• Heimsóknir

  • 119.041 hits
 • júlí 2012
  S M F V F F S
  1234567
  891011121314
  15161718192021
  22232425262728
  293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Tvær vikur í Snjáfjallahringinn

Snjáfjallahringurinn

Nú styttist í fjallvegahlaup nr. 27, 28 og 29, nefnilega Snjáfjallahringinn (Snæfjallaheiði, Staðarheiði og Dalsheiði) sem ég ætla að hlaupa laugardaginn 28. júlí. Ætlunin er að leggja upp frá Unaðsdal kl. 9 árdegis og hlaupa sem leið liggur út Snæfjallaströnd og yfir Snæfjallaheiði að Sútarabúðum í Grunnavík (um 29 km). Hluti leiðarinnar er líklega býsna seinfarinn, og því býst ég við að þessi fyrsti áfangi geti tekið u.þ.b. 4:30 klst. (6,44 km/klst). Samkvæmt því er áætlaður komutími í Grunnavík kl. 13:30. 

Í Grunnavík er upplagt að heilsa upp á staðarhaldarana Friðrik og Sigurrós. Líklega verður tímabært að leggja upp í næsta áfanga kl. 14:30, frá Sútarabúðum um Staðarheiði að eyðibýlinu Dynjanda í Leirufirði (um 18 km). Þessi hluti leiðarinnar er tiltölulega fljótfarinn. Sé reiknað með meðalhraða upp á 8 km/klst tekur þessi áfangi 2:15 klst – og komutími að Dynjanda því kl. 16:45 eða þar um bil.

Sé gert ráð fyrir svo sem hálftíma áningu við Dynjanda væri hægt að leggja upp í síðasta áfangann kl. 17:15, yfir Dalsheiði aftur á upphafsreit við Unaðsdal (um 15 km). Þarna hygg ég að sé bratt og seinfarið á köflum, þannig að ferðin gæti sem best tekið 2:30 klst (6 km/klst). Samkvæmt því væri ferðalokum náð um kl. 19:45. Svona áætlunum ber þó að taka með miklum fyrirvörum og líta á sem lauslega viðmiðun.

Hvort sem ferðin varir klukkutímanum lengur eða skemur er ljóst að þetta er dágóð dagleið, enda vegalengdin öll á að giska 62 km. Aðstæður á svæðinu eru þannig að ekki er auðvelt að skipta leiðina upp og taka aðeins hluta hennar. Þó er mögulegt að taka bát frá Ísafirði til Grunnavíkur kl. 9:30 á laugardagsmorgninum og hlaupa þær tvær leiðir sem eftir standa. Bátsferðin tekur um 45 mín. og kostar 5.900 kr. Þessi valkostur gefur möguleika á dágóðri viðkomu í Grunnavík áður en lagt er upp í áfanga nr. 2. Hins vegar er ekki jafnauðvelt að komast sjóleiðina til baka frá Grunnavík, því að á laugardögum er engri annarri ferð til að dreifa. Hins vegar er sem best hægt að gista í Grunnavík nóttina fyrir eða eftir hlaup. Þar er svefnpokagisting og tjaldstæði eftir því sem ég best veit og bátsferðir frá Bolungarvík á föstudögum og sunnudögum bæði kvölds og morgna. Nánari upplýsingar um ferðir og aðstöðu er að finna á www.vesturferdir.is og www.grunnavik.is

Upplagt er að gera úr þessu góða helgarferð með útilegu við Dalbæ (rétt hjá Unaðsdal). Þar er tjaldsvæði og ýmiss önnur þjónusta – og margt að skoða í nágrenninu fyrir fylgdarfólk sem er meira gefið fyrir styttri dagleiðir, sjá m.a. www.snjafjallasetur.is/ferdathj.html.

Drög að leiðarlýsingum fyrir Snæfjallaheiði og Staðarheiði eru komnar inn á Fjallvegahlaupasíðuna mína, en Dalsheiðin er „óskrifað blað“ enn sem komið er. Kannski gefst mér færi á að bæta úr því áður en lagt verður upp. Til nánari glöggvunar og íhugunar bendi ég væntanlegum þátttakendum (og helst öllum öðrum líka) á að lesa þríleik Jóns Kalmans Stefánssonar, „Himnaríki og helvíti“, „Harm englanna“ og „Hjarta mannsins“.

Vonandi hitti ég sem flesta blogglesendur á Snjáfjallahringnum 28. júlí, en minni jafnframt á að þeir sem taka þátt í þessum fjallvegahlaupaævintýrum með mér gera það á eigin ábyrgð.

Eitt svar

 1. Hef farið alla þessar leiðir gangandi. Snæfjallaströndin er nokkurð greið leið niður við ströndina. Tvær ár eru brúaðar en brýrnar eru nokkuð upp í landinu og fara skala aftur til strandar þegar þær hafa verið gengnar. Snæfjallaheiði eða Bjarnanúpurinn er nokkuð seinfær sum staðar og bratt niður hinu megin. Leiðin inn Staðarheiði er falleg og auðveld. Upp frá Dynjanda er bratt og ef til vill þarf að vaða á en svo er heiðin grýtt og flöt, trúlega er einhver snjór sem gæti auðveldað hlaupurum yfirferð. Það var altént óvenju mikill snjór um þetta svæði í byrjun mánaðar. En gangi ykkur allt í haginn þið sem leggið í hann. Væri til í að fara þetta en ætla að eyða tímanum í annað. Kv. Lilja Björk

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: