• Heimsóknir

  • 119.010 hits
 • júlí 2014
  S M F V F F S
   12345
  6789101112
  13141516171819
  20212223242526
  2728293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Hlaupasæla á Vestfjörðum

???????????????????????????????

Með Gunnari og Klemens eftir hlaupið. (Ljósm. Björk Jóhannsdóttir).

Síðastliðinn sunnudag hljóp ég lengri útgáfuna af Vesturgötunni, sem er 45 km leið frá Þingeyri, yfir Álftamýrarheiði, niður í Fossdal í Arnarfirði, út að Stapadal og áfram eftir Kjaransbraut og Svalvogavegi inn að Sveinseyri við Dýrafjörð. Vesturgötuhlaupið er árviss viðburður og var nú háð í 9. sinn. Flestir láta sér reyndar nægja að hlaupa 24 km frá Stapadal að Sveinseyri, en lengri leiðin hefur einnig verið hlaupin á hverju ári frá 2011. Þetta var því í fjórða sinn sem sá valkostur stóð hlaupurum til boða. Ég hljóp 24 km leiðina sumarið 2009 og fannst nú kominn tími til að spreyta mig á lengri útgáfunni. Það gekk allt eftir áætlun og rúmlega það. Alla vega lauk ég hlaupinu á svolítið skemmri tíma en ég hafði reiknað með og kom í mark fyrstur þátttakenda. Auk þess hentaði veðrið eins vel til hlaupa og best gerist og öll framkvæmd hlaupsins var framúrskarandi. Vesturgatan hefur síðustu ár verið hluti af Hlaupahátíð á Vestfjörðum og þar hefur fólki tekist, þrátt fyrir fámenni, að búa til einstakan viðburð og skapa svo vinsamlegt andrúmsloft að maður getur ekki annað en farið sáttur heim að leik loknum.

Undirbúningurinn
Ég undirbjó Vesturgötuna svo sem ekkert sérstaklega. Það sem af er árinu hef ég æft mjög hóflega og líklega minna en það sem margir myndu telja nauðsynlegt fyrir keppni í löngum hlaupum. Meðalvikan síðustu tvo mánuði hefur þannig innihaldið þrjár hlaupaæfingar og um það bil 55 km. Þetta getur hvorki talist mikið magn né mikil tíðni, en hins vegar hafa gæðin verið þokkaleg. Ég hef með öðrum orðum lagt tiltölulega mikla áherslu á styrk og hraða en tiltölulega litla á þolþjálfun. Áherslan á styrkinn og hraðann hefur gefið góða raun það sem af er sumri, því að á þeim tíma hef ég sett nokkur persónuleg met í götuhlaupum frá 5 km og upp í hálft maraþon, auk þess sem tímar á sprettæfingum hafa iðulega verið þeir bestu síðan á árunum fyrir 1980. Þolþjálfun hefur þó svo sem ekki setið alveg á hakanum. Þar var Mývatnsmaraþonið 7. júní sl. t.d. mikilvægt innlegg og á þessum reikningi má sömuleiðis finna eitt og hálft fjallvegahlaup yfir Leggjabrjót, 41 km Þrístrending og 37 km Hamingjuhlaup. Ég er þeirrar skoðunar að einstakir hlaupaviðburðir af þessu tagi skili miklu. Ég upplifi það þannig að líkaminn læri að sætta sig við álagið og að undirmeðvitundin fái þau skilaboð að þetta sé allt mögulegt.

Fimmtudaginn fyrir Vesturgötuna  hljóp ég yfir Skálavíkurheiði frá Bolungarvík til Skálavíkur ásamt 8 öðrum hlaupurum víða að. Þetta var skemmtilegt og þægilegt ferðalag í góðu veðri og án nokkurra átaka. Sama gilti aðeins að hluta um Óshlíðarhlaupið degi síðar, en á föstudagskvöldinu tók ég þátt í 10 km keppnishlaupi úr Óshlíð til Ísafjarðar, sem líka var hluti af Hlaupahátíðinni. Það var líka skemmtilegt ferðalag, en aðeins í meðallagi þægilegt og alls ekki án átaka. Ég lagði mig með öðrum orðum allan fram í því hlaupi og var aðeins 17 sekúndum frá mínum besta tíma í 10 km (40:27 mín.), sem ég náði í Reykjavík rúmri viku fyrr. Óshlíðarhlaupið var mikilvægur hluti af undirbúningnum fyrir Vesturgötuna, annað hvort á jákvæðan hátt sem liður í að venja líkamann og hugann við álag, eða með neikvæðum formerkjum sem þreytuvaldur. Í öllu falli er Óshlíðarhlaupið mikilvægur hluti af góðum minningum mínum um Hlaupahátíð á Vestfjörðum 2014. Hvort afraksturinn var nokkrar sekúndur í plús eða nokkrar sekúndur í mínus í Vesturgötunni skiptir engu máli!

Væntingarnar
Í utanvegahlaupum er allt afstæðara en í hefðbundnum götuhlaupum. Hvert utanvegahlaup er einstakt og hafi maður ekki farið leiðina áður er lítið hægt að bollaleggja um hæfilegan meðalhraða, æskilega millitíma og því um líkt. Veður og færð geta líka sett miklu feitari strik í reikninginn en í götuhlaupum. Væntingarnar hljóta því aðallega að snúast um að njóta hlaupsins, náttúrunnar og samvista við hlaupafélagana, hverjir sem þeir kunna að verða. Þrátt fyrir þetta legg ég þó aldrei svo upp í  hlaup að ég hafi ekki gert einhverja áætlun um gang mála.

Helsta viðmiðið sem ég gat stuðst við í áætlunargerð fyrir Vesturgötuna var reynslan úr 24 km Vesturgötunni 2009. Henni lauk ég á 1:57:55 klst. Þá var ég í býsna góðu formi og lagði óþreyttur af stað, en núna lá fyrir að hlaupa fyrst 21 km kafla frá Þingeyri og yfir Álftamýrarheiði áður en leikurinn frá 2009 yrði endurtekinn. Mér fannst því líklegt að síðustu 24 kílómetrarnir myndu taka 2:00-2:10 klst. að þessu sinni. Fyrri hluti hlaupsins var hins vegar alveg óskrifað blað. Til að fá einhverja hugmynd um eðlilega frammistöðu á þeim hluta rýndi ég í úrslit hlaupsins frá síðasta ári og ákvað að miða við lokatíma Elísabetar Margeirsdóttur, sem þá lauk hlaupinu á 4:22 klst. Það taldi ég nokkuð raunhæfa viðmiðun. Að vísu er Elísabet ívið sterkari í svona hlaupum en ég, en hlaupið í fyrra var viku á eftir Laugavegshlaupinu sem hún lauk líka á mjög góðum tíma. Eftir að hafa velt þessu fyrir mér var ég sannfærður um að ég gæti alla vega lokið hlaupinu á 4:30 klst. ef ekkert óvænt kæmi upp á. Fyrrihlutinn þyrfti þá að vera á 2:20 klst. og sá seinni á 2:10. Til að fá betri mynd af þessu skipti ég fyrri hlutanum í þrjá áfanga. Fyrsti áfanginn yrði þá frá Þingeyri að Kirkjubóli í Kirkjubólsdal. Ég áætlaði að sá spölur gæti verið um 6 km og líklega nokkuð fljótfarinn á góðum vegi. Mér fannst raunhæft að hlaupa hvern km á 5 mín og vera þannig 30 mín á leiðinni. Annar áfangi myndi svo vera frá Kirkjubóli, inn dalinn, yfir heiðina og niður á veg neðst í Fossdal í Arnarfirði. Þennan spöl var langerfiðast að spá fyrir um og því ágætt að láta hann mæta afgangi í áætlunargerðinni. Þriðji áfanginn átti svo að vera spölurinn frá Fossdal og út í Stapadal, þ.e. að startinu í 24 km hlaupinu þar sem komið yrði inn á kunnuglegri slóðir. Þessi áfangi leit út fyrir að vera um 1 km og ef hægt væri að hlaupa hann á 5 mín. væru 1:45 klst. eftir fyrir áfanga nr. 2. Dæmið leit þá þannig út: 0:30+1:45+0:05+2:10 = 4:30 klst. En allt var þetta bara leikur að tölum og útkoman ekkert nema lauslegt viðmið.

Vesturgatan eins og hún leggur sig (45 km). (Ef smellt er á myndina birtist eilítið stærri mynd).

Langa Vesturgatan eins og hún leggur sig (45 km).

Sunnudagsmorgunn
Hlaupið átti að hefjast kl. 8 að morgni, sem þýddi að ég vaknaði stundvíslega kl. 5 til að borða morgunmat. Ég fylgi núorðið alltaf þessari þriggja tíma reglu fyrir löng hlaup, því að mesta annríkið í meltingunni þarf helst að vera búið þegar lagt er í hann. Þessa nótt gisti ég í húsi ættmenna í Bolungarvík ásamt fleirum úr fjölskyldunni og hlaupafélögum úr Borgarnesi. Frá Bolungarvík er um 50 mín. akstur að rásmarki hlaupsins á Þingeyri, þannig að við sem í hlut áttum gátum sem best lagt okkur aðeins aftur eftir matinn. Um kl. 7:30 vorum við svo komin til Þingeyrar þrjú saman, þ.e.a.s. ég sjálfur, Gunnar Viðar sem var líka skráður í stóru Vesturgötuna og Birgitta dóttir mín sem átti að leggja af stað í 24 km hlaupið kl. 11:00.

Fyrstu metrarnir
Við vorum ekki nema fimm sem röðuðum okkur upp við rásmarkið framan við Þingeyrarkirkju þennan morgun, þ.e.a.s. ég, fyrrnefndur Gunnar, Klemens Sæmundsson úr Keflavík, Álfheiður Hrönn Hafsteinsdóttir og Helga Þóra Jónasdóttir. Veðrið lék við okkur, hægur vindur, þurrt, þokuslæðingur í hlíðum og hitinn líklega 12°C. Betra gat það varla verið, nema hvað ekki sást vel til allra fjalla. Og fyrr en varði vorum við lögð af stað. Framundan voru nokkrar klukkustundir af útivist og hreyfingu í stærsta líkams- og sálarræktarsal í heimi.

Á Þingeyri árla morguns: Nýlögð af stað. F.v. Klemens, Helga Þóra, SG, Gunnar Viðar, Álfheiður. (Ljósm. Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Á Þingeyri árla morguns: Nýlögð af stað. F.v. Klemens, Helga Þóra, SG, Gunnar Viðar, Álfheiður. (Ljósm. Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Í upphafi svona ferðalags er hugurinn fullur af óvissu. Maður veit að framundan er tiltekinn fjöldi kílómetra og kannski veit maður líka eitthvað um leiðina, hvar eru brekkur, hversu margar drykkjarstöðvarnar eru o.s.frv. En maður veit næstum ekkert um allt hitt sem bíður manns, hvernig veðrið muni breytast, hvernig líkaminn muni bregðast við álaginu eða hvernig samspilinu með hlaupafélögunum verði háttað. Maður þarf af þreifa fyrir sér, skynja dagsformið, hlusta á líkamann og spara kraftana hæfilega mikið til að þeir endist alla leið en skili manni samt í mark á þokkalegum tíma.

Við fórum öll frekar hægt af stað, en samt býsna nálægt því sem ég hafði reiknað með fyrirfram. Mér fannst við einmitt hafa hitt á réttu hraðastillinguna miðað við vegalengdina og óvissuna framundan. Við strákarnir héldum hópinn og stelpurnar komu í humátt á eftir. Fyrstu kílómetrarnir voru hlaupnir á malbiki, sem hentar utanvegaskóm ekki sérlega vel. Sólinn á þeim er oft ívið harðari en á götuskóm og dempunin minni. En fáeinir kílómetrar gera manni ekkert til.

Á leið framhjá Kirkjubóli í Dýrafirði. (Ljósm: Sólrún Halla Bjarnadóttir).

Á leið framhjá Kirkjubóli í Dýrafirði. (Ljósm. Sólrún Halla Bjarnadóttir).

Kirkjubólsdalur
Vegalengdin frá Þingeyri að Kirkjubóli mældist 5,64 km og þegar við fórum þar um hlaðið sýndi klukkan 28:18 mín. Þetta jafngilti 5:01 mín/km, sem var nánast nákvæmlega sami hraði og ég hafði gert ráð fyrir. Þarna tók hinn hefðbundni bílvegur enda og við tók greiðfær slóði inn Kirkjubólsdal. Hjólreiðamenn sem höfðu keppt á þessari sömu leið daginn áður höfðu haft orð á því að vegurinn væri óþægilega blautur og jafnvel sleipur í hjólförunum. Þetta voru orð að sönnu, því að undirlagið var allt mjög blautt eftir langvarandi vætutíð. Nánast ómögulegt var að hlaupa í miðju hjólfari, en víðast mátti auðveldlega þræða þurrari kanta eða grasi gróna vegmiðjuna. Vegurinn inn dalinn er frekar lítið á fótinn, en leiðin liggur yfir nokkra smálæki og holt. Þarna var auðveldlega hægt að halda nokkuð jöfnum skokkhraða.

Við reiknuðum með að ómannaðri drykkjarstöð hefði verið komið fyrir neðarlega í dalnum, á að giska 7 km frá rásmarkinu. Stöðin lét bíða aðeins eftir sér en birtist svo eftir 9,24 km. Klukkan sýndi 47:16 mín, sem þýddi að meðalhraðinn frá Kirkjubóli hafði verið 5:16 mín/km. Það var betra en ég bjóst við miðað við aðstæður og greinilegt að við vorum farnir að koma okkur upp svolítilli innistæðu fyrir brekkurnar framundan. Áfram var svo haldið inn dalinn eftir vegarslóðanum sem enn var greiðfær. Smátt og smátt hækkaði landið eins og við mátti búast. Við þrír héldum enn hópinn, fórum okkur að engu óðslega, spjölluðum um daginn og veginn, gengum upp brekkur og hlupum þess á milli. Innst í dalnum tóku við sneiðingar upp á heiðina og þar gafst gott tækifæri til að líta yfir farinn veg. Stelpurnar voru enn í augsýn, kannski svona hálfum kílómetra neðar í brekkunum.

Efst í sneiðingunum var enn svolítill snjór, en ekkert þó til trafala. Og fyrr en varði vorum við komnir hæst upp á Álftmýrarheiði (544 m) og þar beið okkar björgunarsveitarbíll með drykki. Vegalengdin var komin í 13,95 km og klukkan sýndi 1:29:11 klst. Meðalhraðinn upp brekkurnar hafði samkvæmt þessu verið 8:54 mín/km, sem mér þótti harla gott. Í svona brattlendi býst ég sjaldnast við að halda meira en gönguhraða, þ.e. um 5-6 km/klst sem jafngildir 10-12 mín/km. Líkaminn var enn óþreyttur og í toppstandi að öllu leyti nema hvað ég hafði fundið fyrir óþægindum í maga á leiðinni upp brekkurnar. Datt í hug að það tengdist því að morgunmaturinn hafði verið í naumara lagi. Samt þótti mér líklegra að óþægindin stöfuðu af einhverju öðru. Naumur morgunmatur ætti ekki að valda neinum óþægindum öðrum en orkuleysi þegar líður á daginn.

Undanhaldið
Eftir stutta viðdvöl upp á heiðinni, sem er í raun ekki nema örfárra metra breið, héldum við áfram sem leið lá niður í Fossdal í Arnarfirði. Þarna var auðveldlega hægt að spretta úr spori, enda allt undan fæti. Mér duttu í hug orð Steins Steinars, „Og styrkur minn liggur allur í undanhaldinu“, enda er ég yfirleitt töluvert sprækari niður í móti en upp í móti. Á niðurleiðinni er gott að vera fótviss og þann eiginleika ræktaði maður í ósléttu landi bernskunnar. Niðurhlaup eru samt erfiðari en þau líta út fyrir að vera, sérstaklega fyrir lærin framanverð. Ég var hóflega undirbúinn fyrir undanhaldið eftir 2-3 Hafnarfjallsæfingar og fann að 2-3 æfingar í viðbót hefðu verið til bóta. Fyrir vikið fór ég örlítið varlegar en mig langaði til, því að ekki er gott að ofbjóða lærunum svona snemma hlaups. Klemens hafði greinilega sinnt þessum undirbúningi betur. Alla vega fór hann talsvert hraðar niður brekkurnar en við Borgnesingarnir. Segir nú fátt af ferðum okkar niður brekkurnar, nema hvað vegurinn var miklu betri en ég hafði búist við og enn voru óþægindin í maganum til staðar.

Rétt í þann mund sem við vorum að komast niður á þjóðveginn út með Arnarfirði renndu tvær rútur fram hjá vegamótunum. Þar var verið að flytja hlauparana sem ætluðu að hlaupa hina hefðbundnu 24 km Vesturgötu að rásmarkinu í Stapadal. Í þann mund sem við komum niður á veginn og ösluðum yfir ána sem þar varð fyrir okkur sýndi kílómetramælirinn 19,64 km og klukkan 1:54:22 klst. Meðalhraðinn ofan af heiðinni hafði verið 4:26 mín/km. Við vorum greinilega komnir langt á undan upphaflegu áætluninni minni. Ég ákvað samt að láta alla hugarreikninga bíða þar til við kæmum í Stapadal.

Stapadalur
Það var gaman að koma í Stapadal, ekki bara vegna þess að þá var hinum óþekkta kafla hlaupsins lokið og troðnari slóðir framundan, heldur aðallega vegna þess að þar var saman kominn glæsilegur og glaðlegur hópur Vesturgötuhlaupara sem spöruðu ekki brosin og hvatningarorðin. Það er magnað hvað jákvætt fólk getur gefið manni mikla orku aukreitis. Ég sá líka Gittu minni bregða fyrir í hópnum en hún var einmitt að fara að leggja upp í sína fyrstu Vesturgötu. Það er alltaf best að vita af sínum nánustu nærlendis.

Ég gaf mér góðan tíma við drykkjarstöðina í Stapadal, ekki bara til að drekka vatn heldur líka til að horfa í kringum mig og íhuga framhaldið. Úrið mitt stóð í 20,94 km. Segjum bara að 21 km hafi verið að baki og 24 km eftir, því að þannig stemmir þetta við hina opinberu tölfræði. Klukkan sýndi 2:01:38 klst., sem þýddi að ég var rúmum 18 mín. á undan áætlun. Ég hafði jú reiknað með að ferðin frá Þingeyri að Stapadal tæki um 2:20 klst. Þetta þýddi að ég átti að geta lokið hlaupinu á 4:12 klst., sem var talsvert betra en ég hafði gert ráð fyrir. En auðvitað getur margt borið til tíðinda á langri leið og betra að spyrja að leikslokum.

Út fjöruna
Gunnar og Klemens voru lagðir af stað nokkru áður en ég kvaddi drykkjarstöðina í Stapadal og það góða fólk sem þar var. Ég náði þeim þó fljótlega, nánar tiltekið við lækinn sem er þarna rétt hjá. Ég hlakkaði til að fá nú annað tækifæri til að hlaupa þessa stórkostlegu leið út fjöruna í Arnarfirðinum, fram hjá björgum og milli bjarga, upp brekkur og utan í hlíðum. Þessi leið á engan sinn líka.

Einn af uppáhaldsstöðunum mínum á leið út með ströndinni skammt fyrir utan Stapadal. Myndina tók ég sumarið 2009.

Einn af uppáhaldsstöðunum mínum á leið út með ströndinni skammt fyrir utan Stapadal. Myndina tók ég sumarið 2009.

Kannski lumuðu fæturnir á góðum minningum frá Vesturgötuhlaupinu 2009 eða kannski var það tilhlökkunin sem gerði mig léttan í spori. Alla vega var ég allt í einu kominn spölkorn á undan félögum mínum. Ákvað að bíða þeirra ekki og halda mínu striki á þeim hraða sem gleðin bauð mér. Þeir myndu sjálfsagt ná mér fljótlega aftur og kannski myndum við fylgjast áfram langleiðina. En þetta gerðist ekki. Næst þegar ég leit um öxl hafði bilið breikkað og smám saman var ég orðinn einn míns liðs.

Í löngum hlaupum finnst mér nauðsynlegt að finna eitthvert annað verkefni fyrir hugann en að hugsa um allt erfiðið framundan. Í maraþonhlaupum snúast þessi verkefni að miklu leyti um tölulegar greiningar á síðustu 5 kílómetrum og spádóma um framhaldið út frá þeim. Í hlaupum eins og Vesturgötunni eru slík viðmið hins vegar öllu meira á reiki. Enginn kílómetri er öðrum líkur og viðmiðin fá. Ég ákvað samt að skipta því sem eftir var að leiðinni niður í 5 km kafla og taka millitímann á hverjum slíkum. Ef mér ætti að takast að hlaupa síðustu 24 kílómetrana á 2:10 mín þurfti ég augljóslega að ljúka hverjum 5 km kafla á innan við 27:30 mín. Ákvað að nota þá tölu sem viðmið. Kannski var 27:25 réttari tími en þetta var alla vega innan skekkjumarka, eða með öðrum orðum hæfilega ónákvæmt. Þetta verkefni skyldi hefjast þegar 20 km væru eftir.

20 km eftir
Í Vesturgötunni er viðhaft það skemmtilega fyrirkomulag að setja upp skilti sem sýna þann fjölda kílómetra sem er eftir í stað þess að sýna kílómetrana sem lagðir hafa verið að baki. Þegar ég kom að 20 km skiltinu stóð klukkan í 2:23:48 klst. Þar tók ég millitíma til að marka upphaf 5 km verkefnisins. Og svo hélt ég bara áfram að hlaupa og njóta þessarar stórbrotnu náttúru allt um kring. Í huganum ómaði 40 ára gamalt lag Alberts Hammond, The Peacemaker. Veit ekki hvernig það læddist þarna inn, en þetta sama lag ómaði einmitt í kollinum á mér í Víðavangshlaupi Íslands vorið 1974, einu fárra sigurhlaupa á ferlinum. Kannski var þetta fyrirboði, í það minnsta fyrirboði um að tímabært væri að uppfæra lagalistann í heilabúinu.

Um það leyti sem ég var kominn fram hjá eyðibýlunum tveimur í Lokinhamradal birtist skilti sem á stóð „Drykkjarstöð – 500 m“. Þetta gladdi mig, því að mér fannst einmitt kominn tími á vökvun. Ég hafði ákveðið í upphafi hlaups að bera enga drykki með mér. Eini farangurinn minn voru 7 bréf af orkugeli og 7 hylki af Saltstick steinefnahylkjum sem innihalda natríum, magnesíum, kalíum, kalsíSaltstickum og D-vítamín. Þessi hylki hafði ég keypt hjá Daníel Smára í Afreksvörum nokkrum dögum fyrr og ætlaði nú að nota þau í tilraunaskyni. Þau eiga að geta dregið úr líkum á krömpum, en oftar en ekki hef ég glímt við þá óáran undir lok lengstu hlaupanna. Hef svo sem aldrei gert neitt til að fyrirbyggja þetta, nema þá að reyna að vera í þokkalegu formi og e.t.v. að borða salthnetur. Orkugelið og steinefnin eiga það sameiginlegt að þeim þarf að skola niður með nægu vatni og þá er maður náttúrulega háður drykkjarstöðvunum ef ekkert vatn er með í farangrinum. En í þessu tilviki var ég greinilega of snemma á ferð enda fyrsti hlaupari dagsins. Drykkjarstöðin var nefnilega ekki komin á sinn stað. Henni mætti ég utar í hlíðinni, en það kom reyndar ekkert að sök því að þá var ég búinn að finna ágætan læk með góðu vatni sem gerði sama gagn. Drykkjarstöðvar eiga auðvitað að vera þar sem þær eiga að vera, en það er jú meira en að segja það að koma öllu á sinn stað í tæka tíð þar sem samgöngur eru jafn erfiðar og á Vesturgötunni. Svona frávik geta alltaf orðið við svona aðstæður.

15 km eftir
Það er erfitt að finna orð til að lýsa leiðinni út með Arnarfirðinum. Það eru einfaldlega forréttindi að mega upplifa þetta svæði á tveimur jafnfljótum. Fyrr en varði birtist skilti með áletruninni „15 km“. Síðustu 5 km hafði ég lagt að baki á 28:04 mín. og var þar með búinn að tapa hálfri mínútu miðað við 27:30 áætlunina mína. En mér var reyndar alveg sama um það. Leiðin var líka mishæðóttari en mig minnti. Mér leið vel og hafði alls ekki yfir neinu að kvarta, alls ekki!

Þegar þreytan gerir vart við sig í löngum hlaupum geri ég mér það oft til dundurs að bera vegalengdina sem eftir er saman við þekkta spotta sem ég hleyp oft á æfingum án þess að finnast það nokkurt tiltökumál. Hvað eru t.d. 12 km á milli vina? Það er bara eins og spottinn heiman að frá mér í Borgarnesi uppundir fólkvanginn í Einkunnum og heim aftur. Þann spotta hef ég oft skroppið eftir kvöldmat á virkum degi og ekki þótt það í frásögur færandi. Þetta var hreinlega að verða búið og allt lék í lyndi.

10 km eftir
Allt í einu var ég kominn að Svalvogum. Mér fannst tíminn hafa liðið hratt og þarna rifjuðust upp fyrir mér minningar frá hlaupinu 2009. Ég mundi nákvæmlega hvernig var að hlaupa þarna í þurrum sandi eftir allt harða undirlagið í hlíðinni og ég mundi líka eftir vindsveipum sem þyrluðu sandinum upp. Nú voru engir vindsveipir, bara hægviðri og blíða. Sólin var þó enn á bak við ský, sem mér fannst bara gott því að hitastigið fór greinilega hækkandi.

Svalvogar. Myndin var tekin sumarið 2009.

Svalvogar. Myndin var tekin sumarið 2009.

Ég bjóst kannski við að hitta nýjan hóp af hlaupurum við 10 km markið, því að þar átti að ræsa Hálfa Vesturgötu. Hins vegar mundi ég ekki alveg hvenær það átti að gerast. Alla vega var enginn mættur þarna til að klappa fyrir mér þegar mig bar að garði. Það var í góðu lagi, því að ég var alveg nógu glaður í sinninu hvort sem var. Klukkan sýndi að síðustu 5 km höfðu ekki tekið nema 26:20 mín. Ég hlaut því að vera nokkurn veginn „á pari“ miðað við drauminn um 4:12 klst. Heildartíminn var kominn í 3:18:13 klst. Þá voru sem sagt um 54 mín. eftir til að ljúka þessum 10 km. Það hljómaði sem raunhæf áætlun.

Þegar þarna var komið sögu var sú hugsun tekið að gerast áleitin að ég myndi kannski bara vinna þetta hlaup. Maður á aldrei að vera sigurviss, en ég var alla vega alveg aleinn í þessu hlaupi og hafði verið það lengi. Einu mannaferðirnar sem ég varð var við voru tveir eða þrír hjólreiðamenn og kannski einn björgunarsveitarbíll eða svo. Framundan var vegagerðarafrek Elísar Kjaran sem maður þreytist aldrei á að virða fyrir sér. Það er ótrúlegt að einn maður hafi tálgað þennan veg með lítilli jarðýtu utan í þverhnípt björg, án þess svo mikið sem að fá borgað fyrir það svo orð væri á gerandi.

Einhvers staðar á leiðinni inn Dýrafjörðinn mætti ég tveimur rútum. Þarna var verið að flytja 10 km hlauparana að rásmarkinu. Það er bara gaman að mæta rútu á þessari leið ef maður er hlaupandi. Hins vegar hefði ég ekki viljað vera á annarri rútu sem kom úr gangstæðri átt.

Á Vesturgötunni á leið inn í Dýrafjörð. (Ljósmynd: Guðmundur Ágústsson, Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Á Vesturgötunni á leið inn í Dýrafjörð. (Ljósm. Guðmundur Ágústsson, Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Keldudalur
Nokkru áður en Keldudalur opnaðist kom ég að 5 km merkinu. Nú var þetta alveg að verða búið! Síðustu 5 km höfðu tekið 28:10 mín. og ég ákvað að 4:14 klst. væri vel ásættanlegur lokatími. Klukkan stóð í 3:46:22. Það átti að vera auðvelt að klára síðustu 5 km á öðrum 28 mín.

Það var gaman að koma í Keldudal. Þarna hallar undan fæti um stund og landslagið er öðru vísi en í björgunum. Brekkan upp úr dalnum að innanverðu var kannski ekkert tilhlökkunarefni, enda líklega sú lengsta og hæsta á þessum 24 km kafla. En hún er samt bara hluti af upplifuninni. Það er ekkert erfiðara að hlaupa upp brekkur en á jafnsléttu, það er fyrst og fremst bara seinlegra. Það má líka alveg labba upp svona brekkur ef maður vill. Ég gerði það reyndar ekki, heldur skokkaði ég alla leiðina. Einhvers staðar ofarlega í brekkunni var ég búinn að leggja heilt maraþon að baki frá því um morguninn. Millitíminn þar var eitthvað um 3:57 klst. Mér finnst gaman að tala um millitíma eftir heilt maraþon. Og á brekkubrúninni voru ekki nema 2,5 km í mark.

Stutt eftir. (Ljósm: Guðmundur Ágústsson, Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Stutt eftir. (Ljósm. Guðmundur Ágústsson, Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Kominn í mark. (Ljósm. Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Kominn í mark. (Ljósm. Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Lokaspretturinn
Ég get alveg viðurkennt að ég réð mér varla fyrir kæti þessa síðustu kílómetra. Hlaupið endaði á langri brekku niður að markinu við Sveinseyri. Þarna gat ég leyft mér að bæta vel í hraðann enda fann ég varla fyrir þreytu. Ég ætla ekkert að lýsa því hvað mér leið vel þegar ég hljóp yfir marklínuna. Lífið hafði leikið við mig alla leið, ég kenndi mér einskis meins og hafði náð öllum mínum markmiðum og unnið hlaupið að auki. Er hægt að biðja um meira? Lokatíminn var 4:12:03 klst.

Marksvæðið
Eitt af því skemmtilegasta við almenningshlaup er stemmingin á marksvæðinu – og þessi stemming er óvíða betri en einmitt á Vesturgötunni. Þarna hitti ég marga gamla og nýja vini og þarna voru líka Björk og samferðamenn okkar úr Borgarnesi mætt til að taka á móti mér. Gleðin var í aðalhlutverki og sólin var meira að segja farin að skína. Hitastigið var líka komið í 18 gráður, en meiri hiti en það er ekki góður fyrir hlaupara. Reyndar fagnaði ég þessum hlýindum því að þau gerðu yfirhafnir óþarfar. Ég gat sem sagt sem best ráfað um marksvæðið á stuttbuxunum og stuttermabolnum sem ég hafði hlaupið í. Og ekki spilltu veitingarnar fyrir. Bæði leyndist ýmislegt góðgæti í tjaldinu sem þarna hafði verið sett upp og eins hafði Björk útbúið ríkulegt nesti að vanda. Reynsla mín segir mér að mikil og fjölbreytt næring strax eftir löng hlaup sé lykillinn að góðri líðan dagana á eftir. Það var þetta sem brást eftir maraþonið í París í fyrra þegar stigarnir í Louvre safninu urðu nánast ófærir daginn eftir.

Þegar ég hafði notið lífsins á marksvæðinu í nokkra stund fóru aðrir hlauparar að birtast í brekkunni, þeirra á meðal Gunnar og Klemens sem leiddust yfir marklínuna 4:27 klst. eftir að við vorum ræst í hlaupið á Þingeyri um morguninn. Svo tók verðlaunaafhending við og kveðjur að henni lokinni. Verðlaunin voru þau langglæsilegustu sem mér hafa áskotnast á ferlinum, hvorki meira né minna en nýir hlaupaskór, íþróttapeysa og lopapeysa að eigin vali frá dýrfirsku handverksfólki. Þetta kórónaði frábæra framkvæmd og ómetanlegt viðmót fólksins fyrir vestan sem hafði lagt nótt við dag við að skipuleggja þessa dásemd alla.

Á verðlaunapallinum. Klemens og Gunnar voru hnífjafnir í öðru sætinu. (Ljósm: Guðmundur Ágústsson, Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Á verðlaunapallinum. Klemens og Gunnar voru hnífjafnir í öðru sætinu. (Ljósm. Guðmundur Ágústsson, Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Lærdómurinn
Maður lærir alltaf eitthvað nýtt í hverju hlaupi, bæði um sjálfan sig, um aðra og um ýmsa þætti sem skipta máli í hlaupinu sjálfu. Einn mikilvægasti þátturinn er vökvun og næring. Reynslan hefur kennt mér að ég þurfi að drekka u.þ.b. 300 ml. af vatni á hverja 10 km. Þetta getur samt verið svolítið breytilegt eftir hitastigi, áreynslu og almennri líðan. Í þessu hlaupi voru drykkjarstöðvar á 6-7 km fresti sem hentar mér mjög vel, þar sem mér finnst einmitt best að gleypa í mig orkugel með þessu millibili. Í lengri hlaupum nota ég alltaf  38 gramma gel af gerðinni High5, sem innihalda m.a. 23 g af auðmeltum kolvetnum. Í seinni tíð freistast ég alltaf til að nota gel með koffeini, en hvert bréf inniheldur um 30 mg af því. Þessu þarf að skola niður með tveimur góðum gúlsopum af vatni. Eins og ég nefndi hér að framan gerði ég í þessu hlaupi fyrstu tilraunina til að bæta Saltstick steinefnahylkjum á matseðilinn. Þessi hylki á að taka á 30-60 mín. fresti, sem passar ágætlega við tíðni gelátsins. Með þessu er alveg nauðsynlegt að drekka vatn, þannig að e.t.v. þarf að bæta svolítilli slettu við fyrrnefnda tvo gúlsopa. Ég ákvað samt að þetta væri allt innan skekkjumarka. Vatnsglösin á drykkjarstöðvunum voru þokkalega stór, en stundum finnast mér glösin sem boðið er upp á vera í naumara lagi. Til að vera alveg viss um að ég fengi nóg vatn bætti ég oftast í glasið eins og tolldi í því og drakk svo. Best finnst mér að taka glasið með mér en þá lendir maður oft í vandræðum með að losa sig við það aftur. Ekki vill maður henda rusli út um alla Vesturgötuna! Ég fann reyndar alltaf einhverjar leiðir til að komast hjá því. Í tvö skipti bað ég meira að segja fólk sem átti leið hjá í bílum að koma glasinu fyrir kattarnef.

Eins og sjá má tók ég hluta af Vesturgötunni með mér í mark. (Ljósm. Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Eins og sjá má tók ég hluta af Vesturgötunni með mér í mark. (Ljósm. Hlaupahátíð á Vestfjörðum).

Fyrst minnst er á úrgang get ég ekki annað en velt því fyrir mér hvers vegna í ósköpunum ég sá svona mörg tóm gelbréf á Vesturgötunni þennan morgun. Þau hafa væntanlega tilheyrt hjólafólki sem fór þarna um daginn áður, því að ég var vel að merkja fyrsti hlauparinn sem átti þarna leið um. Maður getur svo sem alltaf misst gelbréfin frá sér, sérstaklega ef maður er á hjóli. En unglingavinnan er fámenn á þessum slóðum og ólíklegt að nokkur sé í aðstöðu til að hirða þennan úrgang upp af götunni. Gelbréfanna bíða því þau örlög að velkjast um í náttúrunni næstu aldir í félagsskap gelbréfa fyrri ára og komandi ára. Þetta brotnar nefnilega seint eða aldrei niður!

Eins og ég nefndi var steinefnahylkjaátið framkvæmt í tilraunaskyni. Niðurstöðurnar lofa góðu, því að ég fann aldrei fyrir minnsta votti af krampa, hvorki í hlaupinu sjálfu né eftir það. Slíkt heyrir til undantekninga þegar ég á í hlut. Að hlaupi loknu gat ég setið á hækjum mér, reimað skóna og leikið ýmsar svipaðar kúnstir sem oftar en ekki hafa reynst illmögulegar eftir löng hlaup. Ég get auðvitað ekki fullyrt að þetta sé allt hylkjunum að þakka, enda gerði ég enga samanburðarrannsókn. En þetta var alla vega öðru vísi en ég á að venjast.

Þakkir og lokaorð
Ég get ekki ímyndað mér hversu margar fórnfúsar vinnustundir liggja að baki Hlaupahátíðinni á Vestfjörðum þetta árið. Þarna gekk allt upp og viðmótið var svo jákvætt og vinsamlegt að manni verður orða vant. Þeir sem einhvern tímann hafa komið nálægt skipulagningu almenningshlaupa eru ekki lengi að átta sig á því að fólkið fyrir vestan vinnur ótrúlegt þrekvirki með þessari framkvæmd á hverju ári. Það er heldur ekki eins og þetta sé bara eitt einfalt götuhlaup. Þetta eru nokkur hlaup, bæði í Óshlíðinni og á Vesturgötunni, og við þetta bætist svo sjósund, hjólreiðar og skemmtiskokk. Þetta er flókin framkvæmd og enn flóknari þar sem samgöngur eru seinlegar eins og raunin er á Vesturgötunni og þar sem menn geta ekki einu sinni treyst á farsímasamband til að koma skilaboðum á milli starfsmanna.

Þessum pistli lýkur með orðlausum þökkum til allra þeirra sem gerðu Hlaupahátíðina og þá sérstaklega Vesturgötuna að því ævintýri sem hún var. Mér detta fyrst í hug nöfnin Sigmundur Þórðarson og Guðbjörg Rós Sigurðardóttir, en á bak við þetta hljóta að vera a.m.k. 250 önnur nöfn. Öllu þessu fólki þakka ég innilega fyrir allt sem þau gerðu til að gera þetta eins skemmtilegt og raun bar vitni.

Þú átt valið

Stundum fallast okkur hendur þegar talið berst að umhverfismálum, einfaldlega vegna þess að okkur þykja viðfangsefnin yfirþyrmandi og erum þess fullviss að við getum engu breytt. Hvert okkar um sig er jú bara örlítill dropi í mannhafinu, nánar tiltekið bara einn einasti dropi af rúmlega sjöþúsund milljón dropum samtals. Það er því út af fyrir sig ekkert einkennilegt að okkur finnist við vera fá og smá – og reyndar gildir það sama hvort sem við lítum í eigin barm eða hugsum fyrir íslensku þjóðina alla. Þjóðin öll er jú heldur ekki ýkja margir dropar þegar á heildina er litið.

Ég hef einhvern tímann orðað það svo að stærsta umhverfisvandamál heimsins sé, þegar allt kemur til alls, hvorki loftslagsbreytingar, eyðimerkurmyndun né mengun vatns og jarðvegs, heldur sú trú eða skoðun einstaklingsins að það sem hann gerir eða gerir ekki hafi engin áhrif á heildina. Öll hin vandamálin eru eiginlega bara afleiðing af þessu vandamáli. Sú trú að við fáum engu breytt er að mínu mati beinlínis hættuleg. Hún er eiginlega fyrsta skrefið í algjörri uppgjöf, sem væri sjálfsagt kölluð UPPGJÖF 101 ef hún væri kennd í framhaldsskólum. Við getum nefnilega vel haft áhrif – og ef við getum það ekki getur það enginn. Allir hinir milljón skrilljón droparnir eru jú bara dropar eins og við þegar allt kemur til alls.

Nú er eðlilegt að spurt sé hvernig í ósköpunum við getum beitt þessari getu til áhrifa sem ég held fram að við búum yfir. Svarið við þessari spurningu er ekki einfalt, enda er auðvitað ekki til neitt eitt rétt svar hér frekar en annars staðar. En þrennt af því sem við getum gert til að hafa áhrif er alla vega að kjósa, að spyrja og að sýna. Þessi pistill fjallar um þessar þrjár mögnuðu en vanmetnu aðferðir.

Við getum sem sagt í fyrsta lagi breytt með því að kjósa. Það gerum við ekki bara í kjörklefanum í alþingiskosningum, sveitarstjórnarkosningum, forsetakosningum, þjóðaratkvæðagreiðslum og hvað þetta nú heitir allt saman. Við kjósum á hverjum degi, til dæmis í Nettó, í Bónusi og við eldhúsborðið heima hjá okkur. Þegar við stöndum frammi fyrir búðarhillu og ákveðum að velja vöruna í bláa pakkanum en ekki vöruna í rauða pakkanum, þá erum við að kjósa. Við erum ekki bara að kjósa um það hvort við ætlum að eyða 400 kalli eða 450 kalli, við erum líka að velja tiltekna framleiðsluaðferð fram yfir aðra og við erum kannski líka að kjósa um framtíð einhvers fólks eða einhverrar fjölskyldu í fjarlægu landi. Kannski er önnur varan framleidd af börnum í þrælahaldi, sem vaða eiturefnin á verksmiðjugólfinu í mjóalegg. Kannski er hún einmitt ódýr af því að börnin fengu næstum ekkert kaup fyrir vinnuna sína. En kannski er hin varan með Fairtrade vottun sem tryggir að fólkið sem vann við framleiðsluna fái mannsæmandi laun og búi við félagslegt réttlæti. Ákvörðunin sem við tökum þarna við búðarhilluna hefur áhrif miklu lengra en ofaní veskið okkar, hún hefur jafnvel áhrif um allan heim. Ef við kaupum til dæmis vöruna sem var framleidd í barnaþrælkun, þá greiðum við atkvæði með því að svoleiðis barnaþrælkun haldi áfram. Með hverri svona ákvörðun höfum við áhrif.

Í öðru lagi getum við breytt með því að spyrja. Hér hentar aftur vel að taka Nettó og Bónus sem dæmi, já eða bara hvaða verslun sem er. Ef okkur er ekki sama um það hvaðan varan sem við kaupum kemur, hvað hún inniheldur og hvernig hún er framleidd – og ef við getum ekki fengið að vita nægju okkar um það með því að skoða merkin á umbúðunum eða lesa innihaldslýsinguna, þá eigum við að spyrja. Allar spurningar hafa að minnsta kosti tvíþættan tilgang. Tilgangurinn með því að spyrja er nefnilega ekki bara sá að fá svar, heldur líka að láta vita að manni sé ekki sama. Ef okkur vantar að vita eitthvað en spyrjum ekki, þá er okkur sama. Þá erum við með öðrum orðum að afsala okkur því valdi sem við höfum til að hafa áhrif. Nú halda kannski sumir að það sé tilgangslaust að spyrja einhverra svona spurninga í búðum, til dæmis spurninga um það hvort varnarefni hafi verið notuð við ræktun á vínberjunum eða hvort gallabuxurnar hafi verið bleiktar með nonýlfenólethoxýlötum. Fólk sem vinnur í búðum viti nefnilega ekkert um svoleiðis hluti. Þetta getur svo sem alveg verið rétt, en það er þá örugglega vegna þess að enginn hefur spurt um þetta áður. Allir hinir hafa líkast til líka haldið að það þýddi ekki neitt. Hér er vert að hafa í huga það sem almennt gildir í viðskiptum, að eftirspurn er ekki eftirspurn nema þeir sem sjá um framboðið frétti af henni.

Þriðja einfalda leiðin til að hafa áhrif er að sýna, nánar tiltekið að sýna gott fordæmi. Rannsóknir benda reyndar til að fátt eða jafnvel ekkert sé líklegra til að hafa áhrif að hegðun fólks en einmitt það hvernig fyrirmyndir þess hegða sér. Og öll erum við fyrirmyndir einhverra. Við erum til dæmis fyrirmyndir barnanna okkar, annarra í fjölskyldunni, vinnufélaganna, nemendanna og sjálfsagt margra annarra sem við vitum ekki einu sinni að líta upp til okkar og taka eftir því sem við gerum. Bara með því að sýna gott fordæmi getum við komið af stað hreyfingu sem er erfitt að stöðva.

Reyndar geymir sagan ótal mörg dæmi sem ættu að duga til að sýna okkur fram á að það sem einstaklingurinn gerir eða gerir ekki getur skipt gríðarlega miklu máli fyrir heildina. Hver hefur til dæmis ekki heyrt um eldhugann sem reif upp íþróttastarfið í smábænum þar sem flest hafði legið í láginni árum saman og hver hefur til dæmis ekki heyrt talað um Nelson Mandela. Allt í kringum okkur sjáum við dæmi um fólk sem tók ástfóstri við tiltekið viðfangsefni og hreif aðra með sér. Og fyrr en varði var þetta litla frumkvæði orðið að fjöldahreyfingu. Með tilkomu samfélagsmiðla gerist þetta jafnvel margfalt hraðar nú en nokkru sinni fyrr.

Niðurstaðan er í stuttu máli þessi: Hvert okkar sem er getur haft veruleg áhrif, bæði í umhverfismálum og á öðrum sviðum. Þetta er hægt að gera með ýmsu móti, meðal annars með því að vera meðvitaður um að allar ákvarðanir sem við tökum fela í sér kosningu með eða á móti einhverju, með því að spyrja um allt sem við viljum vita, ekki bara til að fá svarið heldur líka til að láta vita að okkur sé ekki sama og með því að sýna öðrum gott fordæmi, því að þessir aðrir eru miklu fleiri en maður heldur. Niðurstaðan í enn styttra máli felst í orðum Edmunds Burke sem sagði á sínum tíma: „Enginn gerði stærri mistök en sá sem gerði ekkert af því að honum fannst hann geta gert svo lítið“.

(Þessi pistill er samhljóða pistli sem fluttur var í Sjónmáli á Rás 1 mánudaginn 21. júlí 2014).

Fimmta pébé sumarsins

Í markinu. Ljósm. Gunnlaugur Júl.

Í markinu. (Ljósm. Gunnlaugur Júl).

Þegar ég var ungur drengur í sveitinni héldum við bræðurnir okkar eigin „einkafrjálsíþróttamót“ og að sjálfsögðu voru öll úrslit vandlega skráð í bækur. Þar kemur víða fyrir skammstöfunin „pm“ sem stendur fyrir „persónumet“. Löngu seinna litaðist tilvera mín af erlendum áhrifum og skammstöfunin í bókunum breyttist í „PB“ eða „personal best“. Hvað sem segja má um þessa málfarsþróun er ég búinn að setja 5 pébé það sem af er sumri. Þessi pistill fjallar um það fimmta, sem sett var í Ármannshlaupinu síðasta miðvikudagskvöld.

Ég bjóst ekki við neinu sérstöku í þessu Ármannshlaupi, nema því að þetta yrði skemmtilegt og að ég myndi koma glaður í mark. Vegalengdin var 10 km eins og jafnan í Ármannshlaupum og á þeirri vegalengd hafði ég einmitt sett PB í líffæragjafahlaupinu í Fossvogi í maí, 40:46 mín. Síðan þá hafði ég ekki æft sérlega vel, misst margar æfingar úr vegna vinnu og jafnvel bara tekið 2-3 æfingar í viku. Það er of lítið. Samt var ég svo sem í ágætu standi og heilsufar almennt prýðilegt.

Þetta var sjötta Ármannshlaupið mitt. Hef mætt í þessi hlaup annað slagið síðustu ár, já eða kannski áratugi. Tók fyrst þátt árið 1996 og setti þá PB (41:00 mín) sem stóð í tæp 18 ár, þ.e. þangað til í Fossvoginum í vor. Reyndar hljóp ég 10 km á braut haustið 1974 á 36:55 mín, nánar tiltekið vestur á Melavelli, en brautarhlaup teljast sem betur fer ekki með þegar talað er um árangur í götuhlaupum. Þess vegna byrjaði ég með „hreint borð“ þegar götuhlaupaferillinn hófst sumarið 1985.

Haustið 1974 var ég 17 ára og hlaupið á Melavellinum var sögulegt. Þetta tiltekna hlaup varð nefnilega til þess að árið 1974 luku hvorki meira né minna en 11 Íslendingar 10 km hlaupi. Það var „einsdæmi í íslenskri íþróttasögu“, eins og ég skrifaði í æfingadagbókina mína þá um kvöldið. Síðan eru liðin mörg ár. Í Ármannshlaupinu á miðvikudaginn skiluðu 444 hlauparar sér í mark.

Fyrir hlaup. Á leið að rásmarkinu með Gunnari Viðari (í gulum bol) og Gittu (hinum megin við Gunnar). (Ljósm. Gunnlaugur Júl).

Fyrir hlaup. Á leið að rásmarkinu með Gunnari Viðari (í gulum bol) og Gittu (hinum megin við Gunnar). (Ljósm. Gunnlaugur Júl).

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um hlaupið á miðvikudaginn, nema hvað þá var hlaupið frá Vöruhóteli Eimskips við Sundahöfn, að Hörpunni, snúið þar við, og sama leið hlaupin til baka. Þetta er ein besta 10 km braut sem maður kemst á á götum úti. Og veðrið var prýðilegt, dálítil gola úr óljósri átt, líklega humátt, súldarvottur um tíma og rétt rúmlega 10 stiga hiti. Birgitta dóttir mín og Borgnesingurinn Gunnar Viðar fylgdu mér á vettvang og tóku þátt í hlaupinu. Það er alltaf skemmtilegra að vera ekki einn í svona verkefnum. Reyndar hitti ég líka margt fleira fólk, enda hlýtur maður jú að rekast á nokkra kunningja í hópi 444 manna sem allir hafa sama áhugamál. Þarna var einvalalið á borð við Evu Skarpaas, Trausta hrausta og Friðrik í Melabúðinni, svo einhverjir séu nefndir, en allt þetta fólk er á svipuðu róli og ég í hlaupunum í mínútum talið. Svona almenningshlaup er ekki bara hlaup, þetta er líka góðra vina fundur.

Ég fór frekar hratt af stað að vanda. Gunnar Viðar fylgdi mér fyrsta spölinn en seig svo framúr. Hann hefur sýnt ótrúlegar framfarir á skömmum tíma og ég er alveg hættur að hafa við honum. Mér finnst gaman að fylgjast með svona þróun. Ég er heldur ekki í þessu til að vera á undan einhverjum öðrum, heldur til að sigrast á sjálfum mér og klukkunni.

Á snúningspunktinum eftir 5 km sýndi klukkan 20:28 mín. Ég bjóst við að bakaleiðin yrði ögn erfiðari og að líklegur lokatími yrði því eitthvað um 41:30 mín. Var vel sáttur við það. Tími umfram 42 mín. hefði hins vegar valdið mér vonbrigðum. En bakaleiðin var einhvern veginn léttari. Eftir 8 km var tíminn 32:36 mín og þá áttaði ég mig fyrst á því að ég gæti svo sem alveg slegið pébéið frá því í vor, þrátt fyrir allt. Með því að hlaupa þessa síðustu 2 km á sama hraða og fyrstu 8 km myndi þetta ekki taka nema 8:09 mín og það myndi duga. Og af því að mér finnast pébé svo skemmtileg bætti ég heldur í, enda lítið um þreytu í skrokknum. Kláraði þessa síðustu tvo á 7:51 mín og pébéið var í höfn, 40:27 mín.

Eftir hlaup. Félagi Gunnar Viðar í móttökunefndinni. (Ljósm. Gunnlaugur Júl).

Eftir hlaup. Félagi Gunnar Viðar í móttökunefndinni. (Ljósm. Gunnlaugur Júl).

Ég man ekki til þess að ég velti því mikið fyrir mér haustið 1974 hvaða tíma ég myndi ná í 10 km hlaupi 40 árum síðar. Ég er eðlilega svolítið lengur að þessu núna en þá, en hraðasti kílómetrinn minn á miðvikudaginn (3:53 mín á síðasta km) var samt hraðari en sá hægasti haustið 74 (3:56 mín á 6. km). Þetta er samanburður sem ég get glatt mig svolítið við.

Götuhlaup eru kannski hvert öðru lík og því takmörk fyrir því um hversu mörg þeirra sé hægt að skrifa langa bloggpistla án þess að endurtaka nánast orðrétt það sem sagt var í síðasta pistli. Ég afréð nú samt að skrifa enn einn pistilinn af þessu tagi til að tíunda árangur miðvikudagsins. Stundum efast ég um tilgang þessara skrifa, en fyrir og eftir hlaupið á miðvikudaginn hitti ég ókunnugt fólk sem sagðist lesa pistlana og hafa af þeim bæði gagn og gaman. Þetta fólk er mér innblástur og þessi pistill er tileinkaður því. Hann verður ekki sá síðasti.

PS: Af því að Ármannshlaupið á miðvikudaginn var þrítugasta 10 km götuhlaupið mitt frá upphafi ákvað ég að búa til einfalda mynd með ágripi af sögu allra þeirra hlaupa. Eigum við ekki að segja að þetta sé þroskasaga? Myndin er alla vega hér fyrir neðan og verður líklega læsileg ef smellt er á hana.

Þroskasaga þrjátíu 10 km götuhlaupa. (Myndin stækkar ef smellt er á hana).

Þroskasaga þrjátíu 10 km götuhlaupa. (Myndin stækkar ef smellt er á hana).

Skipt um heiði

Skálavíkurh og Grárófa

Lausleg yfirlitsmynd af umræddum leiðum, tekin að láni hjá Landmælingum Íslands. Skálavíkurheiðin er sú rauðari. Myndin stækkar ef smellt er á hana.

Fimmtudaginn 17. júlí nk. ætlaði ég að hlaupa yfir Grárófu frá Bolungarvík til Súgandafjarðar. Nú er ég hins vegar búinn að skipta um skoðun og ætla að hlaupa yfir Skálavíkurheiði í staðinn. En eftir sem áður verður lagt af stað í hlaupið á sama stað og sama tíma og áætlað hafði verið, þ.e.a.s. frá sundlauginni í Bolungarvík kl. 10:00 umræddan fimmtudag.

Ástæðan fyrir því að ég valdi Grárófu á sínum tíma var aðallega sú að mér þótti nafnið forvitnilegt, en það vísar til þess að oft er þokuslæðingur á heiðinni. Ég var alltaf með það í bakhöndinni að hlaupa Skálavíkurheiði í staðinn ef þokan myndi gera vart við sig þennan dag. Ég er vissulega ekki svo forspár að ég viti hvort þoka verði á Grárófu að morgni 17. júlí, en ég ákvað bara samt að skipta um heiði ekki seinna en núna. Ástæðurnar eru aðallega þrjár. Í fyrsta lagi er Skálavíkurheiðin miklu auðhlaupnari, því að þar er vegur en á Grárófu þarf jafnvel að klöngrast í klettum. (Þetta er reyndar frekar léleg ástæða því að erfiðar heiðar eru ekki síður skemmtilegar en þær auðveldu). Í öðru lagi er Skálavíkurheiðin miklu aðgengilegri fyrir aðstoðarmenn og fylgdarlið. Og í þriðja lagi held ég að þetta sé skynsamlegra val með tilliti til þess að ætlunin er að taka virkan þátt í Hlaupahátíð á Vestfjörðum í framhaldi af þessu þrítugastaogsjötta fjallvegahlaupi. Þetta vissi ég svo sem allt fyrir, en stundum verður maður skynsamari þegar nær dregur. Og grúsk mitt í heimildum um heiðarnar tvær sannfærði mig enn frekar.

Í framhaldi af fyrrnefndu grúski er ég búinn að taka saman stuttar leiðarlýsingar fyrir báðar heiðarnar. Þær má nálgast á síðunni fjallvegahlaup.is undir yfirskriftunum Grárófa og Skálavíkurheiði (merkilegt nokk). Allar leiðréttingar og ábendingar varðandi leiðarlýsingarnar eru vel þegnar.

Vonandi slást sem flestir í för með mér yfir Skálavíkurheiðina. Ég býst við að margir eigi eftir að koma þangað, þannig að þetta er gullið tækifæri.

Í Skálavík á sumardegi 2006.

Í Skálavík á sumardegi 2006.

Hamingja, þakklæti og hlaup

???????????????????????????????Hamingjuhlaupið fór fram í sjötta sinn laugardaginn 28. júní sl. í tengslum við Hamingjudaga á Hólmavík. Að þessu sinni lá leiðin frá Kleifum í Gilsfirði um Vatnadal til Hólmavíkur, samtals tæplega 37 km leið, og eins og vænta mátti var hamingjan með í för allan tímann. Í samræmi við hefðina endaði hlaupið við tertuhlaðborð neðst á Klifstúninu á Hólmavík, þar sem hlaupararnir fengu að skera og snæða fyrstu tertusneiðarnar, svona rétt til að auka enn frekar á hamingjuna.

Ha? Hamingja!?
Eðlilegt er að spurt sé hvernig fólk geti orðið hamingjusamt með því að hlaupa klukkutímum saman um vegleysur. Við þessari spurningu eru mörg svör en hér verða aðeins þrjú þeirra tíunduð:

 1. Hamingjan felst í þakklætinu yfir því að geta hlaupið sér til ánægju eða yfirleitt yfir því að forsjónin og fólkið í kringum mann geri manni kleift að gera það sem mann langar til á þessum stað og þessari stundu.
 2. Hamingjan felst í því að vera úti í náttúrunni með öðru hamingjusömu fólki, rennandi vatni, lykt af lyngi, fuglahljóðum og víðáttu sem virðist óendanleg þar sem maður er staddur í smæð sinni.
 3. Hamingjan felst í því að vera þátttakandi í sameiginlegu verkefni, þar sem hamingjan er leiðarstefið. Þannig er það á Hamingjudögum á Hólmavík.

Hvernig byrjaði þetta?
Hamingjuhlaupin urðu upphaflega til fyrir tilviljun. Fjölskyldan mín og ég höfum sótt Hamingjudaga á Hólmavík í flest þau skipti sem þeir hafa verið haldnir og þá lá beint við að bregða sér í góðan hlaupatúr í kyrrðinni sem oft er svo áberandi á Hólmavík snemma morguns. Og af því að þetta var einhvern veginn orðinn árlegur viðburður lá beint við að tengja hann Hamingjudögum og bjóða öðrum að njóta með sér. Þessa sögu hef ég reyndar rakið áður og endurtek ekki þá frásögn hér. Alla vega þróaðist þetta þannig að fyrsta Hamingjuhlaupið var hlaupið frá Drangsnesi til Hólmavíkur sumarið 2009 – og síðan hefur þetta verið árvisst.

Þrátt fyrir hefðina er Hamingjuhlaupið afskaplega óhefðbundið hlaup. Þetta er t.d. ekki keppnishlaup, heldur fylgjast hlaupararnir alla jafna að og fara ekki hraðar en svo að flestum sé fært að skokka með einhvern hluta leiðarinnar. Og svo er hlaupaleiðin líka síbreytileg, þar sem ævinlega er reynt að finna nýja leið að ári til að gera upplifunina enn hamingjuríkari.

Á leiðinni á ball?
Móðir mín heitin var fædd og uppalin á Kleifum í Gilsfirði. Hjá henni heyrði ég fyrst um Vatnadal sem færa leið á milli byggða Breiðafjarðar og Húnaflóa, en þessa leið fóru eldri bræður hennar ríðandi á millistríðsárunum á leið sinni á böllin á Hólmavík. Hægt er að fara mismunandi leiðir upp úr Gilsfirði, en nú til dags er hentugast að fylgja veginum áleiðis upp á Steinadalsheiði, fyrst að þessi vegur er þarna á annað borð, og beygja síðan af honum þegar komið er upp fyrir Brimilsgjá og halda þaðan vestur yfir hæðina sem skilur að Brekkudal og Vatnadal. Þessari leið lýsti ég í bloggi á dögunum.

Ferðasagan 2014
Að morgni laugardagsins fórum við átta saman á tveimur bílum frá Hólmavík um Þröskulda að Kleifum. Á svona ferðalögum er maður háður því að eiga góða að, því að bílarnir keyra sig ekki sjálfir til baka. Að þessu sinni tóku eiginkonan Björk og dóttirin Birgitta þessi hlutverk að sér. Björk er öllu vön í þessum fræðum, enda hefur hún aðstoðað mig í flestum þeim uppátækjum mínum sem snúast um að hlaupa frá einum stað til annars um fjöll og firnindi.

Við vorum komin tímanlega að Kleifum, þ.e.a.s. um hálftíma áður en hlaupið átti að hefjast. Þar voru fyrir tveir hlauparar sem höfðu beðið þar drjúga stund. Upplýsingar um tímasetninguna höfðu nefnilega verið svolítið misvísandi, því að hlaupið átti ýmist að hefjast kl. 9:50 eða 10:50 eftir því hvaða orðsendingar menn höfðu lesið. En þetta kom ekkert að sök, því að Hermann frændi minn og hluti af hans skylduliði var einmitt statt á Kleifum. Þau tóku vel á móti fólki og liðsinntu því á allan hátt.

Laust fyrir kl. 10:50 lögðum við í hann átta saman. Veðrið lék við okkur, hitinn var kominn vel yfir 10 stig, loft var skýjað en þurrt og svolítil gola blés af suðvestri. Einhver þoka sást á fjöllum en bara á hæstu tindum. Og veðurspáin gaf fyrirheit um lítil frávik frá þessu. Þetta hlaut að verða góður dagur.

Allt tilbúið á hlaðinu á Kleifum. F.v. Bryndís Óladóttir, Sævar Skaptason, Gunnar Viðar Gunnarsson, Birkir Þór Stefánsson, Stefán Gíslason, Arnar Barði Daðason, Kolbrún Unnarsdóttir og Hafþór Rafn Benediktsson. (Ljósm. Björk Jó).

Allt tilbúið á hlaðinu á Kleifum. F.v. Bryndís Óladóttir, Sævar Skaptason, Gunnar Viðar Gunnarsson, Birkir Þór Stefánsson, Stefán Gíslason, Arnar Barði Daðason, Kolbrún Unnarsdóttir og Hafþór Rafn Benediktsson. (Ljósm. Björk Jó).

Hamingjuhlaupin fylgja alltaf fyrirfram ákveðinni tímaáætlun sem gerir það mögulegt að slást í hópinn á ákveðnum stöðum í hlaupinu og tryggir sem best að allir skili sér til Hólmavíkur í tæka tíð fyrir tertuskurðinn. Misauðvelt er að áætla tímann, enda ræðst hraðinn í svona hlaupi af mörgum þáttum. Til dæmis er mun seinlegra að hlaupa í þúfum og stórgrýti þar sem hvergi mótar fyrir götu, heldur en á troðnum slóðum og bílvegum. Eins skiptir hæðarlegan miklu máli. Hvað sem þessu líður héldum við nokkurn veginn áætlun á fyrsta áfanganum, sem var rétt um 6 km spölur frá Kleifum og upp fyrir Brimilsgjá. Ferðalagið þangað tók um 45 mínútur, enda um 300 m hækkun inni í spilinu.

Á leið upp Steinadalsheiði. Þarna er eiginlega of bratt til að hlaupa.

Á leið upp Steinadalsheiði. Þarna er eiginlega of bratt til að hlaupa.

Næsti áfangi hlaupsins var seinlegri en sá fyrsti. Við beygðum sem sagt til vinstri út af Steinadalsheiðarveginum, óðum ána eða stukkum kannski yfir hana og tókum stefnuna beint upp vesturhlíð dalsins. Fyrst lá leiðin um blauta mýri og síðan tóku við brött malarholt. Sums staðar lágu skaflar í lautum enda undangenginn vetur snjóþungur sunnan til í heiðum.

Enn á uppleið. Horft norður Steindadalsheiði og í fjarska grillir í Heiðarvatn.

Enn á uppleið. Horft norður Steindadalsheiði og í fjarska grillir í Heiðarvatn.

Fyrr en varði vorum við komin efst upp á hæðina milli Brekkudals og Vatnadals. Ekkert okkar hafði farið þessa sömu leið áður og til öryggis hafði ég sett nokkra GPS-punkta inn í hlaupaúrið mitt. Slíkt er sérstaklega nauðsynlegt þar sem von getur verið á þoku. Fyrsti punkturinn var niðri í Vatnadal þar sem mér sýndist á korti að hentugt væri að fara niður í dalinn. Þarna uppi á hæðinni var hins vegar auðséð að nákvæm staðsetning niðurgöngunnar skipti litlu máli. Hlíðin er vissulega brött, en hvergi svo að erfitt sé að fóta sig. Við tókum því stefnuna á ská út og niður hlíðina til að stytta leiðina örlítið.

Á hæstu hæðum.

Á hæstu hæðum.

Þarna í hlíðinni lá gríðarþykkur brattur skafl sem var furðu erfiður yfirferðar þótt allt væri það á eindregnu undanhaldi. Þegar komið er fram á sumar er yfirborð svona skafla oftast meyrt, þar sem efsta lagið nær að bráðna svolítið yfir daginn. Líklega vorum við of snemma á ferð þennan dag til að þetta ætti við. Alla vega var yfirborðið svo hart að hlaupaskórnir mörkuðu naumast í það spor. Við aðstæður sem þessar skiptir máli að vera í góðum utanvegaskóm með grófum botni.

Bryndís á leið niður fannirnar í austurhlíð Vatnadals. Niðri í dalnum sést í Miðdalsána.

Bryndís á leið niður fannirnar í austurhlíð Vatnadals. Niðri í dalnum sést í Miðdalsána.

Ferðin niður skaflinn gekk áfallalaust og fyrr en varði stóðum við á bökkum Miðdalsár. Ætlunin var að hlaupa niður með ánni að vestanverðu og því var aftur tekið til við að vaða eða stökkva, allt eftir því hvaða skoðanir hver og einn hafði á eigin getu. Landið vestan við ána er auðveldara yfirferðar en að austanverðu. Að austan er hallinn meiri, auk þess sem þar skera brött gil hlíðina.

Hjálpast að yfir Miðdalsána.

Hjálpast að yfir Miðdalsána.

Þegar yfir ána var komið tók við hlaup áleiðis niður dalinn, eða öllu heldur hlaup og ganga til skiptis. Þarna eru engar sléttar grundir þar sem virkilega er hægt að spretta úr spori, heldur skiptast á blautar mýrar og grösugir móar. Eftir því sem neðar dregur í dalnum verða kindagötur gleggri og þar er auðveldara að hlaupa við fót en í ósnertum móum.

Kolla á ferð í dæmigerðu landslagi Vatnadals.

Kolla á ferð í dæmigerðu landslagi Vatnadals.

Samkvæmt tímaáætluninni lauk næsta áfanga hlaupsins gegnt Melrakkagili, skammt frá sýslumörkum Austur-Barðastrandarsýslu og Strandasýslu, já eða hreppamörkum Reykhólahrepps og Strandabyggðar. Þarna vorum við orðin u.þ.b. 10 mín. á eftir áætlun, enda leiðin heldur seinfarin auk þess sem eitt okkar hafði snúið sig lítillega á ökkla. Þau meiðsli reyndust ekki alvarleg en öll skakkaföll af þessu tagi seinka manni eðlilega ef eitthvað er. Tíu mínútna skekkja var þó ekkert áhyggjuefni, enda löng leið framundan og nógur tími til að vinna upp þennan tíma. Til vara hafði ég auk heldur gert ráð fyrir 12 mínútna tímajöfnun á vegamótunum innan við Sævang þar sem komið yrði inn á veginn norður Strandir til Hólmavíkur.

Af lýsingum að dæma bjóst ég við að næsti áfangi yrði seinfarinn, þ.e.a.s. leiðin frá Melrakkagili niður í mynni Hraundals sem gengur vestur úr Miðdal. Sú var þó ekki raunin. Þessi spölur reyndist furðu fljótfarinn, enda víðast greinilegar kindagötur og jafnvel slóð eftir jeppa sem stundum eru notaðir til að flytja smala þarna inneftir á haustin. Sums staðar eru líka nokkuð sléttar eyrar meðfram ánni. Við Birkir bóndi í Tröllatungu vorum fyrstir niður í Hraundal, enda tókum við okkur það fyrir hendur á leiðinni að komast fyrir nokkra hópa af kindum sem tekið höfðu á rás niður dalinn þegar þær urðu varar við þessar óvenjulegu mannaferðir. Það hefði verið leiðinlegt að smala öllu safninu til byggða svona um mitt sumar. Reyndar forðuðu þær sér flestar inn í Hraundal þar sem beitilandið er sjálfsagt engu síðra en á Vatnadalnum.

Birkir í Tröllatungu er vafalítið í hópi fótfráustu bænda enda ýmsu vanur úr skíðagöngum og löngum hlaupum síðustu árin. Viku fyrir Hamingjuhlaupið missti hann reyndar af skemmtihlaupinu Þrístrendingi, því að degi fyrr fékk hann óvænt far með sjúkrabíl suður á kant, þar sem grípa þurfti til aðgerða gegn bráðum krankleika sem á hann sótti. En vika er langur tími, alla vega fyrir Birki. Fátt benti til þess að hann væri nýstiginn upp úr sjúkrarúmi.

Við áðum um stund við Hraundalsá og gæddum okkur á nesti, sem var að vanda af léttari gerðinni. Í fjallahlaupum hentar hvorki að bera miklar byrðar né innbyrða mikið af mat. Næring og vökvun eru engu að síður afskaplega mikilvægir þættir ef ætlunin er að halda kröftum á langri leið.

Hópmynd við Hraundalsá kl. 13.01. Allt á áætlun, 13 km búnir og 24 eftir.

Hópmynd við Hraundalsá kl. 13.01. Allt á áætlun, 13 km búnir og 24 eftir.

Þegar við komum að Hraundalsá höfðum við unnið upp mínúturnar sem upp á vantaði við Melrakkagil – og reyndar gott betur. Sá ágóði hvarf þó í nestistímanum, þannig að þegar við lögðum aftur af stað var tímaáætlunin nokkurn veginn í járnum. Ég hafði reiknað með að næsti áfangi frá Hraundalsá niður fyrir Torffell væri frekar fljótfarinn. Hann reyndist þó drjúgur, því að þarna er enn töluvert um þúfur og skorninga sem koma í veg fyrir hröð hlaup. Þegar við komum niður að Torffelli vorum við aftur komin um 10 mínútum á eftir áætlun. En nú hlaut þetta að fara að ganga hraðar, því að framundan var greinilegur vegarslóði meðfram ánni og síðan upp túnið við eyðibýlið Tind.

Arnar Barði á leiðinni frá Hraundal niður að Tind. Vatnadalur í baksýn til vinstri og Hraundalur til hægri.

Arnar Barði á leiðinni frá Hraundal niður að Tind. Vatnadalur í baksýn til vinstri og Hraundalur til hægri.

Við Tind slóst níundi hlauparinn í hópinn, Ingibjörg Benediktsdóttir frá Hólmavík. Þarna voru líklega um 17 km eftir af hlaupinu. Svo langt hafði hún aldrei hlaupið, en eitt af því hamingjuríka við Hamingjuhlaupið er að í því felast tækifæri fyrir fólk til að takast á við nýjar áskoranir og ná nýjum markmiðum.

Ingibjörg Ben. nýlögð af stað frá Tind.

Ingibjörg Ben. nýlögð af stað frá Tind.

Við hertum heldur á okkur á næsta áfanga, enda komin á greiðfæran jeppaveg. Fyrr en varði vorum við komin að vaðinu á Miðdalsá neðan við Gestsstaði. Talsvert vatn var í ánni en engu að síður auðvelt að vaða hana þar sem botninn var tiltölulega sléttur og straumurinn hóflegur. Í fjallahlaupum hirðir fólk sjaldnast um að halda skónum sínum þurrum enda óvenjulegt að slíkt sé yfirleitt í boði. Góðir utanvegaskór eru líka þannig gerðir að vatn á álíka greiða leið út úr þeim eins og inn í þá. Oftast dugar því að stappa nokkrum sinnum niður fótum þegar yfir er komið. Þá er eins og ekkert hafi í skorist.

Bryndís komin upp úr Miðdalsánni fyrir neðan Gestsstaði.

Bryndís komin upp úr Miðdalsánni fyrir neðan Gestsstaði.

Við Miðdalsána bættist Magnús bóndi á Stað í hópinn og áfram var haldið niður að bænum Klúku. Þar beið Björk með vistir og þar slóst Birgitta í för með okkur. Hlaupurunum fjölgaði svo enn þegar komið var niður á malbikið á aðalveginum til Hólmavíkur. Um það leyti var ég hættur að hafa nákvæma tölu á hópnum, en þóttist þess þó fullviss að enginn hefði týnst á leiðinni. Þarna var ætlunin að viðhafa svolitla tímajöfnun, en þess gerðist ekki þörf, því að þegar inn á malbikið var komið var ferðalagið í fullu samræmi við tímaáætlunina. Framundan var 11,5 km malbikshlaup til Hólmavíkur.

Á leið upp Heiðarbæjarmela. Ingibjörg fremst, þá Birgitta og síðan Hafþór. 10,5 km eftir til Hólmavíkur.

Á leið upp Heiðarbæjarmela. Ingibjörg fremst, þá Birgitta og síðan Hafþór. 10,5 km eftir til Hólmavíkur.

Aðstæður á malbikinu eru auðvitað miklu staðlaðri en í óbyggðum. Þess vegna er frekar auðvelt að gera raunhæfar tímaáætlanir fyrir hamingjuhlaup á malbiki. Þar miða ég yfirleitt við að hver kílómetri sé hlaupinn á tæpum 7 mín, sem samsvarar rúmlega 8,5 km/klst. Þetta finnst eflaust mörgum hlaupurum hægt, en tilgangurinn er jú sá að sem flestir geti slegist í hópinn óháð aldri og fyrri íþróttaafrekum. Þetta gekk líka eftir því að meðfram leiðinni biðu sums staðar bílar og út úr bílunum kom fólk sem tók til fótanna með okkur.

Ég hafði gefið upp nokkrar staðsetningar í tímaáætluninni, sem ég notaði sjálfur til að ganga úr skugga um að allt væri á áætlun. Þetta var auðvelt verk og rétt um kl. 15:50 vorum við komin að lögreglustöðinni á Kálfanesskeiði í útjaðri Hólmavíkur. Þar var liðinu safnað saman og tekin hópmynd, sem sýnir svo ekki verður um villst að hópurinn hafði stækkað og taldi nú 25 manns, þar af 6 sem hlaupið höfðu alla leiðina.

Hópmynd við lögreglustöðina á Hólmavík. Reyndar eru bara 23 á myndinni, en það var vegna þess að tvo vantaði. (Ljósm. Björk).

Hópmynd við lögreglustöðina á Hólmavík. Reyndar eru bara 23 á myndinni, en það var vegna þess að tvo vantaði. (Ljósm. Björk).

Svo var beðið eftir merki frá Esther hamingjustjóra um það hvenær óhætt væri að taka á rás inn á hátíðarsvæðið. Þangað var ætlunin að mæta kl. 16:00, en eðlilega getur þurft að færa þá tímasetningu til um nokkrar mínútur til að allt sé tilbúið í tertuskurðinn. Að þessu sinni var allt innan skekkjumarka, þannig að strax að lokinni myndatöku var lagt upp í síðasta áfangann, svo sem 1400 m þægilegt skokk niður Sýslumannshallann, fram hjá Hvoli og Grímeyjarhúsinu og áfram sem leið lá inn á hátíðarsvæðið neðst á Klifstúninu út og niður af Brennuhól þar sem Hólmavíkurkirkja horfir yfir plássið. Að baki voru tæpir 37 km og rúmar 5 klst. frá því að við lögðum að stað frá Kleifum.

Móttökurnar við endamarkið voru glæsilegar að vanda. Þar var Esther búin að láta hamingjugesti mynda hamingjugöng sem við hlupum í gegnum síðasta spölinn. Við tóku hefðbundnar kveðjur og svo var ekkert annað eftir en að setjast í grasið og njóta veitinganna. Þetta var búinn að vera góður dagur og hamingjan breiddist yfir allt svæðið.

Hamingjugöngin. Hlauparar fá varla betri móttökur annars staðar! (Ljósm. Hamingjudagar).

Hamingjugöngin. Hlauparar fá varla betri móttökur annars staðar! (Ljósm. Hamingjudagar).

Takk!!!
Athuganir mínar benda til að hamingja og þakklæti séu nátengdar tilfinningar. Alla vega var ég ekki bara hamingjusamur að hlaupi loknu, heldur líka þakklátur, sérstaklega í garð forsjónarinnar, fjölskyldunnar minnar, hlaupafélaga dagsins, Estherar hamingjustjóra og Hólmvíkinga allra, svo fátt eitt sé nefnt. Það eru forréttindi að fá að njóta svona daga.

Eitt lítið sýnishorn af Hnallþóruhlaðborðinu (með stórum staf). (Ljósm. Björk).

Eitt lítið sýnishorn af Hnallþóruhlaðborðinu (með stórum staf). (Ljósm. Björk).

Hamingja, þakklæti og tertur að hlaupi loknu. (Ljósm. Björk).

Hamingja, þakklæti og tertur að hlaupi loknu. (Ljósm. Björk).