• Heimsóknir

    • 126.882 hits
  • desember 2025
    S M F V F F S
     123456
    78910111213
    14151617181920
    21222324252627
    28293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Slydda á Trékyllisheiði

Síðastliðinn laugardag tók ég þátt í „Trékyllisheiðin Ultra“, 48 km utanvegahlaupi á Ströndum, sem nú var haldið í fjórða sinn. Markmið dagsins var að bæta tímann minn frá 2021 um tæpan hálftíma (nánar tiltekið um 27:45 mín), þ.e.a.s. að ljúka hlaupinu á 5:30:00 klst. í stað 5:57:45 eins og raunin varð 2021. E.t.v. hljómar hálftímabæting sem nokkuð glannaleg áætlun (á „mínum aldri“). En ég taldi þetta samt alveg raunhæft, enda hefur margt jákvætt gerst á hlaupaferlinum síðustu þrjú ár. Markmiðið náðist reyndar ekki, því að lokatíminn var 5:38:17. En ég var samt alsáttur að dagsverkinu loknu.

Veðrið
Dagana fyrir hlaup hafði ég fylgst grannt með veðurspám. Hlaupið sem um ræðir er nefnilega ræst í Trékyllisvík og þar getur norðanáttin flutt með sér stærri skammt af kulda, þoku og úrkomu en mann langar til að hafa í nesti í svona löngu hlaupi. Spárnar bentu til að þannig yrði það einmitt þennan dag, en heldur bötnuðu þó horfurnar þegar hlaupadagurinn nálgaðist. Þegar hlaupið var ræst kl. 10 á laugardagsmorgni var samt allhvöss norðanátt, súld og 5 stiga hiti. Strax þá var vitað að fyrri hluti hlaupsins gæti orðið svolítill barningur, en svo yrði væntanlega meðvindur seinni hlutann og líklega minni úrkoma. Veðrinu breytir maður ekki og því ekkert annað í stöðunni en klæða sig almennilega og bíta á jaxlinn.

Markmið dagsins
Eins og ég hef margsagt í fyrri pistlum set ég mér alltaf markmið fyrir svona hlaup. Vissulega er ég enginn afrekshlaupari sem stefnir á verðlaunapall í öllum hlaupum, heldur bara síðmiðaldra skokkari sem á hlaup að áhugamáli og hleypur fyrir heilsuna og til að halda skrokknum og huganum í sæmilegu standi sem lengst. En samt set ég mér markmið, því að án þeirra finnst mér of auðvelt að leggja árar í bát og láta strauminn ráða örlögunum. Sumarið 2021 hljóp ég þessa sömu leið á 5:57:45 klst, frekar illa undirbúinn og meiddur í hné. Núna var undirbúningurinn betri að flestu leyti og hnéð í þokkalegu standi. Þess vegna fannst mér raunhæft að setja markið á 5:30 klst. Reiknaði þó með að fyrri hluti hlaupsins tæki svipað langan tíma og 2021, en svo myndi ég bæta um betur á seinni hlutanum. Árið 2021 urðu krampar og almenn bugun til þess að ég þurfti nánast að skríða síðustu kílómetrana.

ITRA-stigin
Þegar ég set mér markmið fyrir utanvegahlaup styðst ég gjarnan við stigagjöf Alþjóðautanvegahlaupasambandsins (ITRA), en hún geri manni mögulegt að bera saman árangur í hinum ólíkustu hlaupum. Allt hefur þetta auðvitað sínar takmarkanir, en markmiðið mitt um 5:30 klst. var m.a. byggt á ITRA-stigunum. Þessi tími gefur u.þ.b. 560 stig, sem er ekki fjarri því sem ég hafði fengið fyrir fyrri utanvegahlaup sumarsins. Tíminn minn 2021 gaf hins vegar aðeins 516 stig, sem mér finnst, eins og staðan er í dag, of lítið til að gleðja sálina.

Millitímar
Í Trékyllisheiðarhlaupinu (þ.e. í 48 km útgáfunni) eru fjórar drykkjarstöðvar. Sú fyrsta er norðan við fjallið Glissu (eftir u.þ.b. 13 km), sú næsta sunnan við Búrfellsvatn (25,5 km), sú þriðja við Goðdalsá (34 km) og sú fjórða inn af Bjarnarfjarðarhálsi (40 km). Ég skipti alltaf svona löngum hlaupum upp í áfanga og þá er hentugt að miða við drykkjarstöðvarnar. Ég átti (auðvitað) alla millitímana frá 2021, lagði þá á minnið og byggði áætlanir mínar á þeim.

Fyrri hlutinn
Við lögðum af stað í þetta hlaup 9 saman og norðanvindurinn lét vita af sér frá fyrsta skrefi. Fyrsta spölinn er hlaupið frá Árnesi norður með ströndinni að Melum og síðan upp á Eyrarháls og þaðan inn á heiðina. Vindurinn var í fangið lengst af og ljóst að fara þyrfti varlega til að eiga einhverja orku eftir í seinni hlutann. Þegar ég nálgaðist fyrstu drykkjarstöðina norðan við fjallið Glissu (eftir 13 km) sá ég líka að ég var aðeins hægari en 2021. Þá var hægviðri, sól og hiti (eins og lesa má um í pistlinum Sól á Trékyllisheiði sem ég skrifaði að því hlaupi loknu) og eðlilegt að hægar gengi í mótvindi, súld og kulda. Þegar ég kom að drykkjarstöðinni sýndi úrið 1:40:00 klst, sem var 2:11 mín. lakara en 2021. Það var svo sem svipað og ég bjóst við miðað við aðstæður og engin ástæða til að halda að hálftímamarkmiðið væri þar með úr augsýn.

Fljótlega eftir fyrstu drykkjarstöðina sveigir leiðin meira til suðurs, þannig að smám saman breyttist mótvindurinn í meðvind. En að sama skapi kólnaði og slydduél tóku við af súldinni. Allt var rennblaut, steinar sleipari en venjulega og sums staðar drullusvað þar sem steinunum sleppti. Ég mundi að ég var nokkuð hress á þessum kafla 2021 og fannst því vel ásættanlegt að ég myndi ekki ná að vinna upp þessar rúmu tvær mínútur fyrir næstu drykkjarstöð, hvað þá meira. Við drykkjarstöðina sunnan við Búrfellsvatn kom hins vegar í ljós að ég var búinn að tapa nokkrum mínútum í viðbót! Ég var sem sagt orðinn u.þ.b. 8 mín. á eftir sjálfum mér 2021 – og það gladdi mig ekkert sérstaklega mikið. Hugsanlega gæti ég unnið þessar 8 mín. upp á seinni partinum, en varla mikið umfram það. Líklega yrði ég að sætta mig við svipaðan lokatíma og síðast, jafnvel þótt það gæfi bara 516 ITRA-stig. Best að skrifa engan bloggpistil að hlaupi loknu.

Seinni hlutinn
Ég var ekkert sérstaklega sprækur á leiðinni frá Búrfellsvatni að Goðdalsá, en leið samt einhvern veginn betur en 2021, þ.e.a.s. ef minnið var ekki að svíkja mig. Ég hafði aðeins verið farinn að stífna í lærunum í kuldanum upp af Reykjarfirði, en það lagaðist heldur eftir því sem úrkoman minnkaði, vindurinn varð hagstæðari og landið lækkaði. Hins vegar var komin þreyta í fæturna og ég jafnvel farinn að reka tærnar í steina, sem annars hendir mig sjaldan á hlaupum. Ég hlaut samt að geta endurheimt eitthvað af þessum töpuðu 8 mínútum. Sú varð líka raunin, millitíminn við Goðdalsá var 4:05:40 klst., sem var bara 4 mín lakara en 2021. Þróunin var því í rétta átt, meðvindurinn góður og heilsan líka, svona almennt.

Fyrstu 1600 metrarnir sunnan við Goðdalsá eru á fótinn, en ég var búinn að hugsa mér gott til glóðarinnar að bæta í þegar þeir væru að baki. Ef mér tækist að éta upp þessar 4 mínútur áður en ég kæmi að síðustu drykkjarstöðinni taldi ég yfirgnæfandi líkur á að ég myndi alla vega bæta tímann frá 2021 eitthvað smávegis. Bæting er alltaf góð, þó að markið hafi verið sett hærra. Ég var því býsna kátur þegar 40 km drykkjarstöðinni var náð og klukkan sýndi 4:47:25 klst. Það var rúmri mínútu betra en 2021, sem þýddi að ég var ekki bara búinn að éta upp fjórar mínútur, heldur fimm! Nú gat ekkert nema óhapp komið í veg fyrir bætingu.

Kominn í markið við skíðaskálann í Selárdal í Steingrímsfirði – og allt í besta lagi.
(Ljósm. Jóhanna Stefáns Bjarkar)

Áfanginn frá 40 km stöðinni í mark er hraðasti hluti hlaupsins, næstum allt á undanhaldinu og undirlagið mýkra og sléttara en norður á heiðinni. Þarna á að vera hægt að halda þokkalegum hraða ef allt er í lagi. Þetta gekk líka alveg sæmilega, þó að ég gæti ekki beitt mér almennilega vegna þreytu í fótunum og verks í vinstra hnénu, sem hefur stundum gert mér lífið leitt á síðustu árum. En þetta var samt allt annað líf en í sólinni 2021. Núna var ég nokkurn veginn laus við krampa og leið bara vel. Sá allt í einu fram á að geta klárað hlaupið undir 5:40 klst. (uppfært markmið) og jafnvel að ná 20 mín bætingu (5:37:45 = annað uppfært markmið). Síðarnefnda markmiðið gekk mér reyndar úr greipum í stífum mótvindi á tveimur síðustu kílómetrunum inn Selárdal, en hitt náðist. Lokatíminn var sem sagt 5:38:17 klst, þ.e. u.þ.b. 19,5 mín betri en 2021. Í ITRA-stigum er þetta nokkurn veginn á pari við Skálavíkurhlaupið fyrr í sumar, árangur sem var framar björtustu vonum á þeim tíma, bara fyrir mánuði síðan. Maður getur ekki kvartað yfir þessu, þó að ekki hafi allir draumar ræst.

Nokkur orð um næringu
Ég gerði óvenjunákvæmt næringarplan fyrir þetta hlaup, enda grunar mig að krampar síðustu ára, sem ég hef gjarnan skrifað alfarið á meint æfingaleysi, hafi stundum stafað af orkuskorti. Reyndur hlaupari eins og ég á náttúrulega ekki að klikka á svoleiðis löguðu. En það gerist nú samt. Fyrir þetta hlaup hljóðaði næringarplanið upp á 260 Kcal og 300 ml af vatni á klst. Nóg var af orkudufti og geli í farangrinum og auk þess bar ég með mér samtals 1,3 l af vatni. Reiknaði með að þurfa að bæta aðeins á vatnið á drykkjarstöðvum eða í lækjum þegar liði á hlaupið, en þegar til kom fann ég enga þörf hjá mér til þess enda kuldi og raki í aðalhlutverkum í umhverfinu. Kláraði vatnsbirgðirnar rétt undir lokin, sem þýðir að drykkjan var um 230 ml/klst. Og á leiðinni tókst mér að innbyrða u.þ.b. 1.100 Kcal, þ.e. rétt um 200 Kcal/klst. Það virtist alveg duga, enda ákefðin ekki mikil í svona hlaupi.

Í brekkunum upp úr Goðdalsánnni prófaði ég alveg nýjan rétt í tilefni af því að þá var komin svolítil krampatilfinning í vinstra lærið, líklega í framhaldi af kælingunni í ánni. Þessi nýi réttur var sérstaklega bragðvont gel sem ætlað er að slá á krampa. Krampatilfinningin leið að mestu hjá í framhaldi af þessari inntöku, en ég veit svo sem ekki hvort það var ógeðsgelinu að þakka eða því að ég labbaði upp þessar brekkur í stað þess að reyna að hlaupa þær. Ég mæli ekki með þessum rétti við nokkurn mann sem vill fá eitthvað gott í matinn, en ég ætla samt að taka annað svona gel með mér í næsta langa keppnishlaup. Ef það slær á krampa er það óbragðsins virði. Ef ekki, þá skilur þetta í það minnsta eftir fyndna minningu, þó að mér fyndist þetta reyndar ekkert fyndið á meðan ég var að reyna að kyngja.

Nokkur orð um keppinauta og björgunarsveitir
Ég á enga keppinauta í hlaupum að frátöldum sjálfum mér og klukkunni, heldur bara hlaupafélaga. Í þessu hlaupi var þó frekar lítið um svoleiðis, þ.e.a.s. á meðan á hlaupinu stóð. Sem fyrr segir lögðum við af stað úr Trékyllisvík níu saman þennan morgun. Þrír þeir fyrstu héldu sína leið strax í upphafi og komu lítið við (mína) sögu eftir það. Einn var lengi á svipuðu róli og ég, fyrst aðeins á undan og svo aðeins á eftir. Ég sá hann síðast tilsýndar á 26. kílómetranum, en aldrei eftir það. Hin fjögur voru einhvers staðar þar á eftir. Ég hljóp þetta því í rauninni aleinn síðustu 30 kílómetrana eða þar um bil, en það er bara hluti af upplifuninni. Maður er alltaf einn þegar á hólminn er komið. Þá er gott að vita af björgunarsveitarfólkinu, en í Trékyllisheiðarhlaupinu sjá björgunarsveitir á svæðinu um þrjár af fjórum drykkjarstöðvum, tilbúnar að bregðast við ef eitthvað fer úrskeiðis. Þar við bætast svo eftirfarar á fjórhjólum eða sexhjólum, sem halda sig stutt á eftir síðasta hlauparanum. Maður er sem sagt aldrei alveg einn þó að maður sé einn.

Nokkur orð um félagsskap
Félagsskapurinn og vináttan eru tvær af helstu ástæðum þess að ég stunda hlaup mér til ánægju. En mér finnst félagsskapur í hlaupunum sjálfum ekki aðalatriðið, heldur félagsskapurinn í kringum þetta allt saman. Hlaupið sjálft er eins manns verk. Félagsskapurinn þennan dag var einstaklega góður, enda vinir mínir á Ströndum höfðingjar heim að sækja. Og í þokkabót fylgdi Jóhanna mín mér í þetta ferðalag, tók virkan þátt í framkvæmd hlaupsins og tók á móti mér í markinu. Betra gerist það ekki.

Jóhanna Stefáns Bjarkardóttir. Besti stuðningsaðilinn!

Nokkur orð um gleðina
Ég var alsáttur að dagsverkinu loknu – og reyndar bara klökkur, Hvernig er líka annað hægt eftir 48 km utanvegahlaup í stórbrotnu landslagi á hjara veraldar við krefjandi aðstæður, umvafinn öllu þessu góða fólki. Þetta var upplifun sem er síður en svo sjálfsagt að maður eigi kost á að njóta 52 árum eftir fyrstu hlaupakeppnina sína.

Úrslit hlaupsins.

Besta hlaupaupplifunin í 4 ár

Með Sonju Sif við rásmarkið í Djúpavík. Skemmtiferðaskip á firðinum og þoka í hlíðum.

Laugardaginn 12. ágúst sl. var Trékyllisheiðarhlaupið haldið í þriðja sinn – og í þriðja sinn var ég meðal þátttakenda. Í þetta skipti var boðið upp á nýja leið, u.þ.b. 26 km frá Djúpavík að skíðaskálanum í Selárdal („Trékyllisheiðin Midi“), nokkurn veginn sömu leið og Þórbergur Þórðarson gekk í framhjágöngunni miklu 30. september 2012, en þessi ganga er líklega þekktasta gönguferð íslenskra bókmennta. Hlaupið mitt frá Djúpavík umræddan laugardag nær því örugglega ekki að verða þekktasta hlaup íslenskrar hlaupasögu, en þetta var alla vega þægilegasta hlaupið mitt síðan einhvern tímann sumarið 2019. Kannski var árangurinn ekkert sérstakur, svona eftirá að hyggja, en hlaupasælan var á sínum stað og það er mikilvægara.

Undirbúningurinn
Ég ætla ekkert að skrifa um undirbúninginn fyrir þetta hlaup, enda hef ég gert það áður og á örugglega eftir að gera það aftur. En, jú, það hefur verið heldur á brattann að sækja hjá mér í hlaupum síðustu misserin og þó að skrokkurinn sé kominn í nokkuð gott stand eftir langvinn meiðsli þarf hann meiri undirbúning til að standast væntingar þess líkamshluta sem situr efst á beinagrindinni. Og þetta hlaup kallaði svo sem ekki á neinn undirbúning annan en þann sem ég er almennt að brasa við á hlaupaæfingum nokkrum sinnum í viku.

Ræsirinn að útskýra hlaupaleiðina áður en lagt er af stað. (Hún liggur samt ekki upp með fossinum Einbúa sem þarna sést). (Ljósm: Sonja Sif)

Startið í Djúpavík
Hlaupið var ræst beint fyrir utan Hótel Djúpavík kl. 12:00 umræddan laugardag í norðan kalda og í þurru og ekkert allt of köldu veðri. Þoka beið í hlíðum. Ég fór sjálfur með hlutverk ræsis, en ég hef frá upphafi verið Skíðafélagi Strandamanna innan handar við framkvæmd hlaupsins. Ég lagði svo bara af stað í rólegheitunum þegar öll hin fjórtán voru farin og þegar GPS-úrið mitt var búið að finna nógu marga gervihnetti til að tala við. Ég vildi nefnilega að GPS-ferillinn minn yrði nógu réttur til að hægt yrði að hafa not af honum síðar.

Djúpavík-Kúvíkurá 3,39 km
Líta má á leiðina inn frá Djúpavík og upp að Kúvíkurá sem fyrsta áfanga hlaupsins. Þarna liggur leiðin eftir grófum slóða yfir holt og mýrar og er öll heldur á fótinn. Líklega gekk Þórbergur aldrei þennan spotta, þar sem hann lagði að öllum líkindum upp frá Kjós. Þannig sleppur maður við að fara yfir Kúvíkurá þarna í hlíðinni – og Kúvíkurá getur verið viðsjárverð. Hún telst að vísu ekki til stærstu vatnsfalla, en hún er straumhörð og botninn stórgrýttur. Þennan laugardag voru langvarandi þurrkar hins vegar búnir að leika hana svo grátt að hún var varla meira en lækur sem læddist á milli stórra steina – og auðvelt að stikla yfir þurrum fótum.

Ég hafði ekki sett mér nein markmið um millitíma við ána, en þegar þarna var komið sýndi úrið mitt 26:45 mín og ég var kominn framúr sex hægustu hlaupurunum. Næsti maður á undan mér var hins vegar með sæmilegt forskot sem virtist haldast nokkuð jafnt. Mér leið vel. Ákvað að halda áfram á svipuðu álagi áfram upp með ánni og taka svo stöðuna og setja mér einhver markmið þegar ég sæi millitímann á „vegamótunum“ þar sem komið er upp á aðalleiðina (og aðalhlaupaleiðina) suður Trékyllisheiði.

Kúvíkurá-Trékyllisheiði 4,14 km (samtals 7,53 km)
Ég var ekkert sérstaklega fljótur í förum upp með ánni enda eru brekkur ekki í uppáhaldi hjá mér, nema þær snúi hinsegin. En þetta mjakaðist og ég sá næstum alltaf í næsta mann. Reyndar var þokuslæðingur þarna uppi og skyggnið stundum takmarkað. Vegamótin voru samt á sínum stað og þar var búið að setja skilti sem benti til vinstri og skartaði áletruninni „Selárdalur 18 km“. Þarna var millitíminn 58:10 mín og þar með gátu reikniæfingar dagsins byrjað. Þarna er mesta hækkunin að baki og leiðin komin í u.þ.b. 410 m hæð, (fer hæst í u.þ.b. 430 m). Sunnar á heiðinni eru hæðir og lægðir þangað til halla fer niður í Selárdal – og mér fannst raunhæft að ég gæti haldið 6 mín „meðalpeisi“ eftir þetta (6 mín/km). Átján sinnum 6 mín eru 108 mín = 1:48 klst, sem þýddi að miðað við gefnar forsendur ætti ég að geta klárað hlaupið á 2:46 klst. Ég hafði fyrirfram gert ráð fyrir allt að 3 klst, þannig að þetta var bara skemmtilegt. Ákvað reyndar að gefa mér 2 mín í viðbót, svona til öryggis og þar með var 2:48 orðið að markmiði.

Trékyllisheiði-Goðdalsá 3,97 km (samtals 11,50 km)
Mér fannst fyrsti spölurinn suður heiðina svolítið erfiður. Þarna var þoka og grjótið óvenjuhart (eða það fannst mér alla vega). Var feginn að ég hafði ekki látið undan freistingunni að fara úr jakkanum þegar mér var óþarflega heitt á fyrstu kílómetrunum niðri í Kjósarlægðum. En ég var svo sem ekki lengi niður að Goðdalsá. Hef farið þetta nokkrum sinnum áður og vissi við hverju var að búast, bæði í undirlagi og vegalengd. Þegar ég nálgaðist drykkjarstöðina við ána var ég næstu búinn að ná Friðriki Þór (sem ég fann seinna út að var sá sem hafði verið á undan mér alla leiðina.) Hann stoppaði ekkert við drykkjarstöðina, þannig að ég ákvað að gera það ekki heldur, öfugt við það sem ég hafði ætlað. Því að þó að ég sé alltaf bara að keppa við sjálfan mig og klukkuna finnst mér alltaf vont að sjá hlaupara fjarlægjast.

Goðdalsáin var vatnsminni en ég hef áður séð og alls enginn farartálmi. Úrið sýndi rétt um 1:20 klst, og þar sem ég vissi að þarna væru rétt um 14 km eftir breytti ég markmiðinu í 2:44 klst. Taldi mig geta klárað þetta á 14×6= 84 mín (1:24 klst). Var kátur með þetta, enda alltaf skemmtilegra að endurstilla markmið á lægri tölu en hærri tölu.

Goðdalsá-Vegamót 5,99 km (samtals 17,49 km)
Goðdalsáin rennur eðli málsins samkvæmt í lægð, sem þýðir að eftir talsverða lækkun norðan við ána (niður í 300 m.y.s.) tekur landið aftur að hækka sunnan við. Hæst fer leiðin aftur í tæpa 400 m sunnar á heiðinni. Ég hef aldrei verið aðdáandi þessarar hækkunar og það var ekkert öðruvísi þennan dag. Enda sá ég Friðrik fjarlægjast aftur smátt og smátt. En ég vissi af gömlu vana að þetta myndi nú samt alveg hafast.

Seinni drykkjarstöðin á leiðinni er við vegamót þar sem slóði liggur af Trékyllisheiðinni út á Bjarnarfjarðarháls. Sá slóði er hlaupinn áleiðis inn á heiðina í styttri útgáfu Trékyllisheiðarhlaupsins („Trékyllisheiðin Mini“ (16,5 km)). Þarna vantar mig staðþekkingu til að geta gefið staðnum annað nafn en Vegamót, en á kortum má sjá að Þrítjarnir eru þarna skammt frá.

Út frá 6 mín meðalreglunni hafði ég gert mér vonir um að ná að drykkjarstöðinni á u.þ.b. 1:56 klst, sem var auðvitað bjartsýni að teknu tilliti til hækkunarinnar. Tíminn var enda kominn í 1:58:33 þegar þangað var komið. Þarna eru um 8 km eftir að hlaupinu – og úr þessu var ég nokkuð viss um að ráða við 6 mín „peisið“, enda nánast allt undan fæti úr þessu – og þokkalega hlaupalegt. Að vísu óttaðist ég aðeins að krampar myndu setja strik í reikninginn undir lokin, rétt eins og gerðist í Pósthlaupinu tveimur vikum fyrr – og gerist reyndar oftar en ekki í keppnishlaupunum mínum ef ég á ekki innistæðu fyrir vegalengdinni. Hana átti ég ekki þennan dag. En alla vega: 1:58 klst. + 48 mín gera 2:46 klst, sem var smá bakslag miðað við síðustu markmiðssetningu, en samt bara allt í lagi.

Drykkjarstöðin á vegamótunum. (Ljósm. Guðmundur Björn Sigurðsson)

Vegamót-Bólstaðarvegur 5,82 km (samtals 23,31 km)
Skíðafélagið hafði merkt síðustu kílómetrana rækilega með niðurtalningarspjöldum eins og gjarnan er gert í skíðagöngukeppni. Átta kílómetra spjaldið var rétt eftir drykkjarstöðina – og síðan hvert af öðru. Þetta gladdi mig enda gott fóður í áframhaldandi markmiðsleiðréttingar. Mér fannst stutt á milli spjalda og leið betur en mér hefur lengi liðið í keppnishlaupi. Fátt finnst mér líka betra en hæfilegur niðurhalli á hæfilega mjúku undirlagi. Þessir kílómetrar tóku flestir rúmar 5 mín hver, þannig að við hvern km gat ég skorið hálfa til eina mínútu af markmiðinu. Einhvers staðar í brúninni ofan við Bólstað náði ég Friðriki. Bjóst allt eins við að hitta hann fljótlega aftur þegar kramparnir tækju yfir, en þrátt fyrir að einhverjir kippir væru farnir að gera vart við sig gerðist það aldrei.

Í brúninni ofan við Bólstað. (Ljósm. Hrólfur Sigurgeirsson)

Niðri á vegi sýndi klukkan 2:28:31 klst, og þar sem þarna eru bara 2,4 km eftir sá ég fram á að geta klárað á 2,4×6 = 14,4 mín, þ.e.a.s. 14:24 mín. Lokatíminn yrði þá 2:42:55 sem var framar björtustu vonum.

Bólstaðarvegur-Brandsholt („endasprettur“) 2,42 km (samtals 25,73 km)
Ég þarf svo sem ekkert að fjölyrða um þennan síðasta spöl. Hann ætti að vera auðveldur, þar sem þarna er hlaupið eftir greiðfærum malarvegi með sáralitlum hæðarbreytingum, en vissulega getur maður tafist við að vaða yfir Selá. Hún var ótrúlega vatnslítil þennan dag og því enginn farartálmi, en hins vegar brast þarna á talsverður mótvindur eftir að golan hafði verið í bakið nánast alla leið. Þrátt fyrir góða líðan var ég því einhverjum 40 sek lengur en ég hefði kosið að klára þennan kafla og kom í samræmi við það í mark á 2:43:47 klst. (Úrið mitt sýndi aðeins styttri tíma út af seinu starti í Djúpavík). En hvað um það, mér leið vel allan tímann, miklu betur en í 16,5 km hlaupinu í fyrra. Ég var þess vegna nokkuð viss um að seinni hlutinn, þ.e.a.s. frá vegamótunum inn af Bjarnarfjarðarhálsi og í mark, hefði tekið mig eitthvað styttri tíma en í fyrra. Öll slík merki um framfarir eru vel þegin.

Eftir á að hyggja
Þegar ég skoðaði millitímana betur daginn eftir hlaup sá ég að ég hafði reyndar verið einni mínútu lengur en í fyrra frá vegamótunum inn af Bjarnarfjarðarhálsi og í markið, öfugt við það sem ég hafði ímyndað mér. Vissulega var hlaupið í fyrra talsvert styttra (16,5 km í stað tæpra 26 km) en mér leið bara svo miklu betur núna að ég hélt að ég hlyti að hafa verið fljótari með þennan spotta. Í fyrra var ég alveg orkulaus síðustu tvo kílómetrana, en núna var bókstaflega ekkert að mér. Nokkrum dögum seinna sá ég svo að hlaupið mitt þetta árið gaf jafnmörg ITRA-stig og hlaupið í fyrra. Og ég sem hélt að mér hefði gengið miklu betur núna.

Eftir á að hyggja getur það eitt að setja sér hófleg markmið og ná þeim veitt manni miklu meiri gleði en að setja sér háleit markmið og ná þeim ekki – og það þótt lokatíminn sé sá sami í báðum tilvikum (eða ITRA-stigin jafnmörg). En markmiðin verða samt að vera krefjandi til að þau skipti mann einhverju máli. Þarna er meðalvegurinn vandrataður, sem víðar.

Það er alveg óþarfi að búa sér til vonbrigði – og hvað sem lokatímanum líður var þessi laugardagur besti dagurinn minn í hlaupakeppni frá því vorið eða sumarið 2019. Ég var ánægður með sjálfan mig í lok dags, líkaminn alheill og hugurinn bjartsýnn á áframhaldandi framfarir. Þetta var sigur fyrir mig eftir marga mánuði og jafnvel nokkur ár af heldur bágri hlaupaheilsu. Gleðin er ekki endilega mæld í mínútum og ITRA-stigum.

Með Sonju Sif í Selárdal eftir góðan dag á Trékyllisheiði. Við Sonja vorum ferðafélagar í þessari ferð á Strandir, (en hún var talsvert fljótari yfir heiðina).

Hlaupið sér til hamingju

???????Veðrið hefur áhrif á hamingjuna. Eða hefur hamingjan kannski áhrif á veðrið? Hvernig sem þessu er háttað var hamingjan með allra mesta móti í Hamingjuhlaupinu á síðustu helgi – og veðrið eins og best varð á kosið. Þetta var fimmta formlega Hamingjuhlaup sögunnar og rétt eins og í fyrra lá leiðin frá Árnesi í Trékyllisvík til Hólmavíkur um Naustvíkurskarð og Trékyllisheiði, samtals rúmlega 53 km leið, já eða líklega 53,57 km svo hæfilegrar nákvæmni sé gætt.

Hamingjuhlaupið hefur verið fastur liður í Hamingjudögum á Hólmavík frá því á árinu 2009. Allt á þetta sér sína sögu, en hana rakti ég m.a. í samsvarandi bloggpistli á síðasta ári. Fyrsta árið var hlaupið frá Drangsnesi, næsta ár yfir Þröskulda, þriðja árið frá Gröf í Bitru og í fyrra norðan úr Trékyllisvík. Hlaupin hafa sem sagt átt sér mismunandi upphöf, en endamarkið hefur alltaf verið á Hólmavík. Að þessu sinni var hlaupaleiðin frá síðasta ári endurnotuð, meðal annars vegna þess að þá lánaðist engum að hlaupa alla leiðina. Nú skyldi úr því  bætt.

Leiðin sem farin var í Hamingjuhlaupinu 2013.

Leiðin sem farin var í Hamingjuhlaupinu 2013.

Það er óhætt að segja að laugardagurinn 29. júní 2013 hafi runnið upp bjartur og fagur. Þennan morgun vaknaði ég á Hólmavík eins og marga aðra blíðviðrismorgna. Úti blés hægur vindur, og þó að hitastigið væri ekki komið í tveggja stafa tölu benti allt til þess að þetta yrði góður dagur með þurru veðri og jafnvel sólskini. Sú varð og raunin. Um 10-leytið var allt tilbúið, þar með talið nesti og nýlegir skór, og þá var haldið af stað akandi norður Strandir með Björk undir stýri. Við hjónin vorum þó ekki ein á ferð. Birkir, skíðagöngukappi, stórhlaupari og bóndi í Tröllatungu var með í liðinu, svo og Ingimundur lyftingamaður Ingimundarson yngsti frá Svanshóli. Við Selá innst í Steingrímsfirði bættist Ragnar á Heydalsá í hópinn, en hann er rétt eins og Birkir margreyndur í erfiðum skíðagöngum og fjallahlaupum. Ferðin norður í Trékyllisvík gekk eins og í sögu og segir fátt af henni. Dagurinn lagðist vel í okkur öll. Við Birkir vorum staðráðnir í að hlaupa alla leiðina og Ragnar ætlaði að fylgja okkur úr Trékyllisvík að Selá. Björk og Ingimundur hugðu hins vegar á göngu á Reykjaneshyrnu.

Rétt um hádegisbil vorum við stigin út úr bílnum við handverkshúsið Kört í Trékyllisvík. Þar hittum við fyrir þrjá hlaupara til viðbótar, þ.e.a.s. hjónin Hauk Þórðarson og Sigríði Júlíu Brynleifsdóttur, Skagfirðinga úr Borgarnesi – og Hólmvíkinginn Ingibjörgu Emilsdóttur. Eftir hefðbundna (fyrir)myndatöku var svo lagt af stað í blíðunni á slaginu 12:07, 7 mínútum á eftir áætlun. Framundan voru 53 kílómetrar og 8 klukkutímar af náttúrufegurð og hamingju.

Klukkan 12:07 við handverkshúsið Kört Í Trékyllisvík. Mikil hamingja framunda. F.v.: Ragnar Bragason, Haukur Þórðarson, Birkir Þór Stefánsson, Ingibjörg Emilsdóttir, Stefán Gíslason. (Ljósm. Björk Jóhannsdóttir).

Klukkan 12:07 við handverkshúsið Kört Í Trékyllisvík. Mikil hamingja framundan. F.v.: Ragnar Bragason, Haukur Þórðarson, Birkir Þór Stefánsson, Ingibjörg Emilsdóttir, Stefán Gíslason. (Ljósm. Björk Jóhannsdóttir).

Hamingjuhlaupið er ekki keppnishlaup, heldur er þar miðað við fyrirfram ákveðna tímaáætlun, sem líkist áætlun strætisvagna að því leyti að í henni eru gefnir upp komu- og brottfarartímar á ákveðnum „stoppistöðvum“. Síðasta stöðin er jafnan á hátíðarsvæðinu á Hólmavík, þar sem óþolinmóðir en afskaplega hamingjusamir hátíðargestir bíða þess að hlaupararnir skeri fyrstu sneiðina af árlegu tertuhlaðborði. Að þessu sinni var nákvæm tímasetning tertuskurðarins svolítið á reiki, en hann átti alla vega að eiga sér stað á tímabilinu 19:50-20:30 um kvöldið.

Við vorum 5 sem lögðum af stað frá Árnesi, þ.e.a.s. ég, Birkir, Ragnar, Ingibjörg og Haukur. Kríurnar í Trékyllisvíkinni fylgdu okkur úr hlaði og virtust frekar mótfallnar þessu ferðalagi. Ein þeirra gekk meira að segja svo langt að rugla hárgreiðslunni hjá mér. Eins gott að myndatakan var búin!

Eftir að hafa fylgt þjóðveginum stuttan spöl beygðum við til hægri, hlupum um hlaðið í Bæ og áfram eins og leið liggur áleiðis upp í Naustvíkurskarð. Tíminn leið fljótt við spjall um alla heima og geima, og jafnvel þótt við gengjum upp allar bröttustu brekkurnar var hæstu hæðinni náð fyrr en varði. Í ljósi reynslunnar frá því í fyrra hafði ég áætlað að fyrsti áfanginn frá Árnesi að Naustvík tæki 50 mínútur, en sú reynsla var reyndar mörkuð af heldur lélegu ástandi mínu í það skiptið. Var nýtognaður og fór yfir Naustvíkurskarð aðallega til að sýnast – og tafði auðvitað fyrir hinum. Núna voru hins vegar allir í toppstandi, og þegar við komum niður á veginn við Naustvík voru ekki liðnar nema rétt rúmar 43 mín. Þarna vorum við sem sagt strax búin að vinna upp mínúturnar 7 sem töpuðust í startinu.

Á leið upp í Naustvíkurskarð. Trékyllisvíkin í sólbaði í baksýn.

Klukkan 12:37 á leið upp í Naustvíkurskarð. Trékyllisvíkin í sólbaði í baksýn.

Í Naustvík höfðu hjónin Haukur og Sigga Júlla hlutverkaskipti, en þau höfðu þann háttinn á að meðan annað hljóp ferjaði hitt bílinn á næsta áfangastað. Við vorum því enn 5 talsins á leiðinni frá Naustvík inn í Djúpavík. Sjálfur slóraði ég reyndar svolítið við Naustvík og dróst aftur úr hinum, en með því að bæta aðeins í hraðann gekk vel að vinna forskotið upp. Notaði líka tækifærið til að fækka fötum og koma umframflíkum í geymslu í bílnum hjá Hauki.

Horft inn Reykjarfjörð af veginum ofan við Naustvík.

Klukkan 12:58: Horft inn Reykjarfjörð af veginum ofan við Naustvík. Búrfell á miðri mynd.

Spölurinn frá Naustvík að Djúpavík er rúmir 10 km eftir veginum. Það ferðalag tók okkur u.þ.b. klukkustund og á leiðarenda var klukkan orðin nákvæmlega 13:55, sem var upp á mínútu sá tími sem ég hafði áætlað. Þarna var gert ráð fyrir 10 mínútna hvíld, en hún fékk óáreitt að lengjast í 20 mín, því að ég þóttist vita að tertuskurðurinn hæfist seinna en upphaflega var ráðgert. Okkur lá sem sagt ekkert á. Gerðum góðan stans í fjörunni framan við hótelið, kíktum í nestið og hagræddum fatnaði. Framundan var lengsti og hrjóstrugasti áfanginn, þ.e.a.s. Trékyllisheiðin. Leiðin fer að vísu hvergi í meira en rúmlega 400 m hæð yfir sjó, en engu að síður getur veðurfarið þar uppi verið allt annað og kaldara en við sjóinn. Í þetta sinn bjuggum við líka svo vel að hafa trússbíl, því að Sigga Júlla gat tekið allan þann farangur sem við vildum ekki bera yfir heiðina.

KL. 14:08 í veðurblíðunni í Djúpavík. Allt að verða tilbúið fyrir Trékyllisheiðina. F.v.: Ragnar, Birkir, Sigríður Júlía, Ingibjörg, Kolbrún, Stefán og Haukur. (Ljósm.: Arnar Barði Daðason).

Klukkan. 14:08 í veðurblíðunni í Djúpavík. Allt að verða tilbúið fyrir Trékyllisheiðina. F.v.: Ragnar, Birkir, Sigríður Júlía, Ingibjörg, Kolbrún, Stefán og Haukur. (Ljósm. Arnar Barði Daðason).

Klukkan 14:15 héldum við af stað frá Djúpavík, áleiðis inn dalinn fyrir aftan byggðina. Þar er greið gönguleið inn á Trékyllisheiði. Þennan spöl hafði ég reyndar aldrei farið og hafði því sett GPS-punkta af korti inn í Garminúrið mitt til öryggis. Þessa punkti þurfti ég svo sem ekkert að nota þegar til kom, enda leiðin auðrötuð í bjartviðri eins og því sem var þennan hamingjusama dag. En í stuttu máli má lýsa leiðinni inn á heiðina þannig að hún sveigi fljótlega upp í hjalla utan í fjallinu sunnan við dalinn sem þarna opnast. Þessum hjöllum er fylgt áfram í svipaða stefnu þar til komið er að Kjósará. Þegar yfir hana er komið tekur við greinilegur slóði sem auðvelt er að fylgja áfram inn á heiðina þar sem enn greinilegri slóði tekur við.

Enn vorum við 5 sem lögðum af stað frá Djúpavík. Ingibjörg sleppti reyndar heiðinni, enda var markmið hennar að ná 30 km hlaupum út úr deginum. Heiðinni var ofaukið í þeirri áætlun. Í hennar stað slóst Kolbrún Unnarsdóttir Hólmvíkingur og fjallahlaupari úr Mosfellsbænum í för með okkur. Og nú var Haukur aftur tekinn við í hjónaboðhlaupinu.

Klukkan 14:17: Lagt af stað frá Djúpavík. Brosin voru í stöðugri notkun í þessari ferð.

Klukkan 14:17: Lagt af stað frá Djúpavík. Brosin voru í stöðugri notkun í þessari ferð.

Rétt fyrir ofan Djúpavík sat svört þyrla á hóli. Við höfðum séð hana koma á leiðinni inn Reykjarfjörðinn frá Naustvík og töldum líklegt að leit væri hafin að einhverju okkar. Þar kom ég sjálfur hvað sterklegast til greina, því að ég hafði einmitt verið að upplýsa ferðafélagana um björgunarsveitar-„appið“ í nýja símanum mínum. Kannski hafði ég rekið mig í rauða 112-hnappinn á „appinu“ og þannig ræst þyrluna út. En þegar betur var að gáð var þetta greinilega ekki björgunarþyrla heldur miklu fremur vísbending um það sem sum okkar hafði grunað, að árið 2007 væri um það bil að bresta á á nýjan leik. Þá töldust þyrlur nánast til nauðþurfta hjá fólki sem var sæmilega sjálfbjarga.

Leiðin inn hjallana innan við Djúpavík er ekki fljótfarin, en kl. 3 vorum við samt komin að Kjósaránni. Þangað eru rétt um 3,5 km frá Djúpavík og hækkunin eitthvað um 230 m. Þessi spölur hafði tekið okkur um 45 mín., sem telst ágætis yfirferð í landslagi eins og þarna er. Samkvæmt GPS-punktunum mínum virtist ráð fyrir því gert að við færum yfir ána neðst í svolitlu gili sem þarna er, þ.e.a.s. þar sem áin byrjar að dreifa úr sér. Þar hefði þó ekki verið hægt að komast yfir þurrum fótum, því að ár voru vatnsmiklar þennan dag. Því tókum við á það ráð að fara yfir ána á snjóbrú nokkru ofar.

Klukkan 15:04: Komin yfir Kjósará á snjóbrú.

Klukkan 15:04: Komin yfir Kjósará á snjóbrú. Reykjarfjörður blár í baksýn.

Eftir örstutta áningu á nyrðri árbakkanum héldum við ferð okkar áfram inn á heiðina. Þarna var víða mikil aurbleyta í holtum, enda mikið af landinu nýkomið undan snjó og enn fannir í öllum lautum. Þau okkar sem voru í nýlegum skóm urðu því að sætta sig við að óhreinka þá verulega.

Klukkan 16:03: Kolla ein í snjónum. (Munið að myndin er tekin 29. júní).

Klukkan 16:03: Kolla ein í snjónum. Aurbleyta í lágmarki þessa stundina. (Munið að myndin er tekin 29. júní).

Þegar inn á heiðina kom blöstu við enn meiri fannir. Ragnar bóndi kom strax auga á Goðdalsána, sem var vatnsmikil þar sem til sást en undir snjó þess á milli. Slóðin suður yfir heiðina, sem við sáum reyndar lítið af vegna fanna, liggur suður með ánni austanverðri og síðan yfir hana á vaði eftir að hún beygir til austurs áleiðis niður í Bjarnarfjörð. Ragnar hvatti til að við færum ofar til að nýta snjóbrýrnar sem þar var nóg af. Við fylgdum ráðum hans að nokkru leyti, fundum trausta snjóbrú um það bil 800 metrum ofan við vaðið og skelltum okkur þar yfir. Brúin hélt og enginn hvarf niður í sprungur. Ég var reyndar búinn að kvíða Goðdalsánni svolítið. Hún getur verið býsna vatnsmikil á dögum eins og þessum þegar hlýtt er og mikil snjóbráð á heiðinni. Þetta er langstærsta vatnsfallið á þessari leið. Reyndar þarf líka að fara yfir Sunndalsá. Þar var engin snjóbrú, svo við stukkum bara yfir hana.

Haukur í lausu lofti yfir Sunndalsá. Svona lagað er aðeins á færi hamingjusamra. Aðrir geta yfirleitt ekki flogið.

Klukkan 16:37: Haukur í lausu lofti yfir Sunndalsá. Svona lagað er aðeins á færi hamingjusamra. Aðrir geta yfirleitt ekki flogið.

Sunnar á heiðinni lá tófa sofandi í vegkantinum. Það er til marks um það hversu lítið er um mannaferðir á þessum slóðum að ekki rumskaði lágfóta þótt Birkir hlypi fram hjá henni í seilingarfjarlægð. Birkir er reyndar ákaflega léttstígur að jafnaði. Sama gilti ekki þegar við Ragnar nálguðumst í hrókasamræðum. Þá vaknaði tófan við vondan draum, líklega um nefndan Ragnar sem vinnur sem grenjaskytta í hjáverkum. Hún yfirgaf svæðið í snatri.

Segir nú fátt af okkur fimmmenningunum, nema hvað heldur fækkuðum við fötum eftir því sem á leið heiðina og eftir því sem sólin skein skærar. Fyrir ofan brúnir Selárdals hittum við fyrir þær frænkur frá Þorpum á Gálmaströnd, Jónínu og Höddu. Þar með vorum við orðin að 7 manna hópi sem skilaði sér niður á láglendið í botni Steingrímsfjarðar stundvíslega kl. 17:54, einni mínútu fyrr en strætisvagnaáætlunin góða gerði ráð fyrir. Við vorum sem sagt óvart búin að vinna upp tímann sem við höfðum viljandi tapað í Djúpavík, þrátt fyrir að hafa heldur haldið aftur af okkur á heiðinni.

Jónína í Bólstaðargilinu. Þarna falla öll vötn til Steingrímsfjarðar.

Klukkan 17:41: Jónína í Bólstaðargilinu. Þarna falla öll vötn til Steingrímsfjarðar.

Við gömlu brúna yfir Selá beið okkar nokkur fjöldi fólks. Þar voru um 38,5 km búnir og rétt um 15 eftir. Sú vegalengd er mun alþýðlegri en leiðin öll, auk þess sem heiðar voru að baki og ekkert nema bílvegir eftir.

Eftir nákvæmlega 13 mínútna spjall og nestishlé við Selá var lagt upp í fjórða áfangann, rétt um 4 km leið að brúnni yfir Staðará. Þarna vorum við Birkir orðnir einir eftir af upphaflega hópnum, enda engir aðrir með nein áform um að hlaupa alla leiðina. Ragnar var kominn í frí, en Ingibjörg búin að reima á sig hlaupaskóna á nýjan leik. Á þessum kafla undi ég mér helst við spjall við frænda minn Guðmund Magna, sem slóst í hópinn við Selá ásamt Lilju eiginkonu sinni. Guðmundur Magni er enginn byrjandi í hlaupum, enda félagi nr. 13 í Félagi 100 km hlaupara á Íslandi. Menn geta auðveldlega getið sér til um inntökuskilyrðin í þeim félagsskap.

Klukkan 18:30 við Grænanes. Þorsteinn Newton og Jóhanna Guðbrandsóttir eru fremst á myndinni en þar fyrir aftan Ingibjörg Emilsdóttir og Sigríður Drífa Þórhallsdóttir.

Klukkan 18:30 við Grænanes. Þorsteinn Newton og Jóhanna Guðbrandsóttir eru fremst á myndinni en þar fyrir aftan Ingibjörg Emilsdóttir og Sigríður Drífa Þórhallsdóttir.

Við Staðará bættist enn fleira fólk við. Þarna var klukkan orðin 18:36, 11 km eftir til Hólmavíkur og nógur tími til stefnu þrátt fyrir að frávikið frá upphaflegri áætlun væri komið í 9 mínútur. Hópurinn var tekinn að dreifast töluvert og ég tók ákvörðun um að fylgja fyrstu mönnum til að geta betur haft stjórn á ástandinu.

Klukkan 18:36 á brúnni yfir Staðará. Hér má sjá Hrafnhildi Þorsteinsdóttur, Rósmund Númason, Jóhönnu Rósmundsdóttur og Maríu Mjöll Guðmundsdóttur. Og enn er himinninn blár.

Klukkan 18:36 á brúnni yfir Staðará. Hér má m.a. sjá Hrafnhildi Þorsteinsdóttur, Rósmund Númason, Jóhönnu Rósmundsdóttur og Maríu Mjöll Guðmundsdóttur. Stakkanes í baksýn. Og enn er himinninn blár.

Á Fellabökum var gerður stuttur stans og lagt á ráðin um hvernig best væri að ljúka verkefninu. Klukkan var 19:12 sem þýddi að við vorum ekki nema 5 mínútum á eftir áætlun. Flest benti til að við þyrftum að seinka áætlaðri innkomu um allt að því hálftíma. Ég brá því á það ráð að drífa mig síðasta spölinn og stilla mér upp á grasflötinni vestan við Lögreglustöðina út við Hólmavíkurvegamótin, en þar skein sólin glatt og gott skjól var fyrir vindi. Þar skyldi öllum þátttakendum safnað saman og beðið eftir merki um að okkur væri óhætt að fjölmenna inn á hátíðarsvæðið. Ég var mættur þarna kl. 19:42 og á næstu 10 mínútum skiluðu allir hinir hlaupararnir sér á svæðið. Þarna var Jóhann tengdafaðir minn líka mættur með myndavélina eins og jafnan við lok Hamingjuhlaups.

Hamingjusamir hlauparar í kvöldsólinni við lögreglustöðina á Kálfanesskeiði. Ef vel er talið má sjá þarna 29 andlit. (Ljósm. Björk Jóhannsdóttir).

Klukkan 20:00: Hamingjusamir hlauparar í kvöldsólinni við lögreglustöðina á Kálfanesskeiði. Ef vel er talið má sjá þarna 29 andlit. (Ljósm. Björk Jóhannsdóttir).

Um það bil 10 mínútum eftir kl. 8 kom símtalið sem beðið var eftir. Þá lagði öll hersingin, líklega um 30 manns, af stað áleiðis niður á hátíðarsvæðið, sem að þessu sinni var ekki niður við höfnina heldur við gafl félagsheimilisins. Hlaupið þangað frá lögreglustöðinni tók ekki nema 3 mínútur. Að vanda höfðu gestir Hamingjudaganna myndað göng sem við hlupum í gegnum síðasta spölinn. Gunnlaugur Júlíusson ofurhlaupari hafði orð á því eftir Hamingjuhlaupið 2011 að hann hefði hvergi fengið þvílíkar viðtökur að hlaupi loknu. Það segir sitt, þar sem Gunnlaugur hefur farið víða á hlaupum sínum.

Eftir stutta móttökuathöfn gafst hlaupurunum ráðrúm til að skola af sér mesta svitann og leirinn í sundlauginni á Hólmavík, og að því loknu var komið að tertuhlaðborðinu. Þar fékk ég að vanda að skera fyrstu sneiðina, sem eru vafalítið einhver mestu forréttindi sem mér hafa hlotnast á lífsleiðinni. Þar með var Hamingjuhlaupinu formlega lokið. Og það eru hreint engar ýkjur að segja að þátttakendur hafi undantekningarlaust verið einstaklega hamingjusamir þessa kvöldstund. Öll höfðum við fundið gleðina sem fylgir því að hlaupa úti í náttúrunni í svona góðum félagsskap í svona góðu veðri. Þennan dag höfðu líka ýmis markmið náðst og margir sigrar verið unnir. Okkur Birki hafði til dæmis tekist ætlunarverkið að hlaupa alla leið frá Trékyllisvík til Hólmavíkur, Ingibjörg og Haukur höfðu bæði lokið sinni fyrstu 30 kílómetra dagleið, sumir voru að hlaupa 15 km í fyrsta sinn, aðrir 11 km – og svo mætti lengi telja. Dönsk kona sem var einn af gestum Hamingjudaganna kom til mín þarna við félagsheimilið og óskaði mér til hamingju með sigurinn. Ég þakkaði auðvitað fyrir og gerði enga tilraun til að útskýra að þetta hefði ekki verið keppni. Ég var vissulega sigurvegari. Við vorum það öll.