• Heimsóknir

    • 119.039 hits
  • júlí 2015
    S M F V F F S
     1234
    567891011
    12131415161718
    19202122232425
    262728293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

39:59

Svona leit Garminúrið út í markinu.

Svona leit Garminúrið út í markinu.

Á miðvikudagskvöldið (29. júlí) náði ég óvænt langþráðu takmarki, þ.e. að hlaupa 10 km á styttri tíma en 40 mín. Þetta hef ég aldrei gert áður ef frá er talið eitt keppnishlaup á gamla Melavellinum haustið 1974. Síðan ég byrjaði að taka þátt í götuhlaupum hef ég séð þetta markmið í hillingum. Og nú bara náðist það allt í einu án þess að ég hefði svo mikið sem íhugað möguleikann.

Ég hljóp fyrsta götuhlaupið mitt sumarið 1985 og fyrsta 10 km hlaupið 1993. Þá var tíminn 45:33 mín. Á næstu tólf árum hljóp ég tólf 10 km hlaup til viðbótar, oftast í kringum 45 mín. Náði reyndar einu óvenjugóðu hlaupi sumarið 1996 í miðjum undirbúningi fyrir fyrsta maraþonið mitt. Komst þá niður á 41:00 og bjóst ekki við að bæta þann árangur nokkurn tímann. Hin hlaupin voru öll á bilinu 43:14-46:38 mín.

Sumarið 2007 þegar ég var nýorðinn fimmtugur hitti ég gamlan vin að norðan, Pétur Pétursson þrístökkvara. Leiðir okkar lágu oft saman á 8. og 9. áratug síðustu aldar, bæði í íþróttum og á öðrum vettvangi. Pétur hefur alltaf haft lag á að hvetja mig til dáða og í þetta skiptið sagði hann að ég hlyti að geta hlaupið 10 km undir 43:27 mín, því að þeim tíma hefði hann sjálfur náð eftir fimmtugt. Þar með var ég kominn með nýtt markmið!

Markmiðið um 43:27 mín náðist í annarri tilraun haustið 2008. Hljóp þá á 42:32 mín. Var vel sáttur við það en gamla „metið“ frá 1996 stóð óhaggað. Næstu ár mjakaðist ég þó smátt og smátt nær því og vorið 2013 hljóp ég á 41:03 mín eftir gríðarlega góða æfingartörn fyrir Parísarmaraþonið fyrr um vorið. Þegar þarna var komið sögu var ég eiginlega „kominn í nýtt borð“ í hlaupunum og búinn að átta mig á að árangurinn mætti auðveldlega bæta með meiri og betri æfingum.

Sumarið 2014 komst ég loks undir 41 mín og var meira að segja farinn að trúa að ég gæti rofið 40 mínútna múrinn þrátt fyrir „háan aldur“. Gerði nokkrar alvarlegar tilraunir til þess og náði best 40:09 mín í lok ágústmánaðar. Eftir misjafnt gengi á æfingum síðasta vetur sló ég hins vegar áformum um frekari bætingar á frest og ákvað að hugsa ekki meira um 40 mínútna múrinn í bili. Æfingar sumarsins miðuðust fyrst og fremst við að ná góðum tíma á Laugaveginum og þar reynir að hluta til á aðra þætti en í styttri götuhlaupum.

Laugavegurinn gekk eins og í sögu og einhvern veginn hafa skrefin orðið léttari eftir því sem liðið hefur á sumarið. En þegar ég lagði af stað í Adidashlaupið á miðvikudagskvöldið datt mér samt ekki í hug að ég myndi fara nálægt 40 mínútna múrnum. Markmiðið var að hlaupa undir 41 mín til að finna að ég væri að nálgast sama form og í fyrra.

Fyrstu kílómetrarnir í hlaupinu voru frekar venjulegir, en mér ós ásmegin eftir því sem leið á hlaupið. Eftir 9 km var tíminn 35:50 mín og þar með ljóst að 40 mínúturnar væru innan seilingar. Síðasti spölurinn var erfiður enda heldur á fótinn, og í markinu sýndi klukkan 40:00. Þetta var þá bara spurning um sekúndubrot til eða frá. Og viti menn, þetta lenti réttu megin við strikið. Lokatíminn var 39:59 mín. Hefði ekki viljað neinn annan tíma frekar.

Þetta var gaman! Það er alltaf gaman að bæta sig og ekki minnkar gleðin þegar aldurinn færist yfir. Ætli maður verði þá ekki enn meðvitaðri um að ekkert gerist af sjálfu sér. Svo er þetta líka enn skemmtilegra þegar maður á ekki von á því.

Þetta var Adidas Boost hlaup. Þess vegna fannst mér viðeigandi að mæta í Adidas Boost skónum mínum sem Adidasumboðið var svo vinsamlegt að gefa mér í vor í samvinnu við Borgarsport í Borgarnesi. Við fyrstu kynni fundust mér þessir skór helst til mjúkir, enda er ég vanur að nota þynnri og léttari skó í keppnishlaupum. Ég ætla ekkert að fullyrða um þátt skónna í árangrinum, en þeir spilltu örugglega ekki fyrir. Mýktin í botninum gerir það að verkum að maður verður óragari að láta vaða þar sem hallar undan fæti, þó að undirlagið sé hart.

Hvað er svo framundan? Jú, Barðsneshlaupið í fyrramálið og einhver fjallvegahlaup og Jökulsárhlaupið í framhaldinu. Svo er það Reykjavíkurmaraþonið. Ég hef engin áform um að bæta 10 km tímann á næstu dögum og vikum, en finnst líklegt að ég sneiði eitthvað af honum sumarið 2016. Þegar markmiði er náð setur maður sér ný.

Dásamlegur Laugavegur

Á endasprettinum í Þórsmörk. (Ljósm. Sævar Skaptason).

Á endasprettinum í Þórsmörk. (Ljósm. Sævar Skaptason).

Um síðustu helgi (18. júlí) hljóp ég Laugaveginn í þriðja sinn. Leiðin er alltaf jafnlöng en að öðru leyti eru engin tvö hlaup eins, því að bæði breytast aðstæður í náttúrunni og í manni sjálfum. Þess vegna er þetta ný og spennandi áskorun í hvert einasta sinn. Þessi þriðja ferð var enn ánægjulegri en hinar og ekki spillti fyrir að ég bætti tímann minn frá því síðast um rúmar 11 mínútur.

Undirbúningurinn
Meiðsli trufluðu hlaupaæfingarnar mínar á liðnum vetri og líklega bætti rysjótt tíðarfar ekki úr skák. Ég hafði gert ráð fyrir að vera kominn í mitt besta hlaupaform í byrjun apríl og geta svo byggt afrek sumarsins á þeirri innistæðu. En innistæðan var sem sagt ekki fyrir hendi og því þurfti að nota vorið og fyrrihluta sumars til að búa hana til. Allt miðaðist þetta við aðalhlaupamarkmið ársins, þ.e.a.s. að hlaupa Laugaveginn á skemmri tíma en áður, eða með öðrum orðum undir 5:52:33 klst. Þess vegna bjó ég til nýja æfingaáætlun í byrjun apríl undir vinnuheitinu „Björgum Laugaveginum“. Í þeirri áætlun var gert ráð fyrir tilteknum fjölda æfinga af mismunandi tagi og tilteknum fjölda kílómetra í hverri viku. Sumum þessara kílómetra átti að ná með 11 ferðum upp á topp á Hafnarfjallinu.

Til að gera langa sögu stutta gekk áætlunin um björgun Laugavegarins upp í öllum aðalatriðum. Samkvæmt henni ætlaði ég að hlaupa samtals 870 km á tímabilinu frá 13. apríl fram að Laugavegi, en í reynd urðu þetta 885 km eða um 65 km á viku. Kílómetrafjöldinn segir auðvitað ekki allt, því að það skiptir ekki bara máli hversu mikið maður gerir, heldur hvað maður gerir. Magn og gæði fara ekki alltaf saman. Þannig fór ég ekki nema fjórum sinnum upp á topp á Hafnarfjallinu og líklega þrisvar í viðbót langleiðina í of vondu veðri eða of vondri færð til að fært væri á toppinn. Á þessum tíma hljóp ég líka Þrístrending og Hamingjuhlaupið, auk fjallvegahlaups um Flatnaveg. Auk þess tók ég þátt í nokkrum keppnishlaupum, þ.m.t. fjórum hálfmaraþonhlaupum. Fæst þessara hlaupa gengu alveg að óskum en úr þeim mátti þó lesa batnandi líkamsástand, þó að framfarirnar væru hægari en ég hafði gert ráð fyrir. Dagana fyrir Laugaveginn hafði ég þó á tilfinningunni að ég ætti að geta bætt mig ef aðstæður yrðu þokkalegar. Ég taldi mig vera komin í betra fjallahlaupaform en nokkru sinni fyrr, og þó að eitthvað vantaði upp á maraþonformið taldi ég ástandið vera orðið nógu gott að meðaltali til að markmiðið gæti náðst.

Áhyggjur af snjó
Dagana fyrir Laugavegshlaupið var mikið talað um hversu snjóþungt væri á leiðinni og að þess vegna gæti hlaupið orðið með erfiðasta móti. Ég var frá upphafi ákveðinn í að hafa ekki áhyggjur af þessu. Laugavegurinn er ekki hlaupabretti, hann er bara hluti af náttúrunni og þess vegna gilda þar engar staðlaðar aðstæður. Ef færið er verra en í meðallagi verður ferðalagið seinlegra en ella. Að öðru leyti breytir þetta svo sem engu, nema hvað útbúnaðurinn verður alltaf að taka mið af líklegum aðstæðum.

Góð veðurspá
Þeir sem ætla að hlaupa Laugaveginn þurfa að fylgjast með veðurspánni og muna að á hálendinu getur veðurfar verið talsvert miskunnarlausara en í byggð. En í þessu tilviki þurfti maður engu að kvíða. Spáin fyrir hlaupadaginn lofaði góðu, norðanátt í kortunum og þar með meðvindur, nær engar líkur á úrkomu sem máli skipti og hitastigið líklega nógu lágt til að snjóbráð yrði í lágmarki á fjöllum og nógu hátt til að ekki yrði hrollkalt í Landmannalaugum í upphafi hlaups eða í Þórsmörk í lokin. Þetta leit vel út!

Fatatíska ársins
Það er alltaf vandasamt að klæða sig rétt fyrir hlaup á fjöllum og auk þess er besta leiðin í þeim efnum einstaklingsbundin. Fólk er misheitfengt, fer mishratt yfir og þekkir eigin takmörk misvel. Ég er frekar mikill naumhyggjumaður hvað þetta varðar og reyni að klæða mig heldur minna en meira fyrir svona verkefni, án þess þó að stefna eigin öryggi í augljósa tvísýnu. Ég ákvað að klæðast langerma hlaupabol, hlírabol utanyfir, þunnum vindheldum hlaupajakka, hlaupanærbuxum, síðum hlaupabuxum, þunnum hlaupasokkum og hlaupahönskum úr ull. Lambhúshetta átti líka að vera með í för en hana skildi ég reyndar eftir eftir að hafa endurmetið aðstæður við komuna í Landmannalaugar. Ég er lítið fyrir húfur, enda veitir hárið þokkalegt skjól í þurrviðri. Meðvindur í hlaupi jafngildir líka næstum því logni þegar maður er kominn af stað. Skófatnaðurinn var löngu ákveðinn. Ég ætlaði  að vera í utanvegaskóm af gerðinni Adidas Kanadia 4 TR, þeim sömu og ég hljóp Laugaveginn í fyrir tveimur árum og einhverja 700 km því til viðbótar við ýmis tækifæri. Þessir skór höfðu reynst mér einkar vel og voru enn til þess að gera óslitnir. Ég ætlaði sem sagt í þetta ferðalag með nesti, en ekki með nýja skó. Hins vegar var ég búinn að fjárfesta í nýjum skóhlífum í ljósi reynslunnar frá Laugavegshlaupinu 2013 þegar ég hvolfdi svo sem einni matskeið af grófum sandi úr hvorum skó í Borgarnesi daginn eftir hlaup.

Vaknað snemma
Laugavegsdagar eru langir dagar. Ég vaknaði kl. 2 árdegis þennan dag eftir góðan 4 klst. svefn og var lagður af stað til Reykjavíkur um kl. 3 ásamt Gunnari Viðari, hlaupafélaga mínum úr Borgarnesi. Kl. 4:30 var lagt af stað með rútu úr Laugardalnum og komið á leiðarenda í Landmannalaugum upp úr kl. 8. Eitthvað tókst að dotta á leiðinni, en að öðru leyti verður ekki orðlengt um þennan hluta ferðarinnar. Í Landmannalaugum var fremur hægur norðanvindur, þurrt veður og líklega um 6 stiga hiti, allt eins og best varð á kosið og í góðu samræmi við veðurspána. Dagurinn lagðist vel í mig.

Við rásmarkið
Við Gunnar höfðum báðir gefið upp lokatíma í kringum 6 klst. sem þýddi að við vorum báðir í fyrsta ráshópi af þremur. Nú hafði verið tekin upp sú nýbreytni að rífa þar til gerða miða af rásnúmerinu til að halda yfirsýn yfir hverjir hefðu lagt af stað. Það gekk fljótt og vel. Fyrir tveimur árum þurftu hlauparar að skrá sig sérstaklega í Landmannalaugum. Það gekk seint og illa. Til þess er einmitt reynslan að læra af henni og finna betri leiðir í stað annarra sem virka ekki sem skyldi.

Við rásmarkið hitti ég Norðmanninn Bjørn Lindberg sem var að hlaupa Laugaveginn þriðja árið í röð. Við höfðum einmitt verið samferða drjúgan spöl á söndunum sunnan við Bláfjallakvísl í hlaupinu 2013 – og í fyrra hittumst við vestur í Dýrafirði eftir að hafa hlaupið Vesturgötuna. Svona kynni eru skemmtileg og eiga það til að endast. Bjørn á tengdafólk á Íslandi og reiknaði með að halda áfram að koma til Íslands á þessum tíma árs og taka þátt í Laugavegshlaupinu.

1. áfangi: Landmannalaugar – Hrafntinnusker: 9,85 km
Og svo var klukkan orðin níu og þá var hlaupið ræst með óvæntu flauti. Landslagið á fyrsta kílómetranum er þannig að maður hleypur bara svipað hratt og næsti maður á undan, því að óvíða gefast færi á að færa sig framar í röðina. Þetta tafði mig svolítið í hlaupinu 2013, en þá var ég í ráshópi nr. 2 með mörgum hægari hlaupurum. Nú var þetta ekkert vandamál, nema þá kannski fyrir þá sem voru næstir á eftir mér. Þessi fyrsti spölur er líka svo ósléttur að maður getur lítið hlaupið. Þessa vegna byrjar hlaupið sjálfkrafa á hæfilegri upphitun þar sem líkami og sál eru búin undir átökin sem framundan eru.

Við Gunnar höfðum ráðgert að fylgjast að á meðan báðir entust. Hann var þó hógværari en ég í startinu og því var ég alltaf nokkrum skrefum á undan. Leit af og til við í beygjum til að ganga úr skugga um að allt gengi að óskum hjá honum líka.

Fyrstu 2,5 kílómetrarnir að baki og allt í góðu. (Ljósm. Hlaup.is).

Fyrstu 2,5 kílómetrarnir að baki og allt í góðu. (Ljósm. Hlaup.is).

Fyrstu 10 kílómetrarnir upp í Hrafntinnusker eru nánast allir á fótinn og því fer ekki mikið fyrir hlaupum á þeim kafla, nema þá kannski hjá þeim allra bestu. Þeir voru farnir sína leið þegar hér var komið sögu. Mikill snjór var á leiðinni eins og við var búist, en mér miðaði sæmilega áfram í sköflunum. Á þessum kafla valdi ég þann kost að fylgja slóðinni sem göngumenn og fyrstu hlaupararnir höfðu mótað, en þar var efsta lagið reyndar orðið dálítið laust í sér. Þarna var hópurinn enn nokkuð þéttur og margir góðir kunningjar úr hlaupunum á næstu grösum, ef hægt er að nota það orðalag. Gauti Gíslason var t.d. lengst af rétt á undan mér og Anton Magnússon nokkrum skrefum á eftir. Bjørn Lindberg og Gunnar Viðar voru heldur ekki langt undan, svo einhverjir séu nefndir.

Í hlaupinu 2013 var ég 1:15 klst upp í Hrafntinnusker. Nú þóttist ég vera í betra brekkuhlaupaformi og bjóst því við að þetta væri sá kafli í hlaupinu þar sem ég gæti helst bætt mig. Með einhverjum útreikningum hafði ég meira að segja fundið út að ég gæti hugsanlega komist þessa leið á 1:09 klst, án þess að það væri þó nokkurt markmið í sjálfu sér. Löngu áður en hæstu hæðum var náð sá ég að það var engan veginn raunhæft. Þegar ég hljóp í hlaðið við skálann í Hrafntinnuskeri sýndi klukkan 1:14:30 klst. Ég var sem sagt „kominn hálfa mínútu í plús“ miðað við hlaupið 2013 og var hæstánægður með það. Kannski hafði snjórinn tafið mig eitthvað og hvernig sem á málið var litið var þarna alla vega komin vísbending um að ég ætti að geta lokið hlaupinu á svipuðum tíma og síðast.

2. áfangi: Hrafntinnusker – Álftavatn: 10,91 km
Ég staldraði ekkert við í Hrafntinnuskeri, þáði bara fyllingu á vatnsbrúsann minn og hélt svo rakleiðis áfram áleiðis suður fjöllin. Reynslan segir mér að ég geti auðveldlega borið með mér alla þá næringu sem ég þarf í svona hlaup, að vatni frátöldu, og því finnast mér áningar vera tímasóun. Samt er það alltaf tilhlökkunarefni að koma á næstu drykkjarstöð, sumpart vegna þess að þá er ákveðnum áfanga lokið, en aðallega þó vegna þess hve móttökurnar eru alltaf góðar. Frískir Flóamenn og aðrir sem mönnuðu drykkjarstöðvarnar á Laugaveginum þetta árið eiga sérstakar þakkir skildar fyrir einstaklega vinsamlegt viðmót sem létti manni skrefin inn í næsta áfanga.

Ég fann fyrir svolítilli þreytu um það leyti sem ég var kominn upp í Hrafntinnusker, aðallega í kringum bæði hnén. Það olli mér engum áhyggjum, enda hef ég oft áður fundið fyrir þreytu snemma í hlaupi án þess að það hefði nein áhrif á líðanina síðar. Hlaup á fjölbreyttu undirlagi, eins og Laugavegurinn er svo sannarlega, hafa það líka sér til ágætis að sumir kaflar eru erfiðir fyrir tiltekna vöðva sem fá svo kannski góða hvíld á næsta kafla þar sem aðrir vöðvar bera hitann og þungann af verkefninu.

Það tók mig svolitla stund að finna taktinn að nýju eftir Hrafntinnusker en í heildina fannst mér þetta ganga ágætlega. Þarna uppi voru miklar samfelldar fannir og í stað þess að fylgja slóðinni eins og ég hafði gert lengst af á uppeftirleiðinni valdi ég nú þann kostinn að hlaupa sem lengst fyrir utan hana í því sem næst ósnertum snjó. Þar var undirlagið ögn stöðugra og mér fannst það koma betur út. Ég held reyndar að snjórinn á þessum kafla hafi kannski flýtt fyrir mér, því að þarna er mikið af giljum og skorningum sem nú voru öll barmafull og leiðin því greið þó að undirlagið væri hvítt á litinn og ögn laust í sér.

Á þessum kafla reyndi ég að hugsa sem minnst um hvað tímanum leið, enda hefur maður svo sem enga viðmiðun í svona hlaupi að frátöldum einhverjum fáum föstum punktum sem kveikja minningar úr fyrri hlaupum, tölulegar eða aðrar. Annað slagið leit ég um öxl til að leita frétta af Gunnari – og þegar ég sá glitta í gula derhúfu vissi ég að þar væri allt á réttu róli.

Skyggnið þennan dag var ekkert til að kvarta yfir, enda loftið tært og háskýjað. Fyrr en varði sá ég líka Álftavatn lengst framundan. Þá vissi ég að skammt væri eftir suður á brún Kaldaklofsfjalla og að nú gæti ég farið að hlakka til að hlaupa niður Jökultungur. Þar taldi ég mig aftur eiga inni bætingu frá því í hlaupinu 2013 eftir afar vel heppnaðar niðurhlaupsæfingar á Hafnarfjallinu síðustu vikur. Mörgum finnast Jökultungurnar einn erfiðasti kaflinn í Laugavegshlaupinu, en ég hef alltaf verið frekar góður í að hlaupa niður í móti og líklega aldrei betri en nú.

Sjálfsagt var ég tiltölulega fljótur niður Jökultungurnar, en þær reyndust þó torfærari en ég hafði átt von á. Gatan var orðin mjög troðin og lausir smásteinar ofaná. Við slíka aðstæður getur manni skrikað illa fótur ef of hratt er farið. Eftir því sem lausa lagið er þykkara er auðveldara að fóta sig á miklum hraða. Ég neyddist sem sagt til að fara svolítið varlega þarna niður.

Nú var stutt eftir að Álftavatni og leiðin greið á tiltölulega sléttu landi. Ég vonaðist auðvitað til að mér tækist að halda þessari hálfu mínútu sem ég tók með mér í nesti frá Hrafntinnuskeri og jafnvel að bæta heldur við hana. Í hlaupinu 2013 var tíminn við Álftavatn 2:26 klst og ég var því bæði undrandi og glaður þegar klukkan sýndi 2:22:30 klst í þann mund sem ég kom þar í hlaðið. Mér hafði sem sagt tekist að bæta þremur mínútum við forskotið og var „kominn með þrjár og hálfa mínútu í plús“.

Ég hafði lagt af stað um morguninn í vindjakka sem hægt er að breyta í lítið mittisveski með ól. Þessa breytingu framkvæmdi ég á hlaupum rétt áður en ég kom að Álftavatni og í þessu veski var líka pláss fyrir ullarhanskana sem ég hafði haft á höndunum. Uppi á fjöllunum blés napur norðanvindur í bakið á hlaupurunum, en þarna niðurfrá var vindur hægari og loftið talsvert hlýrra, auk þess sem sólin var farin að skína. Þörfin fyrir vindjakka og ullarhanska var úr sögunni þennan daginn og óhætt að hlaupa með uppbrettar ermar.

Við Álftavatn skildi ég eftir þar til gerðan miða af rásnúmerinu mínu, en með þessu móti ganga aðstandendur hlaupsins úr skugga um að allir skili sér af fjöllunum. Að öðru leyti staldraði ég ekki við heldur hélt rakleiðis áfram þegar búið var að hella vatni í drykkjarbrúsann minn. Við Álftavatn sá ég Lilju Kristófersdóttur á Akranesi í hópi starfsmanna. Hún hafði ætlað að vera með í hlaupinu en þurft að hætta við vegna meiðsla og slegist í hóp starfsmanna í staðinn. Kunnugleg andlit á drykkjarstöðvum auka manni gleði og kraft í næsta áfanga.

3. áfangi (a): Álftavatn – Bláfjallakvísl: 5,18 km
Venjulega er litið á áfangann frá Álftavatni í Emstrur sem þriðja áfanga Laugavegshlaupsins. Það geri ég líka, en mér finnst þó enn betra að skipta þessum áfanga í tvennt og fjölga þannig tilhlökkunarefnum og samanburðarstöðum fyrir klukkuna. Mér fannst mér miða vel á þessum kafla og bilið milli mín og annarra hlaupara virtist haldast nokkuð svipað. Gauti var oftast nokkurn spöl á undan mér og Anton ýmist fáum skrefum á undan eða eftir. Ég sá hins vegar lítið til Gunnars og reiknaði með að hann væri heldur farinn að dragast aftur úr. Þetta var líka fyrsta Laugavegshlaupið hans og í þokkabót var hann að glíma við meiðsli sem gera mátti ráð fyrir að gerðu honum lífið leitt þegar liði á hlaupið. Það er ekkert smáverkefni að hlaupa Laugaveginn.

Víða á leiðinni hlupum við framhjá göngufólki sem hafði vikið úr vegi til að hvetja hlauparana til dáða. Svona hvatning skiptir mig miklu máli, og eins og ég hef einhvern tímann skrifað finnst mér alltaf að þetta fólk sé þarna alveg sérstaklega fyrir mig. Hvatningin gefur manni orku sem auðvelt er að virkja sér í hag. Það er kannski ögn sjálfhverft að eigna sér hvatninguna, en þetta er svo sem ekki frá neinum tekið og nýtist næsta manni örugglega jafnvel eftir sem áður.

Við skálann í Hvanngili var sem víðar dálítill hópur af sérlegum stuðningsmönnum mínum sem ég þekkti ekki neitt og frá Hvanngili var ekki langt að Bláfjallakvísl. Þangað hafði ég náð á sléttum 3 klst í hlaupinu 2013, en núna sýndi klukkan 2:54:30 klst. Ég hafði sem sagt grætt 2 mín frá því við Álftavatn og var kominn með 5:30 mín í plús þegar á heildina var litið.

Vatnið í Bláfjallakvísl náði mér vel upp fyrir hné, en var ekki svo ýkja kalt. Á bakkanum hinum megin beið aukafarangur þeirra sem höfðu kosið að skipta um föt eða bæta á nesti þegar þarna var komið sögu. Ég valdi þann kost í fyrsta Laugavegshlaupinu mínu 2007 en að fenginni þeirri reynslu finnst mér ávinningurinn af þessu lítill sem enginn. Þarna hefði svo sem verið gott að losa sig við mittisveskið með vindjakkanum og hönskunum, en það þyngdi mig ekki neitt. Ég hélt því ótrauður áfram suður á sandana með allt mitt hafurtask, bjartsýnn á framhaldið. Eftir þetta var fáliðað í kringum mig, því að margir höfðu greinilega átt erindi í farangurshrúguna.

3. áfangi (b): Bláfjallakvísl – Emstrur: 10,69 km
Sandarnir sunnan við Bláfjallakvísl eru vafalítið tilbreytingarlausasti hluti Laugavegarins en að sama skapi sá fljótfarnasti. Þarna hafði ég farið tiltölulega hratt yfir í hlaupinu 2013 enda var ég í mínu besta maraþonformi það sumarið. Bjóst varla við að geta gert öllu betur í þetta sinn, en þó gat ég bundið einhverjar vonir við hagstæðari aðstæður. Nú var jú vindurinn í bakið, sól á lofti og þokkalega hlýtt, en 2013 var frekar svalur mótvindur og svolítil úrkoma. Ég reyndi alla vega að halda góðum hraða. Held að það hafi gengið þokkalega, í það minnsta á meðan hlaupið var eftir veginum. Eftir að veginum sleppti tók við lausari sandur sem mér gekk ekki eins vel að hlaupa í. Þegar sunnar dregur liggur leiðin yfir nokkra hóla og hæðir og þar fannst mér heldur vera farið að draga af mér.

Einhvers staðar í grennd við Innri-Emstruá náði ég fótfráustu konunni á Laugaveginum þetta árið, Amber Ferreira frá New Hampshire. Við fylgdumst að miklu leyti að næstu kílómetra, nema hvað ég seig heldur fram úr á sléttu köflunum og hún náði mér aftur í brekkunum. Amber er enginn aukvisi í úthaldsgreinum. Hún hefur keppt a.m.k. 10 sinnum í Ironman (járnkarli), sem felst í að synda 3,8 km í sjónum, hjóla 180 km og hlaupa svo maraþon í lokin. Besti tíminn hennar í þessari grein er 9:07 klst. Hún er reyndar atvinnumaður í þríþraut og á að baki ótrúlegan feril á því sviði þrátt fyrir tiltölulega ungan aldur. Besti tíminn hennar í maraþonhlaupi er 3:03 klst, en þá var hún búin með tilheyrandi sund og hjólreiðar. Sjálfur þykist ég góður að hafa náð að hlaupa á 3:08 klst eftir markvissan undirbúning og góðan nætursvefn. Amber hefur líka orðið Bandaríkjameistari í snjóþrúguhlaupi svo eitthvað sé nefnt.

Hápunkturinn í Laugavegshlaupinu mínu 2013 var að koma niður að skálanum í Emstrum og sjá að þá voru ekki enn liðnar 4 klst. af hlaupinu. Núna fannst mér auðvitað lágmark að ég yrði 5:30 mín fljótari, þ.e.a.s. að ég næði að hlaupa kaflann frá Bláfjallakvísl á sama tíma og síðast. Helst vildi ég ná enn meira forskoti á tímann minn frá 2013, þrátt fyrir að maraþonformið væri tæplega eins gott og þá. Stundum er maður tilætlunarsamur.

Þegar klukkan var komin vel yfir 3:50 klst. bólaði enn ekkert á skálanum í Emstrum og þegar hann loks kom í ljós var tíminn kominn yfir 3:53 klst. Reyndin varð sú að hlaupið frá Bláfjallakvísl að Emstrum tók nánast nákvæmlega jafnlangan tíma og síðast, þ.e.a.s. 1 klst. Millitíminn í Emstrum var 3:54:30 klst. Ég var sem sagt enn með u.þ.b. 5:30 mín í plús miðað við 2013. Forskotið hafði ekki aukist, en ég var samt mjög sáttur. Ég hlaut að ná að ljúka hlaupinu á mínum besta tíma ef ekkert óvænt kæmi upp á á síðasta áfanganum. Það væri klúður að tapa niður meira en 5 mínútna forskoti, sérstaklega þegar haft var í huga að nú var meðvindur, þurrt og hlýtt, en 2013 var mótvindur og slagveðursrigning mestalla leiðina frá Emstrum og suðurúr.

4. áfangi (a): Emstrur – Þröngá: 13,31 km
Ég gaf mér rétt tíma til að endurnýja vatnsbirgðirnar í Emstrum og flýtti mér svo áleiðis, fullur gleði og tilhlökkunar. Þetta hafði allt gengið að óskum, mér leið vel þrátt fyrir svolitla þreytu í lærunum og fannst frekar stutt eftir. Ég skipti reyndar um skoðun á því á leiðinni upp úr gljúfrinu við Fremri-Emstruá og á leið upp brekkurnar þar fyrir sunnan. Það var engu líkara en roskinn fjallgöngumaður með þungan bakpoka hefði verið ráðinn í sumarafleysingar fyrir fjallahlauparann í mér, sem ég hafði þó haldið að væri sterkari en nokkru sinni fyrr. Á þessum kafla fór Hallgrímur Vignir Jónsson fram úr mér og þegar ég leit við sá ég að Amber var aftur farin að nálgast, en leiðir okkar höfðu skilið að mestu í grennd við Emstrur. Reyndar er mér alveg sama í svona hlaupum hvort ég verði á undan eða eftir einhverjum í mark, því að ég er sjálfur eini keppinauturinn. Þegar samferðamennirnir hópast fram úr mér hlýt ég samt að taka það sem vísbendingu um að heldur sé farið að halla undan fæti.

Þegar komið var lengra suður með Markarfljótsgljúfrum tók aftur við heldur sléttara land. Þar kom í ljós að maraþonhlauparinn í mér hafði hvergi nærri sagt sitt síðasta orð þó að fjallahlauparinn væri kominn í sumarfrí. Á þessum kafla kom ég sjálfum mér á óvart og náði að auka hraðann jafnt og þétt. Þarna náði ég Hallgrími aftur og eftir það sá ég í rauninni aldrei aðra hlaupara. Allir sem ég hafði fylgst með á leiðinni höfðu dregist aftur úr og næstu menn á undan voru með of mikið forskot til að þeir kæmu nokkurn tímann inn í sjónsviðið. Einhvers staðar á þessum kafla hitti ég fólk sem sagði mér að Þorbergur Ingi Jónsson hefði náð að ljúka hlaupinu á innan við 4 klst. Það töldu menn með öllu ómögulegt til skamms tíma. Hann var sem sagt að koma í mark þegar ég var ný lagður af stað frá Emstrum! Ótrúlegur afreksmaður!

Ég á erfiðar minningar úr Fauskatorfum frá því í Laugavegshlaupinu 2007, en þar var ég algjörlega þrotinn að kröftum. Núna var þessu þveröfugt farið. Mér hafði sjaldan liðið betur á hlaupum. Veðrið var dásamlegt og landslagið skartaði sínu fegursta til allra átta. Gleðin jókst enn frekar þegar ég sá stóran hóp göngufólks framundan og heyrði nafnið mitt kallað. Þar var komin Gunnur Róbertsdóttir með fríðu föruneyti. Þessi hlýja og persónulega hvatning var ómetanlegt nesti fyrir þá fáu kílómetra sem eftir voru.

Fyrr en varði var ég komin að Ljósá. Þar var drykkjarstöð sem kom í góðar þarfir, því að ég var orðinn vatnslaus fyrir nokkru. Vatnsskammturinn sem hafði dugað í hráslaganum 2013 var ekki nægur þennan sólskinsdag. Allt var þetta þó innan skekkjumarka og engin hætta á ofþornun. Nú var ekkert eftir nema Kápan og svo endaspretturinn frá Þröngá niður í Húsadal. Brosið var fast á andlitinu.

Kápan er aldrei létt yfirferðar þegar maður er búinn að hlaupa 48 km eða þar um bil. Ég var svolítið lengi upp en þess fljótari niður hinum megin. Þröngá var vatnslítil og þar stóð Magnús Jóhannsson úti í miðri á, hlaupurum til aðstoðar. Þetta var orðið svo skemmtilegt að elstu menn mundu varla annað eins.

Í miðri Þröngá, 50 km að baki og gleðin allsráðandi. Rjúpnafell í baksýn. (Ljósm. Magnús Jóhannsson).

Í miðri Þröngá, 50 km að baki og gleðin allsráðandi. Rjúpnafell í baksýn. (Ljósm. Magnús Jóhannsson).

4. áfangi (b): Þröngá – Húsadalur: 2,82 km
Við Þröngá sýndi klukkan 5:24 klst. Ég mundi ekki alveg hversu langt var þaðan í markið. Hafði séð einhvers staðar að það væru 4 km, en hafði samt hugboð um að það væri styttra og að þennan spotta gæti ég jafnvel hlaupið á korteri á góðum degi. Ákvað samt að stilla öllum væntingum í hóf og gera bara mitt besta. Ef þetta væru tæpir 4 km hlyti ég að geta afgreitt málið á 24 mín, þannig að lokatíminn yrði 5:48 klst. Það væri bara frábær niðurstaða. Þetta var alla vega örstutt og ég vissi að mér væri óhætt að taka á því sem til væri.

Í rauninni var nóg til. Á þessum síðasta kafla eru reyndar nokkrar stuttar brekkur sem ég neyddist til að ganga upp, en að öðru leyti hljóp ég eins og fætur toguðu. Ég hafði tekið steinefnatöflur reglulega alla leiðina til að bæta upp það sem tapast með svita, og hvort sem það var þeim að þakka eða einhverju öðru hafði ég ekki fundið fyrir minnsta votti af krömpum þegar hér var komið sögu. Það er algjör óskastaða. Í löngum hlaupum hef ég næstum alltaf þurft að berjast við krampa síðustu kílómetrana, og þó að þeir nái ekki yfirhöndinni er nánast útilokað að auka hraðann við slíkar aðstæður. Nú var það leikur einn.

Kominn í mark, alsæll. (Ljósm. Gunnlaugur Júlíusson).

Kominn í mark, alsæll. (Ljósm. Gunnlaugur Júlíusson).

Spölurinn frá Þröngá niður í Húsadal var enn styttri en mig minnti. Allt í einu sá ég ljósastaur sem ég mundi að var rétt fyrir ofan grasflötina við endamarkið. Og svo tók grasflötin við og ég heyrði rödd kalla rásnúmerið mitt í talstöð til að auðvelda þulunum í markinu að þekkja komumann. Ég tók góðan endasprett og kom alsæll og lítið lerkaður í markið á 5:41:10 klst. Ég hafði sem sagt hlaupið áfangann úr Emstrum á nærri 6 mínútum betri tíma en 2013 og bætt minn fyrri árangur um rúmlega 11 mínútur. Hlaupið var búið og mér leið hreint stórkostlega, bæði til sálar og líkama.

Á marksvæðinu
Í markinu tók við þetta hefðbundna, einhver myndataka, spjall við eitthvað af því góða fólki sem þar tók á móti mér og ótæpileg næringarinntaka í tjaldinu sem aðstandendur hlaupsins höfðu komið upp. Ég hafði líklega eytt um 3.600 hitaeiningum (kcal) í hlaupinu og orkugelin sex og önnur næring sem ég hafði innbyrt á leiðinni hafði að hámarki skilað 650 hitaeiningum til baka. Maður þolir alveg svoleiðis skuld í einhvern tíma, en ef hún er ekki endurgreidd að miklu leyti á fyrsta hálftímanum eftir hlaup er hætt við að eftirköstin verði þyngri en ella.

Næsta verk var að fylgjast með næstu hlaupurum koma í mark. Í þeim hópi kannaðist ég við marga. Einhverjir höfðu hitt Gunnar á leiðinni og þannig gat ég haft hugmynd um hvenær hann væri væntanlegur. Gunnar er ekki maður sem hættir við hálfklárað verk, og þó að heilsan væri ekki góð skilaði hann sér í mark á góðum tíma.

Á marksvæðinu hitti ég meðal annarra fimmtugan bónda úr Öræfum, Ármann Karl Guðmundsson á Svínafelli. Hann var ekki bara að ljúka sínu fyrsta Laugavegshlaupi, heldur var þetta líka fyrsta keppnishlaupið hans frá upphafi. Og árangurinn var glæsilegur. Hann lauk hlaupinu á 5:58 klst. og náði 31. sæti af öllum skaranum. Ármann ákvað um síðustu áramót að spreyta sig á þessu verkefni og hóf skipulegan undirbúning í janúar. Hann var auðvitað vel á sig kominn fyrir, en saga hans er samt gott dæmi um þann árangur sem hægt er að ná með markvissum undirbúningi. Ef menn sá, þá uppskera þeir. Annars ekki.

Eftirvinnslan
Þegar Gunnar var búinn að næra sig svolítið brugðum við okkur út í örstutt niðurskokk. Flestum finnst kannski nóg að hlaupa rúma 50 kílómetra, þó að maður bæti ekki einhverju við að óþörfu. En niðurskokk er til þess fallið að draga úr eftirköstum. Fyrstu skrefin eru kannski ekki auðveld, en svo mýkist maður smátt og smátt. Þegar við komum til baka úr þessari stuttu ferð rákumst við á Ívar Adolfsson sem stóð fyrir stórfelldum pönnukökubakstri í grennd við marksvæðið. Sævar Skaptason og Bryndís Óladóttir voru þarna líka, en þau hafa verið í hópu dyggustu hlaupavina minna síðustu ár. Veitingarnar sem ég þáði hjá Ívari voru punkturinn yfir i-ið og nánast endanleg trygging fyrir því að þetta Laugavegshlaup myndi ekki hafa nein teljandi eftirköst.

Sturturnar í Húsadal virkuðu óaðfinnanlega í þetta skiptið, ólíkt því sem var 2013. Síðan tók við hefðbundin matarveisla og verðlaunaafhending, þar sem ég hreppti 2. sætið í flokki 50-59 ára á eftir ótrúlega sprækum fimmtugum Ítala sem kláraði hlaupið á 4:58 klst. Þarna kom líka í ljós að ég hafði verið 17. maður í mark af 361 sem skilaði sér í mark og að af þessum 16 sem voru á undan mér voru ekki nema 6 Íslendingar. Ég gat ekki annað en verið alsæll með þessa tölfræði.

Samantekt um millitíma og næringu
Hvert hlaup færir manni nýja reynslu sem bætist við þá sem fyrir er. En flestir eru fljótir að gleyma, og þrátt fyrir ást mína á tölum er ég engin undanteking hvað það varðar. Þess vegna finnst mér borga sig að skrásetja sem flest af því sem gerist í hverju hlaupi sem líklegt er að nýtist mér (og kannski öðrum) í næstu ferð. Vegalengdir og millitímar eru dæmi um upplýsingar af þessu tagi, en mér finnast minnispunktar um klæðaburð, næringarinntöku o.fl. ekki síður mikilvægir. Klæðaburðinn hef ég áður tíundað, en hinum atriðunum ætla ég að safna saman í þessum kafla.

Lítum fyrst á tölulegar upplýsingar um vegalengdir og tíma, þ.m.t. samanburð við hlaupið 2013.

Tölulegur samanburður við hlaupið 2013. (Smellið á myndina til að fá stærri og ögn læsilegri útgáfu).

Tölulegur samanburður við hlaupið 2013. (Smellið á myndina til að fá stærri og ögn læsilegri útgáfu).

Næringin mín í þessu hlaupi var aðallega orkugel af gerðinni High-5+. Hvert gel er 40 g og orkugildi hvers þeirra er rétt um 90 kcal. Auk þess hafði ég meðferðis slatta af hnetum og rúsínum sem ég hafði saltað dálítið aukalega. Orkugildið í þessari næringu liggur ekki alveg fyrir, auk þess sem erfitt er að mæla inntökuna nákvæmlega í grömmum.

Ég hef það fyrir reglu að fylgja fyrirfram næringaráætlun í hlaupum, enda segir reynslan mér að getan til að taka skynsamlegar ákvarðanir minnkar eftir því sem líður á. Í þessu hlaupi ætlaði ég að taka eitt gel á 45 mínútna fresti og nota hnetur og rúsínur í staðinn ef ég yrði leiður á gelinu eða finndi fyrir óþægindum í maga. Með hverju geli ætlaði ég að taka tvo góða gúlsopa af vatni og drekka vatn þar fyrir utan eftir þörfum. Samtals átti vatnsdrykkjan ekki að vera minni en 300 ml á hverja 10 km. SaltstickAuk þess sem hér hefur verið talið hafði ég meðferðis nokkur steinefnahylki af gerðinni Saltstick, sem ég hafði keypt á sínum tíma hjá Daníel Smára í Afreksvörum. Þessi hylki ætlaði ég að taka samtímis orkugelunum og drekka þá kannski örlítið meira vatn en ella. Hylkin innihalda natríum, magnesíum, kalíum, kalsíum og D-vítamín og er ætlað að bæta upp eitthvað af því sem tapast með svita. Lauslegar tilraunir mínar á sjálfum mér benda til að inntaka hylkjanna dragi úr líkum á krömpum.

Ég fylgdi áætluninni í öllum aðalatriðum. Tók fjögur fyrstu gelin og samsvarandi steinefnahylki eftir 45, 90, 135 og 180 mín. Á söndunum sunnan við Bláfjallakvísl ákvað ég að skipta yfir í hneturnar og rúsínurnar. Þeirri fæðu tel ég hæfilegt að skófla í mig á 20 mínútna fresti, svo sem einni lúku í senn. Þessir matartímar voru því þegar 3:45 og 4:05 klst. voru búnar af hlaupinu, með steinefnahylki í fyrra skiptið. Að þessu sinni fannst mér þessi næring ekki alveg virka og því skipti ég aftur yfir í gelið. Gel nr. 5 og 6 voru því tekin eftir 4:30 og 5:15 klst. Samtals urðu þetta því 6 gel, 7 steinefnahylki og eitthvað af hnetum og rúsínum. Vatnsdrykkjan varð eitthvað meiri en að var stefnt, líklega um 400 ml á hverja 10 km. Vatnsmagnið verður eðlilega að ráðast af aðstæðum. Þannig þarf meira vatn í hlýju og þurru veðri en í slagviðri og kulda.

Hvort sem það var vatni, næringu, steinefnum eða einhverju öðru að þakka var heilsan með allra besta móti í öllu hlaupinu og að hlaupi loknu. Maginn var þokkalegur alla leið, orkuástand með besta móti og krampar víðsfjarri. Þetta gat varla verið betra.

Því er svo við að bæta að skóhlífarnar voru bylting til hins betra. Nú gat ég óhikað tekið til fótanna í lausum sandi og möl án þess að eiga það á hættu að fylla skóna af fylgihlutum. Þessi búnaður mun örugglega fylgja mér í utanvegahlaupum framtíðarinnar.

Þakkarorð og næstu skref
Gleði er góð tilfinning og af henni átti ég nóg eftir þetta Laugavegshlaup. Í svona hlaupi getur maður ekki treyst á neinn nema sjálfan sig, því að enginn annar gerir þetta fyrir mann. Engu að síður eiga margir aðrir mikinn hlut að máli. Þess vegna eru gleðin og þakklætið eins og síamstvíburar á svona stundum. Þakklætið í huga mínum beindist mest að fjölskyldunni minni og þá sérstaklega eiginkonunni Björk sem hefur umborið þetta tímafreka áhugamál mitt í áratugi og lagt margt gott til málanna þegar mest hefur á reynt. Svo er líka ástæða til að þakka hlaupafélögum mínum í Flandra, og þá sérstaklega Gunnari Viðari sem hefur fylgt mér af meiri elju en nokkur annar síðustu tvö árin. Aðstandendur Laugavegshlaupsins eiga líka þakkir skildar, þar með taldir allir starfsmennirnir sem virtust eiga endalausa ljúfmennsku í pokahorninu. Allt það góða fólk sem ég hef kynnst á hlaupum síðustu árin eiga líka skilinn sinn skerf af þakklæti. Í þessu hlaupi lék Gunnur einna stærsta hlutverkið. Hún og þeir sem voru í fylgd með henni voru svo sannarlega rétt fólk á réttum tíma. Annað göngufólk á Laugaveginum átti líka stóran þátt í að gera þennan góða dag að góðum degi. Og svo mætti lengi telja.

Næstu skref? Jú, þau verða hlaupin hér og þar, t.d. í Barðsneshlaupinu, í fjallvegahlaupum á Austurlandi, í Jökulsárhlaupinu og í Reykjavíkurmaraþoni í ágúst. Næsta sumar ætla ég að taka Hlaupahátíð á Vestfjörðum fram yfir Laugaveginn, en þessir tveir viðburðir lenda oft á sömu helginni. Sumarið 2017 verður svo kominn tími á fjórða Laugaveginn. Hann verður hluti af sextugsafmælisgjöfinni minni til mín, ef allt gengur að óskum. Markmiðið fyrir það hlaup er einfalt: Hlaupa á skemmri tíma en 5:41:10 klst og njóta hverrar mínútu.

Sjötti Þrístrendingurinn

10369715_10206733265545355_4467836070695262165_n 200Gleðihlaupið Þrístrendingur fór fram í sjötta sinn laugardaginn 20. júní sl. Að vanda var safnast saman að morgni dags á hlaðinu á Kleifum í Gilsfirði „rétt undir háum Hafurskletti“ og með Gullfoss í baksýn. Þarna fæddist Jóhannes Stefánsson (Jói á Kleifum) inn í stóran systkinahóp fyrir 105 árum og fimm árum síðar fæddist mamma (Gitta í Gröf) þarna líka inn í sama systkinahóp. Dofri, barnabarn Jóa, átti upphaflegu hugmyndina að Þrístrendingi fyrir nokkrum árum og síðan þá höfum við staðið fyrir þessu í sameiningu. Reyndar er þetta ekkert flókið. Fólk bara mætir heim að Kleifum tiltekinn laugardagsmorgun um Jónsmessuleytið, hleypur allan daginn, kynnist öðru fólki, upplifir náttúruna, stekkur yfir læk, drekkur úr læk, veður læk og líður vel um kvöldið. Einföld uppskrift!

Við lögðum fimmtán af stað frá Kleifum þennan morgun í ágætu og þurru veðri, svolitlum norðan kalda og 10 stiga hita. Veðurspáin sagði eitthvað um norðanátt og þoku í Húnaflóa og þá getur verið kalt. Svoleiðis var það alla vega á árum áður þegar ég var að alast upp við þennan flóa. Svoleiðis veður hét norðanfýla og þótti hvorki skemmtilegt né hentugt til heyskapar. Þennan morgun var greinilega einhver þoka á fjöllum en hún gat átt eftir að hopa. Stundum verða hlýindin kuldanum yfirsterkari.

Það leit reyndar út fyrir að við yrðum bara fjórtán, því að Birkir bóndi í Tröllatungu renndi ekki í hlað fyrr en við vorum rétt í þann mund að leggja af stað um hálfellefuleytið. Hann hafði orðið seinn fyrir og þurft að taka Jimmyinn sinn aðeins til kostanna á leiðinni. Það rauk enn úr förunum á Steinadalsheiðinni þegar við hlupum þar yfir.

Búin til brottfarar á hlaðinu á Kleifum. F.v.: Kristinn, Gunnar Viðar, Birkir, Þórir, Stefán, Nanna, Stefán Haukur,  Guðrún Nýbjörg, Tómas, Ásdís, Sigrún María, Einar, Auður, Ágúst Karl, Bryndís María, Dofri. Hafursklettur á bak við alla og Gullfoss á bak við Dofra.

Búin til brottfarar á hlaðinu á Kleifum. F.v.: Kristinn, Gunnar Viðar, Birkir, Þórir, Stefán, Nanna, Stefán Haukur, Guðrún Nýbjörg, Tómas, Ásdís, Sigrún María, Einar, Auður, Ágúst Karl, Bryndís María, Dofri. Hafursklettur á bak við alla og Gullfoss á bak við Dofra.

Okkur sóttist vel hlaupið á fyrsta áfanganum yfir Steinadalsheiði. Reyndar tíðkast ekkert endilega að hlaupa upp heiðina. Það er þreytandi. En spölurinn niður að norðanverðu er alþýðlegri. Heiðin var snjóléttari en ég hafði reiknað með, nýbúið að opna leiðina fyrir bílaumferð og allt í besta standi. Niðri í Steinadal þarf að vaða tvær ár en það vafðist ekki fyrir neinum. Þar var líka áð við Hestastein, sem sagan (les: Dofri) segir að hafi verið vitni í barnsfaðernismáli á sínum yngri árum. Þar var ekki stofnað til neinna nýrra barnsfeðernismála í þessari ferð.

Í lúxushlaupinu Þrístrendingi er nokkuð víða hægt að verða sér úti um fótabað og kalda bakstra. Snjóflóðaleitartíkin Hneta ryður brautina og Gunnar Viðar og Tómas Orri fylgja á eftir. Dofri tók myndina og á líka heiðurinn að fyrri hluta myndatextans. Myndin var tekin í leyfisleysi af FB-síðunni hans.

Í lúxushlaupinu Þrístrendingi er nokkuð víða hægt að verða sér úti um fótabað og kalda bakstra. Snjóflóðaleitartíkin Hneta ryður brautina og Gunnar Viðar og Tómas Orri fylgja á eftir. Dofri tók myndina og á líka heiðurinn af fyrri hluta myndatextans. Myndin var tekin í leyfisleysi af FB-síðunni hans.

Eftir 18,99 km og 2:11 klst. vorum við komin að Stóra-Fjarðarhorni þar sem fyrsta áfanga hlaupsins lýkur jafnan með góðri áningu. Sumir voru reyndar ögn fljótari og aðrir lengur. Í svona hlaupi hefur hver þetta eins og honum hentar best, en liðið safnast þó alltaf saman í lok hvers áfanga. Það er miklu minna gaman að gera þetta einn!

Það er orðinn fastur liður í undirbúningi Þrístrendings að hringja í Vegagerðina á Hólmavík til að kanna hvort búið verði að opna Steinadalsheiðina. Það hefur oft staðið glöggt en alltaf bjargast dagana fyrir hlaup. Reyndar geta hlauparar sem best hlaupið yfir ófærar heiðar, en birgðaflutningar verða erfiðari ef vegurinn er ófær. Þá þarf að keyra um Þröskulda sem er talsvert lengri leið. En þennan dag var heiðin sem sagt orðin fær og þegar við komum að Stóra-Fjarðarhorni var Dofri mættur þar með nesti fyrir þá sem höfðu verið svo forsjálir að senda með honum kost norður yfir.

Eftir áningu við Stóra-Fjarðarhorn var lagt á Bitruháls. Leiðin yfir hann er hvorki brött né löng, en þó talsvert togandi upp að norðanverðu, rétt um 400 m hækkun á 4 km kafla. Af hálsinum sáum við til ferða Húnaflóaþokunnar úti í flóanum en við vorum sýnilega heppin þennan dag. Sólin var meira að segja farin að skína á okkur og gera okkur mögulegt að fækka fötum smátt og smátt. Gott veður er gott.

Dofri átti langtilkomumesta stökk dagsins. Sú var tíðin að þarna var fært yfir með hestakerru.

Dofri átti langtilkomumesta stökk dagsins. Sú var tíðin að þarna var fært yfir með hestakerru.

Í Móhosaflóa er hefðbundinn áningarstaður Þrístrendingshlaupara á Bitruhálsi. Í mínu ungdæmi var þarna brú yfir læk, búin til úr gömlum símastaurum og keflum innan úr símavírsrúllum. Á þeim undrastutta tíma sem liðinn er frá þessu ungdæmi eru keflin horfin og staurarnir einir eftir. Á staurunum kemur í ljós hvaða hlauparar eru meiri fimleikastjörnur en aðrir.

Fimleikahæfileikar Ásdísar komu berlega í ljós í Móhosaflóa.

Ásdís er meiri fimleikastjarna en aðrir.

Segir nú ekki af ferðum okkar fyrr en við vorum komin niður af hálsinum og að myndarbýlinu Gröf í Bitru. Áfangi nr. 2 var sem sagt að baki og hafði lagt sig á 9,44 km og 1:32 klst. Í Gröf fæddist ég undir súð upp úr miðri síðustu öld í horfnum heimi þar sem rafmagn, skóli og ferðalög flokkuðust undir sjaldgæfan munað. Á þeim tíma kom eina rafmagnið á bænum frá vindrafstöð á þakinu sem dugði rétt fyrir tvær 12 volta ljósaperur. Þegar vindurinn blés almennilega var rafmagni safnað í rafgeyma til að hægt væri að hlusta á útvarpið í logni. Eina sem ég man eftir af þessum rafgeymum eru ferkantaðar glerkrúsir sem voru notaðar undir gróft salt í grautinn eftir að þær voru hættar að geyma rafmagn, blý og sýru. Skólaganga barna miðaðist í mesta lagi við þriggja mánaða kennslu á hverjum vetri í farskóla Fells- og Óspakseyrarskólahverfis, auk ótæpilegs heimanáms á köflum. Og helstu ferðalög voru búðarferðir að Óspakseyri á þýskum Farmal vor og haust, að ógleymdum kirkjuferðum og ýmsu snatti sem tengdist sláturtíð og öðru fjárragi. Jú, og svo labbaði maður stundum á næsta bæ með bréf í póst eða til að sækja ábyrgðarbréf.

Þennan dag var enginn heima í Gröf því að bróðir minn og sambýliskona hans höfðu brugðið sér eitthvað af bæ. Viðmiðin hafa breyst frá því að ég fæddist og Farmallinn ekki lengur eina farartækið.

Nanna og Þórir fyrir ofan bæinn í Gröf. Í baksýn eru gamli hænsnakofinn sem pabbi smíðaði (líklega 1960) og Grafargilið með fossunum sem léku bakgrunnstónlist æskunnar.

Nanna og Þórir fyrir ofan bæinn í Gröf. Í baksýn eru gamli hænsnakofinn sem pabbi smíðaði (líklega 1960) og Grafargilið með fossunum sem léku bakgrunnstónlist æskunnar.

Eftir góða áningu í Gröf var lagt upp í síðasta áfangann inn Krossárdal. Klukkan var orðin 3 síðdegis, sól hátt á lofti og fyrirséð að vindurinn myndi standa í bakið á okkur það sem eftir væri. Enn var því lag að fækka fötum.

Hlaupaleiðin um Krossárdal er miserfið. Fyrstu kílómetrana frá Gröf er hlaupið eftir góðum bílvegi, en þegar komið er inn fyrir Einfætingsgil tekur við jeppaslóði. Honum sleppir við Skáneyjargil, tæpa 6 km fyrir innan Gröf. Næstu 2-3 kílómetra liggur leiðin um mýrar og móa sem eiga það til að gera þreytta fætur enn þreyttari. Eftir það er komið á hestagötur sem eru þokkalega fastar undir fæti og greiðar yfirferðar.

Skáneyjargilið var óvenju vatnsmikið þennan dag enda hlýtt í veðri og nægur snjór á fjöllum fyrir sólina til að bræða. Allir komust þó klakklaust yfir. Ég er stundum spurður hvort maður hafi ekki með sér vaðskó í svona ferðir. Því er til að svara að þess gerist náttúrulega engin þörf. Maður veður bara út í og svo upp úr aftur og heldur áfram að hlaupa. Það er hvorki flókið né óþægilegt og reyndar bara gott að kæla fæturna annað slagið eða „skipta um vatn í skónum“ eins og Gunnar Viðar, hlaupafélagi minn, er vanur að orða það.

Nanna, Þórir og Sigrún María hjálpast að á leið yfir Skáneyjargilið.

Nanna, Þórir og Sigrún María hjálpast að á leið yfir Skáneyjargilið.

Mýrarnar og móarnir tóku líka enda og fyrr en varði vorum við komin að Krossárvatni. Þar tóku sumir það til bragðs að skipta aftur um vatn í skónum sínum og jafnvel öllum fötunum sínum líka. Sjálfur hef ég aldrei þorað að leggjast til sunds í fjallavötnum, en samt finnst mér eitthvað heillandi við svona tært vatn undir svona tærum himni. Kannski dýfi ég mér þarna ofaní næsta sumar ef veður leyfir.

Sigrún María á leið í land eftir sundsprett í Krossárvatni.

Sigrún María á leið í land eftir sundsprett í Krossárvatni.

Frá Krossárvatni er ekki ýkja langt „suður af“ eins og það er kallað á þessum slóðum. Þegar klukkuna vantaði korter í fimm var ég aftur staddur á hlaðinu á æskuheimili mömmu. Síðasti áfanginn mældist 12,2 km og skeiðklukkan sýndi 1:44 klst. Að baki voru samtals 40,8 km hlaup, ganga og útivera í svo góðum félagsskap að ég var sjálfur orðinn ögn betri en þegar ég lagði af stað. Sumir voru komnir á undan mér og höfðu jafnvel bætt á sig svolitlum aukaendaspretti til að ná dagskammtinum upp í heilt maraþon, þ.e.a.s. 42,2 km. Sjálfur nennti ég því ekki, enda var Birna búin að elda súpu sem snædd var á pallinum við nýrra íbúðarhúsið á Kleifum. Það hús smíðaði pabbi fyrir Jóa mág sinn, líklega á árunum í kringum 1965. Held að það hafi tekist vel. Alla vega virkar vel að elda í því kjötsúpu. Takk Birna!

Bryndís María, Einar og Ásdís á kjötsúpupallinum á Kleifum. Dofri tók myndina og ég tók hana traustataki.

Bryndís María, Einar og Ásdís á kjötsúpupallinum á Kleifum. Dofri tók myndina og ég tók hana traustataki.

Mér líður alltaf vel að kvöldi Þrístrendingsdaga. Mér finnst gaman að hlaupa og er þakklátur fyrir að geta það. Á hlaupum hef ég líka kynnst mörgu góðu fólki og í hlaupum á borð við Þrístrending, þar sem tíminn er nægur og náttúran allt í kring, verða þessi kynni enn meira gefandi. Ég er afskaplega lánsamur maður!

Eftirtaldir hlauparar tóku þátt í Þrístrendingi 2015:

  • Alla leið (3 fjallvegir með tilheyrandi):
    Auður Ævarsdóttir
    Ágúst Karl Karlsson
    Ásdís Káradóttir
    Birkir Þór Stefánsson
    Bryndís María Davíðsdóttir
    Einar Ingimundarson
    Guðrún Nýbjörg Brattberg Svanbjörnsdóttir.
    Gunnar Viðar Gunnarsson
    Kristinn Óskar Sigmundsson
    Sigrún María Bjarnadóttir
    Stefán Gíslason
    Stefán Haukur Jóhannesson
    Tómas Orri Ragnarsson
    Þórir Rúnarsson
  • Tveir fjallvegir (Steinadalsheiði og Krossárdalur):
    Nanna Logadóttir
  • Einn fjallvegur (Bitruháls):
    Dofri Hermannsson
Hinn hefðbundni Þrístrendingur.

Hinn hefðbundni Þrístrendingur.