• Heimsóknir

  • 118.534 hits
 • febrúar 2023
  S M F V F F S
   1234
  567891011
  12131415161718
  19202122232425
  262728  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Hamingjuhlaup 1. júlí

Tertuhlaðborð á Hamingjudögum á Hólmavík 2014.

Laugardaginn 1. júlí nk. verður hlaupið til móts við hamingjuna á Hólmavík 9. árið í röð. Að þessu sinni liggur leiðin yfir fjallveginn Bæjardalsheiði, þannig að þetta er ekki bara hamingjuhlaup, heldur líka fjallvegahlaup. Þetta tvennt fer einstaklega vel saman. Leiðin öll er um 31,3 km að lengd og fer hæst í um 485 m hæð. Þeir sem ekki treysta sér alla leið geta auðveldlega valið að hlaupa hluta leiðarinnar, sbr. tímatöflu sem finna má neðar á þessari síðu.

Hamingjuhlaupið er fastur liður í bæjarhátíðinni Hamingjudögum á Hólmavík. Sú hefð hefur skapast að þegar hlaupararnir koma á leiðarenda fái þeir fyrstu sneiðarnar af árlegu hnallþóruhlaðborði sem þar er jafnan boðið upp á. Þetta hefur aukið hamingju þátttakenda enn frekar.

Lagt af stað úr Króksfirði
Hamingjuhlaupið yfir Bæjardalsheiði hefst kl. 11:10 á laugardag rétt vestan við Bæ í Króksfirði. Fyrir þá sem ekki vita hvar Króksfjörður er, þá er hann í Reykhólahreppi, ekki ýkja langt frá Króksfjarðarnesi, bara aðeins vestar. Upphafsstaður hlaupsins er nánar tiltekið á Vestfjarðavegi um 4,4 km vestan við vegamótin þar sem beygt er upp á Þröskulda. Enn nánar tiltekið er upphafsstaðurinn u.þ.b. 325 m vestan við bæinn Bæ í Króksfirði og hefur hnattstöðuna N65°30,71′ – V21°58,56′. Hlaupaleiðin liggur til norðurs, nokkurn veginn samsíða veginum upp á Þröskulda. Munurinn er bara sá að bílvegurinn liggur upp Gautsdal en hlaupaleiðin upp Bæjardal. Báðir enda þessir vegir hins vegar á sama stað Steingrímsfjarðarmegin.

Fróðleikur um leiðina
Leiðin yfir Bæjardalsheiði er ein nokkurra leiða sem menn gátu valið um á árum áður þegar þeir áttu erindi úr Reykhólasveit til Hólmavíkur, t.d. í verslunarleiðangra eftir að lauaskaupmenn hófu að stunda verslun í Skeljavík upp úr miðri 19. öld og eftir að Hólmavík fékk verslunarréttindi með konungsbréfi 3. janúar 1890. Tröllatunguheiði er dálítið austar og Laxárdalsheiði dálítið vestar, þ.e.a.s. sú Laxárdalsheiði sem sagt er frá í Fjallvegahlaupabókinni minni (leið nr. 5) og sem hlaupin var í Hamingjuhlaupinu 2015.

Bæjardalsheiði er afar fáfarin nú til dags og slóðin yfir hana sums staðar orðin ógreinileg. Fyrsta spölinn inn Bæjardal er þó fylgt greinilegum vegi, en af kortum að dæma virðist vegurinn gerast öllu frumstæðari þegar komið er á stað með hnattstöðuna N65°31,82′ – V21°57,62′ inn undir Selgili. Áfram er þó haldið sem leið liggur, enn eftir auðrötuðum slóða, upp á heiðina þar til komið er að þremur vötnum sem nefnast Lambavötn, vestan við svonefndar Bláfjallabrúnir. Leiðin liggur á vesturbakka syðsta vatnsins og miðvatnsins, (þ.e.a.s. vinstra megin við vötnin þegar hlaupið er sunnan frá). Vestan við miðvatnið er punktur með hnattstöðuna N65°33,31′ – V21°53,62′ og þangað eru u.þ.b. 7,15 km frá upphafsstaðnum. Rétt rúmlega hálfum kílómetra síðar er beygt til austurs sunnan við nyrsta vatnið (N65°33,52′ – V21°53,15′) og hlaupið áfram til norðurs eða norðaustur austan við það og áfram eftir háum hrygg með stefnu á Miðheiðarborg (494 m). Vestur og norður af Miðheiðarborg er allstórt vatn Gedduvatn. Þangað liggur leiðin þó ekki, enda kváðu þar þrífast hræðilega hættulegir fiskar, svonefndar eiturgeddur. Þær eru bláar á lit, eða kannski gylltar, og svo eitraðar að þær brenna gat á hvern þann flöt sem þær eru lagðar á, jafnvel löngu eftir að þær eru dauðar.

Sem fyrr segir liggur leiðin ekki að Gedduvatni, heldur er sveigt lítið eitt meira til austurs (til hægri) áður en þangað er komið og stefnan tekin á Þrívörður (N65°34,40′ – V21°50,99′). Þar er hæsti punktur leiðarinnar, um 485 m. yfir sjávarmáli. Að Þrívörðum eru u.þ.b. 10,4 km frá upphafsstaðnum. Þaðan er hægt að velja þrjár mismunandi leiðir norður af heiðinni og niður í Arnkötludal og allar eru þessar leiðir varðaðar að einhverju leyti. Greinilegasta leiðin liggur áfram nokkurn veginn beint frá Þrívörðum út fjallið, en þar hlóð fjallvegafélagið upp vörður á sínum tíma, líklega seint á 19. öld. Í þessu hlaupi verður hins vegar fylgt þeirri leið sem líklega var fjölförnust fyrr á öldum, þ.e.a.s. innstu leiðinni, í þeirri frómu trú að hún sé upphaflegust og þannig „mest ekta“, þó að lítið standi þar eftir af merkingum nema lúin vörðubrot og slóðin víðast orðin máð. Þessi leið liggur í austnorðaustur frá Þrívörðum, rakleiðis niður í Arnkötludal með stefnu á Víghól (N65°34,65′ – V21°47,63′) á vesturbakka Arnkötludalsár. Frá Þrívörðum eru u.þ.b. 2,8 km að Víghóli, þannig að þar er heildarvegalengdin frá upphafi komin í u.þ.b. 13,2 km.

Í Fóstbræðrasögu er sagt frá því þegar Þorgeir Hávarsson skrapp um öndverðan vetur frá Reykhólum norður að Hrófá í Steingrímsfirði til að drepa mann fyrir kónginn. Að loknu verki fór hann svo aftur að Reykhólum, eins og hann gerði gjarnan þegar hann var búinn að drepa einhvern. Til eru sagnir af því, þó að þess sé ekki getið í Fóstbræðrasögu, að honum og mönnum hans hafi verið veitt eftirför frá Hrófá og að slegið hafi í brýnu á Víghóli. Þar var barist með bareflum og grjóti, enda nóg til af því á svæðinu. Þrír lágt settir menn eiga að hafa týnt lífi í þessum átökum og verið dysjaðir í urðinni skammt frá hólnum, þar sem síðan heitir Dys.

Við Víghól liggur beinast við að vaða austur yfir ána, enda eru hún vatnslítil á venjulegum sumardegi. Á austurbakkanum er komið inn á aðalveginn til Hólmavíkur, Djúpveg, og um leið breytist hlaupið úr utanvegahlaupi í malbikshlaup. U.þ.b. einum kílómetra neðar liggur vegurinn vesturyfir ána og eftir u.þ.b. 2,2 km til viðbótar má sjá rústir eyðibýlisins Vonarholts á árbakkanum rétt fyrir neðan veginn. Síðustu ábúendurnir þar voru hjónin Sigurður Helgason og Guðrún Jónatansdóttir. Þau fluttu frá Vonarholti árið 1935 og settust að í Arnkötludal, einni bæjarleið neðar í dalnum. Þaðan fóru þau líka síðust manna árið 1957 þegar þau færðu sig niður að Hrófá þar sem þau bjuggu eftir það. Síðan þá hefur enginn búið í dalnum.

Við Vonarholt eru um 16,4 km að baki og 14,9 km eftir til Hólmavíkur. Arnkötludalsbærinn er um 6 km neðar í dalnum og stendur handan við ána. Frá Arnkötludal eru um 2,7 km niður að vegamótunum við Hrófá, þar sem valið stendur um að beygja til hægri og hlaupa inn Strandir, áleiðis til Akureyrar, eða til vinstri og taka stefnuna á Hólmavík. Frá þessum vegamótum eru um 6,9 km eftir af Hamingjuhlaupinu.

Endaspretturinn
Segja má að á vegamótunum við Hrófá ljúki fjallvegahlaupinu yfir Bæjardalsheiði og að við taki endasprettur Hamingjuhlaupsins. Hvernig sem þessari orðanotkun er háttað gerir tímaáætlun hlaupsins ráð fyrir að hamingjuhlaupararnir verði staddir við Hrófá kl. 14:40 á laugardag og að endaspretturinn þaðan taki nákvæmlega 50 mínútur að meðtaldri u.þ.b. einnar mínútu viðdvöl við lögreglustöðina á Kálfanesskeiði í útjaðri Hólmavíkur. Hlaupið endar að þessu sinni á túninu við Galdrasafnið og að vanda er þess að vænta að hlaupurum verði fagnað eins og þjóðhetjum þegar þangað er komið, (sbr. mynd í upphafi þessa pistils).

Tímaáætlun
Rétt er að minna á að Hamingjuhlaupið er ekki keppnishlaup, heldur halda hlaupararnir yfirleitt hópinn og fylgja fyrirfram gerðri tímaáætlun sem svipar mjög til strætisvagnaáætlunar. Áætlunin fyrir Hamingjuhlaupið 2017 fer hér á eftir.

Tímatafla Hamingjuhlaupsins 2017. (Smellið á myndina til að stækka hana).

Úr myndaalbúmum sögunnar
Eins og fram hefur komið verður þetta 9. Hamingjuhlaupið frá upphafi. Myndirnar hér að neðan gefa örlitla innsýn í sögu hlaupsins og fela í sér sönnun þess hversu mikil hamingja fylgir jafnan þátttökunni í því. Sé smellt á ártölin undir myndunum birtast sögulegar heimildir um viðkomandi hlaup, hafi þær á annað borð verið skráðar.

Hamingjuhlaupið 2009. Þarna byrjaði þetta allt saman – á Drangsnesi. F.v.: Arnfríður, Birkir, Guðmann, Ingimundur, Stefán, Þorkell og Eysteinn.

Hamingjuhlaupið 2010. Þetta var frekar fámennt en afskaplega góðmennt hlaup yfir Þröskulda. F.v.: Kristinn, Birkir, Stefán og Ingimundur.

Hamingjuhlaupið 2011. Á leið upp Bitruháls með Gunnlaug Júlíusson, Birki Stefánsson og Hafþór Benediktsson í broddi fylkingar.

Hamingjuhlaupið 2012 í ótrúlega góðu veðri norður í Reykjarfirði.

Hamingjuhlaupið 2013. Afskaplega hamingjusamir hlauparar í fjörunni í Djúpavík.

Hamingjuhlaupið 2014. Líf og yndi í grænum dal, Vatnadal.

Hamingjuhlaupið 2015. Fersk gleði á fjöllum, nánar tiltekið á Laxárdalsheiði.

Hamingjuhlaupið 2016. Á Bjarnarfjarðarhálsi með Birki, Hauk og Noémie fremstum meðal jafningja.

Helstu heimildir

 • Jón Guðnason (1955): Strandamenn. Æviskrár 1703-1953. Jón Guðnason, Reykjavík.
 • Jón Torfason o.fl. (ritstj.) (1985): Íslendingasögur. Fyrra bindi. Svart á hvítu, Reykjavík.
 • Matthías Lýðsson (2010): Lítið eitt um Arnkötludalhttp://strandir.is/litid-eitt-um-arnkotludal.
 • Sigurður Ægisson og Jón Baldur Hlíðberg (2008): Af öfuguggum og öðrum kynjaskepnum á Vestfjörðum. Í „Vestfirðir. Sumarið 2008“. H-prent ehf., Ísafjörður.

Sérstakar þakkir

 • Hafdís Sturlaugsdóttir fyrir aðstoð við leiðarlýsingu og GPS-mælingar
 • Hólmvíkingar fyrir góðar móttöku og hvatningu öll þessi ár

Hamingjuhlaup framundan

Laxárdalsh 011 (448x336)

Lagt á Laxárdalsheiði úr Reykhólasveit í fjallvegahlaupi 2008.

Hið árlega Hamingjuhlaup verður haldið í sjöunda sinn laugardaginn 27. júní 2015 og hefst í Reykhólasveit kl. 9:45 árdegis, nánar tiltekið um það bil miðja vegu milli bæjanna Gillastaða og Klukkufells og enn nánar tiltekið við GPS-punktinn N65°31,77‘ – V22°01,83‘. Þessi punktur er um 8 km vestan við vegamótin sunnan við Þröskulda. Leiðin öll er um 35 km og fer hæst í um 590 m hæð.

Hlaupaleiðin liggur að þessu sinni yfir Laxárdalsheiði, sem er ein margra fjallvega sem farnir voru fyrr á árum milli Reykhólasveitar og Stranda. Þetta er hins vegar alls ekki sama Laxárdalsheiði og flestir þekkja, enda er þetta engan veginn einnota örnefni.

Fyrsti 12 km spölurinn í Hamingjuhlaupinu þetta árið er allur heldur á fótinn. Fylgt er greinilegum vegarslóða yfir Gillastaðafell, upp með Geitá og áfram upp að svonefndri Miðheiðarborg sem er líka fjölnota örnefni. Þar lýkur fyrsta áfanga hlaupsins og þar endar líka vegarslóðinn og við taka grýttar og veðurbarðar auðnir. Svo sem 1-2 km norðar er hæstu hæðum náð og eftir það tekur vötnum að halla til Steingrímsfjarðar. Að sama skapi breytist landslagið og í ljós koma gil og gljúfur sem greinilega víkka til norðurs. Slóðar, fjárgötur eða vörðubrot vísa veginn lengst af og nú liggur leiðin ofarlega í hæðunum sem skilja að Húsadal og Þiðriksvalladal, Húsadalsmegin, allt þar til 2. áfanga hlaupsins lýkur við Kerlingarskarð. Þá eru samtals um 22 km að baki og ekki langt eftir niður að Þverárvirkjun, þ.e.a.s. ef haldið væri áfram beinustu leið. En það stendur ekki til, því að í Kerlingarskarði er tekin kröpp vinstri beygja og hlaupið eftir fjárgötum skáhallt niður bratta hlíð niður í Þiðriksvalladal og svo áfram um afskaplega blautar mýrar inn með Þiðriksvallavatni. Á leiðinni þarf að vaða nokkra læki, sérstaklega einn sem kemur úr Nautadal og gæti sem best heitið Nautadalsá eða Nautagil. Þarna skammt frá stóð bærinn Þiðriksvellir en túnin fyrir neðan bæinn hafa verið sérlega blaut síðustu 60 árin eða svo, þ.e. síðan Þiðriksvallavatn var gert að uppistöðulóni fyrir Þverárvirkjun. Áfram er haldið um stund inn mýrarnar í dalbotninum þar til komið er á móts við Grímsdal. Þar þarf að vaða aðalvatnsfallið í dalnum, sem náði meðalmanni upp á mið læri þegar dýpið var kannað fyrr í þessum mánuði. Þarna á árbakkanum lýkur þriðja áfanga hlaupsins.

Horft úr Kerlingarskarði inn Þiðriksvalladal. Bæjarhóllinn í Vatnshorni er lengst til hægri á myndinni en leiðinni er heitið lengst inn í dalbotninn. Myndin er tekin að morgni þjóðhátíðardagsins 2015.

Horft úr Kerlingarskarði inn Þiðriksvalladal. Bæjarhóllinn í Vatnshorni er handan við vatnið lengst til hægri á myndinni, en ferðinni er heitið lengst inn í dalbotninn. Myndin er tekin að morgni þjóðhátíðardagsins 2015.

Af bakkanum þarna á móts við Grímsdal liggur jeppaslóði til byggða, sem þýðir að hlauparar sem vilja slást í hópinn um þetta leyti komast hugsanlega á staðinn á jeppa. En það verður þá að vera jeppi á stórum dekkjum, því að slóðinn er sundurskorinn síðasta spölinn og enn mjög blautur. Þeir sem ætla að spreyta sig á þessum akstri, sem þeir gera vissulega á eigin ábyrgð, aka sem leið liggur inn Þiðriksvalladal og taka krappa hægri beygju innst í bæjarhólnum í Vatnshorni. Ástæða er til að minna þá sem þetta reyna á að ganga vel um náttúruna. Reyndar má líka benda á að þeir sem vilja kynnast alvöru utanvegahlaupi án þess að hlaupa alla leið yfir heiðina, geta sem best slegist í hópinn í Kerlingarskarði. Þangað eru um 3,5 km frá Þverárvirkjun og hægt að komast á jeppa nokkuð af leiðinni eftir slóða sem liggur frá virkjuninni fram Húsadal.

Frá bakkanum á móts við Grímsdal eru um 10,1 km til Hólmavíkur. Fjórði áfangi hlaupsins er þaðan og niður að eyðibýlinu Vatnshorni sem stóð við norðvesturhorn Þiðriksvallavatns. Þessi spölur er ekki nema um 1,7 km, sem þýðir að frá Vatnshorni eru um 8,4 km til Hólmavíkur. Leiðin frá Vatnshorni er þokkalega fær á hvaða fjórhjóladrifsbíl sem er, en ökumenn þurfa þó að fara að öllu með gát.

Hlaupaleiðin frá Vatnshorni til Hólmavíkur skýrir sig að mestu sjálf. Fimmti áfanginn, þ.e. leiðin frá Vatnshorni niður á stífluna við neðri endann á vatninu, er greiðfær fyrir hlaupara, en býður upp á nokkrar góðar brekkur. Eftir það tekur við góður malarvegur niður að aðalveginum norður Strandir. Komið er inn á hann á móts við golfvöllinn í Skeljavík og þaðan eru ekki nema 3,3 km inn á hátíðarsvæði Hamingjudaganna.

Hamingjuhlaupið er ekki keppnishlaup, heldur halda hlaupararnir yfirleitt hópinn og fylgja fyrirfram gerðri tímaáætlun, eins og hver annar strætisvagn. Þetta auðveldar fólki að slást í hópinn á leiðinni. Áfangaskiptingu og tímaáætlun Hamingjuhlaupsins 2015 má sjá á myndinni hér fyrir neðan. (Stærri útgáfa birtist ef smellt er á myndina).

Hamingjuhlaup 2015 tímaáætlun

Hamingjuhlaupinu 2015 lýkur við hátíðarsvæðið á Klifstúni á Hólmavík stundvíslega kl. 15:00. Sú hefð hefur skapast að hamingjuhlaupararnir fái fyrstu sneiðarnar af hinu víðfræga tertuhlaðborði Hamingjudaganna og er haft fyrir satt að önnur eins forréttindi séu fátíð nú til dags. Sömuleiðis þykir sannað að hamingja þeirra sem taki þátt í hlaupinu aukist verulega á meðan á því stendur og nái hámarki þarna við tertuhlaðborðið.

Sýnishorn af Hnallþóruhlaðborði Hamingjudaga 2014.

Sýnishorn af Hnallþóruhlaðborði Hamingjudaga 2014.

Nánari og ögn formlegri upplýsingar um hlaupið er að finna á hlaup.is og þar eru m.a. tenglar á safaríkar frásagnir af fyrri hamingjuhlaupum.

Í lokin birtast hér nokkrir GPS-punktar fyrir þá sem vilja vera öruggir um að rata alla leið. (Reyndar er leiðin frekar auðrötuð og lítil hætta á villum þegar fleiri eru saman. En ef maður á GPS-tæki er ágætt að nota það annað slagið. Reynslan af því kemur sér vel seinna).

Hamingjuhlaup 2015 GPS-hnit

PS: Á það má líka benda að hægt er að sjá leiðina í grófum dráttum á gönguleiðakorti Ferðamálasamtaka Vestfjarða (Vestfirðir & Dalir 6), þ.e. leið nr. 26 (Laxárdalsheiði) og leið nr. 27 (Þiðriksvallavatn). (Sjá einnig: http://fjallvegahlaup.com/hlaupasogur/laxardalsheidi).

Hamingja, þakklæti og hlaup

???????????????????????????????Hamingjuhlaupið fór fram í sjötta sinn laugardaginn 28. júní sl. í tengslum við Hamingjudaga á Hólmavík. Að þessu sinni lá leiðin frá Kleifum í Gilsfirði um Vatnadal til Hólmavíkur, samtals tæplega 37 km leið, og eins og vænta mátti var hamingjan með í för allan tímann. Í samræmi við hefðina endaði hlaupið við tertuhlaðborð neðst á Klifstúninu á Hólmavík, þar sem hlaupararnir fengu að skera og snæða fyrstu tertusneiðarnar, svona rétt til að auka enn frekar á hamingjuna.

Ha? Hamingja!?
Eðlilegt er að spurt sé hvernig fólk geti orðið hamingjusamt með því að hlaupa klukkutímum saman um vegleysur. Við þessari spurningu eru mörg svör en hér verða aðeins þrjú þeirra tíunduð:

 1. Hamingjan felst í þakklætinu yfir því að geta hlaupið sér til ánægju eða yfirleitt yfir því að forsjónin og fólkið í kringum mann geri manni kleift að gera það sem mann langar til á þessum stað og þessari stundu.
 2. Hamingjan felst í því að vera úti í náttúrunni með öðru hamingjusömu fólki, rennandi vatni, lykt af lyngi, fuglahljóðum og víðáttu sem virðist óendanleg þar sem maður er staddur í smæð sinni.
 3. Hamingjan felst í því að vera þátttakandi í sameiginlegu verkefni, þar sem hamingjan er leiðarstefið. Þannig er það á Hamingjudögum á Hólmavík.

Hvernig byrjaði þetta?
Hamingjuhlaupin urðu upphaflega til fyrir tilviljun. Fjölskyldan mín og ég höfum sótt Hamingjudaga á Hólmavík í flest þau skipti sem þeir hafa verið haldnir og þá lá beint við að bregða sér í góðan hlaupatúr í kyrrðinni sem oft er svo áberandi á Hólmavík snemma morguns. Og af því að þetta var einhvern veginn orðinn árlegur viðburður lá beint við að tengja hann Hamingjudögum og bjóða öðrum að njóta með sér. Þessa sögu hef ég reyndar rakið áður og endurtek ekki þá frásögn hér. Alla vega þróaðist þetta þannig að fyrsta Hamingjuhlaupið var hlaupið frá Drangsnesi til Hólmavíkur sumarið 2009 – og síðan hefur þetta verið árvisst.

Þrátt fyrir hefðina er Hamingjuhlaupið afskaplega óhefðbundið hlaup. Þetta er t.d. ekki keppnishlaup, heldur fylgjast hlaupararnir alla jafna að og fara ekki hraðar en svo að flestum sé fært að skokka með einhvern hluta leiðarinnar. Og svo er hlaupaleiðin líka síbreytileg, þar sem ævinlega er reynt að finna nýja leið að ári til að gera upplifunina enn hamingjuríkari.

Á leiðinni á ball?
Móðir mín heitin var fædd og uppalin á Kleifum í Gilsfirði. Hjá henni heyrði ég fyrst um Vatnadal sem færa leið á milli byggða Breiðafjarðar og Húnaflóa, en þessa leið fóru eldri bræður hennar ríðandi á millistríðsárunum á leið sinni á böllin á Hólmavík. Hægt er að fara mismunandi leiðir upp úr Gilsfirði, en nú til dags er hentugast að fylgja veginum áleiðis upp á Steinadalsheiði, fyrst að þessi vegur er þarna á annað borð, og beygja síðan af honum þegar komið er upp fyrir Brimilsgjá og halda þaðan vestur yfir hæðina sem skilur að Brekkudal og Vatnadal. Þessari leið lýsti ég í bloggi á dögunum.

Ferðasagan 2014
Að morgni laugardagsins fórum við átta saman á tveimur bílum frá Hólmavík um Þröskulda að Kleifum. Á svona ferðalögum er maður háður því að eiga góða að, því að bílarnir keyra sig ekki sjálfir til baka. Að þessu sinni tóku eiginkonan Björk og dóttirin Birgitta þessi hlutverk að sér. Björk er öllu vön í þessum fræðum, enda hefur hún aðstoðað mig í flestum þeim uppátækjum mínum sem snúast um að hlaupa frá einum stað til annars um fjöll og firnindi.

Við vorum komin tímanlega að Kleifum, þ.e.a.s. um hálftíma áður en hlaupið átti að hefjast. Þar voru fyrir tveir hlauparar sem höfðu beðið þar drjúga stund. Upplýsingar um tímasetninguna höfðu nefnilega verið svolítið misvísandi, því að hlaupið átti ýmist að hefjast kl. 9:50 eða 10:50 eftir því hvaða orðsendingar menn höfðu lesið. En þetta kom ekkert að sök, því að Hermann frændi minn og hluti af hans skylduliði var einmitt statt á Kleifum. Þau tóku vel á móti fólki og liðsinntu því á allan hátt.

Laust fyrir kl. 10:50 lögðum við í hann átta saman. Veðrið lék við okkur, hitinn var kominn vel yfir 10 stig, loft var skýjað en þurrt og svolítil gola blés af suðvestri. Einhver þoka sást á fjöllum en bara á hæstu tindum. Og veðurspáin gaf fyrirheit um lítil frávik frá þessu. Þetta hlaut að verða góður dagur.

Allt tilbúið á hlaðinu á Kleifum. F.v. Bryndís Óladóttir, Sævar Skaptason, Gunnar Viðar Gunnarsson, Birkir Þór Stefánsson, Stefán Gíslason, Arnar Barði Daðason, Kolbrún Unnarsdóttir og Hafþór Rafn Benediktsson. (Ljósm. Björk Jó).

Allt tilbúið á hlaðinu á Kleifum. F.v. Bryndís Óladóttir, Sævar Skaptason, Gunnar Viðar Gunnarsson, Birkir Þór Stefánsson, Stefán Gíslason, Arnar Barði Daðason, Kolbrún Unnarsdóttir og Hafþór Rafn Benediktsson. (Ljósm. Björk Jó).

Hamingjuhlaupin fylgja alltaf fyrirfram ákveðinni tímaáætlun sem gerir það mögulegt að slást í hópinn á ákveðnum stöðum í hlaupinu og tryggir sem best að allir skili sér til Hólmavíkur í tæka tíð fyrir tertuskurðinn. Misauðvelt er að áætla tímann, enda ræðst hraðinn í svona hlaupi af mörgum þáttum. Til dæmis er mun seinlegra að hlaupa í þúfum og stórgrýti þar sem hvergi mótar fyrir götu, heldur en á troðnum slóðum og bílvegum. Eins skiptir hæðarlegan miklu máli. Hvað sem þessu líður héldum við nokkurn veginn áætlun á fyrsta áfanganum, sem var rétt um 6 km spölur frá Kleifum og upp fyrir Brimilsgjá. Ferðalagið þangað tók um 45 mínútur, enda um 300 m hækkun inni í spilinu.

Á leið upp Steinadalsheiði. Þarna er eiginlega of bratt til að hlaupa.

Á leið upp Steinadalsheiði. Þarna er eiginlega of bratt til að hlaupa.

Næsti áfangi hlaupsins var seinlegri en sá fyrsti. Við beygðum sem sagt til vinstri út af Steinadalsheiðarveginum, óðum ána eða stukkum kannski yfir hana og tókum stefnuna beint upp vesturhlíð dalsins. Fyrst lá leiðin um blauta mýri og síðan tóku við brött malarholt. Sums staðar lágu skaflar í lautum enda undangenginn vetur snjóþungur sunnan til í heiðum.

Enn á uppleið. Horft norður Steindadalsheiði og í fjarska grillir í Heiðarvatn.

Enn á uppleið. Horft norður Steindadalsheiði og í fjarska grillir í Heiðarvatn.

Fyrr en varði vorum við komin efst upp á hæðina milli Brekkudals og Vatnadals. Ekkert okkar hafði farið þessa sömu leið áður og til öryggis hafði ég sett nokkra GPS-punkta inn í hlaupaúrið mitt. Slíkt er sérstaklega nauðsynlegt þar sem von getur verið á þoku. Fyrsti punkturinn var niðri í Vatnadal þar sem mér sýndist á korti að hentugt væri að fara niður í dalinn. Þarna uppi á hæðinni var hins vegar auðséð að nákvæm staðsetning niðurgöngunnar skipti litlu máli. Hlíðin er vissulega brött, en hvergi svo að erfitt sé að fóta sig. Við tókum því stefnuna á ská út og niður hlíðina til að stytta leiðina örlítið.

Á hæstu hæðum.

Á hæstu hæðum.

Þarna í hlíðinni lá gríðarþykkur brattur skafl sem var furðu erfiður yfirferðar þótt allt væri það á eindregnu undanhaldi. Þegar komið er fram á sumar er yfirborð svona skafla oftast meyrt, þar sem efsta lagið nær að bráðna svolítið yfir daginn. Líklega vorum við of snemma á ferð þennan dag til að þetta ætti við. Alla vega var yfirborðið svo hart að hlaupaskórnir mörkuðu naumast í það spor. Við aðstæður sem þessar skiptir máli að vera í góðum utanvegaskóm með grófum botni.

Bryndís á leið niður fannirnar í austurhlíð Vatnadals. Niðri í dalnum sést í Miðdalsána.

Bryndís á leið niður fannirnar í austurhlíð Vatnadals. Niðri í dalnum sést í Miðdalsána.

Ferðin niður skaflinn gekk áfallalaust og fyrr en varði stóðum við á bökkum Miðdalsár. Ætlunin var að hlaupa niður með ánni að vestanverðu og því var aftur tekið til við að vaða eða stökkva, allt eftir því hvaða skoðanir hver og einn hafði á eigin getu. Landið vestan við ána er auðveldara yfirferðar en að austanverðu. Að austan er hallinn meiri, auk þess sem þar skera brött gil hlíðina.

Hjálpast að yfir Miðdalsána.

Hjálpast að yfir Miðdalsána.

Þegar yfir ána var komið tók við hlaup áleiðis niður dalinn, eða öllu heldur hlaup og ganga til skiptis. Þarna eru engar sléttar grundir þar sem virkilega er hægt að spretta úr spori, heldur skiptast á blautar mýrar og grösugir móar. Eftir því sem neðar dregur í dalnum verða kindagötur gleggri og þar er auðveldara að hlaupa við fót en í ósnertum móum.

Kolla á ferð í dæmigerðu landslagi Vatnadals.

Kolla á ferð í dæmigerðu landslagi Vatnadals.

Samkvæmt tímaáætluninni lauk næsta áfanga hlaupsins gegnt Melrakkagili, skammt frá sýslumörkum Austur-Barðastrandarsýslu og Strandasýslu, já eða hreppamörkum Reykhólahrepps og Strandabyggðar. Þarna vorum við orðin u.þ.b. 10 mín. á eftir áætlun, enda leiðin heldur seinfarin auk þess sem eitt okkar hafði snúið sig lítillega á ökkla. Þau meiðsli reyndust ekki alvarleg en öll skakkaföll af þessu tagi seinka manni eðlilega ef eitthvað er. Tíu mínútna skekkja var þó ekkert áhyggjuefni, enda löng leið framundan og nógur tími til að vinna upp þennan tíma. Til vara hafði ég auk heldur gert ráð fyrir 12 mínútna tímajöfnun á vegamótunum innan við Sævang þar sem komið yrði inn á veginn norður Strandir til Hólmavíkur.

Af lýsingum að dæma bjóst ég við að næsti áfangi yrði seinfarinn, þ.e.a.s. leiðin frá Melrakkagili niður í mynni Hraundals sem gengur vestur úr Miðdal. Sú var þó ekki raunin. Þessi spölur reyndist furðu fljótfarinn, enda víðast greinilegar kindagötur og jafnvel slóð eftir jeppa sem stundum eru notaðir til að flytja smala þarna inneftir á haustin. Sums staðar eru líka nokkuð sléttar eyrar meðfram ánni. Við Birkir bóndi í Tröllatungu vorum fyrstir niður í Hraundal, enda tókum við okkur það fyrir hendur á leiðinni að komast fyrir nokkra hópa af kindum sem tekið höfðu á rás niður dalinn þegar þær urðu varar við þessar óvenjulegu mannaferðir. Það hefði verið leiðinlegt að smala öllu safninu til byggða svona um mitt sumar. Reyndar forðuðu þær sér flestar inn í Hraundal þar sem beitilandið er sjálfsagt engu síðra en á Vatnadalnum.

Birkir í Tröllatungu er vafalítið í hópi fótfráustu bænda enda ýmsu vanur úr skíðagöngum og löngum hlaupum síðustu árin. Viku fyrir Hamingjuhlaupið missti hann reyndar af skemmtihlaupinu Þrístrendingi, því að degi fyrr fékk hann óvænt far með sjúkrabíl suður á kant, þar sem grípa þurfti til aðgerða gegn bráðum krankleika sem á hann sótti. En vika er langur tími, alla vega fyrir Birki. Fátt benti til þess að hann væri nýstiginn upp úr sjúkrarúmi.

Við áðum um stund við Hraundalsá og gæddum okkur á nesti, sem var að vanda af léttari gerðinni. Í fjallahlaupum hentar hvorki að bera miklar byrðar né innbyrða mikið af mat. Næring og vökvun eru engu að síður afskaplega mikilvægir þættir ef ætlunin er að halda kröftum á langri leið.

Hópmynd við Hraundalsá kl. 13.01. Allt á áætlun, 13 km búnir og 24 eftir.

Hópmynd við Hraundalsá kl. 13.01. Allt á áætlun, 13 km búnir og 24 eftir.

Þegar við komum að Hraundalsá höfðum við unnið upp mínúturnar sem upp á vantaði við Melrakkagil – og reyndar gott betur. Sá ágóði hvarf þó í nestistímanum, þannig að þegar við lögðum aftur af stað var tímaáætlunin nokkurn veginn í járnum. Ég hafði reiknað með að næsti áfangi frá Hraundalsá niður fyrir Torffell væri frekar fljótfarinn. Hann reyndist þó drjúgur, því að þarna er enn töluvert um þúfur og skorninga sem koma í veg fyrir hröð hlaup. Þegar við komum niður að Torffelli vorum við aftur komin um 10 mínútum á eftir áætlun. En nú hlaut þetta að fara að ganga hraðar, því að framundan var greinilegur vegarslóði meðfram ánni og síðan upp túnið við eyðibýlið Tind.

Arnar Barði á leiðinni frá Hraundal niður að Tind. Vatnadalur í baksýn til vinstri og Hraundalur til hægri.

Arnar Barði á leiðinni frá Hraundal niður að Tind. Vatnadalur í baksýn til vinstri og Hraundalur til hægri.

Við Tind slóst níundi hlauparinn í hópinn, Ingibjörg Benediktsdóttir frá Hólmavík. Þarna voru líklega um 17 km eftir af hlaupinu. Svo langt hafði hún aldrei hlaupið, en eitt af því hamingjuríka við Hamingjuhlaupið er að í því felast tækifæri fyrir fólk til að takast á við nýjar áskoranir og ná nýjum markmiðum.

Ingibjörg Ben. nýlögð af stað frá Tind.

Ingibjörg Ben. nýlögð af stað frá Tind.

Við hertum heldur á okkur á næsta áfanga, enda komin á greiðfæran jeppaveg. Fyrr en varði vorum við komin að vaðinu á Miðdalsá neðan við Gestsstaði. Talsvert vatn var í ánni en engu að síður auðvelt að vaða hana þar sem botninn var tiltölulega sléttur og straumurinn hóflegur. Í fjallahlaupum hirðir fólk sjaldnast um að halda skónum sínum þurrum enda óvenjulegt að slíkt sé yfirleitt í boði. Góðir utanvegaskór eru líka þannig gerðir að vatn á álíka greiða leið út úr þeim eins og inn í þá. Oftast dugar því að stappa nokkrum sinnum niður fótum þegar yfir er komið. Þá er eins og ekkert hafi í skorist.

Bryndís komin upp úr Miðdalsánni fyrir neðan Gestsstaði.

Bryndís komin upp úr Miðdalsánni fyrir neðan Gestsstaði.

Við Miðdalsána bættist Magnús bóndi á Stað í hópinn og áfram var haldið niður að bænum Klúku. Þar beið Björk með vistir og þar slóst Birgitta í för með okkur. Hlaupurunum fjölgaði svo enn þegar komið var niður á malbikið á aðalveginum til Hólmavíkur. Um það leyti var ég hættur að hafa nákvæma tölu á hópnum, en þóttist þess þó fullviss að enginn hefði týnst á leiðinni. Þarna var ætlunin að viðhafa svolitla tímajöfnun, en þess gerðist ekki þörf, því að þegar inn á malbikið var komið var ferðalagið í fullu samræmi við tímaáætlunina. Framundan var 11,5 km malbikshlaup til Hólmavíkur.

Á leið upp Heiðarbæjarmela. Ingibjörg fremst, þá Birgitta og síðan Hafþór. 10,5 km eftir til Hólmavíkur.

Á leið upp Heiðarbæjarmela. Ingibjörg fremst, þá Birgitta og síðan Hafþór. 10,5 km eftir til Hólmavíkur.

Aðstæður á malbikinu eru auðvitað miklu staðlaðri en í óbyggðum. Þess vegna er frekar auðvelt að gera raunhæfar tímaáætlanir fyrir hamingjuhlaup á malbiki. Þar miða ég yfirleitt við að hver kílómetri sé hlaupinn á tæpum 7 mín, sem samsvarar rúmlega 8,5 km/klst. Þetta finnst eflaust mörgum hlaupurum hægt, en tilgangurinn er jú sá að sem flestir geti slegist í hópinn óháð aldri og fyrri íþróttaafrekum. Þetta gekk líka eftir því að meðfram leiðinni biðu sums staðar bílar og út úr bílunum kom fólk sem tók til fótanna með okkur.

Ég hafði gefið upp nokkrar staðsetningar í tímaáætluninni, sem ég notaði sjálfur til að ganga úr skugga um að allt væri á áætlun. Þetta var auðvelt verk og rétt um kl. 15:50 vorum við komin að lögreglustöðinni á Kálfanesskeiði í útjaðri Hólmavíkur. Þar var liðinu safnað saman og tekin hópmynd, sem sýnir svo ekki verður um villst að hópurinn hafði stækkað og taldi nú 25 manns, þar af 6 sem hlaupið höfðu alla leiðina.

Hópmynd við lögreglustöðina á Hólmavík. Reyndar eru bara 23 á myndinni, en það var vegna þess að tvo vantaði. (Ljósm. Björk).

Hópmynd við lögreglustöðina á Hólmavík. Reyndar eru bara 23 á myndinni, en það var vegna þess að tvo vantaði. (Ljósm. Björk).

Svo var beðið eftir merki frá Esther hamingjustjóra um það hvenær óhætt væri að taka á rás inn á hátíðarsvæðið. Þangað var ætlunin að mæta kl. 16:00, en eðlilega getur þurft að færa þá tímasetningu til um nokkrar mínútur til að allt sé tilbúið í tertuskurðinn. Að þessu sinni var allt innan skekkjumarka, þannig að strax að lokinni myndatöku var lagt upp í síðasta áfangann, svo sem 1400 m þægilegt skokk niður Sýslumannshallann, fram hjá Hvoli og Grímeyjarhúsinu og áfram sem leið lá inn á hátíðarsvæðið neðst á Klifstúninu út og niður af Brennuhól þar sem Hólmavíkurkirkja horfir yfir plássið. Að baki voru tæpir 37 km og rúmar 5 klst. frá því að við lögðum að stað frá Kleifum.

Móttökurnar við endamarkið voru glæsilegar að vanda. Þar var Esther búin að láta hamingjugesti mynda hamingjugöng sem við hlupum í gegnum síðasta spölinn. Við tóku hefðbundnar kveðjur og svo var ekkert annað eftir en að setjast í grasið og njóta veitinganna. Þetta var búinn að vera góður dagur og hamingjan breiddist yfir allt svæðið.

Hamingjugöngin. Hlauparar fá varla betri móttökur annars staðar! (Ljósm. Hamingjudagar).

Hamingjugöngin. Hlauparar fá varla betri móttökur annars staðar! (Ljósm. Hamingjudagar).

Takk!!!
Athuganir mínar benda til að hamingja og þakklæti séu nátengdar tilfinningar. Alla vega var ég ekki bara hamingjusamur að hlaupi loknu, heldur líka þakklátur, sérstaklega í garð forsjónarinnar, fjölskyldunnar minnar, hlaupafélaga dagsins, Estherar hamingjustjóra og Hólmvíkinga allra, svo fátt eitt sé nefnt. Það eru forréttindi að fá að njóta svona daga.

Eitt lítið sýnishorn af Hnallþóruhlaðborðinu (með stórum staf). (Ljósm. Björk).

Eitt lítið sýnishorn af Hnallþóruhlaðborðinu (með stórum staf). (Ljósm. Björk).

Hamingja, þakklæti og tertur að hlaupi loknu. (Ljósm. Björk).

Hamingja, þakklæti og tertur að hlaupi loknu. (Ljósm. Björk).

Hamingjuhlaup á laugardaginn

Hamingjuhlaup 2014 kort Kleifar-MiðdalurHið árlega Hamingjuhlaup verður haldið í sjötta sinn laugardaginn 28. júní, en hlaupið tengist Hamingjudögum á Hólmavík. Að þessu sinni verður hlaupið frá Kleifum í Gilsfirði um Vatnadal til Steingrímsfjarðar og áfram eftir veginum til Hólmavíkur, en þessa leið riðu móðurbræður mínir á millistríðsárunum áleiðis á böll á Ströndum. Þetta var kallað að fara Vatnadal.

Þegar farinn er Vatnadalur er hægt að velja milli a.m.k. þriggja leiða upp úr Gilsfirði. Ysta leiðin liggur upp með Mávadalsá milli Gilsfjarðarbrekku og Gilsfjarðarmúla, en mér er ekki fullljóst hvorum megin við ána er best að fara. Þetta var kallað að fara upp með Bergi, en Berg er líklega nafnið á klettabelti uppi í brúninni. Þarna þótti naumast óhætt að fara með hesta, en síðari tíma heimildir herma þó að ónefndur bóndi í Gilsfirði hafi einhvern tímann riðið þarna niður vel við skál. Það þótti glæfraför, en hún endaði giftusamlega.

Frá Kleifum var yfirleitt farið upp með Glámi eins og kallað var, en Glámur er stakur klettur í brúninni upp og út af Gilsfjarðarbrekku. Þá er farið skáhallt upp frá Brekkubænum. Þarna var sæmileg hestagata, en við Glám hefur mikið hrunið úr henni á síðari árum þannig að hún er vafalítið alveg ófær hestum núorðið. Að öllum líkindum vefst þessi kafli þó ekki fyrir vönum göngumönnum.

Þriðji möguleikinn er að fara upp grasi vaxna brekku sem teygir sig frá brúninni niður undir botn Brekkudals innan við bæinn á Gilsfjarðarbrekku. Þessi leið er líklega sú lengsta af þessum þremur. Ég geri ráð fyrir að móðurbræður mínir hafi ekki farið þessa leið, heldur annað hvort upp með Bergi eða upp með Glámi.

Í hamingjuhlaupinu á laugardaginn verður engin þessara þriggja leiða valin, heldur verður veginum fylgt til að byrja með inn Brekkudal og áleiðis upp á Steinadalsheiði. Þarna hefur orðið sú breyting frá þeim tíma þegar bræður mömmu voru ungir menn, að þarna er kominn tiltölulega greiðfær vegur. Þegar komið er upp fyrir Brimilsgjá verður beygt þvert úr leið, til vinstri, yfir ána og upp svolitla hæð sem skilur að Brekkudal og Vatnadal. Besti staðurinn til að beygja út af veginum er líklega um 400 m ofan við háan staur sem stendur í vegkantinum ofan við gjána. Að þessum beygjupunkti eru nákvæmlega 5,9 km frá Kleifum eftir veginum.

Hlaupaleiðin niður Vatnadal liggur vestanvert í dalnum. Leiðin er seinfarin, því að þarna er svo sem engin gata og auk heldur talsverður hliðarhalli. Farið er yfir Draugagil og áfram með Melrakkagil á hægri hönd handan árinnar. Eftir það eykst hliðarhallinn enn og við tekur seinfarnasti spölur leiðarinnar meðfram Hraundalsmúla og niður í mynni Hraundals. Neðan við Hraundal fer undirlendið smám saman breikkandi og leiðin verður greiðari. Farið er um Sléttuhlíð, meðfram Miðdalsá að vestanverðu og niður fyrir Torffell. Þar er komið á jeppaslóða og eftirleikurinn því til þess að gera auðveldur. Frá Torffelli er rétt um 1 km niður að eyðibýlinu Tind. Drjúgum spöl fyrir neðan Tind liggur vegurinn yfir ána neðan við bæinn Gestsstaði og svo áfram fram hjá Klúku allt þar til komið er á aðalveginn til Hólmavíkur, rétt fyrir innan félagsheimilið Sævang. Frá þeim vegamótum eru um 11,5 km til Hólmavíkur eftir malbikuðum vegi.

Hér verður leiðinni ekki lýst frekar, en ofar og lengst til hægri á þessari síðu má sjá grófa mynd af leiðinni frá Kleifum niður á aðalveginn innan við Sævang. Hér fyrir neðan má svo sjá annars vegar nokkra GPS-punkta sem geta komið sér vel í hlaupinu – og hins vegar tímaáætlun sem reynt verður að fylgja út í ystu æsar. Hlaupinu á að ljúka á Hólmavík stundvíslega kl. 16:00, en þá verða hlaupararnir þess heiðurs aðnjótandi að fá að skera fyrstu tertusneiðarnar af hnallþóruhlaðborði heimamanna. Til að þetta gangi upp og til að gera fólk kleift að slást í hópinn einhvers staðar á leiðinni fer hlaupið fram eins og hver önnur strætóferð, í þeim skilningi að hlaupararnir verða á tilteknum stöðum á tilteknum tímum.

GPS-punktar:
Beygjupunktur ofan við Brimilsgjá á Steinadalsheiði 65°29,85’N – 21°39,02’V
Innarlega á Vatnadal                                                         65°30,19’N – 21°41,34’V
Gegnt Melrakkagili                                                             65°31,68’N – 21°40,68’V
Hraundalur                                                                          65°32,69’N – 21°40,41’V
Torffell                                                                                   65°35,67’N – 21°38,31’V
Tindur                                                                                    65°36,09’N – 21°38,30’V

Tímatafla:

25417

Vonandi slást sem flestir í hópinn á laugardaginn, annað hvort á  hlaðinu á Kleifum kl. 10:50 eða einhvers staðar á leiðinni. Meiri upplýsingar um hlaupið er m.a. að finna á hlaup.is. Þar eru líka tenglar á glaðlegar frásagnir af fyrri hamingjuhlaupum.

(Leiðarlýsingin hér að framan er byggð á samtölum við Birgittu Stefánsdóttur eldri, Hermann Jóhannesson frá Kleifum og Ragnar Bragason, bónda á Heydalsá).

Þrjú skemmtihlaup framundan

Thristrend2013 086webNæstu tvær vikur eru þrjú skemmtihlaup á dagskránni hjá mér, þ.e.a.s. hlaup sem ég hef átt þátt í að gera að veruleika í þeim tilgangi að gleðja sjálfan mig og aðra. Í þessum hlaupum vinna allir en enginn tapar. Hér á eftir gefur að líta örlítið nánari upplýsingar um þessa bráðskemmtilegu viðburði.

1. Leggjabrjótur, miðvikud. 18/6 kl. 16:00
Á miðvikudaginn ætla ég að gera aðra tilraun til að komast yfir Leggjabrjót frá Botnsskála í Hvalfirði að þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum. Þetta verður 35. hlaupið í fjallvegahlaupaverkefninu sem ég gaf sjálfum mér í fimmtugsafmælisgjöf vorið 2007. Já, þetta er sem sagt 2. tilraun, því að þann 24. maí sl. varð ég frá að hverfa eftir að hafa streðað upp úr Hvalfirðinum í hvössum mótvindi, vatnsverði og þoku. Við lögðum af stað 28 saman og komust öll til einhverra byggða á næstu klukkutímum, fæstir þó til þeirra byggða sem upphaflega var ætlunin. Sem betur fer varð engum meint af.

Veðurspáin er betri en síðast, en samkvæmt framtíðarspá Veðurstofunnar verður suðvestan og vestanátt og rigning hérna megin á landinu og hitinn líklega um 9 stig á láglendi. Þetta er reyndar ekkert óskaplega ólíkt því sem var 24. maí, nema hvað vindurinn verður ívíð hægari en síðast og blæs rigningunni í bakið á hlaupurunum en ekki fangið. Mig grunar að þetta verði bara fínt. En maður þarf samt að klæða sig sómasamlega.

Öllum er sem fyrr velkomið að slást í för með mér á eigin ábyrgð. Upplýsingar um hlaupið er að finna á hlaup.is og á Facebooksíðu fjallvegahlaupahópsins.

Við upphaf ferðarinnar sem aldrei var farin (nema af 6 ofurhetjum) yfir Leggjabrjót 24. maí 2014. (Ljósm. Ólafur Gunnar Sæmundsson).

Við upphaf ferðarinnar sem aldrei var farin (nema af 6 ofurhetjum) yfir Leggjabrjót 24. maí 2014. (Ljósm. Ólafur Gunnar Sæmundsson).

2. Þrístrendingur, laugard. 21/6 kl. 11:00
Laugardaginn 21. júní verður fjalla- og skemmtihlaupið Þrístrendingur haldið í fimmta sinn. Þarna er ekki keppt við tímann heldur miklu frekar keppst við að njóta dagsins og félagsskaparins. Hlaupið er öllum opið og þátttakendur velja sjálfir hvort þeir hlaupa alla leiðina eða bara einn eða tvo áfanga af þremur. Heildarvegalengdin er rétt um 41 km í þremur áföngum (u.þ.b. 20+10+11 km). Fyrsti áfanginn er frá Kleifum í Gilsfirði yfir Steinadalsheiði að Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði. Þessi spölur er allur hlaupinn á bílvegi, sem er einmitt nýbúið að opna fyrir sumarumferð. Vegurinn er fær öllum fjórhjóladrifnum bílum en varasamur fyrir eindrifsbíla. Næsti áfangi er frá Stóra-Fjarðarhorni yfir Bitruháls að Gröf í Bitru, þar sem ábúendur taka á móti hlaupurum með kaffi og pönnukökum. Lokaáfanginn er svo frá Gröf um Krossárdal aftur að Kleifum. Þarna er sem sagt hlaupið tvisvar þvert yfir Ísland á einni dagstund. Oft er hægt að fá far milli áfangastaða, en hlaupahaldarar skipuleggja enga flutninga. Nánari upplýsingar er að finna á hlaup.is, auk þess sem Internetið er hálffullt af ferðasögum úr Þrístrendingum síðustu fjögurra ára. Svo er Þrístrendingur líka til sem viðburður á Facebook. Þar er upplagt að láta vita af þátttöku, enda nauðsynlegt að hafa sæmilega hugmynd um fjöldann til að hægt sé að baka nóg af pönnukökum. (Þeir sem vilja renna fyrir lax í leiðinni geta keypt veiðileyfi á www.krossa.is). 🙂

Frá Þrístrendingi í fyrra. Blíðviðri, frelsi og friður.

Frá Þrístrendingi í fyrra. Blíðviðri, frelsi og friður.

3. Hamingjuhlaupið, laugard. 28/6 kl. 10:50
Laugardaginn 28. júní er röðin komin að hinu árlega Hamingjuhlaupi, en það fer nú fram í 6. sinn í tengslum við bæjarhátíðina Hamingjudaga á Hólmavík. Leiðin breytist ár frá ári og liggur að þessu sinni frá Kleifum í Gilsfirði um Vatnadal til Steingrímsfjarðar og áfram eftir veginum til Hólmavíkur, en þessa leið riðu móðurbræður mínir á sínum yngri árum áleiðis á böll á Ströndum. Síðan eru liðin mörg ár, enda téðir móðurbræður fæddir um aldamótin 1900. Frómt frá sagt verða hófför bræðranna þó ekki þrædd alveg frá byrjun, því að leiðin er valin með hliðsjón af því að hún sé sem aðgengilegust. Þess vegna verða fyrstu kílómetrarnir úr Þrístrendingi endurnýttir og lagt af stað áleiðis upp á Steinadalsheiði. Þar verður beygt þvert úr leið um vegleysur yfir í Vatnadal og svo áfram sem leið liggur niður dalinn.  Heildarvegalengdin er um 37 km og er seinfarin að hluta. Á Hólmavík mun eitt glæsilegasta hnallþóruhlaðborð Evrópska efnahagssvæðisins bíða hlauparanna, sem njóta munu þeirra forréttinda að fá að skera fyrstu sneiðarnar og sporðrenna þeim. Til að ekkert fari úrskeiðis (þ.e. til að enginn sleppi í terturnar á undan hlaupurunum) er nauðsynlegt að hlaupinu ljúki á fyrirfram ákveðnum tíma, þ.e.a.s. stundvíslega kl. 16:00. Til að auðvelda þetta og gera fólk kleift að slást í hópinn einhvers staðar á leiðinni fer hlaupið fram eins og hver önnur strætóferð, í þeim skilningi að hlaupararnir verða á tilteknum stöðum á tilteknum tímum. Tímatöflu og aðrar helstu upplýsingar er að sjálfsögðu að finna á hlaup.is. Þar eru líka tenglar á glaðlegar frásagnir af fyrri hamingjuhlaupum.

Frá Hamingjuhlaupinu í fyrra. Svona lagað er aðeins á færi hamingjusamra. Aðrir geta yfirleitt ekki flogið.

Frá Hamingjuhlaupinu í fyrra. Svona lagað er aðeins á færi hamingjusamra. Aðrir geta yfirleitt ekki flogið.

Hlaupið sér til hamingju

???????Veðrið hefur áhrif á hamingjuna. Eða hefur hamingjan kannski áhrif á veðrið? Hvernig sem þessu er háttað var hamingjan með allra mesta móti í Hamingjuhlaupinu á síðustu helgi – og veðrið eins og best varð á kosið. Þetta var fimmta formlega Hamingjuhlaup sögunnar og rétt eins og í fyrra lá leiðin frá Árnesi í Trékyllisvík til Hólmavíkur um Naustvíkurskarð og Trékyllisheiði, samtals rúmlega 53 km leið, já eða líklega 53,57 km svo hæfilegrar nákvæmni sé gætt.

Hamingjuhlaupið hefur verið fastur liður í Hamingjudögum á Hólmavík frá því á árinu 2009. Allt á þetta sér sína sögu, en hana rakti ég m.a. í samsvarandi bloggpistli á síðasta ári. Fyrsta árið var hlaupið frá Drangsnesi, næsta ár yfir Þröskulda, þriðja árið frá Gröf í Bitru og í fyrra norðan úr Trékyllisvík. Hlaupin hafa sem sagt átt sér mismunandi upphöf, en endamarkið hefur alltaf verið á Hólmavík. Að þessu sinni var hlaupaleiðin frá síðasta ári endurnotuð, meðal annars vegna þess að þá lánaðist engum að hlaupa alla leiðina. Nú skyldi úr því  bætt.

Leiðin sem farin var í Hamingjuhlaupinu 2013.

Leiðin sem farin var í Hamingjuhlaupinu 2013.

Það er óhætt að segja að laugardagurinn 29. júní 2013 hafi runnið upp bjartur og fagur. Þennan morgun vaknaði ég á Hólmavík eins og marga aðra blíðviðrismorgna. Úti blés hægur vindur, og þó að hitastigið væri ekki komið í tveggja stafa tölu benti allt til þess að þetta yrði góður dagur með þurru veðri og jafnvel sólskini. Sú varð og raunin. Um 10-leytið var allt tilbúið, þar með talið nesti og nýlegir skór, og þá var haldið af stað akandi norður Strandir með Björk undir stýri. Við hjónin vorum þó ekki ein á ferð. Birkir, skíðagöngukappi, stórhlaupari og bóndi í Tröllatungu var með í liðinu, svo og Ingimundur lyftingamaður Ingimundarson yngsti frá Svanshóli. Við Selá innst í Steingrímsfirði bættist Ragnar á Heydalsá í hópinn, en hann er rétt eins og Birkir margreyndur í erfiðum skíðagöngum og fjallahlaupum. Ferðin norður í Trékyllisvík gekk eins og í sögu og segir fátt af henni. Dagurinn lagðist vel í okkur öll. Við Birkir vorum staðráðnir í að hlaupa alla leiðina og Ragnar ætlaði að fylgja okkur úr Trékyllisvík að Selá. Björk og Ingimundur hugðu hins vegar á göngu á Reykjaneshyrnu.

Rétt um hádegisbil vorum við stigin út úr bílnum við handverkshúsið Kört í Trékyllisvík. Þar hittum við fyrir þrjá hlaupara til viðbótar, þ.e.a.s. hjónin Hauk Þórðarson og Sigríði Júlíu Brynleifsdóttur, Skagfirðinga úr Borgarnesi – og Hólmvíkinginn Ingibjörgu Emilsdóttur. Eftir hefðbundna (fyrir)myndatöku var svo lagt af stað í blíðunni á slaginu 12:07, 7 mínútum á eftir áætlun. Framundan voru 53 kílómetrar og 8 klukkutímar af náttúrufegurð og hamingju.

Klukkan 12:07 við handverkshúsið Kört Í Trékyllisvík. Mikil hamingja framunda. F.v.: Ragnar Bragason, Haukur Þórðarson, Birkir Þór Stefánsson, Ingibjörg Emilsdóttir, Stefán Gíslason. (Ljósm. Björk Jóhannsdóttir).

Klukkan 12:07 við handverkshúsið Kört Í Trékyllisvík. Mikil hamingja framundan. F.v.: Ragnar Bragason, Haukur Þórðarson, Birkir Þór Stefánsson, Ingibjörg Emilsdóttir, Stefán Gíslason. (Ljósm. Björk Jóhannsdóttir).

Hamingjuhlaupið er ekki keppnishlaup, heldur er þar miðað við fyrirfram ákveðna tímaáætlun, sem líkist áætlun strætisvagna að því leyti að í henni eru gefnir upp komu- og brottfarartímar á ákveðnum „stoppistöðvum“. Síðasta stöðin er jafnan á hátíðarsvæðinu á Hólmavík, þar sem óþolinmóðir en afskaplega hamingjusamir hátíðargestir bíða þess að hlaupararnir skeri fyrstu sneiðina af árlegu tertuhlaðborði. Að þessu sinni var nákvæm tímasetning tertuskurðarins svolítið á reiki, en hann átti alla vega að eiga sér stað á tímabilinu 19:50-20:30 um kvöldið.

Við vorum 5 sem lögðum af stað frá Árnesi, þ.e.a.s. ég, Birkir, Ragnar, Ingibjörg og Haukur. Kríurnar í Trékyllisvíkinni fylgdu okkur úr hlaði og virtust frekar mótfallnar þessu ferðalagi. Ein þeirra gekk meira að segja svo langt að rugla hárgreiðslunni hjá mér. Eins gott að myndatakan var búin!

Eftir að hafa fylgt þjóðveginum stuttan spöl beygðum við til hægri, hlupum um hlaðið í Bæ og áfram eins og leið liggur áleiðis upp í Naustvíkurskarð. Tíminn leið fljótt við spjall um alla heima og geima, og jafnvel þótt við gengjum upp allar bröttustu brekkurnar var hæstu hæðinni náð fyrr en varði. Í ljósi reynslunnar frá því í fyrra hafði ég áætlað að fyrsti áfanginn frá Árnesi að Naustvík tæki 50 mínútur, en sú reynsla var reyndar mörkuð af heldur lélegu ástandi mínu í það skiptið. Var nýtognaður og fór yfir Naustvíkurskarð aðallega til að sýnast – og tafði auðvitað fyrir hinum. Núna voru hins vegar allir í toppstandi, og þegar við komum niður á veginn við Naustvík voru ekki liðnar nema rétt rúmar 43 mín. Þarna vorum við sem sagt strax búin að vinna upp mínúturnar 7 sem töpuðust í startinu.

Á leið upp í Naustvíkurskarð. Trékyllisvíkin í sólbaði í baksýn.

Klukkan 12:37 á leið upp í Naustvíkurskarð. Trékyllisvíkin í sólbaði í baksýn.

Í Naustvík höfðu hjónin Haukur og Sigga Júlla hlutverkaskipti, en þau höfðu þann háttinn á að meðan annað hljóp ferjaði hitt bílinn á næsta áfangastað. Við vorum því enn 5 talsins á leiðinni frá Naustvík inn í Djúpavík. Sjálfur slóraði ég reyndar svolítið við Naustvík og dróst aftur úr hinum, en með því að bæta aðeins í hraðann gekk vel að vinna forskotið upp. Notaði líka tækifærið til að fækka fötum og koma umframflíkum í geymslu í bílnum hjá Hauki.

Horft inn Reykjarfjörð af veginum ofan við Naustvík.

Klukkan 12:58: Horft inn Reykjarfjörð af veginum ofan við Naustvík. Búrfell á miðri mynd.

Spölurinn frá Naustvík að Djúpavík er rúmir 10 km eftir veginum. Það ferðalag tók okkur u.þ.b. klukkustund og á leiðarenda var klukkan orðin nákvæmlega 13:55, sem var upp á mínútu sá tími sem ég hafði áætlað. Þarna var gert ráð fyrir 10 mínútna hvíld, en hún fékk óáreitt að lengjast í 20 mín, því að ég þóttist vita að tertuskurðurinn hæfist seinna en upphaflega var ráðgert. Okkur lá sem sagt ekkert á. Gerðum góðan stans í fjörunni framan við hótelið, kíktum í nestið og hagræddum fatnaði. Framundan var lengsti og hrjóstrugasti áfanginn, þ.e.a.s. Trékyllisheiðin. Leiðin fer að vísu hvergi í meira en rúmlega 400 m hæð yfir sjó, en engu að síður getur veðurfarið þar uppi verið allt annað og kaldara en við sjóinn. Í þetta sinn bjuggum við líka svo vel að hafa trússbíl, því að Sigga Júlla gat tekið allan þann farangur sem við vildum ekki bera yfir heiðina.

KL. 14:08 í veðurblíðunni í Djúpavík. Allt að verða tilbúið fyrir Trékyllisheiðina. F.v.: Ragnar, Birkir, Sigríður Júlía, Ingibjörg, Kolbrún, Stefán og Haukur. (Ljósm.: Arnar Barði Daðason).

Klukkan. 14:08 í veðurblíðunni í Djúpavík. Allt að verða tilbúið fyrir Trékyllisheiðina. F.v.: Ragnar, Birkir, Sigríður Júlía, Ingibjörg, Kolbrún, Stefán og Haukur. (Ljósm. Arnar Barði Daðason).

Klukkan 14:15 héldum við af stað frá Djúpavík, áleiðis inn dalinn fyrir aftan byggðina. Þar er greið gönguleið inn á Trékyllisheiði. Þennan spöl hafði ég reyndar aldrei farið og hafði því sett GPS-punkta af korti inn í Garminúrið mitt til öryggis. Þessa punkti þurfti ég svo sem ekkert að nota þegar til kom, enda leiðin auðrötuð í bjartviðri eins og því sem var þennan hamingjusama dag. En í stuttu máli má lýsa leiðinni inn á heiðina þannig að hún sveigi fljótlega upp í hjalla utan í fjallinu sunnan við dalinn sem þarna opnast. Þessum hjöllum er fylgt áfram í svipaða stefnu þar til komið er að Kjósará. Þegar yfir hana er komið tekur við greinilegur slóði sem auðvelt er að fylgja áfram inn á heiðina þar sem enn greinilegri slóði tekur við.

Enn vorum við 5 sem lögðum af stað frá Djúpavík. Ingibjörg sleppti reyndar heiðinni, enda var markmið hennar að ná 30 km hlaupum út úr deginum. Heiðinni var ofaukið í þeirri áætlun. Í hennar stað slóst Kolbrún Unnarsdóttir Hólmvíkingur og fjallahlaupari úr Mosfellsbænum í för með okkur. Og nú var Haukur aftur tekinn við í hjónaboðhlaupinu.

Klukkan 14:17: Lagt af stað frá Djúpavík. Brosin voru í stöðugri notkun í þessari ferð.

Klukkan 14:17: Lagt af stað frá Djúpavík. Brosin voru í stöðugri notkun í þessari ferð.

Rétt fyrir ofan Djúpavík sat svört þyrla á hóli. Við höfðum séð hana koma á leiðinni inn Reykjarfjörðinn frá Naustvík og töldum líklegt að leit væri hafin að einhverju okkar. Þar kom ég sjálfur hvað sterklegast til greina, því að ég hafði einmitt verið að upplýsa ferðafélagana um björgunarsveitar-„appið“ í nýja símanum mínum. Kannski hafði ég rekið mig í rauða 112-hnappinn á „appinu“ og þannig ræst þyrluna út. En þegar betur var að gáð var þetta greinilega ekki björgunarþyrla heldur miklu fremur vísbending um það sem sum okkar hafði grunað, að árið 2007 væri um það bil að bresta á á nýjan leik. Þá töldust þyrlur nánast til nauðþurfta hjá fólki sem var sæmilega sjálfbjarga.

Leiðin inn hjallana innan við Djúpavík er ekki fljótfarin, en kl. 3 vorum við samt komin að Kjósaránni. Þangað eru rétt um 3,5 km frá Djúpavík og hækkunin eitthvað um 230 m. Þessi spölur hafði tekið okkur um 45 mín., sem telst ágætis yfirferð í landslagi eins og þarna er. Samkvæmt GPS-punktunum mínum virtist ráð fyrir því gert að við færum yfir ána neðst í svolitlu gili sem þarna er, þ.e.a.s. þar sem áin byrjar að dreifa úr sér. Þar hefði þó ekki verið hægt að komast yfir þurrum fótum, því að ár voru vatnsmiklar þennan dag. Því tókum við á það ráð að fara yfir ána á snjóbrú nokkru ofar.

Klukkan 15:04: Komin yfir Kjósará á snjóbrú.

Klukkan 15:04: Komin yfir Kjósará á snjóbrú. Reykjarfjörður blár í baksýn.

Eftir örstutta áningu á nyrðri árbakkanum héldum við ferð okkar áfram inn á heiðina. Þarna var víða mikil aurbleyta í holtum, enda mikið af landinu nýkomið undan snjó og enn fannir í öllum lautum. Þau okkar sem voru í nýlegum skóm urðu því að sætta sig við að óhreinka þá verulega.

Klukkan 16:03: Kolla ein í snjónum. (Munið að myndin er tekin 29. júní).

Klukkan 16:03: Kolla ein í snjónum. Aurbleyta í lágmarki þessa stundina. (Munið að myndin er tekin 29. júní).

Þegar inn á heiðina kom blöstu við enn meiri fannir. Ragnar bóndi kom strax auga á Goðdalsána, sem var vatnsmikil þar sem til sást en undir snjó þess á milli. Slóðin suður yfir heiðina, sem við sáum reyndar lítið af vegna fanna, liggur suður með ánni austanverðri og síðan yfir hana á vaði eftir að hún beygir til austurs áleiðis niður í Bjarnarfjörð. Ragnar hvatti til að við færum ofar til að nýta snjóbrýrnar sem þar var nóg af. Við fylgdum ráðum hans að nokkru leyti, fundum trausta snjóbrú um það bil 800 metrum ofan við vaðið og skelltum okkur þar yfir. Brúin hélt og enginn hvarf niður í sprungur. Ég var reyndar búinn að kvíða Goðdalsánni svolítið. Hún getur verið býsna vatnsmikil á dögum eins og þessum þegar hlýtt er og mikil snjóbráð á heiðinni. Þetta er langstærsta vatnsfallið á þessari leið. Reyndar þarf líka að fara yfir Sunndalsá. Þar var engin snjóbrú, svo við stukkum bara yfir hana.

Haukur í lausu lofti yfir Sunndalsá. Svona lagað er aðeins á færi hamingjusamra. Aðrir geta yfirleitt ekki flogið.

Klukkan 16:37: Haukur í lausu lofti yfir Sunndalsá. Svona lagað er aðeins á færi hamingjusamra. Aðrir geta yfirleitt ekki flogið.

Sunnar á heiðinni lá tófa sofandi í vegkantinum. Það er til marks um það hversu lítið er um mannaferðir á þessum slóðum að ekki rumskaði lágfóta þótt Birkir hlypi fram hjá henni í seilingarfjarlægð. Birkir er reyndar ákaflega léttstígur að jafnaði. Sama gilti ekki þegar við Ragnar nálguðumst í hrókasamræðum. Þá vaknaði tófan við vondan draum, líklega um nefndan Ragnar sem vinnur sem grenjaskytta í hjáverkum. Hún yfirgaf svæðið í snatri.

Segir nú fátt af okkur fimmmenningunum, nema hvað heldur fækkuðum við fötum eftir því sem á leið heiðina og eftir því sem sólin skein skærar. Fyrir ofan brúnir Selárdals hittum við fyrir þær frænkur frá Þorpum á Gálmaströnd, Jónínu og Höddu. Þar með vorum við orðin að 7 manna hópi sem skilaði sér niður á láglendið í botni Steingrímsfjarðar stundvíslega kl. 17:54, einni mínútu fyrr en strætisvagnaáætlunin góða gerði ráð fyrir. Við vorum sem sagt óvart búin að vinna upp tímann sem við höfðum viljandi tapað í Djúpavík, þrátt fyrir að hafa heldur haldið aftur af okkur á heiðinni.

Jónína í Bólstaðargilinu. Þarna falla öll vötn til Steingrímsfjarðar.

Klukkan 17:41: Jónína í Bólstaðargilinu. Þarna falla öll vötn til Steingrímsfjarðar.

Við gömlu brúna yfir Selá beið okkar nokkur fjöldi fólks. Þar voru um 38,5 km búnir og rétt um 15 eftir. Sú vegalengd er mun alþýðlegri en leiðin öll, auk þess sem heiðar voru að baki og ekkert nema bílvegir eftir.

Eftir nákvæmlega 13 mínútna spjall og nestishlé við Selá var lagt upp í fjórða áfangann, rétt um 4 km leið að brúnni yfir Staðará. Þarna vorum við Birkir orðnir einir eftir af upphaflega hópnum, enda engir aðrir með nein áform um að hlaupa alla leiðina. Ragnar var kominn í frí, en Ingibjörg búin að reima á sig hlaupaskóna á nýjan leik. Á þessum kafla undi ég mér helst við spjall við frænda minn Guðmund Magna, sem slóst í hópinn við Selá ásamt Lilju eiginkonu sinni. Guðmundur Magni er enginn byrjandi í hlaupum, enda félagi nr. 13 í Félagi 100 km hlaupara á Íslandi. Menn geta auðveldlega getið sér til um inntökuskilyrðin í þeim félagsskap.

Klukkan 18:30 við Grænanes. Þorsteinn Newton og Jóhanna Guðbrandsóttir eru fremst á myndinni en þar fyrir aftan Ingibjörg Emilsdóttir og Sigríður Drífa Þórhallsdóttir.

Klukkan 18:30 við Grænanes. Þorsteinn Newton og Jóhanna Guðbrandsóttir eru fremst á myndinni en þar fyrir aftan Ingibjörg Emilsdóttir og Sigríður Drífa Þórhallsdóttir.

Við Staðará bættist enn fleira fólk við. Þarna var klukkan orðin 18:36, 11 km eftir til Hólmavíkur og nógur tími til stefnu þrátt fyrir að frávikið frá upphaflegri áætlun væri komið í 9 mínútur. Hópurinn var tekinn að dreifast töluvert og ég tók ákvörðun um að fylgja fyrstu mönnum til að geta betur haft stjórn á ástandinu.

Klukkan 18:36 á brúnni yfir Staðará. Hér má sjá Hrafnhildi Þorsteinsdóttur, Rósmund Númason, Jóhönnu Rósmundsdóttur og Maríu Mjöll Guðmundsdóttur. Og enn er himinninn blár.

Klukkan 18:36 á brúnni yfir Staðará. Hér má m.a. sjá Hrafnhildi Þorsteinsdóttur, Rósmund Númason, Jóhönnu Rósmundsdóttur og Maríu Mjöll Guðmundsdóttur. Stakkanes í baksýn. Og enn er himinninn blár.

Á Fellabökum var gerður stuttur stans og lagt á ráðin um hvernig best væri að ljúka verkefninu. Klukkan var 19:12 sem þýddi að við vorum ekki nema 5 mínútum á eftir áætlun. Flest benti til að við þyrftum að seinka áætlaðri innkomu um allt að því hálftíma. Ég brá því á það ráð að drífa mig síðasta spölinn og stilla mér upp á grasflötinni vestan við Lögreglustöðina út við Hólmavíkurvegamótin, en þar skein sólin glatt og gott skjól var fyrir vindi. Þar skyldi öllum þátttakendum safnað saman og beðið eftir merki um að okkur væri óhætt að fjölmenna inn á hátíðarsvæðið. Ég var mættur þarna kl. 19:42 og á næstu 10 mínútum skiluðu allir hinir hlaupararnir sér á svæðið. Þarna var Jóhann tengdafaðir minn líka mættur með myndavélina eins og jafnan við lok Hamingjuhlaups.

Hamingjusamir hlauparar í kvöldsólinni við lögreglustöðina á Kálfanesskeiði. Ef vel er talið má sjá þarna 29 andlit. (Ljósm. Björk Jóhannsdóttir).

Klukkan 20:00: Hamingjusamir hlauparar í kvöldsólinni við lögreglustöðina á Kálfanesskeiði. Ef vel er talið má sjá þarna 29 andlit. (Ljósm. Björk Jóhannsdóttir).

Um það bil 10 mínútum eftir kl. 8 kom símtalið sem beðið var eftir. Þá lagði öll hersingin, líklega um 30 manns, af stað áleiðis niður á hátíðarsvæðið, sem að þessu sinni var ekki niður við höfnina heldur við gafl félagsheimilisins. Hlaupið þangað frá lögreglustöðinni tók ekki nema 3 mínútur. Að vanda höfðu gestir Hamingjudaganna myndað göng sem við hlupum í gegnum síðasta spölinn. Gunnlaugur Júlíusson ofurhlaupari hafði orð á því eftir Hamingjuhlaupið 2011 að hann hefði hvergi fengið þvílíkar viðtökur að hlaupi loknu. Það segir sitt, þar sem Gunnlaugur hefur farið víða á hlaupum sínum.

Eftir stutta móttökuathöfn gafst hlaupurunum ráðrúm til að skola af sér mesta svitann og leirinn í sundlauginni á Hólmavík, og að því loknu var komið að tertuhlaðborðinu. Þar fékk ég að vanda að skera fyrstu sneiðina, sem eru vafalítið einhver mestu forréttindi sem mér hafa hlotnast á lífsleiðinni. Þar með var Hamingjuhlaupinu formlega lokið. Og það eru hreint engar ýkjur að segja að þátttakendur hafi undantekningarlaust verið einstaklega hamingjusamir þessa kvöldstund. Öll höfðum við fundið gleðina sem fylgir því að hlaupa úti í náttúrunni í svona góðum félagsskap í svona góðu veðri. Þennan dag höfðu líka ýmis markmið náðst og margir sigrar verið unnir. Okkur Birki hafði til dæmis tekist ætlunarverkið að hlaupa alla leið frá Trékyllisvík til Hólmavíkur, Ingibjörg og Haukur höfðu bæði lokið sinni fyrstu 30 kílómetra dagleið, sumir voru að hlaupa 15 km í fyrsta sinn, aðrir 11 km – og svo mætti lengi telja. Dönsk kona sem var einn af gestum Hamingjudaganna kom til mín þarna við félagsheimilið og óskaði mér til hamingju með sigurinn. Ég þakkaði auðvitað fyrir og gerði enga tilraun til að útskýra að þetta hefði ekki verið keppni. Ég var vissulega sigurvegari. Við vorum það öll.

Að loknu Hamingjuhlaupi 2012

Hamingjuhlaupið fór fram í 4. sinn um síðustu helgi. Þar sveif hamingjan jafnt yfir vötnum og þurru landi – og ekki spillti veðurblíðan fyrir. Hér á eftir verður sagt frá þessu hlaupi í löngum og afar hamingjusömum pistli.

Forsaga málsins
Hamingjuhlaupið er orðinn fastur liður í Hamingjudögum á Hólmavík og hlaupið um daginn festi þennan lið enn frekar. Fyrsta formlega hlaupið fór fram á Hamingjudögum 2009, en þá var hugmyndin búin að þróast í a.m.k. tvö ár. Reyndar hef ég hlaupið einhvern spotta á Hólmavík þessa sömu helgi allar götur síðan 2006. Sumarið 2007 fór þetta fyrst að verða dálítið alvarlegt, því að þá hljóp ég svokallaðan Óshring fjórum sinnum á laugardagsmorgni í veðurblíðu áður en dagskrá Hamingjudaganna hófst. Þetta var í gamla daga (þ.e. fyrir daga Facebook), en samt kynnti ég uppátækið á Netinu og bauð fólki að slást í hópinn. Enginn þáði það, en sumum fannst þetta bara nokkuð sniðugt hjá mér. Og auðvitað skrifaði ég hlaupablogg að verki loknu.

Sumarið 2008 var þetta enn alvarlegra. Þá notaði ég laugardaginn til að hlaupa fjallvegahlaup nr. 5 yfir Laxárdalsheiði úr Reykhólasveit langleiðina til Hólmavíkur. Birkir bóndi í Tröllatungu og Ingimundur Grétarsson fylgdu mér þessa leið í norðan strekkingi og slyddu, og þó að hlaupið væri ekki formlegur hluti af Hamingjudögunum notuðum við tækifærið og skokkuðum upp að félagsheimilinu þar sem hátíðarhöldin fóru fram þetta árið í norðanáttinni, svona rétt til að sýna hvað við værum hraustir.

Sumarið 2009 varð Hamingjuhlaupið að formlegu Hamingjuhlaupi. Þá hljóp ég frá Drangsnesi til Hólmavíkur með Fríðu föruneyti og 5 öðrum hamingjusömum hlaupurum. Þarna var hlaupið búið að taka á sig nokkuð endanlega mynd, sem fólst m.a. í tímaáætlun sem átti að auðvelda fólki að slást í hópinn á leiðinni og koma inn á hátíðarsvæðið í einum samheldnum hópi á fyrirfram ákveðnum tíma.

Árið 2010 voru Þröskuldar lagðir undir fót. Þá lögðum við fjórir af stað úr Reykhólasveitinni og fjölgaði um einhvern slatta á leiðinni til Hólmavíkur.

Í fyrrasumar var alvaran í þessu orðin enn meiri. Þá var lagt upp frá æskuheimili mínu í Gröf í Bitrufirði og hlaupið jafnt um fjöll og firnindi stystu leið til Hólmavíkur. Í þetta skipti lögðum við af stað 7 saman, og samkvæmt samtímaheimildum lögðu hvorki meira né minna en 16 hlauparar a.m.k. 5 km að baki í þessu hlaupi. Lýkur hér að segja frá fortíðinni.

Sólskin í Trékyllisvík
Þetta fjórða formlega Hamingjuhlaup hófst við handverkshúsið Kört í Árnesi í Trékyllisvík, en þaðan eru hátt í 54 km. til Hólmavíkur um Trékyllisheiði. Leiðin var m.a. valin með hliðsjón af uppruna Ingibjargar Valgeirsdóttur, sveitarstjóra Strandabyggðar, en hún sleit einmitt barnsskónum í Árnesi.

Veðrið lék svo sannarlega við okkur þennan dag. Hægur vindur blés af norðaustri, sól skein í heiði og hitinn stóð í tveggja stafa tölu, einar 11 gráður í Trékyllisvík og nokkru hlýrra sunnar á Ströndunum. Ferðalagið hófst á Hólmavík í frúarbíl heimilisins af Subaru-gerð. Frúin Björk þurfti hvort sem er engan bíl, því að hún var nýbúin að opna málverkasýningu á Hólmavík með yngsta barninu Jóhönnu. Svona bílar henta einkar vel á leiðinni til Trékyllisvíkur, þar sem gleymst hefur að malbika götuna.

Við vorum fjórir saman; ég sjálfur, Þorkell frumburður, Birkir bóndi í Tröllatungu og Dr. Kristinn Schram. Birkir hefur aldrei látið sig vanta í Hamingjuhlaupin og var líka með á Laxárdalsheiðinni í kuldanum 2008 eins og fyrr segir. Eitthvað vorum við seinir að koma okkur af stað, enda hagaði svo til á þessum Hamingjudögum að forsetakjöri hafði verið smellt inn í dagskrána og maður hleypur náttúrulega ekkert frá svoleiðis málum fyrr en allir eru búnir að krossa við eitthvað.

Bílferðin gekk ágætlega og Strandirnar skörtuðu sínu fegursta. Það er ekki lítið. Í Veiðileysufirði áðum við um stund, tókum upp nesti og dáðumst að kyrrðinni.

Kaffibolli í Veiðileysufirði á leið til Trékyllisvíkur.

Eftir u.þ.b. einnar og hálfrar stundar akstur renndum við í hlað í Árnesi. Kirkjurnar voru báðar á sínum stað, en enginn prestur sjáanlegur. Við gerðum vart við okkur í handverkshúsinu Kört og lögðum svo í hann þrír saman kl 13:09 eftir hefðbundna fyrirmyndatöku, einum 19 mínútum síðar en hárnákvæm tímaáætlun gerði ráð fyrir. Þorkell tók bílinn til baka til Naustvíkur.

Fyrirmynd: Birkir, Stefán og Kristinn við handverkshúsið Kört í Trékyllisvík við upphaf Hamingjuhlaupsins 2012. (Þorkell tók myndina).

Naustvíkurskörð
Þetta Hamingjuhlaup var óvenjulegt fyrir mig. Ég hafði nefnilega meiðst í ógætilegu hlaupi nokkrum vikum fyrr og var engan veginn búinn að ná mér. Þess vegna gat ég eiginlega ekki hlaupið, eða þorði það a.m.k. ekki. Þetta var ný lífsreynsla – og að sjálfsögðu bráðholl eins og lífsreynsla oftast er. Þrátt fyrir þetta var ég ákveðinn ná mér í sem stærstan skammt af hamingju, og því skyldi a.m.k. fyrsti áfanga hlaupsins lagður að baki, 5 km spölur um Naustvíkurskörð til Naustvíkur í Reykjarfirði.

Hamingjan hríslaðist um okkur strax þarna á fyrstu metrunum í Trékyllisvík. Ég fann lítið fyrir meiðslunum og sólin skein sem ákafast. Meira að segja heimalingarnir í Bæ voru hamingjusamir og voru jafnvel að hugsa um að fylgja okkur upp hlíðina. Úr því varð þó ekki en heimilishundurinn tók það hlutverk að sér í staðinn.

Heimalingarnir í Bæ í Trékyllisvík íhuguðu það alvarlega að taka þátt í Hamingjuhlaupinu.

Á leiðinni upp í Naustvíkurskörð tóku Birkir og Kristinn létta æfingu í jurtagreiningu. Hér eru þeir með fjallafox (Phleum alpinum). Í baksýn sést norður yfir Trékyllisvík.

Ég hafði ekki hlaupið um Naustvíkurskörð áður, en leiðin er auðrötuð og býsna skemmtileg. Við fórum okkur að engu óðslega, enda ekki hægt annað en staldra við annað slagið og dásama lífið og útsýnið. Fyrr en varði vorum við komnir upp og stutt eftir niður að Naustvík. Þarna í brekkunum fór meiðslin aðeins að segja til sín, þannig að ég rölti síðasta spölinn. Birkir og Kristinn voru hins vegar léttir eins og vindurinn.

Naustvík í Reykjarfirði. Fyrir ofan rís Sætrafjall.

Af nöktum mönnum
Í Naustvík höfðum við feðgarnir vaktaskipti, ég settist undir stýri og Þorkell brá undir sig betri fætinum. Hann var reyndar dálitla stund að hafa sig til og Birkir og Kristinn löngu horfnir úr augsýn áleiðis inn með Reykjarfirði.

Það er einkennileg tilfinning að sitja undir stýri á meðan aðrir hlaupa. En svo lengist lærið sem lifir, eins og einhver sagði. Ég ók í rykmekki áleiðis til Djúpavíkur, enda vegurinn og umhverfið allt ákaflega þurrt eftir úrkomusnautt sumar. Hlaupararnir þrír voru allir komnir úr að ofan þegar hér var komið sögu, enda veðurblíðan með eindæmum.

Birkir og Kristinn fáklæddir á fullri ferð inn með Reykjarfirði að norðan. Sætrafjall í baksýn.

Og Þorkell snerti varla jörðina á leiðinni.

Þorkell linnti ekki sprettinum fyrr en í Djúpavík. Þessir 10,5 km tóku hann ekki nema rétt um 45 mínútur. Svoleiðis áframhald rúmast ekki í mínum tímaútreikningum, enda drengurinn ungur og hraustur. Birkir og Kristinn skiluðu sér á leiðarenda svo sem stundarfjórðungi síðar, alveg á áætlun. Í Djúpavík biðu sprækustu langhlauparar dagsins, frændurnir Hafþór og Steingrímur, sem báðir voru í lokaundirbúningi fyrir Laugavegshlaupið tveim vikum síðar. Þeir lögðu tveir einir upp í áfanga nr. 3 suður yfir Trékyllisheiði, um það bil 22 km að Selá í Steingrímsfirði. Við hinir nutum góða veðursins um stund í Djúpavík, enda nóg eftir af deginum.

Laugavegshlaupararnir Hafþór og Steingrímur, komnir til Djúpavíkur og tilbúnir að leggja á Trékyllisheiðina.

Fátt er betra eftir sprett til Djúpavíkur en að fara úr hlaupaskónum og kæla sig í sjónum þar sem síldarskip lögðust áður að bryggju.

Og svo leið dagurinn
Segir nú fátt af hlaupurum um sinn, en við fjórmenningarnir ókum sem leið lá til Hólmavíkur.

Selá kl. 18:19
Samkvæmt hárnákvæmri tímaáætlun hlaupsins áttu þeir félagar Hafþór og Steingrímur að vera komnir að Bólstað í Steingrímsfirði kl. 18:19. Trékyllisheiðin vafðist auðvitað ekkert fyrir þeim, þannig að þeir voru komnir á leiðarenda svo sem stundarfjórðungi fyrr, þrátt fyrir að hafa borið dálítið af leið sunnantil á heiðinni. Um þetta leyti hafði nokkur hópur hlaupara safnast saman við gömlu brúna yfir Selá. Þaðan eru rétt um 16 km til Hólmavíkur, og sú vegalengd er orðin viðráðanleg fyrir marga. Ég var auðvitað mættur þarna líka til að fá skammt af hamingjunni. Skemmtilegast þótti mér að heyra að sum þeirra sem þarna voru höfðu stefnt að þessu tiltekna markmiði mánuðum saman. Þarna voru draumar að rætast – og þetta var staðfesting á því að hlaupið stæði fyrir sínu sem Hamingjuhlaup. Frá Selá var lagt í hann kl. 18:24 eins og til stóð. Þetta var orðinn 9 manna hópur – og sá tíundi á hjóli.

Glæsilegur hópur við gömlu brúna yfir Selá innst í Steingrímsfirði. F.v. Hafþór Benediktsson, Steingrímur Guðni Árnason, Kristinn Schram, Magnús Steingrímsson, Ingibjörg Emilsdóttir, Þorsteinn Paul Newton, Jóhanna K. Guðbrandsdóttir, Rósmundur Númason, Marta Sigvaldadóttir og Birkir Stefánsson með dóttur sína.

Konur úr Borgarfirði
Ég brá fyrir mig varúðarreglunni og ók á frúarbílnum áfanga nr. 4 frá Selá að Staðará á meðan aðrir hlupu. Þar hitti ég tvær konur úr Borgarfirði sem ég hef stundum hitt áður á hlaupum, bæði á Háfslækjarhringnum og í Róm. Þarna sannaði Hamingjuhlaupið aftur gildi sitt, því að báðar höfðu þær lagt á sig ferð milli landshluta til að taka þátt í gleðinni.

Auður H Ingólfsdóttir og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir komnar sunnan úr Borgarfirði til að fá skammt af hamingjunni – og gefa öðrum.

Við Staðará lagði ég bílnum og ákvað að fylgja hópnum til Hólmavíkur. Tímaáætlunin var enda við það miðuð að allir gætu verið með. Þá hlaut ég að geta það líka. Þarna vorum við orðin a.m.k. 12 talsins, auk hjólreiðamanna.

Fjölgun á Fellabökum
Fellabök nefnist hæðin fyrir innan Ósbæina, rúma 5 km norðvestan við Hólmavík. Þar bættust enn fleiri hlauparar í hópinn og ég var hættur að reyna að telja. Sjálfur fór ég hægt yfir, sérstaklega niður brekkurnar. Þær reyndu mest á veika blettinn og ég bar gæfu til að hlýða því. Einu áhyggjurnar mínar snerumst um að hinir hlypu allt of hratt miðað við áætlunina. Þetta gengur nefnilega allt út á að allir komi saman inn á hátíðarsvæðið á nákvæmlega réttum tíma. Ég tók upp símann, hringdi í einn af forystusauðunum og bað hann að hafa hemil á liðinu.

Hefðbundið dok
Þar sem ekið er inní þorpið á Hólmavík stendur ansi hreint hentugt skilti með korti af bænum. Þar eru aðstæður hinar ákjósanlegustu til tímajöfnunar áður en lagt er í endasprettinn, staðurinn í hvarfi frá miðbænum og gott skjól af skiltinu. Þetta kvöld þurfti reyndar ekkert skjól, en við vorum aðeins á undan áætlun og því upplagt að safnast þarna saman til myndatöku. Þetta er eiginlega orðinn fastur liður í Hamingjuhlaupinu – og þar með hefð.

Hefðbundið dok við skiltið í úthverfi Hólmavíkur. Þarna voru hlaupararnir orðnir 16 eða þar um bil – og líklega 4 á hjólum. (Ljósmynd: Kristín Steingrímsdóttir (ef ég man rétt)).

Endaspretturinn
Frá skiltinu góða að hafnarvoginni á Hólmavík er rétt um 1 km. Þann spöl er gaman að hlaupa með svona hamingjusömum hópi, og ekki minnkaði hamingjan þegar við nálguðumst hátíðarsvæðið. Þar höfðu hátíðargestir myndað undurfalleg hamingjugöng undir dyggri stjórn Arnars hamingjustjóra. Gunnlaugur Júlíusson ofurhlaupari Íslands nr. 1, sem víða hefur farið, hafði orð á því eftir Hamingjuhlaupið í fyrra að hann hefði „aldrei lokið hlaupi þar sem jafn mikill fjöldi fólks fagnar hlaupurum að leiðarlokum“. Nú var fólkið jafnvel enn fleira og hamingjugöngin enn tilkomumeiri.

Hlaupararnir komnir inn í Hamingjugöngin. (Ljósm.: Strandabyggð – Ingibjörg Valgeirsdóttir / Jónas Gylfason)

Móttökur og tertur
Endasprettinum lauk uppi á sviðinu á hátíðarsvæðinu. Þar hyllti mannfjöldinn hlauparana, og við sama tækifæri voru afhent verðlaun fyrir fallegustu, bestu og skemmtilegustu hnallþórurnar á hinu árlega hnallþóruhlaðborði framan við sviðið. Ef þessi hnallþóruhlaðborð eru ekki skráð í Heimsmetabók Guinness, þá eru það annað hvort mistök eða gleymska. Allar þessar móttökur voru í einu orði sagt stórkostlegar. Athöfninni lauk svo með því að ég fékk að vanda að skera fyrstu sneiðina af fyrstu hnallþórunni.

Alsæll með fyrstu sneiðina af fyrstu Hamingjutertunni. (Ljósm: Jón H. Halldórsson)

Lokaorð
Hólmvíkingum, með Arnar Snæberg Jónsson í broddi fylkingar, hefur svo sannarlega tekist að gefa þessari árlegu bæjarhátíð sinni yfirbragð gleði og hamingju. Ég er einstaklega þakklátur fyrir að hafa fengið að gera Hamingjuhlaupið að hluta af þessari gleði. Hlaupararnir og fólkið sem var saman komið á Klifstúninu voru mér sönnun þess að þetta uppátæki er mikið meira en fyrirhafnarinnar virði. Hlaupið er komið til að vera. Næsta ár verður aftur hlaupið frá Trékyllisvík, og þá munu rætast enn fleiri draumar enn fleira fólks.

Fjallvegahlaup 2012

Nú er löngu kominn tími til að kunngjöra fjallvegahlaupaáætlun ársins 2012. Reyndar sendi ég hana út á fjallvegahlaupapóstlistann minn fyrir allnokkru síðan, en hér birtist hún almenningi í fyrsta sinn. Ég geri fastlega ráð fyrir að þjóðin hafi beðið í ofvæni eftir þessu!
 
1. Kerlingaskarð í maí (Fjallvegahlaup nr. 25)
Kerlingaskarð á Snæfellsnesi verður fyrsta fjallvegahlaup sumarsins. Ég er enn ekki búinn að ákveða dagsetninguna endanlega, en líklega verður þetta seint í mánuðinum. Miðvikudagurinn 23. maí og laugardagurinn 26. maí hafa verið nefndir í þessu sambandi, en enn er allt galopið hvað þetta varðar – og allar ábendingar vel þegnar. Yfirleitt set ég fjallvegahlaupin á helgar, en vegna staðsetningar sinnar og hóflegrar vegalengdar er svo sem vel hægt að hlaupa Kerlingaskarð síðdegis á virkum degi. Þetta eru líklega um 17 km á aflögðum bílvegi, sem fer mest í 311 m hæð. Ég á eftir að ákveða hvort hlaupið verður til norðurs eða suðurs. Kannski er upplagt að hlaupa til norðurs og enda daginn á málsverði í Stykkishólmi. Þigg allar tillögur um þetta með þökkum.

2. Þrístrendingur, laugard. 23. júní
Nú verður Þrístrendingur hlaupinn í þriðja sinn – og sem fyrr lagt upp frá Kleifum í Gilsfirði. Þeir sem telja sig hægfara leggja væntanlega af stað kl. 10:30 árdegis, en þeir sem telja sig hraðskreiðari fara kl. 11:00. Frá Kleifum verður hlaupið norður Steinadalsheiði að Stóra-Fjarðarhorni við botn Kollafjarðar á Ströndum. Þangað eru um 19 km frá Kleifum. Við Stóra-Fjarðarhorn verður hópurinn sameinaður á ný og síðan hlaupið yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf og loks þaðan suður Krossárdal að Kleifum. Leiðin öll er rúmir 40 km, og á henni eru þrír fjallvegir. Þetta er samt ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu mínu, því að þessar leiðir hef ég allar farið áður. En þetta er upplagt æfinga- og skemmtihlaup í góðum félagsskap. Í fyrra fóru 16 manns alla leið og 7 til viðbótar einn eða tvo leggi af þremur. Hægt er að fræðast meira um þetta tiltæki og lesa ferðasöguna frá því í fyrra og í hitteðfyrra í samtímaheimildum. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag hlaupsins á sumri komanda verða birtar fljótlega.

3. Hamingjuhlaupið, laugard. 30. júní
Nú verður Hamingjuhlaupið þreytt í 4. sinn, en þar er ekki keppt við tímann heldur er keppst við að auka hamingju þátttakenda, svo og þeirra sem bíða eftir því að þeir skeri fyrstu sneiðina af tertunum á hinu heimsfræga hnallþóruhlaðborði Hamingjudaga á Hólmavík. Reyndar er ekki búið að ákveða fyrirkomulagið á tertuskurðinum, en hlaupaleiðin er löngu ákveðin, eins og sjá má á heimasíðu Hamingjudaganna. Hamingjuhlaupið hefst að þessu sinni við Árnes í Trékyllisvík að morgni dags. Hlaupið verður um Naustvíkurskörð til Reykjarfjarðar, áfram eftir veginum til Djúpuvíkur, þaðan um Trékyllisheiði að Bólstað við botn Steingrímsfjarðar og loks eftir veginum síðasta spölinn til Hólmavíkur. Alls eru þetta á að giska 53 km, og líklega verða teknar í þetta 7-8 klst. Drög að tímaáætlun eru komin inn á fyrrnefnda Hamingjudagasíðu. Hægt er að rifja upp hamingjuhlaup fyrri ára með lestri viðeigandi bloggpistla frá 2011, 2010 og 2009. Hamingjuhlaupið er orðið árvisst, en það er svo sem ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu. Nánari upplýsingar um hlaupið verða birtar þegar nær dregur.

4. Laugavegurinn, laugard. 14. júlí
Laugavegurinn er ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu, en ég nefni hann samt hér til þess að ég muni örugglega eftir að hlaupa hann.

5. Snjáfjallahringur, laugard. 28. júlí (Fjallvegir nr. 26, 27 og 28)
Þennan laugardag ætla ég að hlaupa þrjá fjallvegi norðan Ísafjarðardjúps, nánar tiltekið í fyrsta lagi frá Unaðsdal, út Snæfjallaströnd og yfir Snæfjallaheiði til Grunnavíkur (um 29 km), í öðru lagi frá Grunnavík um Staðarheiði inn í Leirufjörð (um 18 km) og í þriðja lagi yfir Dalsheiði úr Leirufirði að Unaðsdal (um 15 km). Samtals er þetta því ágætis dagleið, eða samtals á að giska 62 km. Upplagt er að skella sér í góða útilegu við Dalbæ (rétt hjá Unaðsdal) í tengslum við þetta, en þar er tjaldsvæði og ýmiss önnur þjónusta – og margt að skoða í nágrenninu fyrir fylgdarfólk sem ekki hugnast svona dagleiðir. Snæfjallaheiðin og Staðarheiðin koma mjög við sögu í „Harmi englanna“ eftir Jón Kalman Stefánsson, að vísu undir öðrum nöfnum. Því er mælt með lestri þessarar bókar (og hinna tveggja í þríleik Jóns) áður en hlaupið er af stað.

Lengra er ég ekki kominn í skipulagningunni. Samt inniheldur þessi upptalning bara fjóra nýja fjallvegi. Þyrfti helst að ná tveimur í viðbót til að komast upp í 30 samtals. Allar tillögur eru vel þegnar! Á svo sem slatta af hugmyndum á fjallvegahlaupasíðunni minni. Þetta er bara spurning um val (af þeim lista eða öðrum) og hentugar tímasetningar.

Öllum er velkomið að taka þátt í þessu tómstundagamni með mér. Í fjallvegahlaupunum er engin keppni, engin tímataka (umfram það sem hver og einn ákveður fyrir sjálfan sig), engin þátttökugjöld, engar drykkjarstöðvar nema í ám og lækjum, engin öryggisgæsla – og bara yfirleitt ekkert nema góður félagsskapur og íslensk náttúra. Og þeir sem slást í hópinn gera það alfarið á eigin ábyrgð.

Heimasíða fjallvegahlaupaverkefnisins er www.fjallvegahlaup.is.

Þarna lauk fjallvegahlaupum síðasta árs, í Finnafirði, að loknu hlaupi nr. 24.