• Heimsóknir

    • 119.039 hits
  • apríl 2015
    S M F V F F S
     1234
    567891011
    12131415161718
    19202122232425
    2627282930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Nokkur orð um sjávarorku

??????????Menn hefur lengi dreymt um að virkja sjávarföll, sjávarstrauma og öldur hafsins til raforkuframleiðslu, en enn virðist þó vera langt í að sjávarorkan geti keppt við aðra helstu orkugjafa sem notaðir eru í þessum tilgangi. Orkan er vissulega til staðar eins og sjá má þegar horft er út á hafið þessa dagana, en tól og tæki sem notuð eru til að beisla orkuna þurfa að þola mikið álag, bæði vegna sjávargangs og seltu. Og svo er heldur ekki sérlega auðvelt að búa til traustar tengingar við raforkukerfið í landi.

Íslendingar hafa fengist við ýmis athyglisverð verkefni í tengslum við nýtingu sjávarorku og sú vinna er reyndar stöðugt í gangi þótt ekki fari mikið fyrir henni í fjölmiðlum dags daglega. Sem dæmi um það sem verið er að gera má nefna fyrirtækið Sjávarorku ehf. sem hefur unnið að rannsóknum á möguleikum þess að virkja sjávarfallastrauma í innanverðum Breiðafirði og fyrirtækið Valorku ehf. sem er að þróa tækni til að nýta sjávarfallaorku í annesjaröstum og hefur m.a. náð þeim árangri að búa til hverfil sem var valin besta uppfinning heims af Alþjóðasamtökum uppfinningafélaga árið 2011.

Vorið 2014 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um að fela iðnaðar- og viðskiptaráðherra að hefja vinnu við mat á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku við strendur Íslands með það að markmiði að greina hagkvæmustu nýtingarkosti til framtíðar. Jafnframt átti að leggja drög að uppbyggingu gagnagrunns um nýtingu sjávarorku og kanna með hvaða hætti Ísland gæti orðið aðili að alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði. Þessi vinna er komin vel áleiðis og starfshópur sem ráðherra skipaði um málefnið á að skila tillögum fyrir 1. maí í vor.

En tækifæri Íslendinga í sjávarorku liggja ekki bara í því að nýta hana, enda kannski ekki líklegt að rafmagn úr sjávarorku geti keppt við ódýrt íslenskt rafmagn af öðrum uppruna. Miklu stærri tækifæri gætu legið í því að þróa tæknina og framleiða búnað til útflutnings. Í því sambandi er áhugavert að velta fyrir sér hvert Skotar, já og Bretar yfirleitt, stefna í þessum efnum, en þeir líta á sig sem frumkvöðla á heimsvísu.

Fyrr í þessari viku komu út tvær skýrslur í Bretlandi um tækifærin sem liggja í þróun og nýtingu sjávarorku. Í þessum skýrslum er á það bent, að ef Bretar ætli sér að nýta þessi tækifæri þurfi þeir annars vegar að móta framtíðarstefnu í þessum málum og hins vegar að tryggja fjármagn til áframhaldandi rannsóknar- og þróunarvinnu. Aðeins á þann hátt sé hægt að gera framleiðslu á búnaði fyrir sjávarvirkjanir að atvinnugrein sem geti skapað ný störf og fært Bretum miklar tekjur í framtíðinni. Hér dugi ekki að móta stefnuna frá ári til árs, heldur þurfi að gera áætlun sem nái að minnsta kosti til ársins 2030.

Í annarri skýrslunni sem um ræðir er varað við því að ef Bretar standi ekki saman í þessu verkefni og missi yfirsýnina yfir það sem nú þegar er í gangi, þá sé mikil hætta á að margir aðilar sói kröftum sínum í sömu verkin hver í sínu horni á sama tíma og enginn sinni öðrum verkum sem eru nauðsynleg til að tækifærin nýtist í framtíðinni. Þá muni Bretar einfaldlega missa það forystuhlutverk sem þeir hafi nú.

Skýrsluhöfundar benda á, að engin leið sé að tryggja fjármagn frá einkaaðilum eingöngu í langtímafrumkvöðlaverkefni sem þetta og því þurfi opinberir aðilar og einkaaðilar að taka höndum saman. Tryggja þurfi framlög upp á 300 milljónir sterlingspunda á næstu 10 árum, en þessi upphæð samsvarar rúmlega 60 milljörðum íslenskra króna. Þetta fé geti m.a. komið frá breska ríkinu og úr sjóðum Evrópusambandsins. Nú þegar hafi fyrirtæki í greininni varið um 450 milljónum sterlingspunda í þróunarstarf og þar af hafi aðeins um einn áttundi komið úr opinberum sjóðum. Ef vel takist til á næstu árum gæti framleiðsla á þessu sviði verið orðin svo umfangsmikil árið 2050 að hún bæti 4 milljörðum sterlingspunda við árlega landsframleiðslu Breta. Sú upphæð samsvarar 820 milljörðum íslenskra króna á ári.

Líklega hefur Fergus Ewing, orkumálaráðherra Skotlands, ekki einu sinni verið búinn að lesa skýrslurnar sem hér er vísað til þegar hann tilkynnti í gær að samtökum sjávarorkufyrirtækja í Skotlandi yrði veittur styrkur upp á 14,3 milljónir sterlingspunda, eða sem samsvarar tæplega þremur milljörðum íslenskra króna, á næstu 13 mánuðum til að vinna áfram að lausn ýmissa tæknilegra vandamála. Þetta gerir það m.a. mögulegt að ráða 10-12 starfsmenn og koma á fót sérfræðingateymi sem samræmir aðgerðir og hjálpast að við að finna bestu lausnirnar. Um leið eru opnaðir möguleikar á víðtæku samstarfi milli fyrirtækja, svo og samstarfi við verkfræðistofur og vísindamenn sem vinna að rannsóknum á þessu sviði. Þarna eins og víðar skiptir samstarf gríðarlega miklu máli, eða eins og Stephen Salter, prófessor, sem kallaður hefur verið „faðir sjávaröldutækninnar“ orðaði það: „Frumkvöðlarnir þurfa að bindast samtökum sín á milli gegn ógnum sjávarins í stað þess að berjast sín á milli um ófullnægjandi fjárveitingar“.

Skotar búa svo vel að hafa aðgang að einhverjum bestu sjávarorkusvæðum í heimi. Þessi svæði eru m.a. við Ljóðhús og aðrar eyjar Hebrideseyjaklasans, eða Suðureyja, en þar hafa Skotar gert ýmsar tilraunir með tækninýjungar í nýtingu sjávarorku.

Auðvitað er ekkert því til fyrirstöðu, svona fræðilega séð, að Íslendingar verði í fararbroddi á heimsvísu, rétt eins og Skotar, í því að þróa og framleiða tæknibúnað fyrir sjávarvirkjanir. Það er t.d. ekki svo slæm byrjun að hafa náð að búa til hverfil sem unnið hefur til alþjóðlegra verðlauna. Og það er jú sama Atlantshafið sem leikur um Íslandsstrendur og Ljóðhús. En til þess að vera í fararbroddi þurfa Íslendingar að horfa örlítið lengra fram í tímann en fram í næstu viku eða til næstu kosninga, eins og þeim hættir stundum til að gera. Hér sem víðar gildir að koma auga á tækifærin í tæka tíð og vera nógu framsýnn og þolinmóður til að nýta þau. Þegar rýnt er í þróun orkumála í heiminum virðist það alla vega liggja ljóst fyrir, að tækifærin í orkugeiranum liggi ekki í olíuvinnslu.

(Þessi pistill er samhljóða útvarpspistli sem fluttur var í Samfélaginu á Rás 1 26. febrúar sl. og ber að skoða tímasetningar í textanum í því ljósi. Pistillinn hefur hins vegar ekki birst í skrifaðri útgáfu áður).

Hlaupið upp úr lægðinni

Ég hef stundum haft á orði að efsta línan í hlaupaæfingaáætluninni minni sé „ekki meiðast“. Hlaupameiðsli eru nefnilega leiðinleg. Þau trufla aðra hluta áætlunarinnar og koma í veg fyrir að maður njóti allra þeirra gæða sem maður ætlar að njóta á hlaupunum. En þrátt fyrir þessa efstu línu lenti ég í svolitlum meiðslum í vetur, reyndar smávægilegum. En jafnvel smávægileg meiðsli geta truflað – og jafnvel smávægileg meiðsli þurfa sinn tíma til að lagast, þeim mun lengri tíma sem árin manns eru orðin fleiri.

Af hverju meiðist maður?
Ég aðhyllist þá skoðun að hlaupameiðsli stafi hér um bil alltaf af því að maður hafi gert „of mikið of fljótt“. Ég býst við að það eigi líka við um þessi síðustu hlaupameiðsli mín, þó að ég telji mig reyndar ekki hafa stundað neina sérstaka áhættuhegðun dagana áður en þetta gerðist. Sagan var þannig að ég fann fyrir óþægindum ofarlega í vinstri kálfanum eftir létt hlaup á hlaupabretti einn laugardag um miðjan febrúar. Hafði hlaupið frekar langt daginn áður í frekar leiðinlegu færi. Það hef ég gert oft áður og ekki orðið meint af. Á sunnudeginum brá ég mér í ræktina og hljóp eitthvað smávegis þar, á hallandi bretti. Fann aðeins til þá líka og hefði kannski átt að sleppa þessu með hallann. Á mánudeginum tók ég svo tiltölulega erfiða æfingu í aftakaveðri og vondri vetrarfærð. Þá breyttust óþægindin í meiðsli. Ég var sem sagt tognaður í kálfanum. Ég gat auðveldlega staðsett meiðslið og fann að þetta var bara mjór þráður í ytri kálfavöðvanum (kálfatvíhöfða (Musculus gastrocnemius)).

Hvað á maður þá að gera?
Meiðsli eru æfing í þolinmæði. Tognanir þurfa sinn tíma til að lagast og maður hefur sjálfur mikil áhrif á batann. Tveir verstu kostirnir eru líklega annars vegar að hvíla vöðvann algjörlega og hins vegar að reyna of mikið á hann. Tognaði vöðvinn þarf áreiti til að viðhalda góðri blóðrás og halda batakerfinu í gangi. Það sem ég gerði til að flýta fyrir batanum var þrennt: Heilun, rólegt skokk og styrktaræfingar. Heilunin var góð, en eftir á að hyggja voru styrktaræfingarnar ekki nógu margar og vegalengdirnar í rólega skokkinu jukust of hratt. Fyrstu vikuna hljóp ég 13 km, sem var í góðu lagi, þá næstu 31 km sem var líka í góðu lagi og þá þriðju 52 km, þ.á.m. langt helgarhlaup á laugardegi. Þá tók meiðslið sig upp og ég þurfti að haltra heim, verr staddur en þegar þetta byrjaði þremur vikum fyrr.

Staðan í dag
Síðan þetta gerðist eru 5 vikur og ég þykist vera kominn vel af stað með hjálp sjúkraþjálfara og örlítið meiri þolinmæði en í fyrra skiptið. Vikuvegalengdin er aftur komin upp í 50 km en ástandið er enn viðkvæmt og því of snemmt að afþakka fylgd þolinmæðinnar. Myndin hér að neðan sýnir hvernig þetta hefur gengið fyrir sig það sem af er árinu og til dagsins í dag, mælt í kílómetrum á viku. Myndin skýrir sig alveg sjálf.

Vikur 1-15 2015c

Endurskoðuð markmið
Þegar maður stendur í svona stappi getur þurft að endurskoða markmið. Ég ætlaði að vera kominn í mitt besta hlaupaform í byrjun apríl, en nú lítur út fyrir að það verði í fyrsta lagi í byrjun júní, þ.e.a.s. ef allt gengur upp. Í stað þess að slá alls konar persónuleg met í apríl og maí er stefnan núna sett á að vera orðinn nógu öflugur í júlí til að bæta mig á Laugaveginum. Keppnishlaup fram að þeim tíma verða bara góðar æfingar, allt samkvæmt nýrri æfingaáætlun sem ég er búinn að útbúa handa sjálfum mér. Sú áætlun ber vinnuheitið „Björgum Laugaveginum“. Helstu markmiðin á þessum tíma hafa verið endurskoðuð sem hér segir:

  1. Víðavangshlaup ÍR sumardaginn fyrsta: 20:50 mín í stað 19:38 mín, (átti að verða PB).
  2. Vormaraþon FM 25. apríl: 1:35 klst. í stað undir 1:30 klst.
  3. Göteborgsvarvet 23. maí: 1:31:30 klst. í stað 1:28 klst.
  4. Mývatnsmaraþon: Hálft maraþon undir 1:30 klst. í staðinn fyrir heilt maraþon.
  5. Laugavegurinn 18. júlí: Undir 5:52:33 klst. eins og upphaflega var ætlað.
  6. Og svo verða náttúrulega Þrístrendingur, Hamingjuhlaupið og öll fjallvegahlaup á sínum stað, nema hvað ég þarf líklega að fórna Strjúgsskarði sem ég ætlaði að hlaupa 11. júlí. Meira um það síðar.

Skyldi þetta duga til að bjarga Laugaveginum?
Vikuskammtarnir í æfingaáætluninni „Björgum Laugaveginum“ eru sýndir á myndinni hér fyrir neðan. Grænu vikurnar eru þær sömu og á efri myndinni en þær gulu ná yfir tímabilið frá því að þessar línur eru skrifaðar og fram að Laugavegi. Reyndar þyrftu nokkrar af þessum vikum kannski að verða lengri en þarna er sýnt, en kílómetratalan segir ekki allt. Inni í þessu eru t.d. 11 ferðir upp á topp á Hafnarfjallinu. Þangað fór ég ekki nema tvær ferðir sumarið 2013 þegar ég hljóp Laugaveginn síðast. Nú á að ná sér í miklu meiri brekkustyrk en þá, sem vonandi dugar til bætingar þó að kílómetrarnir í löppunum verði ekkert rosalega margir.

Vikur 1-29 2015c

Kannski leyfi ég ykkur að fylgjast með hvernig þetta gengur hjá mér í vor og sumar. Það gæti orðið efni í nokkra langa bloggpistla.

Að tilheyra hópi

SA Mind forsíðaMargt fólk sem ég þekki tekur þátt í einhvers konar hópstarfi. Viðfangsefni hópanna eru ólík og sum þeirra geta jafnvel virst fáfengileg við fyrstu sýn. En þegar betur er að gáð getur það skipt sköpum fyrir okkur sem einstaklinga að vera hluti af einhverjum hópi, alveg sama hvort það er brönugrasaklúbbur, Kiwanis, kvenfélag, kór aldraðra, leshringur eða hlaupahópur. Rannsóknir benda nefnilega til að þeir sem finnast þeir tilheyra hópi eigi síður vanda til að leggjast í þunglyndi með tilheyrandi hættu á neikvæðum hliðarverkunum, þ.m.t. sjálfsvígum. Í ljósi þessara rannsókna hefur orðið „hópmeðferð“ eiginlega öðlast nýja merkingu. Meðferðin þarf sem sagt alls ekki að beinast að sjúkdómnum sjálfum, heldur getur hún verið fólgin í nánast hvers konar hópstarfi sem verkast vill, allt eftir aðstæðum og áhuga þess sem í hlut á. Þessari nýju tegund hópmeðferðar eru gerð ágæt skil í grein eftir Tegan Cruwys og félaga sem birtist í tímaritinu Scientific American Mind (SA Mind) á síðasta hausti, en ég rakst á þetta hefti á biðstofu læknis á dögunum innan um snjáð tölublöð af Nýju lífi frá árinu 2004. Ég er alls enginn fræðimaður á þessu sviði, en í þessum pistli ætla ég samt að tína til nokkur atriði úr þessari grein, enda hygg ég að innihald hennar eigi erindi við fleiri en þá sem lesa SA Mind reglulega.

Í grein Cruwys og félaga eru raktar niðurstöður nokkurra nýlegra rannsókna á mikilvægi hópkenndar fyrir andlega líðan fólks. Í greininni kemur fram að við meðferð við þunglyndi sé alla jafna gengið út frá því að vandamálið eigi rætur í einstaklingnum sjálfum. Þess vegna sé meðferð annað hvort ætlað að breyta efnaskiptum í heila eða hafa áhrif á viðhorf einstaklingsins til lífsins og tilverunnar. Reynslan sýni hins vegar að það séu yfirleitt utanaðkomandi atvik sem hrindi atburðarásinni af stað. Þannig megi rekja 60-90% allra þunglyndistilfella til einhvers konar missis, svo sem atvinnumissis, tapaðrar vináttu eða ástarsorgar. Auk þess banki þunglyndi helst á dyrnar hjá þeim sem búa einir.

Eftir því sem þekking manna á þunglyndi eykst verður augljósara hversu mikinn þátt félagsleg einangrun á í vandanum. Því er rökrétt að draga þá ályktun að aukin samskipti við annað fólk hafi forvarnargildi. Rannsókn Fabio Sani og félaga við háskólann í Dundee í Skotlandi á 194 einstaklingum leiddi hins vegar í ljós að galdurinn felst ekki í samskiptunum sem slíkum, heldur í eðli samskiptanna. Þáttakendur í rannsókninni voru annars vegar spurðir hversu mikið þeir hittu og töluðu við nánustu fjölskyldumeðlimi og hins vegar hversu miklu máli þeir teldu þessa fjölskyldu skipta sig. Í ljós kom að tíðni samskipta hafði ekki mikil áhrif á þróun þunglyndis, en samkennd með fjölskyldunni hafði hins vegar mikið forvarnargildi. Í því sambandi skipti ekki máli hvers konar „fjölskyldu“ var um að ræða. Í tiltekinni austur-evrópskri herdeild hafði það t.d. miklu meira forvarnargildi að finna til sterkra tengsla við félagana en það eitt út af fyrir sig að verja miklum tíma með þeim.

En það er ekki nóg að ganga bara í einhvern hóp. Hópurinn verður að skipta einstaklinginn máli. Það eitt að mæta á staðinn og spila fótbolta með einhverjum, stunda listsköpun, sauma eða stunda jóga virðist ekki hafa marktæk jákvæð áhrif. Það er samkenndin með hópnum sem gerir útslagið, þ.e.a.s. tilfinningin að vera hluti af þessum hópi. Almennt talað skiptir engu máli hvert viðfangsefni hópsins er. Frá þessu eru þó undantekningar ef um er að ræða hópa sem myndast t.d. utan um eiturlyfjaneyslu eða andfélagslega hegðun.

Rannsóknirnar sem Cruwy og félagar vísa í leiða ekki einasta í ljós mikilvægi hóptilfinningarinnar til að vinna gegn þunglyndi, heldur virðist það eitt að hugsa um hópinn sinn draga úr líkum á að smitast af veirum sem maður hefur komist í tæri við, gera mann síður móttækilegan fyrir áreiti og auka sársaukaþol.

Ein af þeim ályktunum sem hægt er að draga af samantekt Cruwys og félaga er að hægt væri að ná miklum árangri í forvörnum og meðhöndlun þunglyndis með því einu að fá viðkomandi einstaklinga til að ganga í einn eða fleiri hópa. Og þá skiptir nánast engu máli hvers konar hóp er um að ræða, svo fremi sem eintaklingurinn upplifir sig sem hluta af hópnum. Meðferð af þessu tagi getur að sjálfsögðu ekki komið að öllu leyti í stað annarra dýrari úrræða, en hún getur í það minnsta bætt árangur án verulegs aukakostnaðar fyrir einstaklinginn eða samfélagið og án aukaverkana. Hún getur auk heldur nýst í aðstæðum eða á svæðum þar sem um fá önnur úrræði er að ræða.

(Þessi pistill er byggður á: Tegan Cruwys, S. Alexander Haslam og Genevieve A. Dingle, (2014): The New Group Therapy. Scientific American Mind, Sept.-okt. 2014, (60-63)).