Ég ætla að láta mér nægja að hlaupa hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu næstkomandi laugardag. Hálft maraþon er vissulega ekki stutt hlaup, en eftir að hafa hlaupið heilt maraþon fimm ár í röð finnst mér samt pínulítið skrýtið að hlaupa styttra. En hér fær skynsemin að ráða, enda eflaust gott að gefa henni tækifæri annað slagið. Ástæða þess að ég ætla að bregða svona út af vananum er að ég stefni á að bæta mig í maraþonhlaupi í München í október og hálft maraþon passar betur en heilt inn í undirbúningsvinnuna.
Mér finnst út af fyrir sig ekkert tiltökumál að hlaupa tvö maraþon með tveggja mánuða millibili, enda býst ég við að líkaminn losni við þreytuna úr fyrra hlaupinu innan þriggja vikna. Hins vegar truflar fyrra maraþonið æfingar fyrir það síðara. Um þessar mundir þarf ég nefnilega að leggja áherslu á styrk og hraða og svoleiðis æfingar tekur maður ekki stuttu eftir maraþonhlaup. Ef áformin um bætingu í München eiga að ganga eftir er þetta því skynsamlegasta leiðin.
Mér finnst rétt að taka fram að staðhæfingin hér að framan um að líkaminn losni við maraþonþreytu innan þriggja vikna á ekki við um þá sem stefna að hámarksárangri í greininni í alþjóðlegum keppnum. Þar gilda allt önnur lögmál en hjá okkur skokkurunum, æfingaálagið er miklu meira og álagið í hlaupinu sjálfu sömuleiðis. Þess vegna þurfa hlauparar í þeim gæðaflokki að láta líða lengri tíma á milli keppnishlaupa á vegalengdinni.
En hvert er þá markmiðin mitt fyrir laugardaginn? Jú, ég stefni að því að hlaupa hálft maraþon á skemmri tíma en 1:28 klst., helst á 1:27:55 eða þar um bil. Ef þetta tekst veit ég að ég get bætt mig í maraþoni í München ef ekkert óvænt kemur upp á. Besti tíminn minn í hálfu maraþoni til þessa er 1:29:25 klst. frá því í vormaraþoni FM í apríl. Um það má lesa í þar til gerðum bloggpistli, þar sem hálfmaraþonævisagan mín er líka rakin í stórum dráttum.
Ég á mér líka annað markmið. Ég vil endilega nota hlaupið á laugardaginn til að safna sem mestum peningum fyrir FSMA á Íslandi, en FSMA er félag aðstandenda og einstaklinga sem haldnir eru SMA sjúkdómnum (Spinal Muscular Atrophy). Ég hef reynt að styrkja þetta félag eftir föngum í hlaupum síðustu ára. Þetta hefur bætt tilgangi við hlaupin hjá mér, enda eðlilegt að á hlaupum verði manni hugsað til þeirra sem ekki njóta þeirra forréttinda að geta sjálfir hlaupið eins og þá lystir. Tekið er við framlögum á síðunni minni á hlaupastyrkur.is. Gaman væri að sem flestir tækju þátt í því. FSMA er lítið félag. Þar munar um allt.
Filed under: Hlaup | Tagged: FSMA, hálfmaraþon, Reykjavíkurmaraþon |
[…] Hálft maraþon nægir […]