• Heimsóknir

    • 119.040 hits
  • janúar 2016
    S M F V F F S
     12
    3456789
    10111213141516
    17181920212223
    24252627282930
    31  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Hlaupaannáll 2015 og markmiðin 2016

Lau2015 endaspr Sævar 200

Laugavegurinn 2015. Endasprettur í bígerð. (Ljósm. Sævar Skaptason).

Það er orðinn kækur hjá mér að staldra við um áramót, rifja upp hlaup ársins, skoða hvort ég hafi náð markmiðunum sem ég setti mér og velta fyrir mér hvert skuli stefna á nýju ári. Úr þessu verður gjarnan þokkalega langur bloggpistill. Þessi áramót eru engin undantekning hvað þetta varðar.

Þriðja besta hlaupaárið
Árið 2015 var eitt af bestu hlaupaárunum mínum til þessa, líklega það þriðja besta þegar grannt er skoðað. Minni háttar tognun í febrúar setti strik í reikninginn og seinkaði árangri. Þetta þýddi um það bil tveggja mánaða seinkun á framfarabrautinni, þannig að formið sem ég ætlaði að vera kominn í í lok apríl lét bíða eftir sér fram á sumarið. Svona frávik eru bara hluti af leiknum, því að þrátt fyrir góðan ásetning og þokkalega aðgát kemur að því að maður meiðist. Tíminn sem fer til spillis vegna meiðsla virðist langur á meðan hann er að líða, en mun styttri þegar horft er um öxl nokkrum mánuðum síðar. Langhlaup eru langhlaup, bæði líkamlega og andlega. Þar duga engar skyndilausnir.

Líklega er ekki til neinn algildur mælikvarði á gæði hlaupaára, en með hjálp þeirra mælitækja sem mér eru tömust hef ég komist að þeirri niðurstöðu að árið 2015 hafi verið þriðja besta hlaupaárið mitt frá upphafi. Næstu tvö ár á undan, þ.e.a.s. árin 2013 og 2014, sitja í toppsætunum. Hápunktar ársins 2015, árangurslega séð, voru tveir. Annars vegar óvænt bæting í 10 km hlaupi seint í júlí (39:59 mín) og hins vegar vel heppnað Laugavegshlaup fyrr í sama mánuði. Margt fleira gekk vel eins og rakið verður í ítrustu smáatriðum hér á eftir. Ekkert gekk illa. Sumt var vissulega undir væntingum, en allt voru þetta eðlilegir áfangar á lengri leið.

Tvö markmið af fimm
Ég setti mér fimm hlaupatengd markmið fyrir árið 2015 og náði ekki nema tveimur þeirra. Í fyrsta lagi ætlaði ég að bæta mig í 5 km götuhlaupi með því að hlaupa undir 19:39 mín. Besti staðfesti tími ársins á þessari vegalengd var 20:13 mín í Víðavangshlaupi ÍR í apríl. Ég var reyndar nokkuð sáttur við þennan tíma, því að þarna var ég enn að ná fullum styrk eftir meiðsli. Tók ekki þátt í 5 km hlaupum við nothæfar aðstæður eftir þetta, en kláraði reyndar fyrri helminginn af einu 10 km hlaupi í júlí á 19:44 mín. Markmiðið var því svo sem alveg raunhæft.

Markmið nr. 2 var að hlaupa 10 km undir 40 mín. Það tókst. Meira um það síðar í þessum pistli. Þriðja markmiðið var að bæta mig í Laugavegshlaupinu. Það tókst líka. Hins vegar náði ég ekki tveimur auðveldustu markmiðunum. Þannig áttu fjallvegahlaupin að vera fimm talsins (markmið nr. 4) en urðu bara þrjú. Þar kom slæmt veður við sögu, auk þess sem ég þurfti að létta aðeins á álagi sumarsins til að fá tíma til uppbyggingar. Svo tókst mér ekki að hafa gleðina með í för í öllum hlaupum (markmið nr. 5), sem ætti þó að vera næsta auðvelt. Þetta er auðvitað alltaf matsatriði, en gleðistuðullinn í Gautaborgarhlaupinu í maí stóðst ekki mál.

Hlaupaæfingar ársins
Hlaupaæfingar ársins fóru vel af stað. Var kominn í þægilegan 60 km vikuskammt um miðjan febrúar, með hæfilegri blöndu af sprettæfingum og lengri hlaupum. Allt stefndi í að ég yrði kominn í mitt besta form í lok apríl. Þá tognaði ég í kálfa eftir að hafa tekið aðeins of erfiðar æfingar aðeins of marga daga í röð í aðeins of erfiðu færi. Í byrjun mars þóttist ég vera orðinn nokkuð góður en þá tóku meiðslin sig upp. Eftir góða sjúkraþjálfun, heilun og skipulagða endurhæfingu var ég loks kominn aftur í 60 km vikuskammt um miðjan apríl. Í tengslum við þetta bjó ég mér til nýja æfingaáætlun með vinnuheitið Björgum Laugaveginum, því að aðalmarkmið ársins var jú að bæta annars ágætan tíma sem ég náði þar sumarið 2013. Þetta átti svo sem ekki að vefjast fyrir mér en vissulega var staðan breytt eftir þessa tveggja mánaða truflun. Ég ákvað að lækka forgangsstig annarra hlaupaverkefna og sinna Hafnarfjallsæfingum þess betur, því að ég taldi mest tækifæri til úrbóta liggja í auknum styrk á ferðalögum upp og niður brekkur.

Hafnarfjallsæfingarnar urðu ekki alveg eins margar og ég ætlaði. Maður þarf jú stundum líka að vinna og svoleiðis. En þær urðu samt fleiri þetta vor en nokkru sinni fyrr. Í apríl, maí og júní fór ég fjórum sinnum upp á topp með Gunnari Viðari, hlaupafélaga nr. 1, og nokkrum sinnum langleiðina. Oftar en ekki lögðum við af stað heiman að og náðum þannig 16 km æfingu, þó að leiðin upp fjallið sé ekki nema rúmir 3 km. Hækkunin er næstum 800 m, þannig að þetta tekur vel í, bæði á leiðinni upp og niður. Í þessum ferðum bætti ég mig bæði á uppleiðinni og niðurleiðinni miðað við fyrri ár, sem nægði mér sem sönnun þess að bæting á Laugaveginum væri innan seilingar.

Fyrri hluta sumars jókst hið vikulega hlaupamagn jafnt og þétt og um mánaðarmótin júní/júlí náði ég lengstu viku æfinnar, 102,70 km. Þá viku hljóp ég m.a. Háfslækjarhringinn (21 km) tvisvar og Hvanneyrarhringinn (33 km) einu sinni. Á þessu tímabili var helst til lítið um sprettæfingar, en meira um löng hlaup og Hafnarfjallsferðir. Auk þess keppti ég fjórum sinnum í hálfmaraþonhlaupi frá því í lok apríl og fram að Jónsmessu. Slík hlaup eru betri æfingar en flest annað. Eftir á að hyggja held ég að þessi hlaup hafi skipt hvað mestu máli fyrir framhaldið.

Júlí og ágúst eru venjulega tími keppnishlaupa og fjallvegahlaupa, en æfingar hafa að sama skapi minna vægi. Svona var þessu líka varið sumarið 2015. Eftir Reykjavíkurmaraþonið í ágúst ætlaði ég að halda áfram að æfa vel fram yfir haustmaraþon í lok október, en veikindi og fleiri ástæður urðu þess valdandi að ég ákvað að taka haustfríið snemma þetta ár. Í byrjun september hófst því 7 vikna hvíldartími. Reyndar hljóp ég eitthvað í hverri viku en aldrei meira en 20 km. Ég held að svona haustfrí séu ágæt. Þá gefst líkamanum tími til að lagfæra það sem kann að hafa farið úrskeiðis í hlaupum ársins og hugurinn getur metið stöðuna og undirbúið sig fyrir næsta tímabil. Reyndar var ég lengi þeirrar skoðunar að maður ætti aldrei að taka sér langt frí frá hlaupum, því að þá yrði svo erfitt að komast aftur í fyrra form, sérstaklega þegar árin færast yfir. En ég sannfærðist um að þetta væri góð hugmynd eftir að ég vissi að stórhlaupararnir Meb Keflezighi og Bernard Lagat hafa svipaðan hátt á. Þeir eru báðir orðnir fertugir en eru þrátt fyrir það í fremstu röð meðal langhlaupara í heiminum. Manni hlýtur að vera óhætt að taka mark á svoleiðis fólki.

Um miðjan október urðu æfingarnar reglulegri á nýjan leik. Þá einsetti ég mér að hlaupa a.m.k. 40 km á viku, en það tel ég vera hæfilegan skammt til viðhalds. Hélt þeirri áætlun í öllum aðalatriðum út árið og í desember var meðalvikan komin nær 50 km. Þessu til viðbótar var ég óvenjuduglegur í ræktinni, en styrktaræfingar eru ekki síður mikilvægar hlaupurum en hlaupaæfingar. Í árslok var ég kominn í ágætt stand að eigin mati og tilbúinn í verkefni næsta árs.

