• Heimsóknir

  • 119.041 hits
 • júní 2016
  S M F V F F S
   1234
  567891011
  12131415161718
  19202122232425
  2627282930  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Þrjár strendur, fjórir menn

Um þarsíðustu helgi, nánar tiltekið laugardaginn 18. júní, var Þrístrendingur hlaupinn í 7. sinn. Fyrir þá sem ekki vita, sem hljóta að vera teljandi á fingrum annarrar handar,  er Þrístrendingur árlegt skemmtihlaup þar sem hlaupið er þvert yfir Íslands, tvisvar, sama daginn. Hlaupið hefst á hlaðinu á Kleifum í Gilsfirði þar sem sameiginlegir forfeður og formæður okkar Dofra Hermannssonar bjuggu í 100 ár og þar sem móðir mín og afi hans slitu barnskónum snemma á síðustu öld. Frá Kleifum er hlaupið norður yfir Steinadalsheiði í botn Kollafjarðar á Ströndum, yfir Bitruháls að æskiheimili mínu í Gröf í Bitru, og áfram sem leið liggur í vesturátt suður Krossárdal alla leið að Kleifum. Leiðin er á að giska dagleið, nánar tiltekið rétt rúmir 40 km. Það er vissulega langt í samanburði við þær vegalengdir sem tíðkast að skokka á einum degi, en þetta er samt hér um bil stysta leiðin tvisvar yfir Ísland. Landið er breiðara annars staðar.

Allt tilbúið á hlaðinu á Kleifum. F.v.: Arnór, Stefán, Hlynur, Dofri, Birkir, Magnús, Ási, Erlendur, Sigríður, Marta.

Allt tilbúið á hlaðinu á Kleifum. F.v.: Arnór, Stefán, Hlynur, Dofri, Birkir, Magnús, Ási, Erlendur, Sigríður, Marta.

Það var óvenjufámennt á hlaðinu á Kleifum þennan laugardagsmorgun, enda mörg önnur afþreyingartækifæri í boði fyrir hlaupara landsins þennan dag. Samtals lögðum við af stað tíu saman niður heimreiðina um hálfellefuleytið, þar af 8 hlaupandi og 3 á hjóli. Þurrt var í veðri, austan gola, skýjað að mestu og 10 stiga hiti, en í norðri var Húnaflóaþokan skammt undan.

Heimreiðin að Kleifum (eða öllu heldur frá Kleifum í þessu tilviki). Þær gerast ekki öllu lengri og beinni. Gilsfjörður blasir við.

Heimreiðin að Kleifum (eða öllu heldur frá Kleifum). Þær gerast ekki öllu lengri og beinni. Gilsfjörður blasir við.

Okkur sóttist allvel ferðin frá Kleifum, yfir að Gilsfjarðarbrekku og áleiðis upp Steinadalsheiði, enda var þetta allt hreyfivant fólk. Ólíkt því sem verið hafði öll hin árin var Vegagerðin ekki búin að opna heiðina. Það snerist þó fremur um form en innihald, því að heiðin var orðin vel fær fyrir sæmilega fjórhjóladrifsbíla, bara einn þunnur skafl eftir. Fyrir svo sem 70 árum var vegurinn yfir Steinadalsheiði eini akfæri bílvegurinn að sunnan áleiðis til Hólmavíkur. Vegurinn hefur verið endurbættur talsvert síðan þá, en aðrir vegir hafa verið endurbættir talsvert meira og henta því síður til náttúruhlaupa. Steinadalsheiðin er upplögð til þeirra nota.

Á leið upp Steinadalsheiði. Gaman væri að vita nafn á þessum fossi sem rennur í skömmtum niður hlíðina.

Á leið upp Steinadalsheiði. Gaman væri að vita nafn á þessum fossi sem rennur í skömmtum niður hlíðina.

Heiðin að baki. Hlaupið yfir Steinadalsá.

Heiðin að baki. Hlaupið yfir Steinadalsá.

Einn helsti kosturinn við að hlaupa upp heiðar er að þá getur maður hlakkað til að hlaupa niður þær hinum megin. Niðurhlaup eru oftast sýnu auðveldari en upphlaup, að því tilskyldu að niðurleiðin sé ekki mjög brött. Þessi niðurleið er það ekki og því var ekkert slegið af, ekki heldur við Hestasteininn í Steinadal þar sem venja hefur verið að staldra við í Þrístrendingshlaupum. Þess í stað var haldið áfram framhjá myndarbýlinu í Steinadal þar sem hvergi er óreiðu að sjá og alla leið að Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði, þaðan sem Stefán frá Hvítadal gekk til kirkju á Felli á jóladag, líklega 8 ára gamall, árið 1895. Þessi gönguferð varð að öllum líkindum kveikjan að sálminum „Kirkjan ómar öll“ sem margir þekkja. Nú er engin kirkja á Felli, en ættmenni Stefáns búa enn í Stóra-Fjarðarhorni, rétt eins og þau hafa gert allar götur síðan 1844.

Við Stóra-Fjarðarhorn sýndi Garminúrið 18,91 km og 2:05:36 klst. Líklega höfðum við verið ögn fljótari en oftast áður, en í Þrístrendingi er ekki keppt við tímann. Og það sem meira er, tíminn var í fríi þennan dag.

Trússbíllinn beið við Stóra-Fjarðarhorn. Sumir segja að gott sé að liggja undir Land-Rover.

Trússbíllinn beið við Stóra-Fjarðarhorn. Mörgum finnst gott að liggja undir Land-Rover.

Hugað að fótabúnaði. Slíkur búnaður er mikilvægur á hlaupum.

Hugað að fótabúnaði. Slíkur búnaður er mikilvægur á hlaupum.

Allir hlauparar dagsins samankomnir við Stóra-Fjarðarhorn. Hjólreiðafólkið farið.

Allir hlauparar dagsins samankomnir við Stóra-Fjarðarhorn. Hjólreiðafólkið farið.

Á leið upp frá Stóra-Fjarðarhorni.

Á leið upp frá Stóra-Fjarðarhorni.

Eftir hefðbundna áningu lögðum við upp í næsta áfanga, upp Fjarðarhornssneiðinga áleiðis upp á Bitruháls. Tveir hlauparar höfðu látið Steinadalsheiðina nægja og sömuleiðis var hjólreiðafólkið farið sína leið. Í staðinn bættust tvær hraustar konur frá Hólmavík í hópinn þannig að við vorum sex saman þarna á hálsinum. Þokan var á undanhaldi og sólin gægðist meira að segja fram. Vorið hafði líka greinilega verið fyrr á ferð en síðustu ár, því að leiðin var orðin snjólaus og klaki farinn úr jörðu. Tíminn leið fljótt við spjall um hlaup, líf, tilveru og uppvaxtarárin mín í Gröf. Þangað vorum við svo komin fyrr en varði, nánar tiltekið kl. 14:48. Tölur hafa alltaf skipt máli í Gröf, í það minnsta í þau tæpu 60 ár sem ég hef fylgst með í þeim efnum.

Arnór á háhálsinum. Þokan alveg að hverfa.

Arnór á háhálsinum. Þokan alveg að hverfa.

Húsráðendur í Gröf voru fjarverandi þennan dag en við tókum okkur engu að síður bessaleyfi að bæla grasið við suðurgafl vélageymslunnar ofan við bæinn. Þar átti ég mín fyrstu markskot á knattspyrnuferlinum. Boltinn var að mig minnir minjagripur frá heimsmeistaramótinu 1966, gerður úr einhvers konar plasti með ventli sem átti það til að detta inn í boltann ef maður var ekki nógu gætinn með loftpumpuna. Þessi bolti var í nokkurn veginn réttri stærð af fótbolta að vera en helst til léttur. Þyngdarpunkturinn var heldur ekki alveg í miðjum bolta, sem gerði það að verkum að hann beygði stundum af leið í miðju skoti. Það gat komið sér illa, bæði fyrir útileikmenn og markmenn (hvort tveggja í eintölu). Og svo var líka hættulegt að hitta ekki markið, því að þá gat boltinn skoppað „út í gil“, þ.e.a.s. út í lækinn sem rann eftir gilinu niður með bænum. Þá var aldrei að vita hvort maður næði gripnum í tæka tíð áður en straumurinn tæki hann. Til þess kom reyndar aldrei. Samt varð knattspyrnuferillinn stuttur.

Í Gröf - áður en konurnar yfirgáfu okkur.

Í Gröf – áður en konurnar yfirgáfu okkur.

Eftir svo sem hálftíma hvíld og sögustund við vélageymsluna í Gröf var tekið á rás suður Krossárdal, fram hjá Gili og Árdal og fram fyrir Torffell. Torffell blasti við úr glugganum fyrir ofan rúmið mitt í Gröf í gamla daga, það lokaði eiginlega dalnum og þar endaði heimurinn minn til vesturs. Heiminn á bak við Torffell kannaði ég ekki fyrr en á unglingsárum. Og fyrst að hér er notuð hugtökin „suður Krossárdal“ og „fram fyrir Torffell“ er rétt að taka fram að Krossárdalur liggur í vestur og það sem ég kalla „fram fyrir Torffell“ væri kallað „inn fyrir Torffell“ í einhverjum öðrum landshlutum.

Á þessum síðasta áfanga leiðarinnar vorum við bara fjórir eftir. Í Gröf hafði hjálpsamur bílstjóri beðið eftir konunum frá Hólmavík og þar endaði hlaupið þeirra þennan dag. Önnur þeirra giftist meira að segja þessum bílstjóra viku síðar. Svona eru forlögin.

Við Skáneyjargil áðum við um stund og söfnuðum liðinu saman. Þar endar hinn greinilegi slóði fram (eða inn) dalinn og því hentaði vel að bera þar saman bækur sínar um áframhaldið. Eftir þessa áningu fylgdumst við Birkir bóndi að fram að Krossárvatni en hinir tveir, Arnór og Hlynur, fóru hraðar yfir. Í Þrístrendingi fyrir ári síðan hafði ég einhver orð um að ég myndi dýfa mér í vatnið næst, enda voru ferðafélagarnir þá búnir að gefa tóninn hvað það varðaði. Sannast sagna er ég hvorki mikið fyrir böð í köldu vatni né fyrir sundiðkun yfirleitt. Ég lét samt verða af því að vaða út í vatnið, en bara upp í mið læri.

Síðasta spölinn niður að Kleifum hlupum við fjórmenningarnir í fjórum hópum, sem allir komu þó á leiðarenda á svipuðum tíma. Sem fyrr segir er leiðin öll rétt rúmir 40 km og á hverju ári fær einhver Þrístrendingshlaupari þá flugu í höfuðið að ekki sé nóg að gert fyrr en dagleiðin er orðin jafnlöng maraþoni, þ.e.a.s. 42,2 km. Að þessu sinni var ég þessi einhver, enda engan veginn orðinn saddur af hlaupum. Bætti því við svolitlu skokki niður heimreiðina á Kleifum og aftur til baka. Að þeirri viðbót lokinni settist ég að kjötsúpuveisluborði að hætti Birnu á veröndinni á Kleifum. Það var án nokkurs vafa hápunktur dagsins! Þaðan fóru allir saddir og glaðir rétt í þann mund sem íslenska landsliðið í knattspyrnu var búið að gera 1:1 jafntefli við Ungverja á EM í Frakklandi.

Birna beið með súpuna heima á Kleifum. Þarna var gestrisnin allsráðandi!

Birna beið með súpuna heima á Kleifum. Þar var gestrisnin allsráðandi!

Sum föt henta einfaldlega betur en önnur að hlaupi loknu.

Sum föt henta einfaldlega betur en önnur að hlaupi loknu.

Eftirtaldir hlauparar tóku þátt í Þrístrendingi 2016:

 • Alla leið (3 fjallvegir með tilheyrandi):
  Arnór Hauksson
  Birkir Þór Stefánsson
  Hlynur Skagfjörð Pálsson
  Stefán Gíslason
 • Einn fjallvegur (Steinadalsheiði):
  Magnús Steingrímsson
  Sigþór Ási Þórðarson
  Erlendur Breiðfjörð Magnússon (á hjóli)
  Marta Sigvaldadóttir (á hjóli)
  Sigríður Drífa Þórólfsdóttir (á hjóli)
 • Einn fjallvegur (Bitruháls):
  Esther Ösp Valdimarsdóttir
  Hrafnhildur Þorsteinsdóttir
 • Styttri leið (hluti af Steinadalsheiði):
  Dofri Hermannsson

2 svör

 1. Stórkostlegt hlaup, stórkostleg upplifun! Tel ég mig talsvert betri mann eftir. Og betri móttökur en á Kleifum eru vandfundnar. Takk fyrir mig!

 2. […] Hin tvö skemmtihlaupin eru Þrístrendingur og Hamingjuhlaupið, sem oftast lenda hvort á sínum laugardeginum seint í júní. Þrístrendingur er hugarfóstur okkar Dofra Hermannssonar, en móðir mín og afi hans voru systkini og ólust upp á Kleifum í Gilsfirði. Þaðan hlaupum við einu sinni ári norður Steinadalsheiði til Kollafjarðar, yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf í Bitru og loks suður (eða vestur) Krossárdal að Kleifum. Hringurinn allur er um 40 km, en auðvelt er að skipta honum upp í þrjá áfanga. Nú var þessi leið hlaupin í 7. sinn laugardaginn 18. júní. Þátttakendur voru 12 þegar allt er talið, þar af 4 sem hlupu alla leið. Allt er þetta tíundað í smáatriðum í viðeigandi bloggpistli. […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: