
Á Arnarvatnsheiði. (Ljósm. Kristín Gísladóttir).
Árið 2016 var engan veginn eitt af bestu hlaupaárunum mínum. En það kemur ekki í veg fyrir hefðbundið áramótauppgjör (þótt síðbúið sé) sem felst í að rifja upp helstu viðburði síðasta árs og gefa yfirlýsingar um væntingar mínar til hlaupaársins 2017.
Stærsti hlaupaáfangi ársins 2016 var tvímælalaust fullnusta fjallvegahlaupaverkefnisins, en því lauk með eftirminnilegu 81 km hlaupi yfir Arnarvatnsheiði í júlí. Þar með náði ég markmiði sem ég setti mér fyrir tæpum 10 árum og hvikaði aldrei frá. Að öðru leyti mótaðist hlaupaárið talsvert af annríki í vinnu sem átti stóran þátt í að æfingar fyrstu mánuði ársins voru talsvert færri en ég hefði þurft til að komast á þann stað í hlaupunum sem ég vil vera á. Sitthvað fleira setti strik í reikninginn til skamms tíma, eins og gengur, en þegar á heildina er litið gekk þetta allt saman ágætlega og engin meiri háttar meiðsli gerðu vart við sig. Og þó að sigurvíma væri frekar fátíð á árinu gáfu hlaupin mér margar ánægjustundir sem gerðu þetta ár enn betra en það hefði annars verið.
Æfingarnar
Fyrstu þrír mánuðir ársins 2016 einkenndust af miklu annríki vegna hlutverks míns sem formanns verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Þetta kom eðlilega niður á fjölda hlaupaæfinga á virkum dögum, en ég bætti það upp að hluta með þeim mun lengri helgarhlaupum. Á þessu tímabili náði ég t.d., í fyrsta skipti á æfinni, að hlaupa meira en 33 km tíu laugardaga (eða sunnudaga) í röð. Þessar tíu æfingar voru meira en helmingur af heildarvegalengd þessara þriggja mánaða. Í lok mars þóttist ég því vera kominn með allgott þol, en styrkur og hraði höfðu frekar setið á hakanum.

Lengsti laugardagurinn. Hólmavík 19. mars.
Í lok mars náði ég mér í óvenjuslæma magapest sem stóð í nokkra daga og í kjölfarið fylgdi önnur óáran sem þróaðist upp í sýkingu í lunga. Engin langvarandi eftirköst urðu af þessu, en það tók mig samt nokkrar vikur að ná aftur fullum styrk – og á þessum tíma þurfti ég líka að þvælast á fundi um landið þvert og endilangt í boði rammaáætlunar.
Æfingar gengu ágætlega yfir sumarmánuðina og 4. júlí náði ég t.d. mínum bestu tímum frá upphafi bæði upp og niður Hafnarfjallið, (42:40 mín. upp, 16:43 mín. niður). Frammistaðan á fjallinu gefur ágæta vísbendingu um líkamlegt atgervi mitt á hverjum tíma.
Ég hljóp ekkert í tvær vikur eftir Arnarvatnsheiðarhlaupið 23. júlí. Undir lok hlaupsins fann ég fyrir miklum sársauka framan á vinstri sköflungi niður undir ökkla. Þetta gat hugsanlega verið eitthvert alvarlegt og þess vegna ákvað ég að sleppa allri tilraunastarfsemi. Eftir viku gat ég gengið óhaltur og viku síðar var ég farinn að hlaupa án þess að finna fyrir neinu. Þarna slapp ég með skrekkinn en þetta hlaupafrí kom ekki beinlínis á réttum tíma fyrir Reykjavíkurmaraþonið 20. ágúst. Um það leyti stóð líka önnur stærsta vinnutörn ársins sem hæst, aftur í boði rammaáætlunar.
Æfingar haustsins gengu almennt vel, án þess þó að ég næði nokkurn tímann að byggja upp almennilegan ferskleika. Ég tók mér ekkert hlaupafrí á þessum tíma eins og ég hef stundum gert, enda höfðu fríin komið sjálfkrafa af og til eins og ráða má af yfirferðinni hér að framan. Mér veittist auðvelt að hlaupa langar vegalengdir á æfingum og reyndar hef ég aldrei áður hlaupið eins langt í október (245 km) og nóvember (209 km) og einmitt á þessu ári, án þess þó að hafa ætlað mér það neitt sérstaklega. Á þessum tíma voru samt að grafa um sig einhver ónot í bakinu á mér og um miðjan desember ákvað ég að hætta að hlaupa um sinn á meðan ég kæmist að því hvað væri í gangi. Úr þessu varð u.þ.b. tveggja vikna hlaupafrí. Í lok ársins þótti sýnt að bakvandræðin stöfuðu af langvarandi setum en ekki af hlaupum og með það hófust æfingar á nýjan leik. Í árslok var heildarvegalengd ársins komin í nákvæmlega 2.625,51 km, sem er það næstlengsta sem ég hef hlaupið á einu ári til þessa.

Mánaðarlegir hlaupaskammtar 2016.

Árlegir hlaupaskammtar 1991-2016.
Tvö eða þrjú markmið af fimm
Ég setti mér fimm hlaupatengd markmið fyrir árið 2016 og náði tveimur þeirra, já eða kannski þremur. Í fyrsta lagi ætlaði ég að hlaupa sjö fjallvegahlaup. Það gekk eftir! Í öðru lagi ætlaði ég að bæta mig í 5 km götuhlaupi með því að hlaupa undir 19:39 mín, sem var reyndar endurnýtt markmið frá árinu áður. Þetta gekk ekki upp, en reyndar komst ég furðu nálægt því í Vatnsmýrarhlaupinu 11. ágúst, þar sem hljóp á 19:53 mín þrátt fyrir að vera varla kominn almennilega af stað eftir Arnarvatnsheiðina. Þetta þýðir að ég get notað sama markmið áfram. Endurnýting er góð.
Markmið nr. 3 var bæting á ofur-Vesturgötunni (45 km) í júlí (undir 4:12:03 klst). Þetta tókst. Kláraði hlaupið á 4:03:20 klst. Lagði sjálfsagt aðeins meira í þetta en árið 2014 þegar ég hljóp á 4:12, en bæting er alltaf bæting.
Fjórða markmiðið var að hlaupa a.m.k. eitt keppnishlaup á braut. Þetta fórst fyrir. Ekkert gerist af sjálfu sér og ég hafði bara í nógu öðru að snúast. Hins vegar náði ég 5. markmiðinu, alla vega næstum því, nefnilega að hafa gleðina með í för í öllum hlaupum. Ég verð samt að játa á mig dálítinn pirring eftir af hafa leitt mig og aðra í fráleitar og ekki alveg hættulausar ógöngur í fjallvegahlaupi vestur á Klofningsheiði. Þetta fór samt allt vel og pirringurinn var fljótur að hverfa. Veit samt ekki alveg hvort ég á að staðhæfa að gleðimarkmiðið hafi náðst.
Keppnishlaupin
Keppnishlaupin mín á árinu 2016 urðu 11 talsins sem telst tæplega í meðallagi miðað við síðustu ár. Keppnishlaupin skipta mig talsverðu máli, annars vegar vegna þess að þar fæ ég betri mælikvarða á ástandið en á æfingum og hins vegar vegna þess að þar hitti ég gamla og nýja hlaupavini sem ég hitti ekki oft við önnur tækifæri. Mér finnst þessi félagslegi þáttur vera mikilvægari en flest annað í þessum hlaupaheimi.
Fyrsta keppnishlaup ársins var 101. Víðavangshlaup ÍR 21. apríl, á sumardaginn fyrsta (5 km). Þetta er að mínu mati alltaf eitt af skemmtilegustu hlaupum ársins, því að þarna finnast mér dyrnar að hlaupasumrinu opnast. Ég var þó engan veginn búinn að ná fullum kröftum eftir páskaveikina og hljóp á einum af lökustu tímum ævisögunnar, 20:54 mín. Bjóst alveg eins við því að vera mínútu lengur, þannig að þegar upp var staðið var ég hæstánægður.
Hlaup nr. 2 var Icelandairhlaupið 12. maí, en þar var ég að taka þátt sjöunda árið í röð. Tíminn var 28:56 mín (á 7 km), sem var 1 sek lakara en árið áður. Ég gat vel við unað. Er ekki einnar sekúndu afturför á milli ára bara vel ásættanleg?

Farinn að nálgast markið í Icelandairhlaupinu – á undan öllum þeim sem voru á eftir mér. (Ljósm. Hlaup.is).
Þriðja hlaupið var Hvítasunnuhlaup Hauka 16. maí, öldungis bráðskemmtilegt 17,5 km hlaup um hæðir og hóla í baklandi Hafnarfjarðar. Þennan spotta kláraði ég á 1:27:22 klst. sem var svipað og ég taldi raunhæft. Þarna sem oftar voru nokkrir félagar mínir úr Hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi með í för. Samvistir við það fólk hafa svo sannarlega gefið hlaupunum mínum aukið gildi síðustu ár.
Fjölnishlaupið 26. maí var fjórða keppnishlaup ársins. Þetta var eitt af mínum slökustu hlaupum, mér leið illa allan tímann og komst lítið áleiðis. Samt var gleðin með í för. Þetta voru 10 km og tíminn var 42:52 mín, sá lakasti í 4 ár.
Fimmta hlaupið var Miðnæturhlaupi Suzuki 23. júní þar sem ég var skráður í hálft maraþon. Ég fór hægt af stað, staðráðinn í að njóta. Bætti svo heldur í eftir því sem á leið og lauk hlaupinu á mínum 3. besta tíma frá upphafi, 1:30:53 klst. Þarna fannst mér ég vera endanlega kominn upp úr vorlægðinni.
Um miðjan júlí lá leiðin vestur á firði þar sem ég tók þátt í keppnishlaupum nr. 6. og 7. Fyrst var það Arnarneshlaupið 15. júlí, 10 km í kvöldsól og blíðu. Þetta var dásamlega skemmtilegt hlaup frá upphafi til enda og tíminn a.m.k. jafngóður og ég gat með nokkru móti gert mér vonir um, þ.e.a.s. 40.44 mín, nákvæmlega sami tími og í Óshlíðarhlaupinu tveimur árum fyrr. Arnarneshlaupið er reyndar arftaki Óshlíðarhlaupsins sem var aflagt 2015 vegna þess hversu mikið hefur hrunið úr veginum úti í Óshlíð. Í 38 10 km hlaupum hef ég ekki nema fjórum sinnum náð betri tíma en þetta og reyndar var þetta besta götuhlaupið mitt á árinu 2016 samkvæmt hlaupareiknivél McMillan sem ég nota gjarnan og hefur reynst mér vel.
Sjöunda hlaupið var svo tvöföld Vesturgata 17. júlí. Ég veit fátt skemmtilegra en að hlaupa Vesturgötuna, einfalda eða tvöfalda – og sú vitund breyttist ekkert í þessu hlaupi, sem var án nokkurs vafa skemmtilegasta keppnishlaup ársins. Bæði er hlaupaleiðin einstök og móttökurnar hlýlegri en nokkurs staðar annars staðar. Eins og fram kemur hér að framan var það eitt af fimm hlaupamarkmiðum ársins að bæta fyrri tíma minn í þessu hlaupi. Áætlun mín fyrir hlaupið miðaðist við það og gekk upp í öllum aðalatriðum. Lokatíminn var 4:03:20 klst., um 9 mín betri en 2014 þegar ég hljóp þessa leið í fyrra sinnið. Ferðasöguna alla má lesa í miklum smáatriðum í þar til gerðri bloggfærslu frá liðnu sumri. Næsta markmið er að hlaupa þetta undir 4 klst. sumarið 2018. Það verður verðugt viðfangsefni.

Þrír fyrstu menn í flokki 40-99 ára í tvöfaldri Vesturgötu 2016. F.v. SG, Gunnar Atli og Birkir. (Ljósm. Björk Jóh.)
Áttunda keppnishlaup ársins var Vatnsmýrarhlaupið sem fyrr var nefnt (5 km). Það fór fram 11. ágúst þegar ég var rétt um það bil búinn að ná mér almennilega eftir Arnarvatnsheiðina. Í þessu hlaupi fylgdi ég þaulskipulagðri áætlun sem gekk í stuttu máli út á að fara ekki of hratt af stað og reyna síðan að ljúka hverjum kílómetra á 4 mínútum. Þetta gekk upp og lokatíminn var 19:53 mín sem er næstbesti tíminn minn í 5 km götuhlaupi frá upphafi. Þetta var eiginlega vonum framar.
Reykjavíkurmaraþonið var 9. keppnishlaup ársins, en þetta var 12. árið í röð sem ég tek þátt í því. Yfirleitt hef ég þá hlaupið heilt maraþon, eins og ég gerði núna, en stundum hálft. Þetta gekk svo sem eins og við mátti búast miðað við óheppilega tímasett tveggja vikna hlaupahlé eftir Arnarvatnsheiðina. Ég varð bara aðeins of þreyttur síðustu 15 kílómetrana og tíminn í samræmi við það, nokkuð undir væntingum, 3:21:16 klst. Ég átti að geta betur, en í maraþonhlaupi þarf margt að ganga upp. Veðrið var dásamlegt og dagurinn fullur af gleði, hvað sem tímanum leið.

Þreyttur en glaður út við Gróttu eftir 37 km af 42 í Reykjavíkurmaraþoninu. (Ljósm. Hlaup.is).
Í Haustmaraþoni Félags maraþonhlaupara ætlaði ég að bæta fyrir þennan fremur slaka tíma í Reykjavíkurmaraþoninu. Það fór samt á svipaða leið, e.t.v. að hluta fyrir tilstilli vinds og vætu sem gerðu vart við sig á leiðinni. Lokatíminn var 3:22:40 klst, en mér leið nú samt bara vel lengst af og líka það sem eftir var dagsins.
Síðasta keppnishlaup ársins var svo Powerade vetrarhlaup í Árbænum 10. nóvember. Mér leið mjög illa í þessu hlaupi og fann til í ökklunum í hverju skrefi. Þarna var á ferðinni eitthvert uppáfallandi vandamál sem hafði engin eftirköst og tengdist e.t.v. bara skónum sem ég var í. Lokatíminn var 44:57 mín, sem var u.þ.b. heilli mínútu lakari tími en mér datt í hug að ég gæti náð í 10 km hlaupi. En mér var svo sem alveg sama. Þetta var bara áfangi á einhverri leið og alls engin endalok. Hlaupagleðin skemmdist ekkert þennan dag.
Fjallvegahlaupin
Sumarið 2016 var síðasta sumarið í fjallvegahlaupaverkefninu sem ég gaf sjálfum mér í fimmtugsafmælisgjöf í mars 2007 og til þess að svíkja ekki sjálfan mig þurfti ég að ljúka 7 hlaupum þetta sumar. Það gekk allt eins og í sögu með hjálp góðra manna á borð við Björk og Sævar Skaptason, sem bæði hjálpuðu mikið til við framkvæmd verksins á þessum lokaspretti.

Hlaupið norður úr Arnardalsskarði.
Fjallvegahlaupavertíðin 2016 hófst með hlaupi yfir Arnardalsskarð á Snæfellsnesi í maí í sól og blíðu. Arnardalsskarð er hár og brattur fjallvegur og útsýnið á leiðinni er með því besta sem gerist. Nokkrum dögum seinna var það svo Svínbjúgur milli Hörðudals í Dölum og Hítardals á Mýrum. Þar hrepptum við stífan mótvind en upplifunin var engu lakari fyrir það. Um miðjan júni var svo Þingmannaleið hlaupin yfir Vaðlaheiði með afskaplega fríðum hópi hlaupara frá Akureyri og daginn eftir lá leiðin yfir Kiðaskarð milli Skagafjarðar og Svartárdals, sömuleiðis með fríðum hópi þótt fámennari væri. Um miðjan júlí bættust tveir vestfirskir fjallvegir í safnið, sem báðir fara í hóp þeirra eftirminnilegustu. Sá fyrri var Klofningsheiði frá Flateyri til Suðureyrar, þar sem mér tókst að leiða hópinn í ógöngur, ekki bara einu sinni heldur tvisvar. En þetta var hraust fólk og veðrið eins og best verður á kosið, þannig að þegar upp var staðið var þetta einfaldlega dásamlegt. Síðari fjallvegurinn vestra var Sléttuheiði úr Aðalvík að Hesteyri. Þessi leið var öðruvísi en allar hinar 49 leiðirnar í fjallvegahlaupaverkefninu að því leyti að þarna er hvorki hægt að komast akandi að rásmarkinu né endamarkinu. Svo er líka alltaf eitthvað sérstakt að hlaupa um heiðar milli eyðibyggða þar sem horfin gleði og horfnar sorgir eiga enn bústað í hverjum steini, eða kannski aðallega í þokunni, eins og staðan var þennan júlídag.

Við hjónin á heimleið frá Hesteyri eftir Sléttuheiðarhlaupið.
Fjallvegahlaupunum lauk svo eins og til stóð með langlengsta hlaupi verkefnisins yfir Arnarvatnsheiði 23. júlí. Þar hlupum við rúmlega 81 km úr Miðfirði suður að Kalmanstungu tíu saman, dyggilega studd af áhöfninni á trússbílnum Hrímni II sem Sævar Skaptason útvegaði til verksins. Síðustu kílómetrana bættist okkur svo liðsauki úr Borgarnesi og af Ströndum og um kvöldið buðum við hjónin öllum þátttakendum verkefnisins og fjölskyldunni okkar til lokahófs í Húsafelli. Ég held að ekki sé á aðra daga ársins hallað þó að því sé haldið fram að þessi hafi verið sá stærsti, hvort sem það er mælt í hlaupavegalengd eða í öðrum tiltækum mælieiningum.

Með Arnarvatnsheiðarhlaupurum við Kalmanstungu eftir góðan dag á fjöllum. (Ljósm. Etienne Menétrey)
Öllum fjallvegahlaupunum eru gerð ítarleg skil á heimasíðu verkefnisins og á sextugsafmælinu mínu 18. mars 2017 kemur út bók um þetta allt saman.
Skemmtihlaupin
Árlega stend ég fyrir eða á einhvern þátt í þremur skemmtihlaupum, sem hvorki eru keppnishlaup né formleg fjallvegahlaup. Þar ber fyrst að nefna hinn árlega Háfslækjarhring sem jafnan er hlaupinn á uppstigningardag. Raunar má segja að þetta sé fyrst og fremst matarboð, sem má þá orða þannig að á uppstigningardag á hverju ári bjóðum við hjónin fólki í mat, með því skilyrði að það hlaupi Háfslækjarhringinn fyrst. Umræddur hringur er í nágrenni Borgarness, rúmlega 21 km að lengd heiman að frá mér og heim. Nú var þetta hlaup þreytt í 8. sinn og boðsgestir voru 17 talsins.

Unnið fyrir mat sínum í norðanáttinni.
Hin tvö skemmtihlaupin eru Þrístrendingur og Hamingjuhlaupið, sem oftast lenda hvort á sínum laugardeginum seint í júní. Þrístrendingur er hugarfóstur okkar Dofra Hermannssonar, en móðir mín og afi hans voru systkini og ólust upp á Kleifum í Gilsfirði. Þaðan hlaupum við einu sinni ári norður Steinadalsheiði til Kollafjarðar, yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf í Bitru og loks suður (eða vestur) Krossárdal að Kleifum. Hringurinn allur er um 40 km, en auðvelt er að skipta honum upp í þrjá áfanga. Nú var þessi leið hlaupin í 7. sinn laugardaginn 18. júní. Þátttakendur voru 12 þegar allt er talið, þar af 4 sem hlupu alla leið. Allt er þetta tíundað í smáatriðum í viðeigandi bloggpistli.

Sum föt henta einfaldlega betur en önnur að loknum Þrístrendingi.
Hamingjuhlaupið fór fram tveimur vikum eftir Þrístrending, þ.e.a.s. laugardaginn 2. júlí. Það var nú haldið í 8. sinn í tengslum við Hamingjudaga á Hólmavík og að þessu sinni lá leiðin frá Laugarhóli í Bjarnarfirði, yfir Bjarnarfjarðarháls eftir gamalli leið frá Hvammi að Sandnesi og þaðan til Hólmavíkur, samtals rétt um það bil 33,76 km. Þar biðu tertur að vanda. Þátttakendur komu víða að, svo sem af Ströndum, úr Borgarnesi, Reykjavík og Kanada. Veðrið var svalt en nokkurn veginn þurrt – og hamingjan jókst með hverju skrefi!

Hamingjuhlauparar á Bjarnarfjarðarhálsi 2. júlí 2016. F.v. Birkir Þór Stefánsson, Gunnar Viðar Gunnarsson, Noémie Godin, Ari Hermann Oddsson, Magnús Steingrímsson, Haukur Þór Lúðvíksson, Kristinn Óskar Sigmundsson og Ragnar Kristinn Bragason.
Markmiðin 2017
Nýju ári fylgja ný markmið, sum alveg ný en önnur endurnotuð. Tvö eftirtalinna markmiða falla í fyrri flokkinn en þrjú í þann síðari:
- Bæting í 5 km götuhlaupi (undir 19:39 mín) (endurnotað)
- Bæting á Laugaveginum (undir 5:41:10 klst) (NÝTT)
- Bæting í maraþoni (undir 3:08:19 klst) (NÝTT)
- A.m.k. eitt keppnishlaup á braut (endurnotað)
- Gleðin með í för í öllum hlaupum (endurnotað og sígilt)
Á þessum lista er svo sem ekkert óvænt. Meira að segja nýju markmiðin byggjast á gömlum hugmyndum, eins og ráða má af eftirfarandi texta sem ég skrifaði fyrir rúmu ári síðan:
Talandi um markmið, þá eru áformin fyrir árið 2017 líka tekin að skýrast. Þá á að reyna að slá persónuleg met í maraþoni og á Laugaveginum. Held að það verði ágæt sextugsafmælisgjöf. Svo er eitthvað verið að tala um 90 km hlaup í Svíþjóð sumarið 2018. Á maður ekki að reyna að vera framsýnn?
Já, vel á minnst! Ég er alveg að verða sextugur. Hverjum nýjum áratug fylgja ný tækifæri og nýjar áskoranir.
Sextugsafmæli og fjallvegahlaupabók
Eins og fram kemur hér að framan er fjallvegahlaupabók á leiðinni. Hún verður formlega gefin út og kynnt á sextugsafmælinu mínu 18. mars í útgáfuhófi Bókaútgáfunnar Sölku á Kex Hostel í Reykjavík. Þangað eru allir velkomnir!
Filed under: Hlaup |
[…] Hlaupaannáll 2016 og markmiðin 2017 […]
[…] klst) og 2015 (5:41:10 klst). Þetta hefur sem sagt verið saga stöðugra framfara. Eitt stærsta hlaupamarkmiðið mitt fyrir árið 2017 er að framlengja þessa sögu, þ.e.a.s. að bæta tímann minn frá 2015, þó ekki væri nema um […]
[…] setti mér fimm hlaupatengd markmið fyrir árið 2017 og náði bara einu þeirra, nefnilega að hafa gleðina með í för í öllum hlaupum. Það […]