Eftirfarandi mynd sýnir hlaup ársins í kílómetrum, skipt eftir mánuðum. Þar má í einni svipan sjá nokkurn veginn það sama og útskýrt er í löngu máli hér að framan.

Hlaup 2015 mán

Á gamlárskvöld hafði ég lagt samtals 2.371 km að baki á árinu. Árið 2015 var þar með fjórða lengsta árið í lífinu. Stærstur var ársskammturinn árið 2013, 2.731 km. Næsta mynd gefur hugmynd um ástundunina frá og með árinu 1991.

Hlaup 2015 ár

Keppnishlaupin
Keppnishlaupin mín á árinu 2015 urðu 14 talsins sem er það næstmesta á einu ári frá upphafi. Í orði kveðnu eru fjallavegahlaup aðalviðfangsefnið á hlaupadagskránni minni, en mér finnst samt nauðsynlegt að taka þátt í nokkrum keppnishlaupum á hverju ári. Þau gefa mér færi á að sjá hvar ég stend í samanburði við fyrri ár og í samanburði við aðra. Auk þess eru keppnishlaup bestu æfingar sem völ er á. Og svo má ekki gleyma því að í tengslum við þessi hlaup hittir maður fjöldann allan af hlaupavinum sínum. Þessu vinafólki fer fjölgandi ár frá ári og kynnin við það auðga lífið langt út fyrir sporin sem hlaupaskórnir skilja eftir sig.

Fyrsta keppnishlaup ársins var 1. hlaupið í hlaupaseríu Atlantsolíu og FH í Hafnarfirði 29. janúar. Mér leið vel í þessu hlaupi en hafði einhvern veginn ekki líkamlegan styrk til að ná þeim hraða sem ég vildi ná. Kannski var færið aðeins of laust fyrir mig. Tíminn í þessu 5 km hlaupi var 20:59 mín sem var jöfnun á lakasta 5 km tímanum mínum frá upphafi. Ætlunin var að mæta líka í hlaup nr. 2 og 3 en meiðslin í febrúar gerðu þær fyrirætlanir að engu.

Hlaup nr. 2 var 100. Víðavangshlaup ÍR 23. apríl, á sumardaginn fyrsta. Þarna var í fyrsta sinn hlaupin ný leið, upp Hverfisgötu og niður Laugaveg, sem mér fannst stórskemmtileg nýbreytni. Sjálfur var ég ekkert sérstaklega sprækur, en hélt nokkuð jöfnum hraða og kláraði hlaupið á 20:13 mín. Var vel sáttur við það, enda til þess að gera nýstiginn upp úr meiðslum.

Þriðja hlaupið var hálft vormaraþon 25. apríl í NA-kalda, sólskini og 0-3 stiga frosti. Vissi sem var að ég myndi ekki gera neina rósir, en vildi alla vega ganga úr skugga um að kálfameiðslin væru úr sögunni. Kálfinn stóðst prófið en ég var frekar þreyttur undir lokin. Tókst líka að villast aðeins á leiðinni og tafðist eitthvað við það. Kláraði hlaupið á 1:33:58 klst. sem var lakasti tíminn minn í 5 ár.

Næst var röðin komin að hinu árlega 7 km Icelandairhlaupi 7. maí. Þarna taldi ég mig eiga að geta hlaupið á 28:35 mín en lokatíminn var 28:55, rúmri mínútu lakari en í fyrra. Kannski átti norðanáttin og kuldinn einhvern þátt í þessu, en fyrst og fremst var ég einfaldlega ekki kominn í eins gott form og ég vildi. Icelandairhlaupið var samt skemmtilegt, m.a. vegna þess að nokkrir félagar mínir úr Flandra voru með í för. Gunnar Viðar sem var svo eftirminnilega rétt á eftir mér í hlaupinu í fyrra var langt á undan mér í þetta skiptið. Svona breytast hlutverkin.

Fimmta keppnishlaup ársins var Göteborgsvarvet, stærsta hálfmaraþon í heimi, sem haldið var 23. maí. Þangað fór ég í góðri fylgd Birgittu dóttur minnar og Gunnars Viðars. Þetta var dásamlegt ferðalag, sérstaklega vegna þess hversu vel vinafólk okkar í Svíþjóð tók á móti okkur. Við flugum út með næturflugi aðfaranótt föstudags, enda náðum við þannig einkar hagstæðum fargjöldum. Hlaupið var á laugardegi og eftir á að hyggja gæti stopull svefn flugnóttina hafa rænt mann einhverjum hluta þeirrar orku sem ætlunin var að nota í hlaupið. Alla vega sá ég aldrei til sólar í hlaupinu þrátt fyrir sól og blíðu og mikinn mannfjölda innan brautar og utan. Tíminn var sá lakasti í mörg ár, 1:35:33 klst, en samt svo sem bara í meðallagi þegar öll hálfmaraþonævisagan mín er skoðuð. Sjö sinnum hafði ég verið fljótari, sjö sinnum hægari. Og aldrei höfðu eins margir hlauparar komið á eftir mér í mark, eitthvað rúmlega 43.100 manns. Samtals skiluðu 46.444 hlauparar sér í mark eftir því sem ég kemst næst.

Með Gittu, Gunnari og sænskum vinum eftir Göteborgsvarvet í maí. (Ljósm. Maria Lejerstedt).

Með Gittu, Gunnari og sænskum vinum eftir Göteborgsvarvet í maí. (Ljósm. Maria Lejerstedt).

Tveimur vikum eftir Gautaborg var röðin komin að 6. keppnishlaupi ársins og 3. hálfmaraþoninu. Þetta var Mývatnsmaraþonið 6. júní. Mér finnst alltaf gaman að hlaupa í kringum Mývatn en brautin býður einhvern veginn ekki upp á mikinn hraða. Oft er vindurinn eitthvað að stríða manni og svo eru a.m.k. tvær letjandi brekkur á leiðinni. Ég tók forystu í þessu hlaupi strax í fyrsta skrefinu og hélt henni til loka, sem var vissulega skemmtileg tilfinning. Tíminn var 1:34:41 klst, vissulega sýnu betri en í Gautaborg en samt langt frá því sem ég vil geta gert. Þarna komst ég að því að líkamlega formið var orðið betra en það andlega. Síðasti kílómetrinn var nefnilega einn sá hraðasti þrátt fyrir að vera næstum allur upp í móti, upp brekkuna að jarðböðunum. Í stuttu máli var gaman að vinna þetta hlaup og gaman að finna að skrokkurinn var tilbúinn í meiri átök.

Þann 23. júní hljóp ég 7. keppnishlaup ársins og 4. hálfmaraþonið, að þessu sinni í Miðnæturhlaupi Suzuki. Mér fannst ég þungur framan af, þ.e. á leiðinni neðan úr Laugardal og upp að Rauðavatni. En þegar halla tók undan fæti fór allt að ganga betur og seinnihlutinn var virkilega léttur og skemmtilegur. Og ekki spillti veðrið fyrir, hægviðri, skýjað og 12-13 stiga hiti. Tíminn var 1:31:16 klst. sem er 4. besti tíminn minn í hálfmaraþoni. Samtals hef ég hlaupið 17 slík, það fyrsta sumarið 1985.

Frekar glaður inn við Elliðaár á síðustu kílómetrum Miðnæturhlaupsins. (Ljósm. Hlaup.is).

Frekar glaður inn við Elliðaár á síðustu kílómetrum Miðnæturhlaupsins. (Ljósm. Hlaup.is).

Ármannshlaupið 8. júlí var 8. keppnishlaup ársins. Þetta gekk bara nokkuð vel, ég hélt jöfnum hraða allt hlaupið og kláraði það á 41:13 mín. Ætlaði að hlaupa á 40:55 en átti svo sem aldrei möguleika á því. Þetta var líka fyrsta 10 km hlaupið á árinu. Mér finnst maður þurfa að hlaupa hverja vegalengd tvisvar til þrisvar sinnum sama sumarið til að ná út því sem í manni býr.

Þá var komið að Laugaveginum sem var án nokkurs vafa hápunkturinn á hlaupaárinu mínu. Ég þóttist vera kominn í býsna gott brekkuform en hafði efasemdir um þolið á sléttu undirlagi. Sumum fannst óþægilega mikill snjór á leiðinni en það angraði mig svo sem ekki neitt. Gleðin jókst jafnt og þétt eftir því sem á leið hlaupið og var við það að fara úr böndunum í lokin. Öfugt við það sem ég hafði búist við var fjallahlauparinn í mér alveg búinn á því eftir Emstrur, en maraþonhlauparinn var þá í essinu sínu sem aldrei fyrr. Kom í mark á 5:41:10 klst. sem var rúmlega 11 mínútna bæting frá því í hitteðfyrra. Náði öðru sæti (af 45) í flokki 50-59 ára á eftir einhverjum ofur-Ítala og 17. sæti af 361 hlaupara sem lauk hlaupinu. Að sjálfsögðu skrifaði ég langan bloggpistil um þessa skemmtilegu upplifun.

Í miðri Þröngá, 50 km að baki og gleðin allsráðandi. Rjúpnafell í baksýn. (Ljósm. Magnús Jóhannsson).

Í miðri Þröngá, 50 km að baki og gleðin allsráðandi. Rjúpnafell í baksýn. (Ljósm. Magnús Jóhannsson).

Einmitt lokatíminn sem ég vildi sjá!

Einmitt talan sem ég vildi sjá!

Tíunda keppnishlaupið var Adidas Boosthlaupið 29. júlí. Adidasumboðið hafði verið svo vinsamlegt að gefa mér hlaupaskó fyrr um sumarið og í þakklætisskyni ákvað ég að nota þá í þessu hlaupi, jafnvel þó að mér finndust þeir kannski helst til mjúkir. Fór frekar gætilega af stað enda byrjunin heldur á fótinn og svo sem engar sérstakar væntingar í kortunum. En þegar ég sá millitímann 19:44 mín eftir 5 km og 27:53 eftir 7 km var 40 mínútna múrinn allt í einu orðinn raunhæft markmið. Þann múr hefur mig lengi dreymt um að brjóta, þó að ég tryði því reyndar ekki fyrr en á síðasta ári að ég ætti möguleika á því, kominn fast að sextugu. Síðasti kílómetrinn var erfiður en ég notaði alla þá orku sem til var og í markinu sýndi klukkan mín 39:59,95 mín. Ég var náttúrulega ógurlega spenntur að fá það staðfest hvort réttur hlaupatími væri 39:59 eða 40:00, enda er gríðarstór munur á þessu tvennu. Ég var heppinn, tíminn var 39:59 og þar með var ég búinn að ná einu helsta hlaupamarkmiði síðustu ára, eiginlega óvart. Tölulega séð var þetta langbesti götuhlaupaárangurinn minn á árinu, alla vega ef marka má hlaupareiknivél McMillan sem ég nota gjarnan og hefur reynst mér vel. Líklega var þetta jafnframt næstbesta götuhlaupið mitt frá upphafi á eftir hálfmaraþoni á 1:28:13 klst. í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrra.

Barðsneshlaupið austur á Norðfirði var næst á dagskrá. Það var án nokkurs vafa eitt af skemmtilegustu hlaupum ferilsins, með friðsæld og náttúrufegurð í aðalhlutverkum. Ég hljóp reyndar aleinn allan tímann ef frá eru talin stutt kynni af hlaupurum úr fyrri ráshóp sem ég fór fram úr á leiðinni. Samt var ég þarna í góðum félagsskap með Þorberg Inga ofurhlaupari einhvers staðar langt á undan mér og Elísabetu Margeirssóttur ofurhlaupara í humátt á eftir mér. Þessu hlaupi gerði ég skil í þar til gerðum bloggpistli að hlaupi loknu.

Lagt af stað frá Barðsnesi. Tuttuguogátta km ævintýri framundan. (Ljósm. Haukur Snorrason).

Lagt af stað frá Barðsnesi. Tuttuguogátta km ævintýri framundan. (Ljósm. Haukur Snorrason).

Jökulsárhlaupið 8. ágúst var sögulegt. Þar ætlaði ég að bæta tíma sem ég náði sumarið 2011, 2:43:33 klst. Vantaði 16 sek. upp á það. Datt illa þegar ég var nýkominn framhjá Vesturdal, það dró úr mér kjark en seinkaði mér ekkert, eftir á að hyggja. Sekúndurnar sem á vantaði töpuðust í fyrri hluta hlaupsins þar sem stígarnir höfðu vaðist upp í bleytu eftir miklar rigningar. Byltan lék hins vegar gleraugun mín grátt og gerði það að auk þess að verkum að ég leit ekki alveg eins vel út í markinu og ég hafði ætlað mér. Um kvöldið þegar ég staulaðist út úr bílnum utan við hús okkar hjónanna í Borgarnesi sagði nágranni minn að þetta myndi lagast fljótt, ég yrði örugglega farinn að hlaupa aftur innan tveggja mánaða. Ég sagði honum að ég væri nú meira að spá í svona tvær vikur. Það gekk eftir eins og sjá má hér að neðan. Og það er svo sem enginn vandi að kaupa ný gleraugu, sérstaklega ef tryggingarfélagið hjálpar til. Auk þess gróa flest meiðsli. Fjórum og hálfum mánuði síðar eru þrjár tær á hægri fæti reyndar svolítið stærri og öðru vísi í laginu en þær voru fyrir Jökulsárhlaupið, en það háir mér ekki neitt. Þær voru líka ljótar fyrir.

Reykjavíkurmaraþonið 22. ágúst var 13. keppnishlaup ársins. Það gekk hreint alveg eins og í sögu og veðrið var það besta sem nokkur hlaupari getur óskað sér. Mér leið vel allan tímann og kom í mark á 3:12:00 klst. sem var þriðji besti maraþontíminn minn frá upphafi og vissulega vel umfram væntingar. Og ég gleymdi ekki að skrifa maraþonbloggpistil að hlaupi loknu.

Reykjavíkurmaraþon, 37 km búnir. (Ljósm. Hlaup.is).

Reykjavíkurmaraþon, 37 km búnir. (Ljósm. Hlaup.is).

Atvikin höguðu því þannig að eftir Reykjavíkurmaraþonið tók ég mér að mestu frí frá hlaupum fram í október. Þann 17. desember bætti ég svo 14. keppnishlaupi ársins í Excelskjalið mitt, en þá tók ég þátt í Flandraspretti í Borgarnesi í leiðindaveðri og vondri færð. Þeim 5 km spretti lauk ég á 24:52 mín. sem er langlakasti tími ferilsins. (Átti verst áður 20:59 mín). En þetta var líka bara gert til gamans af því að veðrið var svo vont, þátttakendur mjög fáir og óvenjurólegt í starfsmannahaldinu, sem annars er að hluta til á minni könnu.

Fjallvegahlaupin
Sumarið 2015 var níunda og næstsíðasta sumarið í fjallvegahlaupaverkefninu sem ég gaf sjálfum mér í fimmtugsafmælisgjöf hérna um árið. Alla jafna hleyp ég fimm fjallvegi á hverju sumri en sumarið 2015 urðu þeir bara þrír. Einum sleppti ég til að gefa mér meira svigrúm til að „bjarga Laugaveginum“ og í annað skipti flúði ég af hólmi, gegnblautur og hrakinn í austfirsku slagviðri.

Fyrsti fjallvegur ársins og sá fertugastiogfyrsti frá upphafi var Flatnavegur frá Rauðamelsölkeldu á Snæfellsnesi norðuryfir nesið að bænum Setbergi neðst í Litla-Langadal. Það gekk alveg skínandi vel og aldrei hafa fleiri hlauparar fylgt mér alla leið í svona hlaupi. Alls vorum við 23 á ferðinni þennan fallega dag. Það má eiginlega segja að félagsskapurinn hafi batnað með árunum. Alla vega hef ég ekki verið einn á ferð í fjallvegahlaupi síðan ég hljóp yfir Helkunduheiði í ágúst 2011.

Næsti fjallvegur átti að vera Víkurheiði og Dys, úr Reyðarfirði yfir í Viðfjörð. Við lögðum upp í þetta ferðalag sex saman að morgni þriðjudagsins 4. ágúst, þremur dögum eftir Barðsneshlaupið. Hrepptum vonskuveður, norðan hvassviðri beint í fangið, úrhellisrigningu og kulda. Eftir 3,75 km barning á móti veðrinu ákvað ég að snúa við. Þá vorum við efst á Víkurheiði og ég sá ekki fram á að þetta ferðalag gæti endað vel, að teknu tilliti til hitastigsins og rakastigsins á sjálfum mér. Ferðalagið endaði í sundlauginni á Eskifirði. Þar var nóg af heitu vatni. Seinna frétti ég að Þverá, sem við vorum rétt ókomin að, hefði líklega verið óvæð þennan dag enda vatnavextir eystra með því mesta sem sést hefur að sumri til. Þetta hlaup minnti mig á það sem ég hef sjálfur sagt, að eiginlega sé vont veður ekki til, heldur bara vond föt. Um haustið keypti ég mér vatnsheldan hlaupagalla.

Tveimur dögum eftir hrakningana á Víkurheiði hljóp ég við þriðja mann yfir Berufjarðarskarð milli Breiðdals og Berufjarðar. Enn rigndi einhver ósköp norðar á Austfjörðum, en þarna suðurfrá var hið besta hlaupaveður ef frá er talin dimm þoka norðanvert í skarðinu. Þetta var góður fjallvegahlaupadagur í góðum félagsskap.

Með Sævari Skaptasyni og Bryndísi Óladóttur á leið niður úr Berufjarðarskarði.

Með fjallvegahlaupurunum Sævari Skaptasyni og Bryndísi Óladóttur á leið niður úr Berufjarðarskarði 6. ágúst.

Um miðjan ágúst hljóp ég svo yfir Haukadalsskarð milli Dala og Hrútafjarðar með 9 góðum félögum. Það gekk að óskum, enda veðrið hagstætt og leiðin auðveld. Þar með voru 43 fjallvegahlaup komin á skrá og 7 eftir. Sumarið 2016 verður síðasta sumar fjallvegahlaupaverkefnisins og þá verður sýnilega nóg að gera. Meira um það síðar.

Skemmtihlaupin
Árlega stend ég fyrir eða á einhvern þátt í þremur skemmtihlaupum, sem hvorki eru keppnishlaup né formleg fjallvegahlaup. Þar ber fyrst að nefna hinn árlega Háfslækjarhring sem jafnan er hlaupinn á uppstigningardag. Nú var þetta hlaup þreytt í 6. sinn. Umræddur hringur er í nágrenni Borgarness, rúmlega 21 km að lengd heiman að frá mér og heim. Þetta er eiginlega boðshlaup, því að hluti af uppákomunni er annáluð kjötsúpa Bjarkar, gerð úr kjöti af Strandalömbum sem aldrei hafa kynnst ræktuðu landi af eigin raun. Sjálfur var ég að hlaupa hringinn í 106. sinn þennan dag.

Hin tvö skemmtihlaupin eru Þrístrendingur og Hamingjuhlaupið, sem oftast lenda hvort á sínum laugardeginum seint í júní. Þrístrendingur er hugarfóstur okkar Dofra Hermannssonar, en móðir mín og afi hans voru systkini og ólust upp á Kleifum í Gilsfirði. Þaðan hlaupum við einu sinni ári norður Steinadalsheiði til Kollafjarðar, yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf í Bitru og loks suður (eða vestur) Krossárdal að Kleifum. Hringurinn allur er um 40 km, en auðvelt að skipta honum upp í þrjá áfanga. Að þessu sinni bar hlaupið upp á laugardaginn 20. júní. Þátttakendur voru 16 þegar allt er talið, þar af 14 sem hlupu alla leið. Allt er þetta tíundað í smáatriðum í viðeigandi bloggpistli. Hamingjuhlaupið fór svo fram viku síðar, en það var nú haldið í 7. sinn í tengslum við Hamingjudaga á Hólmavík. Í þetta sinn lá leiðin um Laxárdalsheiði frá Klukkufelli í Reykhólasveit og niður með Þiðriksvallavatni alla leið til Hólmavíkur, samtals rétt tæpir 35 km. Við hlupum fimm saman alla leiðina og fleiri bættust í hópinn undir lokin. Fengum frábært veður, norðaustan kalda, sólskin og 14-18 stiga hita. Af einhverjum ástæðum hefur farist fyrir að skrá ferðasöguna, en kannski geri ég það við tækifæri til að varðveita minningarnar enn betur. Leiðarlýsinguna er hins vegar að finna á blogginu.

Hamingjuhlaup á Laxárdalsheiði

Hamingjuhlaup á Laxárdalsheiði 27. júní.

Markmiðin 2016
Eins og áður sagði náði ég ekki nema tveimur af fimm hlaupamarkmiðum ársins 2015. Þannig gengur það bara stundum. Ætli ég geti ekki skrifað það sem á vantar á meiðsli síðasta vetrar. Og meiðslin get ég skrifað á eigin aðgæsluleysi. Oftast er maður sinnar eigin gæfu smiður á þessu sviði eins og öðrum. Og þá er bara að halda áfram að bæta sig á nýju ári.

Hlaupamarkmiðin mín fyrir árið 2016 eru sem hér segir:

  1. Sjö fjallvegahlaup
  2. Bæting í 5 km götuhlaupi (undir 19:39 mín)
  3. Bæting á ofur-Vesturgötunni (45 km) í júli (undir 4:12:03 klst)
  4. A.m.k. eitt keppnishlaup á braut
  5. Gleðin með í för í öllum hlaupum

Þessi markmið eru keimlík markmiðum nýliðins árs og áranna þar á undan. Viðfangsefnið er líka alltaf svipað, nema hvað auðvitað gerir maður sér vonir um einhverjar framfarir á hverju ári. Eitt markmiðið er þó alveg nýtt, en það er þetta með brautarhlaupið. Þar er ég bara að sækjast eftir tilbreytingu, nýrri tegund af fjöri og svolitlu fóðri fyrir sjálfsmyndina (sem er reyndar í nokkuð góðu lagi fyrir). Auk þess eru svona hlaup einstaklega góðar æfingar fyrir öll hin átökin. Myndi helst vilja velja 1.500 eða 3.000 m hlaup, en sumarið verður þéttskipað og því kannski ekki mörg færi á svona hliðarsporum.

Talandi um markmið, þá eru áformin fyrir árið 2017 líka tekin að skýrast. Þá á að reyna að slá persónuleg met í maraþoni og á Laugaveginum. Held að það verði ágæt sextugsafmælisgjöf. Svo er eitthvað verið að tala um 90 km hlaup í Svíþjóð sumarið 2018. Á maður ekki að reyna að vera framsýnn?

Öll þau tölulegu markmið sem ég set mér í hlaupum passa vel inn í Excelskrár, en eins og þeir vita sem gerst þekkja leika slíkar skrár stórt hlutverk í hlaupaheiminum mínum. En þrátt fyrir ást mína á tölum er gleðin aðalatriðið. Hún býr í manni sjálfum og hana hef ég ákveðið að taka með mér hvert sem ég hleyp. Ekki er verra að hún blandist saman við gleði annarra á leiðinni.

Árið 2016
Hlaupaáætlun ársins 2016 verður í grófum dráttum eins og lýst er hér að neðan.

  • Janúar-mars: Hægt vaxandi æfingamagn, gjarnan 5 æfingar í viku, þar af ein styrktaræfing, ein sprettæfing og eitt langt hlaup (a.m.k. 25 km). Vikuskammtur um 50 km til að byrja með en yfir 70 km undir lokin. Hugsanleg þátttaka í hlauparöð Atlantsolíu og FH.
  • Apríl: Enn stígandi í æfingum. Víðavangshlaup ÍR 21/4 (vonandi undir 19:39 mín (sbr. markmið)). Hálft maraþon í Vormaraþoni FM 23/4 (vonandi um 1:30 klst).
  • Maí: Væntanlega tvö fjallvegahlaup á Vesturlandi (nánari upplýsingar á fjallvegahlaup.is á næstu vikum). Þátttaka í e-m almenningshlaupum. Háfslækjarhringurinn á uppstigningardag.
  • Júní: Mývatnsmaraþon (heilt) 4/6. Þrístrendingur 18/6. E.t.v. 1-2 fjallvegahlaup og eitthvað fleira skemmtilegt.
  • Júlí: Hamingjuhlaupið 2/7. Hlaupahátíð á Vestfjörðum 15-17/7 og tvö fjallvegahlaup þar í kring. Fimmtugasta (og síðasta) fjallvegahlaupið yfir Arnarvatnsheiði 23/7 og e-s konar lokahóf að því loknu.
  • Ágúst: Reykjavíkurmaraþon (heilt) 20/8.
  • September-desember: Alveg óráðið. Gert ráð fyrir 3-4 vikna hlaupafríi á tímabilinu.

Þakkir
Þó að maður sé einn úti að hlaupa er maður aldrei einn. Í kringum hvern hlaupara er hópur af fólki sem ýmist gerir hlauparanum kleift að stunda þetta áhugamál sitt eða gefa honum beinlínis ástæðu til þess. Ég er ekkert öðruvísi en aðrir hlauparar hvað þetta varðar og þess vegna er ég afskaplega þakklátur því fólki sem hefur stutt mig í þessu með einum eða öðrum hætti. Fjölskyldan á mestar þakkir skildar fyrir stuðning, hvatningu og umburðarlyndi gagnvart öllum þessum 230 klukkutímum sem ég var á hlaupum á árinu, að ótöldum öllum hinum tímunum sem fóru í undirbúning, eftirköst og bloggskrif. Af öðru fólki kemur hlaupafélaginn Gunnar Viðar fyrst upp í hugann. Hann fylgdi mér í flest hlaup ársins og gerðist bílstjóri og aðstoðarmaður þegar meiðsli hindruðu hann frá beinni þátttöku. Ég er líka þakklátur öðrum hlaupafélögum úr hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi, en tilurð og nærvera þess hóps hefur bætt drjúgum skammti af tilgangi og gleði við hlaupin mín síðustu þrjú ár. Öllum öðrum hlaupavinum færi ég líka bestu þakkir fyrir alla hlýjuna og hvatninguna. Hlakka til að hitta ykkur á nýju ári!

Eitt svar

  1. […] eða þrjú markmið af fimm Ég setti mér fimm hlaupatengd markmið fyrir árið 2016 og náði tveimur þeirra, já eða kannski þremur. Í fyrsta lagi ætlaði ég […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: