið á Íslandi 2015.

„Einn, tveir og nú“
Í 50 þúsund manna hlaupi er ekki bara hægt að stilla öllum upp á ráslínuna og segja „einn, tveir og nú“. Fyrir hlaupið hafði öllum skaranum verið skipt niður í ráshópa með nokkur þúsund hlaupurum í hverjum, sem hleypt var af stað með nokkurra mínútna millibili. Við Gunnar höfðum sent tímana okkar frá því í fyrra til skrifstofu hlaupsins og á grundvelli þeirra hafði okkur verið raðað í ráshóp nr. 2 sem átti að fara af stað kl. 13:03, 3 mín á eftir þeim bestu. Gitta var hins vegar í ráshóp 18 sem skyldi ræstur kl. 15:13. Allt í allt minnir mig að ráshóparnir væru 25 og líklega náði rássvæðið yfir um 2 km af götum miðborgarinnar.

Við Gunnar vorum tímanlega í því enda viðbúið að þröngt yrði í sporvögnunum þennan annasama dag, en að marksvæðinu var um 20 mín. akstur þaðan sem við gistum. Við ákváðum að fara í keppnisfötunum til að þurfa ekki að nota geymslusvæðið í miðbænum. Eftir á að hyggja tel ég okkur hafa borið nokkuð af öðrum farþegum í klæðaburði. Ferðin gekk að óskum og ekki sakar að nefna að þennan dag giltu rásnúmer sem farmiðar í allar almenningssamgöngur í Gautaborg. Alls staðar voru líka skilti og fánar sem minntu á hvers konar hátíðisdagur þetta var í borginni.

Við Gunnar komnir úr sporvagninum og við öllu búnir. (Ljósm. MarathonPhotos.com).

Við Gunnar komnir úr sporvagninum og við öllu búnir. (Ljósm. Marathonfoto.com).

Á rássvæðinu tók við hefðbundin upphitun og rjátl. Þarna var líka margt að sjá fyrir þá sem áhuga hafa á framkvæmd almenningshlaupa. Undirbúningurinn og allt utanumhald var einfaldlega fullkomið hjá Svíunum. Upp úr kl. 12:30 vorum við svo mættir í okkar hólf sem smám saman fylltist af fólki. Sólin var farin að skína, frískur vindur blés úr norðvestri, hitinn kominn upp í 12-14 stig og allt tilbúið.

Allt tilbúið. Bara örfáir hlauparar á undan okkur við rásmarkið.

Allt tilbúið. Bara örfáir hlauparar á undan okkur við rásmarkið.

Lagt í hann
Kl. 13:03 lögðum við í hann, fyrst svolítinn hring í Slottsskogen og svo áleiðis vestur að Älvsborgsbrúnni. Allan tímann var hlaupaleiðin full af hlaupurum og því lítið annað hægt að gera en láta berast með straumnum. Straumhraðinn var líka bara hæfilegur enda við félagarnir nokkuð rétt staðsettir í þvögunni miðað við getu. Ég hafði hugsað mér að hlaupa hvern kílómetra ekki hægar en á 4:20 mín, en það hefði skilað mér í mark á 1:31:30 klst. Eftir 5 km var millitíminn 21:47 mín (4:22 mín/km), sem var svo sem nokkurn veginn í lagi. En ég fann samt að þetta væri ekki dagur stórra afreka. Það vantaði allan ferskleika í skrokkinn og gott ef hugurinn var ekki líka nokkuð frá sínu besta.

Þegar brýr verða að fjöllum
Sjötti kílómetrinn var sá erfiðasti í hlaupinu. Þá lá leiðin upp á Älvsborgsbrúna sem mér fannst jafnast á við þokkalegan fjallveg. Samt var heildarhækkunin þarna ekki nema um 40 m á 2 km kafla. Þetta átti maður að geta þolað, jafnvel þótt vindurinn blési vel í fangið. Hinum megin við ána tók við léttari kafli. Þar leið mér þokkalega og gladdist við að fylgjast með áhorfendunum sem stóðu meðfram brautinni alla leið og hljómsveitunum sem lögðu sitt af mörkum til gleðinnar. Samtals höfðu að ég held 55 hljómsveitir raðað sér meðfram hlaupaleiðinni eftir sænsku skipulagi.

Eftir 10 km var millitíminn 43:16 mín sem jafngilti nákvæmlega 4:20 mín/km frá upphafi. Það var svo sem eftir áætlun en þarna var líka krafturinn horfinn úr líkama og sál. Við Gunnar höfðum fylgst að fram að þessu en þarna hvatti ég hann til að fara sína leið. Þetta væri einhvern veginn búið hjá mér. Hann fór að þessum góðu ráðum mínum og eftir þetta fjarlægðist hann smátt og smátt.

Endaspretturinn. #Aldreieinnáferð. (Ljósm. MarathonPhotos.com).

Endaspretturinn. #Aldreieinnáferð. (Ljósm. Marathonfoto.com).

Ætli maður verði ekki að reyna að klára þetta?
Segir nú fátt af ferðum mínum. Síðari hluti hlaupsins snerist bara um að þrauka og mér var svo sem orðið sama hver lokatíminn yrði. Hlauparar streymdu fram úr mér í hundraðatali og ég þurfti að takast á við þá framandi tilfinningu að ég gæti ekki það sem ég hefði „alltaf“ getað. Millitíminn eftir 15 km var 1:06:20 klst., sem mér þykir bara allt í lagi í maraþonhlaupi. Þriðji 5 km kaflinn hafði sem sagt lagt sig á 23:04 mín. Fjórði 5 km kaflinn varð enn hægari, 24:17 mín. Undir lokin sá ég Gittu og gestgjafann Maríu í klappliðinu. Það hressti mig verulega og ég náði að bæta aðeins í áður en ég hljóp inn á frjálsíþróttaleikvanginn þar sem hlaupið endaði. Lokatíminn var 1:35:33 klst, vissulega sá lakasti í nokkur ár en svo sem bara í meðallagi þegar öll hálfmaraþonævisagan mín er skoðuð. Sjö sinnum hef ég verið fljótari, sjö sinnum hægari.

Mér gekk vel að finna Gunnar í mannfjöldanum. Hann hafði skilað sínu vel og lokið hlaupinu á 1:32:51 klst. sem var hans næstbesti tími til þessa. Eftir að hafa notið sólargeislanna nokkra stund tókum við sporvagninn „heim“ í sturtu og veitingar – og svo aftur niður í bæ til að fylgjast með Gittu. Náðum að sjá hana sem snöggvast í Slottsskogen áður en hún skeiðaði í markið á 2:21:43 klst. Þá voru enn rúmlega 7.000 manns ókomnir í mark og alls staðar var fólk á hlaupum, hreint og beint endalaus straumur.

Gitta á ráslínunni. (Ljósm. Maria Lejerstedt).

Gitta á ráslínunni. (Ljósm. Maria Lejerstedt).

Að kunna eða kunna ekki – að taka sporvagn
Einhvern veginn tókst okkur að sameina hópinn á nýjan leik og þá var stefnan enn tekin á sporvagninn. Á sporvagnastöðinni var nokkurhundruð metra löng biðröð, því að nú voru allir á leiðinni heim. En það vildi svo vel til að „heim“ var í sömu átt hjá flestum og sporvagnarnir í hina áttina voru næstum tómir. Gestgjafarnir okkar komu þá með þá snjöllu tillögu að taka vagninn í hina áttina og skipta svo um stefnu þegar komið væri út úr miðbænum. Við gerðum þetta og vorum komin til baka á teinunum hinum megin eftir nokkrar mínútur. Þá komust miklu færri inn í vagninn en vildu, en við sátum bara þarna í bestu sætum eins og fínt fólk. Jafnvel skipulögðustu Svíar geta komið með klók og úthugsuð útspil í svona aðstæðum.

Í makindum og alein að bíða eftir sporvagninum á Axel Dahlströmstorgi á heimleið rétt sunnan við miðbæinn eftir úthugsað útspil sérfræðinga í sporvagnasamgöngum. F.v. Birgitta, SG, Gunnar, Emeli (formaður Flandri Fanclub í Gautaborg) og Karl Axel. (Ljósm. Maria Lejerstedt).

Í makindum og alein að bíða eftir sporvagninum á Axel Dahlströmstorgi á heimleið rétt sunnan við miðbæinn eftir úthugsað útspil sérfræðinga í sporvagnasamgöngum. F.v. Birgitta, SG, Gunnar, Emeli (formaður Flandri Fanklubb í Gautaborg) og Karl Axel. (Ljósm. Maria Lejerstedt).

Gestrisni og enn meiri gestrisni
Segir nú ekki öllu fleira af ferðum okkar nema hvað á laugardagskvöld og á sunnudeginum héldum við áfram að njóta gestrisni vinanna á heimaslóðum þeirra í Havstenssund í skerjagarðinum í Nyrðra-Bóhúsléni. Þar er alltaf gott að koma og náttúrufegurðin með því mesta sem gerist. Aðfaranótt mánudagsins var stutt og brottfarartímann frá Gautaborg hef ég þegar tíundað.

Hádegismatur á sunnudegi í kyrrðinni á Falkeröd í Tanums kommun.

Hádegismatur á sunnudegi í kyrrðinni á Falkeröd í Tanums kommun.

Eftirmáli og minnispunktar fyrir næsta hlaup
Þetta var skemmtileg og eftirminnileg ferð hvað sem árangri mínum líður. Og ég hef reyndar enga ástæðu til að kvarta. Það er ekki eins og það sé sjálfsagt að maður geti hlaupið hálft eða heilt maraþon hvenær sem manni sýnist hversu hratt sem manni sýnist. En þegar eitthvað gengur ekki eins og ætlað var er þó ástæða til að rýna í hvað fór úrskeiðis, því að eitthvað vill maður jú læra af reynslunni. Þarna var það ekkert eitt. Ef til vill átti óreglulegur svefntími næturnar fyrir hlaup einhvern hlut að máli og sjálfsagt var hitinn í sólinni eitthvað umfram þarfir. Þetta voru nú samt ekki nema um 15 gráður þegar mest var. Nú og svo voru æfingar vetrarins langt frá því að vera eins margar og góðar og til stóð, bæði vegna meiðsla, óhagstæðs tíðarfars og amsturs í vinnu. Ætli maður þurfi ekki bara að æfa betur til að ná betri árangri?

Og enn skín sólin
Það er gaman að hlaupa, gaman að njóta stunda með fjölskyldu og vinum og gaman að eiga þess kost að ferðast og upplifa fleira en innréttingarnar á skrifstofunni, svo ágætar sem þær annars eru. Og eins og Hólmvíkingurinn og nafni minn frá Hvítadal sagði: „Það er engin þörf að kvarta / þegar blessuð sólin skín“.

Skemmtilegt fjölskylduhálfmaraþon

RM2014 basno bakhliðÁ laugardaginn hljóp ég hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu. Þetta var afskaplega skemmtilegt hlaup, aðallega af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi bætti ég mig töluvert (náði sem sagt að bæta „pébéið“). Í öðru lagi voru veðrið og aðstæður allar með því besta sem gerist. Og síðast en ekki síst tóku eldri börnin mín tvö bæði þátt í hlaupinu. Það gerðist síðast árið 1994, fyrir 20 árum.

Markmið okkar þriggja voru ólík eins og gengur. Ég var búinn að lýsa því yfir að ég ætlaði að ljúka hlaupinu á 1:27:55 klst., Þorkell ætlaði að fara álíka hratt og ég af stað og sjá svo til hvað hann myndi endast og Gitta stefndi að því að hlaupa á 2:10:00 klst. Í stuttu máli var ég sá eini sem náði ekki markmiðinu. Þar vantaði 18 sekúndur upp á. Þorkell lagði af stað um leið og ég og allir hinir, en ég sá hann lítið eftir það, nema þá tilsýndar. Og hann entist alla leið á stöðugum hraða sem var talsvert meiri en hraðinn minn. Og hjá Gittu skakkaði þetta ekki svo mikið sem sekúndu. Þetta var sem sagt einkar vel heppnað hlaup hjá okkur öllum, (þrátt fyrir þetta með 18 sekúndurnar).

Fyrir þetta hlaup átti ég best 1:29:25 klst. í hálfmaraþoni síðan í vor. Markmiðið var sem sagt að bæta þann tíma um eina og hálfa mínútu. Til þess að svo mætti verða þurfti ég að hlaupa hvern kílómetra á 4:10 mín. að meðaltali, þ.e.a.s. hverja 5 km á 20:50 mín. Ef ég gæti það var ég nokkuð viss um að geta klárað heilt maraþon í München 12. október á meðalhraðanum 4:25 mín/km, sem jafngildir lokatímanum 3:06:30 eða þar um bil.

Fyrir hlaupið á laugardaginn var ég viss um að geta bætt tímann frá því í vor ef ekkert óvænt kæmi upp á, en ein og hálf mínúta var kannski í bjartsýnna lagi. Oftast finn ég nokkurn veginn á fyrstu kílómetrunum hvernig horfurnar eru. Eftir þrjá kílómetra var meðalhraðinn rétt um 4:02 mín/km, sem var náttúrulega í góðu lagi. Þorkell hafði farið örlítið hraðar af stað, en ég sá hann alltaf svo sem 50 m á undan mér. Langhlaup eru formlega séð ekki hans grein. Síðustu árin hefur hann aðallega keppt í 400 m hlaupi og í samræmi við það lagt mikla áherslu á styrkæfingar og lóðalyftingar. Lengri hlaup hafa beðið betri tíma.

Þorkell (lengst til vinstri) á sprettinum eins og ekkert sé. (Ljósm. Birgir Þ. Jóakimsson).

Þorkell spretthlaupari (lengst til vinstri) á fullri ferð með langhlaupurunum. (Ljósm. Birgir Þ. Jóakimsson).

Á 4. kílómetranum hægðist á mér og Þorkell fjarlægðist. Enn var þó allt mögulegt. Millitíminn eftir 5 km var 20:34 mín (4:07 mín/km). Svoleiðis millitíma hef ég ekki séð áður í hálfu maraþoni, enda hefði þetta verið persónulegt met í 5 km götuhlaupi fyrir bara tveimur árum. Þarna var ég með 16 sek. í plús miðað við áætlun, en hafði samt á tilfinningunni að aðalmarkmið dagsins myndi ekki nást. Oftast hægist eitthvað á mér seinni partinn og þá er auðvelt að tapa 16 sek. forskoti.

Næstu 5 km hélt ég nokkurn veginn sama hraða. Millitíminn eftir 10 km var 41:28 mín (4:09 mín/km). Þetta var u.þ.b. 30 sek. betra en í hlaupinu í vor og enn 12 sek. undir viðmiðunartímanum. Og eftir 15 km var tíminn 1:02:21 klst., sem þýddi að ég var enn með 9 sek. í plús. Þetta var svo sem alveg mögulegt.

Á kaflanum milli 5 og 15 km bar annars margt til tíðinda. Á þessum kafla fylgdist ég lengst af með Tate nokkrum Cantrell, sem bæði hefur drjúga reynslu af hlaupum og atvinnurekstri. Hann var með svipuð markmið í hlaupinu og ég, þannig að eðlilega rökræddum við möguleikana á að ná þessum markmiðum. Þeir voru enn til staðar. Á sömu slóðum var líka annar reyndur hlaupari sem ég vissi ekki fyrr en eftir á hver var. Hann hélt sama hraða og við Tate, þrátt fyrir að vera með gervifót fyrir neðan hné vinstra megin. Við höfðum einmitt orð á því hvor við annan hvílíkur innblástur þessi maður væri okkur sem hefðum  báða fætur jafnlanga. Eftir að heim var komið um kvöldið sá ég að einmitt þessi maður, Belginn Kim de Roy, hafði sett heimsmet í sínum fötlunarflokki í hlaupinu þegar hann kláraði heila maraþonið á 2:57:09 klst. Slíkan árangur hef ég aldrei látið mig dreyma um. Á þessum sama kafla bar það líka til tíðinda að Þorkell fjarlægðist smám saman meir og meir – og einhvers staðar í kringum 13. kílómetrann var ég alveg hættur að sjá hann. Ég var auðvitað hæstánægður með það, enda gleður fátt meira en gott gengi afkvæmanna.

Á fullri ferð með Tate Cantrell og Kim de Roy. (Ljósm. Ingimar Sigurðsson).

Á fullri ferð með Tate Cantrell og Kim de Roy. (Ljósm. Ingimar Sigurðsson).

Þegar ég leit á Garminúrið mitt eftir 15 km áttaði ég mig á því að ég hafði stillt það óskynsamlega fyrir þetta hlaup, því að eftir að klukkustundinni var náð hætti úrið að sýna sekúndur. Þarna stóð sem sagt bara 1:02 en ekki 1:02:21. Þetta truflaði mig dálítið það sem eftir var hlaupsins. Ég uni mér einmitt við það í svona hlaupum að reikna eitt og annað út frá millitímum, og nú var ljóst að þessir útreikningar yrðu helst til ónákvæmir. En við því var ekkert að gera. Óskynsamlegar stillingar Garminúra hljóta líka að flokkast sem lúxusvandamál, a.m.k. þegar maður hleypur við hliðina á manni með gervifót. Frómt frá sagt var sá góði maður reyndar búinn að ná dálitlu forskoti á mig þegar þarna var komið sögu, og það sama gilti um Tate Cantrell. En ég var samt alls ekki einmana. Alls staðar var fólk meðfram brautinni að hvetja hlauparana, og í þeim hópi voru furðu margir sem ég þekkti. Það var kannski ekki að undra þótt erlendir samferðamenn mínir spyrðu hvort ég þekkti alla í Reykjavík. Þetta er sjálfsagt öðruvísi í flestum borgarhlaupum erlendis.

Ég bjóst við að illa stillta Garminúrið mitt myndi sýna 1:15 klst. eftir 18 km og vissi að ef það gengi eftir myndi líklegasti lokatíminn vera á bilinu 1:28 og 1:29 klst. Þessi varð líka raunin. Þegar aðstæður eru góðar og næg reynsla með í för kemur sjaldnast margt á óvart á síðustu kílómetrunum. Þar snýst málið um nokkrar sekúndur til eða frá en mínútur eru frekar fyrirsjáanlegar. Að sama skapi er hugarreikningur í mínútum ekki sérlega spennandi eða hvetjandi tómstundaiðja.

Átján kílómetra markið í Reykjavíkurmaraþoni er í næsta nágrenni við Kirkjusand. Þá er maður búinn að hlaupa inn í Vatnagarða og hálfmaraþonhlauparar eiga  ekkert eftir nema Sæbrautina niður í bæ. Á þessu svæði mætir maður hlaupurum sem hafa farið sér ívið hægar og eru um þetta leyti búnir með 13 km eða svo. Í þeim hópi voru margir sem ég þekkti, þ.á.m. eitthvað af hlaupafélögum mínum úr Flandra og svo hún Gitta mín. Þarna var gaman að hvetja og fá hvatningu.

Síðustu kílómetrarnir voru frekar erfiðir, enda sjálfsagt ekkert óeðlilegt að þá sé maður farinn að þreytast. Skemmtilegra er samt að vera í standi til að halda nokkurn veginn sama hraða á leiðarenda. Á þessum kafla létti Gottskálk Friðgeirsson, gamall skólafélagi og vinur, mér lífið um stund en hann var þarna á hjóli. Fáir Íslendingar hafa hlaupið fleiri maraþon en hann, en aldrei þessu vant gat hann ekki verið með þetta árið.

Millitíminn eftir 20 km var 1:23:43 klst. en á úrinu mínu stóð náttúrulega bara 1:23. Með einföldum útreikningi sá ég að líkurnar á því að enda undir 1:28 voru hverfandi en þó ekki alveg úr sögunni. Það færi auðvitað eftir því hvaða sekúndum úrið þegði yfir. Eftir á að hyggja missti ég einmitt af markmiðinu á kílómetrum 15-20. Sá 5 km kafli var sá langhægasti í hlaupinu (21:22 mín). En hvað um það. Ég hljóp bara eins hratt og ég gat þann spöl sem eftir var og kom í mark á 1:28:13 klst., langbesta tímanum mínum til þessa. Ég var reyndar alsæll með þann tíma „þótt mig hrakið hafi frá / hæsta takmarkinu“ eins og segir í vísunni.

Tekið á því á síðustu metrunum. (Ljósm. Jón Kristinn Haraldsson).

Tekið á því á síðustu metrunum. (Ljósm. Jón Kristinn Haraldsson).

Þorkell var einn af þeim fyrstu sem ég hitti á marksvæðinu. Hann hafði haldið sama hraða í gegnum allt hlaupið, þrátt fyrir algjöran skort á langhlauparaæfingum síðustu árin. Lokatíminn hans var 1:24:48 klst. (4:01 mín/km). Ég þóttist reyndar vita að hann yrði á undan mér ef ekkert kæmi upp á, en þessi tími var enn betri en ég hafði reiknað með.

Næsta hálftímann notaði ég til að spjalla við ótrúlega margt og ótrúlega vinsamlegt fólk sem ég kannaðist við á marksvæðinu, þar með talda hlaupafélaga mína úr Flandra, þá Gunnar og Kristin sem báðir voru að enda við að stórbæta hálfmaraþontímana sína. Ætli ég sjái ekki undir hælana á þeim næsta sumar? Marksvæðið er annars heill heimur út af fyrir sig. Reykjavíkurmaraþon er nefnilega ekki bara hlaup, heldur einnig og ekki síður uppskeruhátíð og góðra vina fundur. Fátt er nú glaðara en það. Gleði dagsins var svo fullkomnuð þegar Gitta skilaði sér í markið á 2:10:00 klst. Það kallar maður að setja sér markmið og ná því! Og með þessu var hún líka að stórbæta tímann sinn frá því fyrr í sumar.

Það eru forréttindi að geta hlaupið sér til gamans. Og enn meiri forréttindi felast í því að geta hlaupið með börnunum sínum. Þetta var reyndar ekki alveg í fyrsta sinn sem við þrjú lögðum saman upp í Reykjavíkurmaraþon, því að eins og ég nefndi í upphafi gerðum við þetta líka sumarið 1994. Þá vorum við reyndar öll fimm saman í för. Við Björk og dæturnar röltum þá 3 km, enda þær ekki nema tveggja og sjö ára gamlar. Þorkell var hins vegar orðinn 9 ára og hljóp á undan okkur. Lokatíminn hans þá var 15:42 mín. (5:14 mín/km). Er ekki sagt að snemma beygist krókurinn?

Öll fjölskyldan eftir Reykjavíkurmaraþon 1994.

Öll fjölskyldan eftir Reykjavíkurmaraþon 1994. (Þetta var í lok Don Cano tímabilsins í tískusögunni).

Hálft maraþon nægir

21kmbadgeÉg ætla að láta mér nægja að hlaupa hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu næstkomandi laugardag. Hálft maraþon er vissulega ekki stutt hlaup, en eftir að hafa hlaupið heilt maraþon fimm ár í röð finnst mér samt pínulítið skrýtið að hlaupa styttra. En hér fær skynsemin að ráða, enda eflaust gott að gefa henni tækifæri annað slagið. Ástæða þess að ég ætla að bregða svona út af vananum er að ég stefni á að bæta mig í maraþonhlaupi í München í október og hálft maraþon passar betur en heilt inn í undirbúningsvinnuna.

Mér finnst út af fyrir sig ekkert tiltökumál að hlaupa tvö maraþon með tveggja mánuða millibili, enda býst ég við að líkaminn losni við þreytuna úr fyrra hlaupinu innan þriggja vikna. Hins vegar truflar fyrra maraþonið æfingar fyrir það síðara. Um þessar mundir þarf ég nefnilega að leggja áherslu á styrk og hraða og svoleiðis æfingar tekur maður ekki stuttu eftir maraþonhlaup. Ef áformin um bætingu í München eiga að ganga eftir er þetta því skynsamlegasta leiðin.

Mér finnst rétt að taka fram að staðhæfingin hér að framan um að líkaminn losni við maraþonþreytu innan þriggja vikna á ekki við um þá sem stefna að hámarksárangri í greininni í alþjóðlegum keppnum. Þar gilda allt önnur lögmál en hjá okkur skokkurunum, æfingaálagið er miklu meira og álagið í hlaupinu sjálfu sömuleiðis. Þess vegna þurfa hlauparar í þeim gæðaflokki að láta líða lengri tíma á milli keppnishlaupa á vegalengdinni.

En hvert er þá markmiðin mitt fyrir laugardaginn? Jú, ég stefni að því að hlaupa hálft maraþon á skemmri tíma en 1:28 klst., helst á 1:27:55 eða þar um bil. Ef þetta tekst veit ég að ég get bætt mig í maraþoni í München ef ekkert óvænt kemur upp á. Besti tíminn minn í hálfu maraþoni til þessa er 1:29:25 klst. frá því í vormaraþoni FM í apríl. Um það má lesa í þar til gerðum bloggpistli, þar sem hálfmaraþonævisagan mín er líka rakin í stórum dráttum.

Ég á mér líka annað markmið. Ég vil endilega nota hlaupið á laugardaginn til að safna sem mestum peningum fyrir FSMA á Íslandi, en FSMA er félag aðstandenda og einstaklinga sem haldnir eru SMA sjúkdómnum (Spinal Muscular Atrophy). Ég hef reynt að styrkja þetta félag eftir föngum í hlaupum síðustu ára. Þetta hefur bætt tilgangi við hlaupin hjá mér, enda eðlilegt að á hlaupum verði manni hugsað til þeirra sem ekki njóta þeirra forréttinda að geta sjálfir hlaupið eins og þá lystir. Tekið er við framlögum á síðunni minni á hlaupastyrkur.is. Gaman væri að sem flestir tækju þátt í því. FSMA er lítið félag. Þar munar um allt.

Tvö Pébé á þremur dögum

Við Flandrararnir eftir hálfa möru sl. laugardag. (Ljósm. Kristín Gísla).

Við Flandrararnir eftir hálfa möru sl. laugardag. (Ljósm. Kristín Gísla).

Í síðasta bloggi sagði frá því að framundan væru tvö keppnishlaup, annars vegar 99. Víðavangshlaup ÍR á sumardaginn fyrsta og hins vegar Vormaraþon Félags maraþonhlaupara tveimur dögum síðar. Og í sama bloggi sagði frá því að líklega myndi ég skrifa eitthvað um þessi hlaup áður en langt um liði. Sú stund er nú upp runnin.

Fimmtudagur 24. apríl:
99. Víðavangshlaup ÍR

Víðavangshlaup ÍR er svo sem ekkert víðavangshlaup nú til dags, þar sem aldrei er farið út af malbikinu. En það skiptir engu máli, þetta er eitt af skemmtilegustu hlaupum ársins og formleg staðfesting þess að sumarið sé komið.

Ég tók fyrst þátt í Víðavangshlaupi ÍR vorið 1974. Skrifaði einmitt dálítið um það fyrir ári síðan í tilefni þess að þá var ég með aftur eftir 39 ára hlé. Og nú var ég mættur í þriðja sinn. Þetta er greinilega að komast upp í vana.

Markmiðið fyrir þetta hlaup var fyrst og fremst að hafa gaman af, enda bara tveir dagar í hálft maraþon. Ég taldi þó alveg ástæðulaust að vera mikið lengur en 20:30 mín að hlaupa þessa 5 kílómetra.

Dagurinn fór vel af stað, ekki síst vegna þess að hlaupafélagar mínir úr hinum rómaða hlaupahópi Flandra í Borgarnesi fjölmenntu í hlaupið. Við vorum nánar tiltekið þarna sex saman. Ég lenti í dálitlum þrengslum í startinu, en fór að öðru leyti fremur geyst af stað. Það er kækur sem ég vandi mig á þegar ég byrjaði að keppa í hlaupum sumarið 1972 og hef aldrei séð brýna ástæðu til venja mig af. Þegar ég leit á hraðamælinn einhvers staðar í Tjarnargötunni sýndi hann 3:40 mín/km. Það er alvanalegt. Maður róast fljótlega.

Ég var staðráðinn í því frá upphafi að hlaupa þetta hlaup létt, hugsa um stílinn og gleðina og gæta þess að þreyta mig ekki um of. Þetta gekk mjög vel fyrstu tvo kílómetrana. Sá fyrsti tók ekki nema 3:51 mín og sá næsti 3:59 mín, alveg átakalaust. Þetta var meira að segja meiri hraði en í sama hlaupi í fyrra. Ég var líka með ágætis héra. Hrönn Guðmunds, Friðrik í Melabúðinni, Guðmundur Löve og Ingvar Garðarsson voru rétt á undan mér, og einhvers staðar rétt á eftir mér vissi ég af Gunnari Viðari, félaga mínum úr Flandra.

Kampakátur í Vonarstræti þegar hlaupið var hálfnað. (Ljósm. Hjörtur Stefánsson).

Kampakátur í Vonarstræti þegar hlaupið var hálfnað. Friðrik í Melabúðinni á sínum stað á undan mér. (Ljósm. Hjörtur Stefánsson).

Þriðji kílómetrinn var örlítið erfiðari, en hafðist samt líka á 3:59 mín – og sá fjórði á 4:01 mín. Heildartíminn eftir 4 km var sem sagt 15:50 mín. Þar með var orðið líklegt að ég myndi bæta mig í þessu hlaupi, án þess að það hefði svo sem nokkurn tímann staðið til. Þetta var hreint ekkert leiðinlegt. Ég náði svo að herða vel á í lokin, enda búinn að gleyma því að ég þyrfti að spara kraftana fyrir laugardaginn. Endaspretturinn eftir Tjarnargötunni var ljúfur og í markið kom ég á 19:39 mín, 20 sek. fljótari en í fyrra þegar ég setti persónulegt met í 5 km götuhlaupi.

Í bloggskrifum um Víðavangshlaup ÍR í fyrra rifjaði ég upp að við Jón Guðlaugsson hefðum verið einu mennirnir sem mættu í hlaupið bæði 1974 og 2013. Jón lét sig auðvitað ekki vanta núna heldur, og svo var Sigurður P. Sigmundsson líka mættur alveg eins og 1974. Hann var langt á undan mér í bæði skiptin. Jón er hins vegar orðinn enn eldri en við og eðlilega nokkuð lengur á leiðinni. Árið 1974 fékk hann reyndar sérstaka viðurkenningu sem elsti þátttakandinn. Þá var hann 48 ára, sem þótti hár aldur fyrir hlaupara á þeim árum. Margt hefur breyst síðan!

Föstudagur 25. apríl: Fundur í Kaupinhafn
Mér gafst ekki langur tími til að dást að sjálfum mér eftir hlaupið á fimmtudaginn, því að ég þurfti að ná flugrútunni skömmu síðar og koma mér til Kaupmannahafnar. Vorum þar þrjú saman á föstudeginum á stuttum fundi þar sem við reyndum að sannfæra nokkra norræna embættismenn um að kaupa af okkur hugmynd fyrir nokkra milljónkalla. Þetta voru reyndar afskaplega jákvæðir embættismenn sem höfðu sjálfir boðið okkur að koma á þeirra kostnað til að kynna hugmyndina. Við vorum einn fjögurra hópa sem hafði fengið svoleiðis boð, en samtals slógust 20 hópar um hnossið. Þetta var sem sagt keppni, rétt eins og í hlaupunum, og þegar upp var staðið komumst við á pall. Með öðrum orðum er í þessum skrifuðu orðum verið að semja við okkur um helminginn af verkinu sem um ræðir.

Þessi aukakeppni í Kaupmannahöfn var ekki beinlínis inni á hlaupaprógramminu mínu. Þar var bara Víðavangshlaup ÍR á fimmtudeginum og hálft maraþon á laugardeginum. Ferðalög milli landa eru ekki efst á óskalistanum á milli svoleiðis viðburða. En stundum þarf maður líka að vinna.

Laugardagur 26. apríl: 99. Vormaraþon FM
Ég var kominn heim frá Kaupmannahöfn og lagstur til svefns í Borgarnesi rétt upp úr miðnætti á föstudagskvöldinu og svaf vel eins og maður gerir þegar allt er rólegt og ekkert stress í gangi. Klukkan 8 um morguninn voru svo þrír alhörðustu hálfmaraþonhlauparar Flandra sestir upp í einn og sama bíl og lagðir af stað til Reykjavíkur.

Mér fannst ég svona í meðallagi léttur í upphituninni í Elliðaárdalnum á 10. tímanum. Oft finn ég nokkurn veginn á mér á fyrstu skrefunum hvernig dagurinn verður, en þarna var ég ekki viss. Vissi þó alveg eftir fimm kílómetrana á fimmtudeginum að ég væri í nógu góðu standi til að bæta mig í þessu hlaupi. Ég fann ekkert fyrir eftirköstum frá fyrra hlaupinu, en kannski sat í mér örlítill lúi eftir Kaupmannahafnarferðina. Væntingarnar voru líka hóflegar í samræmi við það. Ég vissi að þetta yrði gaman og að ég yrði ekkert leiður þótt tíminn yrði bara í kringum 1:33 mín. Villtustu draumar voru að komast undir 1:30 mín, enda var það eitt helsta markmið ársins. Ég bjóst þó miklu frekar við að það myndi bíða þangað til síðar á árinu. Ákvað engu að síður að fara nógu hratt af stað til að eiga möguleika á að láta þessa villtustu drauma rætast. Það þýddi að ég þurfti að hlaupa hvern kílómetra á u.þ.b. 4:15 mín. Ef ég fer aðeins of hratt fyrstu kílómetrana get ég bara gefið eftir þegar líður á hlaupið. Það er enginn vandi. Ef ég fer alltof hægt af stað get ég hins vegar engan veginn bætt mér það upp á seinni hlutanum. Það er ekki hægt.

Kl. 10 hófst hlaupið. Við Flandrararnir fylgdumst að til að byrja með en svo skildu leiðir smátt og smátt. Gunnar var þarna að hlaupa sitt fyrsta formlega hálfmaraþon og Kristinn sitt þriðja. Ég var hins vegar að fara í 12 sinn og hef heldur eflst með hverju hlaupi. Hef auðvitað líka elst með hverju hlaupi, en það hefur ekki komið að sök.

Mér leið vel á fyrstu kílómetrunum ef frá er talinn svolítill almennur lúi. Veðrið lék við okkur. Að vísu var vestan golan heldur í fangið í fyrri hluta hlaupsins, en hitinn var um 10 stig og jafnvel svolítið sólskin. Það gerist ekki mikið betra. Ég fylgdist ekki nákvæmlega með hraðanum, en lét mér nægja að kíkja lauslega  á klukkuna eftir hvern kílómetra. Við 5 km markið var tíminn kominn í 20:54 mín, sem jafngildir 4:11 mín/km. Þetta var fínn hraði, sérstaklega í mótvindi, og ég vissi alveg að bæting væri í spilunum ef þreytan myndi ekki gera verulega atlögu að mér undir lok hlaupsins. Maður veit aldrei, en þegar ég er á annað borð kominn á sæmilega siglingu tekst mér oftar en ekki að þrauka á svipuðum hraða í gegnum allt hlaupið.

Tíminn eftir 10 km var 41:59 mín (4:12 mín/km). Ég var aðeins farinn að finna til þreytu, en framundan var snúningspunkturinn og meðvindur til baka. Skömmu eftir snúninginn mætti ég Flandrafélögunum hvorum á eftir öðrum og sýndist þeir vera á góðri siglingu. Svona snúningar í hlaupum hafa sína kosti og galla. Gallinn er sá að það er örlítið tilbreytingarsnauðara að hlaupa aftur sömu leið, en kosturinn hins vegar að með þessu móti mætir maður næstum öllum hinum hlaupurunum einhvern tímann. Þá er tækifæri til að skiptast á hvatningu sem getur komið báðum til góða.

Þrátt fyrir meðvindinn hægðist á mér á bakaleiðinni. Á löngum kafla um miðbik hlaupsins vorum við fjórir saman í hópi, en tveimur hinna tókst að halda sínu striki þannig að ég dróst smám saman afturúr ásamt með Ásgeiri Má Arnarssyni, sem var þarna að hlaupa hálfþaraþon í annað sinn. Við fylgdumst að drjúgan spöl og ræddum málin. Slíkt styttir manni stundir og léttir á þyngstu kílómetrunum. Í hálfu maraþoni eru það gjarnan kílómetrar nr. 12-17 eða þar um bil.

Eftir 15 km var tíminn 1:03:12 klst (4:13 mín/km). Ákvað að geyma vangaveltur um líklegan lokatíma þangað til 3 km væru eftir af hlaupinu. Þá kílómetra hlyti ég að geta hlaupið á 13:30 mín hvernig sem allt veltist. Fékk eitthvert smávægilegt þreytukast á 16. kílómetranum í Öskjuhlíðinni, en náði mér fljótlega á strik aftur. Það er ekkert óeðlilegt við það að þreytast aðeins í svona hlaupi þar sem maður reynir að halda sér nálægt eigin hámarkshraða. Hvað sem því líður var klukkan komin í 1:16:55 klst þegar 3 km voru eftir. Þar með vissi ég að tíminn 1:30:30 væri í höfn ef engin slys myndu henda mig. Eftir þetta var meira gaman en áður. Ég átti best áður 1:31:12, þannig að nú var bara að njóta.

Tíminn eftir 20 km var 1:25:00 klst, sem þýddi að ég myndi örugglega hlaupa vel undir 1:30. Villtustu draumarnir voru sem sagt að fara að rætast, hvað sem allri Kaupmannahafnarþreytu leið. Og ég átti nóg eftir til að bæta vel í undir lokin. Síðasta kílómetranum náði ég undir 4 mín (3:59) og kláraði hlaupið á 1:29:25 klst, sem var miklu betri tími en ég hafði gert ráð fyrir.

Endaspretturinn í Vormaraþoninu. (Ljósm. Hjörtur Stefánsson).

Endaspretturinn í Vormaraþoninu. (Ljósm. Hjörtur Stefánsson).

Ég hafði margar ástæður til að gleðjast að hlaupi loknu, auk pébésins (sem er lausleg þýðing á „personal best“). Eitt gleðiefnið var að félagar mínir í Flandra luku báðir hlaupinu á sínum besta tíma og annað að á marksvæðinu hitti ég ótrúlega margt fleira skemmtilegt fólk sem gaman var að sjá og spjalla við. Ég held að skemmtilegu fólki fjölgi með hverju árinu sem líður. Og enn eitt gleðiefnið var að ég skyldi enn vera að taka þátt í svona hlaupum – og jafnvel að bæta mig. Í ágúst verða t.d. liðin 29 ár frá því að ég hljóp fyrsta hálfmaraþonið mitt – og þau taka alltaf styttri og styttri tíma. Ætti ég kannski að skrifa hálfmaraþonævisöguna mína snöggvast?

Hálfmaraþonævisagan mín
Ég hljóp sem sagt fyrsta hálfmaraþonið  mitt í ágúst 1985. Man ekki í svipinn hvernig ég fékk þá flugu í höfuðið, nýorðinn faðir í fyrsta sinn og löngu búinn að gleyma öllum áformum um að verða besti hlaupari í heimi. Kannski finn ég einhverjar vísbendingar um þetta með því að rýna í samtímaheimildir. Ég man alla vega að ég fór nokkrum sinnum út að hlaupa þetta sumar, m.a. með Pétri Péturssyni þrístökkvara af Ströndum. Býst við að hann hafi hvatt mig til dáða eins og hann gerir alltaf þegar við hittumst. Á þessum árum fannst mér hálft maraþon langt og til þess að vera viss um að ég kæmist alla leið hljóp ég einhvern daginn frá Broddanesskóla þar sem ég átti heima og heim á æskuheimilið mitt í Gröf. Sú vegalengd er nálægt hálfu maraþoni og yfir einn fjallveg að fara. Fyrst ég gat það hlaut ég að vera tilbúinn.

Fyrsta hálfmaraþonið mitt tók 1:43:43 klst. Það þótti mér góður tími, enda var hann það náttúrulega. Nýir tímar eru góðir. Eftir þetta liðu svo 6 ár fram að næsta hlaupi. Þessi sex ár skiluðu mér niður á 1:39:41. Man svo sem ekkert eftir því hlaupi, nema hvað þá var ég búinn að leggja bómullargallanum frá Héraðssambandi Strandamanna sem ég skrýddist 1985 og kominn í stuttbuxur og stuttermabol. Síðan hef ég jafnan kosið að hlaupa í minni fötum en meiri ef veður hefur leyft – og stundum þó að það hafi ekki leyft það.

Sallarólegur í HSS-galla og slitnum skóm á drykkjarstöð í Reykjavíkurmaraþoninu 1985. Stutt síðan. Fátt hefur breyst. (Björk hlýtur að hafa tekið myndina).

Sallarólegur í HSS-galla og slitnum skóm á drykkjarstöð í Reykjavíkurmaraþoninu 1985. Stutt síðan. Fátt hefur breyst. (Björk hlýtur að hafa tekið myndina).

Á fullri ferð í Reykjavíkurmaraþoninu 1991. Kominn í stuttbuxur og búinn að setja upp brosið. (Ljósm. líklega Björk).

Á fullri ferð í Reykjavíkurmaraþoninu 1991. Kominn í stuttbuxur og búinn að setja upp brosið. (Ljósm. líklega Björk).

Næst liðu 10 ár. Það var sem sagt ekki fyrr en árið 2001 sem ég tókst á við þessa vegalengd í þriðja sinn. Hafði reyndar hlaupið fyrsta heila maraþonið í millitíðinni, en það á náttúrulega ekki heima í þessari ævisögu. Hlaupið 2001 var erfitt og það langhægasta í sögunni, 1:45:20 mín. Eitthvað var ég búinn að æfa um sumarið, en síðustu vikurnar fyrir hlaup voru eitthvað lélegar. Það sem var skemmtilegast við þetta hlaup var að Þorkell sonur minn hljóp með mér. Þá var hann 16 ára (fæddur rétt fyrir fyrsta hálfmaraþonið) og löngu farinn að rúlla mér upp í 10 km. Þessi vegalengd var hins vegar enn í lengra lagi fyrir hann, þannig að hann dróst aðeins aftur úr í lokin.

Fjórða hlaupið var í ágúst 2004. Það sumar höfðum við feðgarnir farið saman í nokkur hlaup og árangurinn lét ekki á sér standa. Lokatíminn var 1:36:31 og þar með búið að ná fram 7 mínútna bætingu á 19 árum. Mig minnir að ég hafi þá haldið að þarna væri ég kominn að getumörkum.

Í ágúst 2005 tók ég enn einu sinni hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu. Tíminn var 1:39:09, sem mér fannst svo sem allt í lagi miðað við aldur og fyrri störf. Árið 2006 var frekar lítið um hlaup, en haustið 2007 hljóp ég hálft maraþon á Selfossi á 1:38:17 mín í  dálitlum vindi. Þetta var árið sem ég varð fimmtugur og árið sem ég gerði hlaupin að lífsstíl. Tíminn var kannski ekkert sérstakur, en þarna voru samt ákveðin þáttaskil í aðsigi.

Sjöunda hálfmaraþonið hljóp ég á Akureyri í júní 2008. Brautin var aðeins of löng þannig að tíminn var ekki marktækur, en með svolitlum reiknikúnstum fékkst talan 1:35:43 klst, sem var betra en ég hafði gert áður. Þarna hljóp Þorkell þessa vegalengd með mér öðru sinni, enda hafði ég skorað sérstaklega á hann að reyna að vinna gamla manninn. Hann fór létt með það, var rúmum tveimur mínútum á undan mér.

Árið 2010 hljóp ég 8. og 9. hálfmaraþonið og bætti mig í báðum, fyrst í Vormaraþoni FM í apríl þar sem ég hljóp á 1:34:51 mín og aftur á Akranesi í júní þar sem ég náði pébéinu niður í 1:32:38 mín þrátt fyrir nokkur hvassan vind og kalsaveður. Þarna var lífsstíllinn farinn að segja til sín.

Tíunda hálfmaraþonið hljóp ég í Haustmaraþoni FM í október 2011. Tíminn var 1:33:16 klst., sem mér þótti bara gott miðað við æfingar vikurnar á undan. En þarna var ég greinilega kominn á einhverja framfarabraut. Í haustmaraþoninu tveimur árum síðar, sem sagt í fyrrahaust, bætti ég pébéið niður í 1:31:12. Og núna er það sem sagt komið niður í 1:29:25 klst. Engin áform eru uppi um að láta þar við sitja.

Hlaupaæfingar á útmánuðum

Vikur 1-16 2014 160Hlaupasumarið 2014 byrjar eiginlega á fimmtudaginn, rétt eins og sumarið á íslenska dagatalinu. Þá verður Víðavangshlaup ÍR haldið 99. árið í röð – og tveimur dögum síðar er röðin komin að Vormaraþoni FM. Í tilefni af þessu tel ég brýnt að upplýsa þjóðina um gang mála á hlaupaæfingum á þorra, góu og einmánuði, sem öll heyra sögunni til innan fárra daga.

Viðhaldsæfingar
Til að halda mér í þokkalegu hlaupaformi tel ég mig þurfa að hlaupa þrisvar í viku, samtals um 40 km. Svona lagað er auðvitað einstaklingsbundið og ræðst m.a. af aldri, hlaupareynslu, líkamlegu (og andlegu) ástandi og settum markmiðum. Það sem hæfir einum getur þannig verið allt of mikið eða allt of lítið fyrir einhvern annan. Í upphafi þessa árs var ég alla vega staðráðinn í að miða við þetta vikulega æfingamagn fram til 20. febrúar eða þar um bil. Stærsta hlaupamarkmiðið mitt á þessu ári er að bæta mig í Münchenmaraþoninu í október, þannig að mér liggur ekkert á. Sígandi lukka er best í hlaupum eins og flestu öðru.

Æfingarnar gengu eftir áætlun þessar fyrstu vikur ársins. Það eina sem ég þurfti að gera var að mæta á æfingar fjörlega og fallega hlaupahópsins Flandra í Borgarnesi, sem hittist einmitt þrisvar í viku. Þar eru að vísu oftast hlaupnar örlítið styttri vegalengdir en svo að hinir vikulegu kílómetrar verði 40 talsins, en það get ég auðveldlega bætt upp með því að mæta aðeins fyrr eða hætta aðeins seinna en hinir. Á mánudögum eru sprettæfingar sem ég get teygt upp í 10 km eða þar um bil með góðri upphitun og aukaskokki, á fimmtudögum eru oft hlaupnir um 8 km og þá voru ekki nema 22 km eftir fyrir góða laugardagsæfingu. Reyndar vil ég helst ekki að lengsta hlaup vikunnar sé meira en helmingur af vikuskammtinum, en það er ekkert heilagt.

Vikur 1-16 2014

Eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan hélst vikuskammturinn nokkuð stöðugur að viku 10 frátalinni, en þá varð einhver minni háttar röskun vegna hálsbólgu eða annríkis í vinnu. Hvort tveggja getur truflað hlaupaæfingarnar þó að hvorugt setji venjulega stórt strik í reikninginn. Annríkið snýst að einhverju leyti bara um forgangsröðun í lífinu og mér er nær að halda að sama geti gilt um hálsbólgu og aðra minni háttar kvilla, svona að vissu marki. Og svo gerist svo sem ekki neitt þó að maður missi eina og eina viku úr. Skrokkurinn notar þá bara tímann til að lagfæra eitthvað sem kann að hafa gengið úr lagi dagana og vikurnar á undan.

Í byrjun mars tókst mér að koma næsta hluta æfingaráætlunarinnar í gang. Þá dró ég fram áætlun sem ég stal einhvern tímann einhvers staðar á netinu, og hefur það m.a. sér til ágætis að geta reiknað heppilegan hraða á æfingum út frá ætluðum árangri í næsta keppnishlaupi sem máli skiptir. Þessa áætlun aðlagaði ég að Vormaraþoni FM 26. apríl nk, en þá ætla ég að hlaupa fyrsta hálfmaraþon ársins. Eitt af helstu hlaupamarkmiðunum mínum þetta árið er að komast undir 1:30 klst. í þeirri vegalengd, þannig að ég stillti áætlunina miðað við það.

Í stuttu máli hefur gangur mála frá því í byrjun mars verið eins og að var stefnt, nema hvað heildarmagnið hefur ekki alveg náð þangað sem ég vildi. Tvær vikur hafa þó náð u.þ.b. 70 km, sem er svo sem alveg nóg að mínu mati. Dæmigerð vika á þessu tímabili hefur verið eitthvað á þá leið að á mánudegi hef ég tekið sprettæfingu með Flandra, allt frá 10×200 m upp í 6×1600 m. Með aukahlaupum og e.t.v. aukasprettum hef ég náð þessari æfingu upp í um 15 km. Þriðjudagur og miðvikudagur hafa svo verið frekar rólegir. Á þriðjudeginum hef ég jafnvel tekið mjög hægt hvíldarskokk til að liðka og hreinsa eftir spretti mánudagsins. Á fimmtudegi hef ég svo tekið svo sem 12-14 km – og þá gjarnan með hraðari seinni helmingi. Föstudagurinn hefur oftast verið hvíldardagur og laugardagurinn helgaður lengstu æfingu vikunnar, venjulega á bilinu 20-30 km, stundum með hraðari köflum inn á milli.

Fyrstu keppnishlaup ársins
Keppnishlaup á styttri vegalengdum eru að mínu mati einhver besta æfing sem völ er á fyrir maraþonhlaupara, bæði fyrir sál og líkama. Það sem af er árinu hef ég farið í tvö slík, fyrst 5 km Actavishlaup FH 27. mars og síðan 10 km Flóahlaup Umf. Samhygðar (Kökuhlaupið) 5. apríl. Ég fann mig engan veginn í því fyrrnefnda, en kláraði þó 5 km á 20:32 mín, sem er svo sem ekkert lakara en ég er vanur. Í Flóahlaupinu gekk hins vegar allt upp og ég kom í mark á 41:17 mín, sem var langt umfram væntingar. Á reyndar best 41:00 í 10 km götuhlaupi. Það var sumarið 1996. Hljóp á 41:03 í fyrra, þannig að þetta lítur bara frekar vel út. Hraðinn í báðum hlaupunum var eftir á að hyggja svipaður, þannig að það hvort árangurinn var góður eða slæmur er líklega meira huglægt. Alla vega bendir flest til þess að skrokkurinn sé ekki verri en vant er.

Næstu verkefni og markmið
Á sumardaginn fyrsta ætla ég að mæta í 99. Víðavangshlaup ÍR. Mætti fyrst í þetta hlaup vorið 1974 og svo aftur í fyrra. Nenni ekki að bíða í 39 ár eins og síðast, þannig að nú verður tekið á því tvö ár í röð. Markmiðið fyrir þetta hlaup er fyrst og fremst að hafa gaman af, enda stutt í næstu átök. Ég viðurkenni þó að ég verð pínulítið leiður ef ég get ekki hlaupið á u.þ.b. 20:30 mín án þess að ganga nærri mér.

Laugardaginn 26. apríl er það svo Vormaraþon Félags maraþonhlaupara (FM). Eins og fyrr segir er það eitt helsta markmið ársins að hlaupa hálft maraþon undir 1:30 klst. Ég á þó síður von á því að það gerist í þessu hlaupi. Væntingarnar eru um það bil sem hér segir:

 • 1:35 mín eða lengur = grátur og gnístran tanna
 • 1:31:12 – 1:34:59 mín = engin stórtíðindi
 • Undir 1:31:12 mín = persónulegt met og mikil gleði
 • Undir 1:30 mín = villtustu draumar

Veðrið getur sett strik í reikninginn á laugardaginn. Svoleiðis gerist stundum á vorin. Svo þarf ég að sinna vinnuerindum í Kaupmannahöfn daginn áður og kem til landsins þá um kvöldið. Svoleiðis flækingur er ekki í uppáhaldi daginn fyrir hlaup. En þetta fer allt einhvern veginn, þó að maður efist stundum um það. Ætli ég skrifi ekki eitthvað um það um mánaðarmótin…