• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • júní 2023
    S M F V F F S
     123
    45678910
    11121314151617
    18192021222324
    252627282930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Tvær vikur í Snjáfjallahringinn

Snjáfjallahringurinn

Nú styttist í fjallvegahlaup nr. 27, 28 og 29, nefnilega Snjáfjallahringinn (Snæfjallaheiði, Staðarheiði og Dalsheiði) sem ég ætla að hlaupa laugardaginn 28. júlí. Ætlunin er að leggja upp frá Unaðsdal kl. 9 árdegis og hlaupa sem leið liggur út Snæfjallaströnd og yfir Snæfjallaheiði að Sútarabúðum í Grunnavík (um 29 km). Hluti leiðarinnar er líklega býsna seinfarinn, og því býst ég við að þessi fyrsti áfangi geti tekið u.þ.b. 4:30 klst. (6,44 km/klst). Samkvæmt því er áætlaður komutími í Grunnavík kl. 13:30. 

Í Grunnavík er upplagt að heilsa upp á staðarhaldarana Friðrik og Sigurrós. Líklega verður tímabært að leggja upp í næsta áfanga kl. 14:30, frá Sútarabúðum um Staðarheiði að eyðibýlinu Dynjanda í Leirufirði (um 18 km). Þessi hluti leiðarinnar er tiltölulega fljótfarinn. Sé reiknað með meðalhraða upp á 8 km/klst tekur þessi áfangi 2:15 klst – og komutími að Dynjanda því kl. 16:45 eða þar um bil.

Sé gert ráð fyrir svo sem hálftíma áningu við Dynjanda væri hægt að leggja upp í síðasta áfangann kl. 17:15, yfir Dalsheiði aftur á upphafsreit við Unaðsdal (um 15 km). Þarna hygg ég að sé bratt og seinfarið á köflum, þannig að ferðin gæti sem best tekið 2:30 klst (6 km/klst). Samkvæmt því væri ferðalokum náð um kl. 19:45. Svona áætlunum ber þó að taka með miklum fyrirvörum og líta á sem lauslega viðmiðun.

Hvort sem ferðin varir klukkutímanum lengur eða skemur er ljóst að þetta er dágóð dagleið, enda vegalengdin öll á að giska 62 km. Aðstæður á svæðinu eru þannig að ekki er auðvelt að skipta leiðina upp og taka aðeins hluta hennar. Þó er mögulegt að taka bát frá Ísafirði til Grunnavíkur kl. 9:30 á laugardagsmorgninum og hlaupa þær tvær leiðir sem eftir standa. Bátsferðin tekur um 45 mín. og kostar 5.900 kr. Þessi valkostur gefur möguleika á dágóðri viðkomu í Grunnavík áður en lagt er upp í áfanga nr. 2. Hins vegar er ekki jafnauðvelt að komast sjóleiðina til baka frá Grunnavík, því að á laugardögum er engri annarri ferð til að dreifa. Hins vegar er sem best hægt að gista í Grunnavík nóttina fyrir eða eftir hlaup. Þar er svefnpokagisting og tjaldstæði eftir því sem ég best veit og bátsferðir frá Bolungarvík á föstudögum og sunnudögum bæði kvölds og morgna. Nánari upplýsingar um ferðir og aðstöðu er að finna á www.vesturferdir.is og www.grunnavik.is

Upplagt er að gera úr þessu góða helgarferð með útilegu við Dalbæ (rétt hjá Unaðsdal). Þar er tjaldsvæði og ýmiss önnur þjónusta – og margt að skoða í nágrenninu fyrir fylgdarfólk sem er meira gefið fyrir styttri dagleiðir, sjá m.a. www.snjafjallasetur.is/ferdathj.html.

Drög að leiðarlýsingum fyrir Snæfjallaheiði og Staðarheiði eru komnar inn á Fjallvegahlaupasíðuna mína, en Dalsheiðin er „óskrifað blað“ enn sem komið er. Kannski gefst mér færi á að bæta úr því áður en lagt verður upp. Til nánari glöggvunar og íhugunar bendi ég væntanlegum þátttakendum (og helst öllum öðrum líka) á að lesa þríleik Jóns Kalmans Stefánssonar, „Himnaríki og helvíti“, „Harm englanna“ og „Hjarta mannsins“.

Vonandi hitti ég sem flesta blogglesendur á Snjáfjallahringnum 28. júlí, en minni jafnframt á að þeir sem taka þátt í þessum fjallvegahlaupaævintýrum með mér gera það á eigin ábyrgð.