• Heimsóknir

  • 118.086 hits
 • nóvember 2022
  S M F V F F S
   12345
  6789101112
  13141516171819
  20212223242526
  27282930  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Reykjavíkurmaraþon í blíðunni

Eftir 37 km. Hlaup.is.

Eftir 37 km. (Ljósm. Hlaup.is).

Í sumar hljóp ég 17. maraþonið mitt. Tók sem sagt þátt í Reykjavíkurmaraþoninu 20. ágúst sl., aðallega vegna þess að ég er vanur því og finnst það gaman. Og nú er ég búinn að skrifa maraþonbloggið, vegna þess að ég er líka vanur því og finnst það líka gaman.

Aðdragandinn
Fjórum vikum fyrir Reykjavíkurmaraþonið hljóp ég yfir Arnarvatnsheiði í afskaplega góðum félagsskap. Fann þá fyrir óþægindum framan á vinstri sköflungi á síðustu kílómetrunum og var naumast gangfær fyrstu tvo dagana á eftir. Vissi vel að þetta gat hvort sem er verið meiri háttar meiðsli eða minni háttar meiðsli sem gæti orðið meiri háttar ef ég leyfði því ekki að lagast áður en ég héldi hlaupaæfingum áfram af fullum krafti. Þegar allt kom til alls var þetta líklega bara einhver bólga sem stafaði einfaldlega af ofnotkun á þessum tiltekna sköflungi. Alla vega kenndi ég mér ekki nokkurs meins eftir að ég áræddi að byrja aftur að hlaupa tveimur vikum eftir Arnarvatnsheiðina. En þar sem þessar tvær vikur voru 50% af þeim fjórum vikum sem ég hafði til að undirbúa Reykjavíkurmaraþonið vissi ég að ég þyrfti að stilla maraþonvæntingunum í hóf. Almennt taldi ég þó andlegt og líkamlegt ástand mitt vera í góðu meðallagi.

Væntingarnar
Miðað við aðdragandann sem lýst er hér að framan og að teknu tilliti til skorts á gæðaæfingum næstu vikur og mánuði þar á undan vissi ég að þetta maraþon yrði ekki eitt af mínum bestu. Besta tímanum mínum til þessa náði ég í Reykjavíkurmaraþoninu 2013, 3:08:19 klst. Við venjulegar aðstæður á ég vel að geta hlaupið undir 3:15 klst. en á árunum 2009-2012 hljóp ég iðulega á 3:17-3:20 klst. Í versta falli hafa sést tölur á borð við 3:25 eða 3:30. Út frá þessu öllu saman áætlaði ég að 3:15-3:20 klst. væri raunhæft markmið. Betri tími kæmi varla til greina og lakari tími myndi valda vonbrigðum.

Ónógur undirbúningur fyrir maraþonhlaup hefur þann galla að maður getur ekki bætt sinn besta tíma. Kosturinn er hins vegar sá að þá getur manni verið nokk sama um 2-3 mínútur til eða frá. Maður losnar sem sagt við þessa sjálfsköpuðu pressu sem myndast þegar mikið er lagt undir.

Laugardagsmorgunn
Ég vaknaði að vanda kl. 5:40 að morgni Reykjavíkurmaraþondagsins. Hlaupið átti nefnilega að hefjast kl. 8:40 og ég hef það fyrir reglu að vakna alltaf 3 klst. fyrr og fá mér góðan morgunverð. Þá á mesta annríkið í meltingunni að vera búið þegar hlaupið hefst. Veðrið þennan morgun var eins og best varð á kosið og veðurspáin enn betri, útlit fyrir hægan vind, þurrt veður og allt að 15 stiga hita.

Kl. 6:40 lögðum við af stað úr Borgarnesi fjórir saman, nánar tiltekið ég, Gunnar Viðar, Kristinn (hér eftir nefndur Kiddó) og Bjarni Freyr, sonur Gunnars. Við karlarnir þrír vorum allir á leiðinni í heilt maraþon, þó að enginn okkar væri svo sem beinlínis í standi til þess. Ég hafði auk heldur boðist til að stjórna hlaupahraða okkar allra til að byrja með, sem eftir á að hyggja var kannski ekki gott tilboð. Áætlunin mín hljóðaði upp á rétt um það bil 4:37 mínútur á hvern kílómetra frá upphafi hlaups og þar til þreyta eða aðrar tilfinningar tækju hraðastjórnina yfir. Þessi hraði skilar manni í mark á 3:15 klst. (já, eða 3:14:48 svo fullrar nákvæmni sé gætt).

Segir nú ekki af ferðum okkar fyrr en bílnum hans Gunnars hafði verið lagt skammt frá BSÍ. Þaðan röltum við niður í miðbæ og drukkum í okkur eftirvæntinguna sem lá í loftinu á þessum fallega morgni. Maraþonmorgnar einkennast alltaf af eftirvæntingu og jafnvel hátíðleika. Og þegar veðrið er svona gott truflar fátt þá upplifun. Hluti af upplifuninni er að hitta fólk sem er að njóta þess sama og eftir því sem árin líða þekkir maður fleira og fleira af þessu fólki. Félagsskapurinn er eitt af því sem gerir það að verkum að maður er ríkari eftir hvert hlaup. Þarna er hvorki spurt um stétt né stöðu, enda eiga allir þeir sem raða sér upp við ráslínuna hlutabréf í sama kvíðanum, sömu eftirvæntingunni og sömu gleðinni.

Fyrstu 18 kílómetrarnir
Fyrr en varði var klukkan orðin 8:40 og allur skarinn lagður af stað, þ.á.m. við maraþonfélagarnir þrír úr Borgarnesi. Reyndar voru þarna tveir borgfirskir maraþonfélagar til viðbótar en þeir tóku sér stöðu aftar í rásröðinni. Mér fannst ég örlítið þungur á mér fyrsta kílómetrann en hraðinn var samt nokkurn veginn sá sem lagt var upp með, þ.e.a.s. 4:37 mín/km. Gunnar og Kiddó fylgdu mér eins og skugginn, eða öllu heldur ég þeim, því að þeir voru lengst af skrefinu á undan. Þetta gekk allt samkvæmt áætlun.

Þeir sem hafa hlaupið Reykjavíkurmaraþon hljóta að hafa tekið eftir því að Lynghaginn er aðalmaraþongatan. Þetta er hvorki löng né fjölmenn gata, en það er eins og fólkið sem þar býr viti betur en aðrir hvers virði það er fyrir maraþonhlaupara að fá hvatningu í nesti. Ég tók fyrst eftir þessu fyrir mörgum árum og nú tók ég enn betur eftir því en nokkru sinni fyrr, því að nú býr Birgitta dóttir mín einmitt í þesari götu. Hún var að sjálfsögðu mætt út á gangstétt þennan morgun með tónlist og bros til að hvetja pabba sinn, hlaupafélagana og öll hin þúsundin sem streymdu þarna hjá. Við Ægissíðuna hittum við svo Þorkel son minn sem var kominn út á gangstétt, nývaknaður með kaffibollann sinn, í sömu erindagjörðum. Þetta var góð byrjun á löngu hlaupi!

Gott augnablik eftir 6,5 km í Reykjavíkurmaraþoni. Ég er lengst til hægri á myndinni, þá Gunnar, Kiddó og Kjartan Sævarsson. (Ljósm. Hlaup.is).

Gott augnablik eftir 6,5 km í Reykjavíkurmaraþoni. Ég er lengst til hægri á myndinni, þá Gunnar, Kiddó og Kjartan Sævarsson. (Ljósm. Hlaup.is).

Þegar 15 km voru að baki vorum við félagarnir nákvæmlega 3 sek. á undan áætlun (1:09:12 klst í stað 1:09:15 klst). Það var náttúrulega alveg innan skekkumarka. Þegar þarna var komið sögu vorum við staddir á Sæbrautinni á inneftirleið. Við 16 km markið, rétt innan við gatnamótin við Langholtsveg, var snúið við og hlaupin sama leið til baka í átt að Kirkjusandi. Snúningspunktar hafa sína galla og sína kosti. Helsti gallinn finnst mér vera sá að þegar þreytan fer að segja til sín er lítið gaman að hlaupa 180° beygjur. Það kemur reyndar lítið að sök svona snemma í hlaupi. Þeir sem fylgdust með útsendingunni frá maraþonhlaupinu á Ólympíuleikunum í Ríó daginn eftir Reykjavíkurmaraþonið sáu hins vegar hversu óþægilegt þetta getur verið á síðustu kílómetrunum. Helsti kosturinn er aftur á móti sá að fyrir og eftir beygju getur maður stytt sér stundir við að horfa á hina hlauparana og skiptast á hvatningarorðum.

Mér fannst kaflinn fyrst eftir snúninginn á Sæbrautinni svolítið erfiður. Þarna er bunga á veginum en hallinn er þó ekki nema 1% þannig að í raun skiptir hann litlu máli. Kannski var æfingaskorturinn bara farinn að segja til sín. Og svo var komið að drykkjarstöðinni við Kirkjusand, þar sem u.þ.b. 18 km eru að baki. Ég hef alltaf svolítið uppáhald á þessari drykkjarstöð. Þar í kring er oft slæðingur af áhorfendum, einhverjir að spila tónlist – og bara almennt gott og hvetjandi andrúmsloft. En þegar ég var kominn framhjá drykkjarstöðinni fann ég allt í einu að ég var orðinn einn. Gunnar og Kiddó höfðu greinilega hægt á sér. Kannski myndu þeir birtast aftur fljótlega, kannski ekki. Þannig gengur þetta fyrir sig. Maður nær sjaldnast að kveðjast með handabandi þegar leiðir skilja. Það gerist bara.

Áætlunarferð: Kirkjusandur-Fossvogur
Leiðin frá Kirkjusandi upp að Hótel Nordica er brattasti kaflinn í Reykjavíkurmaraþoninu. Einu sinni fannst mér þetta kvíðvænlegur kafli en ég er hættur að hugsa þannig. Þarna hækkar leiðin um 25 m á rúmum km, sem er svo sem ekki neitt. Alla vega er ekkert erfiðara að hlaupa upp svona smábrekkur en á jafnsléttu. Það er í mesta lagi ögn seinlegra. Hraðinn var enn samkvæmt áætlun og mér leið vel. Millitíminn í Laugardalunum eftir hálft maraþon var 1:37:23 klst sem var nákvæmlega 1 sek. hraðara en ég hafði ætlað mér. Ég hafði samt á tilfinningunni að lokatími upp á 3:15 klst væri út úr myndinni, 3:18 væri hins vegar raunhæft. Og mér fannst það bara fínt.

Inn við Glæsibæ náði ég Ragnari bónda á Heydalsá á Ströndum. Hann var að hlaupa sitt fyrsta maraþon og hafði farið fram úr okkur Borgnesingunum einhvers staðar á fyrstu kílómetrunum. Á þessum slóðum var ég líka ýmist rétt á undan eða rétt á eftir Kjartani Sævarssyni úr Laugaskokki. Trausti Valdimarsson var líka þarna skammt undan. Þessir kappar hafa oft verið nágrannar mínir í hlaupum síðustu árin. Reyndar miðaði ég lengi vel við að mér gengi vel svo lengi sem Trausti hyrfi ekki úr augsýn.

Við Víkingsheimilið í Fossvogi voru 25 km að baki og enn var ég nánast nákvæmlega á áætlun, svo nákvæmlega að ekki skakkaði meiru en 10 sek. Þarna var drykkjarstöð að vanda og einhvern veginn gekk mér óhönduglega að gera það sem ég ætlaði að gera þar. Verkefnið var samt ekkert flókið, bara að vera búinn að sporðrenna einu orkugeli áður en komið væri á stöðina, ná mér í tvö glös af vatni, drekka slurk úr öðru á hlaupum og hella afganginum yfir í hitt og taka með út að næstu eða þarnæstu ruslafötu, og í þessu tilviki líka að veiða eitt steinefnahylki upp úr einhverjum vasa og koma því í mig. En nú brá svo við að mér tókst þetta allt hálf óhönduglega. Vatnið sullaðist niður að hluta, steinefnahylkið var næstum farið sömu leið og svo svelgdist mér einhvern veginn á þessu öllu saman. Ekkert af þessu telst reyndar til tíðinda eða flokkast sem alvarlegt bakslag í hlaupi. Ef allt er með felldu er maður fljótur að vinna upp fáeinar sekúndur sem ef til vill tapast í svona brölti. En þarna vissi ég samt að ferskleikinn var búinn og að erfiðari hluti hlaupsins væri í þann mund að hefjast með tilheyrandi hraðamissi. Ég var einfaldlega orðinn þreyttur. Þetta voru svolítil vonbrigði því að hafði reiknað með að þessi erfiðari hluti myndi ekki hefjast fyrr en eftir 30-32 km.

Ný áætlun
Nú var um tvo kosti að velja, annað hvort að hlusta á líkamanum, halda svipuðu álagi og áður og leyfa hraðanum að minnka, eða að reyna að halda hraðanum og taka afleiðingunum að því, hvort sem þær yrðu í formi yfirþyrmandi þreytu eða krampa, eða kannski bara ekki neinar eins og stundum gerist þó að maður haldi annað. Ég tók fyrri kostinn, hélt svipuðu álagi og sá hvernig mínussekúndurnar byrjuðu af safnast upp. Ég var hvort sem er ekki að keppa að neinum tilteknum lokatíma.

Millitíminn eftir 30 km var 2:19:34 klst sem þýddi að ég var orðinn u.þ.b. 1 mín á eftir áætlun. Ég geri yfirleitt ráð fyrir að ég geti klárað síðust 12,2 kílómetrana á klukkutíma, sem þýddi að lokatíminn yrði rétt undir 3:20 klst. En það var síður en svo í hendi enda þreytan orðin greinileg í skrokknum.

Einhvers staðar í grennd við 34 eða 35 km markið hitti ég Þorkel minn aftur. Hann var löngu búinn með kaffið sitt og búinn að skreppa niður í bæ að hvetja aðra hlaupara. Nú var hann mættur þarna aftur til að hvetja mig og taka myndir. Þetta hjálpaði mér heilmikið, ekki síst vegna þess að eftir fyrstu myndatökuna tók hann á rás á undan mér og var aftur mættur svo sem kílómetra síðar – og aftur kílómetra eftir það. Það væri gott að hafa fleira svona fólk í stuðningsliðinu sem hleypur á undan og hvetur mann svo á völdum stöðum.

Tekið að síga á seinni hlutann. Virðist samt þokkalega léttur tilsýndar. Þorkell tók myndina vestur á Seltjarnarnesi á 36. kílómetranum.

Tekið að síga á seinni hlutann. Virðist samt þokkalega léttur tilsýndar. Þorkell tók myndina vestur á Seltjarnarnesi á 36. kílómetranum.

Enn hægðist á og Garminúrið sýndi oftar en ekki hærri tölu en 5 mín/km. Eftir 40 km var millitíminn 3:10:06 klst. Á virkilega góðum maraþondegi hefði ég átt að vera kominn í markið um það leyti. En mér fannst það ekki skipta miklu máli þennan dag. Það stóð aldrei til að koma leiður í mark í þessu hlaupi og við það skyldi staðið hver sem lokatíminn yrði. Ég var svo sem í ágætu standi, engir krampar eða neitt, bara almenn þreyta í skrokknum. Ég held að mér hafi tekist vel að láta líta svo út að ég væri í toppstandi á lokakaflanum og í markið kom ég á 3:21:16 klst, vel studdur af fjölskyldu og nágrönnum sem höfðu raðað sér meðfram Lækjargötunni.

Sjö hlauparar úr Hlaupahópnum Flandra úr Borgarnesi að loknu Reykjavíkurmaraþoni, þar af 5 búnir með heilt maraþon, þar af 3 íbúar í Þórðargötu.

Sjö hlauparar úr Hlaupahópnum Flandra úr Borgarnesi að loknu Reykjavíkurmaraþoni, þar af 5 búnir með heilt maraþon, þar af 3 íbúar í Þórðargötu. (Man ekki hver tók myndina).

Lokaorð
Maraþon er alltaf óvissuferð og í óvissuferðum veit maður ekki sjálfur hvernig ferðasagan muni enda. En ég var alla vega sáttur við þetta ferðalag og leið þokkalega þar sem ég ráfaði um marksvæðið og ræddi málin við alla sem ég hitti, eins og maður gerir ævinlega eftir svona hlaup. Það er hluti af upplifuninni. Ég gat líka fjarlægt tímatökuflöguna af skónum mínum hjálparlaust, sem ég tel vera merki um gott ástand að hlaupi loknu. Stundum er erfitt að beygja sig en það var bærilegt þennan dag.

Eftir drykklanga viðdvöl á marksvæðinu fann ég leiðina út fyrir girðinguna sem lokar svæðið af, en fyrst tók ég á móti Ragnari Bragasyni og hlaupafélögum mínum úr Borgarnesi þegar þeir komu í markið. Ragnar og Kiddó voru báðir að hlaupa sitt fyrsta maraþon og mér finnst alltaf gott að deila þeirri upplifun með fólki. Þeir voru auðvitað þreyttir, en þó ekki sýnilega verr á sig komnir en ég eftir fyrsta maraþonið mitt fyrir réttum 20 árum. Eftir því sem maraþonunum fjölgar kemur færra á óvart.

Tveir af aðalstyrktaraðilunum, miðbarnið Birgitta og eiginkonan Björk. Birgitta nýbúin að hlaupa síðasta sprett (12,2 km) fyrir Umhverfisstofnun í maraþonboðhlaupi. Yngsta barnið Jóhanna tók myndina.

Tveir af aðalstyrktaraðilunum, miðbarnið Birgitta og eiginkonan Björk. Gitta nýbúin að hlaupa síðasta sprett (12,2 km) fyrir Umhverfisstofnun í maraþonboðhlaupi. Yngsta barnið Jóhanna tók myndina.

Gleði safnað í 16. maraþoninu

Gleðin allsráðandi enda bara 1-2 km í mark. (Ljósm. Stefán Helgi Valsson).

Gleðin allsráðandi enda bara 1-2 km í mark. (Ljósm. Stefán Helgi Valsson).

Maraþonið mitt í Reykjavíkurmaraþoninu í gær var það sextánda frá upphafi. Sjaldan hef ég notið maraþonhlaups meira og betur en í þetta skipti og tíminn var líka sá þriðji besti. Ég hef það aðalmarkmið í hlaupum að hafa gleðina með í för. Í þessu hlaupi vék hún aldrei frá mér.

Undirbúningurinn
Ég undirbjó þetta hlaup ekkert sérstaklega. Eftir svolítil meiðsli síðasta vetur var ég kominn í prýðilegt hlaupaform um mitt sumar, sem m.a. skilaði mér persónulegum metum á Laugaveginum 18. júlí og í 10 km hlaupi í lok sama mánaðar. Um það leyti taldi ég mig geta hlaupið maraþon á 3:12 klst., en þá útreikninga byggði ég á fyrri reynslu og reiknivél sem ég nota oft til að áætla getuna. Hins vegar slakaði ég talsvert á hlaupaæfingum eftir Laugaveginn. Hljóp t.d. ekki nema 48 km á viku að meðaltali vikurnar fjórar þar á eftir. Tók helst á því á laugardögum, aðallega í Barðsneshlaupinu 1. ágúst og í Jökulsárhlaupinu viku síðar. Í því síðarnefnda datt ég reyndar illa og laskaðist dálítið. Það tafði mig svo sem ekkert þá en hafði eftirköst dagana á eftir. Með tilliti til alls þessa ákvað ég að 3:12 klst. væri ekki lengur raunhæft markmið og ákvað þess í stað að miða við 3:15 klst. Lagði af stað í hlaupið í gær með þetta markmið og hugsaði að allt umfram það væri sigur – og örlítið lakari tími væri ekki ósigur. Krefjandi markmið eru nauðsynleg, en líkurnar á að maður nái markmiðunum þurfa helst að vera góðar til að maður sitji ekki upp með óþörf vonbrigði að hlaupi loknu. Gleðin er miklu betri ferðafélagi en vonbrigðin, bæði í hlaupum og í lífinu sjálfu.

Út á 4:30
Hlaupaveðrið í gær var alveg fullkomið, þ.e.a.s. hægur vindur, nokkurn veginn þurrt, sólarlaust og 11-14 stiga hiti. Betra maraþonveður býðst hvergi, hvorki hérlendis né erlendis. Ég stefndi að því að hlaupa fyrstu kílómetrana á 4:30 mín stykkið. Sá hraði dugar reyndar til að ljúka maraþonhlaupi á 3:10 klst, sem mér datt ekki í hug að ég myndi gera. Ætlaði bara að byrja svona og sjá svo til. Hef oft þennan háttinn á, þ.e. að byrja aðeins hraðar en markmiðið segir til um. Þá á ég svolitla inneign fyrir seinni helminginn sem oftast er ögn hægari.

Fyrstu 5 km
Fyrstu fimm kílómetrarnir liðu fljótt og þægilega. Ég leit eiginlega á þá sem upphitun og tækifæri til að meta stöðuna. Lauk þeim á 22:37 mín og var þá kominn með 7 sek í mínus miðað við 4:30 mín/km. Var alveg sléttsama um það. Fann að ég þoldi ögn meiri hraða og bætti því heldur í. Hugsaði samt mest um að njóta stundarinnar og halda mýktinni í hlaupastílnum. Að vanda hitti ég nokkra hlaupara sem ég þekki, sem ýmist voru að fara fram úr mér eða ég fram úr þeim. Í svona löngum hlaupum er hraðinn ekki meiri en svo að maður getur spjallað við samferðamennina, borið saman líðan og markmið og gefið og þegið hvatningu.

Að hugsa um krampa – eða ekki
Ég tók upp á því í fyrra að taka steinefnahylki í löngum hlaupum til að minnka líkur á krömpum, sem ég hef annars oft þurft að glíma við. Ætlaði að halda uppteknum hætti í þessu hlaupi, en þegar ég þreifaði eftir boxinu með hylkjunum einhvers staðar á 10. kílómetranum greip ég í tómt. Boxið hafði sem sagt dottið úr beltinu sem það átti að vera í. Þar með var ljóst að ég tæki engin steinefni þennan dag. Öll svona frávik frá upphaflegum áformum geta sett mann út af laginu, en þá gildir heilræðið frá gömlu norsku konunni sem sagði „det er ikke hvordan man har det, men hvordan man tar det“. Ég gat sem sagt valið um að hafa áhyggjur af því að ég fengi krampa síðar í hlaupinu eða að hafa ekki áhyggjur af því og láta hverjum kílómetra nægja sína þjáningu. Ég valdi síðari kostinn. Í þessu fólst líka tækifæri til að bæta í reynslubankann.

Í góðum félagsskap
Eftir 10 km sýndi klukkan 44:29 mín. Ég var allt í einu kominn með 31 sek. í plús miðað við upphaflega áætlun. Mér leið aldeilis stórvel og ákvað að halda þessum hraða á meðan sú líðan héldist. Á næstu kílómetrum náði ég líka nokkrum hlaupurum sem ég var lengi búinn að sjá á undan mér, þ.á.m. Trausta Valdimarssyni jafnaldra mínum, sem var þarna að hlaupa sitt 75. maraþon. Maður breytist næstum því í byrjanda við hliðina á svona mönnum. Þegar þarna var komið sögu voru rúmir 12 km að baki og næstu 25 km fylgdumst við tveir að miklu leyti að. Góð fylgd styttir manni stundir og gerir hlaupið auðveldara. Við Trausti spjölluðum líka um ýmislegt, m.a. um það hvernig maður safnar að sér gleði í svona hlaupum. Var ég ekki annars búinn að segja ykkur frá heilræði norsku konunnar?

Með orku frá áhorfendum
Millitíminn eftir 15 km var 1:07:01 klst. Síðustu 5 km höfðu sem sagt verið nær alveg á áætlun og inneignin 29 sek, já eða eiginlega 5 mínútur og 29 sek miðað við að ég ætlaði að hlaupa á 3:15 klst. Mér leið enn alveg prýðilega og fann ekki fyrir neinni þreytu sem orð er á gerandi. Hér og þar meðfram brautinni stóð fólk og hvatti hlaupara til dáða og ég ákvað að þau væru þarna öll sérstaklega til að hvetja mig. Sú hugsun er ein af þeim hugsunum sem ég nota til að safna gleði. Og með því að brosa til fólks, veifa og þakka fyrir sig, fær maður enn meiri hvatningu og enn meiri gleði. Þetta er ekkert flókið!

Er kannski betra að hlaupa bara hálft maraþon?
Á gatnamótum Sæbrautar og Kringlumýrarbrautar skildu leiðir að vanda. Þar beygja maraþonhlauparar til vinstri upp Kringlumýrarbraut en hálfmaraþonhlauparar halda áfram beint niður í bæ og eiga ekki nema um 3 km eftir í mark. Ég hef oft staðið mig að því að öfunda þá svolítið, en þegar allt kemur til alls er hálft maraþon ekkert endilega léttara en heilt. Maður þarf bara fyrr að takast á við erfiðu síðustu kílómetrana. Síðasti spölurinn er alltaf síðasti spölurinn hvað sem hlaupið er langt.

Hálft maraþon búið og enn 10 sek á reikningnum
Mér fannst Kringlumýrarbrautin hallast óvenjulítið þennan dag og það sama gilti um Suðurlandsbrautina framhjá Hótel Nordica. Fyrr en varði var hálft maraþon að baki og klukkan sýndi 1:34:49 klst. Eitthvað var farið að hægjast á mér en enn var ég þó með u.þ.b. 10 sek. í plús miðað við 4:30 mín/km, þ.e. 3:10 klst lokatíma. Enn gat allt gerst en ég hafði alla vega fulla trú á að markmiðið um 3:15 klst næðist.

Af vatnsdrykkju og geláti
Næstu kílómetrar voru tíðindalitlir. Ég var duglegur að gleypa orkugel og drekka vatn, en eftir að steinefnahylkin voru úr sögunni ákvað ég að leggja áherslu á vökvunina. Krampar geta sjálfsagt hvort sem er stafað af ofþornun eða steinefnaskorti, já eða þá því að líkaminn geti ekki unnið úr því hráefni sem er til staðar. Ég miða yfirleitt við að ég þurfi um 300 ml af vatni á hverja 10 km og orkugel get ég tekið á 5-7 km fresti án þess að setja allt á hvolf í meltingarfærunum. Í þessu hlaupi notaði ég öll 8 gelin sem ég hafði meðferðis og drakk 2-3 glös af vatni á flestum drykkjarstöðvum. Eitt glas er of lítið. Allt ræðst þetta þó svolítið af aðstæðum, þ.m.t. hitastigi. Þegar heitt er í veðri og sól í heiði svitnar maður meira en ella og tapar þá meiri söltum og meiri vökva. Þennan dag voru aðstæður hins vegar eins og best verður á kosið, eins og fyrr segir.

Hvað er svona merkilegt við 30 km?
Tíminn eftir 25 km var 1:52:59 klst, sem þýddi að ég var kominn 29 sek. í mínus miðað við 4:30 mín/km. Mér fannst það bara fínt enda ekki ætlunin að halda þessum hraða allan tímann. Næstu 5 km voru örlítið hraðari og eftir 30 km var tíminn 2:15:23 klst. Þar var ég sem sagt 23 sek. á eftir þessari margnefndu áætlun.

Það er oft haft á orði að maraþonhlaup byrji þegar 30 km eru að baki. Ég get tekið undir það að vissu leyti. Það má kannski orða það þannig að maður viti nokkurn veginn hvernig líkaminn muni bregðast við álaginu fyrstu 30 kílómetrana, en eftir það hefjist óvissuferð þar sem sitthvað getur komið á óvart. Mér finnst 30 km markið afskaplega mikilvægur áfangi í maraþonhlaupi, m.a. vegna þess að þá þykist ég geta sagt til um lokatímann minn með 10 mín. skekkjumörkum. Ef allt gengur upp get ég hugsanlega lokið hlaupinu á næstu 54 mínútum og það má mikið fara úrskeiðis til að ég nái því ekki á 64 mínútum. Á þessum tímapunkti í hlaupinu þóttist ég sem sagt viss um að lokatíminn minn yrði á bilinu 3:09-3:19 klst. Oftast tekur þessi síðasti spölur mig rétt um klukkutíma, þannig að 3:15 var orðinn líklegur lokatími, alveg eins og stefnt var að.

Að velja sér hugsanir
Mínúturnar eftir að 30 km markinu er náð eiga það til að líða hægt. Þarna er þreytan oftast farin að segja svolítið til sín og enn finnst manni býsna langt eftir. Þarna fer að reyna meira á það en fyrr í hlaupinu að maður sé með hausinn rétt skrúfaðan á. Það er auðvelt að ílengjast við hugsanir um þreytuna og allt erfiðið sem eftir er, en miklu vænlegra til árangurs að bægja slíkum hugsunum frá sér og einbeita sér að því jákvæða, umhverfinu, áhorfendunum og þakklætinu yfir því að geta gert það sem maður er að gera. Þegar þreytan ágerist er líka gott að muna að maður hefur oft orðið þreyttari og ekki orðið meint af. Eins er upplagt að rifja upp skemmtilega tónlist og fara jafnvel með heilu textana í huganum ef mikið liggur við, já eða sjá fyrir sér mannfjöldann sem fagnar manni þegar maður hleypur í markið með uppáhaldstöluna sína á markklukkunni.

3:15 í höfn að öllu stórslysalausu
Þegar 35 km voru búnir (og 7,2 km eftir) sýndi klukkan 2:38:56 klst sem þýddi að ég var orðinn 1:26 mín á eftir upphaflegu áætluninni. En ég hafði hvort sem er bara ætlað að fylgja þeirri áætlun eins lengi og mér liði vel með það. Aðalmarkmiðið um 3:15 klst. var enn vel innan seilingar og reyndar næstum gulltryggt nema eitthvað mjög sérstakt kæmi upp á. Í mínu tilviki þýðir „eitthvað mjög sérstakt“ að ég þurfi meira en 5 mínútur til að klára hvern kílómetra. Fimm mín/km jafngilda 7,2 km á 36 mín – og 2:38:56 + 0:36:00 = 3:14:56. Svo einfalt er það nú.

2-7 km er örstutt leið
Á næstu kílómetrum kom ekkert mjög sérstakt upp á og ég varð smátt og smátt öruggari um að markmiðið næðist. Á þessum kafla í maraþonhlaupi reyni ég að hugsa um eitthvað sem lætur mér finnast leiðin sem eftir er vera stutt en ekki löng. Ég ber þann spöl þá kannski saman við eitthvað sem ég hef gert á stystu og auðveldustu æfingunum mínum, já eða við spölinn frá Þröngá niður í Þórsmörk í Laugavegshlaupinu. Sá spölur er svo stuttur að þar er varla pláss fyrir aðrar tilfinningar en gleðina.

Millitíminn eftir 40 km var 3:02:12 klst. og nokkuð öruggt að ekki væru nema 11 mínútur eftir. Í mínum bestu hlaupum hef ég jafnvel náð að ljúka þessum síðasta hluta á 9:30 mín eða þar um bil. Einhvers staðar á þessum slóðum hitti ég Birgi Þ. Jóakimsson sem var þarna að fylgjast með hlaupinu. Að öðrum ólöstuðum tókst honum best upp með hvatninguna. Mér fundust mér vera allir vegir færir.

Endasprettur og lokaorð
Loks var ekki nema 1 km eftir og alveg óhætt að gefa gleðinni og hlaupaviljanum lausan tauminn. Engir krampar höfðu gert vart við sig og ekkert því til fyrirstöðu að auka hraðann. Lækjargatan var full af fólki og þar sá ég m.a. hluta af fjölskyldunni minni og nokkra hlaupafélaga úr hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi. Þarna var tekinn góður endasprettur og í þann mund sem ég skeiðaði í gegnum markið sýndi klukkan 3:12 klst. Lokatíminn var reyndar nákvæmlega 3:12:00 klst sem þýddi að hver kílómetri hafði tekið 4:33 mín að meðaltali, þ.e. 3 sek lengri tíma en lagt var upp með. Þar með var þetta þriðja besta maraþonið mitt frá upphafi, en besta tímanum náði ég í Reykjavík sumarið 2013, 3:08:19 klst.

Endaspretturinn hafinn. (Ljósm. Etienne Menétrey)

Endaspretturinn hafinn. (Ljósm. Etienne Menétrey)

Mér leið mjög vel eftir þetta hlaup og náði m.a.s. hátt í 2 km niðurskokki til að auðvelda líkamanum að komast í samt lag. Svoleiðis nokkuð hefur mér aldrei áður dottið í hug að gera eftir maraþon. Gleðin var líka ósvikin og að vanda hitti ég margt skemmtilegt fólk á marksvæðinu og þar í kring. Reykjavíkurmaraþonið er ekki bara hlaup, það er líka hátíðarsamkoma fyrir alla þá sem hafa yndi af þessari tómstundaiðju. Ég tilheyri örugglega þeim hópi!

Sjálfsmynd með yngsta barninu á Skólavörðustígnum eftir hlaup. (Ljósm. Jóhanna Stefáns Bjarkardóttir)

Sjálfsmynd með yngsta barninu á Skólavörðustígnum eftir hlaup. (Ljósm. Jóhanna Stefáns Bjarkardóttir)

Skemmtilegt fjölskylduhálfmaraþon

RM2014 basno bakhliðÁ laugardaginn hljóp ég hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu. Þetta var afskaplega skemmtilegt hlaup, aðallega af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi bætti ég mig töluvert (náði sem sagt að bæta „pébéið“). Í öðru lagi voru veðrið og aðstæður allar með því besta sem gerist. Og síðast en ekki síst tóku eldri börnin mín tvö bæði þátt í hlaupinu. Það gerðist síðast árið 1994, fyrir 20 árum.

Markmið okkar þriggja voru ólík eins og gengur. Ég var búinn að lýsa því yfir að ég ætlaði að ljúka hlaupinu á 1:27:55 klst., Þorkell ætlaði að fara álíka hratt og ég af stað og sjá svo til hvað hann myndi endast og Gitta stefndi að því að hlaupa á 2:10:00 klst. Í stuttu máli var ég sá eini sem náði ekki markmiðinu. Þar vantaði 18 sekúndur upp á. Þorkell lagði af stað um leið og ég og allir hinir, en ég sá hann lítið eftir það, nema þá tilsýndar. Og hann entist alla leið á stöðugum hraða sem var talsvert meiri en hraðinn minn. Og hjá Gittu skakkaði þetta ekki svo mikið sem sekúndu. Þetta var sem sagt einkar vel heppnað hlaup hjá okkur öllum, (þrátt fyrir þetta með 18 sekúndurnar).

Fyrir þetta hlaup átti ég best 1:29:25 klst. í hálfmaraþoni síðan í vor. Markmiðið var sem sagt að bæta þann tíma um eina og hálfa mínútu. Til þess að svo mætti verða þurfti ég að hlaupa hvern kílómetra á 4:10 mín. að meðaltali, þ.e.a.s. hverja 5 km á 20:50 mín. Ef ég gæti það var ég nokkuð viss um að geta klárað heilt maraþon í München 12. október á meðalhraðanum 4:25 mín/km, sem jafngildir lokatímanum 3:06:30 eða þar um bil.

Fyrir hlaupið á laugardaginn var ég viss um að geta bætt tímann frá því í vor ef ekkert óvænt kæmi upp á, en ein og hálf mínúta var kannski í bjartsýnna lagi. Oftast finn ég nokkurn veginn á fyrstu kílómetrunum hvernig horfurnar eru. Eftir þrjá kílómetra var meðalhraðinn rétt um 4:02 mín/km, sem var náttúrulega í góðu lagi. Þorkell hafði farið örlítið hraðar af stað, en ég sá hann alltaf svo sem 50 m á undan mér. Langhlaup eru formlega séð ekki hans grein. Síðustu árin hefur hann aðallega keppt í 400 m hlaupi og í samræmi við það lagt mikla áherslu á styrkæfingar og lóðalyftingar. Lengri hlaup hafa beðið betri tíma.

Þorkell (lengst til vinstri) á sprettinum eins og ekkert sé. (Ljósm. Birgir Þ. Jóakimsson).

Þorkell spretthlaupari (lengst til vinstri) á fullri ferð með langhlaupurunum. (Ljósm. Birgir Þ. Jóakimsson).

Á 4. kílómetranum hægðist á mér og Þorkell fjarlægðist. Enn var þó allt mögulegt. Millitíminn eftir 5 km var 20:34 mín (4:07 mín/km). Svoleiðis millitíma hef ég ekki séð áður í hálfu maraþoni, enda hefði þetta verið persónulegt met í 5 km götuhlaupi fyrir bara tveimur árum. Þarna var ég með 16 sek. í plús miðað við áætlun, en hafði samt á tilfinningunni að aðalmarkmið dagsins myndi ekki nást. Oftast hægist eitthvað á mér seinni partinn og þá er auðvelt að tapa 16 sek. forskoti.

Næstu 5 km hélt ég nokkurn veginn sama hraða. Millitíminn eftir 10 km var 41:28 mín (4:09 mín/km). Þetta var u.þ.b. 30 sek. betra en í hlaupinu í vor og enn 12 sek. undir viðmiðunartímanum. Og eftir 15 km var tíminn 1:02:21 klst., sem þýddi að ég var enn með 9 sek. í plús. Þetta var svo sem alveg mögulegt.

Á kaflanum milli 5 og 15 km bar annars margt til tíðinda. Á þessum kafla fylgdist ég lengst af með Tate nokkrum Cantrell, sem bæði hefur drjúga reynslu af hlaupum og atvinnurekstri. Hann var með svipuð markmið í hlaupinu og ég, þannig að eðlilega rökræddum við möguleikana á að ná þessum markmiðum. Þeir voru enn til staðar. Á sömu slóðum var líka annar reyndur hlaupari sem ég vissi ekki fyrr en eftir á hver var. Hann hélt sama hraða og við Tate, þrátt fyrir að vera með gervifót fyrir neðan hné vinstra megin. Við höfðum einmitt orð á því hvor við annan hvílíkur innblástur þessi maður væri okkur sem hefðum  báða fætur jafnlanga. Eftir að heim var komið um kvöldið sá ég að einmitt þessi maður, Belginn Kim de Roy, hafði sett heimsmet í sínum fötlunarflokki í hlaupinu þegar hann kláraði heila maraþonið á 2:57:09 klst. Slíkan árangur hef ég aldrei látið mig dreyma um. Á þessum sama kafla bar það líka til tíðinda að Þorkell fjarlægðist smám saman meir og meir – og einhvers staðar í kringum 13. kílómetrann var ég alveg hættur að sjá hann. Ég var auðvitað hæstánægður með það, enda gleður fátt meira en gott gengi afkvæmanna.

Á fullri ferð með Tate Cantrell og Kim de Roy. (Ljósm. Ingimar Sigurðsson).

Á fullri ferð með Tate Cantrell og Kim de Roy. (Ljósm. Ingimar Sigurðsson).

Þegar ég leit á Garminúrið mitt eftir 15 km áttaði ég mig á því að ég hafði stillt það óskynsamlega fyrir þetta hlaup, því að eftir að klukkustundinni var náð hætti úrið að sýna sekúndur. Þarna stóð sem sagt bara 1:02 en ekki 1:02:21. Þetta truflaði mig dálítið það sem eftir var hlaupsins. Ég uni mér einmitt við það í svona hlaupum að reikna eitt og annað út frá millitímum, og nú var ljóst að þessir útreikningar yrðu helst til ónákvæmir. En við því var ekkert að gera. Óskynsamlegar stillingar Garminúra hljóta líka að flokkast sem lúxusvandamál, a.m.k. þegar maður hleypur við hliðina á manni með gervifót. Frómt frá sagt var sá góði maður reyndar búinn að ná dálitlu forskoti á mig þegar þarna var komið sögu, og það sama gilti um Tate Cantrell. En ég var samt alls ekki einmana. Alls staðar var fólk meðfram brautinni að hvetja hlauparana, og í þeim hópi voru furðu margir sem ég þekkti. Það var kannski ekki að undra þótt erlendir samferðamenn mínir spyrðu hvort ég þekkti alla í Reykjavík. Þetta er sjálfsagt öðruvísi í flestum borgarhlaupum erlendis.

Ég bjóst við að illa stillta Garminúrið mitt myndi sýna 1:15 klst. eftir 18 km og vissi að ef það gengi eftir myndi líklegasti lokatíminn vera á bilinu 1:28 og 1:29 klst. Þessi varð líka raunin. Þegar aðstæður eru góðar og næg reynsla með í för kemur sjaldnast margt á óvart á síðustu kílómetrunum. Þar snýst málið um nokkrar sekúndur til eða frá en mínútur eru frekar fyrirsjáanlegar. Að sama skapi er hugarreikningur í mínútum ekki sérlega spennandi eða hvetjandi tómstundaiðja.

Átján kílómetra markið í Reykjavíkurmaraþoni er í næsta nágrenni við Kirkjusand. Þá er maður búinn að hlaupa inn í Vatnagarða og hálfmaraþonhlauparar eiga  ekkert eftir nema Sæbrautina niður í bæ. Á þessu svæði mætir maður hlaupurum sem hafa farið sér ívið hægar og eru um þetta leyti búnir með 13 km eða svo. Í þeim hópi voru margir sem ég þekkti, þ.á.m. eitthvað af hlaupafélögum mínum úr Flandra og svo hún Gitta mín. Þarna var gaman að hvetja og fá hvatningu.

Síðustu kílómetrarnir voru frekar erfiðir, enda sjálfsagt ekkert óeðlilegt að þá sé maður farinn að þreytast. Skemmtilegra er samt að vera í standi til að halda nokkurn veginn sama hraða á leiðarenda. Á þessum kafla létti Gottskálk Friðgeirsson, gamall skólafélagi og vinur, mér lífið um stund en hann var þarna á hjóli. Fáir Íslendingar hafa hlaupið fleiri maraþon en hann, en aldrei þessu vant gat hann ekki verið með þetta árið.

Millitíminn eftir 20 km var 1:23:43 klst. en á úrinu mínu stóð náttúrulega bara 1:23. Með einföldum útreikningi sá ég að líkurnar á því að enda undir 1:28 voru hverfandi en þó ekki alveg úr sögunni. Það færi auðvitað eftir því hvaða sekúndum úrið þegði yfir. Eftir á að hyggja missti ég einmitt af markmiðinu á kílómetrum 15-20. Sá 5 km kafli var sá langhægasti í hlaupinu (21:22 mín). En hvað um það. Ég hljóp bara eins hratt og ég gat þann spöl sem eftir var og kom í mark á 1:28:13 klst., langbesta tímanum mínum til þessa. Ég var reyndar alsæll með þann tíma „þótt mig hrakið hafi frá / hæsta takmarkinu“ eins og segir í vísunni.

Tekið á því á síðustu metrunum. (Ljósm. Jón Kristinn Haraldsson).

Tekið á því á síðustu metrunum. (Ljósm. Jón Kristinn Haraldsson).

Þorkell var einn af þeim fyrstu sem ég hitti á marksvæðinu. Hann hafði haldið sama hraða í gegnum allt hlaupið, þrátt fyrir algjöran skort á langhlauparaæfingum síðustu árin. Lokatíminn hans var 1:24:48 klst. (4:01 mín/km). Ég þóttist reyndar vita að hann yrði á undan mér ef ekkert kæmi upp á, en þessi tími var enn betri en ég hafði reiknað með.

Næsta hálftímann notaði ég til að spjalla við ótrúlega margt og ótrúlega vinsamlegt fólk sem ég kannaðist við á marksvæðinu, þar með talda hlaupafélaga mína úr Flandra, þá Gunnar og Kristin sem báðir voru að enda við að stórbæta hálfmaraþontímana sína. Ætli ég sjái ekki undir hælana á þeim næsta sumar? Marksvæðið er annars heill heimur út af fyrir sig. Reykjavíkurmaraþon er nefnilega ekki bara hlaup, heldur einnig og ekki síður uppskeruhátíð og góðra vina fundur. Fátt er nú glaðara en það. Gleði dagsins var svo fullkomnuð þegar Gitta skilaði sér í markið á 2:10:00 klst. Það kallar maður að setja sér markmið og ná því! Og með þessu var hún líka að stórbæta tímann sinn frá því fyrr í sumar.

Það eru forréttindi að geta hlaupið sér til gamans. Og enn meiri forréttindi felast í því að geta hlaupið með börnunum sínum. Þetta var reyndar ekki alveg í fyrsta sinn sem við þrjú lögðum saman upp í Reykjavíkurmaraþon, því að eins og ég nefndi í upphafi gerðum við þetta líka sumarið 1994. Þá vorum við reyndar öll fimm saman í för. Við Björk og dæturnar röltum þá 3 km, enda þær ekki nema tveggja og sjö ára gamlar. Þorkell var hins vegar orðinn 9 ára og hljóp á undan okkur. Lokatíminn hans þá var 15:42 mín. (5:14 mín/km). Er ekki sagt að snemma beygist krókurinn?

Öll fjölskyldan eftir Reykjavíkurmaraþon 1994.

Öll fjölskyldan eftir Reykjavíkurmaraþon 1994. (Þetta var í lok Don Cano tímabilsins í tískusögunni).

Hálft maraþon nægir

21kmbadgeÉg ætla að láta mér nægja að hlaupa hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu næstkomandi laugardag. Hálft maraþon er vissulega ekki stutt hlaup, en eftir að hafa hlaupið heilt maraþon fimm ár í röð finnst mér samt pínulítið skrýtið að hlaupa styttra. En hér fær skynsemin að ráða, enda eflaust gott að gefa henni tækifæri annað slagið. Ástæða þess að ég ætla að bregða svona út af vananum er að ég stefni á að bæta mig í maraþonhlaupi í München í október og hálft maraþon passar betur en heilt inn í undirbúningsvinnuna.

Mér finnst út af fyrir sig ekkert tiltökumál að hlaupa tvö maraþon með tveggja mánuða millibili, enda býst ég við að líkaminn losni við þreytuna úr fyrra hlaupinu innan þriggja vikna. Hins vegar truflar fyrra maraþonið æfingar fyrir það síðara. Um þessar mundir þarf ég nefnilega að leggja áherslu á styrk og hraða og svoleiðis æfingar tekur maður ekki stuttu eftir maraþonhlaup. Ef áformin um bætingu í München eiga að ganga eftir er þetta því skynsamlegasta leiðin.

Mér finnst rétt að taka fram að staðhæfingin hér að framan um að líkaminn losni við maraþonþreytu innan þriggja vikna á ekki við um þá sem stefna að hámarksárangri í greininni í alþjóðlegum keppnum. Þar gilda allt önnur lögmál en hjá okkur skokkurunum, æfingaálagið er miklu meira og álagið í hlaupinu sjálfu sömuleiðis. Þess vegna þurfa hlauparar í þeim gæðaflokki að láta líða lengri tíma á milli keppnishlaupa á vegalengdinni.

En hvert er þá markmiðin mitt fyrir laugardaginn? Jú, ég stefni að því að hlaupa hálft maraþon á skemmri tíma en 1:28 klst., helst á 1:27:55 eða þar um bil. Ef þetta tekst veit ég að ég get bætt mig í maraþoni í München ef ekkert óvænt kemur upp á. Besti tíminn minn í hálfu maraþoni til þessa er 1:29:25 klst. frá því í vormaraþoni FM í apríl. Um það má lesa í þar til gerðum bloggpistli, þar sem hálfmaraþonævisagan mín er líka rakin í stórum dráttum.

Ég á mér líka annað markmið. Ég vil endilega nota hlaupið á laugardaginn til að safna sem mestum peningum fyrir FSMA á Íslandi, en FSMA er félag aðstandenda og einstaklinga sem haldnir eru SMA sjúkdómnum (Spinal Muscular Atrophy). Ég hef reynt að styrkja þetta félag eftir föngum í hlaupum síðustu ára. Þetta hefur bætt tilgangi við hlaupin hjá mér, enda eðlilegt að á hlaupum verði manni hugsað til þeirra sem ekki njóta þeirra forréttinda að geta sjálfir hlaupið eins og þá lystir. Tekið er við framlögum á síðunni minni á hlaupastyrkur.is. Gaman væri að sem flestir tækju þátt í því. FSMA er lítið félag. Þar munar um allt.