• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • júní 2014
    S M F V F F S
    1234567
    891011121314
    15161718192021
    22232425262728
    2930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Hamingjuhlaup á laugardaginn

Hamingjuhlaup 2014 kort Kleifar-MiðdalurHið árlega Hamingjuhlaup verður haldið í sjötta sinn laugardaginn 28. júní, en hlaupið tengist Hamingjudögum á Hólmavík. Að þessu sinni verður hlaupið frá Kleifum í Gilsfirði um Vatnadal til Steingrímsfjarðar og áfram eftir veginum til Hólmavíkur, en þessa leið riðu móðurbræður mínir á millistríðsárunum áleiðis á böll á Ströndum. Þetta var kallað að fara Vatnadal.

Þegar farinn er Vatnadalur er hægt að velja milli a.m.k. þriggja leiða upp úr Gilsfirði. Ysta leiðin liggur upp með Mávadalsá milli Gilsfjarðarbrekku og Gilsfjarðarmúla, en mér er ekki fullljóst hvorum megin við ána er best að fara. Þetta var kallað að fara upp með Bergi, en Berg er líklega nafnið á klettabelti uppi í brúninni. Þarna þótti naumast óhætt að fara með hesta, en síðari tíma heimildir herma þó að ónefndur bóndi í Gilsfirði hafi einhvern tímann riðið þarna niður vel við skál. Það þótti glæfraför, en hún endaði giftusamlega.

Frá Kleifum var yfirleitt farið upp með Glámi eins og kallað var, en Glámur er stakur klettur í brúninni upp og út af Gilsfjarðarbrekku. Þá er farið skáhallt upp frá Brekkubænum. Þarna var sæmileg hestagata, en við Glám hefur mikið hrunið úr henni á síðari árum þannig að hún er vafalítið alveg ófær hestum núorðið. Að öllum líkindum vefst þessi kafli þó ekki fyrir vönum göngumönnum.

Þriðji möguleikinn er að fara upp grasi vaxna brekku sem teygir sig frá brúninni niður undir botn Brekkudals innan við bæinn á Gilsfjarðarbrekku. Þessi leið er líklega sú lengsta af þessum þremur. Ég geri ráð fyrir að móðurbræður mínir hafi ekki farið þessa leið, heldur annað hvort upp með Bergi eða upp með Glámi.

Í hamingjuhlaupinu á laugardaginn verður engin þessara þriggja leiða valin, heldur verður veginum fylgt til að byrja með inn Brekkudal og áleiðis upp á Steinadalsheiði. Þarna hefur orðið sú breyting frá þeim tíma þegar bræður mömmu voru ungir menn, að þarna er kominn tiltölulega greiðfær vegur. Þegar komið er upp fyrir Brimilsgjá verður beygt þvert úr leið, til vinstri, yfir ána og upp svolitla hæð sem skilur að Brekkudal og Vatnadal. Besti staðurinn til að beygja út af veginum er líklega um 400 m ofan við háan staur sem stendur í vegkantinum ofan við gjána. Að þessum beygjupunkti eru nákvæmlega 5,9 km frá Kleifum eftir veginum.

Hlaupaleiðin niður Vatnadal liggur vestanvert í dalnum. Leiðin er seinfarin, því að þarna er svo sem engin gata og auk heldur talsverður hliðarhalli. Farið er yfir Draugagil og áfram með Melrakkagil á hægri hönd handan árinnar. Eftir það eykst hliðarhallinn enn og við tekur seinfarnasti spölur leiðarinnar meðfram Hraundalsmúla og niður í mynni Hraundals. Neðan við Hraundal fer undirlendið smám saman breikkandi og leiðin verður greiðari. Farið er um Sléttuhlíð, meðfram Miðdalsá að vestanverðu og niður fyrir Torffell. Þar er komið á jeppaslóða og eftirleikurinn því til þess að gera auðveldur. Frá Torffelli er rétt um 1 km niður að eyðibýlinu Tind. Drjúgum spöl fyrir neðan Tind liggur vegurinn yfir ána neðan við bæinn Gestsstaði og svo áfram fram hjá Klúku allt þar til komið er á aðalveginn til Hólmavíkur, rétt fyrir innan félagsheimilið Sævang. Frá þeim vegamótum eru um 11,5 km til Hólmavíkur eftir malbikuðum vegi.

Hér verður leiðinni ekki lýst frekar, en ofar og lengst til hægri á þessari síðu má sjá grófa mynd af leiðinni frá Kleifum niður á aðalveginn innan við Sævang. Hér fyrir neðan má svo sjá annars vegar nokkra GPS-punkta sem geta komið sér vel í hlaupinu – og hins vegar tímaáætlun sem reynt verður að fylgja út í ystu æsar. Hlaupinu á að ljúka á Hólmavík stundvíslega kl. 16:00, en þá verða hlaupararnir þess heiðurs aðnjótandi að fá að skera fyrstu tertusneiðarnar af hnallþóruhlaðborði heimamanna. Til að þetta gangi upp og til að gera fólk kleift að slást í hópinn einhvers staðar á leiðinni fer hlaupið fram eins og hver önnur strætóferð, í þeim skilningi að hlaupararnir verða á tilteknum stöðum á tilteknum tímum.

GPS-punktar:
Beygjupunktur ofan við Brimilsgjá á Steinadalsheiði 65°29,85’N – 21°39,02’V
Innarlega á Vatnadal                                                         65°30,19’N – 21°41,34’V
Gegnt Melrakkagili                                                             65°31,68’N – 21°40,68’V
Hraundalur                                                                          65°32,69’N – 21°40,41’V
Torffell                                                                                   65°35,67’N – 21°38,31’V
Tindur                                                                                    65°36,09’N – 21°38,30’V

Tímatafla:

25417

Vonandi slást sem flestir í hópinn á laugardaginn, annað hvort á  hlaðinu á Kleifum kl. 10:50 eða einhvers staðar á leiðinni. Meiri upplýsingar um hlaupið er m.a. að finna á hlaup.is. Þar eru líka tenglar á glaðlegar frásagnir af fyrri hamingjuhlaupum.

(Leiðarlýsingin hér að framan er byggð á samtölum við Birgittu Stefánsdóttur eldri, Hermann Jóhannesson frá Kleifum og Ragnar Bragason, bónda á Heydalsá).

Fimmti Þrístrendingurinn

Sonja SSJ 160Gleðihlaupið Þrístrendingur var háð í fimmta sinn sl. laugardag, en í þessu hlaupi er skeiðað tvisvar þvert yfir Ísland sama daginn, að vísu þar sem það er mjóst. Hlaupið er hugarfóstur Dofra Hermannssonar, frænda míns frá Kleifum í Gilsfirði, en við frændurnir höfum hjálpast að við að láta það þroskast. Nú hefur hlaupið verið haldið fimm sinnum og alltaf verið framúrskarandi skemmtilegt (að okkar mati).

Fimmti Þrístrendingurinn hófst á hlaðinu á Kleifum, rétt eins og allir hinir Þrístrendingarnar. Ævi okkar Dofra hófst eiginlega líka á þessu hlaði, þ.e.a.s. ef tildrögin er rakin hæfilega langt aftur í tímann, til dæmis til ársins 1851 þegar Jón Ormsson, langalangafi minn og langalangalangafi Dofra settist að á Kleifum. Hann var talinn vel gáfaður, ráðhollur og gestrisinn. Þessir eiginleikar eru misarfgengir. Afkomendur Jóns bjuggu á Kleifum æ síðan þar til búskapur lagðist af einhvern tímann um aldamótin 2000. En hvað sem því líður var fríður hópur hlaupara samankominn þarna á hlaðinu  á 11. tímanum á laugardagsmorgun í býsna efnilegu veðri. Einhverjar spár gerðu ráð fyrir rigningu, en það gerðum við Dofri ekki. Í samræmi við það var þurrt, skýjað, hægur vindur, örlítil þoka til fjalla og hitinn rétt um 11°C. Þetta flokkast sem gott hlaupaveður.

Samtals lögðu 12 manns hlaupandi af stað frá Kleifum þennan morgun og einn á hjóli. Brottfarartíminn var ekki alveg samræmdur, þar sem sumir reiknuðu með að fara hægar yfir en aðrir 0g lögðu því fyrr af stað. En síðustu menn lögðu alla vega í hann stundvíslega kl. 10:51. (Þegar betur er að gáð á þessi tímasetning reyndar ekkert skylt við stundvísi, þar sem hlaupið átti annað hvort að byrja kl. 10:30 eða 11:00. Enginn veit hvort er rétt).

Allt tilbúið á hlaðinu á Kleifum. (Ljósm. Þröstur Árnason).

Allt tilbúið á hlaðinu á Kleifum. (Ljósm. Þröstur Árnason).

1. áfangi: Kleifar – Stóra-Fjarðarhorn, 18,88 km, 1:54:26 klst, 9,90 km/klst.
(Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að tölfræðin sem kemur hér fram í millifyrirsögnum skiptir engu máli, nánar tiltekið alls engu, sérstaklega ekki klukkustundafjöldinn. Þrístrendingur er tímalaust hlaup, þar sem þúsund ár verða sem einn dagur, eða öfugt. Hins vegar hefur höfundur pistilsins unað sér við leik að tölum í meira en hálfa öld og er illfáanlegur til að leggja þá áráttu til hliðar).

Leiðin lá að vanda niður heimreiðina frá Kleifum, þvert fyrir botn Gilsfjarðar og áleiðis upp Brekkudal upp á Steinadalsheiði. Ég fór mér hægt á uppleiðinni og spjallaði margt við Ragnar bónda á Heydalsá. Stefán sonur hans var þarna á hjóli, og þá verða ferðalög upp brekkur seinleg. Reyndar geta ferðalög upp þessar tilteknu brekkur verið seinleg á fleiri farartækjum. Stundum rifja ég upp bílferðir um þessar slóðir í lok 8. áratugs síðustu aldar. Fararskjótarnir mínir á þeim tíma áttu það til að hrökkva úr gír í brekkum, eða hreinlega að afþakka hvers konar klifur, sérstaklega í lausamöl. Þá var þrautalendingin að bakka upp.

Stefán Snær á leið upp Steinadalsheiðina.

Stefán Snær á leið upp Steinadalsheiðina.

Þegar komið var lengra upp í brekkurnar sást glöggt að nýliðinn vetur hafði verið óvenju snjóþungur sunnanvert í heiðinni. Hins vegar benti flest til að veturinn hefði verið snjóléttur að norðanverðu. Þetta kom heim og saman við staðhæfingar kunnugra um að snjóalögum hefði verið óvenju misskipt þennan vetur. Þannig er því líka oft varið með önnur heimsins gæði.

Efst á Steinadalsheiðinni var svolítil þoka, en samt var norðangolan ekki tiltakanlega köld. Þarna skildi ég við feðgana frá Heydalsá og einsetti mér að ná fyrstu mönnum. Það tókst ekki fyrr en komið var niður undir jafnsléttu að norðanverðu. Fátt bar annars til tíðinda, vöðin voru álíka blaut og venjulega og skórnir sömuleiðis, og sögurnar sem ég sagði líklega líka þær sömu og í fyrra.

Áning, Stóra-Fjarðarhorn, 20:12 mín, nokkrar skonsusneiðar og hópmynd
Við Stóra-Fjarðarhorn beið okkar bíll sem komið hafði með eitthvað af fólki og vistum frá Kleifum, þ.á.m. forláta kælibox sem ég hafði fyllt af mat og drykk fyrr um morguninn til að reyna að kaupa mér vinsældir. Veit ekki hvort það tókst, en eitthvað lækkaði alla vega í boxinu. Svo var tekin hefðbundin hópmynd, og eftir það hurfu sumir til síns heima og aðrir bættust í hópinn. Þrístrendingur er nefnilega svo frjálslegt hlaup að þar er fólki frjálst að koma og fara að vild. Hins vegar er bannað að týnast.

2. áfangi: Stóra-Fjarðarhorn – Gröf, 9,45 km, 1:31:12 klst, 6,22 km/klst.
Næsta mál á dagskrá var Bitruháls. Þar fer hlaupabrautin hæst í 400 m. y.s. sem er hæsti punktur leiðarinnar. Leiðin liggur upp Fjarðarhornssneiðinga sem voru einu sinni færir hestakerru, en síðan þá eru liðin mörg ár og fáein ræsi. Eitt þessara opnu ræsa er orðið að skyldumyndastað í Þrístrendingshlaupum, enda brúnir þess vel hlaðnar og Þrúðardalur grösugur í baksýn. Núna var reyndar þokuslæðingur þarna norðanvert í hálsinum og útsýni því nokkuð skert. En veðrið lék engu að síður við okkur með hægum vindi og hlýindum. Langermastakkar voru óþarfir.

Á leið upp Fjarðarhornssneiðinga.

Á leið upp Fjarðarhornssneiðinga.

Atli og Sonja byggðu brú yfir ræsið svo að allir kæmust yfir.

Atli og Sonja byggðu brú yfir ræsið svo að allir kæmust yfir.

Meðal helstu kennileita á leiðinni yfir Bitruháls eru upptök Broddár. Þau eru merkileg meðal annars vegna þess að þar eru landamerki ættaróðalsins í Gröf. Að þessum landamerkjum kom ég þó ekki fyrr en á fullorðinsárum, einfaldlega vegna þess að ég átti ekkert erindi þangað. Á æskuárunum var erindisleysa lítið í tísku.

Greinileg upphlaðin hestagata liggur áleiðis niður Bitruhálsinn frá Broddá. Þegar komið er niður í svonefndan Móhosaflóa verður á vegi manns brú, eða öllu heldur eitthvað sem einu sinni var brú, búin til úr símastaurum og símavírakeflum. Nú hafa veður og fúi náð að tortíma keflunum, en staurarnir liggja eftir, líklega hættir að verða grænir aftur þótt sólin skíni, en engu að síður hentugir til jafnvægisæfinga.

Á brúnni í Móhosaflóa. Hún hefur látið mikið á sjá á örstuttum tíma (síðustu 45 árum).

Á brúnni í Móhosaflóa. Hún hefur látið mikið á sjá á örstuttum tíma (síðustu 45 árum).

Ég og skíðin sem pabbi smíðaði fyrir mig um daginn. (Ljósm. Dofri).

Ég og skíðin sem pabbi smíðaði fyrir mig um daginn. (Ljósm. Dofri).

Segir nú ekki af ferðum okkar niður hálsinn að öðru leyti en því að við frændurnir gættum þess að segja öllum hlaupafélögunum frá því hversu einstaklega fótvissir við værum í ósléttu og grýttu landi, enda hefðum við alist upp við þessi skilyrði og lært að tipla fislétt á tám. Skipti það enda engum togum að ég rak tærnar í og steyptist fram yfir mig í grjótið. Þetta leit ekki vel út, eða var með öðrum orðum hvorki kúl né fallegt á að horfa. En meiðslin voru óveruleg. Þakklætið fyrir að hafa sloppið svona vel fylgdi mér það sem eftir var dagsins og næstu daga þar á eftir.

Hænsnakofinn ofan við túngarðinn í Gröf er að verða að föstum viðkomustað í Þrístrendingshlaupum, því að þar liggja enn skíðin sem pabbi smíðaði handa mér á ofanverðri síðustu öld. Þau höfðu sínar takmarkanir en voru engu að síður mikið notuð í skíðaferðum í hlíðinni fyrir ofan bæinn. Sjálfur átti pabbi miklu stærri skíði sem hann notaði til ferðalaga. Mig minnir að hann hafi líka átt skíðastafi, en oftast notaðist hann þó við einn langan og þungan broddstaf sem hægt var að renna sér á einum og sér niður brattar brekkur. Þá list lærði ég aldrei.

Áning, Gröf í Bitru, 44:21 mín, gestrisni og pönnukökur
Rögnvaldur bróðir minn og Arnheiður sambýliskona hans tóku að vanda vel á móti hlaupurunum þegar þeir birtust á hlaðinu við nýja glæsihúsið í Gröf. Nokkrir úr hópnum brugðu sér í stutta skoðunarferð í gamla bæinn þar sem ég fæddist undir súð einhvern tímann fyrir löngu í frekar vondu veðri síðla vetrar, en aðalverkefnið í þessari hvíld var að gæða sér á pönnukökum húsfreyjunnar. Þessar pönnukökur eru fyrir löngu orðnar eitt helsta aðdráttarafl Þrístrendings. Algengt er að boðið sé upp á kökur að hlaupum loknum, en mikið vantar upp á að það sama sé gert í miðjum hlaupum. Þarna hefur Þrístrendingur nokkra sérstöðu. Að vísu hafa sumir haft á orði að erfitt sé að hlaupa áfram eftir þessar móttökur, en ég lít á það sem skammtímavandamál, eða kannski bara upprifjun á því hvernig manni leið í gamla daga þegar maður var kominn í stígvélin á leið aftur út í heyskap eftir góðan kaffitíma síðdegis.

Við veisluborðið í Gröf. Hér fylgist Arnheiður húsfreyja með því að Fjölnismenn (og Gunnar) vanhagi ekki um neitt.

Við veisluborðið í Gröf. Hér fylgist Arnheiður húsfreyja með því að Fjölnismenn (og Gunnar) vanhagi ekki um neitt.

3. áfangi: Gröf – Kleifar, 11,84 km, 1:30:02 klst, 7,89 km/klst.
Við Gitta mín fylgdumst að fyrsta spölinn frá Gröf áleiðis fram í Krossárdal. Fátt er skemmtilegra en að hlaupa með börnunum sínum – og það breytist ekkert þó að þau séu farin að nálgast þrítugt. Já, og við vorum sem sagt á leiðinni fram í Krossárdal, því að á mínum bernskuslóðum fer maður fram til dala og út til sjávar. Þetta veldur stundum misskilningi hjá þeim sem fara inn til dala og fram til sjávar.

Það teygðist töluvert úr hlauparahópnum á leiðinni fram dalinn, en þó ekki meira en svo að hver og einn sæi ekki til næsta manns á undan. Þannig minnka líkur á að einhver villist, en þarna er ekki greinileg slóð alla leið. Norðanmennirnir Gunnar Atli og Gísli Einar fóru mikinn á þessum kafla og Gunnar Viðar fylgdi þeim eftir, enda lítið fyrir að dragast aftur úr. Ekki sáust þreytumerki á nokkrum manni þó að kílómetrarnir væru farnir að nálgast fjórða tuginn. Sporin léttust enn frekar þegar komið var suður að Krossárvatni. Sumir gengu svo langt að leggjast til sunds í vatninu, en aðrir nutu þess að vera aftur komnir á greinilega götu og mjúkt undirlag.

Dofri á sundi í Krossárvatni. Tíkin Hneta er greinilega þreytt á þessu athæfi (en líklega vön).

Dofri á sundi í Krossárvatni. Tíkin Hneta er greinilega þreytt á þessu athæfi (en líklega vön).

Og þá opnaðist okkur sýn út á Breiðafjörð. (Ljósm. Sonja Sif).

Og þá opnaðist okkur sýn út á Breiðafjörð. (Ljósm. Sonja Sif).

Þykkir skaflar voru sums staðar í Kleifunum, en leiðin var samt öll greiðfær. Fyrr en varði opnaðist sýn út á Breiðafjörðinn og veðrið, sem hafði í raun leikið við okkur allan daginn, varð jafnvel enn betra. Sólin kíkti meira að segja á okkur til að auka enn á gleðina. Loks var ekkert annað eftir en að tipla niður Hafursgötuna og niður túnið á Kleifum. Þangað kom ég rétt fyrir klukkan 5. Atli, Gísli og Gunnar voru hvergi sjáanlegir, enda höfðu þeir brugðið sér út að hlaupa niður á þjóðveg. Dagleiðin var nefnilega ekki orðin nema rúmlega 41 km, og auðvitað fannst þeim ekki taka því að hætta fyrr en fullri maraþonvegalengd væri náð. Við hin létum það hjá líða, nema hvað ég skokkaði aftur upp túnið og uppundir Hafursgötu til móts við þá síðustu í hópnum.

Sonja Sif á brúninni. Góður dagur og 41 km senn að baki.

Sonja Sif á brúninni. Góður dagur og 41 km senn að baki.

Sögulok og kjötsúpa
Fyrr en varði höfðu allir skilað sér og eftir einhver fataskipti og almenna tiltekt í farangrinum var sest að veisluborði úti undir vegg á Kleifum. Þar hafði tengdamóðir Dofra galdrað fram dýrindis kjötsúpu sem var einstaklega vel þegin að loknu dagsverki. Þetta gat varla orðið betra!

Birna, Dofri og Birgitta á pallinum á Kleifum í kjötsúpuveislu að hlaupi loknu.

Birna, Dofri og Birgitta á pallinum á Kleifum í kjötsúpuveislu að hlaupi loknu.

Hlaupafélagar dagsins
Eftirtaldir hlauparar tóku þátt í Þrístrendingi 2014:

  • Alla leið (3 fjallvegir með tilheyrandi):
    Dofri Hermannsson
    Gautur Þorsteinsson
    Gísli Einar Árnason
    Gottskálk Friðgeirsson
    Gunnar Atli Fríðuson
    Gunnar Viðar Gunnarsson
    Karl Jón Hirst
    Magnús Jónsson
    Rósa Friðriksdóttir
    Sonja Sif Jóhannsdóttir
    Stefán Gíslason
  • Tveir fjallvegir (Steinadalsheiði og Krossárdalur):
    Birna Guðmundsdóttir
  • Tveir fjallvegir (Bitruháls og Krossárdalur):
    Birgitta Stefánsdóttir
  • Einn fjallvegur (Steinadalsheiði):
    Ragnar Bragason
    Stefán Snær Ragnarsson (hjól)
  • Einn fjallvegur (Krossárdalur):
    Hulda Lilja Guðmundsdóttir

Þrjú skemmtihlaup framundan

Thristrend2013 086webNæstu tvær vikur eru þrjú skemmtihlaup á dagskránni hjá mér, þ.e.a.s. hlaup sem ég hef átt þátt í að gera að veruleika í þeim tilgangi að gleðja sjálfan mig og aðra. Í þessum hlaupum vinna allir en enginn tapar. Hér á eftir gefur að líta örlítið nánari upplýsingar um þessa bráðskemmtilegu viðburði.

1. Leggjabrjótur, miðvikud. 18/6 kl. 16:00
Á miðvikudaginn ætla ég að gera aðra tilraun til að komast yfir Leggjabrjót frá Botnsskála í Hvalfirði að þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum. Þetta verður 35. hlaupið í fjallvegahlaupaverkefninu sem ég gaf sjálfum mér í fimmtugsafmælisgjöf vorið 2007. Já, þetta er sem sagt 2. tilraun, því að þann 24. maí sl. varð ég frá að hverfa eftir að hafa streðað upp úr Hvalfirðinum í hvössum mótvindi, vatnsverði og þoku. Við lögðum af stað 28 saman og komust öll til einhverra byggða á næstu klukkutímum, fæstir þó til þeirra byggða sem upphaflega var ætlunin. Sem betur fer varð engum meint af.

Veðurspáin er betri en síðast, en samkvæmt framtíðarspá Veðurstofunnar verður suðvestan og vestanátt og rigning hérna megin á landinu og hitinn líklega um 9 stig á láglendi. Þetta er reyndar ekkert óskaplega ólíkt því sem var 24. maí, nema hvað vindurinn verður ívíð hægari en síðast og blæs rigningunni í bakið á hlaupurunum en ekki fangið. Mig grunar að þetta verði bara fínt. En maður þarf samt að klæða sig sómasamlega.

Öllum er sem fyrr velkomið að slást í för með mér á eigin ábyrgð. Upplýsingar um hlaupið er að finna á hlaup.is og á Facebooksíðu fjallvegahlaupahópsins.

Við upphaf ferðarinnar sem aldrei var farin (nema af 6 ofurhetjum) yfir Leggjabrjót 24. maí 2014. (Ljósm. Ólafur Gunnar Sæmundsson).

Við upphaf ferðarinnar sem aldrei var farin (nema af 6 ofurhetjum) yfir Leggjabrjót 24. maí 2014. (Ljósm. Ólafur Gunnar Sæmundsson).

2. Þrístrendingur, laugard. 21/6 kl. 11:00
Laugardaginn 21. júní verður fjalla- og skemmtihlaupið Þrístrendingur haldið í fimmta sinn. Þarna er ekki keppt við tímann heldur miklu frekar keppst við að njóta dagsins og félagsskaparins. Hlaupið er öllum opið og þátttakendur velja sjálfir hvort þeir hlaupa alla leiðina eða bara einn eða tvo áfanga af þremur. Heildarvegalengdin er rétt um 41 km í þremur áföngum (u.þ.b. 20+10+11 km). Fyrsti áfanginn er frá Kleifum í Gilsfirði yfir Steinadalsheiði að Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði. Þessi spölur er allur hlaupinn á bílvegi, sem er einmitt nýbúið að opna fyrir sumarumferð. Vegurinn er fær öllum fjórhjóladrifnum bílum en varasamur fyrir eindrifsbíla. Næsti áfangi er frá Stóra-Fjarðarhorni yfir Bitruháls að Gröf í Bitru, þar sem ábúendur taka á móti hlaupurum með kaffi og pönnukökum. Lokaáfanginn er svo frá Gröf um Krossárdal aftur að Kleifum. Þarna er sem sagt hlaupið tvisvar þvert yfir Ísland á einni dagstund. Oft er hægt að fá far milli áfangastaða, en hlaupahaldarar skipuleggja enga flutninga. Nánari upplýsingar er að finna á hlaup.is, auk þess sem Internetið er hálffullt af ferðasögum úr Þrístrendingum síðustu fjögurra ára. Svo er Þrístrendingur líka til sem viðburður á Facebook. Þar er upplagt að láta vita af þátttöku, enda nauðsynlegt að hafa sæmilega hugmynd um fjöldann til að hægt sé að baka nóg af pönnukökum. (Þeir sem vilja renna fyrir lax í leiðinni geta keypt veiðileyfi á www.krossa.is). 🙂

Frá Þrístrendingi í fyrra. Blíðviðri, frelsi og friður.

Frá Þrístrendingi í fyrra. Blíðviðri, frelsi og friður.

3. Hamingjuhlaupið, laugard. 28/6 kl. 10:50
Laugardaginn 28. júní er röðin komin að hinu árlega Hamingjuhlaupi, en það fer nú fram í 6. sinn í tengslum við bæjarhátíðina Hamingjudaga á Hólmavík. Leiðin breytist ár frá ári og liggur að þessu sinni frá Kleifum í Gilsfirði um Vatnadal til Steingrímsfjarðar og áfram eftir veginum til Hólmavíkur, en þessa leið riðu móðurbræður mínir á sínum yngri árum áleiðis á böll á Ströndum. Síðan eru liðin mörg ár, enda téðir móðurbræður fæddir um aldamótin 1900. Frómt frá sagt verða hófför bræðranna þó ekki þrædd alveg frá byrjun, því að leiðin er valin með hliðsjón af því að hún sé sem aðgengilegust. Þess vegna verða fyrstu kílómetrarnir úr Þrístrendingi endurnýttir og lagt af stað áleiðis upp á Steinadalsheiði. Þar verður beygt þvert úr leið um vegleysur yfir í Vatnadal og svo áfram sem leið liggur niður dalinn.  Heildarvegalengdin er um 37 km og er seinfarin að hluta. Á Hólmavík mun eitt glæsilegasta hnallþóruhlaðborð Evrópska efnahagssvæðisins bíða hlauparanna, sem njóta munu þeirra forréttinda að fá að skera fyrstu sneiðarnar og sporðrenna þeim. Til að ekkert fari úrskeiðis (þ.e. til að enginn sleppi í terturnar á undan hlaupurunum) er nauðsynlegt að hlaupinu ljúki á fyrirfram ákveðnum tíma, þ.e.a.s. stundvíslega kl. 16:00. Til að auðvelda þetta og gera fólk kleift að slást í hópinn einhvers staðar á leiðinni fer hlaupið fram eins og hver önnur strætóferð, í þeim skilningi að hlaupararnir verða á tilteknum stöðum á tilteknum tímum. Tímatöflu og aðrar helstu upplýsingar er að sjálfsögðu að finna á hlaup.is. Þar eru líka tenglar á glaðlegar frásagnir af fyrri hamingjuhlaupum.

Frá Hamingjuhlaupinu í fyrra. Svona lagað er aðeins á færi hamingjusamra. Aðrir geta yfirleitt ekki flogið.

Frá Hamingjuhlaupinu í fyrra. Svona lagað er aðeins á færi hamingjusamra. Aðrir geta yfirleitt ekki flogið.

Fyrsti maraþonsigurinn

Sigur 160Ég bætti nýrri lífsreynslu í safnið mitt á laugardaginn þegar ég vann Mývatnsmaraþonið. Tíminn var reyndar sá lakasti í rúm 6 ár, en sigur er alltaf sigur. Og þó að tíminn væri lakari en ég hafði reiknað með, var hann í góðu samræmi við undirbúning og aðstæður.

Undirbúningur aðeins til heimilisnota
Það sem af er árinu hefur flest gengið mér í hag í hlaupunum. Fyrir Mývatnsmaraþonið var ég t.d. búinn að taka þátt í 6 keppnishlaupum á árinu og setja ný „götuhlaupa-PB“ í 5 km, 7 km, 10 km og hálfmaraþoni. Einhverjum gæti því hafa dottið í hug að „maraþon-PBið“ lægi í loftinu. En svoleiðis virkar það ekki, því að þar þarf allt öðruvísi undirbúning. Ég hef svo sem æft sæmilega frá því um áramót, en lengsta vikan var samt ekki nema um 70 km og meðaltal síðustu 6 vikna um 55 km. Þetta dugar alveg til heimilisnota en ekki sem undirbúningur fyrir maraþon. Reyndar er vegalengdin ekki allt, en æfingafjöldinn stóðst heldur ekki mál. Um miðjan maí var mér orðið ljóst að ég hefði svo sem ekkert í maraþon að gera fyrr en síðar á árinu, en félagslegar ástæður réðu mestu um það að ég stefndi eftir sem áður ótrauður á Mývatnsmaraþonið.

Að vera hluti af hópi
Nú er eðlilegt að spurt sé hvaða félagslegu ástæður geti fengið mann til að hlaupa maraþon. Svarið við því er einfalt: Ég er hluti af frábærum hlaupahópi, Flandra í Borgarfirði, og þar hafði verið tekin ákvörðun um það fyrir margt löngu að fjölmenna í þetta hlaup. Ég ætlaði ekkert að missa af því og fannst ekki alveg nógu stórmannlegt að stytta vegalengdina frá því sem ég hafði áður gefið upp. Svo fannst mér líka ágætt að „hlaupa úr mér hrollinn“ fyrir betra maraþon síðar á árinu. Ég vissi að fyrri helmingurinn yrði auðveldur og að þetta myndi allt snúast um að þrauka í gegnum þann síðari án þess að bíða tjón á sálu eða líkama. Þetta gat sem best þýtt lokatíma upp á 3:22 klst. eða þar um bil. Maður hebbði nú verið meira en sáttur við það fyrir nokkrum árum.

Við Gunnar Viðar tilbúnir að hlaupa í kringum Mývatn. Nóg af geli í beltunum og flugnanetin með í för. (Ljósm. Kristín Ól.).

Við Gunnar Viðar tilbúnir að hlaupa í kringum Mývatn. Nóg af geli í beltunum og flugnanetin með í för. (Ljósm. Kristín Ól.).

Veðurspáin
Kvöldið fyrir hlaup voru u.þ.b. 20 Flandrafélagar mættir norður á Skútustaði þar sem flestir úr hópnum gistu nóttina fyrir og eftir hlaup. Veðurútlitið var tvísýnt, en þó engar líkur á slyddu eins og þegar ég hljóp í kringum Mývatn í fyrsta sinn vorið 2007. Þvert á móti var útlit fyrir hægan vind, sólskin og hátt í 20 stiga hita. Góðviðri er gott, en samt er allt best í hófi, alla vega þegar hlauparar eiga í hlut. Í þokkabót var búist við miklu flugnageri. Hópurinn var vel birgur af flugnanetum, en það var samt ekki besta tilhugsun í heimi að hlaupa með svoleiðis á hausnum í kringum Mývatn í sólskini og 20 stiga hita. En áhyggjur hafa aldrei leyst neinn vanda. Því var tilgangslaust að kvíða morgundeginum.

Lagt af stað á 4:40
Maraþonhlaupið var ræst fyrir neðan jarðböðin kl. 12 á hádegi á laugardaginn. Veðrið var svipað og spáð var, nema örlítið meiri gola. Það var góðs viti, því að ef golan héldist myndu flugunar síður verða til trafala. Keppendahópurinn var í þynnra lagi, ekki nema 8 manns, nánar tiltekið ég sjálfur, Gunnar félagi minn úr Flandra, Þórir Sigurhansson úr Súðavík, þrír erlendir karlar og tvær íslenskar konur. Áætlun okkar Gunnars var einföld, nefnilega að hlaupa fyrstu kílómetrana á 4:40 mín stykkið og sjá svo til. Sá hraði samsvarar lokatíma upp á 3:17 klst. Ég þóttist viss um að geta auðveldlega haldið þessum hraða fyrri helming hlaupsins, en hjá Gunnari var óvissan meiri. Hann er sterkari en ég í styttri vegalengdum en ekki með eins marga uppsafnaða kílómetra í löppunum. Þetta var þriðja maraþonið hans en fjórtanda mitt.

Lagt af stað. (Myndin er tekin að láni af 641.is).

Lagt af stað. (Myndin er tekin að láni af 641.is).

Endurtekið efni
Fyrstu kílómetrarnir voru nánast endurtekning á Mývatnsmaraþoninu í fyrra, þar sem við Gunnar vorum líka báðir á meðal keppenda. Við fylgdumst að en Frakkinn Laurent Conseil náði fljótlega nokkur hundruð metra forskoti, rétt eins og Sigurjón Sigurbjörnsson gerði í fyrra. Millitíminn eftir 5 km var 23:45 mín. Enn bólaði ekkert á flugum, enda frekar von á þeim vestan við vatnið. Golan gerði líka sitt gagn, án þess þó að tefja fyrir, 2 m/sek í fangið.

5-15 km
Í fyrra skildu leiðir okkar Gunnars á sjöunda kílómetranum, en nú var allt annað upp á teningnum. Við bættum heldur í ef eitthvað var og fórum í gegnum 10 km á 46:58 mín sem samsvarar 4:42 mín/km. Við 12 km markið tókum við eftir því að Laurent vinur okkar var farinn að hægja á sér. Þá datt mér í hug að ég myndi kannski bara vinna hlaupið, en svoleiðis hugsanir eru alltaf ótímabærar við svona aðstæður. Margt getur gerst í löngu hlaupi, ekki síst þegar undirbúningur og aðstæður eru ekki alveg eftir bókinni.

Millitíminn á 15 km var 1:10:25 klst., sem var 15 sek. hægara en í fyrra. Þá voru aðstæður allar aðrar, vissulega mótvindur, en hæfilega svalt og engar flugur. Reyndar höfðum við lítið orðið varir við þær þegar þarna var komið sögu, en framundan voru Skútustaðir þar sem vænta mátti að flugurnar færu að sækja í sig veðrið. Við gerðum flugnanetin klár og létum sem ekkert væri.

Einn  á ferð
Eftir rúmlega 17 km tók ég eftir því að Gunnar var ekki lengur við hliðina á mér heldur nokkrum skrefum á eftir. Fyrst hélt ég að þetta væri tímabundin breyting á stöðu mála, en næst þegar ég gáði hafði bilið breikkað og Gunnar varla lengur í kallfæri. Flugnanetið var í viðbragðsstöðu í hendinni og Laurent rúmum 100 metrum á undan mér. Ég náði honum við drykkjarstöðina við 20 km markið og var allt í einu orðinn aleinn í þessu hlaupi. Millitíminn á 20 km var 1:33:56 klst, þannig að annar kílómetratugurinn hafði tekið nákvæmlega jafnlangan tíma og sá fyrsti.

Fyrr en varði var hlaupið hálfnað. Þar sýndi klukkan 1:39:14 klst., sem var 45 sek meira en í hlaupinu í fyrra. Ég var aðeins farinn að finna til þreytu, eins og ég hafði reyndar búist við. Þarna mat ég stöðuna þannig að lokatími upp á 3:24 klst. væri raunhæft markmið. Flest benti til að framundan væri langur og frekar einmanalegur kafli.

Frá jarðböðunum eru u.þ.b. 22,4 km að vegamótunum við Laxá. Þar er beygt þvert úr leið til norðausturs og þar vænti ég þess að vindurinn hætti að standa í fangið á mér. Að vísu var þetta bara smágola, en mér var samt farin að finnast hún aðeins til trafala. Það merkilega gerðist hins vegar að vindurinn virtist breyta um stefnu um svipað leyti og ég. Hann hélt áfram að reyna að standa undir nafni sem mótvindur og gott ef hann hafði ekki heldur bætt sig í því ef eitthvað var. Seinna sá ég á veðurkortum að einmitt þetta hafði gerst. Vindáttin var orðin meira norðlæg en vestlæg og vindstyrkurinn kominn í 4 m/sek. Hitinn var áfram svipaður, eitthvað um 18°C skv. mælum Veðurstofunnar.

Á Laxárbrúnni leit ég um öxl og svipaðist um eftir mannaferðum. Gunnar var þarna, líklega um 500 m á eftir mér og lengra í fjarska grillti í Frakkann. Engir aðrir virtust þarna á ferli, ef frá eru taldar nokkrar flugur sem sýndu mér þó sem betur fer engan sérstakan áhuga.

Erfiður seinni hluti framundan
Mývatn kortMér fundust næstu kílómetrar frekar erfiðir. Þarna er leiðin örlítið á fótinn, sérstaklega ef maður er tekinn að lýjast, og svo fann ég vel fyrir vindinum. Flugnanetið var aftur komið á sinn stað í drykkjarbeltinu og engin sérstök verkefni framundan nema að bíða eftir næstu drykkjarstöð. Þær voru á 5 km fresti. Ég ákvað að hætta að hugsa um lokatímann, enda vissi ég löngu fyrir hlaup að hann yrði ekki sambærilegur við það sem ég hefði best gert. Í staðinn hugsaði ég sem svo að ég væri að hlaupa þetta hlaup til sigurs, fyllilega meðvitaður um að ég ætti ekkert slíkt víst þótt forskotið væri orðið töluvert. Reyndar mat ég stöðuna svo að ég myndi vinna hlaupið þó að ég hlypi kílómetrana sem eftir væru ekki nema á 5 mín stykkið, sem er bara svipaður hraði og á venjulegri Flandraæfingu í Borgarnesi. Það átti ekki að vera neitt sérstaklega erfitt. Hins vegar hafði ég byrjað að finna fyrir krampa í vinstri kálfanum við 18 km markið eða þar um bil. Þetta angraði mig svo sem ekkert, enda var ég minnugur þess hvernig mér tókst að hlaupa með krampa í fótunum síðustu 30 kílómetrana af Laugaveginum 2007. Krampar voru líka eitthvað sem ég bjóst alltaf við að þurfa að glíma við í þessu hlaupi, einfaldlega vegna þess að ég hafði hlaupið allt of lítið síðustu mánuði. Svo hlaut hitinn líka að hafa sitt að segja. Ég hafði ekki tekið neina drykki með mér, heldur bara orkugel. Treysti að vanda á vatnið á drykkjarstöðvunum til að skola gelinu niður með og til að halda vökvajafnvæginu í lagi. Ég tók alls staðar tvö vatnsglös, en þau voru frekar smávaxin, tóku varla meira en 150 ml. af nýtanlegu vatni samanlagt þegar búið var að draga frá það sem hlaut að sullast niður. Sá skammtur á að duga mér á 5 km fresti við venjulegar aðstæður, en þarna var hugsanlega þörf á meiru, auk þess sem líklegt mátti telja að óþarflega mikið af söltum myndi tapast út með svita í hitanum. Sem sagt: Ávísun á krampa.

Millitíminn eftir 25 km var 1:58:07 klst. Þarna var ég kominn í einnar og hálfrar mínútu mínus miðað við hlaupið í fyrra, enda höfðu síðustu 5 km tekið 24:11 mín. Hraðinn var sem sagt á hraðri niðurleið, en mér var alveg sama um það. Það versta var að mér leiddist svolítið. Mér fundust þessir 17 km sem eftir voru ekki ýkja löng leið, en vissi að ég þyrfti að bíta aðeins fastar á jaxlinn en í betur undirbúnum maraþonhlaupum í örlítið minni sumarhita.

Vaxandi þreyta
Áfram pjakkaði ég eftir veginum norðvestan við vatnið og framhjá Vagnbrekku þar sem við Flandrarar höfðum setið veislu árið áður. Mætti bílum af og til, sumir ferðalangarnir veifuðu, aðrir klöppuðu og allt kom það að gagni. Þreytan ágerðist þó smátt og smátt og ég nennti þessu satt best að segja ekki alveg þegar þarna var komið sögu. Stytti mér stundir við að spila einhverja uppörvandi tónlist í huganum, því að þar á ég minn eiginn „play-lista“, margreyndan við aðstæður sem þessar. Svo ákvað ég líka að hlakka til að vera búinn með Grímsstaðabrekkuna. Þá hlyti allt að verða léttara og mótvindurinn breytast í meðvind.

Millitíminn eftir 30 km var 2:22:55 klst. Síðustu 5 km höfðu tekið 24:48 mín og síðustu 10 km 48:59 mín. Þar með var ég orðinn næstum 3 mínútum hægari en í fyrra. Þessar tölur var ég þó ekkert með á hreinu á þessum stað og þessari stundu, enda löngu hættur að hugsa mikið um slíkt. Leit bara á klukkuna annað slagið og sá að hver kílómetri var farinn að taka u.þ.b. 5 mín, rétt eins og ég hafði svo sem búist við. Og enn voru nokkrir kílómetrar í Grímsstaðabrekkuna. Þar kom þó að hún blasti við og ekkert annað að gera en að skokka upp hana. Þetta er nú svo sem ekkert fjall, hæðarmunurinn eitthvað um 30 m á tæplega 1 km kafla. Og ég veit það af reynslu að það er ekkert endilega erfiðara að hlaupa upp brekkur en á jafnsléttu. Það er bara seinlegra.

Efst í Grímsstaðabrekkunni
Það var gott að fá sér vatnssopa á drykkjarstöðinni efst í Grímsstaðabrekkunni. Framundan var kafli sem ég hafði lengi beðið eftir, enda lækkar vegurinn þarna aftur um 25 m á 700 m kafla. Mér fannst ég aftur léttur á fæti. Neðst í brekkunni kom ég að 35 km markinu og þar sýndi klukkan 2:49:30 klst. Ég var búinn að tapa um 5 mín miðað við hlaupið í fyrra. Þar sem útsýni var gott svipaðist ég um eftir mannaferðum norðan við vatnið en sá enga hreyfingu. Ekkert benti til þess að mér væri veitt eftirför svo orð væri á gerandi.

Nú voru ekki nema rúmir 7 km eftir að hlaupinu. Það þykir ekki löng æfing eftir venjulegan vinnudag. Varla yrði ég svo lemstraður að ég kæmist ekki kílómetrann á 6 mín og þar með þennan spöl sem eftir var á 42 mín. Það gæfi lokatíma upp á 3:31 klst. Ég ákvað að miða við þá tölu og allt umfram það væri bara fínt, sérstaklega ef það slyppi undir 3:30 klst.

Hugsað um sigur
Rétt fyrir norðan þorpið í Reykjahlíð stóðu tveir puttaferðalangar í kantinum. Ég ákvað að bjóða þeim ekki far enda voru þau greinilega að fara í hina áttina. Mig varðaði auðvitað ekkert um þetta fólk og það ekki um mig, en mér þótti engu að síður gott að sjá lífsmark. Auðvitað voru það forréttindi að geta hlaupið í allri þessari náttúrufegurð og þessu fallega veðri, en öll tilbreyting var samt vel þegin. Ég var eiginlega búinn að fá alveg nóg af þessu hlaupi, en tilhugsunin um líklegan sigur gladdi vissulega. Þarna voru ekki nema 4 km eftir. Það er stutt! En þessi síðasti áfangi átti eftir að reynast mér drjúgur.

Ég held að ég hafi ekki einu sinni gáð að millitímanum eftir 40 km, en eftir á að hyggja var hann 3:16:15 mín og síðustu 5 km því á 26:45 mín. Það samsvarar 5:21 mín/km, sem er afskaplega hægt miðað við það sem ég á að venjast. En hverju skipti það, ég var farinn að sjá fyrir endann á þessu. Þarna gátu varla verið meira en 12 mín eftir hvernig sem allt veltist, nema náttúrulega ef ég myndi fá alvöru krampa til viðbótar við þennan sem hafði fylgt mér síðustu 22 km. Hann hafði ég getað trampað úr mér jafnóðum með því að stíga fastar niður í hælinn í einu, tveimur eða þremur næstu skrefum. Það tafði vissulega og var til leiðinda, en þetta var bara hæfileg refsing fyrir ónógan undirbúning og ekkert nema gott um það að segja.

Hingað og ekki lengra – í bili
Við 41 km markið gerðist það sem ég hafði svo sem allt eins búist við. Fæturnir afþökkuðu frekari hlaup. Ég fékk með öðrum orðum svo heiftarlegan krampa í hægra lærið að ég gat hvorki hlaupið, gengið né staðið uppréttur. Þá var bara að vera þolinmóður og njóta útsýnisins um stund. Ég notaði tímann m.a. til að athuga hvort nokkrir hlauparar væru í sjónmáli. Svo reyndist ekki vera ef frá er talinn síðasti keppandinn í hálfmaraþoni sem var í þann mund að leggja í brekkuna upp að jarðböðunum spölkorn fyrir framan mig.

Glaður og þreyttur á síðustu metrunum. (Ljósm. Bergsveinn Símonarson).

Glaður og þreyttur á síðustu metrunum. (Ljósm. Bergsveinn Símonarson).

Fyrsti sigurinn í höfn
Krampar linast yfirleitt ef maður slakar á svolitla stund, reynir að teygja ofur varlega og ganga spölkorn afturábak. Þetta virkaði vel og eftir að hafa hökt næstu 300 m á gönguhraða gat ég farið að skokka aftur. Nú var bara að komast upp síðustu brekkuna og skila sér í markið. Brekkan var ekki verri en vænta mátti og ég fylltist mikilli og fyrirsjáanlegri gleði þegar upp var komið og markið blasti við. Þangað skilaði ég mér þokkalega léttur á fæti að sögn sjónarvotta, en örþreyttur, á lakasta tímanum mínum í 6 ár, 3:29:47 klst. Þar með var líka fyrsti sigurinn minn í almenningshlaupi í höfn, sem sagt 81. hlaupið, 14. maraþonið og fyrsti sigurinn. Næstu menn komu ekki fyrr en tólf og hálfri mínútu síðar, Gunnar var fjórði á sínum besta tíma, 3:47:33 klst. og Frakkinn frái langt á eftir honum.

Ómissandi samloka Bjarkar
Móttökurnar í markinu voru ekki af verri endanum. Þar var Björk auðvitað fremst í flokki, en hún hafði útbúið kynstrin öll af nesti til að tryggja skikkanlega fæðuinntöku að hlaupi loknu. Ég drakk einhver ósköp af vatni og ávaxtasafa og borðaði óvenju matarmikla langloku með kjúklingi. Reynslan segir mér að það skipti sköpum að borða vel strax eftir maraþonhlaup, helst strax á fyrstu mínútunum og helst bæði kolvetni og prótein. Í þau skipti sem ég hef sleppt þessu eða gleymt hef ég verið miklu lengur að jafna mig en í hin skiptin. Í þessu sambandi minnist ég sérstaklega Parísarmaraþonsins í fyrra, þar sem ég sat undir Sigurboganum eftir hlaupið og naut lífsins án þess að borða nokkuð af viti. Stigarnir í Louvre-safninu voru nánast ófærir daginn eftir.

Sitthvað fleira
Hér gæti ég skrifað langt mál um allt það sem gerðist þennan dag eftir að hlaupið var á enda, þ.á.m. um fagnaðarstund í jarðböðunum með hinum Flöndrururum, gestrisni Mývetninga og vel útlátinn grillmat sem mér gekk frekar illa að borða, verðlaunaafhendingu og tilfinninguna að taka bæði við bikar og blómvendi, Flandragleðina á Skútustöðum um kvöldið og sitthvað fleira. En einhvers verður maður að setja punkt. Ég get þó ekki látið hjá líða að minnast á fjallgöngu á Vindbelgjarfjall daginn eftir, þar sem eftirköst hlaupsins öngruðu mig ekki meira en svo að ég gat hlaupið niður af fjallinu eins og ekkert væri. Þar held ég að kjúklingasamloka Bjarkar hafi skipt sköpum. Ég get heldur ekki látið hjá líða að skrifa svolitla samantekt um lærdóminn sem ég get dregið af þessu hlaupi.

Lærdómurinn
Þetta var vafalítið eitt af þremur erfiðustu maraþonhlaupunum mínum frá upphafi. Aðeins fyrsta maraþonið 1996 og Mývatnsmaraþonið 2007 voru hugsanlega erfiðari. Fyrsta maraþonið var erfitt vegna þess að það var fyrsta maraþonið, sem var í þokkabót hlaupið fyrir daga orkugels og markvissra langhlaupaæfinga. Og Mývatnsmaraþonið 2007 var erfitt vegna reynsluleysis og norðanhretsins sem blés á móti mér síðustu kílómetrana. Það átti líka bara að vera æfingahlaup.

Ástæður þess að þetta var svona erfitt núna voru að mínu mati einkum þrjár. Tvær þeirra vissi ég fyrir, en sú þriðja bættist við á staðnum.

Fyrsta ástæðan var skortur á æfingum, en eins og ég nefndi í upphafi þessa pistils voru æfingarnar mínar frá áramótum og fram í maí miðaðar við 10 km hlaup og hálfmaraþon en ekki maraþon. Auk heldur voru æfingarnar í maí allt of fáar vegna annríkis í vinnu. Í fyrra var þessu allt öðruvísi varið. Þá æfði ég mjög markvisst fyrir Parísarmaraþonið og var í besta maraþonstandi lífs míns í lok marsmánaðar. Því formi var auðvelt að viðhalda fram í byrjun júní.

Ástæða númer tvö, sem ég veit þó ekki hvort skipti verulegu máli, var sú að ég gaf blóð 11 dögum fyrir hlaupið. Blóðgjöf svo skömmu fyrir maraþonhlaup er ekki „alveg eftir bókinni“, en kannski skipti það samt engu máli. Mig brestur þekkingu til að hafa mjög ákveðna skoðun á því. Alla vega valdi ég þetta sjálfur, enda taldi ég að blóðgjöfin væri mikilvægari í eilífðinni en nokkrar sekúndur til eða frá í þessu tiltekna hlaupi.

Þriðja ástæðan var hitinn og kannski vindurinn, sem hafði óvenjugott lag á því að blása alltaf í fangið á mér. Hitinn var á bilinu 18-20 stig, sem eru svo sem engin ósköp. Samt las ég einhvers staðar að geta manna í löngum hlaupum fari nokkuð hratt minnkandi eftir að hitinn fer upp fyrir 14°C. Sjálfum finnst mér frekar þægilegt að hlaupa í hlýju veðri, en æfing er eitt og keppni í maraþonhlaupi annað, jafnvel þótt ekki sé keppt í hæsta gæðaflokki eins og á Ólympíuleikum. Ég svitnaði óvenju mikið í fyrri hluta hlaupsins, en eftir á að hyggja var ég nánast hættur að svitna þegar hlaupið var hálfnað eða þar um bil. Mér er nær að halda að vökvainntakan á leiðinni hafi alls ekki verið nægjanleg, þrátt fyrir að ég sullaði í mig tveimur vatnsglösum á öllum drykkjarstöðvum. Glösin voru auk heldur í minna lagi. Niðurstaðan er sú, þangað til annað verður ákveðið, að það borgi sig að taka með sér vatn í hlaup í svona „miklum hita“. Þannig ætti að vera auðveldara að halda vökvajafnvæginu í lagi. Reyndar duga vatn og steinefnalaus orkugel líklega ekki við þessar aðstæður, því að með svitanum tapast sölt, því meiri sem maður svitnar meira. Ef steinefnabúskapurinn fer úr böndunum er eins líklegt að líkaminn nái ekki að taka upp það vatn sem í hann er hellt. Afleiðingin eru krampar, sem gera auk heldur því fyrr og því meira vart við sig sem undirbúningurinn er fátæklegri.

Lokaorð
Mývatnsmaraþonið 2014 er að baki og það sama gildir senn um þennan pistil. Eftir stendur gleðin yfir því að geta sinnt þessu áhugamáli og þakklæti til allra þeirra sem gera mér það mögulegt. Þar á Björk langstærstan hlut að máli. Flandri á líka skilinn stóran skerf af þakkarorðunum, svo og þeir sem standa að Mývatnsmaraþoninu og leggja á sig alla þá vinnu og sinna öllum þeim smáatriðum sem þarf til að gera þennan árlega viðburð af veruleika.

Sáttur með sigurlaunin. Gitta tók myndina, nýbúin að hlaupa sitt fyrsta hálfmaraþon.

Sáttur með sigurlaunin. Gitta tók myndina, nýbúin að hlaupa sitt fyrsta hálfmaraþon.