Í gærkvöldi tók ég í fyrsta sinn þátt í Landsmóti hagyrðinga, sem að þessu sinni var haldið í Stykkishólmi. Reyndar lít ég ekki á mig sem hagyrðing þó að ég hafi alist upp við kveðskap – og þó að tilfinning fyrir forminu sé mér líklega í blóð borin. Ég stunda nefnilega enga vísnagerð að staðaldri og hef nánast engin tengsl við „hagyrðingasamfélagið“, ef svo má að orði komast. En þarna var ég nú samt, nánar tiltekið sem fulltrúi Vesturlands í 6 manna hagyrðingapallborði frá öllum landshlutum. Dofri Hermannsson stjórnaði pallborðinu, sem e.t.v. skýrir þátttöku mína að einhverju leyti. Dofri er frændi minn.
Pallborðsumræður af því tagi sem hér segir frá, fara yfirleitt þannig fram að þátttakendur fá send yrkisefni með sæmilegum fyrirvara og mæta undirbúnir til leiks. Síðan skiptast þeir á að tjá sig í bundnu máli um hvert yrkisefni fyrir sig. Og stundum verða nýjar vísur til í hita leiksins. Þær eru oft skemmtilegastar. Það er nefnilega með vísur eins og fleira, að þær verða ekki endilega safaríkari eftir því sem þær eru soðnar lengur.
Hagyrðingapallborðið í Stykkishólmi var svipað öðrum slíkum. Þarna sátum við sem sagt 6 saman eins og fyrr segir, og höfðum öll fengið yrkisefnin send frá Dofra með góðum fyrirvara. Auk mín sátu þarna þau Magnús Stefánsson á Fáskrúðsfirði fyrir Austurland, Davíð Hjálmar Haraldsson á Akureyri fyrir Norðurland, Guðmundur Stefánsson í Hraungerði fyrir Suðurland, Halla Gunnarsdóttir í Reykjavík fyrir höfuðborgarsvæðið og Helga Guðný Kristjánsdóttir í Botni II í Súgandafirði fyrir Vestfirði.
Hér á eftir ætla ég að opinbera hluta af framlagi mínu til pallborðsumræðnanna. Reyndar er eðlilegt að byrja á vísu sem varð til áður en ég lagði af stað, þó að hún kæmi ekki fram á pallborðinu:
Sólin brosir sumarleg.
Set ég í bílinn dótið.
Stykkishólmur, hér kem ég
á hagyrðingamótið.
Eitt af yrkisefnunum var hækkandi meðalaldur bænda, en nýliðun í þeirri stétt hefur af ýmsum ástæðum verið óþarflega lítil. Ég nefndi í inngangi að kveðskap mínum um þetta efni, að ég hefði eiginlega verið bóndi í æsku, enda skráður fyrir 30 kindum þegar best lét á menntaskólaárunum.
Ef ég bóndi yrði að nýju,
yngjast myndi fljótt og létt,
því karlar undir 80
eru unglingar í þeirri stétt.
Og svo bættist önnur við, sem ég setti reyndar saman fyrir 2-3 árum:
Búskapur hefur breyst eins og gengur,
bændamenningin orðin klén.
Mógrafir sjást ekki í sveitinni lengur,
en sínu meira um skuldafen.
Sjálfstæði þjóðarinnar var næsta yrkisefni:
Sjálfstæðið er heilagt okkur öllum,
en óþarfi að kveðja það með sút,
ef Kínverjar gista á Grímsstöðum á Fjöllum
og geta borgað skikkanlega út.Á Fróni er fallvölt gæfan,
„fyrst um dags morgunstund“:
Um Grímsstaði, Tíbet og Taiwan
ég tipla á kínverskri grund.
Eitt af frumlegri yrkisefnunum voru transfitusýrur, en þátttakendur í pallborðinu voru ekki allir jafnhrifnir af því viðfangsefni.
Af hollustu hraustur mig fylli
og hráfæði útbý af snilli
og fiskrétt með glans,
en svo fell ég í trans-
fitusýrur á milli.
Framsóknarflokkurinn hefur, hvernig sem á því stendur, löngum legið betur við höggi en aðrar stjórnmálahreyfingar hvað vísnagerð varðar. Að þessu sinni var m.a. lagt til að fjallað yrði um brotthvarf Guðmundar Steingrímssonar úr flokknum og e.t.v. einnig um yfirstandandi megrunarkúr formanns flokksins.
Framsókn er orðin alveg bakk.
Að henni meinin sverfa:
Erfðaprinsinn farinn á flakk
og formaðurinn að hverfa.
Ég hef áður gert nokkrar framsóknarvísur af mismunandi tilefnum. Mér hefur t.d. stundum gengið illa að fylgjast með því hverjir séu í flokknum og hverjir ekki, eða jafnvel hvaða flokkur þetta sé yfirleitt. Einhvern tímann leiddi þetta til eftirfarandi samsuðu, sem ég lét líka fljóta með í gærkvöldi:
Síkvikur stjórnmálasærinn er
sem ég bý við:
Framsókn er gengin úr sjálfri sér.
Svona er lífið.
Undir lokin áttu þátttakendur að útskýra ágæti eigin landshluta umfram aðra. Ég hlaut því að yrkja um yfirburði Vesturlands:
Fyrir norðan ég norðurljós best fann
og nóg getur Suðurland hresst mann.
Svo er Austurland flott,
samt er ekkert eins gott
og að vera með mér fyrir vestan.
Síðasta verkefnið var „vísa að eigin vali“ eins og það var orðað í forskrift stjórnandans:
Í Hólminum fylltu hagyrðingar sali,
og hetjukvæðin voru í röðum flutt.
En þetta er bara vísa að eigin vali,
voða stutt.
Ég get svo sem bætt við þetta einni vísu, sem ég gerði á staðnum í framhaldi af erindi sem heiðursgestur mótsins, Dr. Ragnar Ingi Aðalsteinsson hélt, en þar færði hann m.a. sterk rök fyrir því að vísnaformið væri síður en svo að deyja út. Þvert á móti stæði vísnagerð í blóma sem aldrei fyrr, og jafnvel grunnskólabörn sýndu mikla færni á þessu sviði, hvað sem liði öllu tali um afar háan meðalaldur hagyrðinga. Seinna um kvöldið hafði Gísli Einarsson, sem stjórnaði samkomunni, orð á því að við eitt borðið í salnum sæti hópur af fólki sem lækkaði meðalaldurinn í salnum mjög verulega. Þetta kallaði hann „barnaborðið“. Við annað tækifæri var óskað eftir vísum úr sal, og þá hvatti Gísli landsmótsgesti til að yrkja eins og … (eitthvað sem ekki verður nefnt í óbundnu máli á svona virðulegri bloggsíðu). En út úr þessu kom alla vega þetta:
Gömul kvæðagen að virkja
gengur seint – til notkunar.
En hiklaust börnin ungu yrkja
eins og moðerfokkerar.
Lýkur hér að segja frá mínum þætti í Landsmóti hagyrðinga. Ég get þó upplýst að lokum að fólki leiddist ekkert þarna, enda var margt fleira til skemmtunar en hagyrðingapallborðið, svo margt að dagskráin stóð linnulaust í fjóran og hálfan klukkutíma. Þá er harmonikkuballið ekki meðtalið, enda fór ég heim áður en það byrjaði.
Filed under: Kveðskapur |
Einu sinni orti ég vísur í Stykkishólmi. Það var á framboðsfundi en þegar leið á fundinn óttaðist löggan um ófærð og kom þeim skilaboðum til okkur fundarstjóranna (ég var sko annar fundarstjórinn). Ég sleit fundi með eftirfarandi vísum:
Frambjóðendur flestir hafa
í fjármál miklu púðri eytt
En úti er samt farið að snjóa og skafa
og mikið skelfing er ég orðin þreytt.
Því mér þætt vel við hæfi
þá flestur yndu vel við sitt
að allir hérna stjórnmál svæfi
skundi heim og geri hitt!
Gaman að lesa. Ég kætist æ þegar ég sé að þjóðaríþróttin lifir.
En ekki dettur mér í hug nein staka að svo stöddu:)