Maraþonið mitt í Reykjavíkurmaraþoninu í gær var það sextánda frá upphafi. Sjaldan hef ég notið maraþonhlaups meira og betur en í þetta skipti og tíminn var líka sá þriðji besti. Ég hef það aðalmarkmið í hlaupum að hafa gleðina með í för. Í þessu hlaupi vék hún aldrei frá mér.
Undirbúningurinn
Ég undirbjó þetta hlaup ekkert sérstaklega. Eftir svolítil meiðsli síðasta vetur var ég kominn í prýðilegt hlaupaform um mitt sumar, sem m.a. skilaði mér persónulegum metum á Laugaveginum 18. júlí og í 10 km hlaupi í lok sama mánaðar. Um það leyti taldi ég mig geta hlaupið maraþon á 3:12 klst., en þá útreikninga byggði ég á fyrri reynslu og reiknivél sem ég nota oft til að áætla getuna. Hins vegar slakaði ég talsvert á hlaupaæfingum eftir Laugaveginn. Hljóp t.d. ekki nema 48 km á viku að meðaltali vikurnar fjórar þar á eftir. Tók helst á því á laugardögum, aðallega í Barðsneshlaupinu 1. ágúst og í Jökulsárhlaupinu viku síðar. Í því síðarnefnda datt ég reyndar illa og laskaðist dálítið. Það tafði mig svo sem ekkert þá en hafði eftirköst dagana á eftir. Með tilliti til alls þessa ákvað ég að 3:12 klst. væri ekki lengur raunhæft markmið og ákvað þess í stað að miða við 3:15 klst. Lagði af stað í hlaupið í gær með þetta markmið og hugsaði að allt umfram það væri sigur – og örlítið lakari tími væri ekki ósigur. Krefjandi markmið eru nauðsynleg, en líkurnar á að maður nái markmiðunum þurfa helst að vera góðar til að maður sitji ekki upp með óþörf vonbrigði að hlaupi loknu. Gleðin er miklu betri ferðafélagi en vonbrigðin, bæði í hlaupum og í lífinu sjálfu.
Út á 4:30
Hlaupaveðrið í gær var alveg fullkomið, þ.e.a.s. hægur vindur, nokkurn veginn þurrt, sólarlaust og 11-14 stiga hiti. Betra maraþonveður býðst hvergi, hvorki hérlendis né erlendis. Ég stefndi að því að hlaupa fyrstu kílómetrana á 4:30 mín stykkið. Sá hraði dugar reyndar til að ljúka maraþonhlaupi á 3:10 klst, sem mér datt ekki í hug að ég myndi gera. Ætlaði bara að byrja svona og sjá svo til. Hef oft þennan háttinn á, þ.e. að byrja aðeins hraðar en markmiðið segir til um. Þá á ég svolitla inneign fyrir seinni helminginn sem oftast er ögn hægari.
Fyrstu 5 km
Fyrstu fimm kílómetrarnir liðu fljótt og þægilega. Ég leit eiginlega á þá sem upphitun og tækifæri til að meta stöðuna. Lauk þeim á 22:37 mín og var þá kominn með 7 sek í mínus miðað við 4:30 mín/km. Var alveg sléttsama um það. Fann að ég þoldi ögn meiri hraða og bætti því heldur í. Hugsaði samt mest um að njóta stundarinnar og halda mýktinni í hlaupastílnum. Að vanda hitti ég nokkra hlaupara sem ég þekki, sem ýmist voru að fara fram úr mér eða ég fram úr þeim. Í svona löngum hlaupum er hraðinn ekki meiri en svo að maður getur spjallað við samferðamennina, borið saman líðan og markmið og gefið og þegið hvatningu.
Að hugsa um krampa – eða ekki
Ég tók upp á því í fyrra að taka steinefnahylki í löngum hlaupum til að minnka líkur á krömpum, sem ég hef annars oft þurft að glíma við. Ætlaði að halda uppteknum hætti í þessu hlaupi, en þegar ég þreifaði eftir boxinu með hylkjunum einhvers staðar á 10. kílómetranum greip ég í tómt. Boxið hafði sem sagt dottið úr beltinu sem það átti að vera í. Þar með var ljóst að ég tæki engin steinefni þennan dag. Öll svona frávik frá upphaflegum áformum geta sett mann út af laginu, en þá gildir heilræðið frá gömlu norsku konunni sem sagði „det er ikke hvordan man har det, men hvordan man tar det“. Ég gat sem sagt valið um að hafa áhyggjur af því að ég fengi krampa síðar í hlaupinu eða að hafa ekki áhyggjur af því og láta hverjum kílómetra nægja sína þjáningu. Ég valdi síðari kostinn. Í þessu fólst líka tækifæri til að bæta í reynslubankann.
Í góðum félagsskap
Eftir 10 km sýndi klukkan 44:29 mín. Ég var allt í einu kominn með 31 sek. í plús miðað við upphaflega áætlun. Mér leið aldeilis stórvel og ákvað að halda þessum hraða á meðan sú líðan héldist. Á næstu kílómetrum náði ég líka nokkrum hlaupurum sem ég var lengi búinn að sjá á undan mér, þ.á.m. Trausta Valdimarssyni jafnaldra mínum, sem var þarna að hlaupa sitt 75. maraþon. Maður breytist næstum því í byrjanda við hliðina á svona mönnum. Þegar þarna var komið sögu voru rúmir 12 km að baki og næstu 25 km fylgdumst við tveir að miklu leyti að. Góð fylgd styttir manni stundir og gerir hlaupið auðveldara. Við Trausti spjölluðum líka um ýmislegt, m.a. um það hvernig maður safnar að sér gleði í svona hlaupum. Var ég ekki annars búinn að segja ykkur frá heilræði norsku konunnar?
Með orku frá áhorfendum
Millitíminn eftir 15 km var 1:07:01 klst. Síðustu 5 km höfðu sem sagt verið nær alveg á áætlun og inneignin 29 sek, já eða eiginlega 5 mínútur og 29 sek miðað við að ég ætlaði að hlaupa á 3:15 klst. Mér leið enn alveg prýðilega og fann ekki fyrir neinni þreytu sem orð er á gerandi. Hér og þar meðfram brautinni stóð fólk og hvatti hlaupara til dáða og ég ákvað að þau væru þarna öll sérstaklega til að hvetja mig. Sú hugsun er ein af þeim hugsunum sem ég nota til að safna gleði. Og með því að brosa til fólks, veifa og þakka fyrir sig, fær maður enn meiri hvatningu og enn meiri gleði. Þetta er ekkert flókið!
Er kannski betra að hlaupa bara hálft maraþon?
Á gatnamótum Sæbrautar og Kringlumýrarbrautar skildu leiðir að vanda. Þar beygja maraþonhlauparar til vinstri upp Kringlumýrarbraut en hálfmaraþonhlauparar halda áfram beint niður í bæ og eiga ekki nema um 3 km eftir í mark. Ég hef oft staðið mig að því að öfunda þá svolítið, en þegar allt kemur til alls er hálft maraþon ekkert endilega léttara en heilt. Maður þarf bara fyrr að takast á við erfiðu síðustu kílómetrana. Síðasti spölurinn er alltaf síðasti spölurinn hvað sem hlaupið er langt.
Hálft maraþon búið og enn 10 sek á reikningnum
Mér fannst Kringlumýrarbrautin hallast óvenjulítið þennan dag og það sama gilti um Suðurlandsbrautina framhjá Hótel Nordica. Fyrr en varði var hálft maraþon að baki og klukkan sýndi 1:34:49 klst. Eitthvað var farið að hægjast á mér en enn var ég þó með u.þ.b. 10 sek. í plús miðað við 4:30 mín/km, þ.e. 3:10 klst lokatíma. Enn gat allt gerst en ég hafði alla vega fulla trú á að markmiðið um 3:15 klst næðist.
Af vatnsdrykkju og geláti
Næstu kílómetrar voru tíðindalitlir. Ég var duglegur að gleypa orkugel og drekka vatn, en eftir að steinefnahylkin voru úr sögunni ákvað ég að leggja áherslu á vökvunina. Krampar geta sjálfsagt hvort sem er stafað af ofþornun eða steinefnaskorti, já eða þá því að líkaminn geti ekki unnið úr því hráefni sem er til staðar. Ég miða yfirleitt við að ég þurfi um 300 ml af vatni á hverja 10 km og orkugel get ég tekið á 5-7 km fresti án þess að setja allt á hvolf í meltingarfærunum. Í þessu hlaupi notaði ég öll 8 gelin sem ég hafði meðferðis og drakk 2-3 glös af vatni á flestum drykkjarstöðvum. Eitt glas er of lítið. Allt ræðst þetta þó svolítið af aðstæðum, þ.m.t. hitastigi. Þegar heitt er í veðri og sól í heiði svitnar maður meira en ella og tapar þá meiri söltum og meiri vökva. Þennan dag voru aðstæður hins vegar eins og best verður á kosið, eins og fyrr segir.
Hvað er svona merkilegt við 30 km?
Tíminn eftir 25 km var 1:52:59 klst, sem þýddi að ég var kominn 29 sek. í mínus miðað við 4:30 mín/km. Mér fannst það bara fínt enda ekki ætlunin að halda þessum hraða allan tímann. Næstu 5 km voru örlítið hraðari og eftir 30 km var tíminn 2:15:23 klst. Þar var ég sem sagt 23 sek. á eftir þessari margnefndu áætlun.
Það er oft haft á orði að maraþonhlaup byrji þegar 30 km eru að baki. Ég get tekið undir það að vissu leyti. Það má kannski orða það þannig að maður viti nokkurn veginn hvernig líkaminn muni bregðast við álaginu fyrstu 30 kílómetrana, en eftir það hefjist óvissuferð þar sem sitthvað getur komið á óvart. Mér finnst 30 km markið afskaplega mikilvægur áfangi í maraþonhlaupi, m.a. vegna þess að þá þykist ég geta sagt til um lokatímann minn með 10 mín. skekkjumörkum. Ef allt gengur upp get ég hugsanlega lokið hlaupinu á næstu 54 mínútum og það má mikið fara úrskeiðis til að ég nái því ekki á 64 mínútum. Á þessum tímapunkti í hlaupinu þóttist ég sem sagt viss um að lokatíminn minn yrði á bilinu 3:09-3:19 klst. Oftast tekur þessi síðasti spölur mig rétt um klukkutíma, þannig að 3:15 var orðinn líklegur lokatími, alveg eins og stefnt var að.
Að velja sér hugsanir
Mínúturnar eftir að 30 km markinu er náð eiga það til að líða hægt. Þarna er þreytan oftast farin að segja svolítið til sín og enn finnst manni býsna langt eftir. Þarna fer að reyna meira á það en fyrr í hlaupinu að maður sé með hausinn rétt skrúfaðan á. Það er auðvelt að ílengjast við hugsanir um þreytuna og allt erfiðið sem eftir er, en miklu vænlegra til árangurs að bægja slíkum hugsunum frá sér og einbeita sér að því jákvæða, umhverfinu, áhorfendunum og þakklætinu yfir því að geta gert það sem maður er að gera. Þegar þreytan ágerist er líka gott að muna að maður hefur oft orðið þreyttari og ekki orðið meint af. Eins er upplagt að rifja upp skemmtilega tónlist og fara jafnvel með heilu textana í huganum ef mikið liggur við, já eða sjá fyrir sér mannfjöldann sem fagnar manni þegar maður hleypur í markið með uppáhaldstöluna sína á markklukkunni.
3:15 í höfn að öllu stórslysalausu
Þegar 35 km voru búnir (og 7,2 km eftir) sýndi klukkan 2:38:56 klst sem þýddi að ég var orðinn 1:26 mín á eftir upphaflegu áætluninni. En ég hafði hvort sem er bara ætlað að fylgja þeirri áætlun eins lengi og mér liði vel með það. Aðalmarkmiðið um 3:15 klst. var enn vel innan seilingar og reyndar næstum gulltryggt nema eitthvað mjög sérstakt kæmi upp á. Í mínu tilviki þýðir „eitthvað mjög sérstakt“ að ég þurfi meira en 5 mínútur til að klára hvern kílómetra. Fimm mín/km jafngilda 7,2 km á 36 mín – og 2:38:56 + 0:36:00 = 3:14:56. Svo einfalt er það nú.
2-7 km er örstutt leið
Á næstu kílómetrum kom ekkert mjög sérstakt upp á og ég varð smátt og smátt öruggari um að markmiðið næðist. Á þessum kafla í maraþonhlaupi reyni ég að hugsa um eitthvað sem lætur mér finnast leiðin sem eftir er vera stutt en ekki löng. Ég ber þann spöl þá kannski saman við eitthvað sem ég hef gert á stystu og auðveldustu æfingunum mínum, já eða við spölinn frá Þröngá niður í Þórsmörk í Laugavegshlaupinu. Sá spölur er svo stuttur að þar er varla pláss fyrir aðrar tilfinningar en gleðina.
Millitíminn eftir 40 km var 3:02:12 klst. og nokkuð öruggt að ekki væru nema 11 mínútur eftir. Í mínum bestu hlaupum hef ég jafnvel náð að ljúka þessum síðasta hluta á 9:30 mín eða þar um bil. Einhvers staðar á þessum slóðum hitti ég Birgi Þ. Jóakimsson sem var þarna að fylgjast með hlaupinu. Að öðrum ólöstuðum tókst honum best upp með hvatninguna. Mér fundust mér vera allir vegir færir.
Endasprettur og lokaorð
Loks var ekki nema 1 km eftir og alveg óhætt að gefa gleðinni og hlaupaviljanum lausan tauminn. Engir krampar höfðu gert vart við sig og ekkert því til fyrirstöðu að auka hraðann. Lækjargatan var full af fólki og þar sá ég m.a. hluta af fjölskyldunni minni og nokkra hlaupafélaga úr hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi. Þarna var tekinn góður endasprettur og í þann mund sem ég skeiðaði í gegnum markið sýndi klukkan 3:12 klst. Lokatíminn var reyndar nákvæmlega 3:12:00 klst sem þýddi að hver kílómetri hafði tekið 4:33 mín að meðaltali, þ.e. 3 sek lengri tíma en lagt var upp með. Þar með var þetta þriðja besta maraþonið mitt frá upphafi, en besta tímanum náði ég í Reykjavík sumarið 2013, 3:08:19 klst.
Mér leið mjög vel eftir þetta hlaup og náði m.a.s. hátt í 2 km niðurskokki til að auðvelda líkamanum að komast í samt lag. Svoleiðis nokkuð hefur mér aldrei áður dottið í hug að gera eftir maraþon. Gleðin var líka ósvikin og að vanda hitti ég margt skemmtilegt fólk á marksvæðinu og þar í kring. Reykjavíkurmaraþonið er ekki bara hlaup, það er líka hátíðarsamkoma fyrir alla þá sem hafa yndi af þessari tómstundaiðju. Ég tilheyri örugglega þeim hópi!

Sjálfsmynd með yngsta barninu á Skólavörðustígnum eftir hlaup. (Ljósm. Jóhanna Stefáns Bjarkardóttir)
Filed under: Hlaup | Tagged: Reykjavíkurmaraþon |
Skemmtileg grein eftir flotta fyrirmynd. Endilega haltu áfram að skrifa.
Takk Vilhjálmur. 🙂
[…] Gleði safnað í 16. maraþoninu […]