• Heimsóknir

  • 119.039 hits
 • ágúst 2016
  S M F V F F S
   123456
  78910111213
  14151617181920
  21222324252627
  28293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Tvöföld Vesturgata öðru sinni

Miði með millitímum frá 2014

Miði með millitímum frá 2014

Á dögunum hljóp ég tvöfalda Vesturgötu í annað sinn, en þessa leið fór ég fyrst sumarið 2014. Sú ferð var mikil gleðiferð eins og ráða má af þar til gerðum bloggpistli og eðlilega langaði mig til að endurtaka gleðina. Í stuttu máli sagt tókst það fullkomlega. Auðvitað er hver ferð sérstök og það sem gleður í einni ferð er e.t.v. ekki til staðar í þeirri næstu. En þá kemur bara einhver önnur og nýrri gleði í staðinn.

Hvað er tvöföld Vesturgata?
Tvöföld Vesturgata er keppnishlaup sem er hluti af Hlaupahátíð á Vestfjörðum. Lagt er af stað frá Þingeyri í Dýrafirði, hlaupið inn Kirkjubólsdal, yfir Álftamýrarheiði niður í Fossdal í Arnarfirði, út að Stapadal og áfram eftir Kjaransbraut og Svalvogavegi út í Svalvoga og inn að Sveinseyri við Dýrafjörð. Leiðin öll er 45 km og liggur um stórbrotið landslag og eitt af ótrúlegustu mannvirkjum á Íslandi, þ.e.a.s. veginn sem Elís Kjaran kroppaði inn í þverhníptar hlíðar sumarið 1973 á örsmárri jarðýtu, nánast fyrir eigin reikning þrátt fyrir „loforð um 400 þúsund hjá Þorvaldi Garðari, 500 þúsund hjá Steingrími og Fálkaorðuna hjá Hannibal“, eins og Elís orðaði það sjálfur, (Elís Kjaran (2007): Svalvogavegur. Kafli úr lífsbók minni ásamt vísnagátum. Vestfirska forlagið, Brekku í Dýrafirði, (bls. 34)).

Þátttaka mín í tvöföldu Vesturgötunni þetta árið var hluti af vikulangri hlaupaferð til Vestfjarða. Mestan hluta þessarar viku bjuggum við hjónin ásamt fleira fólki í sumarbústað í Önundarfirði og þaðan var gert út til þátttöku í hinum ýmsu hlaupum, ýmist á malbiki eða á fjöllum. Frá þessum bústað lögðum við einmitt af stað fimm saman í bítið að morgni sunnudagsins 17. júlí, þ.e.a.s. ég sjálfur, Gunnar Viðar hlaupafélagi minn úr Borgarnesi, Birkir Þór Stefánsson bóndi í Tröllatungu á Ströndum og hjónin Sævar Skaptason og Bryndís Óladóttir sem hafa fylgt mér í fleiri hlaupum um fjöll en nokkrir aðrir.

Tvöföld Vesturgata á korti með áfangaskiptingu SG.

Tvöföld Vesturgata á korti með áfangaskiptingu SG.

Áætlun dagsins
Ég legg yfirleitt ekki af stað í hlaup án þess að vera með áætlun eða markmið. Í þetta skiptið var markmiðið einfalt: Ég ætlaði að bæta tímann minn frá sumrinu 2014, þ.e.a.s. að hlaupa á betri tíma en 4:12:03 klst. Aðgerðaáætlunin sem fylgdi þessu markmiði var líka einföld: Sem flestir áfangar hlaupsins skyldu hlaupnir hraðar en síðast, sérstaklega fyrri hluti hlaupsins inn Kirkjubólsdal og yfir Álftamýrarheiði. Ég taldi mig nefnilega vera sterkari í brekkum en ég var 2014. Það mat mitt byggði ég á vel heppnuðum hraðferðum upp og niður Hafnarfjallið fyrr í sumar. Ég var því bjartsýnn á að markmiðið næðist. Við þetta bættist svo að sumarið 2014 tóku aðeins þrír karlar og tvær konur þátt í hlaupinu og við karlarnir (Gunnar Viðar, Klemenz og ég) fylgdumst allir að yfir heiðina og vorum meira í því að spjalla en flýta okkur. Þar hlutu því að liggja tækifæri til úrbóta hvað hlaupatímann varðaði. Eftir að yfir heiðina væri komið myndi ég svo bara þurfa að þrauka og þá væri markmiðið í höfn.

Til þess að sem auðveldast yrði að fylgjast með framgangi áætlunarinnar skipti ég hlaupinu fyrirfram í sömu áfanga og ég gerði 2014. Og til að vera nú alveg viss um að stopult minni myndi ekki rugla mig í útreikningunum skrifaði ég alla millitímana frá 2014 á miða sem ég tók með mér í hlaupið, (sjá mynd efst í þessum pistli).

26 hlauparar
Hlaupið var ræst við kirkjuna á Þingeyri stundvíslega kl. 8 þennan sunnudagsmorgun í hægum vindi, þurrviðri og u.þ.b. 10 stiga hita. Þátttakendur voru fimmfalt fleiri en síðast eða samtals 26, þar af 20 karlar og 6 konur. Í þessum hópi voru m.a. tveir bestu langhlauparar Íslands, þeir Kári Steinn Karlsson og Þorbergur Ingi Jónsson. Það var því næsta víst að ég yrði ekki með í baráttunni um gullið.

1. áfangi: Þingeyri-Kirkjuból
Ég fór talsvert hraðar af stað en í hlaupinu 2014, enda var það líka ætlunin. Svo er líka alltaf hvetjandi að hafa hraðari hlaupara á undan sér. Kári Steinn og Þorbergur hurfu svo sem strax, en þarna var líka hópur af öðrum mönnum sem voru nær mér að getu en þó ívið hraðari. Í þannig félagsskap hleypur maður gjarnan hraðar en ella.

Strax á fyrstu kílómetrunum skýrðust línur. Kári Steinn og Þorbergur voru strax orðnir langfyrstir og tveir erlendir hlauparar fóru í humátt á eftir þeim. Gunnar Atli, Gauti Gíslason og Guðmundur Guðnason mynduðu næsta hóp þar á eftir og ég fylgdi þeim til að byrja með. Gunnar Viðar og Birkir voru heldur ekki langt undan og Svíinn Linus Björk var líka þarna einhvers staðar. Þar fyrir aftan myndaðist strax bil sem ég bjóst varla við að myndi lokast.

Í hlaupinu 2014 var ég 28:18 mín. inn að Kirkjubóli, en þangað eru u.þ.b. 5,63 km frá Þingeyri. Í þetta skiptið sýndi klukkan 27:34 mín sem þýddi að ég var strax kominn með 44 sek í „plús“, þ.e.a.s. kominn með 44 sek forskot miðað við hlaupið 2014. Þar með var ég strax næstum sannfærður um að ég myndi ná markmiðinu, þ.e.a.s. ef allt gengi áfallalaust fyrir sig. Þetta var góð tilfinning.

2. áfangi: Kirkjuból-Álftamýrarheiði
Á leiðinni inn Kirkjubólsdal dróst ég aftur úr þremenningunum sem fyrr voru nefndir og fylgdist þess í stað með Gunnari, Birki og Línusi. Mér fannst ég frekar þungur á mér á þessum kafla og var ekki alveg frá því að í fótum mér leyndust eftirstöðvar af Arnarneshlaupinu einum og hálfum sólarhring fyrr. Þar hafði ég lagt 10 km að baki á 40:44 mín, sem var upp á sekúndu sami tími og í sama hlaupi 2014, (sem þá hét reyndar Óshlíðarhlaup). Það var enn ein vísbending um að ég væri ekki verr á mig kominn en þá. Þrátt fyrir þyngslin í fótunum hafði ég líka á tilfinningunni að hraðinn væri meiri en 2014. Og ef það skyldi nú vera misskilningur þóttist ég viss um að ég myndi vinna þetta upp á leiðinni upp heiðina, eða þá að minnsta kosti niður hana hinum megin enda tiltölulega góður á undanhaldinu.

Þegar við vorum komnir í brekkurnar voru þremenningarnir að mestu horfnir úr augsýn og þarna skildi Birkir bóndi okkur Gunnar líka eftir. Brekkur eru kjörlendi Birkis og það síðasta sem við sáum til hans var að hann var búinn að ná hinum. Linus dróst hins vegar afturúr, enda sagðist hann vera linur upp brekkur en fljótur niður.

Þegar þarna var komið sögu var okkur Gunnar farið að lengja eftir drykkjarstöð. Ég hafði búist við fyrstu stöð niðri í dalnum eftir svo sem 7-10 km, en nú var kílómetramælirinn „alveg að detta“ í 12 km og ekkert að frétta af drykkjunum. Ég hafði ákveðið, rétt eins og síðast, að hlaupa vatnslaus og reiða mig á brynningar á leiðinni. Þannig finnst mér ég verða ögn léttari og frjálsari. En þetta var svo sem allt í lagi. Vatnslöngunin er aðallega huglæg svona snemma í hlaupi. Það er líklega ekki fyrr en eftir 20 km eða meira sem þetta fer að skipta einhverju máli í raun. Og ofarlega í brekkunum birtist drykkjarstöðin líka allt í einu og þá skellti ég í mig einu orkugeli til að viðhalda þokkalegu næringarjafnvægi. Þegar til átti að taka var hins vegar ekkert vatn í boði á þessari drykkjarstöð, heldur bara orkudrykkir. Svoleiðis lagað drekk ég aldrei ótilneyddur. Í sumum orkudrykkjum eru gervisætuefni sem ég held að séu manni frekar til armæðu en gagns. Gunnar var hins vegar svo vinsamlegur að gefa mér af vatnsbirgðunum sínum og þannig gat ég skolað gelinu niður vandræðalaust. Staðsetning og framboð á þessari tilteknu drykkjarstöð var það eina sem fór úrskeiðis í framkvæmd þessa hlaups. Allt annað var að mínu mati eins og best gerist. Jafnvel betra!

Og skömmu síðar vorum við Gunnar komnir í skarðið á háheiðinni, sem ég hef haldið að heiti Kvennaskarð en heitir það líklega ekki. Þarna voru 13,96 km að baki og klukkan sýndi 1:23:41 klst. Nú var ég glaður! Við höfðum greinilega verið miklu fljótari upp brekkurnar en síðast og allt í einu var forskotið komið í 5:30 mín.

3. áfangi: Niður heiðina
Ég var ákveðinn í að njóta þess að hlaupa eins og fætur toguðu niður í Fossdal, fullviss um að niðurhlaupin á Hafnarfjalli hefðu gert sitt gagn. Mér leið stórvel og hlakkaði til framhaldsins. En allt í einu var Gunnar horfinn. Ég hafði svolitlar áhyggjur af honum en vissi svo sem að ég gæti ekkert gert í málinu, hvert sem málið væri. Málið var eitthvert magavesen, en ég frétti auðvitað ekkert af því fyrr en við hittumst á marksvæðinu löngu síðar.

Þrátt fyrir dágóðan hraða niður brekkurnar geystist Linus fram úr mér. Ég var þá einn eftir, í 10. sæti í hlaupinu þá stundina. Neðar í brekkunum datt Linus en slapp sem betur fer með smáskrámur. Þar náði ég líka Guðmundi Guðnasyni og við þrír fylgdumst að mestu leyti að þar til við vorum komnir niður á veg Arnarfjarðarmegin. Þarna voru 19,67 km að baki, millitíminn 1:47:53 klst. og forskotið komið í 6:29 mín miðað við hlaupið 2014. Þetta gekk alveg eins og í sögu hjá mér. Meðalhraðinn niður heiðina hafði verið 4:14 mín/km.

4. áfangi: Út í Stapadal
Mér er það sérstakt tilhlökkunarefni í tvöföldu Vesturgötunni að koma út í Stapadal. Þar finnst mér fyrri hluta hlaupsins lokið, en hitt er þó meira að þar hittir maður hlauparana sem eru að bíða eftir því að hið hefðbundna 24 km Vesturgötuhlaup verði ræst. Hvatningin sem bíður manns þarna er aðaltilhlökkunarefnið. Í Stapadal voru 20,94 km að baki og millitíminn 1:53:50 mín, þ.e.a.s. 7:48 mín betri en í hlaupinu 2014. Tilhlökkunin hafði greinilega nýst mér vel. Meðalhraðinn þennan stutta spöl út með Arnarfirði hafði verið 4:41 mín/km þó að leiðin sé hreint ekki öll lárétt. Og ég sá í hendi mér að ég gæti lokið hlaupinu á 4:04 mín, bara með því að halda í horfinu það sem eftir lifði hlaups, þ.e. með því að halda sama hraða og 2014. Þetta var við það að fara fram úr björtustu vonum.

5. áfangi: Þar til 20 km eru eftir
Mér finnst sérstaklega gaman að hlaupa fyrsta spölinn út fjöruna fyrir utan Stapadal. Undirlagið er reyndar frekar erfitt því að þarna er hlaupið í óvenjugrófri sjávarmöl, eða næstum því sjávargrjóti. En þetta svæði er bara svo einstakt að maður getur ekki annað en verið glaður að fá tækifæri til að hlaupa þarna um, vel varinn fyrir þeim náttúruöflum sem gerðu lífsbaráttuna þarna eins harða og raun bar vitni.

Í flestum götuhlaupum sýna kílómetramerkingar hversu langt er liðið á hlaupið, en í Vesturgötunni sýna skilti þann fjölda kílómetra sem eftir er. Þetta finnst mér skemmtileg tilbreyting, auk þess sem þetta auðveldar framkvæmd hlaupa þar sem fleiri en ein vegalengd er í boði en endamarkið það sama. Samkvæmt áætluninni skyldi næsti millitími tekinn þegar 20 km væru eftir.

Við Guðmundur fylgdumst að fyrstu kílómetrana út með firðinum. Hann stefndi að því að ljúka hlaupinu á svipuðum tíma og ég gerði 2014, en þá einsetti ég mér að ljúka síðustu fjórum 5 km köflunum í hlaupinu á 27:30 mín að meðaltali. Þegar við komum að 20 km skiltinu (u.þ.b. 25 km að baki) sýndi klukkan 2:15:49 klst. Forskotið á 2014-hlaupið hafði enn aukist lítillega og var komið í 7:59 mín. Guðmundur hafði orð á því að ég gæti hugsanlega náð undir fjóra tímana. Það hafði vissulega hvarflað að mér, en þá þyrfti forskotið að aukast úr 8 mínútum í 12, sem þýddi að ég yrði að sneiða heila mínútu af hverjum 5 km kafla sem eftir væri. Ég sá að það var ekki raunhæft. Hálf mínúta á hverja 5 km væri líklega það mesta sem ég gæti gert mér vonir um og þá myndi lokatíminn verða um 4:02 klst, en 4:04 ef ég næði bara að halda í horfinu. Það yrði að duga í þetta sinn, hvað sem síðar yrði.

6. áfangi: Þar til 15 km eru eftir
Þegar 15 km eru eftir af tvöfaldri Vesturgötu eru 30 km búnir. Um það leyti eru flestir teknir að lýjast. Mér fannst líka heldur vera farið að hægjast á mér, en í hvert sinn sem ég leit á hraðamælinn í GPS-úrinu („peisið“ (eða kannski „peysið“(?))) var hraðinn meiri en ég hélt. Þetta gekk sem sagt alveg áætlega og í raun fann ég lítið fyrir þreytu. Guðmundur var farinn að dragast aðeins aftur úr þegar hér var komið sögu, Linus hafði ég ekki séð lengi og Gauti var ekki svo ýkja langt á undan mér. Ég var sem sagt í 8. sæti í hlaupinu um þetta leyti. Eins og ég hef margsagt og skrifað skiptir það mig svo sem engu máli hvort ég er á undan einhverjum eða eftir, því að ég sjálfur er alltaf eini keppinauturinn sem ég þarf að hafa áhyggjur af. En samt er hvetjandi að sjá einhvern á undan sér og reyna að ná honum. Í því felst líka afþreying fyrir hugann. Þegar 15 km voru eftir sýndi klukkan 2:43:07 klst. Forskotið var komið í 8:45 mín sem leit reyndar býsna vel út. Lokatími upp á 4:00 var svo sem enn fræðilegur möguleiki, en ég mat stöðuna þó svo að 4:02-4:04 væri ennþá það sem eðlilegt væri að miða við.

7. áfangi: Þar til 10 km eru eftir
Einhvers staðar langt út með Arnarfirðinum fór ég fram úr tveimur hlaupurum, þ.e.a.s. Gauta og breskum hlaupara sem hafði verið annar þeirra tveggja sem fylgdu í humátt á eftir Kára Steini og Þorbergi í upphafi hlaups. Bretinn sagðist hafa átt betri daga. Eftir þetta var ég einn míns liðs þar til undir lok hlaupsins. Var orðinn svolítið lúinn en naut þess virkilega að hlaupa í þessu ótrúlega umhverfi. Úti við Svalvoga var ljósmyndari sem gaf mér tilefni til að hlaupa léttilega upp brekku sem ég hefði annars líklega gengið og þegar upp var komið blasti 10 km skiltið við. Klukkan sýndi 3:09,23 klst., sem var 8:50 mín betra en 2014. Ávinningurinn síðustu 5 km hafði sem sagt ekki verið nema 5 sek, en enn voru þó allir áfangar hraðari en síðast. Það gat hins vegar orðið erfitt yrði að halda þessu forskoti, því að eflaust hafði meiri hraði á Álftamýrarheiðinni tekið sinn toll í þetta skiptið.

Við Svalvoga. (Ljósm. Guðmundur Ágústsson)

Hlaupið fyrir ljósmyndara við Svalvoga. (Ljósm. Guðmundur Ágústsson)

8. áfangi: Þar til 5 km eru eftir
Næstu kílómetrar voru tíðindalitlir. Aðalviðfangsefnið var að þrauka þannig að ekki drægi mikið úr hraðanum. Þegar ég kom upp á hæðir eða út í beygjur á veginum var ég farinn að eygja Gunnar Atla nokkur hundruð metrum á undan mér. Hugsaði með mér að gaman væri að ná honum, þó að forskotið virtist reyndar heldur mikið. Ég var hins vegar hissa á að vera ekkert farinn að sjá til Birkis bónda. Ég var ekkert hissa á að hann væri fljótur yfir heiðina, en mér hafði frómt frá sagt ekki dottið í hug að hann gæti haldið út svona lengi á þessum hraða. Hæfileikana vantar ekki, en Birkir er erfiðisvinnumaður og ég vissi að miðað við æfingamagn sumarsins ætti hann að vera löngu sestur út í kant ef hann væri einhver meðalmaður að upplagi.

Rétt utan við Keldudal kom ég að 5 km skiltinu. Þetta var alveg að verða búið og nóg eftir af gleði í sinninu. Klukkan sýndi 3:37:35 klst sem þýddi að ég hafði ekki alveg náð að halda í horfinu síðustu 5 km. Forskotið á tímann frá 2014 hafði minnkað niður í 8:47 mín. Allt innan skekkjumarka, en ég vissi að ég yrði að hafa mig allan við til að ljúka hlaupinu á 4:03 klst. Líklega yrði ég nær 4:04.

9. áfangi: Síðustu 5 kílómetrarnir
Nú var ég farinn að taka hvern kílómetra fyrir sig og hugarreikningsæfingarnar gengu út á að giska á líklegan lokatíma. Gunnar Atli virtist alltaf vera í svipaðri fjarlægð en allt í einu var ég búinn að ná Birki. Mér fannst hann hafa unnið ótrúlegt afrek að halda hraðanum í rúmlega 40 km, en hann var á öðru máli og sagði alla vera að fara fram úr sér. Allir voru engir nema Gunnar Atli og ég, en auðvitað verður maður svolítið svartsýnn þegar þreytan sverfur að.

Í brekkunni upp úr Keldudal rifjaði ég upp það sem ég hafði lesið kvöldið áður í Vesturgötupistlinum mínum frá 2014 að þá hefði ég náð að skokka upp alla brekkuna. Það varð mér hvatning til að gera slíkt hið sama núna. Annað hefði verið merki um afturför og líklega leitt til lakari lokatíma en vonir stóðu til. Á brekkubrúninni voru ekki nema 2,5 km í mark og ég var ekki þreyttari en svo að ég gat notið hvers einasta metra sem eftir var af hlaupinu. Brekkan niður að Sveinseyri var tekin á góðum og vaxandi hraða og eins og stundum áður var ég vandræðalega glaður þegar ég kom í markið. Lokatíminn var 4:03:20 klst, þ.e.a.s. 8:43 mín bæting frá því í hlaupinu 2014. Síðustu 5 km voru að vísu 4 sek. hægari en þá, en hverjum var ekki sama. Markmiðinu var náð og auk þess var ég í 5. sæti í hlaupinu á eftir Kára Steini, Þorbergi, Svíanum Markus Living og Gunnari Atla. Ég gat ekki með nokkru móti gert mér vonir um hagstæðari úrslit en þetta!

Á marklínunni í Dýrafirði. 45 km að baki. (Ljósm. Björk Jóh.)

Á marklínunni í Dýrafirði. 45 km að baki. (Ljósm. Björk Jóh.)

Að hlaupi loknu
Gleðin í markinu var enn meiri en ella þegar ég sá að Björk, Gitta og Etienne voru öll mætt til að taka á móti mér og hinum fjórum sem lögt höfðu upp frá bústaðnum í Önundarfirði snemma um morguninn. Svo var þarna fjöldinn allur af öðru fólki sem ég þekki og þekki ekki – og gleðin og gestrisnin í aðalhlutverki eins og ævinlega á Hlaupahátíð á Vestfjörðum. Mér finnst ekki á neinn hallað þótt ég fullyrði að hvergi gangi maður að þessum systrum eins vísum að hlaupi loknu og þarna.

Eitt af mörgu sem gladdi mig þennan dag var að heyra hversu margir höfðu haft Vesturgötupistilinn minn frá 2014 til hliðsjónar í undirbúningi hlaupsins. Þetta átti jafnt við um þann sem kom fyrstur og þann sem kom síðastur í mark og meira að segja Markus Living hafði rennt í gegnum pistilinn með dyggri aðstoð Google Translate. Svona vitneskja hvetur mig til að halda áfram að skrifa. Ég þarf reyndar ekki sárlega á slíkri hvatningu að halda. En hún er góð samt.

Þrír fyrstu menn í flokki 40-99 ára. F.v. SG, Gunnar Atli og Birkir. (Ljósm. Björk Jóh.)

Þrír fyrstu karlar 40-99 ára: SG, Gunnar Atli og Birkir. (Ljósm. Björk Jóh.)

Af mörgum tilfinningum sem eiga vísan stað í huga mínum að loknu góðu hlaupi er þakklætið jafnan með þeim efstu. Þennan dag var það efst. Ég var þakklátur forsjóninni fyrir að leyfa mér að leika mér eins og mér þykir skemmtilegast, þakklátur Björk og öllum hinum sem fylgdu mér í þessu hlaupi og í þessari Vestfjarðaferð og þakklátur öllu þessu frábæra fólki sem stendur að Hlaupahátíð á Vestfjörðum og hefur tekist að gera hana að þeirri gleðiveislu sem hún er.

Þetta var góður dagur.

Tölulegt uppgjör í boði Garmin Connect

Tölulegt uppgjör í boði Garmin Connect.

(Stærri mynd birtist ef smellt er á þessa).

6 svör

 1. […] ég hljóp þessa leið í fyrra sinnið. Ferðasöguna alla má lesa í miklum smáatriðum í þar til gerðri bloggfærslu frá liðnu sumri. Næsta markmið er að hlaupa þetta undir 4 klst. sumarið 2018. Það verður verðugt […]

 2. Kærar þakkir fyrir leiðarlýsinguna, sem nýtist frábærlega fyrir okkur hjónin sem erum að undirbúa fyrstu tvöfalda Vesturgötu. Ég tek eftir því að elevation gain / loss er talsvert mikil, t.d. 884/1.080 á 5 km kafla. Getur verið að uppgefin gildi séu fet fremur en metrar?

  • Gaman að sjá að þetta nýtist. Ég var reyndar ekki búinn að taka eftir þessum hæðartölum, en það er alveg klárt að þær standast ekki. Garmin Connect segir samt að þetta séu metrar en ekki fet. Strava (sem tekur vel að merkja bara upplýsingarnar frá Garmin) segir mér hins vegar að samanlögð hækkun í þessu hlaupi hafi verið 1.334 hæðarmetrar. Það er mun líklegra, en ég hefði þó giskað á enn lægri tölu. Álftamýrarheiðin er ekki nema 544 m, en vissulega er slatti af hæðum og hólum þar fyrir utan. Kannski er 1.334 m nærri lagi, miðað við Laugaveginn, sem mig minnir að eigi að vera með um 1.800 hæðarmetra. Þar er líka bara ein 500 m hæð sem þarf að skottast yfir, en slatti af lægri hæðum.

   Gangi ykkur sem allra best í hlaupinu!

   • Kærar þakkir!

   • Hlaupið gekk prýðilega og var mikil og góð upplifun. Hækkunin er á milli 1000 og 1100 metrar. Þakkir aftur fyrir lýsinguna, sem nýttist vel í undirbúningi 🙂

 3. Gott að heyra – og til hamingju með hlaupið. 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: